Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ánægjulegar fréttir

Ég er mjög ánægð með núverandi ráðhafa að hafa ráðið þessa frábæru konu til að vinna í mesta réttlætismáli sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir - að fólk axli ábyrg á því að velta yfir þjóðina mestu skuldum í sögu landsins sem börn og barnabörn þurfa að bera ef ekkert er að gert.

Ég er ánægð með að núverandi ríkisstjórn hafi gert skurk í að vinna í þessu máli og fengið jafn hæfa manneskju til þess. Segja má að almenningur hafi lagt sitt á vogaskálarnar að þetta yrði að veruleika og sýnir að við skríllinn höfum árhrif ef við sýnum samstöðu og fylgjum málum fast eftir - alla leið inn í stjórnsýsluna. Held að aldrei fyrr hafi verið eins mikið lag fyrir almenning að hafa áhrif - aldrei gleyma því elsku þjóðin mín að þeir sem starfa sem sérstakir fulltrúar inni á þingi eru í vinnu fyrir þjóðina og eru fulltrúar hennar.

Nú eru kosningar framundan og lag að beita þrýstingi og aðhaldi á öllum sviðum.


mbl.is Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin bætir við sig mestu fylgi

Samkvæmt þessari skoðanakönnun bætir Borgarahreyfingin - þjóðin á þing við sig mestu fylgi eða úr 2,5% í 3,4%.

Þetta eru ánægjulegar fréttir fyrir okkur sem erum að vinna að því hörðum höndum að bjóða upp á þennan valkost í komandi kosningum. Ég er sannfærð um að við náum fólki inn - miðað við þann stöðuga meðbyr sem við finnum fyrir úti í samfélaginu - aðalatriðið er að almenningur fái vitneskju um tilvist okkar - ætla að skella hér inn stefnuskránni okkar ef einhver er að lesa bloggið mitt sem ekki þekkir til XO.

 

Réttlæti — siðferði — jafnrétti Basic RGB

Gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja

1. Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2–3% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.

2. Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

3. Boðin verði víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að aðstoða þá í að nýta atvinnuleysið sem tækifæri.

4. Skuldsett fyrirtæki verði boðin til sölu og tilboðum aðeins tekið ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir fyrirtæki. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálfkrafa en veita má hagstæð lán eða breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.

5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á landinu.

6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.

Landsmenn semji sjálfir sína eigin stjórnarskrá

1. Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. Sama skal gilda um þingrof.

2. Bera skal alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

3. Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims.

4. Viðurkenna skal þau sjálfsögðu mannréttindi að vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt, sbr. 1. gr. Mannréttindayfirlýsingar S. Þ., enda sé það í samræmi við hugmyndir um aukið vægi þjóðaratkvæðisgreiðslu um einstök mál. Það er augljóst að ekki gengur að láta suma landsmenn hafa meira vægi en aðra í þjóðaratkvæðagreiðslu.

5. Fjöldi þingmanna miðist við fjölda á kjörskrá og verði hlutfallið 1/4000. Það er í samræmi við algengt hlutfall hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við. Þetta myndi þýða örlitla fækkun þingmanna frá því sem nú er en hægfara fjölgun í framtíðinni með vaxandi fólksfjölda.

6. Kjördæmaskipan verði endurskoðuð og kjördæmum á suðvesturhorninu fækkað úr þremur í eitt.

7. Tryggð verði skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi.

8. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.

9. Fyrstu málsgrein 76. greinar stjórnarskrárinnar verði breytt til samræmis við Mannréttindayfirlýsingu S. Þ. um réttinn til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan. 76. gr. verði á þessa leið eftir breytingu: „Öllum skal tryggður réttur til grunnlífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Grunnlífskjör teljast vera nauðsynleg næring, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“ Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. 10. Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.

Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur

1. Tafarlaust verði sett í gang opinber rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga á hruni íslenska efnahagskerfisins. Samhliða því verði sett lög sem leyfa ógildingu allra fjármálagerninga undanfarinna tveggja ára, þ.m.t. gerninga skilanefnda bankanna, og í undantekningartilfellum lengra aftur í tímann ef sýnt þykir að um óeðlilega gjörninga hafi verið að ræða.

Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla

1. Ráðningar og skipanir í embætti og þ.a.l. uppsagnarfrestur allra embættismanna sé í samræmi við það sem almennt gerist hjá stjórnendum á vinnumarkaði. Nánari útfærsla verður gerð í samráði við Kjararáð.

2. Tiltekinn minnihluti þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.

3. Hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara verði metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu Hæstaréttar. Ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.

4. Ráðið verði í stöður innan stjórnsýslunnar á faglegum forsendum.

5. Fastanefndir þingsins verði efldar. Nefndarfundir verði almennt haldnir í heyranda hljóði. Gerð verði krafa um að fastanefndir afgreiði öll mál og skili niðurstöðu innan ákveðins tíma.

6. Settar verði siðarreglur fyrir alþingismenn, ráðherra og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins og til þess ætlast að þeir m.a. geri grein fyrir öllum eignum og skuldum, stjórnarsetu í fyrirtækjum og upplýsi jafnharðan um allar breytingar á þessu sviði. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn beri ábyrgð á gjörðum sínum.

Lýðræðisumbætur STRAX

1. Stjórnlagaþing fólksins í haust

2. Persónukjör í alþingiskosningum

3. Afnema 5% þröskuldinn

4. Þjóðaratkvæðagreiðslur

5. Ný framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og sama stuðning og aðrir stjórnmálaflokkar

Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.


mbl.is VG upp fyrir Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm flóttamenn handteknir í dag

Fimm flóttamenn voru handteknir í dag og verða fluttir nauðugir úr landi í fyrramálið - til Grikklands.  Sameinuðu þjóðirnar og ESB hafa sent út þau skilaboð að senda ekki flóttamenn til baka til Grikklands þar sem aðstaða og meðhöndlun flóttamanna sé ekki mannsæmandi og stríði gegn almennum mannréttindunum.  Er eitthvað sem við getum gert?

Einn af þessum flóttamönnum er rétt um 18 ára gamall og kemur frá Írak... hitti hann þegar hann var nýkominn fyrir nokkrum mánuðum síðan og honum leið ekki vel blessuðum.
Finnst mikilvægt að við munum eftir flóttafólkinu sem hingað kemur - margir íslendingar tala um að flýja Ísland - þá má með sanni kalla okkur efnahagslega flóttamenn - við viljum væntanlega hlýrri móttökur en það fólk sem hingað kemur og býr við vægast sagt ömurlegar aðstæður.


Okkar sjóðir!

Hvet alla til að taka þátt í undirskriftasöfnun Helga Vilhjálmssonar, kenndur við sælgætisgerðina Góu, gegn sukkinu í lífeyrissjóðakerfinu. Helgi fór af stað með herferðina í fyrradag og mun afhenda Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra listann. Nú þegar hafa um 12.000 skrifað undir. Miðað við þessa frétt er ástæða til að þrýsta á að lífeyrissjóðirnir séu nýttir í þágu þeirra sem borguðu í þá.

Hægt er að skrifa undir með því að fara á vefsíða: Okkar sjóðir.

Hér er auglýsingin:
„Forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna er, þrátt fyrir fjórðungslækkun launa, launahæsti forstjóri íslensks lífeyrissjóðs. Starfskjör hans fela einnig í sér bifreiðahlunnindi sem hann að sjálfsögðu nýtir. Á sama tíma þurfa eldri sjóðsfélagar sennilega að horfa upp á skerðingu á lífeyrisréttindum sínum. Eldri
borgurum, 65 ára og eldri, og aðstandendum ofbýður þessi framkoma við fólkið. Hvernig stendur á því að enn eru ákveðnir einstaklingar að sukka með peningana okkar?

Við þökkum fyrir hreinsanirnar í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum en verkinu er ekki lokið. -Það þarf að taka til í lífeyrissjóðunum svo þeir geti gegnt því hlutverki sem þeim er ætlað, að tryggja sjóðsfélögum góð lífskjör á efri árum. Velferð eldri borgara veltur á því að peningarnir þeirra séu notaðir rétt í þeirra þágu. Aldraðir hafa ekki efni á að borga hæstu laun á Íslandi.

Jóhanna, nú hefur þú tækifæri til að standa við orð þín um að velferð aldraðra gangi fyrir. Það er líka spilling í lífeyrissjóðakerfinu, þar þarf að taka til.

Við viljum endurskoðun á lífeyrissjóðakerfinu strax. Það gengur ekki að lífeyrisgreiðslurnar okkar séu notaðar til að borga sukk örfárra einstaklinga í stað þess að þær séu nýttar í okkar þágu. Við höfum fengið nóg.“



mbl.is Lífeyrisréttindi skerðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skora á sjálfstæða sjálfstæðismenn

að kjósa með eftir bestu vitund og samvisku - þessi forræðishyggja sem XD gerir sig sí og æ uppvís að er frekar neyðarleg fyrir frjálshyggjuflokk.

Skora því á ykkur þingmenn sjálfstæðisflokksins að sýna smá hugrekki og kjósa með þessu frumvarpi. Þið hafið ekkert að óttast - þið megið ráða því samkvæmt þessari tillögu hvort þið treystið kjósendum ykkar eða ekki til að velja eftir sinni sannfæringu. Ekki eyðileggja fyrir þeim sem hafa áhuga á að lifa við raunverulegt lýðræði þar sem prófkjörin fara fram í kjörklefanum og hver og einn fær að raða eftir því sem þeim hugnast.


mbl.is Persónukjör ekki lögfest nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er mannanafnanefnd enn til?

Ég hélt að búið væri að leggja niður þessa nefnd. Ég held að fá lýðræðisríki búi við það að þar sé einhver hópur manna sem sé að skipta sér að því hvað fólk kýs að nefna börnin sín.

Eitt sinn þurfti ég að glíma við mannanafnanefnd og vann hana á endanum eftir 8 ára baráttu. Heyrði svo einhvern halda því fullum fetum fram að búið væri að leggja þetta foræðishyggjubatterí niður. Hvað kostar það okkur að fólk sé að rífast um hvort það sé í lagi að fólk nefni börn sín eftir bestu samvisku - stundum bera þeir við málhefð - en stundum eru rökin engin nema að barnið geti mögulega þurft að upplifa stríðni. 

Held að hægt sé að afbaka öll nöfn ef það er stemmningin meðal krakka. Því fannst mér þau rök afar hæpin og ansi langt seilst inn í friðhelgi fjölskyldunnar að þvinga fólk til að hlíta áliti nefndar eins og mannanafnanefndar sem oft er að þvarga um eigin skoðanir en tekur ekki mark á hefðum innan fjölskyldna.


mbl.is Mannanafnanefnd klofnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfest hjá ESB

Þetta er undarleg framsetning á einhverju sem hvort er eð þarf að fylgja samkvæmt aðildarumsóknaferlinu hjá ESB.

Enginn getur orðið fullgildur aðili eftir aðildarviðræður nema að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Auðvitað næst full sátt um það - einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að framkvæma það öðruvísi.

En auðvitað er gaman að lofa einhverju sem er alveg öruggt að þarf að efna:)


mbl.is Þjóðin sjálf hafi síðasta orðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyfjamisnotkun

Í þessari grein segir. "Matthías segir marga tortryggna gagnvart kannabisi vegna misnotkunarhættu. En í „völdum tilvikum“ sé ástæðulaust að hræðast notkunina, t.d. við ógleði hjá krabbameinssjúklingum, sem verkjalyf eða við vissum taugasjúkdómum."

Flestir þeir unglingar sem leiðast út í fíkniefnaneyslu byrja á því að misnota lyfin sem finnast í lyfjaskápnum heima hjá sér. Auðvitað verður þetta eitthvað misnotað, en þessi lyf er ekki nærri því eins söluvæn og rítalín og lyf sem flokkast undir flokkinn: SSRI lyf.

Þekki krabbameinssjúklinga í USAnu sem hafa sagt að líðan sín hafi snöktum skánað með því að fá að nota kannabispillur. Skil ekki af hverju það ætti að vera einhver tregða við að bjóða sjúklingum hér upp á slíkt hið sama ef það linar þjáningar þeirra.

Um langa hríð mátti ekki nota hamp til framleiðslu á fatnaði eða öðru sem hann hentaði í vegna viðskiptahagsmuna bómullarræktenda. Það er löngu tímabært að enduskoða óttann við þessa ágætu plöntu sem er til margra hluta gagnleg. 


mbl.is Kæmi til greina að leyfa kannabislyf á undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorið kom í dag

Í minningu landsVar einmitt að ræða það við yngri son minn þegar ég labbaði með honum út í skóla, að það væri vorangan í lofti - hann var ekki alveg að fatta hvað ég átti við - en ég heyrði eitthvað í söngvum fuglanna í morgunn sem minnti mig á vorið og ákvað að í það minnsta væri mitt huglæga vor hafið:)

Undanfarið hefur hver önnur hörmungarfréttin dunið yfir þjóðina og ég er sannfærð um að sú von sem fæðist alltaf með vorinu og birtunni muni hjálpa okkur að halda heiðríkju í huganum þrátt fyrir að á móti blási úr öllum áttum eins og jafnan gerist hér á Íslandi.

Þetta eru erfiðir tímar, en það er samt eitthvað stórmerkilegt að gerast í þjóðarsálinni og einhver spakur sagði að maður eflist með hverri raun. Þetta getur átt jafnt við einstaklinga sem þjóð. Það eina sem maður þarf að gera er að læra af reynslunni og gera ekki sömu mistökin aftur, ef mistök mætti kalla. Einhver annar spakur sagði að það væru ekki til mistök heldur aðeins tækifæri til þroska.


mbl.is Vorboðar koma til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaknaðu nú þjóðin mín!

dscf4143.jpgSamkvæmt úrslitum prófkjara og forvala og hvað þetta nú heitir allt saman - er ljóst að hér verða engar breytingar. Þeir sem sökktu skútunni með vanhæfni og hagsmunatengsl að leiðarljósi eiga semsagt að sjá um að sigla björgunarbátunum í strand líka.

Þarf ég að fara út á torg og kyrja vanhæf þjóð? Er þetta virkilega það sem þið viljið? Treystið þið fólkinu í sjálftökunni til að hætta að hygla að sér og sínum? Haldið þið virkilega að þeim sé ekki alveg sama um ykkur og heimilin ykkar sem þið eruð að missa? Haldið þið að þeir sem skópu hér landslag siðrofs og spillingar séu þess færir að rannsaka sjálfa sig og sína?

Hvað viljið þið? Hvernig viljið þið að framtíð okkar verði? Viljið þið að við verðum þekkt sem þjóð spillingar eða hugrekkis? Það krefst mikils hugrekkis að breyta til - að yfirgefa eitthvað jafn heilagt og flokkakerfið er fyrir mörgum - fjölskyldur hafa kannski kosið sama flokkinn kynslóð eftir kynslóð? Munið bara að þetta eru ekki trúarbrögð - maður svíkur engan nema sjálfan sig að hanga í eitthvað sem maður veit að stríðir gegn samvisku og réttlætiskennd. 

Ætlum við að segja við börnin okkar þegar við eigum ekkert eftir sem þjóð eftir ca 10 ár ef fer sem horfir - að við gerðum ekki neitt til að stoppa þetta feigðarflan? 

Vaknaðu nú þjóðin mín - vaknaðu og sjáðu veruleikann eins og hann er.

picture_1_812524.png18.000 atvinnulausir, enginn endir virðist vera á uppsögnum. 

Meira en helmingur fyrirtækja berjast í bökkum. Mörg orðin gjaldþrota.

Fólk flýr landið - skilur eftir þá sem eiga ekki tök á að flýja - hver á að sjá um gamla fólkið okkar? Varla er það að fara að taka sig upp og flytja.

IMF stjórnar landinu - hvað gerist þegar við getum ekki borgað skuldirnar okkar? Er mögulegt að við missum náttúruauðlindir okkar í hendurnar á alþjóðafyrirtækjum? Í sögulegu samhengi þeirra þjóða sem hafa þurft að leita á náðir IMF eru of góðar líkur á því til að ég geti horft fram hjá því.

Hvar á að skera niður? Hef heyrt að næsta haust byrji niðurskurðurinn fyrir alvöru. Engin raunveruleg svör fást frá neinum af fjórflokknum. Hvar eru efndirnar við stóru orðin SJS? 

Okkur er enn haldið í myrkrinu. Við vitum ekki hve stór jakinn er sem skútan er að stefna á. En óumflýjanlegt er að við verðum fyrir miklu höggi - margir eru enn ekki að sjá eða upplifa þungu höggin. Það er alveg ljóst að XD og XB geta ekki lagfært þann hringorms-ósóma hagsmunatengsla sem vefja sig um stjórnsýsluna alla. 

borgarahreyfingin - þjóðin á þingHvað getum við almenningur gert? Við getum haldið áfram að vera broddflugan - sem lætur þetta fólk verða friðlaust nema það hlusti á kröfur okkar um hreinsun, um heiðarlegt og réttlátt samfélag. En kæra þjóð - ekkert mun gerast ef þið gerið ekki neitt. Í guðanna bænum ekki kjósa þetta fólk aftur yfir okkur. Prófið að gera eitthvað verulega hugrakkt - nýtið ykkur það einstaka tækifæri sem Borgarahreyfingin er að skapa - labbið yfir brúnna á þing. Hún er byggð af okkur fyrir ykkur til að tryggja að við verðum aldrei aftur valdlaus þjóð. 

Vaknaðu nú þjóðin mín og mundu að ef þú vilt breytingar þá færðu aldrei þær breytingar sem þú vilt ef þú sækir þær ekki sjálf.


mbl.is Ragnheiður Elín sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 509137

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband