Leita í fréttum mbl.is

Réttlætismál

XO er þverpólitískt bandalag fólks sem er búið að fá nóg af þeirri vanhæfni og spillingu sem þrífst hér á landi í skjóli þingheims.

Við viljum réttlæti fyrir þjóðina sem hefur verið gert að greiða skuldir sem hún efndi aldrei til. Við viljum ekki velta þessum skuldum fáeinna fjármálaóreiðumanna á almenning. Fjármálaóreiðumanna sem hafa gefið sumum flokkum hér óeðlilegar upphæðir fjármagns sem enginn heilvita maður getur litið á öðruvísi en fyrirgreiðslupólitík.

Við viljum leita samstarfs við erlenda skuldunauta okkar um hvernig við getum haft uppi á þeim sem komu okkur í þessa ömurlegu stöðu. Við viljum persónugera vandann og rjúfa óeðlileg tengsl á milli þingheims og viðskiptaheims.

Fyrstu lögin sem Borgarahreyfingin vill tryggja að verði að veruleika eru að enginn: ekki nokkur maður verði borinn út af heimili sínu út af fjárhagsörðuleikum sem rekja má til þess algera hruns sem við stöndum frammi fyrir.

Við viljum færi völdin frá flokkakerfinu til fólksins – til þín
Við viljum að fólk sitji ekki lengur en 8 ár inni á þingi
Við viljum að þjóðin fái rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu
Við viljum aldrei aftur þurfa að upplifa þann vanmátt í aðdraganda janúarbyltingarinnar – þar sem við gátum ekki losnað úr viðjum ríkisstjórnar sem mikill meirihluti þjóðarinnar studdi ekki. 

Við erum borgarar ekki þegnar. Þingmenn eru og eiga muna að þeir eru í vinnu fyrir okkur: þjóðina.


mbl.is Neytendur ekki einir um skaðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf þeirra er í okkar höndum

Yfirlýsing vegna mótmæla
Frá og með deginum í dag, miðvikudeginum 15. apríl 2009, munu nokkrir aðilar taka sér stöðu fyrir framan Alþingi. Um er að ræða mótmæli, fyrir hönd allra hælisleitenda á Íslandi. Tilgangur þeirra er að minna valdhafa á tilvist hælisleitenda og bið þeirra. Við erum enn að bíða eftir svörum og þeirri „sanngjörnu málsmeðferð“ sem hér á að vera að finna, handa hælisleitendum.

Þrátt fyrir að einstaka reynslusögur hælisleitenda hafi náð athygli fjölmiðla, viljum við einnig minna á að fjöldi fólks bíður enn í Njarðvík, á milli vonar og ótta, eftir því að fá að lifa mannsæmandi lífi. Þetta fólk eyðir stórum hluta ævi sinnar í tímalausu limbói, án þess að geta stigið fæti niður á fasta jörð.
Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld hætti að misnota Dyflinnar-reglugerðina, sem gerir þeim kleyft að senda hælisleitendur kerfisbundið til annarra Evrópulanda, rétt eins og að þar segi að hér sé alls ekkert skjól eða pláss þeim til handa. Þau lönd sem Íslendingar senda hælisleitendur einna helst til eru þéttsetin af þúsundum hælisleitenda sem munu aldrei sjá umsóknir sínar skila árangri.
Þess vegna krefjum við þess að íslensk stjórnvöld sýni þá ábyrgð sem hún hefur þegar skrifað undir, með því að virða mannréttindi og sýna mannúðlegri meðferðir. Sú krafa er krafa mótmælana, og vonumst við til að fólk skilji þá kröfu og styðji.

Hjálparbeiðni: Mál hælisleitenda frá stríðshrjáðum svæðum

21. öldin verður öld flóttamannsins. Ísland er með fyrstu löndum til að stíga inn í þessa nýju öld. Við verðum að taka meðvitaða ákvörðun um það hvernig við bregðumst við þessari áskorun.

Stríðsrekstur í Afghanistan og Írak var studdur, á Íslandi sem annars staðar, með vísun í hugmyndir um lýðræði, mannréttindi og alþjóðlega samhjálp. Á sama tíma voru útlendingalög hert á Íslandi og hælisleitendum frá stríðshrjáðum löndum vísað kerfisbundið frá landinu.

Þeirra á meðal hafa verið margir frá Afghanistan og Írak.

Örlög þeirra sem leita hingað eftir hjálp eru tvenns konar: Þeir enda ýmist sem réttlausir flóttamenn í Grikklandi eða – og það gildir um flesta – þeir eru sendir aftur til upprunalands síns, í fang átaka og stríðs sem þeir flúðu.

Þegar fólki er synjað um hæli hérlendis er vísað til svonefnds Dyflinnarsáttmála. Ákvæðið í sáttmálanum sem vísað er til var samið til að tryggja hælisleitendum málsmeðferð í fyrsta landinu sem þeir koma til innan Schengen-svæðisins, en ekki til að fría önnur ríki ábyrgð. Ísland hefur beitt þessu ákvæði sem opinni gátt til undanbragða, til að losna við hælisleitendur af landinu.

Fyrsta land margra hælisleitenda innan Schengen-svæðisins er Grikkland, og þangað vísar Útlendingastofnun fjölda einstaklinga sem hingað leita. Rauði krossinn og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna leggjast gegn því að aðildarríki Schengen sendi hælisleitendur til Grikklands, þar eð Grikkir hafi ekki veitt hælisleitendum „sanngjarna málsmeðferð“, sem er grundvallarkrafa Dyflinnarsáttmálans.

Dómstólar í Belgíu úrskurðuðu í apríl 2008 að þarlendum stjórnvöldum sé óheimilt að vísa hælisleitendum til Grikklands vegna slæmrar meðferðar. Sama ár var lögð fyrir Evrópuþingið 68 blaðsíðna skýrsla sem norskar og finnskar stofnanir unnu um beitingu Dyflinnarsáttmálans í tilfelli Grikklands. Þar kemur fram að móttaka og hýsing flóttafólks sem er handtekið við komuna til Grikklands er fært í varðhald og hýst til lengri tíma í „varðhaldsmiðstöðvum“. Dvölin þar feli í sér linnulaus mannréttindabrot, aðstæður og meðferð séu „óviðunandi“ og vitnisburður liggi fyrir um skelfilegt ofbeldi og pyndingar af hálfu lögreglu. Aðeins 2,4% hælisleitenda sem sendir eru til Grikklands eru sagðir njóta sanngjarnar málsmeðferðar.

Yfirvöld hér á landi hafa veitt fjölskylduvinum íslenskra ráðamanna frá tiltölulega friðsælum ríkjum heimsins sérmeðferð en þeim sem hingað koma eftir réttum leiðum af bæði lögmætum ástæðum og knýjandi þörf – m.a. þeim sem flýja stríðsástand – er markvisst hafnað.

Hælis- og dvalarleyfisveitingar Íslands til hælisleitenda og flóttafólks eru langt undir þeim mörkum sem nágrannalönd okkar hafa markað sér og stjórnvöldum til skammar.

Nú ríður á að Ísland marki nýja stefnu í málefnum flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi.

Rök sem vísa í núverandi efnahagsástand eða smæð Íslands verða ekki tekin gild. Ef Íslendingar líta nægilega stórt á sig til þess að taka þátt í og leggja nafn sitt við stríðsrekstur í fjarlægum löndum hlýtur Ísland að geta tekið á móti fórnarlömbum þess sama stríðsreksturs. Sjónarmið um atvinnuerfiðleika í íslensku þjóðfélagi geta ekki vegið á móti lífshættu og mannréttindabrotum sem bíða hælisleitenda sé þeim vísað brott.

Við upphaf nýrrar aldar krefjumst við þess að ný ríkisstjórn marki nýja stefnu í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.

Við krefjumst þess að hælisleitendum sem hafa beðið hér á landi svo mánuðum skiptir eftir úrskurði Útlendingastofnunnar verði ekki sendir til Grikklands á grundvelli Dyflinnarsáttmálans, heldur verði veitt tækifæri til þess að hefja mannsæmandi líf á Íslandi og taka þátt í endurreisn íslensks samfélags.

Sex þeirra einstaklinga sem nú bíða eftir svari frá Útlendingastofnun, og hafa flestir nú þegar fengið neitun, eru frá Afganistan eða Írak.

Nánari upplýsingar um flóttamenn á Íslandi: this.is/refugees


mbl.is Hælisleitendur mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oddaflokkur

Síðasta ríkisstjórn var með alltof mikinn þingmeirihluta og við það skapaðist enn meiri lýðræðishalli en ella. Þingmenn töluðu um að þeirra hlutverk væri aðeins að stimpla ráðherrafrumvörp. Mikilvægt er að flokkarnir vinni saman að því að laga þann ramma sem þingheimur starfar eftir. Mikilvægt er að gera byltingu í stjórnsýslu landsins - stjórnsýslan er fáránlega dýr miðað við hve fá við erum og hve mikið stendur til að skera niður til að fylgja eftir lánaskilmálum AGS.

Næstu ár verða erfið fyrir þessa þjóð - því er mikilvægt að flokkarnir hugsi útfyrir hagsmunaramma sinn og líti á hverju þeir geta áorkað saman. Þetta óþolandi karp sem okkur er boðið upp á - er ólíðandi meðan þjóðinni blæðir - ég trúi því ekki að þjóðin vilji búa við þau ömurlega afköst sem umgjörðin stjórnsýsla Íslands áorkar. Ég vil að við skerum niður í stjórnsýslunni frekar en í heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu - Ég er til í að borga meiri skatta - frekar en að velta byrðinni á þá sem geta litla björg sér veitt. 

Það er alveg ljóst að það verður að fara blandaða leið og það er alveg ljóst að við þurfum öll að þjást fjárhagslega. Það er alveg ljóst að við verðum að huga að úrræðum fyrir alla þá sem eru nú þegar atvinnulausir og munu ekki fá vinnu á næstu mánuðum - það er rosalega erfitt að fara aftur á vinnumarkað ef maður hefur verið atvinnulaus í meira en hálft ár. 

Mér fannst margt af því sem ég heyrði í kvöld í kosningasjónvarpinu algert froðusnakk en ef maður gæti valið það besta úr öllum þeim tillögum að leiðum - lausar undan viðjum flokkshugsunar - þá held ég að mætti finna nokkuð góðar leiðir fyrir okkur til að létta undir þeim erfiðleikum sem við verðum að fara í gegnum. 

Þverpólitíska leiðin er lausn úr þessum vanda - það er stórkostlega skemmtilegt að hafa tök á að geta valið það besta frá öllum - þjóðinni til heilla - og gleyma því aldrei aldrei - að þeir sem fara inn á þing eru með sanni þjónar þjóðarinnar og eiga alltaf alltaf að hafa hagsmuni hennar að leiðarljósi.

Borgarahreyfingin þarf að vera aðhaldsafl inn á þingi og taka þátt í næsta ríkisstjórnarsamstarfi. Það er nauðsyn svo við þurfum ekki að lifa við tveggja turna leik - þar sem næsta víst er að hlutirnir fari að snúast um flokkslínur fremur en það sem er að gerast inn á vellinum. Borgarahreyfingin væri betri kostur sem oddaflokkur en Framsókn - því Framsókn þarf að hvíla sig aðeins betur og hreinsa út úr sínum garði arfa sem kenndur er við spillingu og sérhagsmunagæslu.


mbl.is Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða málshátt fékkst þú?

Ég ætla að venda mínu kvæði í kross og reyna að tala ekki um það sem allir hafa talað um páskana og forvitnast frekar um málshætti þeirra sem lesa bloggið mitt.

Ég gat nú ekki annað en hlegið þegar ég las minn: Sameinaðir stöndum vér - sundraðir föllum vér:) Finnst það viðeigandi að hafa fengið það eftir alla þá miklu vinnu sem ég ásamt fjölda fólks höfum lagt á okkur að sameina grasrótina fyrst með almennum félagskap sem ber heitið: Samstaða - bandalag grasrótarhópa, ég ku vera í stjórn Samstöðu:) síðan Borgarahreyfingin - þjóðin á þing.

Finnst þessi málsháttur hafa hitt í mark fyrir mig og fyrir það sem við þurfum að gera sem þjóð.

Hvað fenguð þið? Passaði það við ykkar tilveru eða var það bara eitthvað algjört bull?

Gleðilegt vor vinir og lesendur - nú er ég alveg viss um að vorið er komið. 


Leyndarmálamenning=lágmenning

bananalydveldi_707953.jpgÉg skora á almenning að krefjast þess af flokkum þeim sem þau ætla sér að kjósa að flokkarnir afnemi allri leynd. Ég skora á almenning að krefjast þess að bankaleynd verði afnumin ellegar neita að kjósa, ég skora á almenning að krefjast þess að leynd á orkuverði til fyrirtækja verði afnumin ellegar neita að kjósa, ég skora á almenning að krefjast þess að leynd á skilmálum IMF/AGS verði aflétt, ellegar neita að kjósa.

Við höfum valdið, við eigum þetta kerfi kæru landsmenn. Í leyndarmálamenningu þrífst spilling og óvissa. Leyndarmálamenning er lágmenning sem við eigum að hafna að taka þátt í. Við viljum allt upp á borðið hjá öllum flokkum. Hverjir styrkja flokka og menn í prófkjörum frá t.d. 2000. Aðeins með því að koma öllu upp á borðið er hægt að byrja að taka á spillingu og siðrofi sem einkennir allt hérlendis.


mbl.is Allt komið fram sem máli skiptir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir Íslands og íslendinga.

dscf4143.jpgEr stjórnvöldum treystandi?

Ljóst virðist að Ísland stendur á barmi þjóðargjaldþrots og að skuldir af völdum bankahruns og efnahags óstjórnar eru sennilega meiri en hægt er að ráða við.

Ekki fæst staðfest hversu háar skuldir þjóðarinnar eru, en stjórnvöld halda samt áfram með stöðugar yfirlýsingar um að fær leið sé út úr skuldafeninu með hefðbundum tekjustreymis aðferðum ríkissjóðs, s.s. skattahækkunum og stórfelldum niðurskurði útgjalda.

Kominn er tími til að stjórnvöld geri þjóðinni nákvæmlega grein fyrir hverjar skuldirnar eru en hegði sér ekki eins og fyrrverandi ríkisstjórn sem hélt mikilvægum upplýsingum um væntanlegt hrun leyndum fyrir þjóðinni.

Nýlega fram komnar upplýsingar frá tveimur erlendum hagfræðingum, Michael Hudson og John Perkins benda til þess að íslensk stjórnvöld séu hugsanlega á algerlega rangri leið með þjóðina, leið sem muni hneppa íslendinga í skuldafen um langa framtíð. Báðir halda því hiklaust fram að í slíku skuldafeni munu fyrr eða síðar eignir þjóðarinnar s.s. auðlindirnar, atvinnutækin og stoðkerfi eins og samgöngumannvirki og veitustofnanir, verða seld erlendum fyrirtækjum sem leið út úr vandanum. Þetta segja þeir alþekkt.

Framsaga þeirra beggja í Silfri Egils s.l. sunnudag og á fundum í Háskóla Íslands og á Grand Hóteli á mánudaginn hefur vakið mikla athygli en jafnframt sætt nánast algerri þöggun í mörgum helstu fréttamiðlunum s.s. RÚV –sjónvarpi og útvarpi og Morgunblaðinu.

Hér er á ferðinni mál sem skiptir alla íslendinga gríðarlegu máli, mál sem heggur að grundvallar lífsskilyrðum okkar, barna okkar og jafnvel barna-barna þar sem vegferð stjórnvalda virðist vera sú að skera hér samfélagsáttmálann í ræmur sem aldrei verður aftur byggt á.

Bæði Hudson og Perkins hafa bent á að aðferðir AGS, þær sömu og íslensk stjórnvöld hafa engist undir, hafa valdið stórkostlegum skaða til áratuga í þeim löndum sem þeim hefur verið beitt. Á hinn bóginn hefur þeim löndum sem hafnað hafi meðulum AGS jafnan vegnað mun betur og þau verið fljótari að rétta úr kútnum eftir áföll.

Hagsmunir almennings hljóta að krefjast þess að samstarfið við AGS verði endurskoðað og að leitað verði annarra leiða út úr skuldafeninu. Gleymum því ekki að það var ekki almenningur sem stofnaði til þessara skulda heldur örfáir fjárglæframenn í samvinnu við vanhæfa ríkisstjórn og stjórnsýslu.

Það er krafa okkar að það verði fjallað um þetta mál í fjölmiðlum og á Alþingi.

Borgarahreyfingin – þjóðin á þing
, 8. Apríl 2009.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fá hvergi að festa rætur

Ég hef hitt nokkra hælisleitur sem búa í limbói á Fit, þar á meðal Noordin. Ég hitti hann fyrst þegar hann var nýkominn til landsins og þá var hann í svo mikilli vanlíðan að hann svaf ekki og langaði í burtu - bara eitthvað. Það er kannski ekki skringilegt - hann kom inn á Fit nokkrum dögum eftir að þar var aðgerð lögreglu og menn vaktir með látum - sumir voru handjárnaðir á nærbrókinni og hundar voru notaðir í aðgerðinni. Ég veit ekki með ykkur en ég held að ég yrði nokkuð óttaslegin ef þetta myndi vera minn veruleiki - sér í lagi ef maður hefur búið við það í heimalandi sínu að foreldrar eða maður sjálfur væri í lífshættu. Ástandið á Fit eftir þessa aðgerð lögreglu var vægast sagt þrúgandi og fólkið þar hrætt.

Ég hitti svo Nour í fyrradag og hann er enn í limbói um hvað taki við á morgunn. Hann var einn af þeim sem átti að senda til Grikklands í fanga/flóttamannabúðir sem S.Þ. telja að séu ekki í lagi - S.Þ. hvetja lönd til að senda ekki flóttamenn þangað vegna slæms aðbúnaðar. 

Eftir að hafa hitt Nour og Hassan er ljóst að þessir krakkar sem flýja löndin sín 17, 18 ára munu eyða bestu árum ævi sinnar í hverjum flóttamanna/fangabúðunum á fætur öðrum eða vera sendir heim í opinn dauðann. Hassan hefur verið á ferðinni frá því hann var 17 ára og er nú hér eftir að hafa verið á flótta í 6 ár.

Þetta eru frábærir og hæfileikaríkir strákar sem ég myndi gjarnan vilja hjálpa -og ég mun gera mitt besta til að hjálpa þeim - því líf okkar hér er paradís miðað við þann veruleika sem þeir koma frá.

Hér er bréf Nour með sögu hans: 

My name is Nour Al-din Alazzawi, I am from Iraq/Baghdad. I left my home-country in 2006, because my father got killed by terrorist, because he worked as a translator for the USA in Baghdad green-zone. Because I also worked with the Americans, they threatened my life and tried to kill me. That is why me and my family fled from our country to Syria, where we stayed around 2 years.

Me, my sister and my brother decided to go to our older brother in Belgium. We had to go through Greece, where we were finger-printed, put managed to go to Belgium. From there we were sent back to Greece, because of the Dublin agreement. In Greece we were not treated like humans. Because of the unacceptable situation in Greece I sent my sister back to Syria to my mother. After some time, I got a permit to stay in Greece for six months. I tried to find work so me and my brother would survive. When I went to extend my permit they told me I had to leave the country within 30 days, because I did not have any papers in Greece. That is when I decided to go to Canada, because it is not a Schengen-country and the possibility that I could stay and live. My plan was to go through Iceland, but here they stopped me and I had to apply for asylum, so I would not be sent back to Greece. I have been here for 7 months now, not knowing what is going to happen.

Last Thursday the police picked me up and put me in jail, where I was told, that I was going to be deported to Greece early next morning. I had to sign a paper which was written entirely in Icelandic. I was told, that I can appeal to this decision within 15 days, but I would have to do this from Greece, which would be impossible and hopeless. Luckily the deportation was stopped. Now I am here and I do not know what is going to happen. I do not want to go back to my country and I ask of everybody who believes in humanity to help me to stay here. What you just read is only a small part of my story. What I am asking for, is just a simple life in peace and without the fear of being sent back.
 
Yours sincerely
Nour Al-din Alazzawi



mbl.is Mannréttindi innantómt tal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Detox í sjálfstæðisflokknum

Sérfræðingar segja að löngu sé orðið tímabært fyrir sjálfstæðis/tökuflokkinn að annað hvort að leysa sig upp eða fara í alvöru detox - hef heyrt að það hreinsi út allan skít/spillingu með undraverðum árangri.

Þá hygg ég að gott væri fyrir flokkinn að drífa sig í huglæga atferlismeðferð vegna áráttuhegðunar sem kennd er við lygar og sjálfseyðingarhvöt á háu stigi.

Þá virðist flokkurinn eiga erfitt með að viðurkenna mistök og axla ábyrgð. Alvarlegt minnistap virðist jafnframt vera að færast í aukana með ógnvænlegum hraða. 

 


mbl.is Guðlaugur Þór: Ég óskaði ekki eftir styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlum við að endurtaka leikinn?

Höfum við efni á því að hlusta ekki á varnarorð hagfræðinga, sem og annarra sem vara okkur við þeirri feigðarför sem við erum að fara með IMF/AGS? Það eru ekki bara Perkins og Hudson sem vara okkur við, Lilja Móses og Þór Saari hafa varað okkur við síðan í upphafi kreppunnar - SJS hafði um það stór orð að skila láninu áður en hann gerðist fjármálaráðherra.

Höfum við virkilega efni á að skella við skollaeyrum enn og aftur eins og fyrir hrunið mikla? Þá voru allir sem sögðu eitthvað um óeðlilega bankastarfssemi mannorðsmyrtir á færi eins og verið er að gera við Perkins og Hudson núna. 


mbl.is Segir John Perkins vera á villigötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að borga ICESAVE?

Samfélagið okkur hefur aldrei verið í eins mikilli hættu. Michael Hudson sagði í gær að landið væri í herkví – að við séum beitt hernaði án vopna. Hér höfum við reyndar lifað við það lengi að fólk sé myrt án vopna – mannorðsmyrt á færi.

Við sem þjóð stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum. Við stöndum frammi fyrir því hvort við þorum að horfast í augu við sannleikann eða hvort við höldum áfram að láta eins og ekkert sé.

Það vilja fáir stjórnmálamenn tala um þá skerðingu sem framundan er – það kemur ekki vel út í kosningaloforðapakkanum. Hvaða máli skiptir það sem ég segi hér um óskir mínar að hér ríki jöfnuður og gefi ykkur loforð um framtíð sem mun aldrei verða ef við rjúfum ekki tengsl okkar við AGS?

Um helgina komu fram upplýsingar frá tveimur erlendum hagfræðingum, Michael Hudson og John Perkins sem benda til þess að íslensk stjórnvöld séu hugsanlega á algerlega rangri leið með þjóðina, leið sem muni hneppa íslendinga í skuldafen um langa framtíð. Báðir halda því hiklaust fram að í slíku skuldafeni munu fyrr eða síðar eignir þjóðarinnar s.s. auðlindirnar, atvinnutækin og stoðkerfi eins og samgöngumannvirki og veitustofnanir, verða seld erlendum fyrirtækjum sem leið út úr vandanum. Þetta segja þeir alþekkt. Og það þekkjum við öll sem höfum kynnt okkur sögu þeirra landa sem AGS hefur "hjálpað".

Ef við rjúfum ekki tengsl okkar við AGS þá verður hér niðurbrotið samfélag, þar sem fátækt, hungur, skortur á menntun og heilbrigðisþjónustu mun ekki verða fjarlæg matröð heldur framtíð barna minna. Ég vil ekki taka þátt í að skapa slíkt samfélag. Við munum ekki fá neina sérmeðferð hjá AGS. Við stofnuðum ekki til skulda vegna ICESAVE - við eigum ekki að borga það þegjandi og hljóðalaust. Það þarf að semja um þessa hluti á öðrum forsendum en hefur verið gert. Stefna XO kemur með góðar lausnir um hvernig hægt er að gera það: 6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. 

Hættum að vera hrædd – verum hugrökk og höfnum því að gera eitthvað sem t.d. Bandaríkin, skuldugasta land í heimi myndi aldrei gera: fara í prógramm hjá AGS.

Það skuldafen sem við erum að taka á okkur mun þýða að við verðum að vinna í 16 tíma í dag í stað 8 til að fá sömu laun og við fáum í dag, ef við þá fáum vinnu. Það skuldafen sem við stöndum frammi fyrir mun aðeins verða dýpra ogóyfirstíganganlegra ef við höldum áfram á sömu braut.
En hvað getum við gert? Er hægt að breyta einhverju? Já, því hvert og eitt okkar skiptir máli, hvert og eitt okkar getur krafist breytinga, getur þrýst á að hér sitjum við ekki með skuldabagga óreiðumanna vegna vanhæfni þeirra sem ráðskast með landið.

Verum hugrökk – þorum að vera öðruvísi og látum ekki hræðsluáróðurinn hafa áhrif á ákvarðanir okkar. Við höfum aldrei haft annað eins tækifæri til að gera eitthvað róttækt, til að breyta handónýtu kerfi sem hefur leitt okkur fram á ystu nöf. Við getum snúið við og það er okkar – ekki annarra að breyta því.

Skorum á ríkisvaldið að leyfa þjóðinni að kjósa um hvort við viljum AGS lánið, skorum á ríkisvaldið að aflétta allri leynd – hvort heldur það sé bankaleynd eða AGS leynd. Við verðum að fá að vita sannleikann til að geta gefið stjórnmálafólki umboð okkar til valds.
Við erum valdið
Við erum kerfið



Fyrirlestur John Perkins í Háskólanum 6. apríl 2009

mbl.is Viljum við það sem var, og hrundi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundir með Perkins og Hudson 6. apríl

Fundur með John Perkins í dag klukkan 17:00, Háskólatorgi, stofa 102.

Fundur með Michael Hudson og Gunnari Tómassyni verður haldinn á Grand Hóteli í kvöld kl. 20.00. 

Michael Hudson - The Financial War Against Iceland - and Within It

Michael Hudson verður með hádegisfyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík, þriðjudaginn 7.apríl kl: 12:00 - 13:00 í stofu 101, Ofanleiti. "The Financial War Against Iceland - and Within It"

 


mbl.is Skýrslan þungur dómur yfir Darling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert um stórtíðindi dagsins á mbl.is, visir.is og dv.is

Í Silfri Egils voru tvö mögnuð viðtöl við þá mætu menn Micahel Hudson og John Perkins. Það er ekki neitt fjallað um það sem þeir höfðu að segja um IMF og skuldir landsins á helstu fréttamiðlum landsins: mbl.is, visir.is og dv.is. Fann myndskeiðin úr silfrinu hjá Láru Hönnu og leyfði mér að skella þeim hér inn - til að tryggja að sem flestir landsmenn fái tækifæri á að hlusta á þá.

Michael Hudson

John Perkins

 Eftirfarandi frétt var inn á ruv.is: "Íslendingar passi auðlindir sínar


Versnandi staða Landsvirkjunar getur verið ávísun á sölu íslenskra auðlinda til stórfyrirtækja og Ísland á að forðast allt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta segir John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull, sem vann við að gera nauðasamninga við ríkisstjórnir þriðja heims ríkja.

John Perkins er höfundur bókarinnar The Confessions of an economic hit man en í henni segir hann frá reynslu sinni þegar hann starfaði sem svokallaður efnahagsböðull fyrir bandarísku þjóðaröryggisstofnunina. Þar vann hann við að gera nauðarsamninga við ríkisstjórnir þriðja heimsríkja til að knésetja þær svo bandarísk stórfyrirtæki ættu greiðan aðgang að auðlindum þeirra. Perkins horfir í þessu sambandi til versnandi fjármögnunarstöðu Landsvirkjunar en undanfarið hafa fjármögnunarmöguleikar fyrirtækisins verið metnir litlir sem engir og staða fyrirtækisins því erfið eða slæm að mati fjárfesta.

Perkins segir þetta er ótrúlega sorglegt og fyrirsjáanlegt. Náttúrulegar orkulindir séu mestu auðlindir Íslendinga og stór áliðnaðarfyrirtæki hafa komið hingað til lands til að notfæra sér það. Hann segir algjörlega fáránlegt að ríkisrekið orkufyrirtæki tapi peningum. Þar með séu Íslendingar ekki aðeins að gefa auðlindir til erlendra stórfyrirtækja heldur tapa gríðarlegum fjármunum. Perkins spyr hvort það myndi ekki gangast Íslendingum betur að nota náttúrulegu orkuna til að hita upp stór gróðurhús til matvælaframleiðslu. Þessi þróun sé alveg dæmigerð þegar svokallaðir efnahagsböðlar komi til sögunnar. Og með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, verður ástandið aðeins verra. Perkins segir að alþjóðlegar lánastofnanir taki þátt í leiknum af fullum krafti og varar sterklega við Alþjóðagjaldeyrissjóðnum."

og þessi líka:"Segir Ísland ekki eiga að borga


Michael Hudson, prófessor í hagfræði við Missouri-háskóla, segir að íslenska ríkið eigi ekki að borga skuldir sem það hefur ekki sjálft stofnað til og að hætta eigi samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Verið sé að ráðast á íslenska hagkerfið.

Markmiðið með árásinni segir hann vera að ná yfirráðum yfir náttúruauðlyndum og fjármunum Íslendinga. Hudson var gestur í Silfri Egils í dag. Hann segir að fólk átti sig kannski ekki á þessu en haldi að það séu eðlilegir viðskiptahættir að lánardrottnar krefjist þess að fá greitt strax en svo sé ekki.

Lífsgæði geti ekki aukist undir þessum kringumstæðum þegar vextir og skuldir eru að sliga þjóðarbúið sem geti ekki staðið undir greiðslunum. Hudson gagnrýnir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir að láta Ísland greiða af skuldum sem það ræður ekki við og mælir með því að samstarfinu við sjóðinn verði hætt."

Þetta er það eina sem ég fann á öllum fréttavefum landsins fyrir utan það sem Egill Helgason skrifar sjálfur um þáttinn. Finnst furðulegt þetta áhugaleysi fjölmiðla á stórfrétt af þessu tagi. Bloggheimar loga í umræðum en engum fréttamanni finnst ástæða til að fjalla um þetta. 

 


mbl.is Yfir 1000 hafa sótt um greiðsluaðlögun
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

John Perkins og Micael Hudson á Íslandi

Í dag mun Egill Helgason spjalla við þessa merku menn í Silfri Egils. Ég skora á alla sem lesa þetta að láta það ekki fram hjá sér fara.

Að auki mun John Perkins halda eftirfarandi erindi klukkan 17:00 á mánudaginn í stofu 102, Háskólatorgi.

Er allt uppi á borðinu ? / Is everything on the table?

Síðastliðin 40 ár hefur Ísland, lítið land í norðurhöfum, leitað stórra lausna í orku-, atvinnu-, og efnahagsmálum.  Á þessu málþingi verður fjallað um stóriðjustefnu stjórnvalda í ljósi náttúruverndar, hnattvæðingar og efnahaglegs sjálfstæðis.

Sérstakur gestur á málþinginu verður bandaríski rithöfundurinn John Perkins, höfundur The Confessions of an Economic Hitman.  Perkins er staddur hér á landi í tilefni af frumsýningu heimildamyndarinnar Draumalandið, sem byggð er á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar, en Perkins kemur fram í myndinni.                

17:00Introduction
 17:10 John Perkins, höfundur Confessions of an Economic Hitman
 Economic crisis: Hitmen hit Iceland and the world
 18:00 Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur
 What is Iceland´s benefit when dealing with foreign investors?
 18:15 Hjálmar Gíslason, DataMarket
 What does the data tell us?
 18:30  Pallborðsumræður/Panel Discussion
19:00 Fundarlok/End

 


Vonlaus í vonleysinu

Það fór eitthvað fyrir brjóstið á sumum félögum mínum að SME setti okkur undir hatt vonlausu framboðana. Ég er bara þannig að eðlisfari að ég er frekar vonlaus í því að vera vonlaus:)

Þetta var merkileg upplifun fyrir mig - fyrstu útvarpsumræðurnar fyrir XO og fyrstu svona umræður sem ég hef tekið þátt í yfirhöfuð í útvarpi. Í þættinum voru ásamt mér, Bjarna Harðar og Grétari Mar - þátturinn heitir  Sprengisandur og er í umsjón Sigurjóns M. Egilssonar. Þessi þáttur var sunnudaginn 22. mars. Smellið hér til að hlusta.

Ég skemmti mér bara mjög vel og held að ég drífi mig bara í fleiri svona þætti ef mér verður boðið.


Að fara í framboð

Lífið er skringilegt ferðalag og enginn veit sína ævi fyrir, svo mikið er víst. Ég get ekki sagt að ég hafi tekið þá ákvörðun að leiða lista með léttum hug. Ég veit að við erum að fara að kljást við einhverja þá verstu tíma sem þjóð mín hefur staðið frammi fyrir. En það er annað hvort að hrökkva eða stökkva og mér fannst mikilvægt að hafa hugrekki til að stíga inn í óttann sem felst í því að takast á við þetta hlutverk. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að venjulegt fólk bjóði sig fram í þetta hlutverk. Ég er ósköp venjuleg manneskja sem rétt eins og svo margir óttast um framtíð komandi kynslóða, óttast hvað koma skal ef við þurfum að bera skuldir óreiðumanna. Ég vona að þessi ákvörðun mín verði til þess að fleiri gefi kost á sér sem hafa engin hagsmunatengsl, sem eru að upplifa á eigin skinni þá kreppu sem við erum rétt að byrja að stíga inn í. Ég vona að þið komið til liðs við okkur og hjálpið okkur að ryðja veginn að auknu lýðræði hérlendis. Oft hefur mér liðið sem ég búi fremur í einveldi en lýðveldi. Flokksræðið er algert og stendur án efa fyrir því að þau mál er brenna hve mest á að koma í gegnum þingið, virðast pikkföst.

Ég óttast að skjaldborgin svokallaða verði notuð sem kosningamál - skil ekki af hverju þau mál er varða þessa skjaldborg séu ekki í algerum forgangi inni á þingi. Ég skil ekki af hverju hér var hægt með einu pennastriki að setja á neyðarlög sem ganga á skjön við stjórnarskrá okkar, ég skil ekki af hverju það er ekki hægt með einu pennastriki að stoppa að fólk sé borið út á götu. Ég í einfeldni minni hélt að það væri það sem gera ætti fyrst þegar ný stjórn tók við. Hvað á þessi seinagangur að þýða?

Ég ætla ekki að lofa neinu sem ég veit ekki hvort að ég geti staðið við - ég get bara lofað að gera mitt besta. Ég get lofað því að starfa eftir stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar - Ég mun vera dugleg að fá lánaða dómgreind frá ykkur sem eruð baklandið - þið sem eruð rétt eins og ég sannfærð um að hér verður að hrinda af stað róttækum breytingum á stjórnsýslu og valdi - hér verði að komast á þrískipting valds og að hér þurfi að losa um þau höft sem flokksræðið hefur þvingað þjóðina inn í. Það er ekki eðlilegt að heil helgi fari í að tala um foringja og glæsileika landsfunda á meðan þjóðinni blæðir. Ég hef engan áhuga á að daga uppi á þingi - ég vil aftur á móti fara og moka flórinn - ég vil fá aðgang að þeim upplýsingum sem þjóðin kallar eftir en fær bara þögn - ekkert hljóð - bara yfirvofandi niðurskurðarblóð. 

Ég get lofað því að svíkja aldrei samvisku mína eða siðferðiskennd sem oft er stærri en góðu hófu gegnir. Ég mun frekar víkja en að fara inn á grá svæði. Ég mun frekar víkja en að þynna út stefnu okkar þannig að hún verði svipur hjá sjón. 

Ég hef aldrei litið á þann stuðning sem Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, tengist beint persónum - við erum öll aðalleikendur í þessu leikriti lífsins og við skiptum öll máli - rödd okkar hefur aldrei þagnað þó sumir haldi því fram að raddir fólksins séu þagnaðar - við erum líka raddir fólksins - við vorum líka í mótmælum frá upphafi hrunsins - skipulögðum viðburði og fundi - við slógum á búsáhöld og hrópuðum okkur hás en síðast en ekki síst þá höfum við unnið myrkrana á milli við að finna lausnir - í allskonar hópum - frá öllum mögulegum þjóðfélagshópum. 

Næg eru verkefnin sem framundan eru - ég hef engan áhuga á að sitja með hendur í skauti. Þetta er mín leið til að sá fræjum - til að hafa áhrif, til að breyta því sem mér finnst vera ólíðandi. 

Nóg um mig: hvað vilt þú? Hvað finnst þér mikilvægast að gera til að upplifa réttlæti og sátt innra með þér, meðal þjóðarinnar?


mbl.is Rithöfundar leiða í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509133

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.