Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Mögnuð skilaboð frá Carl Sagan

Ég varð djúpt snortin þegar ég horfði á þetta myndband í morgunn... langaði að deila því með ykkur. Annars þá er allt ljómandi gott af mér að frétta. Er að aðlagast nýjum vinnutímum, er ekki lengur á þessu skelfilega vaktavinnuplani, sem var afspyrnu andfjölskylduvænt. Tek hatt minn ofan fyrir því fólki í samfélaginu sem á fjölskyldur og getur haldið eðlilegt fjölskyldulíf samhliða vaktavinnu. Ég er orðin of gömul fyrir svona rugl með svefntíma. Finnst best að vakna með fuglunum og langt á undan flestum. Er frekar andfélagsleg fyrir vikið:) Klukkan fimm er minn tími til að vakna, kem þá einhverju í verk áður en fjölskyldan vaknar en þyrfti ca 2 tíma í viðbót til að verða ánægð með afköstin. Hætt að horfa á sjónvarp sem er gott. Lífið of stutt til að sóa því fyrir framan slíka mötun. Æviminningabókin um mömmu er að taka á sig mynd í huga mér og mun hún að sjálfsögðu heita "Lífsbók Bergþóru Árnadóttur". En njótið vel myndarinnar um litlu bláu doppuna í hinum óendanlega geimi.

Tölvuafvötnun

Ég er búin að taka mér smá frí frá virtual veruleika og verið að njóta veruleikans í botn. Æfa mig í að vera bara til í einu lifandi andartaki og senda þakklæti inn í framtíðina í gríð og erg ef ég fæ kvíðahnút eins mér er tamt ef allt leikur í lyndi. Hef ákveðið að salta bókina um mömmu um einhverja hríð. Get ekki einbeitt mér að henni og þessari vinnu ásamt öllu hinu sem ég hef lofað að gera. Ég skrifaði stutta ritgerð um verkefnið "Ferðalag Bergþóru í búk Maríuhænunnar sem verður birt í nóvember í vefriti nokkru ásamt úrvali ljósmynda af ævintýrum Maríuhænunnar sem geymir hluta af ösku móður minnar. Maríuhænan fer með mér hvert sem ég fer og ef ég sakna mömmu þá tek ég hana bara upp, hristi hana smá (en hún er ákaflega hljómfögur) og bý til nýja minningu. Ég er svo heppin að fá að keyra framhjá bæði ánni fallegu sem pabbi hvarf í forðum daga og Kotstrandakirkju en þar er askan hennar mömmu að mestu á einum stað, á leið minni til vinnu og fæ þá að hugsa til þeirra í samþættri hugsun.

Leiðin í vinnuna er vörðuð minningum, hef ekki tölu á því hve oft maður hefur farið um heiðina. Fór aukaferð síðustu helgi til að heimsækja ömmu í Hveró. Merkilegt hve hálfblind manneskja getur verið klár í lummugerð:) Delphin minn yngsti var eitthvað svo mikið krútt, alltaf að knúsa ömmu löngu og segja henni að hann elskaði hana... Hún leyfði krökkunum að fara í steinasafnið sitt og velja sér steina. Það vakti mikla lukku. Heim var komið með mikið af eðal grjóti og lummum. Við Delphin fórum aðeins upp í Hamar en það er bara ekki hægt að fara til Hveragerðis án þess að fara upp í Hamar. Fullkomið barnafjall. Tíminn er annars allt of fljótur að líða og vegna tölvuhlés hefur tölvupósturinn hlaðist upp að nýju án afláts. Þarf að fá mér ritara...

Vildi að ég væri eins og da Vinci sem þurfti bara að sofa í 4 tíma eða minna á sólarhring. Reyndar þá finnst mér fátt jafn gott og svefn og hefur mér tekist að sofa í gegnum ægilegar steypuvélar og steypuhögg við blokkina mína eftir vaktir. Hef reydnar aldrei átt í vandræðum með að sofa og þegar mér tókst að hætta að hugsa áður en ég sofnaði þá hafa gæði svefnsins stórum aukist.

Fann enn eina snilldarteiknimyndasögusyrpuna fyrir fullorðna. Sú heitir Concrete og hægt að finna í Borgarbókasafninu. Má til með að þakka henni Úlfhildi Dags opinberlega fyrir að hafa gert þessa deild bókasafnsins að því sem hún er: tærri snilld og brunni hughrifa.

Hef nánast ekki skrifað neitt nema ástarljóð undanfarna mánuði og er það hið besta mál ef frá eru talin um það bil 30 ljóð sem ég skrifaði til skálda víðsvegar um heim á póstkort. Fékk svo sjálf misskemmtileg ljóðakort í póstinum allan ágústmánuð. Frábært verkefni að vera með í, sum kortin algerar perlur og ljóðin skrifuð beint á kortin án þess að vera eitthvað að spá í annað en að gefa skapandi gjöf handa viðtakandanum einum saman.

Horfði aftur á Al Gore myndina góðu um gróðurhúsaáhrifin og ef einhver sem les þetta hefur ekki séð myndina mæli ég eindregið með því að sjá hana. Við sem mannkyn stöndum á svo mikilvægum tímamótum og segja má að við höldum á fjöreggi í höndum okkar. Ef okkur tekst ekki að gera allt sem í okkar valdi stendur bæði sem einstaklingar og sem samfélag manna til að varðveita þetta fjöregg þá mun ekki verða neitt eftir handa börnum okkar og barnabörnum sem kalla má lífsgæði. Það er mikilvægt að muna að það er bara til ein Jörð og við eigum það öll sameiginlegt að búa á henni. Því ætti að vera auðvelt að setja í forgang að varðveita hana af sömu ástúð og umhyggju og ástvin sem væri í bráðri hættu. Myndin hans Al Gore heitir an Inconvenient Truth, hægt að fá hana á næstu dvd leigu.

Vona svo að vinir mínir og ættingjar fyrirgefi mér sinnuleysið í formi tölvupósts, sendi bara hugskeyti í staðinn:)

Að gefa nafn, hlusta á hafið í fiðlu og finna sólstafi

Undanfarnar vikur hafa verið eins og ég hef svo oft haldið fram, ævintýri líkastar. Hef reynt að halda mig frá bloggheimum vegna þess að þar grasserar svo mikill mannfjandskapur og rógburður. Svartagaldur ofan á svartagaldur og það er svo erfitt að hemja gremjuna þegar maður sér hve fólk berar hve andlega fátækt það er með dómhörku og skelfilegum athugasemdum sem ég leyfi mér að efast um að viðkomandi fólk þyrði að segja upp í opið geðið á manni eða öðrum sem þeir beina sínu skítkasti að.

Ég hef mikið verið að spá í að hverfa héðan en það hryggir mig því hér hef ég fundið mikið af gömlum vinum og vandamönnum og hér fékk ég útrás fyrir harm minn og fékk huggun frá svo mörgum þegar mamma dó. Er ekki alveg viss hvað skal gera. Ætla að einbeita mér að bókinni um mömmu og ljósmyndasýningunni sem mun bera yfirskriftina: Ferðalag Bergþóru í búk Maríuhænunnar. Þá er ýmislegt sem telja mætti teikn um að venda sínu kvæði í kross og fara að vinna við eitthvað allt annað en ég er vön að vinna að. Langar að láta gott af mér leiða, skila einhverju til baka sem mér hefur verið gefið í lífinu, það eru sólstafir sem ég ætla að fylgja inn í óræðna framtíð sem ég er þó að móta og skapa í hverju lifandi andartaki.

Fyrir um viku hittum við Jón Tryggvi dásamlegt fólk sem telja mætti til tónlistarfólks og skálda. Fyrir nokkru síðan hafði samband við mig skáldkona frá Sri Lanka sem var á leið til landsins á leið sinni frá bókmenntahátíð á Írlandi. Vildi endilega hitta íslensk skáld og rakst hún á mig í netheimum. Maðurinn hennar er Írskur og alger fiðlusnillingur. Við kíktum til þeirra þar sem þau voru á gistiheimilinu Moby Dick, það er merkilegt nokk við hliðina á heimili vinkonu minnar Marló skáldkonu. Þá skáldin leynast víða hér um borg en engan vettvang eiga þau þó til að leyfa öðrum að hlusta á sig kveða:) Þau fluttu fyrir okkur magnað verk þar sem Colm tókst að framkalla hvalasöng og brimhljóð á fiðluna og hún Pireeni flutti ljóð sem tvinnað var í kringum gamla írska þjóðsögu. Ógleymanlegt. Jón Tryggvi og Colm tvinnuðu svo tóna saman og fannst þeim hjónum mikið til hans koma sem tónlistarmanns...

Fyrir nokkrum árum uppgötvaði að ég ætti systur í gegnum blóðbandapabba, í sama símtali og ég frétti að hann væri látinn. Það var mikil gæfa að finna systur mína hana Steinunni, hún er alger gullmoli og ótrúlega falleg og sterk tenging á milli okkar. Eins og ég hafi þekkt hana allt mitt líf. Hún eignaðist yndislegan dreng í mars sem átti eftir að nefna. Steinunn fékk þá flugu í höfuðið að biðja mig um að hjálpa sér við að gera nafn hans opinbert á afmælisdaginn sinn 22. júlí. Ég varð alvarlega snortin og glöð:) Datt í hug að opinbera nafnið í gegnum ljóð sem ég dreif mig í að skrifa og læt það fylgja með og mynd af drengum yndislega sem er eitthvað það brosmildasta barn sem ég hef hitt...

Lítill drengur með björt augu
jók heiminn gleði með tilkomu sinni
þegar vorið skartaði sínu fegursta
Framundan stillur og sólskin
Undir milkilfengleika nafns síns
hann mun standa af stakri prýði
Örlæti hjartans og innri friður
munu líf hans einkenna

Benjamín Ágúst
er nafnið þitt
Þín gæfa, þín gleði
þín örlög samofin
æðruleysi
Þín innri kjölfesta
traust og stöðug
Lífsstigi þinn
markaður
bjartsýni
og léttlyndi

Benjamín Ágúst
Benjamín Ágúst - fæddur 27. mars 2007

En það eru þessi litlu ævintýri sem gefa lífinu gildi. Að fá á flétta hárið á dóttur minni, að lesa fyrir Delphin að spjalla við Neptúnus um heima og geima er mér svo óendanlega dýrmætt og jafnast á við allar gersemar lífsins.

EinkaMUSE ljær Kameljóni innblástur

Það er ómetanlegt að finna ólgu innblástursins knýja sig inn og galdra draum inn í veruleika, sitja í draumheimum og vefa paradís. Vakna inn í nýtt hugarástand.

I

Gekk í hring um hring innan hrings
Allsstaðar sömu andlitin
Vefur marglita þræði í sífellt sama mynstrinu

Váleg veður
snyrtilegir naglar
á hárréttum stað

Þrýstir þeim örlítið dýpra inn
sársaukinn er afstæður

Stendur við fjöruborðið
Ákallar sársaukan eins og til að minna sig á að í æðum rennur lifandi blóð
Augun dauf og andardrátturinn grunnur

Í eitt galopið andartak
blæðir í sandinn setning

Meitlast inn í hugann

Eymd er valkostur

II

Aldrei aftur ein/n
syndir í bláma
hefur ekkert upphaf né endi

Hendur úr gárum
mjúkar
draga nagla út
einn af öðrum
Þeir voru aðeins hilling

Sjónhverfing hugans

Kænan var kjölfest

Úfið hafið
aðeins hilling
Syndir í bláma
um eilífð
Alda í öldum alda

Kær leikur
sam farir
við vatnið

Hreinsar
frelsar

Er ást
Er galdur
Býr handan orða
bjartara en bjart

Blogg um Bergþóru Árnadóttur

bergthora_arnadottirNú er ég búin að fylla tónlistarspilarann á nýja blogginu sem er tileinkað mömmu gömlu, setti inn 3 lög frá Eintaki og 3 frá Bergmáli. Vantar að koma í stafrænt form Það vorar og Afturhvarfi. Ég er líka að setja upp myndaalbúm þar og mun þá taka út albúmið af minni síðu. Fólk var farið að halda að ég væri forfallinn aðdáandi Bergþóru og ég er ekki alveg að meika þá tilhugsun, væri frekur sjúkt ef ég persónudýrkaði hana... alveg nóg að ég elska hana botnlaust. Talaði um fyrir stuttu að sorgin væri svifin frá hjarta mínu og merkilegt nokk það er bara alveg satt. Mæli með því ef fólk verður fyrir áfalli að gefa sér næði til að syrgja og hjálpa öðrum. Ekkert meðal er betra en að hjálpa einhverjum sem er enn verr settur en maður sjálfur þegar maður er í stórhættu á að falla í pytt sjálfsvorkunnar:)

Slóðin á Bergþórubloggið er bergthora.blog.is, hægt að gerast bloggvinur og de hele. Mun skella þangað fréttum af gangi endurútgáfu, tónleikum og æviminningabókinni. Þætti vænt um ef fólk man eitthvað sem tengist henni að segja mér frá því svo ég geti athugað hvort það myndi passa inn í bókina um hana. Ætla að setja hana upp svipað og Dagbók kameljónsins, fullt af myndum, stuttum brotum, frásögum, textabrotum og viðtölum sem tvinnast í eins konar skrapbók...

Í dag er enn einn fullkominn dagur í vændum. Vona að ykkar verði eins góður og ég ætla mér að hafa minn:)

Jónsmessunótt hin fyrsta

Á krossgötum opnast huldir heimar
rétt eins og þegar tvö hjörtu verða eitt

Í dögg svita þeirra
ilmur sakleysis

Augun úthaf
og glaðbeittir höfrungar
sem tala tungum
og allt verður skyndilega rökfast og rétt

Við túngaflinn skjóta marglit
og rótsterk blóm upp kolli
Fyrirheit um
óbærilegan léttleika tilverunnar

Þakklætissteinninn sem á veginum varð
hornsteinn alls sem verður og var

ort handa Jóni Tryggva Unnarssyni


Vona að ríkisstjórnin þori, vilji og geti ...

tekið á þessu mikilvæga máli. Hef mikið fylgst með þrautargöngu þeirra sem búa þarna og var mjög ánægð með Norðmenn að þyrðu að taka fyrsta skrefið í að viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn Palestínu. Það hlýtur að myndast samstaða á þingi um að viðurkenna jafn sjálfsagðan hlut, sem þó við hin lýðræðislegu ríki þorum ekki að gera. Merkileg hræsni að krefjast lýðræðis af þessari þjóð en svo þegar hún kýs ekki það sem við viljum að hún geri þá snúum við baki í hana.

Mæli svo með alveg frábærri bók eftir Joe Sacco sem heitir Palestine og er ein af albestu "graphic novel" myndskáldsögu sem hafa verið gerðar. Hægt að fá hana í Borgarbókasafni og á Amazon. Fáar bækur hreyft eins hressilega við mér.


mbl.is Vilja að Ísland viðurkenni heimastjórn Palestínumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handsprengja í morgunsárið...

... er bara snilld. Ingólfi og Eiríki tekst að skapa ljóð úr orðum ráðamanna sem vekja hjá manni óhugnalega kátínu og réttláta reiði í sömu andrá. Langt síðan ég hef skemmt mér jafn mikið yfir ljóðabók. Þarna eru ljóðaþýðingar á orðum þeirra ráðamanna landsins sem ég hef löngum haft á aðal gremjulista mínum, vegna fádæma einfeldni og hroka. En ekki má gleyma mannvitsbrekkum úr hinum alþjóðlega hring stórmennskubrjálæðinga sem afhjúpa sig sem viðkvæm skáld samanber fyrstu ljóðlínur bókarinnar eftir Serbneska flóttamanninn og stríðsglæpamanninn Karadzic, "Ég lofa mikilfengleik byssukúlunnar, sem hún borar sig í gegnum vaxköku heilabúsins". Hinn engilblíði zíonisti Stern skrifar "eins og steypuhræru mótum líkin eins og múrsteina og reisum heimili vor í okkar heimalandi". En það grillir í von þegar maður eins og Ronald Reagan brýst út úr þankanum þrönga og sýnir okkur í djúp sálar sinnar, "Til hvers er þetta litla líf - hve lítið þarf til að ónýta dag ..." og landsfaðirinn Túrkmenbasí er ekki síður rómantískur í sínu daðri við skáldagyðjuna "Veljum oss þúsund vængjuð hross og ferðumst í bæn yfir sléttur lands og heiðar".

Hægt að gefa sér og sínum þessa snilldarbók sem er núna að skríða upp í topp 10 listann minn yfir uppáhalds bækur með því að smella hér.

Ég þarf annars að þjóta, þarf að fara til Hafnarfjarðar að kyrja og fara svo að versla í Fjarðarkaupum, eina kaupfélagið í höfuðborgarsvæðinu sem mér finnst gaman að fara í. Verð að komast yfir þessa búðarfælni. Er alltaf á svo miklum spretthlaupum að ég kaupi alltaf eitthvað allt annað en ég lagði í leiðangur að ná í. Svo er það áframhaldandi rykhreinsun að vori á heimli voru. Ég þori ekki að fara að svara tölvupóstum en það eru um 450 sem ég á eftir að lesa, henda, svara, flokka í inboxinu mínu. Arg...

Athugið, athugið... Kameljónið á afmæli á morgunn

Í tilefni stórafmælis míns á morgunn 17. apríl, þar sem ég mun verða hálf áttræð og komast á hinn virðulega fimmtugsaldur mun ég vera til viðtals fyrir vini og vandamenn. Engin afmælisveisla fyrr en ég verð 41, enda miklu flottari tala... Vænti þess að vinir og velunarar sendi mér afmælisskeyti via tölvupóst ellegar mun ég falla í hamslausa sjálfsvorkun... Það er líka alveg nóg að skilja eftir skilaboð hér á blogginu:) Takið daginn frá á næsta ári... lofa stórafmælisveislu með allskonar velgjörningi...

Ég mun eyða deginum á morgunn í minni stórskemmtilegu vinnu en láta mér bregða í Mál og Menningu klukkan 10 þegar þjóðargjöfin hefst...

Gjafir, blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en ég hygg bjóða öllum þeim sem vilja að þiggja skáldsögu mína Dagbók kameljónsins að gjöf á morgunn. Afmælisdagar eru miklu skemmtilegri þegar maður gefur eitthvað. Ég gaf til dæmis ömmu minni gjöf sem hún gat gefið öðrum þegar hún varð 80 ára. Bjó til fallega bók með skýjamyndum eftir hana og ljóðum og öðru fallegu, svo gat hún gefið öllum sem henni langaði þessa sérútgáfu.. Handgerð og allt:) Ömmu þótti mjög gaman að gefa bókina sína og þannig gat ein gjöf glatt marga...

Þeir sem vilja bókagjöfina mína geta nálgast hana í Kaffi Hljómalind, mun fara með nokkur eintök þangað í fyrramálið, kannski mun ég líka skilja hana eftir á skringilegum stöðum, eins og í strætóskýlum ef ég hef tíma...


Hygg að ég hafi framið helgispjöll í dag?

Var að klára að þýða frekar svakaleg orð fyrir the Devil's Dictionary, þetta er svona slanguryðraorðabók sem hefur verið til um nokkurt skeið. Verð að viðurkenna að ég þurfti að hafa mig alla við til að rifja upp ýmiss orð eða finna út hvað sumt af þessu þýðir á okkar ástkæra ...

Búin að vera fáránlega lengi að þýða þetta en tókst að klára rétt í þessu. Þá er að fara eitthvað út úr bænum, sennilega fer ég á Snæfellsnes... kannski verðum við þar í nótt, langar samt að vera í bænum á morgunn, langar í smá kyrjun með búddistafélögum mínum í fyrramálið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 509137

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.