Leita í fréttum mbl.is

Kalla eftir alvöru fjölmiðlaumfjöllun

Á tímum sem þessum þarf maður trausta fjölmiðla sem eru ekki málgagn þeirra sem réðu för í spillingarleiknum mikla. Staðan er því miður þannig að allir helstu fjölmiðlar landsins eru undir stjórn útrásarvíkinga og stjórnmálamanna sem tóku þátt í áhættuleik sem enn er engan veginn lokið.

Ég vil fá að skipta þessu fólki út úr brúnni, henda öllum flokkum út í hafsauga og kjósa einstaklinga. Ég treysti ekki þeim er telja að það sé þjóðinni fyrir bestu að vita ekki nákvæmlega hver staðan er. Ég treysti ekki þeim sem semja ekki fyrir opnum tjöldum, ég treysti ekki þeim sem neyta okkur um að fá að kjósa. Ég fer fram á afsökun til þjóðarinnar fyrir öll mistökin og afglöpin. Ég lýsi vantrausti á alla víkinga og einveldinga á þingi, í bönkum, í útrás. 

Ég kalla eftir rannsóknablaðamennsku, ég kalla eftir réttum fréttum. Í gær voru mótmæli, sem ég reyndar komst ekki á, en eldri sonur minn fór á. Hann sagði mér að þarna hefðu verið 2000 eða fleiri. Allir fjölmiðlar héldu því fram að þarna hefðu aðeins verið 500 manneskjur. Ég verð að viðurkenna að ég treysti syni mínum betur sem og öðrum sem þarna voru betur heldur en fjölmiðlum, enda hafa þeir stundað lygar um langa hríð eða aðlögun sannleikans. Ég hef sjálf unnið hjá dagblaði og sá vinnubrögðin. Þau eru ekki vönduð og ekki hikað við að hagræða sannleikanum ef það mögulega selur fleiri blöð. 

Ég hef margoft orðið vör við að sannleikanum er hnikað í fjölmiðlum og veruleikinn afbakaður, síðan tekur fólk mark á þessu og myndar sér afstöðu útfrá því sem þar er sagt. Mér finnst eitt helsta áhyggjuefnið í dag að það vanti gagnrýna hugsun og hugrekki í fjölmiðlana.

Ég kalla eftir því að þeir fjölmiðlamenn og konur sem hafa enn einhverja sómatilfinningu og æru, mótmæli því að segja upplognar fréttir eða fréttir sem greinilega er verið að hagræða sannleikanum, hvort heldur að það sé til að selja fleiri blöð eða þóknast þeim er greiða þeim launin. 

Ég er alveg búin að fá nóg að lygum og hálfsannleika. Ég vil fá að vita hvar við stöndum, þjóðin þarf að vita hvar hún stendur. Við erum ekki lengur í miðju stormsins. Ég vil vita hvað er verið að bjóða Rússum og IMF í skiptum fyrir lán. Ég vil vita af hverju Norðmenn eru ekki búnir að hjálpa okkur. Ég vil fá kort yfir tengsl þeirra er nú leiða land og fjármálastofnanir.  Og síðast en ekki síst vil ég fá að kjósa, ég treysti ekki þeim sem frömdu glæpinn til að vera dómarar í sínu eigin máli.

Ég vil nota tækifærið og þakka þeim manneskjum sem hafa staðið vaktina og oft fengið illt fyrir. Ég vil þakka þeim fyrir hugrekkið og heiðarleikann. Það er vissulega umhugsunarefni af hverju enginn tók mark á þeim nema einstöku "svartsýnisfólk og úrtölufólk".


mbl.is Útreið Íslands engin tilviljum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mig langar að heyra sannleika frá vörum ráðamanna

Þeim hefur tekist að rugla mig svo hressilega í ríminu að ég veit ekki lengur hvort að ég eigi að hamstra eða ekki. Ég veit ekki hvort að allt sé gufað upp eða hvort að við séum stöndug. Ég veit ekki hvort að við erum lögð í alheimseinelti eða hvort að við höfum kallað þessa hörku yfir okkur.

Eitt veit ég þó að ég harma ekki að við komumst ekki í öryggisráðið. Við þurfum að sýna aðhald í fjármunum og höfum ekki efni á einhverjum útávið flottræfilshætti lengur.

Annars þá ætla ég að frumflytja fyrsta kafla Kreppuljóða á Rosenberg í kvöld í samfloti við biblíubeltishljómsveitina Southside, sem státar stormhviðum eins og Mikka Pollock og Ron Whitehead.

Mun líka lesa Wake up ljóðið mitt sem ég samdi fyrir 10 árum síðan og er akkúrat um þessa tíma sem við erum að fara í gegnum núna... það er ekki hægt að þýða það með góðu móti en ég bjó til heila ljóðalistaverkabók með þessum titli. Heimavinnubók sem ég saumaði með ærum sársauka að japönsku sniði... nú er í tísku að gera heimagert, það er eins og ég segi alltaf, ef ég þrjóskast við að vera í samhljómi við sjálfa mig þá kemst ég alltaf að lokum í tísku;) engin ástæða að eltast við slíkt....

 

 

Wake UP

 


mbl.is Rétt að fara í framboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósa takk

Mikið er rætt um, meðal annars hér á blogginu mínu að hér skulu ekki verða galdrabrennur. Það er sniðugt að nota þetta orð, runnið undan rifjum þeirra sem vilja að við tökum því sem hefur gerst hér án þess að segja neitt, gera neitt, eða krefjast neins. Kannski er vita gagnslaust að mótmæla, en ég hef séð það að ef nógu margir sýna í orði og á borði að þeir vilji breytingar að það virkar.

Ég vil ekki galdrabrennur, ég vil ekki tjarga neinn EN ég vil ekki að sama fólkið sjái um endurreisn sem felldi þetta samfélag. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvaða áhrif allt þetta sukk og einkavinavæðingarbull hefur kallað yfir okkur.

Sumum finnst það rangt að krefjast þess að Davíð byrji á því að fara frá völdum. Allt eða ekkert segja sumir og satt best að segja hefði ég viljað að mótmælin á morgun myndu fjalla um allan pakkann... ég vil fá að kjósa, ég vil nýja stjórn yfir allan seðlabankann, ég vil að þeir auðmenn sem tóku þátt í fallinu fái að gjalda fyrir það, selji eigur sínar og borgi skuldir sínar til þjóðarinnar. 

Ég veit ekki hvort að fangelsi sé lausnin, en það væri ágætt ef við myndum senda þetta fólk út í Papey og leifum þeim að búa við meinlætalifnað um stund, eða fá þau í samfélagsþjónustu í nokkur ár. 

Ég hafði aldrei neitt sérstakt traust til ríkisstjórnar, banka eða auðmanna. Ég vil fá að kjósa, ég held að Þorgerður hafi rangt fyrir sér þegar hún reynir að bjarga eigin skinni og vill ekki leyfa okkur að kjósa fyrr en eftir 3 ár. Ríkisstjórnin og sér í lagi XD er vanhæft til að fara í naflaskoðun án þess að færa einhverjar fórnir. Þetta er eins og alki segist ætla að fara í meðferð eftir næsta fyllerí. 

Ég vil fá að kjósa, ég vil hreinsun, en ég verð að viðurkenna að ég held að ég muni skila auðu. Ég lýsi vantrú á allt og alla. Ég er þreytt á atvinnupólitíkusum, ég er þreytt á því að þeir sem stjórna hér eru í engum tengslum við veruleikann. Ég er þreytt á því að heyra stöðugt talað um veruleika minn af einhverjum greiningardeildum, af fólki sem getur ekki skilið hvað það er að missa allt og eiga ekki fyrir mat eða öruggt húsaskjól. 

Ég tek það fram að ég á ekkert og hef engu tapað, en þarf eins og aðrir að þrengja sultarólina, því allt hefur hækkað svo mikið, sér í lagi matvara og það er harla erfitt að sleppa því.  Ég hefði ekkert á móti því að styrkari stoðum yrði veitt undir okkar landbúnað. Synd að sjá öll gróðurhúsin sem eru að grotna niður í Hveragerði. 

Ég vil sjá alvöru breytingar hér, við þurfum að læra að vera sjálfbær, við þurfum að leggja metnað í að búa til samfélag sem er ekki háð olíu og nánast öllum hráefnum til að geta staðið af okkur storma af þessum tagi. 

Ég vil sjá alvöru samfélagsbreytingar, þar sem við lærum aftur að hafa samábyrgðartilfinningar og að samfélagsábyrgðin er ekki á fárra höndum. Samfélög okkar eru alltaf byggð á sjálfum okkur. Kannski ættum við að reka þjóðina eins og hún leggur sig. Ráðamenn segja að við höfum öll tekið þátt í sukkinu og svínaríinu og allir hafi notið góðs af góðærinu. Ef svo er ... þá erum við öll vanhæf.


mbl.is Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákall til þjóðarinnar

Ákall til þjóðarinnar - Davíð Oddsyni vikið frá störfum

Við mótmælum öll – Hittumst á Austurvelli á laugardag kl. 15. Vertu þáttakandi, ekki þolandi. Hvetjið alla sem ykkur eru nærri til að mæta líka. Við fáum kannski bara þetta eina tækifæri.
Ákall til þjóðarinnar - Davíð Oddsyni vikið frá störfum – Eina leiðin til að þjóðin haldi sjálfsvirðingu sinni nú er að hún sameinist í fjölmennum mótmælum með ein skýr skilaboð til stjórnmálamanna. Skýr skilaboð um að þjóðinni stendur ekki á sama, skilaboð um að hún sé þátttakandi en ekki þolandi í þeirri atburðarás sem nú fer í hönd. Skýr skilaboð sem valdhafar geta brugðist við strax, að Davíð Oddssyni verði vikið úr starfi Seðlabankastjóra.

Davíð Oddson ber mesta pólitíska ábyrgð á því að bankarnir voru einkavinavæddir á sínum tíma og hleypt í útrás með veikburða eftirlitskerfi. Síðan stillti hann sér upp til að fylgjast með þeim sem Seðlabankastjóri án faglegar þekkingar. Með röð mistaka í hagstjórn Seðlabankans undir forustu Davíðs og ótrúlegan einleik hans síðustu vikur er þjóðin gjaldþrota, rúin trausti og virðingu í alþjóðasamfélaginu.

Nýjir tímar - Vertu þáttakandi, ekki þolandi

http://www.nyirtimar.com/

p.s. þetta er ekki á mínum vegum en ég styð þetta heilshugar og ætla að mæta... það er kominn tími til að sýna að við látum ekki troða meira á okkur.


mbl.is Rekin úr búð í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um meinta kreppu

Ég get ekki hugsað mér að skipuleggja mótmæli, þó slíkt brenni á mér, ég get ekki hugsað mér að skrifa langar ritgerðir þegar það form sem ég hef alltaf heillast hve mest af liggur svo beint við.

Búin að fá upp í kok af löngum pistlum um eiginlega ekki neitt, því við erum engu nær um hvað varð um lýðræðið okkar. Spilling grasserar fyrir opnum tjöldum, en hér skal ekki kosið.

Ætla því að halda áfram að skrifa ljóð í knöppum ljóðabálk sem að sjálfsögðu heitir Kreppuljóð. Fyrst fjalla ég um fallið, er næstum búin með þann bálk, er núna að skrifa um reiðina, get ekki beðið eftir að komast í lokabálkinn sem um fjalla um upprisuna. Ég ætla að skrifa þetta á meðan þjóðin er að fara í gegnum þessi stig. Finnst sem við séum hætt að falla og ættum að vera að skríða inn í reiðina. Reiði á fyrst að vera stormur innra sem feikir til snyrtilega röðuðum fallvöltum veruleikanum, síðan á hún að hvetja mann til að þrýsta á breytingar, að fara úr ofbeldissambandinu, að hætta að laumast í ríkið fyrir alkann, að hætta að ljúga fyrir fíkilinn, að hætta að láta eins og allt sé í lagi. Það er ekki allt í lagi, en enn sem komið er vitum við ekki nákvæmlega hvað er mikið er ekki í lagi. 

Kreppuljóð

Fallið

Enn í nýjustu tísku
eilítill útsölubragur á
góðærisspikið vellur út um buxnastreng
og allt of þröngar peysur

bótaxfylltar innfallnar


sílikon brennur illa
í fimbulkulda
fallina gilda


------------------------------------

Þjóðin er lömuð
hrædd
í skuggunum falla þau hvert á fætur öðrum
í hællærisharakírí

tómar tóftir glerhalla
og þó erum við rétt að byrja

------------------------------------

Þoturnar þagnaðar í annarri heimsálfu bíða
færis á ný
þjóðargersemin horfinn
æran ekki traustari en svo
að ljúfan og brúnklukkan blésu á spilaborgina
höff pöff - kreditkortaturnarnir hrynja


timburmennirnir virðast engan enda taka
jafnvel krúttin ekki lengur sæt


suss hér verða engar galdrabrennur

------------------------------------

Hann hneppir hnöppum úr gulli
í Kensington
á meðan sitjum við uppi með glópagullið
og óræðnar tilfinningar

en suss hér verða engar galdrabrennur

------------------------------------

Undir stólum ríkisstjórnar eru pappírstætarar
þar er skýrslum laumað undir
sem allir ættu að sjá
en fáir vilja heyra

------------------------------------

Sjarmatröllið í gráfjalli
steingerfð þjóð undir
hvössu bliki

svo brosir hann sakleysislega og reitir einn brandara
og álögin eru fullkomnuð
lemúraþjóðin gekk fyrir björg
af því að pabbi sagði það

hér verða engar galdrabrennur

------------------------------------

Upphæðir sem enginn skilur
og vogunarsjóðir og
svikamyllur
og einn og einn don kíótí

Við erum ekki gjaldþrota
við erum stöndug
enginn getur lengur reiknað hve hár skuldahali hvers mannsbarns eyjunnar er
upphæðir sem enginn skilur
eru ekki raunverulegar
fyrr en launaumslagið er skyndilega tómt

hókus pókus
góðærið var okkur öllum til góða
haldið áfram að kaupa
haldið áfram að vera þæg
og þegja

það er gott fyrir hagkerfið að vera gráðugur

------------------------------------

Skipbrot frjálshyggjunnar
skipbrot auðvaldsins
skipbrot Milton Friedmanista
nú eru þeir sem það studdu
stimplaðir afturhaldskommatittir

Davíð kominn í heilan hring
í hringavitleysunni

Íslendingar gjalda sjálfstæði sitt dýru verði


------------------------------------

Nú er litla Ísland
hryðjuverkaþjóð
hefur framið stórfelld hryðjuverk í skjóli frjálshuggunar hyggjunar
á sitt eigið sjálfstæði
sína eigin afkomu

kalla ekki sumir slíkt sjálfsmark
á ögurstundu
í vítaspyrnuleik verðlausra verðhalla
verðlausra lífsgilda

hvar er kletturinn
öryggið
traustið rúið


mbl.is Mjög róttæk viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuljóð II

Fallið II

Þoturnar þagnaðar í annarri heimsálfu bíða
færis á ný
þjóðargersemin horfinn
æran ekki traustari en svo
að ljúfan og brúnklukkan blésu á spilaborgina
höff pöff - kreditkortaturnarnir hrynja


timburmennirnir virðast engan enda taka
jafnvel krúttin ekki lengur sæt


suss hér verða engar galdrabrennur


mbl.is Svalir Íslendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuljóð

Segja má að tímar sem þessir séu einskonar gullnáma fyrir andans fólk, verandi skáld fyrst og fremst þá get ég ekki annað en skrifað ljóð er tengjast þessum miklu viðburðum, ekki aðeins hér heldur út um heimsbyggð alla. Ég byrjaði því fyrir nokkrum dögum að skrifa Kreppuljóðabók sem mun skiptast í nokkra kafla. Ég er að skrifa kaflann "Fallið" núna og hef ákveðið að hafa kreppuljóðin knöpp:) Að sjálfsögðu mun bókin enda á kaflanum "Upprisan". Mun deila með ykkur þessum ljóðum en tek það fram að þau eru ekkert pússuð, heldur hrá eins og ástandið...

Fallið

I
Útundan mér sé ég kreppuhönd
lauma tjarnargæs inn í skjannahvítan Range Rover
flaumur fjaðra eins og blindhríð um stund

 

c_documents_and_settings_brjann_office_my_documents_islenskijeppinn.jpg

 


mbl.is IMF tilbúinn að hjálpa Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk kærlega

Ég ætla með sanni að þiggja þetta góða boð:) taka með mér börnin og njóta þessarar stórkostlegu hljómsveitar. Mun án efa veita birtu í sálartetur.
mbl.is Afboðunin ákveðinn léttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóð án lags

Steinn Steinarr hafði ótrúlegt vald á skáldmálinu og djúpan skilning á því hvernig yrkja átti alþýðuljóð sem jafnframt höfðuðu til þeirra sem djúpvitrari þóttust vera. Var mér mikil fyrirmynd þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á skáldabraut þegar ég var 14 ára. Margar tilfinningar hafa brunnið í brjósti mínu undanfarna daga og ef til vill lýsir þetta ljóð ágætlega hugarástandi landans í dag. Finnst sem fólk ráfi um í einskonar losti og virðist hafa týnt raust sinni og þeirri gæfu að vita að við getum öll haft áhrif á gang mála ef við stöndum saman, ekki til að hlusta á gleðibankann, heldur til að sýna í verki að okkur er nóg boðið. Ég hvet alla til að líta inn á bloggið hennar Láru Hönnu en þar kemur fram að á meðan þjóðinni blæðir sitja þeir enn að kjötkötlunum sem tóku þátt í braskinu, nú í boði ríkisstjórnarinnar. Tími til að finna röddina innra með okkur og láta almennilega í okkur heyra.

Setti síðan lagið við Ljóð án lags eftir Bergþóru Árnadóttur í tónhlöðuna, njótið vel.

Ljóð án lags
Ljóð: Steinn Steinarr


Ég reyndi að syngja
en rödd mín var stirð og hás,
eins og ryðgað járn
væri sorfið með ónýtri þjöl.
Og ég reyndi á ný,
og ég grét og ég bað eins og barn.

Og brjóst mitt var fullt af söng,
en hann heyrðist ekki.
Og brjóst mitt titraði
af brimgný æðandi tóna,
og blóð mitt ólgaði og svall
undir hljómfalli lagsins.
Það var söngur hins þjáða,
hins sjúka, hins vitfirrta lífs
í sótthita dagsins,
en þið heyrðuð það ekki.

 


mbl.is Hvað sagði Davíð?
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

SNÚUM BÖKUM SAMAN!

Hvatning til allra

Það ástand sem hefur skapast í þjóðfélaginu er hreint út sagt skelfilegt. Og
það á eftir að versna. Þeir ráðamenn sem sitja að völdum hafa sýnt að þeir
eru ekki vanda sínum vaxnir. Við viljum þá burt og betur menntað og
ábyrgðarfyllra fólk til að taka við.

Mótmæli verða hér eftir á Austurvelli daglega klukkan 12.00 á hádegi.
Þau byrjuðu í dag, laugardag 11. október. Hér með er skorað á fólk að láta
stjórnmálaskoðanir, eineltisaðferðir og ofbeldi í allri mynd, lönd og leið
og sameinast og mótmæla ríkjandi ástandi.

Krafist er þess að Seðlabankastjórn segi umsvifalaust af sér, eða verði
leyst frá störfum. Hún er rúin öllu trausti hérlendis og erlendis.

SNÚUM BÖKUM SAMAN! Hittumst og ræðum málin. FJÖLMENNUM!
mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsvíg í kreppu

Nú heyrir maður að fólk hafi tekið sitt eigið líf út af þessum sérkennilegu tímum sem við búum við. Aðstandendur þeirra eru fremja sjálfsvíg er týndur hópur í samfélaginu okkar og fá lítinn stuðning. Enn er alið á mikilli skömm varðandi sjálfsvíg. Það auðveldar ekki sorgarferlið fyrir þá sem missa ástvini sína á þann hátt.

Ég hef í gegnum tíðina talað við ýmsa aðila í heilbrigðisgeiranum og lagt til að aðstandendum sjálfsvíga verði veitt einskonar fagleg áfallahjálp. Fólk sem lendir í því að missa ástvini á þennan hátt er alveg jafn lamað og aðrir sem lenda í áföllum. Ég stakk líka upp á því að útbúinn yrði bæklingur með upplýsingum um hvert fólk gæti leitað. Ég hef ekki séð neitt slíkt framkvæmt ennþá. Legg til að þeir sem vinna að geðheilsu landsins geri nú eitthvað í þessu. Því án efa munu fleiri en áður falla í valinn á þennan hátt og afar mikilvægt að styðja við bakið á þeim fjölskyldum sem eiga sárt um að binda ekki aðeins út af fjárhagskrísu heldur bætist það ofan á að upplifa sektarkennd og skömm sem oft tengist sjálfsvígum aðstandenda.


mbl.is Mikilvægt að sofa nóg á tímum sem þessum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð út, Ragnar inn

Hvet fólk til að horfa á viðtal við Ragnar í Silfri Egils í dag. Þetta er maður sem ég ber traust til, enda greinilega með almennilega jarðtengingu. Er ekki hægt að virkja hann, skora á Björgvin og Geir að njóta ráðgjafar hans áður en fleiri mistök eiga sér stað. Held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir þeim hættum sem enn steðja að. Það á að skipta Davíð út fyrir Ragnar, strax í dag.

Tek það fram að ég þekki Ragnar ekki neitt og veit ekki einu sinni hvaða pólitísku stefnu hann fylgir en það er greinilegt að hann hefur 100% betri yfirsýn og þekkingu en sá sem stendur í stafni Seðlabankans. 


mbl.is Ragnar: Ríkið stendur ekki undir skuldbindingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturhvarf

Var búin að lofa því að deila með ykkur ljóðum og tónlist á þessum sérkennilegu tímum... fannst þetta ljóð Steins við lag Bergþóru Árnadóttur eiga vel við gjörningaveðrið á flokksráðsfundi þeirra "sjálfstæðu". Lagið má finna í fluttningi Pálma Gunnars í tónhlöðunni.

Ljóð: Steinn Steinarr

Ó, græna jörð, ó, mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.


Ég viðurkenni mína synd og sekt:
ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns
og elti vafurloga heimsku og hjóms
um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.


Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!


mbl.is Tár felld á flokksráðsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirmæli Íslands

 
Þetta gætu verið eftirmæli um hina íslenzku þjóð! 
 
EFTIRMÆLI
Ljóð: Steinn Steinarr
Lag: Bergþóra Árnadóttir

Þú varst bæði auralaus og illa klæddur maður,
með afar stóra fætur og raunalegar hendur.
Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum sem slíkur,
og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.

Og sjaldan heyrðist talað um sálargáfur þínar,
og sennilegt þær hafi frekar lítinn ávöxt borið.
Þú þekktir hvorki leyndardóma þessa heims ná annars.
Og það var ekki meira en svo að þú kynnir Faðirvorið.

Þú reyndir samt að bjarga þér. Og fékkst á yngri árum
við arðberandi fiskirí í Grindavík og Leiru.
En svo var eins og lukkan hefði lagt sig ögn til hliðar,
það lögðust á þig veikindi og skuldir, ásamt fleiru.

Þú áttir jafnvel stundum býsna örðugt með að lifa
og ennfremur var tóbaksleysið kunnugt heima hjá þér.
Og giktin, sem er launráð og lymskufull í skapi,
hún lagðist oft svo herfilega þungt í bakið á þér.

Þú kyntir stundum miðstöð fyrir kaupmanninn og prestinn,
og kaupið þitt var hærra en þér bar, að réttu lagi,
það var samt lítill vafi, að þig langaði í meira.
Þú lézt þér jafnvel sæma að kvarta um eigin hagi.

Það sást þó bezt í vetur, er þú týndir tóbaksbauknum
og tíkin komst í grautinn, sem læknisfrúin gaf þér,
hve hugur þinn var bundinn við heimsins lystisemdir,
og hörmulega lítils við gátum vonazt af þér.

Þú gerðist oft svo djarfur, að tala um toll á kaffi
og taldir þetta glæpsamlegt af stjórnarherrum landsins,
en slíkt er ekki ráðlegt fyrir ræfla af þínu tagi,
og reynist jafnvel skaðlegt fyrir trúargleði mannsins.

Þér hlotnuðust þó molarnir af höfðingjanna borðum,
en hamingjan má vita hvort þú skildir miskunn slíka,
og hvort þú hefir lifað samkvæmt lögmáli vors herra,
sem lætur þorskinn veiðast fyrir fátæka sem ríka.

En loksins ertu dauður, þú lítilsigldi maður,
og laun þín eru náttúrlega sanngjörn eins og hinna.
Við ætlum hvorki að forsmá þig né fella þunga dóma.
Þér fylgir inn í eilífðina kveðja bræðra þinna. 


Ljóð inn í svartnættið

lovers.jpgÆtla að halda uppteknum hætti og bjóða upp á ljóð og lög - aðallega lög eftir móður mína heitna Bergþóru Árnadóttur á þessum miklu umbreytingatímum. 

Ég mæli með því að gera eitthvað fallegt - þó ekki sé nema eitt lítið bros gagnvart einhverjum sem þú þekkir ekki neitt. Hér er mikil spenna og reiði í lofti. Skiljanlega. En við gerum bara illt verra ef við festumst í vef reiðar. Hefndar. Efnahagsfárviðrið mun ganga yfir. Það er ekkert annað að gera en að byrja upp á nýtt vonandi með einhvern lærdóm að leiðarljósi.

 

 

 

Álagaskógur

 

Við læddumst inn í skóginn

Skárum nöfnin okkar
í voldugasta tréð
um niðdimma nótt

Sáum ekki
morknaðar ræturnar
að greinarnar hófu sig
ekki mót himni,
heldur héngu niðurlútar

Við skárum und í lófa
Blönduðum blóði
sem varð að þunnri húð.
Storknaði í sári trésins.

Blinduð í glýju heitstrenginga
byggðum við fallegar draumaborgir
úr efniviði hverfulleikans

Þegar þeir hrundu
vaknaði skógurinn

Álfadrottningin kom til mín í draumvöku
með rúnum ristan hring
smeygði honum
á vísifingur minn

Augun brostu breytingum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Okt. 2008
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.