Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Eftirmæli: eitt af fyrstu lögunum hennar mömmu

Upptaka úr Kjallaranum 1976 - einhver skringilegasti sjónvarpsþáttur
sem hefur verið sýndur hérlendis. Sést þó ekki svo glöggt hér en varð bara að
sýna ykkur hvað hún mamma var einstaklega falleg í þessari upptöku og hve
lagið hefur aldrei misst sinn einstaka hljóm. Tímalaust lag og ljóð. 
 

Aukatónleikar til heiðurs minningu mömmu

Kápan af bókinni

Minni alla á að nú fer að líða að aukatónleikunum til heiðurs Bergþóru Árnadóttur. Tónleikarnir verða á laugardaginn kemur og verða þeir haldnir í Grafarvogskirkju klukkan 20:30. Tónleikarnir verða með sama sniði og síðast en státa tveimur auka söngvurum: Páli Óskari og Jóni Tryggva Unnarssyni. Markmið okkar sem stöndum fyrir tónleikunum er að gefa tónlistarfólki vettvang og tónlistarlega umgjörð með hinu frábæra bandi sem Hjörleifur Valsson valdi saman, en hljómsveitina skipa: Ástvaldur Traustason á píanó, Birgir Bragason á bassa og kontrabassa, Björgvin Gíslason á gítar og sítar, Hjörleifur Valsson á fiðlu, Steingrímur Guðmundsson á slagverk og Tatu Kantomaa á harmonikku.

Okkar leið til að heiðra minningu Bergþóru er að hvetja annað tónlistarfólk flytja tónlistina hennar en lögin hennar eru tímalaus og völundarsmíð sem fallið getur inn í hvaða tónlistarstefnu sem er. Það sem ef til vill er einkennandi við lögin hennar er hin mikla virðing sem hún bar til ljóða en þau voru ómissandi efniviður laga hennar. 

Söngvar sem voru með síðast og verða með aftur: Ragnheiður Gröndal, Hansa, Magga Stína, Jónas Sig og Svavar Knútur.

Hægt er að fá miða á midi.is, við innganginn, í verslunum Skífunnar og í völdum BT búðum á landsbyggðinni.

Meiri upplýsingar um tónleikana og tónlist Bergþóru er hægt að finna á Bergþórubloggi. 


Óvænt fjölgun í fjölskyldunni

Í gærkvöldi horfði ég á Men in Black með öðru auganu ásamt Delphin. Eftir myndina ákvað ég að setja nýtt hey hjá hamstrabræðrunum sem krakkarnir fengu í jólagjöf. Þegar ég keypti hamstrana, bað ég um tvo stráka. Stelpan kíkti ekki bara einu sinni heldur tvisvar og ég fór róleg heim. Snemma kom í ljós að annar var eins konar bully, var alltaf að ráðast á hinn sem vældi viðstöðulaust og flúði með öllum tiltækum ráðum frá stóra bróður sínum. Ákvað að prófa að skella þeim í sitt hvort búrið en eftir tvær þannig vikur ákvað ég að það væri kominn tími til að þeir lærðu að umgangast og sýndu hvor öðrum bróðurlegan kærleika.

Litli var samt alltaf að væla og vildi aldrei skríða í hendurnar hjá okkur og skoða heiminn. Hinn var aftur á móti fjörugur og var alltaf til í að koma út úr búrinu. Hlaupa um sófann og éta úr hendi mér. Ég hafði alvarlega hugsað út í að skila vælukjóanum en vildi samt gefa honum séns á að venjast okkur.

Nema hvað að ég tek lokið af búrinu og byrja að týna út dótið í búrinu til að fylla það með þessu líka yndislega ilmandi heyi. Hamstrarnir voru eitthvað skringilegir. Skyndilega þegar annar færir sig til kemur í ljós geimveruleg kös af bleikum búkum. Mér brá svo rosalega að ég hoppaði smá og gaf frá mér hálfkæft undrunaróp. Þeir sem þekkja mig vita að það er eiginlega ómögulegt fyrir nokkurn eða nokkuð til að koma mér á óvart. Kannski hafði geimverumyndin einhver áhrif á það hve brugðið mér var:)

Um leið og hamsturinn sem var eitt sinn karl en er það greinilega ekki miðað við iðandi kösina sem við nánari athugun er ótrúlega fallega ljót, nú þá stekkur hinn á bakið og ætlar að koma vilja sínum fram. Kvendýrið rétt nýbúið að eiga ungana... ég þreif hann kannski fullharkalega og skellti honum út fyrir búrið. Sá að það hafði verið búið til aukahreiður í búrinu, hélt þegar ég sá það fyrst að litli bróðirinn væri kannski ekki að fá að vera inn í húsinu sínu og hefði búið sér til svona utanáliggjandi herbergi.

Ég hreinsaði búrið án þess að koma of nálægt hreiðrinu, setti karlinn í Ikeabláan dótakassa með hey og mat og gaf mömmunni ferskmeti og meira efni til hreiðurgerðar.

En semsagt ef ég taldi rétt þá eru komnir 6 nýir hamstrar og það var alls ekki á planinu. Það sem er kannski merkilegast við þetta allt er að væluspóinn er karlinn og fjörugi ofurhuginn var kasólétt hamstramamma:)

Framhald á þessu á morgunn um undarlegar tillögur um lausnir á þessu og enn undarlegri viðbrögð hjá búðinni sem ég keypti hamstrana hjá.   


Var að fá heildarútgáfuna af tónlistinni

hennar mömmu í hús. Mikið er ég ánægð með hvernig þetta kemur út. Það var ekkert hægt að fá útprentaða próförk vegna þess hvað það var flókið að ganga frá settinu. Ég varð bara að bíða og vona að útlitið sem ég hannaði kæmi þokkalega út. Ég er mjög ánægð með þetta allt. Gott sound á lögunum, fallegur kassinn og gaman að sjá og handfjatla umslögin af plötunum svona pínulítil.

Yngri sonur minn fékk eitt sett og hélt dauðahaldi í það... hann var svo tengdur ömmu sinni. Svo kom ég að honum elsku krúttinu grátandi inní eldhúsi með mynd af sér og ömmu B að hlusta á fyrsta diskinn. Það var bæði svo fallegt og sorglegt.

Ég finn fyrir ákveðinni sátt gagnvart öllu sem erfitt er að setja í orð. Þakklát þeim velvilja og hlýju sem minningu mömmu hefur verið auðsýnd. Minningartónleikarnir voru ólýsanlega fullkomnir og ég hefði engu viljað breyta í þessari mögnuðu alkemíu sem þarna skapaðist fyrir viku síðan...

Takk allir sem tóku þátt í þessu, þessir tónleikar voru ekki síst magnaðir vegna þess hve áhorfendur voru frábærir. Allir sem voru með í að skapa þetta voru líka einstaklega jákvæðir og mikið ævintýri að fá að heyra þau klæða lögin í nýjan búning. 

Vegna þess að það seldist upp svo hratt og hve margar fyrirspurnir við höfum fengið um aukatónleika þá erum við á fulla að vinna að því. Þeir munu verða í mars. Set færslu um það hér og á Bergþórubloggi um leið og dagsetningarnar eru komnar á hreint. 


Vetur konungur

Það er ágætt að vera minntur á það að maður er búsettur á landi þar sem allra veðra er von. En verð að viðurkenna að þrátt fyrir að vera alveg ýkt bjartsýn mannvera, þá er þessi vetur að slá öll met í að ögra þolinmæði minni. Það sem mér finnst bagalegast er að þurfa að hanga svona mikið inni. 

Finn að fátt gefur mér meiri lífsfyllingu en að þvælast úti, fara yfir heiðina til ömmu og kíkja á foss í hennar heimabæ, eða bara labba í hring um tjörn. 

Sumarið hlýtur að verða alveg rosalega gott. Og kannski erum við Íslendingar með svona mikið gullfiskaminni til að gleyma vondu veðurfari, annars væri þessi þjóð sennilega óhamingjusamasta þjóð í heimi en ekki hamingjusamasta. Það væri gaman ef að þjóðarpúls gallup tæki könnun á hamingjustuðli þjóðarinnar í dag. Hygg að hann væri allt öðruvísi í svona veðurfari en á sætum sumardegi. 

 


mbl.is Lægðir og úrkoma út mars?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af tónleikum og lífsins gangi

Spennandi tímar framundan í tengslum við minningartónleikana hennar mömmu. Rás 2 ætlar að taka þá upp. Óli Palli sagði að það hefðu verið svo mikil viðbrögð við þættinum hennar Andreu Jóns um mömmu að við værum með allt of lítinn tónleikastað:) Það yljaði mér um hjartarætur að heyra það. Gott að minning hennar lifi, og allra best ef tónlistin hennar lifi... 

Nú er að koma heildarmynd á tónleikana. Við erum næstum því búin að útdeila lögunum á söngvarana, en eigum enn eftir að skera nokkuð niður af lögum, svo þetta verði nú ekki allt of langir tónleikar. Ég er alveg rosalega spennt að sjá hvernig lögin munu lifna við í flutningi annarra. Mamma var nú alltaf frekar nísk á að láta lögin sín í annarra hendur og raddbönd...

Ekki fékk ég ritlaun til að geta unnið að ævisögu mömmu. Ég verð þá bara að bretta upp ermarnar og vinna að henni þegar borgin sefur. Bókin sú arna er að taka á sig mynd í hugarskoti eftir að hafa verið að þaulskoða myndafjöll, bréf og tala við vini hennar og samferðamenn. Ég get alla vega lofað ykkur því að þetta verður ekki eins og nein ævisögubók sem þið hafið áður lesið. Ætla að reyna að hafa hana í þeim anda sem við mamma höfðum talað um áður en hún dó. Fullt af skemmtilegum sögum, myndum og viðtölum bíða þess að verða dregnar saman í einskonar þrívíða lífsbók:) Hún mun verða jafn ríkulega þrædd myndum og skáldsagan mín og ætla ég að láta myndir og orð tvinnast saman helst á hverri síðu.

Ég ætla núna fram að tónleikum að skella lagi dagsins inn í tónhlöðu Bergþóru sem er að finna á blogginu hennar, ásamt ljóði. Þá mun ég tilgreina hvaða söngvari tekur viðkomandi lag á tónleikunum...  

tónhlöðuna er að finna á bergthora.blog.is 

 


Tryggð

afiogamma

Einu sinni þegar amma var að kvarta yfir því hve afi gat verið erfiður á köflum, spurði ég hana, "af hverju skildir þú ekki bara við hann?" Þá leit hún á mig með furðusvip og sagði, "maður yfirgefur ekki veika vini sína."

Að einhverju leiti finnst mér þetta jaðra við brjálsemi, og samt fannst þér þetta eitthvað svo falleg hugsun og hefur án efa fleytt þeim yfir erfiða hjalla. Hef verið mikið að skoða mátt hugans og hve auðveldlega maður getur fallið í pyttina ef maður heldur sér ekki meðvitaður um hvað hann er mikill bragðarefur: hugurinn.

Ég er mjög hrifin af gömlu fólki. Það mætti auðsýna eldra fólki miklu mun stærri hlutverk og virðingu í samfélagi okkar. Amma hefur alltaf haldið tryggð við afa, þrátt fyrir alla hans bresti og oft á tíðum alveg svakalega undarleg samskipti. Þá var þarna einhver fegurð sem enn er til staðar þó hann sé ekki lengur meðal okkar.

 


Trúnaður

Var að tala við ömmu í gær og við komumst að þeirri niðurstöðu að ef eitthvað virðist hafið algerlega í vaskinn í nútímanum, þá er það trúnaður meðal manna. Þetta er bæði áberandi í samböndum á milli fólks sem virðist gefast upp við fyrsta mótbyr og hið sama má segja á atvinnumarkaði.

Ekkert virðist sjálfsagðara en að slíta samböndum út af hinum smávægilegustu þráhyggjum, þó svo að eftirköstin geti oft verið afar meiðandi í barnafjölskyldum. Oft eru sambandsslit af hinu góða, sér í lagi ef um ofbeldi er að ræða en oft eru ástæðurnar fyrir makaskiptum svo langsóttar og á svo mikilli eigingirni byggðar að meira að segja ég verða hálf kjaftstopp:)

Svo virðist sem nútímamaðurinn sé einskonar rekald sem höndlar afar lítið mótlæti. Flest okkar vandamál hérlendis eru til dæmis svokölluð lúxus vandamál. Við eigum nóg að bíta og brenna og afþreyingin er svo mikil að enginn ætti í raun og veru að þurfa að upplifa þetta tóm sem maður hefur stundum dottið í. En það er sama hve mjög manni langar að flýja sinn innri mann, þá er það hreinlega ekki hægt. Því má segja að fólk noti einmitt streituvalda, sem oft eru tengdir breytingum til að fá um eitthvað annað að hugsa en sjálfan sig. Það er að sumu leiti hið besta mál, en þetta virðist hafa farið út í frekar mikla öfga hér á eyjunni okkar. Breytingar eru oftast af hinu góða og gott verkfæri til að öðlast þroska. En breytingar sem eru eingöngu notaðar sem flóttatæki frá sér sjálfum er innantómar og engum til gagns. 

Heiðarleiki er nátengdur þessu fyrirbæri ístöðuleysis. Orð skulu standa er hugtak sem er algerlega úrelt. Svo í orði sem á borði er að sama skapi búið að glata merkingu sinni. Hef svo oft rekið mig á það að fólk segir eitt og meinar eitthvað allt annað. Svokölluð heiðarleika hentistefna ríkjandi stefna hér, sama hvert maður lítur. Það er í lagi að ljúga smá, stundum!? Hvenær er lygi hvít og hvenær er hún svört. Er ekki lygi alltaf lygi? Það er með ólíkindum hve sannleikurinn er fljótur að snúast í höndunum á fólki og það virðist alveg sama þó fólk sé að tala um ástandið á fjármálamörkuðum eða ástina. 

Ég hef sjálf logið, vegna þess að ég óttast viðbrögð annarra ef ég segi sannleikann, ég hef logið vegna þess að mér finnst vont að viðurkenna að ég hafi gert mistök. En það er ekkert sem réttlætir það. Og mér hefur aldrei liðið vel ef ég hef logið sama hve mikið ég hef reynt að réttlæta það. Lygi og sérhverfa eru einhverjir ömurlegustu mannlegu eiginleikarnir. Að gera slíkt getur kennt manni sitthvað en það þýðir ekki að maður getur ekki orðið fullnuma í því og snúið sér að því að stefna að vægðarlausum heiðarleika. En kannski er heiðarleikinn einmitt eitthvað sem er algerlega afstætt og ekkert okkar hefur sömu mælikvarðana á hvað heiðarleiki er.

Getur maður treyst einhverjum sem ekki treystir sjálfum sér? Getur maður elskað einhvern sem ekki elskar sjálfan sig, án þess að ljúga að sjálfum sér og er maður þá eitthvað skárri?

 


Skemmtilegasta árshátíðin til þessa

Fór á alveg geðveikislega skemmtilega árshátíð í gærkvöldi með Hollywood thema. Ég hló svo mikið að ég er næstum ennþá með hlaupasting. Þetta var árshátíð Alanó og ef eitthvað fólk kann að skemmta sér þá er það fólkið sem var þarna samankomið. 

Maturinn var meiriháttar og ég af öllu fólki dansaði við diskó enda mitt "date" á árshátíðina góðu, að syngja diskóið og er hann svo góður í þeirri iðjan að meira segja ég, forni pönkarinn gat brotið odd af oflæti mínu og sungið hástöfum með og gert heiðarlega tilraun til að skoppa við diskó.

Þrátt fyrir að hafa verið hryggbrotin fyrir réttri viku er ég ákaflega jákvæð og sannfærð um að allt sé eins og það eigi að vera, því alltaf þegar maður horfir á heildarmyndina þá er hún allt öðruvísi en nærmynd nútímans. Lífsins þræðir vefa sig í hin ólíklegustu mynstur og ekkert er sem maður ætlar.

Ég er alltaf að fá efnivið í fleiri bækur. Spurningin er hvenær ég finni tíma til að skrifa þær:)

 

 

 

 


Lífsins þráður

 

Styrkist strengur

í gagnverki lífsins

 

Vefur hljóm

einum þræði spunninn

sem ofar öllu

er samofinn kennd

sem er í senn

jarðhræring

snjóflygsa

 

Bráðnar inn í mig

hrærir mig til tára

til hláturs

og ég sleppi

öllu sem ég var

til að verða

loks

titrandi strá

á berangri lífsins

í fullkomnu æðruleysi

gagnvart vályndum veðrum

eða blíðum sumarvindum

 

Og þessi þráður

hljómar eins og

hinni hreini tónn

í hamslausu flæði

með hljómagangi lífsins

án mannlegrar hugsunar

án orða

 

Kvika kennda

og heiðskíru


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.