Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Fjölmenningardagurinn

Fjölþjóðaganga, Bambusdans og dans Snæljónsins frá Tíbet á Fjölmenningardegi Reykjavíkur 16. maí.

Fjölmenningardagurinn í  Reykjavík verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 16. maí nk.  Þetta er í  fyrsta sinn sem Fjölmenningardagurinn er haldinn en markmiðið er að fagna fjölbreytileikanum sem borgarsamfélagið býður upp á.  Glæsileg dagskrá er í boði sem miðar að því að allir fái notið sín og fjölbreytileikinn blómstri.  

Dagskráin hefst klukkan 13.00 með fjölþjóðlegri göngu sem fer af stað frá Hallgrímskirkju. Fjölþjóðagangan er samstarfsverkefni Heimsgöngunnar og ýmissa samtaka innflytjenda á Íslandi. Markmið Heimsgöngunnar, sem fer fram síðar á þessu ári, er að stuðla að friði í heiminum og tilveru án ofbeldis.  Yfirskrift Fjölþjóðagöngunnar að þessu sinni er friður og eining sem á mjög vel við um þessar mundir. Ómar Ragnarsson hefur samið Heimsgöngumars sem Lúðrasveitin Svanur mun frumflytja við upphaf göngunnar og svo aftur þegar komið er á leiðarenda í Vonarstræti við Ráðhús Reykjavíkur.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur og Iðnó hefst svo fjölbreytt skemmtidagskrá frá klukkan 14.00- 17.00 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þar kennir ýmissa grasa, meðal annars Bambusdans, dans Snæljónsins frá Tíbet, Japönsk teathöfn og söngur frá Kenía, Sri Lanka, Írak, Búlgaríu og Indlandi svo eitthvað sé nefnt. Af nógu verður að taka og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fjölmenningardagurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Alþjóðahúss og  Heimsgönguhópsins og er stefnt að því að gera Fjölmenningardaginn að árlegum viðburði í borginni.

Minningartónleikar um mömmu: Bergþóru Árnadóttur

Kæru félagar - á morgunn sunnudaginn 15. febrúar verða haldnir tónleikar til að heiðra minningu móður minnar, Bergþóru Árnadóttur. Þetta er afmælisdagurinn hennar en hún hefði orðið 61 á morgunn. Hennar er sárt saknað en mikil gjöf að sjá lög hennar glædd lífi í flutningi frábærra listamanna. Komið nú endilega ef þið hafið tök á - þætti vænt um að sjá ykkur:) Hér er fréttatilkynningin: 

Kápan af bókinniMinningartónleikar um söngkonuna og tónsmiðinn Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 15. febrúar kl. 20 Á tónleikunum verður eingöngu flutt efni eftir Bergþóru en tónleikana ber einmitt upp á afmælisdag hennar.

Þeir listamenn sem heiðra minningu Bergþóru að þessu sinni eru: Eyjólfur Kristjánsson, Ellen Kristjánsdóttir, Eyþór Gunnarsson, Hjörleifur Valsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Valgeir Skagfjörð, Kristjana Stefánsdóttir, Svavar Knútur og þríeykið Elín Ey, Myrra Rós og Marta Sif, sem allar standa framarlega meðal ungra og upprennandi íslenskra söngvaskálda.

Á tónleikunum verður ennfremur brugðið upp mynd af Bergþóru gegnum stuttar frásagnir frá samverkamönnum, þar sem varpað verður ljósi á hina mannlegu þætti í hennar listamannsferli, hvort sem um er að ræða tregafulla eða gleðilega. Leitast verður við að sýna fram á þau áhrif sem Bergþóra hafði sem listamaður og einnig hvernig hún snerti líf samverkamanna sinna.

Það er nýstofnaður minningarsjóður um Bergþóru sem stendur að tónleikunum. Sjóðurinn var stofnaður í framhaldi af tvennum velheppnuðum tónleikum sem haldnir voru á síðasta ári og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar, en tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Miðaverð krónur 1.500 og fer forsala aðgöngumiða á minningartónleikana fram á vefsíðunni midi.is.


Gleðilega birtuhátíð og þakklæti

Fyrir 10 árum síðan hélt ég jólasýningu í kjallara gallerís sem kennt er við Hornið. Ég var eiginlega búin að gleyma henni. Fann hana í stafræna safninu mínu og langaði að gefa ykkur smá jólastemmningu mitt í kreppublús. Ég tileinka þessari sýningu pabba sem dó á aðfangadag 1987 og mömmu sem dó á kvenfrelsisdaginn í fyrra: blessuð sé minning þeirra.
 
Gleðileg jól kæru vinir og vandamenn í netheimum. Megi þessi hátíð veita ykkur birtu og frið allt um kring og innra með ykkur. Kærar þakkir fyrir allar andlegu gjafirnar og gullmola í formi orða og gjörða.
Með birtukveðjum.
BirgittaWizard
 
 
birtuhátíð
kaka.jpg
birtuhátíð
pabbi.jpg
adfangadagskvold.jpg
fjosi.jpg
jolagjofin.jpg
flottust.jpg
 

Fréttatilkynningin í heild sinni

Þjóðfundur 1. desember á Arnarhóli klukkan 15:00

„Borgarahreyfingin hvetur alla landsmenn til að sýna samstöðu og krefjast breytinga á stjórn landsmála og breytinga á stjórnsýslu með því að leggja niður vinnu og mæta á Þjóðfund á Arnarhóli klukkan 15:00 mánudaginn 1. desember.

„Borgarahreyfingin stendur algerlega utan við alla stjórnmálaflokka og telur að núverandi stjórnvöld sem og stjórnarandstaða hafi glatað trausti landsmanna," segir ennfremur.

Frummælendur verða:
Einar Már Guðmundsson rithöfundur
Margrét Pétursdóttir verkakona
Snærós Sindradóttir nemi
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur


Blaz Roca (Erpur) rappar um þjóðmál

Borgarahreyfingin hvetur til þess að öll samtök launþega veki athygli félagsmanna sinna á fundinum og að Samtök atvinnulífsins sýni vilja sinn til þjóðarsáttar og hvetji aðildarfélög sín til að gefa starfsfólki leyfi frá störfum," segir að lokum.
mbl.is Íslendingar boðaðir á þjóðfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóð inn í svartnættið

lovers.jpgÆtla að halda uppteknum hætti og bjóða upp á ljóð og lög - aðallega lög eftir móður mína heitna Bergþóru Árnadóttur á þessum miklu umbreytingatímum. 

Ég mæli með því að gera eitthvað fallegt - þó ekki sé nema eitt lítið bros gagnvart einhverjum sem þú þekkir ekki neitt. Hér er mikil spenna og reiði í lofti. Skiljanlega. En við gerum bara illt verra ef við festumst í vef reiðar. Hefndar. Efnahagsfárviðrið mun ganga yfir. Það er ekkert annað að gera en að byrja upp á nýtt vonandi með einhvern lærdóm að leiðarljósi.

 

 

 

Álagaskógur

 

Við læddumst inn í skóginn

Skárum nöfnin okkar
í voldugasta tréð
um niðdimma nótt

Sáum ekki
morknaðar ræturnar
að greinarnar hófu sig
ekki mót himni,
heldur héngu niðurlútar

Við skárum und í lófa
Blönduðum blóði
sem varð að þunnri húð.
Storknaði í sári trésins.

Blinduð í glýju heitstrenginga
byggðum við fallegar draumaborgir
úr efniviði hverfulleikans

Þegar þeir hrundu
vaknaði skógurinn

Álfadrottningin kom til mín í draumvöku
með rúnum ristan hring
smeygði honum
á vísifingur minn

Augun brostu breytingum.


Heima - Heiman

sylvia_sm.jpgKíkti í gær á ljósmyndasýningu sem ber yfirskriftina Heima - Heiman. Hún er haldin á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Ég átti erindi í Borgarbókasafnið og sá að angar sýningarinnar teigðu sig þangað inn, finnst þau sem starfa á Borgarbókasafninu alveg einstaklega hugmyndarík þegar kemur að því að vekja athygli á mismunandi bókaflokkum. Það eru svo margir dýrgripir sem maður hreinlega gleymir að til eru í bókasöfnum landsins.

Það var allavega, mjög heppilegt fyrir mig að það fyrsta sem mér mætti á bókasafninu var rekki með bókum um flóttamenn, því ég er á þessari stundu að kynna mér þau málefni betur. Ákvað að taka mér að láni bókina "Lost on earth - nomands of the new world" eftir Mark Fritz. Í anddyri bókasafnsins voru líka fjölmargir sjónvarpsskjáir í gangi þar sem rúlluðu viðtöl við flóttamenn, ég hafði ekki tök á að staldra við það vegna þess að ég var með yngri soninn með, en ég kíkti upp á fimmtu hæð á ljósmyndirnar og það lesefni sem blasti við á veggjunum. Það var ekki annað hægt en að verða snortin. Afar falleg sýning sem sýnir jafnframt í örmynd brot af sögu þessa fólks sem finna má í orðum og augum og dýrmætasta hlutnum sem þeim tókst að taka með sér. Sumir tóku ekkert með sér nema fötin utan af sér.

Sá þarna mynd af einum flóttamönnunum frá Afganistan, sem ég spjallaði aðeins við, þegar ég fór til Njarðvíkur um daginn. Veit um fólk sem hefur starfað með flóttafólki í gegnum tíðina sem sjálft hefur brotnað saman við það eitt að heyra sögurnar og ekki getað haldið áfram í starfi. 

Ég kynntist fjölskyldu frá Íran sem bjó í litla þorpinu hennar mömmu í Danaveldi, þau voru hluti af bylgju flóttamanna sem reyndi að flýja Íran þegar það var í tísku þar að senda kornunga drengi í stríðið með lykil að paradís um hálsinn og voru þeir nánast notaðir sem mennskir skyldir. Þau flúðu rétt áður en sonur þeirra hafði náð aldri til að vera lyklabarn af öllu hryllilegri toga en okkar lyklabörn.

Það hafði mikil áhrif á mig að kynnast þeim þegar ég var rétt um tvítugt. Þau voru vel menntuð og áttu eignir sem þau urðu að skilja eftir. Það sem er oftast erfiðast fyrir flóttamenn er að þurfa að skilja eftir ættingja sína og ekki vita um afdrif þeirra. Það er til óhugnanlegur fjöldi fólks sem gufar upp og enginn veit nokkru sinni hvað verður um það. Ég hef fengið að upplifa það í þrígang að vita ekki um afdrif fólks sem hefur verið mér afar nákomið. Það sem ég fékk að læra af því var hve óvissa getur verið lamandi tilfinning og ég þráði ekkert meira en að fá að vita um örlög þessa fólks míns. Því þá var hægt að bregðast við því sem hafði gerst. 

Fólkið sem geymt er í Njarðvík býr við þessa óvissu stundum árum saman, ekki bara varðandi afdrif ættingja sinna og ástvina, heldur varðandi sín eigin örlög. Í stað þess að sýna þeim hlýju, virðist þjóðin mín frekar kjósa að snúa baki við þeim og hugsa um hversu mikið þau kosta okkur. Það er ekki þeirra val, þegar þau biðja um möguleikann að lifa án ógnar, að vera gerð ólögleg, að mega ekkert gera nema bíða. Kerfi ætti alltaf að snúast um að þjóna þörfum ekki hefta fólk. Auðvitað hljóta að vera til aðrar lausnir en að hneppa þau í enn strangari fangelsi. Það er nú ekki svo auðvelt að hverfa hér á landi. Kannski væri hægt að gefa þeim tækifæri á að vinna fyrir sér, eða að gera eitthvað annað en að bíða.

Ég ætlaði nú ekki að hafa þetta svona langt - mæli með því að fólk kíki á Heima - Heiman, frábærar ljósmyndir - frábær úrvinnsla á efninu. Hér gríp ég aðeins niður í sýningarskránna: "Á sýningunni heima - heiman hittum við fyrir ólíka einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa þurft að flýja heimkynni sín. Flest hafa þau neyðst til að yfirgefa heimaland sitt vegna stríðsátaka. Sum hafa leitað skjóls í flóttamannabúðum, önnur hafa flúið land úr landi, en öll hafa þau að lokum komið hingað til Íslands og búið sér hér nýtt heimili. Á ljósmyndum Katrínar Elvarsdóttur horfast þau í augu við okkur. Við fáum að sjá hver þau eru - og við fáum vísbendingar um þá sögu sem þau hafa að geyma. Þau sýna okkur hluti  sem skipa sérstakan sess í lífi þeirra. Hlutir sem tengja þau við gamla heimalandið og kalla fram sterkar tilfinningar." (Sigrún Sigurðardóttir)


Óttinn í Lhasa

eftir tíbesku skáldkonuna Woeser

Lhasa kvödd í skyndi. Nú borg óttans.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar er óttinn magnaðri en ef óttanum eftir 1959, 1969 og 1989 væri spyrnt saman.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn býr í andardrætti þínum, í hjartslættinum. Í þögninni, þegar þér langar til að tjá þig en gerir það ekki. Röddin föst í hálsinum.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem síbylja óttans rennur undan rifjum hersveita með vélbyssur. Frá mergð lögreglumanna með byssurnar mundaðar. Frá óteljandi óeinkennisklæddum njósnurum og enn bætir í óttann með risavaxinni vél ríkisvaldsins sem gnæfir yfir þeim, nótt sem nýtan dag. En þú mátt ekki beina myndavél að þeim, þá beinist byssa að þér, þú kannski dreginn inn í skuggann og enginn mun nokkru sinni vita af því.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn í Potala magnast eftir því sem þú ferð lengra í austur, þar sem Tíbetarnir búa. Kvíðvænleg skóhljóð bergmála allsstaðar, en í dagsbirtunni nærðu ekki einu sinni að sjá skugga þeirra. Þeir eru eins og ósýnilegir djöflar á daginn, en hryllilegur óttinn við þá er verstur, þess megnugur að láta þig missa vitið. Ég hef gengið fram hjá þeim, fundið kuldann frá vopnunum í höndum þeirra.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn er grandskoðaður öllum stundum með upptökutækjum og myndavélaaugum á hverju götuhorni, húsasundi og skrifstofu, í öllum klaustrum og musterissölum; allar þessar myndavélar, soga allt í sig. Snúast frá ytri heiminum og þvinga sér inn í huga þinn. “Zap zap jé! – Þeir eru að fylgjast með okkur.” — meðal Tíbeta, fornt máltæki með nýrri merkingu, hvíslað hljóðlega manna á milli.

Lhasa kvödd í skyndi. Ég er harmi slegin vegna óttans í Lhasa. Verð að skrifa um það.

23. ágúst 2008
Á leiðinni frá Lhasa


[Ég var í Lhasa frá 17. ágúst til 23. ágúst 2008. Stysta heimsókn mín til þessa og ég var nauðbeygð til að fara… þessi orð eru skrifuð svo ég gleymi ekki hvað gerðist þar. Það er eitt sem ég verð að segja við kínversk yfirvöld: Þú hefur byssur. Ég hef penna.]

Woeser var handtekinn meðan hún var í Lhasa en var svo lánsöm að vera sleppt.

WoeserUm höfundinn:

(Tsering) Woeser fæddist í Lhasa árið 1966. Hún er dóttir yfirhershöfðingja í kínverska frelsishernum. Þegar hún var fjögurra ára flutti fjölskylda hennar til Kardze, Sichuan. Þar stundaði hún bókmenntanám sem allt fór fram á kínversku. Hún vann í tvö ár sem blaðamaður áður en hún flutti til Lhasa árið 1990. Þar hóf hún störf sem ritstjóri fyrir tímaritið Tíbeskar bókmenntir. Fyrsta ljóðabók hennar Xizang zai shang kom út árið 1999. Vegna þess að hróður hennar óx óðum í bókmenntaheimum, var henni gefinn kostur á að hefja nám við Lu Xun stofnunina í Peking.

Árið 2003 kom út eftir hana safn ritgerða þar sem hún var ekkert að skafa utan af hlutunum, safnið fékk heitið; Notes from Tibet, bókin var bönnuð opinberlega vegna “pólitískra rangfærslna”. Í kjölfarið missti hún vinnuna sína sem ritstjóri og þurfti að flytja alfarið til Peking, þar sem hún hélt áfram að skrifa og fékk nokkrar bækur útgefnar í Taívan, ber þar helst að nefna bókina Forbidden Memory, en hún fjallar um kínversku "menningarbyltinguna" í Tíbet og prýða bókina jafnframt ljósmyndir sem faðir hennar tók á meðan á "menningarbyltingin" stóð yfir. Árið 2006, þegar lokað var fyrir bloggin hennar af yfirvöldum, hóf hún að blogga á erlendum netþjóni. Eftir óeirðirnar og mótmælin í mars á þessu ári hafa kínversk stjórnvöld lokað Tíbet sem og lokað fyrir allar upplýsingar um ástandið þar, þar á meðal hefur verið lokað fyrir bloggið hennar, þannig að Kínverjar hafa ekki haft aðgang að skrifum hennar. Bloggið hennar varð fyrir síendurteknum árásum hakkara og varð fyrir vikið ónothæft, en hægt er að finna athugsemdir og skýringar um ástandið í Tíbet á ensku á vefsvæði China Digital Times.

Árið 2007 hlaut Woeser verðlaun frá norska rithöfundasambandinu, verðlaun til heiðurs tjáningarfrelsi. Hún býr í Peking með eiginmanni sínum Wang Lixiong. Hún hefur ekki frelsi til að ferðast til annarra landa.

Þýðingin er byggð á enskri þýðingu Andrew Clark á ljóði Woeser frá kínversku. Hægt er að lesa ljóðið í þýðingu Andrews á Ragged Banner. Hægt er að finna fleiri ljóð eftir hana á þessum vef, en því miður hefur ekki mikið af verkum hennar verið þýtt yfir á ensku, nema ljóðabókin Tibet´s True Heart sem Andrew Clark þýddi. Hægt er að finna nokkur ljóð á vefnum Ragged Banner úr þessari mögnuðu bók.

Með björtum kveðjum
Birgitta


Raddir fyrir Tíbet

Þann 24.ágúst klukkan 20:00, standa vinir Tíbets fyrir viðburði til að styrkja flóttamannamiðstöð sem rekin er í Dharamsala. 

KK, Jónas Sig, Svavar Knútur, Páll Óskar & Monica og Jón Tryggvi munu ljá málefninu rödd sína sem og Ögmundur Jónason, Birgitta Jónsdóttir og Tsewang Namgyal munu halda stutt erindi um Tíbet. Harpa Rut Harðardóttir mun sýna ljósmyndir sem hún tók á ferðalagi sínu nýverið í Tíbet í anddyri Salarins og verða myndirnar til sölu og mun andvirði þeirra renna í styrktarsjóðinn.

Í Dharamsala á Indlandi er rekin flóttamannamiðstöð sem tekur við um 3000 flóttamönnum sem flýja Tíbet ár hvert. Mikil aukning hefur verið á því að fólk flýji frá landinu undanfarin ár. Flóttinn tekur um fimm vikur yfir hæstu fjallaskörð í heimi og leggur fólk sig í lífshættu til að öðlast frelsi til að stunda sína menningu og fá tækifæri til að rækta tungumálið sitt. Þriðjungur allra flóttamanna eru börn sem leggja í 90% tilfella ein í þessa för til frelsis. Þau börn sem lifa af flóttann missa oftast tær og putta út af frostbitum.

Allur ágóði af menningarveislunni Raddir fyrir Tíbet rennur til flóttamannamiðstöðvarinnar og gefa allir listamennirnir vinnu sína.

Miðar fást hér: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=5911 og kosta 2000 krónur.


Kerti fyrir Tíbet

kertifyrirtibet 

Vinir Tíbets taka þátt í stærstu ljósaaðgerð í heimi þann 7. ágúst klukkan 21:00 á Lækjartorgi og þér er boðið. Ef þú hefur ekki tök á að koma á Lækjartorg getur þú kveikt á kerti á þessum tíma og sett í gluggann þinn til að sýna Tíbetum stuðning í frelsisbaráttu þeirra. Nánari upplýsingar og skráning fer fram á candle4tibet.org. 

Áþekkar ljósaaðgerðir munu fara fram út um allan heim og hafa yfir 515.000 skráð sig. Ljós í myrkrinu fyrir Tíbet á meðan setning Ólympíuleikana fer fram.

 


Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.