Leita í fréttum mbl.is

Siðferðisleg togstreita friðarsinna

Þetta ár hefur verið markað sögulegum viðburðum í Miðausturlöndum og í Norður Afríku. Almenningur hefur boðið valhöfum byrgin og í sumum tilfellum náð fram lýðræðisumbótum sem fáir hefðu trúað að væru mögulegir fyrir nokkrum mánuðum síðan.


unknown.jpg

Bylgja mótmæla og umbyltinga undanfarna mánuði hefur hrakið hvern einræðisherrann af öðrum frá völdum og ákall ungs fólks eftir breytingum hefur smitað frá sér von um heim allan að hægt sé að umbylta óréttlæti og kúgun með samstöðu almennra borgara.


Viðbrögð yfirvalda við mótmælabylgjunni hafa verið margþætt, í Egyptalandi og víðar var aðgangi almennings að netinu og farsímanetum lokað. Yfirvöld hafa beitt hermönnum og sérsveitum gegn samborgurum sínum. Slík valdbeiting hefur þó yfirleitt orðið til þess að fleira fólk ákvað að streyma út á götur og á endanum hafa yfirvöld séð að slík aðferðafræði gæti aðeins leitt til fullkominnar upplausnar ef ekki yrði við kalli mótmælenda.


Í Líbýu, Jemen, Sýrlandi og Bahrain hafa valdsjúkir menn þó ekki skilið að þeirra tími er uppurinn og beiting hervalds gegn almennum borgurum sé aðeins leið til glötunar en ekki sigurs til langtíma litið.


Ég hef hlustað á ákall margra þjóðarbrota og hópa um að alþjóðasamfélagið beiti sér til að bjarga þeim frá slátrun eða hægfara þjóðarmorði og kallað eftir því að alþjóðasamfélagið bregðist við. Ég hef fylgst náið með ástandinu í Líbýu í gegnu

gadhafi-militia-open-fire-amid-libya-protests-2011-02-25_l.jpg

m tengslanet mitt á Twitter, hlustað á fréttir hjá BBC og horft á Al Jazeera. Fyrir u.þ.b. viku síðan heyrði ég átakalegt ákall frá fólkinu í borginni Bengasi en hún er undir stjórn mótmælenda í Líbýu. Gaddafi hafði í hótunum í þarlendum fjölmiðlum að fara um borgina með herliði sínu og flæma svikara út úr húsum sínum sem höfðu mótmælt honum og kremja fólkið eins og kakkalakka. Ég sá fyrir mér skelfileg fjöldamorð á almennum borgurum. Fólkið í borginni kallaði eftir loftferðabanni og ég í einfeldni minni lét eftirfarandi haft eftir mér í ræðustól alþingis í utandagskrárumræðum við Utanríkisráðherra: “Ég var að horfa á Al Jazeera í gærkvöldi og hlusta á símtal við fólk í borginni Bengasi þar sem það kallaði eftir því að það yrði sett á loftferðabann. Ég sá í morgun að það stefnir í að það verði fjöldamorð í Bengasi á næstu dögum, innan 36 tíma. Hvað gerir maður þá ef maður er friðarsinni? Ég verð að viðurkenna að ég er í mikilli flækju með þetta mál, mér finnst þetta ekki sambærilegt við Írak, mér finnst það sem er að gerast núna í Norður-Afríku, Líbýu og Bahrain og fleiri löndum, vera allt annars eðlis. Þetta snýst ekki um trúarbragðastríð, heldur almenna borgara sem eru búnir að fá nóg af kúguninni. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að það sé mjög mikilvægt að þetta fari undir hatt Sameinuðu þjóðanna, þ.e.a.s. næstu skref og aðgerðir. Ég verð að segja að ég styð loftferðabann eftir að hafa hlustað á almenning í Líbýu kalla eftir aðgerðum.

Þá megum við líka beina sjónum okkar að öðrum löndum eins og Bahrain. Ég horfði á myndband rétt í þessu sem er á netinu þar sem ég horfði upp á að vopnlaus maður var skotinn beint í hausinn af lögreglunni frá Sádi-Arabíu og ég krefst þess að Íslendingar skori á aðra á alþjóðavettvangi að slíta öllum stjórnmálasamskiptum við Sádi-Arabíu sem sendi herinn sinn inn í Bahrain til að slátra almennum borgurum, við eigum skilyrðislaust bæði að slíta, ef við höfum stjórnmálasamband við þessa þjóð, og hvetja Bandaríkjamenn og Evrópusambandið til að slíta samstundis öllum samskiptum við Sádi-Araba."


Síðan gerist það að á skömmum tíma kemst öryggisráðið að þeirri niðurstöðu að það ætli að verða við bæði ákalli borgaranna í Bengasi sem og Arababandalagsins um loftferðabann. Ég horfði á beina útsendingu Al Jazeera þegar ályktunin var lesin upp og að mér setti óendanlegri djúpstæðri sorg, sorg sem þó var kæfð að einhverju leiti því á sama skjá mátti sjá mikinn fögnuð fólksins í Bengasi sem trúði því að háski sá sem hafði færst óðum nær var ei meir. En sorgin situr enn í mér því strax á fyrsta degi tilrauna til að verja lofthelgina varð ljóst að ekki væri hægt að verja loftið flugumferð stríðstóla nema að beita sömu tólum.


Ég hef jafnframt séð að verið er að selja heimbyggðinni réttlætingu á miklu meiri hernaði en flest okkur sem vildum bregðast við ákalli mótmælenda í Líbýu vildum trúa að væri þörf á. Ég vildi trúa því að hægt væri að mynda verndarhjúp um borgina Bengasi án þess að stofna almenningi í hættu en auðvitað er það draumsýn ein og dæmigerð viðbrögð við aðsteðjandi vá.


En ég verð að spyrja mig í fullkominni vægðarlausri hreinskilni hvað hefði verið hægt annað að gera til að varna því að þessu fólki yrði slátrað og ég verð að viðurkenna að ég hef fátt um svör og þeir friðarsinnar sem ég hef talað við hafa jafnframt fátt um svör. Og hvað ef ekkert hefði verið að gert? Hefði ég þá getað réttlætt fyrir mér að þessu fólki hefði verið fórnað vegna þess að hernaðaríhlutun er ekki réttlætanleg? Hefði ég þá fordæmt alþjóðasamfélagið fyrir að gera ekki neitt til að stoppa blóðbaðið? Sennilega, ég hef fordæmt og fyllst hrylling á því hvernig farið hefur verið með almenning í Palestínu, Tíbet, Rúanda, Kongó, Fílabeinsströndinni, Búrma, Sýrlandi, Bahrain og hvernig alþjóðasamfélagið hefur hunsað ákall þeirra um tafarlausa hjálp. Í fyrradag heyrði ég viðtal við konu frá Fílabeinsströndinni þar sem hún hafði orðið vitni af því að sjö konur sem mótmæltu forseta sem stal völdum voru myrtar og hún spurði, “hefur heimurinn gleymt okkur?” Þar hefur fólkið kallað eftir aðstoð en enga fengið.


Það sem hefur gengið á, eftir að ákveðið var að setja á loftferðabann í Líbýu eru miklu viðameiri aðgerðir en ég hélt að fólkið í Líbýu væri að kalla eftir og ljóst er að ég get ekki stutt misnotkun á heimild öryggisráðsins eins og raun ber vitni um. Ég lýsi því harðri andstöðu við frekari íhlutun og kalla eftir alvöru umfjöllun um málið á þinginu. Ég vil þó taka það fram að afstaða utanríkisráðherra hefur verið skýr í umræðum á þinginu og það er að sjálfsögðu þingsins að kalla eftir því hvort að ríkisstjórnin gjörvöll fylgi honum að máli.


Ég bað um umræðu og fund með utanríkismálaráðherra síðastliðinn föstudag til að fara yfir stöðu mála því samkvæmt því sem Össur tjáði mér byggt á heimildum sem hann hafði aðgang að er vopnabúr Gaddafi og hans stuðningsmanna fornt og ekki til mikilla afreka andspænis hátækni morðtólum bandalagsríkja hins vestræna heims. Formanni nefndarinnar Árni Þór Sigurðarsyni ásamt öðrum nefndarmönnum þótti ekki tilefni til að fá utanríkisráðherra á fund nefndarinnar sem mér þótti miður. Í gær miðvikudaginn 23. mars var haldinn fundur á hefðbundnum fastatíma hjá utanríkismálanefnd og var þar fenginn starfsmaður ráðuneytisins til þess að fara yfir málin ekki bara í Líbýu heldur á gjörvöllu svæðinu en engin málefnaleg umræða um afstöðu nefndarinnar á málinu né framhald á því. Ég lagði til í lok fundarins eftir að ákveðið var að taka málefni Líbýu af dagskrá því það var eingöngu samræður á milli mín og fulltrúans úr ráðuneytinu, að fenginn yrði fulltrúi frá SHA, tilnefndur frá þeirra hönd var Sverrir Jakobsson og kom ég þeim skilaboðum áleiðis. Ég hef enn ekki fengið fundarboð og geri ekki ráð fyrir að hann verði kallaður fyrir nefndina fyrr en í næstu viku á hefðbundnum fundartíma.


Mér finnst ómögulegt að hafa þetta í lausu lofti og mun halda áfram að freista þess að fá fund fyrr, taka má fram að helmingur nefndarinnar situr fund á morgun föstudaginn 25. mars til að fara yfir ESB umsóknarferlið og þykir mér ærið tilefni að kalla alla nefndina saman til að kanna hvort að það sé vilji til þess að senda yfirlýsingu af einhverju tagi eða semja ályktun þar sem hægt væri kanna stuðning þingsins við áframhaldandi hernað í Líbýu. Nató mun vera ræst út og vegna aðildar okkar að því bandalagi finnst mér brýnt að þingið leggi á sig smá vinnu til að koma áleiðis skýrum skilaboðum um hver stefna rauðgrænu ríkisstjórnarinnar er sem og annarra þingmanna.


Ég studdi upprunalega að verða við kalli almennings í Bengasi um flugbann ef öryggisráðið samþykkti það, eins og komið hefur fram var það mér þungbær ákvörðun og eftir að sjá framvindu mála undanfarna daga þá hef ég alfarið horfið frá stuðningi mínum.


Ég óska eftir alvöru umræðu um málið í þinginu og að það álykti hvort að það sé með eða á móti áframhaldandi hernaðaraðgerðum í Líbýu.


Mér skilst að t.d. þing Spánverja hafi gefið leyfi fyrir þátttöku landsins í að framfylgja flugbanni í mánuð, þannig að ljóst er að í það minnsta var fjallað um málefnið á spænska þinginu og greidd atkvæði um stuðning við aðgerðirnar.


Það er nauðsynlegt að málið fái lýðræðislegri meðferð í þinginu til þess að þingmenn viti hvaða rök liggi að baki ákvörðun um stuðning við flugbann ef slíkur stuðningur er með sanni ályktun ríkisstjórnarinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Takk fyrir góðan pistil.

Af hverju ekki að senda herlið inn í landið frekar en að varpa sprengjum og skjóta eldflaugum? Er ekki minni hætta á að fjöldi óbreyttra borgar liggi í valnum þannig? Kostar náttúrulega að einhverjir hermenn bandamanna falla frekar en þegar dritað er sprengjum úr lotfti á borgir og bæi, en er einhvernvegin ærlegra finnst mér samt. Þegar gengið er í her er maður að fara í mjög hættulega vinnu sem getur kostað mann lífið.

Georg P Sveinbjörnsson, 26.3.2011 kl. 01:57

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skil þig ég er bæði sorgmædd og glöð yfir þessu. Veit ekki hvernig er öðruvísi hægt að bjarga almenningi undan þessum villimönnum sem hafa völdin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.3.2011 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 508726

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband