Leita í fréttum mbl.is

Ljóð án lags

Steinn Steinarr hafði ótrúlegt vald á skáldmálinu og djúpan skilning á því hvernig yrkja átti alþýðuljóð sem jafnframt höfðuðu til þeirra sem djúpvitrari þóttust vera. Var mér mikil fyrirmynd þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á skáldabraut þegar ég var 14 ára. Margar tilfinningar hafa brunnið í brjósti mínu undanfarna daga og ef til vill lýsir þetta ljóð ágætlega hugarástandi landans í dag. Finnst sem fólk ráfi um í einskonar losti og virðist hafa týnt raust sinni og þeirri gæfu að vita að við getum öll haft áhrif á gang mála ef við stöndum saman, ekki til að hlusta á gleðibankann, heldur til að sýna í verki að okkur er nóg boðið. Ég hvet alla til að líta inn á bloggið hennar Láru Hönnu en þar kemur fram að á meðan þjóðinni blæðir sitja þeir enn að kjötkötlunum sem tóku þátt í braskinu, nú í boði ríkisstjórnarinnar. Tími til að finna röddina innra með okkur og láta almennilega í okkur heyra.

Setti síðan lagið við Ljóð án lags eftir Bergþóru Árnadóttur í tónhlöðuna, njótið vel.

Ljóð án lags
Ljóð: Steinn Steinarr


Ég reyndi að syngja
en rödd mín var stirð og hás,
eins og ryðgað járn
væri sorfið með ónýtri þjöl.
Og ég reyndi á ný,
og ég grét og ég bað eins og barn.

Og brjóst mitt var fullt af söng,
en hann heyrðist ekki.
Og brjóst mitt titraði
af brimgný æðandi tóna,
og blóð mitt ólgaði og svall
undir hljómfalli lagsins.
Það var söngur hins þjáða,
hins sjúka, hins vitfirrta lífs
í sótthita dagsins,
en þið heyrðuð það ekki.

 


mbl.is Hvað sagði Davíð?
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

SNÚUM BÖKUM SAMAN!

Hvatning til allra

Það ástand sem hefur skapast í þjóðfélaginu er hreint út sagt skelfilegt. Og
það á eftir að versna. Þeir ráðamenn sem sitja að völdum hafa sýnt að þeir
eru ekki vanda sínum vaxnir. Við viljum þá burt og betur menntað og
ábyrgðarfyllra fólk til að taka við.

Mótmæli verða hér eftir á Austurvelli daglega klukkan 12.00 á hádegi.
Þau byrjuðu í dag, laugardag 11. október. Hér með er skorað á fólk að láta
stjórnmálaskoðanir, eineltisaðferðir og ofbeldi í allri mynd, lönd og leið
og sameinast og mótmæla ríkjandi ástandi.

Krafist er þess að Seðlabankastjórn segi umsvifalaust af sér, eða verði
leyst frá störfum. Hún er rúin öllu trausti hérlendis og erlendis.

SNÚUM BÖKUM SAMAN! Hittumst og ræðum málin. FJÖLMENNUM!
mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsvíg í kreppu

Nú heyrir maður að fólk hafi tekið sitt eigið líf út af þessum sérkennilegu tímum sem við búum við. Aðstandendur þeirra eru fremja sjálfsvíg er týndur hópur í samfélaginu okkar og fá lítinn stuðning. Enn er alið á mikilli skömm varðandi sjálfsvíg. Það auðveldar ekki sorgarferlið fyrir þá sem missa ástvini sína á þann hátt.

Ég hef í gegnum tíðina talað við ýmsa aðila í heilbrigðisgeiranum og lagt til að aðstandendum sjálfsvíga verði veitt einskonar fagleg áfallahjálp. Fólk sem lendir í því að missa ástvini á þennan hátt er alveg jafn lamað og aðrir sem lenda í áföllum. Ég stakk líka upp á því að útbúinn yrði bæklingur með upplýsingum um hvert fólk gæti leitað. Ég hef ekki séð neitt slíkt framkvæmt ennþá. Legg til að þeir sem vinna að geðheilsu landsins geri nú eitthvað í þessu. Því án efa munu fleiri en áður falla í valinn á þennan hátt og afar mikilvægt að styðja við bakið á þeim fjölskyldum sem eiga sárt um að binda ekki aðeins út af fjárhagskrísu heldur bætist það ofan á að upplifa sektarkennd og skömm sem oft tengist sjálfsvígum aðstandenda.


mbl.is Mikilvægt að sofa nóg á tímum sem þessum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð út, Ragnar inn

Hvet fólk til að horfa á viðtal við Ragnar í Silfri Egils í dag. Þetta er maður sem ég ber traust til, enda greinilega með almennilega jarðtengingu. Er ekki hægt að virkja hann, skora á Björgvin og Geir að njóta ráðgjafar hans áður en fleiri mistök eiga sér stað. Held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir þeim hættum sem enn steðja að. Það á að skipta Davíð út fyrir Ragnar, strax í dag.

Tek það fram að ég þekki Ragnar ekki neitt og veit ekki einu sinni hvaða pólitísku stefnu hann fylgir en það er greinilegt að hann hefur 100% betri yfirsýn og þekkingu en sá sem stendur í stafni Seðlabankans. 


mbl.is Ragnar: Ríkið stendur ekki undir skuldbindingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturhvarf

Var búin að lofa því að deila með ykkur ljóðum og tónlist á þessum sérkennilegu tímum... fannst þetta ljóð Steins við lag Bergþóru Árnadóttur eiga vel við gjörningaveðrið á flokksráðsfundi þeirra "sjálfstæðu". Lagið má finna í fluttningi Pálma Gunnars í tónhlöðunni.

Ljóð: Steinn Steinarr

Ó, græna jörð, ó, mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.


Ég viðurkenni mína synd og sekt:
ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns
og elti vafurloga heimsku og hjóms
um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.


Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!


mbl.is Tár felld á flokksráðsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirmæli Íslands

 
Þetta gætu verið eftirmæli um hina íslenzku þjóð! 
 
EFTIRMÆLI
Ljóð: Steinn Steinarr
Lag: Bergþóra Árnadóttir

Þú varst bæði auralaus og illa klæddur maður,
með afar stóra fætur og raunalegar hendur.
Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum sem slíkur,
og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.

Og sjaldan heyrðist talað um sálargáfur þínar,
og sennilegt þær hafi frekar lítinn ávöxt borið.
Þú þekktir hvorki leyndardóma þessa heims ná annars.
Og það var ekki meira en svo að þú kynnir Faðirvorið.

Þú reyndir samt að bjarga þér. Og fékkst á yngri árum
við arðberandi fiskirí í Grindavík og Leiru.
En svo var eins og lukkan hefði lagt sig ögn til hliðar,
það lögðust á þig veikindi og skuldir, ásamt fleiru.

Þú áttir jafnvel stundum býsna örðugt með að lifa
og ennfremur var tóbaksleysið kunnugt heima hjá þér.
Og giktin, sem er launráð og lymskufull í skapi,
hún lagðist oft svo herfilega þungt í bakið á þér.

Þú kyntir stundum miðstöð fyrir kaupmanninn og prestinn,
og kaupið þitt var hærra en þér bar, að réttu lagi,
það var samt lítill vafi, að þig langaði í meira.
Þú lézt þér jafnvel sæma að kvarta um eigin hagi.

Það sást þó bezt í vetur, er þú týndir tóbaksbauknum
og tíkin komst í grautinn, sem læknisfrúin gaf þér,
hve hugur þinn var bundinn við heimsins lystisemdir,
og hörmulega lítils við gátum vonazt af þér.

Þú gerðist oft svo djarfur, að tala um toll á kaffi
og taldir þetta glæpsamlegt af stjórnarherrum landsins,
en slíkt er ekki ráðlegt fyrir ræfla af þínu tagi,
og reynist jafnvel skaðlegt fyrir trúargleði mannsins.

Þér hlotnuðust þó molarnir af höfðingjanna borðum,
en hamingjan má vita hvort þú skildir miskunn slíka,
og hvort þú hefir lifað samkvæmt lögmáli vors herra,
sem lætur þorskinn veiðast fyrir fátæka sem ríka.

En loksins ertu dauður, þú lítilsigldi maður,
og laun þín eru náttúrlega sanngjörn eins og hinna.
Við ætlum hvorki að forsmá þig né fella þunga dóma.
Þér fylgir inn í eilífðina kveðja bræðra þinna. 


Ljóð inn í svartnættið

lovers.jpgÆtla að halda uppteknum hætti og bjóða upp á ljóð og lög - aðallega lög eftir móður mína heitna Bergþóru Árnadóttur á þessum miklu umbreytingatímum. 

Ég mæli með því að gera eitthvað fallegt - þó ekki sé nema eitt lítið bros gagnvart einhverjum sem þú þekkir ekki neitt. Hér er mikil spenna og reiði í lofti. Skiljanlega. En við gerum bara illt verra ef við festumst í vef reiðar. Hefndar. Efnahagsfárviðrið mun ganga yfir. Það er ekkert annað að gera en að byrja upp á nýtt vonandi með einhvern lærdóm að leiðarljósi.

 

 

 

Álagaskógur

 

Við læddumst inn í skóginn

Skárum nöfnin okkar
í voldugasta tréð
um niðdimma nótt

Sáum ekki
morknaðar ræturnar
að greinarnar hófu sig
ekki mót himni,
heldur héngu niðurlútar

Við skárum und í lófa
Blönduðum blóði
sem varð að þunnri húð.
Storknaði í sári trésins.

Blinduð í glýju heitstrenginga
byggðum við fallegar draumaborgir
úr efniviði hverfulleikans

Þegar þeir hrundu
vaknaði skógurinn

Álfadrottningin kom til mín í draumvöku
með rúnum ristan hring
smeygði honum
á vísifingur minn

Augun brostu breytingum.


Mótmælafundur fyrir framan Seðlabankann í hádeginu í dag

Var beðin um að koma þessu á framfæri:

Við krefjumst þess að Seðlabankastjórar segi af sér á stundinni. Nú er nóg komið!

Safnast verður saman við styttuna af Ingólfi Arnarssyni kl. 12, þann 10. október og rölt yfir að torginu fyrir framan Seðlabankann. Njallinn verður sunginn og gjallarhorn til staðar fyrir þá sem taka vilja til máls.

Sá þetta inn á RÚV vefnum rétt í þessu:

Fréttatilkynning Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur

Reykjavík, 9. október 2008

Undanfarin ár, mánuði, vikur og daga hafa verið gerð alvarleg mistök í hagstjórn Íslands og stjórn fjármálakerfisins. Seðlabanki Íslands ber mikla ábyrgð á þeim mistökum. Nú er svo komið að íslenska hagkerfið er að hruni komið og munum við Íslendingar þurfa að byggja það upp á komandi árum og færa gríðarlegar fórnir.

Til að sem bestur friður náist um það uppbyggingarstarf sem framundan er tel ég mikilvægt að sátt ríki meðal þjóðarinnar um stjórn Seðlabankans. Það er mitt álit að til að svo geti orðið verði að skipta um bankastjórn í Seðlabanka Íslands. Ég hvet því bankastjóra Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson, til að axla sína ábyrgð á mistökunum og segja af sér nú þegar. Sjálf mun ég tilkynna forseta Alþingis afsögn mína úr bankaráði Seðlabanka Íslands þegar í kvöld. Ég bið þjóðina afsökunar á því að hafa ekki axlað mína ábyrgð fyrr.

Virðingarfyllst

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Hagfræðingur

 


mbl.is Talar ekki um Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælafundur fyrir framan Seðlabankann í hádeginu í dag

Var beðin um að koma þessu á framfæri:

 Við krefjumst þess að Seðlabankastjórar segi af sér á stundinni. Nú er nóg komið!

Safnast verður saman við styttuna af Ingólfi Arnarssyni kl. 12, þann 10. október og rölt yfir að torginu fyrir framan Seðlabankann. Njallinn verður sunginn og gjallarhorn til staðar fyrir þá sem taka vilja til máls.


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefnu tilefni

god.jpgNú virðast margir vera uppteknir að því að benda á sökudólga. Margir eiga um sárt að binda. Hef heyrt um að nú þegar hafi nokkrir einstaklingar fallið í kreppuvalinn og gjaldið með lífi sínu.

Ég ætla ekki að taka þátt í þessum bölmóð og reiði, lærði eitt sinn að hægt sé að breyta eitri í meðal með hugarorkunni einni saman. Öll þessi reiði beinist yfirleitt að okkur sjálfum, því þeir sem við reiðumst eru ekki einu sinni meðvitaðir um reiði okkar. 

Ég ætla að nota tækifærið og deila með ykkur ljóðum og tónlist á þessum víðsjárverðu tímum ... því ljóðið hefur bjargað mér oftar en einu sinni og það hefur tónlistin gert líka.

Fyrsta ljóðið sem ég ætla að deila með ykkur heitir, "Aldrei gefast upp" og er byggt á skilaboðum Dalai Lama fyrir allmörgum árum til skáldsins Ron Whitehead, sem hann færði í ljóðabúning. Ég þýddi þetta í snarhasti þegar Ron var hér á landi í sumar og við lásum það saman á ensku og íslensku fyrir utan kínverska sendiráðið. Mér finnst þetta ljóð eiga vel við og beini ég því til þjóðarinnar allrar:)

Aldrei gefast upp
sama hvað gerist
Aldrei gefast upp

Ræktaðu hjarta þitt

Of mikilli orku er eytt
í að rækta hugann
í stað hjartans
í heiminum

Ræktaðu hjarta þitt
Sýndu umhyggju
ekki aðeins gagnvart
vinum þínum
heldur gagnvart öllum

Sýndu umhyggju
Stuðlaðu að friði
í hjarta þínu og
um heimsbyggð alla
Stuðlaðu að friði

Og ég endurtek
Aldrei gefast upp
Sama hvað er í gangi
Sama hvað gerist
í kringum þig

Aldrei gefast upp 

e. HH Dalai Lama og Ron Whitehead


mbl.is Um 500 missa vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu krónunnar

Fékk þessa mynd í póstinum áðan:)Ætla að einbeita mér að því að muna hvað skiptir máli á þessu síðustu og skringilegustu tímum. Mamma sagði alltaf: "fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott."

 

minning.jpg

 


mbl.is Evran dýr hjá kortafyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NÝTT: Glitnismyndband úr smiðju Jóns Jónssonar

Sömu aðilar og gerðu hin stórsnjöllu FL Group myndbönd færa okkur Glitni 1
Verð að viðurkenna að samúð mín gagnvart gulldrengjunum fer æ þverrandi
 

mbl.is Hvetur hluthafa Glitnis til að samþykkja tilboð ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipþungi á alþingi í gærkvöldi

Ég ákvað að drífa mig á þingpalla í gærkvöld. Við vorum ansi fá. Ég var eina kvendið þarna í þennan rúma klukkutíma sem ég var þar. Það sem landsmenn sáu ekki var vonleysissvipurinn sem var á andliti Geirs allan tíman sem ég sat þarna. Það sama má segja um flesta sem ég hafði í sjónlínu. Ég verð að viðurkenna að ég vorkenndi þeim svolítið og fór eiginlega að kyrja fyrir þeim í huga mér.

Ég vildi að ég hefði haft myndavélina mína með - þá hefði ég tekið örstutta kvikmynd fyrir ykkur til að sýna ykkur stemmninguna. Ég hef reyndar alltaf séð einskonar ofvaxið barn í Geir H. Haarde. Finnst það næsta furðulegt að hann sé í svo valdamikilli stöðu og kunni þó ekkert með vald að fara. 

Ég held að það fólk sem veljist inn á þing sé einskonar sneiðmynd af þjóðinni. Það eru ekki bara ráðamenn og ríkimenn og græðgimenn sem hafa misst sig í neyslu. Þjóðin hlýtur að bera einhverja ábyrgð á þessari stöðu. Það var búið að vara fólk við fyrir margt löngu. Hvaðan fékk fólk þá hugmynd að bönkunum standi ekki nákvæmlega sama um það. 

1. Bankarnir fara í samkeppni við íbúðalánasjóð, bjóða betri vexti og 100% lán.

2. Húsnæðisverð margfaldast á Höfuðborgarsvæðinu á stuttum tíma.

3. Almenningur hélt að það væri að græða út af því að það fékk helmingi meira verð fyrir húsnæðið sitt og virðist halda að það gæti notað svigrúmið sem 100% lán gaf þeim til að kaupa meira í stað þess að borga niður yfirdráttinn. 

4. Almenningur virtist gleyma að helmingi dýrara húsnæði kallar á helmingi hærri fasteignaskatta.

5. Almenningur ákveður að nota tækifærið og fá sér myntkörfulán til að auka frekar á neysluna í stað þess að halda að sér höndunum. 

6. Er almenningur ekki fær um að reikna einföld reikningsdæmi? Ef hús kostaði 10 millur í gær en 20 millur í dag, þá er alveg sama þó vaxtakjörin séu ofurlítið hagstæðari en hjá íbúðalánasjóði, hlutfallið hlýtur í raunvirði að vera hærra ef húsnæðisverð hefur hækkað svo mikið út af innspýtingu af fé sem í raun og veru var ekki til nema á einhverjum pappírum sem nú reynast verðlausir.

7. Við sýndum óráðshyggju og þurfum að nota tækifærið núna til að endurskoða verðmætamat okkar. Hætta að reyna að eiga meira en við höfum efni á. Pabbi minn heitinn, hann keypti aldrei neitt nema hann ætti innistæðu fyrir því. Hann tók aldrei lán. Þó var hann á sínum tíma maður sem komst upp úr sárustu fátækt í að vera aflakóngur landsins. Við áttum stórt hús og allt það. En fólk eins og pabbi er ekki fólk sem er markaðsvænt. Markaðurinn vill nefnilega blóðmjólka fólk með vöxtum og vaxtavöxtum og dráttarvöxtum. Ef við breytum neysluvenjum okkar og sjáum markaðsöflin fyrir hvað þau eru þá er einhver séns að við komust yfir þetta. 

Það er eiginlega alger geðveiki ef við höldum að við getum haldið áfram á þeirri braut að líta aldrei til framtíðar og veljum alltaf skammtímalausnir.

Svipþunginn á alþingi í gær er endurspeglun á þjóðarsálinni. Við erum flest í greipum óttans og eina leiðin út úr honum er umbreyta þessari bitru og eitruðu reynslu í meðal. Hvert meðalið er, veit ég ekki. Kannski einfaldara líf með minni þörf á ytri gæðum og einbeita sér að raunverulegum lífsgæðum sem finnast ekki í sóun heldur nýtingu og virðingu og þakklæti fyrir því sem við höfum. 

Hvernig væri að prófa að sýna öðru fólki nærgætni og umhyggju, eitt bros getur hrundið af stað keðjuverkun jákvæðni í þessum umrótartímum. Þetta er ekki tími til að fara í paník og taka ákvarðanir byggðar á því.


mbl.is Íhuguðu að slíta stjórnarsamstarfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmennum á þingpalla

Mótmælum ráðaleysi forsætisráðherra, mætum á þingpalla klukkan 19:50 í kvöld.

Við verðum að sýna í verki að okkur er algerlega nóg boðið. Ég trúi því ekki að þjóðin ætli að láta þetta ganga yfir sig þegjandi og hljóðalaust.

Sá á visir.is að Bubbi sé búinn að boða til mótmæla næstkomandi miðvikudag:

"Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens er búinn að fá nóg af efnahagsástandinu og slæmri stöðu krónunnar. Í dag sendi hann frá sér tilkynningu þar sem hann boðar til mótmæla við Austurvöll í hádeginu á miðvikudaginn í næstu viku.

"Er ekki komið nóg? Hvernig væri að fara niður á Austurvöll og láta ráðamenn vita að við viljum það eitthvað sé gert.

"Eða eigum við að láta krónuna og ráðamenn leiða okkur sem lömb til slátrunar?", spyr Bubbi.

Hann fullyrðir að þúsundir Íslendinga verði gjaldþrota ef ekkert verði gert. Hann segist því ætla að standa fyrir mótmælum.

"Ég tek með mér hljómsveit og við spilum. Þeir mæta bara sem mæta.""

Tekið af visir.is

 


mbl.is Úrvalsvísitalan lækkar mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband