Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Hef ákveðið að láta undan vinsamlegum

þrýstingi frá vinum og vandamönnum og lesa ljóðið upp. Hjölli ætlar að spila undir á fiðluna sína. Allt er að smella saman fyrir himnaför Bergþóru... ég verð að viðurkenna að í mér er ákveðin tilhlökkun. Hlakka til að hitta fólkið okkar og heyra tónlistina hennar lifna við. Svo margir sem hafa rétt hjálparhönd. Valdi fyrrum eiginmaður mömmu hefur enn og aftur verið okkur systkininum ómetanleg stoð og stytta.

Ber er hver að baki ef ekki hefur manneskju eins og Valda til að leita til:)


Ævintýraljóðið

er eitt af þessum ljóðum mínum sem hefur átt sér hve ævintýralegasta lífið utan hugarheims míns. Fékk í dag póst frá presti í Kanada þar sem hún bað um að fá að nota það við guðsþjónustu næsta sunnudag. Ég sagði að sjálfsögðu já, enda hafa ljóðin mín verið notuð við ýmsar furðulegar uppákomur. Ævintýraljóðið var valið í skólabók á Indlandi fyrir enskukennslu barna. Það hefur líka verið tekið inn í einhverjar safnbækur, ég er eiginlega hætt að fylgjast með hvert ljóðin mín rata. Eitt rataði á loftbelg og annað á boli og önnur í tölvuleik. Þetta tiltekna ljóð samdi ég sérstaklega fyrir Drápu sem var fyrsta margmiðlunarhátíð okkar Íslendinga. Ég fékk hina ágætu hljómsveit Reptilicus til að semja tónlist fyrir ljóðið og útfærði svo róluatriðið fyrir herlegheitin. (Sem síðar var notað í kosningarsjónvarpinu 1996.) Þetta var fyrsta og eina áhættuatriði sem ég hef gert. Drápa fór fram í Tunglinu sáluga. Ég hafði fundið þessa ágætu rólu og hafði viðað að mér einhverjum ósköpum af glimmeri. Ég keypti mér glimmerkjól og hafði vafið um höfuð mitt heilu moskítóneti sem ævintýralegum túrban...lol.

Þegar ég svo átti að flytja þetta atriði þar sem ég svifi úr loftinu á tunglinu flytjandi ævintýraljóðið, dreifandi glimmer yfir áhorfendur við ævintýralega furðulega tónlist Reptilicus þá fór ekki betur en svo að þeir sem áttu að passa að ég myndi ekki skella í handriðið á annarri hæð gleymdu því. Því skall ég svo harkalega í riðið að ég datt úr rólunni og fékk rosalegan skell á mjóhrygginn. Ég var sem betur fer með einhvern öryggisbúnað sem ég hafði reyndar sett bandvitlaust á mig og var lagað rétt áður en ég fór í róluna fyrir einhverja "tilviljun". Það tók enginn eftir þessu nema að einhver ljósmyndari festi þetta á filmu. Ég lét sem ekkert væri og stráði glimmer og reyndi að missa ekki moskítónetið af höfði mér en það hafði aflagast við skellinn. Þetta var ákaflega ævintýralegt í minningunni en ég var nokkuð ánægð með sjálfa mig að þora vegna þess að ég er með eina fóbíu og það er lofthræðsla. Ég þurfti að hafa mig alla við að þora að fara í róluna, þurfti nefnilega að standa upp á handriðinu til að koma henni í loftið og lofthæðin í tunglinu var mikil. Hef aldrei þolað að hræðast lofthæð og geri allt sem í mínu valdi stendur til að komast yfir ótta minn. Dreymi reyndar um að fara í fallhlífarstökk...

... held reynar að einhvern myndi þurfa að henda mér út úr flugvélinni en ég myndi þora að taka fyrsta skrefið.


Mikið rosalega væri ég til í

að hafa meiri tíma dag hvern. Það er ekki fræðilegur möguleiki að ég komist yfir allt sem ég ætla mér. Kannski set ég mér óraunhæfar kröfur en ég man ekki til þess að hafa komist yfir allt sem ég ætla mér síðan ég var krakki. Ég er brimfull af orðum sem eru að taka sér mynd inni í mér en óttast steinbörn ef ég kemst ekki í sótthví á eyðieyju til að koma þeim frá mér.

Sandino, uxar og ævintýr

Veit ekki alveg hvað varð um Eurotrashvision færsluna mína en ég hef óvart skrifað yfir hana en þetta er líka miklu skemmtilegri færsla, hin var bara tuð...

Fleiri frásagnir frá skáldahátíð í Granada, Níkaragva:

Það sem var sérstakast við þessa hátíð voru öll börnin sem tóku þátt í henni. Eftirminnilegasta upplifunin var að fara til bæjarins sem Sandino fæddist og ólst upp í. Bærinn heitir Niquinohomo og í honum búa rétt rúmlega 7000 manneskjur. Þeir sem ekki þekkja til Sandino bendi ég á að kíkja á netið, en í stuttu máli þá er hann þjóðahetja. Hann er gjarnan kallaður faðir byltingarinnar og var sá sem hóf andóf gegn veru bandaríska hersins um 1929. Sandanistahreyfingin sótti sér beinan innblástur til hans og verka hans þegar byltingin hófst í kringum 1980. Var að fara í gegnum veraldarvefinn í leit að upplýsingum og það er ágæt grein á wikipedia um sögu þessa lands sem svo fáir þekkja til.

Ég var hve mest snortin yfir örlæti og hlýjunni sem við fundum fyrir þarna gagnvart okkur. Þegar við komum til Niquinohomo var tekið á móti okkur með lúðrasveit barna og voru þau öll í sínu fínasta pússi. Þá tók bæjarstjórinn og öll bæjarstjórnin á móti okkur. Teknar voru myndir af okkur við styttu af Sandino. Lítil stúlka, held að hún hafi verið átta ára flutti ræðu og ljóð utanbókar með miklum tilþrifum og fegurð. Ég vöknaði ásamt fleirum. Við vorum svo leidd að blómum skrýddum vögnum, held að þeir hafi verið þrír og uxum beitt fyrir þá. Við fórum upp í vagnana og fórum svo um aðalgötuna ásamt skrúðgöngu barna og fullorðinna. Mér leið vægast sagt furðulega og sér í lagi þegar fólkið tók að veifa okkur. Þá veifaði maður til baka og brosti sínu breiðasta. Við enduðum við bókasafn bæjarins sem bar heiti Sandino og þar var safn til heiðurs honum. Mikið var hann fallegur maður og mikið er hann enn elskaður og virtur af samlöndum sínum. Svo fórum við út í garð og átti upplesturinn að fara fram þar. Þar var lítið útileikhús og við sátum þar í skjóli fyrir brennandi heitum geislum sólarinnar. Fyrsta atriðið var fyrir okkur. Börn sem dönsuðu þjóðdansinn fyrir okkur. Öll skáldin, við vorum átta frá hinum ýmsustu heimshornum voru verulega snortin yfir gestrisninni gagnvart okkur. Þá tók við upplestur bæði frá skáldum frá Niquinohomo og okkur. Ég hafði fengið þýtt eldsnemma um morguninn ljóðið mitt Reykjavík, borg árstíða og flutti það á ensku en byrja það alltaf á nokkuð magnaðri vísu til fluttnings úr Völuspá. Kúbverska skáldið flutti svo ljóðið fyrir mig á spænsku við nokkurn fögnuð. Við fengum meiri dans og svo vorum við leist út með gjöfum. Höfðu verið búnar til handa okkur viðarstyttur með Sandino þar sem nafn sérhvers okkar var haglega komið fyrir. Mjög flott, svo fengum við blóm í barminn og viðurkenningarskjal sem heiðursgestir í bænum. Ég sé að þessi frásögn nær alls ekki að lýsa því sem ég vil lýsa. Kannski færi best á að segja að svo mikil er þrá mín eftir að koma þarna aftur og gera eitthvað fyrir þetta fólk að ég er algerlega friðlaus.

Eftir þetta ævintýr var okkur boðið í mat á veitingahúsi við jaðar bæjarins. Bæjarstjórinn snæddi með okkur og spurði hvort að það væri nokkuð mögulegt að koma á systurþorpsprógrammi við Niquinohomo frá okkar bæjarfélögum. Við skáldin sem vorum þarna ákváðum að mynda einskonar bandalag til að hjálpa þeim með því að senda skólunum einhverja glaðninga áður en um langt líður.

Enn var dansað fyrir okkur og ég neydd til að dansa með dönsurunum. Ég lét mig hafa það. Síðan fór ég í viðtal fyrir heimildarmynd um ljóð og skáldahátíðina eftir matinn og fékk far til baka með leikstjóranum.

Eitt er víst að ég mun gera mitt besta til að hjálpa við að kynna þessa hátíð sem var í alla staði ógleymanleg og mikill innblástur. Ef þau geta haldið jafn glæsilega hátíð þá ættum við að geta gert hið sama. Þau eru ein fátækasta þjóð heimsins og við erum ein ríkasta. Skringilegt hve ljóðið ferðast neðanjarðar hér en er á allra vörum þarna og litið á það sem eitthvað sem skiptir miklu máli.

Ég þarf vart að taka það fram að eftir ár verð ég svo sannarlega þarna aftur og aftur og aftur.

Viva la Poesia! Viva!

Ætla að reyna að finna myndir til að skreyta þessa færslu. Fékk 200 myndir til að fara í gegnum frá skipuleggjendum hátíðarinnar:) Var sent myndskeið frá Karnivali ljóðsins, hér er það:
mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit til þess að

tveir pakkar að utan sem voru sendir til mín fyrir jól hafa ekki skilað sér og einn pakki sem kom löngu fyrir jól til sonar míns fannst á pósthúsi í breiðholti eftir áramót. Það er eitthvað mikið að Íslandspósti og alls ekki hægt að treysta því að maður fái póstinn sinn. Því miður er enginn samkeppni í þessu eins og til stóð og vart hefur þjónustan batnað eftir að þetta var gert að einkareknu fyrirtæki. Það er alltaf verið að loka pósthúsum, breyta opnunartímum. Þó er eitt pósthús sem er til fyrirmyndar enda frábært starfsfólk þar, en það er að sjálfsögðu pósthúsið í Pósthússtræti.
mbl.is Gamall póstur borinn út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri í Níkaragva

Ég er eiginlega orðlaus eftir dvöl mína í Granada, Níkaragva. Orðlaus vegna þess að það sem ég upplifði þar var ævintýri líkast. Merkilegt hvernig þjóð sem telst til fátækustu þjóða heimsins getur haldið gleði sinni og boðið skáldum frá 46 löndum að upplifa slíkan höfðingjaskap og raun bar vitni. Okkur var tekið sem við værum stjörnur. Lennti í því að vera elt upp á hótelherbergi af litlum stúlkum sem vildu fá ljósmyndir af sér með mér og eiginhandaráritanir. Eftir mikið skraf við skáld víðsvegar að sem hafa sum hver farið á vel flestar skáldahátíðir um gervallan heiminn þá komumst við að þeirri niðurstöðu að Granada væri höfuðborg ljóðsins, reyndar er Medellin kannski enn sú sterkasta af þessum hátíðum á heimsvísu en hátíðin í Granada fylgir fast á hæla hennar. Það sem var sérstakt við hátíðina í Granada var að hvergi hef ég upplifað eins beina þátttöku frá almenningu og hvergi annars staðar hefur hátíð sem þessi verið eins einkennandi af gleði, lífi, litum og óhaminni tónlist.

Toppurinn var Karnival ljóðsins. Slegið var upp alvöru karnivali þar sem dansarar og fólk í litríkum búningum, ásamt fjölda tónlistarmanna gengu um götur Granada ásamt skáldunum. Við tróðum upp í blómum skrýddum vagni á öllum götuhornum og dönsuðum salsa á meðan á göngunni stóð. Það var eitthvað svo skemmtilega absúrd að vera í þessari iðandi kös af fólki sem beið eftir að við stoppuðum til að hlusta á ljóð.

Ég er annars svo uppnuminn, dauðþreytt og í hálfgerðu kúltúrsjokki að koma heim eftir þessa dvöl í paradís að ég get ekki skrifað meira í dag. En ég lofa að skrifa meira um þessa hátíð í vikunni og setja inn myndir frá henni.

Allir ættu að sjá mynd Al Gore

um gróðurhúsaáhrifin. Þar fær maður staðreyndir á mannamáli og í lok myndarinnar nokkur gagnleg ráð hvernig maður getur sjálfur gert eitthvað til að breyta gangi mála. En það er ekki nóg, stjórnvöld verða líka að bregðast við. Ef við höldum áfram að dæla út svona miklu magni af gróðurhúslofttegunda út í andrúmsloftið þá er hætt við að við sem mannkyn munum leiða miklar hörmungar yfir okkur. Ef ekki er brugðist við strax, þá verður það of seint.

 Eitt álver spúir út jafnmiklu magni af þessum lofttegundum og allur bílafloti landsins. Þ.e.a.s. álver á stærð við stækkað álver í Straumsvík eða álverið í Reyðarfirði.

 En það er samt sem áður að hver og einn axli ábyrgð og leggi sig fram við að nota bílana sína minna, endurvinni miskunarlaust.  Eftir að ég sá myndina hans Al Gore gerbreytti ég endurvinnslu háttum á heimilinu, áður endurvann ég bara pappír, núna endurvinn ég meira og minna allt. Það er rosalega góð tilfinning.

 Við verðum að vera dugleg að beita stjórnvöld þrýstingi til að hverfa frá stóriðjustefnu sinni og því fagna ég þessari áskorun NSÍ og tek heilshugar undir hana,


mbl.is Skora á íslensk stjórnvöld að taka loftslagsskýrslu alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins af bókakameljóninu

Nú fer að styttast í að ég haldi af landi brott til að sinna ljóðagyðjunni í Suður-Ameríku. Hugur minn sem yfirleitt er brimfullur af skoðunum og pólitík er farinn af landinu í sólina og orðin þar sem 113 skáld munu flytja ljóð á 43 tungumálum. Sé notalegt hótelherbergi og bókamarkað, sé sub tropical landslag og blóðheita tónlist.

Nenni ekki að hugsa um Flóttamannaflokkinn frjálslynda og hvað verði um Margréti, nenni ekki að hugsa um hvort hægri öflinn dansi tangó við þessa og hina, sé þá enn fyrir mér dansa square dans ala Valgerður við XB á Papey eða jafnvel Viðey þegar þessi ríkisstjórn fer í langþráð frí.

 Hér dansar maður bara salsa.


Þetta tiltekna ritlaunakerfi er orðið

í meira lagi úrelt. Ég lagði til árið 1999 að launasjóður rithöfunda væri tekjutengdur og mér þætti sjálfsagt að þeir rithöfundar sem eru meðal þeirra söluhæstu ár eftir ár fengju laun hjá sínum útgáfum en væru ekki ríkisstyrktir. Finnst reyndar að við ættum að taka danska módelið okkur til fyrirmyndar en þar fá rithöfundar úthlutað til lífstíðar og eru launin tekjutengd. Ef þú ert að selja mikið eða hlýtur peningaviðurkenningar þá dregst það frá. Ef við tækjum upp slíkt kerfi hér þá væri hægt að koma í veg fyrir að fólk misnotaði kerfið eins og lenska er hér. Skýrt er kveðið á um að þeir sem eru á ritlaunum stundi ekki aðra vinnu samhliða en þó veit maður um fjölmörg dæmi um að það sé ekki virt. Aldrei hefur verið gert neitt í því þó allir innan þessa geira viti af því. Þessi misnotkun er ef til vill ekki neitt skringileg vegna þess að þegar þú ert að fá ritlaun til sex mánaða þá ertu rithöfundur í þann tíma en þarft væntanlega salt í grautinn þess á milli. Mér finnst þetta kerfi í raun og veru ákaflega ómannúðlegt.

Rithöfundar hérlendis eru í þeirri stöðu að vera stöðugt að gefa út bækur sem mættu alveg verða betur unnar til að detta ekki út af listanum sem lítið breytist ár frá ári.

Ég er ekki frá því að ástæðan fyrir því hve mikið af háflköruðum bókmenntaverkum séu gefnar út hérlendis, jafnvel hjá okkar bestu skáldum sé einmitt út af þessari pressu. Mín persónulega skoðun er að til að fá almennilega bókmenntaflóru hér þá verðum við að setja upp þannig kerfi að skáldum sé gert það kleift að stunda þetta sem alvöruvinnu en ekki happa og glappa auka vinnu þegar þeir fá þessi blessuðu laun sem eru reyndar svo lág að varla gætu þau talist eftirsóknarverð hjá fólki sem fær sæmilega borgað fyrir aðra vinnu en að skrifa. Ég semsagt kalla eftir gagngerri endurskoðun á þessum úthlutunarkerfi og að horft verði til annarra landa og þeirra reynslu af sínu styrktarkerfi.

Ef að það á að teljast viðurkenning að fá ritlaun þá væri til dæmis hægt að veita gullpenna eða silfurfjöður og borga svo ritlaun þeim sem þurfa á því að halda. Eitt þekktasta skáld þjóðarinnar sagði eftirfarandi um ritlaunakerfið: Maður fær bara úthlutað þegar maður þarf þess ekki lengur með. Þegar maður er farinn að afla nægilegra tekna af ritstörfum eftir öðrum leiðum. Ég sá reyndar að þessu sami höfundur hefur sótt um og fengið ritlaun í ár. Því skora ég á rithöfunda sem eru að selja vel hérlendis og erlendis að afþakka launin og benda á skáld sem fengu ekki að þessu sinni og hafa kannski aldrei fengið en eru þó athafnasöm og þykja hafa sannað sig.

Þá legg ég til að stofnaður verði sérstakur sjóður fyrir yngri kynslóð skálda. Hvernig væri að fá stórfyrirtæki til að borga í þann sjóð og vera verndarar hans??
mbl.is 506 sóttu um starfslaun listamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband