Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Borgarahreyfingin hélt sinn fyrsta opna fund

Fjölmiðlar sáu ekki ástæðu til að senda fulltrúa sína á hann - Ég ákvað því að skrifa stutta frétt um fundinn:)

n714951225_1978551_6021335-300x199Við héldum opinn fund í Iðnó til að kynna framboðið. Mætingin var góð þrátt fyrir að við auglýstum hann helst í netheimum og í útvarpi. Herbert Sveinbjörnsson, Birgitta Jónsdóttir og Hjálmar Hjálmarsson héldu ræður við góðar undirtektir. Eftir það var fólki útí sal boðið að spyrja fólkið í pallborðinu sem samanstóð af fyrrnefndum ásamt Þór Saari, út í stefnu og markmið  Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing. Spurningarnar voru jafn fjölbreyttar og fólkið var margt.

Við erum venjulegt fólk sem sér ekki fram á að byltingin hafi leitt til neins nema uppfærslu á sömu hugmyndafræðinni og hér hefur verið allt of lengi við lýði - skreytt slagorðum byltingarinnar.

Það sem brennur greinilega á almenningi er óvissan sem þjóðin býr við um framtíð sína í kjölfar hrunsins sem engan endi virðist ætla að taka. Miðað við þá miklu þátttöku í mótmælum og andófi við Þingvallastjórnina svokölluðu virðist fólk almennt hafa sætt sig við ríkjandi ástand nema þeir sem mættu til dæmis á fundinn okkar - þar mátti sjá fólk sem hefur verið mjög virkt í baráttunni fyrir að hér verði gagngerar lýðræðisumbætur til að koma í veg fyrir annað eins stórslys og við erum að vinna okkur úr.

Kærar þakkir til allra sem mættu á þriðjudagskvöldið.

Hér er svo ræðan mín

Byltingin

Pottar og pönnur
lamin
í taktfastri reiði
undiraldan svo þung
að ekkert fær hana stoppað

Skríllinn umbreyttist í hetjur
felldi vanhæfa ríkisstjórn

Þúsundir streymdu út
óttaþögnin rofin

Hungrið sverfur að
hungur eftir réttlæti
heiðarleika
von

Og vonin sigraði óttann
þegar valdhafar
stigu niður úr hásætum
hroka og yfirgangs

Og réttlætið mun sigra
stjórnsýslan verður hreinsuð
við erum ekki þögnuð
við erum rétt að vakna

Flokkaveldið mun falla
höggvum það fúatré spillingar
í herðar niður
með sannleika
með heiðarleika

Við erum rétt að vakna
almenningur
ég og þú
VIÐ
verðum stórfljót breytinga
á siðspilltu sjálftökukerfi

Við eigum kerfið
við erum þjóðin

Við trúum því að til að byggja upp heilbrigt samfélag eftir hrunið þurfum við, fólkið í landinu, að þrýsta á þær meginbreytingar sem þjóðin kallar eftir og öruggt er að fjórflokkurinn er vanhæfur til að gera án eftirlits og þrýstings frá þjóðinni, innan þings sem utan:
Það þarf raunverulega rannsókn á efnahagshruninu til að gera upp spillta fortíð – spillingin þrífst í stjórnsýslunni sem er sýkt af hringormsmynduðum hagsmunatengslum.
•    Ef það reynist rétt að þingmenn og þeirra fólk hafi fengið óeðlilegar fyrirgreiðslur frá fjármálastofnunum, er ljóst að raunveruleg rannsókn á efnahagshruninu án eftirlits og þrýstings óháðra aðila mun ekki skila neinum árangri.
Það þarf að tryggja raunverulegar lýðræðisumbætur til framtíðar.
•    Sama hvar í flokki stjórnmálamenn standa munu þeir aðeins láta frá sér þau völd sem þeir er þvingaðir til að láta frá sér. Stærsta efnahagshrun heimsins miðað við höfðatölu var ekki nóg, það þurfti margra mánaða mótmæli og á endanum ofbeldi til að þvinga síðustu ríkisstjórn til að láta af völdum.
•    Látum ekki fjórflokkinn stela frá okkur stjórnlagaþinginu með því að búa til nánast óyfirstíganlegar reglur sem hindra þátttöku almennings í því.

Hvaða verkfæri höfum við almenningur til að hafa áhrif: eins og staðan er í dag framseljum við vald okkar á fjögurra ára fresti – þess á milli erum við algerlega upp á náð og miskunn valdhafa komin. Það verður að gera grunnbreytingar á kosningalögum svo við lendum ekki aftur í þeirri stöðu að hafa yfir okkur vanhæfa, ráðalausa ríkisstjórn þegar þjóðin lendir í hamförum eins og við höfum upplifað. Það er aðeins hægt með því að færa valdið aftur til þjóðarinnar. Það er aðeins hægt ef við fáum það meitlað í stein að við getum kallað eftir breytingum ef nægilega stór hluti þjóðarinnar krefst þjóðaratkvæðagreiðslu.

Almenningur kallar eftir upplýsingum en fær þær ekki. Hvað er þá til ráða? Hvernig í ósköpunum eigum við að fá upplýsingar sem gefa okkur hugmynd um hver staða okkar er nákvæmlega í dag? Við fáum þær ekki með því að standa fyrir utan þing og hrópa okkur hás eða beita annarskonar ytri þrýstingi. Eina leiðin sem ég sé færa í þessari stöðu er að fara inn á þing og ná í þær. Það voru ekki stjórnvöld sem fengu Evu Joly til landsins heldur og það voru án efa háværar kröfur almennings um að hún yrði fengin til að aðstoða okkur, sem urðu til þess að stjórnvöld sáu sig knúin til að fá hana til liðs við sig. Gleymum ekki mætti okkar. Eva mun verða okkur mikill styrkur í baráttunni við að uppræta spillinguna. Höldum áfram að þrýsta dag hvern – verum broddflugur samvisku og réttlætis.

Borgarahreyfingin – þjóðin á þing ætlar að byggja brú fyrir almenning inn á þing – vera rödd ykkar – talsmenn ykkar, en síðast en ekki síst – fá ykkur sem hafið unnið að samfélagsumbótum og mannúð bak við tjöldin til að bjóða ykkur fram. Við þurfum ekki leiðtoga – við þurfum samstöðu og samvinnu – við sem einstaklingar, getum breytt heiminum en það mun ekkert gerast nema að við gerum eitthvað. Við erum þjóðin – við erum kerfið – við eigum þingið.

 


mbl.is Lítil hreyfing á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru flokkarnir eins og trúarbrögð?

Þetta rennir stoðum undir þá kenningu mína að flokkarnir eru nánast uppbyggðir eins og trúarstofnanir. Nú er búið að gera úr vesalings konunni einhverskonar dýrling. Við þurfum ekki fleiri leiðtoga - fólk þarf að trúa því að það hafi eitthvað að segja um framtíð sína og hætta að varpa ábyrgð sinni á annað fólk sem það heldur að sé mikilfenglegra en það sjálft.

Ef maður skoðar uppbyggingu flokka og uppbyggingu trúarbragða þá er þetta nánast eins. Ef einhver yfirgefur flokkinn er hann svikari og uppsker yfirleitt útskúfun.


mbl.is Blysför til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Von á von ofan

Þetta þýðir að möguleikarnir á því að réttlæti nái fram að ganga margfaldast - sér í lagi ef hún fær raunsanna mynd af því hvernig spillingin hefur ofið sig hér allt um kring og ofan í dýpstu rætur fjórvaldsins.

Ég finn fyrir ákveðnum létti og von - þessi kona kann sitt fag og hlífir engum:) 


mbl.is Eva Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningsfundur fyrir utan kínverska sendiráðið í dag

10. mars eru 50 ár liðin síðan H.H. Dalai Lama flúði Tíbet - Þá er 1 ár liðið frá blóðugum átökum í Lhasa sem brutust út vegna mótmæla munka og almennings gegn því alræði sem þjóðin býr við.

Vinir Tíbets taka þátt í alþjóða aðgerð til að sýna tíbesku þjóðinni stuðning í baráttu þeirra fyrir mannréttindum og trúfrelsi. Safnast verður saman fyrir utan kínverska sendiráðið að Víðimel 29, þriðjudaginn 10. mars kl: 17:00. Tsewang Namgyal flytur stutt erindi um ástandið í Tíbet. Birgitta Jónsdóttir les úr yfirlýsingu frá H.H. Dalai Lama.

Í Tíbet getur það varðað margra ára fangelsi að eiga þjóðarflagg Tíbeta í fórum sínum. Í Tíbet búa nú fleiri Kínverjar en Tíbetar. Í Tíbet er tungumálið að glatast. Í Tíbet hafa verið herlög í meira en ár og sífellt meiri harka gagnvart íbúum landsins virðist engan enda taka. Enn á ný hefur landinu verið lokað fyrir alþjóða samfélaginu. Þar eru engir alþjóða fjölmiðlar eða mannréttindasamtök.  Fyrir ári síðan útskýrði Dalai Lama ástandið í Tíbet á þann veg að þar væri verið að fremja menningarlegt þjóðarmorð.

Fjölmennum og sýnum tíbesku þjóðinni samstöðu í verki.
mbl.is „Tíbetar búa við helvíti á jörðu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing

Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur

1. Tafarlaust verði sett í gang opinber rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga á hruni íslenska efnahagskerfisins.  Samhliða því verða sett afturvirk lög sem leyfa ógildingu allra fjármálagerninga undanfarinna tveggja ára þ.m.t. gerninga skilanefnda bankanna, og í undantekningartilfellum lengra aftur í tíma ef sýnt er að um óeðlilega gjörninga hafi verið að ræða þar sem félag og/eða eigendur þess hafi verið með þeim hætti leitt af sér skaða fyrir íslenskt efnahagslíf. Í þeim tilfellum verður ákvæði hlutafélagalaga um takmarkaða ábyrgð eigenda fellt niður.

Meira á borgarahreyfingin.is

 

 


mbl.is Joly: Leita þarf til erlendra sérfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Lilja

Fyrir síðustu kosningar var það Guðfríður Lilja sem var sigurvegari forvalsins, þó hún hafi komið inn beint af götunni rétt eins og Lilja Mósesdóttir. Mér finnst góður árangur þeirra í forvali afar jákvætt fyrir okkur landsmenn, þekki þær báðar smá og veit að þarna fara heiðarlegar og víðsýnar manneskjur inn á þing.

Frábært að sjá stuðninginn við Katrínu og Svandísi. Hefði viljað sjá meiri stuðning við Álfheiði, því mér hefur fundist hún vera að standa sig mjög vel.

Það er aldrei vinsælt að vera umhverfisráðherra og allir sem hafa sest í þann stól þurft að gjalda fyrir það - veit ekki nákvæmlega af hverju. Þó Kolbrún njóti ekki víðtæks stuðnings - þá finnst mér þörf á að benda á að hún hefur alltaf haldið sínum tengslum við grasrótina. Auðvitað var þetta bleikt og blátt frumvarp klúður en ég hef nú séð önnur frumvörp sem eru ekkert skárri og fólki fyrirgefið fyrir það. Má þar nefna frumvörp sem hafa komið þjóðinni í þrot.

Ég er ánægð að sjá að það er endurnýjun í gangi í Reykjavík - varð fyrir miklum vonbrigðum með VG í NA - hefði viljað sjá Hlyn í öðru hvoru efsta sætinu.

Enn og aftur til hamingju Lilja mín - þú ert svo sannarlega vel að þessu komin.

 


mbl.is Lokatölur komnar hjá VG í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða með Tíbetum - 50 ára afmæli "Tibetan Uprising"

Þann 10. mars næstkomandi eru 50 ár liðin síðan H.H. Dalai Lama flúði Tíbet - Þá er 1 ár liðið frá blóðugum átökum í Lhasa sem brutust út vegna mótmæla munka og almennings gegn því alræði sem þessi þjóð býr við.

Enn á ný hefur landinu verið lokað fyrir alþjóða samfélaginu. Vinir Tíbets taka þátt í alþjóða aðgerð til að sýna tíbesku þjóðinni stuðning í þeirra baráttu fyrir að lifa af sem þjóð. En í fyrra útskýrði Dalai Lama ástandið í Tíbet á þann veg að þar væri verið að fremja menningarlegt þjóðarmorð.

Í Tíbet getur það varðað margra ára fangelsi að sýna Dalai Lama hollustu sína eða að eiga þjóðarflagg Tíbeta í fórum sínum. Í Tíbet fremja munkarnir frekar sjálfsvíg en að verða fangelsaðir og þurfa að búa við margra ára pyntingar og hrottaskap.

Í Tíbet búa nú fleiri Kínverjar en Tíbetar. Í Tíbet er tungumálið að glatast sem og menningarleg arfleifð þessarar friðsælu þjóðar.

Vinir Tíbets stóðu fyrir samstöðu og mótmælafundum fyrir utan kínverska sendiráðið í hverri viku frá því í mars í fyrra þangað til í september. Félagið hefur legið í dvala á meðan efnahagshrunið hér hefur skollið á með fullum þunga, en þrátt fyrir efnahagslegar þrengingar þá ber okkur skylda til að gleyma ekki þeim er þjást þó í fjarlægum heimshlutum sé. Eftir nokkra mánuði mun Dalai Lama heimsækja þjóð okkar. Það væri gaman að geta sýnt honum að hér er víðtækur stuðningur við þjóð hans sem heimurinn hefur gleymt í 50 ár.

Fjölmennum og sýnum samstöðu með Tíbetum, sýnum kínverskum ráðamönnum að heimurinn lætur málefni Tíbet sig varða.

Ef þú kemst ekki - gefðu þér þá endilega tíma til að skrifa í fjölmiðla um Tíbet eða á bloggið þitt þennan dag. Kveiktu á kerti eða twittaðu - fjésbókaðu þinn stuðning. Vinsamlegast látið sem flesta vita.

Leaving Fear Behind (in Tibetan, Jigdrel) is a heroic film shot by Tibetans from inside Tibet, who longed to bring Tibetan voices to the Beijing Olympic Games. With the global spotlight on China as it rises to host the XXIX Olympics, Tibetans wish to tell the world of their plight and their heartfelt grievances against Chinese rule. The footage was smuggled out of Tibet under extraordinary circumstances. The filmmakers were detained soon after sending their tapes out, and remain in detention today.
 

In a remarkable coincidence, filming concluded in early March 2008 on the eve of the eruption of unprecedented mass Tibetan protests across the Tibetan plateau. Shot primarily in the eastern provinces of Tibet, the film provides a glimpse into the hearts and minds of the Tibetan people and their longstanding resentment of Chinese policies in Tibet.

The filmmakers traversed thousands of miles, asking ordinary Tibetans what they really feel about the Dalai Lama, China, and the Olympic Games. The filmmakers gave their subjects the option of covering their faces, but almost all of the 108 people interviewed agreed to have their faces shown on film, so strong was their desire to express themselves to the world. Excerpts from twenty of the interviews, including a self-recorded interview of the filmmaker himself, are included in the 25 minute film.

The footage reveals with stark clarity that Tibetans are frustrated and embittered by the deterioration and marginalization of Tibetan language and culture; the destruction of the lifestyle of Tibetan nomads through Chinese forced settlement policies; the lack of religious freedom and the vilification of the Dalai Lama; and the broken promises made by the Chinese government to improve conditions in Tibet in the run up to the Olympic games. All are united in their reverence for the Dalai Lama and long for him to return, and as some even dream, to attend the Olympic Games.


Spillingin vellur fram

ef17d4a0998f666d.jpgDag hvern vellur og sullar upp spillingin sem stjórnvöld með agaleysi og reglugerðaleysi leyfðu að krauma og æta upp undirstöður landsins. Hvernig stendur á því að það eru ekki hafnar alvöru vitnaleiðslur? Af hverju hefur enginn stórlax verið látin axla ábyrgð á þessu. Manni verkjar stöðugt í siðferðiskenndina og maður spyr sig hvað veldur seinaganginum að koma því fólki sem ber ábyrgð í gæsluvarðhald.

Af hverju er hin nýja ríkisstjórn ekki búin að stórefla efnahagsbrotadeildina? Eru stjórnvöld enn vanhæf til að taka á þessum risastóra spillingarvef sem teygir anga sína inn á þing.


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin - nýtt stjórnmálaafl

Borgarahreyfingin kynnti framboð og stefnumál sín. Fréttir Stöðvar 2 og RÚV, Kastljósið og Mbl-Sjónvarp 4. mars 2009. 
 
 
Hvet ykkur til að lesa stefnuskránna okkar. Hún er að mörgu leiti einstakt plagg. Fjöldi fólks úr grasrótinni sem hefur verið að funda í sitt í hvoru lagi um landið allt lagði hönd á plóg við að gera þessa stefnu þess eðlis að hún taki á því sem almenningur vill að verði gert. Borgarahreyfingin er brú almennings inn á þing - við viljum afnema allar þessar hindranir sem búið að setja upp innan úr þingi.
 
Okkar markmið eru skýr - við viljum að ÞJÓÐIN skrifi sína stjórnarskrá. Ekki einhverjir útvaldir heldur verði tekið slembiúrtak úr þjóðskrá.  Við viljum afnema 5% þröskuldinn, við viljum að öll atkvæði hafi sama vægi. Við viljum persónukjör þvert á alla flokka. Ekkert er eðlilegra en að prófkjör fari fram inni í kjörklefa. Í mínum huga er fátt þó mikilvægara en að hér verði komið á skýrum reglum um þjóðaratkvæðagreiðslum - þar sem u.þ.b. 7% þjóðarinnar getur kallað eftir slíkri atkvæðagreiðslu um málefni er varða þjóðarhag. Þá er nauðsynlegt aðhald fyrir þingheim sú vissa að við getum beitt annarri aðferð en byltingu að til að láta rjúfa vanhæft þing eins og við upplifðum nýverið. 
 
Auðvitað er líka mikilvægt að koma með lausnir á þeim brýnu efnahagslegu vandamálum sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð - því var mikill fengur að fá hagfræðinga til liðs við okkur sem hafa ekki fetað hefðbundna slóða heldur hafa þorað að gagnrýna þetta gjörspillta kerfi sem við búum við. 
 
Það er líka mikilvægt að fólk viti að við erum hreyfing sem hefur það markmið að ná þessum grundvallarbreytingum í gegn og þegar við höfum náð þeim markmiðum þá munum við leggja þetta framboð niður. Við erum fólk sem hefur barist fyrir því að uppræta spillingu og okkar markmið er að færa valdið aftur til almennings. En það er afar mikilvægt að almenningur taki þátt í að byggja upp nýtt Ísland - þess vegna erum við opin fyrir því að fá til liðs við okkur fólk sem lætur sig samfélagið sitt varða án þess að eiga einhverja hagsmuni í húfi. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem mögulega nutu fyrirgreiðslu hjá þeim fyrirtækjum sem talin eru vafasöm, rannsaki sig sjálfa. 
 
Ég skora á fólk sem verkjar í sálina út af þeirri siðspillingu sem hér gapir við okkur dag hvern, að koma til liðs við okkur - bjóðið ykkur fram - það er kannski ekki mjög spennandi að setja sjálfan sig í eldlínuna og eitthvað sem ég til dæmis er með hnút í maganum út af - en ég ætla samt að gera það - ég get ekki ætlast til þess að einhver annar breyti samfélaginu fyrir mig ef mér hugnast ekki hvernig það er. 
 
Það er svo mikilvægt að við fáum þverskurð af samfélaginu til liðs við okkur að hrinda þessum breytingum í framkvæmd - ég skora á alla þá sem láta sig þetta land og þessa þjóð sig varða að vera með. Þegar við svo höfum náð þessum breytingum í gegn - þá losnum við að sitja uppi með æviráðna pólitíkusa inn á þingi. Held að það sé hverjum manni gott að vera á almennum vinnumarkaði og takast á við lífið án forréttinda. Líka fyrir fólk sem fer í opinber þjónustustörf í þingsölum. Þingið er okkar - Okkar þing - Okkar kerfi - Okkar ábyrgð.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509138

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband