Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vefurinn

Bloggið virkar

Áríðandi leiðrétting: fékk símtal frá Bónusvídeó og fyrirtækið er ekki farið í gjaldþrot. Mun birta hér bréf frá þeim þegar ég fæ það. En maðurinn var almennilegur og baðst innilegrar afsökunar á mínum óförum og virði ég það. Ég mun því leiðrétta þessa færslu í takt við innihald bréfsins. Vinsamlegast ekki senda haturspóst á fyrirtækið. Ég er allavega ánægð með að þessi bloggfærsla var til þess að fyrirtækið er fúst til að lagfæra vinnubrögð sín í framtíðinni og slíkt ber að virða og fagna. 

Hér er bréfið: ég ætla ekki að ritskoða færsluna mína en strika yfir rangfærslur. Ég er sátt að máttur neytanda er að aukast og að það virki að blogga ef maður lendir í vandræðum. Ég hefði ekki skrifað þessa færslu ef ég hefði ekki reynt allt sem ég gat til að hafa upp á forsvarsmönnum fyrirtækisins. Segið svo að bloggið virki ekki:) 

Sæl Birgitta,
 
Mér þykir mjög leitt að myndin hafi ekki borist til þín á réttum tíma og biðst innilegrar afsökunar á því.  Að þú hafir ekki náð til okkar er einnig mjög slæmt en við erum búnir að vera í vandræðum með símakerfið í nokkra daga.  Við erum þjónustufyrirtæki og viljum standa okkur 100% enda þrífumst við eingöngu á ánægðum viðskiptavinum.  Takk fyrir hressilega ábendingu og ég get lofað þér því að við  tökum alla punktana þína til greina strax...endilega láttu mig vita beint á bjarki@bonusvideo.is ef ég get gert eitthvað fyrir þig í framtíðinni.
 
Enn og aftur, takk fyrir þína gagnrýni.  Hún verður til þess að við lögum okkar mál strax.
 
Virðingarfyllst,
 
Bjarki  Pétursson
 
 
P.s. myndin er á leiðinni til þín.

 ----------------------------------

Gjaldþrota Bónusvídeó rænir fólk á vef sínum

Siðleysið virðist vera algerlega takmarkalaust hérlendis. Ég var að leita að DVD mynd fyrir yngri son minn sem ég hafði lofað honum í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Fann loks myndina hérlendis á vefnum bonusvideo.is sem heyrir undir Bónusvídeó ehf. Þar keypti ég myndina í góðri trú fyrir rúmlega viku. Skildi ekki af hverju myndin skilaði sér ekki á tilgreindum tíma og hóf því að hringja í símanúmer sem gefið var upp á vefnum. Það var alltaf á tali og prófaði ég því að hringja beint á skrifstofu fyrirtækisins. Þar var líka á tali. Prófaði ég því að senda tölvupóst en fékk engin svör. Þá prófaði ég að hringja í allar leigurnar sem eru í símaskránni og heyra undir Bónusvídeó. Alls staðar á tali, uns ég loks næ sambandi við eina af þessum leigum.

Spyr viðmælanda minn hvort að það geti verið að Bónusvídeó sé farið í þrot. Maðurinn sagðist halda það, því búið sé að loka fyrir símanúmer þeirra. Ég fór svo inn á vefinn þeirra áðan og viti menn enn hægt að kaupa sér myndir eða leigja þrátt fyrir að fyrirtækið sé augljóslega í þroti. Þetta er siðlaust með öllu. Ég hafði samband við einn af bönkunum mínum og vildi fá að vita hvort að hægt væri að bakfæra þessa greiðslu en það er ekki hægt. Þá bað ég starfsmanninn um að vinsamlegast að láta Valitor vita af þessu svo aðrir lendi ekki í sama óláni og ég. Auðvitað á að loka fyrir þetta drasl samstundis. Ég tapaði ekki miklum peningum en mér finnst þetta bara svo ótrúlega grófur þjófnaður.

Svo labbar þetta lið um og strýkur sínu frjálsa höfði, keyrir um að Game Over bílunum sínum og hlær að okkur fábjánunum sem þurfum að borga allar þeirra skuldir á meðan þeir þjóðnýta okkur á allan mögulegan hátt. Kannski ætti ég að skreppa niðrí 1011 og ná mér í mynd þar á sama verði og ég keypti þessa á sem ég mun aldrei fá og sjá hvort að ég verði ákærð fyrir þjófnað.

1011 og Bónusvídeó er sama fyrirtækið að nokkrum kennitölum aðskildum.

En sem sagt í guðanna bænum ekki versla við þetta fyrirtæki. Það mun sennilega láta sig gossa og sleppa því að borga starfsfólkinu sínu eins og þeir gerði með BT.

 


mbl.is Ekkert fellur á skattgreiðendur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega birtuhátíð og þakklæti

Fyrir 10 árum síðan hélt ég jólasýningu í kjallara gallerís sem kennt er við Hornið. Ég var eiginlega búin að gleyma henni. Fann hana í stafræna safninu mínu og langaði að gefa ykkur smá jólastemmningu mitt í kreppublús. Ég tileinka þessari sýningu pabba sem dó á aðfangadag 1987 og mömmu sem dó á kvenfrelsisdaginn í fyrra: blessuð sé minning þeirra.
 
Gleðileg jól kæru vinir og vandamenn í netheimum. Megi þessi hátíð veita ykkur birtu og frið allt um kring og innra með ykkur. Kærar þakkir fyrir allar andlegu gjafirnar og gullmola í formi orða og gjörða.
Með birtukveðjum.
BirgittaWizard
 
 
birtuhátíð
kaka.jpg
birtuhátíð
pabbi.jpg
adfangadagskvold.jpg
fjosi.jpg
jolagjofin.jpg
flottust.jpg
 

Við erum að bregðast ykkur – núna

Bloggbindindi mitt því rofið. Þetta er grein af NEI - serverinn er kominn í lag, en datt út í morgunn - sennilega vegna álags:)
"Við erum að bregðast ykkur – núna

Yfirlýsing frá Jóni Bjarka Magnússyni

Ég finn mig knúinn, samvisku minnar vegna, að segja frá því að frétt sem ég skrifaði fyrir DV þann 6. nóvember síðastliðinn um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans var stöðvuð. Þetta geri ég vegna þess að það er skylda mín gagnvart lesendum og fólkinu í landinu að upplýsa um slík mál. Ég hef reynt að sannfæra sjálfan mig í meira en mánuð um hið gagnstæða. Að best væri að gleyma þessu og þegja. Ég hef hinsvegar ekki gleymt þessu atviki, og ég get ekki þagað yfir því lengur. Ég tel það ekki vera ásættanlegt að einhverjir ónefndir aðilar úti í bæ geti stöðvað eðlilegan fréttaflutning. Ég get ekki gerst sekur um að vera þátttakandi í leynimakki og blekkingu í krafti auðvalds á þessum síðustu og verstu tímum. 

Þann 6. nóvember skrifaði ég grein um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans sem hafði komið sér fyrir á skrifstofu í húsnæði Landsbankans við Pósthússtræti 7. Reynir Traustason ritstjóri DV hafði beðið mig um að vinna þetta verkefni. 

Eftir tvær heimsóknir og fleiri tilraunir til þess að ná tali af Sigurjóni í gegnum síma náði ég loksins að spyrja hann nokkurra spurninga. Í kjölfarið skrifaði ég grein þar sem meðal annars kom fram að Sigurjón væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans. Einnig að hann vonaðist eftir verkefnum frá Landsbankanum. 

Ég skilaði fréttinni til fréttastjóra eins og vanalegt er og bjóst ekki við öðru en að hún myndi birtast í blaðinu daginn eftir. Þegar ég mætti daginn eftir kallaði Reynir Traustason mig inn á skrifstofu og tjáði mér að „stórir aðilar úti í bæ“ hefðu stöðvað hana. Hann sagðist ekki vera sáttur við þá ákvörðun að bakka með fréttina en ákvað samt að gera það. Ég varð hugsi yfir þessum fregnum en taldi mér trú um að eflaust væri best að láta þetta liggja á milli hluta. 

Nokkru áður eða þann 10. október síðastliðinn birtist leiðari í DV undir yfirskriftinni „Við brugðumst ykkur.“ Þar sagði Jón Trausti Reynisson annar tveggja ritstjóra blaðsins fjölmiðla hafa brugðist þjóðinni. Ég sé ástæðu til þess að rifja leiðarann aðeins upp. 

Hann hefst svona: „Hrun íslenska efnahagslífsins stafar ekki af hagfræðilegum ytri aðstæðum, heldur af lýðræðislegum ástæðum. Þjóðfélagið hefði aldrei farið á fullri ferð fram af brúninni ef það hefði ekki verið gegnsýrt af blekkingu í áraraðir. Blekkingin kom frá stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og líka þeim sem áttu að verja þjóðfélagið gegn blekkingunni, fjölmiðlamönnum.“

Ég lít svo á að með því að stöðva þessa frétt hafi DV ekki varið þjóðfélagið gegn blekkingunni, heldur viðhaldið henni. Fyrirsögnin mætti því vera: Við erum að bregðast ykkur núna. 

Frjáls fjölmiðlun er eitthvað sem þjóðin þarfnast nú. Á tímum sem þessum, við áfall á borð við það sem íslenska þjóðin er að ganga í gegnum, á að vera algerlega skilyrðislaus krafa að fjölmiðlar séu frjálsir og geti sagt hvaða þær fréttir sem þeim sýnist og hvernig sem þeim sýnist. Séu óbundnir af hagsmunum fárra, peningum, styrktaraðilum, stjórnmálaöflum eða lánadrottnum. Og ef þetta bregst tel ég að fólki beri skylda til þess að láta vita.

Ég geri mér ekki grein fyrir því hver eða hverjir það voru sem sannfærðu ritstjóra DV um að birta greinina ekki. En Reynir sagði mér á fundi sem við áttum saman, að þessir aðilar væru valdamiklir og að þetta hefði hreint og beint snúist um líf eða dauða blaðsins. Af orðum hans að dæma er ljóst að haft var í hótunum við hann. Hann þyrfti að hlýða. Ég vil ekki gera lítið úr þeirri klemmu sem ritstjóri minn var settur í: að birta ekki frétt, eða stofna ella lífi sjálfs blaðsins í hættu. Það er erfitt að vera í slíkri stöðu. 

En ég er ósammála ákvörðun hans. Ég tel að best sé fyrir hann, DV, þjóðfélagið allt, að fram komi hver sú atburðarás hafi verið sem hann vísaði til í samræðum við mig, þegar hann útskýrði að fréttin yrði ekki birt. – Að þetta sé jafnvel eina tæka vörnin við slíkar aðstæður. Og að stóra fréttin hljóti að vera þessi: Ónefndir aðilar réðust gegn því sem á að vera einn af hyrningarsteinum lýðræðis á Íslandi. Krafa mín og okkar allra hlýtur því að vera ófrávíkjanleg – að eftirfarandi verði svarað: 

Hvers eðlis er hótunin sem ritstjóri DV var beittur, og hver eða hverjir hótuðu?

Frá því að þetta átti sér stað hef ég velt því fyrir mér hversu algengt slíkt sé í íslenskum fjölmiðlum. Að ákveðnar greinar sem hafi verið unnar séu teknar úr umferð vegna þess að þær skaði á einhvern hátt hagsmuni valdamikilla aðila. Sögur ganga um slíkt, en fáar ef nokkrar rata fyrir sjónir almennings. Ef enginn stígur fram og segir opinskátt frá slíkum dæmum í „frjálsum fjölmiðlum“ er líklegt að stór hluti fólks standi í þeirri trú að ekki sé stunduð ritskoðun í íslenskum fjölmiðlum, að allt sé í himnalagi.

Það skiptir í raun minnstu máli hvað fram kemur í þessari frétt. Líklega er ekkert í henni sérstaklega afdrifaríkt, en þó er ljóst að á þessum tíma var eftirspurnin eftir fréttum um athafnir Sigurjóns Árnasonar geysilega mikil, meðal annars vegna vangaveltna Egils Helgasonar um Sigurjón, og hvað fram færi á skrifstofunum við Pósthússstræti. Og hversu mörgum “stórfréttum” er þá kippt úr umferð við að einhverjir menn úti í bæ meti það sem svo að birting kæmi sér illa fyrir þá?

Á Eyjunni var fjallað um skrifstofu Sigurjóns þann fjórða og sjötta nóvember Á vefsíðunni T24 var meðal annars fullyrt að Sigurjón væri að vinna ötullega að því að „greiða úr“ skuldaflækjum fyrirtækja sem tengjast Baugi við Landsbankann. 

Þar sagði meðal annars þetta:

„Á götuhorninu er því haldið fram að hugmyndafræðingurinn að baki kaupum Rauðsólar á fjölmiðlahluta 365 hf. sé Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans. Fullyrt er að hann vinni nú ötullega að því að „greiða úr“ skuldaflækjum fyrirtækja sem tengjast Baugi við Landsbankann. Sigurjón er sagður vinna náið með Jóni Ásgeiri og tengdum aðilum en Sigurjón og Ari Edwald, forstjóri 365, eru gamlir samherjar  í háskólapólitík og Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Þeir sem standa á götuhorninu og velta fyrir sér hvernig kaupin gerast á eyrinni eftir að ríkið yfirtók bankana velta því fyrir sér hvort og þá með hvaða hætti fyrrum yfirmenn banka, sem nú eru í þrotum, koma að málum varðandi uppgjör skulda einstakra viðskiptavina.“

Andrés Jónsson fjallaði um störf Sigurjóns á bloggi sínu þann 5. nóvember: „Meðal viðskiptavina Sigurjóns (auk Baugs og Rauðsólar) eru Samson, stór breskur banki og stór þýskur banki. Einnig einhverjir fleiri erlendir og innlendir aðilar. Þeir treysti engum betur en Sigurjóni til að gæta hagsmuna sinna í tengslum við Landsbankann, enda hafi hann verið sá sem setti öll þessi viðskipti saman á sínum tíma.“

Ég sem blaðamaður var stöðvaður, grein mín ekki birt og ég svo beðinn um að tala ekki um það. Með hliðsjón af því sem hefur meðal annars komið fram í forystugreinum DV um að allt yrði að vera uppi á borðinu fannst mér þetta skjóta skökku við. Blekkingin sem svo mjög hefur verið gagnrýnd var allt í einu farin að ná inn á ritstjórn DV. 

Í leiðara DV þann 10 október segir einnig: „DV mun í framhaldinu sýna aukna harðfylgni í samskiptum við stjórnmálamenn og viðskiptamenn. Þeir verða ekki látnir komast upp með að ljúga að þjóðinni athugasemdalaust. Því þeir sem ljúga að fjölmiðlum ljúga líka að almenningi. Blekkinguna verður að uppræta, því hún er meinið sem varð þjóðinni að falli.“

Ég tek undir þetta og svara hérmeð kalli blaðsins. Ég hvet fleiri blaðamenn, sem hafa látið stöðva fréttirnar sínar, til að stíga fram, og að lokum vil ég ítreka kröfuna um að eftirfarandi spurningum verði svarað: 

Hvers eðlis er hótunin sem ritstjóri DV var beittur, og hver eða hverjir hótuðu?

Greinin sem var stöðvuð

Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans kom sér fyrir á þriðju hæð í skrifstofuhúsnæði Landsbankans á Pósthússtræti fyrir nokkrum dögum. Þetta staðfestir hann við DV. Hann segist ekki vera að vinna fyrir bankann, heldur sjálfan sig. 
Aðspurður um það hvaða starfsemi fari fram á skrifstofunni segist hann vera að koma á fót litlu ráðgjafafyrirtæki. „Sko. Það sem ég er að reyna að sjá er hvort maður eigi möguleika á því að vinna ráðgjöf fyrir hina og þessa. Maður er að reyna að búa sér til vinnu,“ segir Sigurjón og bætir því við að hann vilji helst halda því fyrir sjálfan sig hvað hann ætli sér að gera með fyrirtækið. 

Leigir af Landsbanka

Sigurjón leigir skrifstofuna af Landsbankanum. Hann segir þó að Landsbankinn hafi leigt húsnæðið af fyrirtæki sem eigi fasteignir út um alla borg. Hann segir skrifstofuhúsnæðið vera tómt og að verið sé að yfirgefa skrifstofur Landsbankans í húsnæðinu. „Þetta er allt meira og minna tómt núna,“ segir hann. 
Blaðamaður DV heimsótti húsnæðið í gær. Á fjórðu hæðinni, fyrir ofan nýja skrifstofu fyrrverandi bankastjórans, voru skrifstofur Landsbankans en þar var ennþá starfsemi í gangi. Þegar Sigurjón var spurður út í þetta sagði hann; „þá er bara ekki búið að færa það. Annars veit ég það ekki nákvæmlega. Ég held að það eigi að leigja þetta út fyrir einhverja nýsköpunarstarfsemi,“ segir hann.

Vonast eftir verkefnum

Sigurjón segir að hinar og þessar deildir Landsbankans hafi verið í húsinu. Hann vill þó ekki fara nánar út í það. Á skilti sem er á veggnum fyrir utan dyr húsnæðisins kemur fram að á þriðju hæðinni, þar sem skrifstofa Sigurjóns er, sé lögfræðisvið bankans staðsett. Þegar hann er spurður hvort að hann sé byrjaður að gefa Landsbankanum ráðgjöf svarar hann; „já ég ætla að vona að ég geti fengið einhver verkefni þar eins og annars staðar. Að sjálfsögðu.“ 
Hann tekur fram að það geti vel farið svo að að hann komi að einhverjum verkefnum til aðstoðar bankanum. Aðspurður um það hvort að hann hafi átt bréf í bankanum segir hann svo ekki hafa verið. Sigurjón segist undanfarið hafa skráð niður það sem gerðist í aðdraganda hrunsins til þess að það lægi fyrir og til að tryggja að menn hafi réttar upplýsingar. „Ég er auðvitað alltaf boðinn og búinn til að hjálpa Landsbankanum. Ég er alltaf tilbúinn til þess að gera það,“ segir hann að lokum.
Jón Bjarki Magnússon,
fyrrverandi blaðamaður á DV"

mbl.is Frétt DV stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er þessi frétt?

Ég hef bara ekki séð neina umfjöllun um dæmalausa handtöku á mótmælanda sem fór fram í gærkvöld. Það er aðeins DV og Nei sem fjalla um það. Ekkert á visir.is ekkert á eyjan.is, ruv.is eða mbl.is

Eru þessir fjölmiðlar að bíða eftir tilkynningu frá löggunni sem þeir geta copy peistað inn á miðla sína? Það er reyndar ekki neitt fjallað um þetta í dagbókum sem kenndar eru við lögregluna. Það þykir alltaf svo fréttnæmt að stútar séu teknir. 

Ég veit ekki með ykkur, en ég er búin að fá upp í kok af fréttamennsku sem viðgengst hér á landi - kalla eftir minna stýrðum umfjöllunum hjá helstu fréttaveitum landans. Hvet ykkur til að lesa bloggið hennar Evu og svo er afar góð umfjöllun um undarlegar áherslur í meðferð "glæpamanna" hjá Láru Hönnu sem tekst alltaf að setja hlutina í vitrænt samhengi.

Ungi maðurinn sem handtekinn var í gær er sá sem flaggaði Bónusfána á flaggstöng alþingishússins við mikinn fögnuð þeirra þúsunda mótmælenda sem voru á staðnum og annarra sem ekki upplifðu gjörninginn. En ætlun gjörningsins var að sýna fram á hin nánu tengsl ráðherra og þeirra sem eiga allt hérlendis. Miðað við hve seint gengur að klófesta þá er stolið hafa milljörðum frá þjóðinni - þá virðist þessi gjörningur vera algerlega réttlætanlegur en vafalaust hefur hann komið við einhverja dulda kennd í brjóstum ráðamanna og því brýnt að koma stráknum á bak við lás og slá svo hann taki ekki upp á því að mótmæla meira, eins og til dæmis í dag.

Mætti kalla gjörning lögreglu og yfirvalds gerræðislegan? Allir út að mótmæla klukkan 15. Við höfum engu að tapa.

 


mbl.is Hætti að greiða af lánum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir þræðir liggja til ...

Afar áhugavert viðtal frá Óháðu fréttaveitunni. Viðtal við rannsóknablaðamann frá Danmörku. Hann fjallar um hvert þræðirnir frá íslensku pappírs/stórfyrirtækjunum liggja sem og undarlega hringrás fjármagnsins. Hann kallar útrásarvíkingana bleyður - því enginn þeirra þorði að svara eða veita upplýsingar þó þeirra væri óskað með góðum fyrirvara -Frábært að það séu svona margar nýjar fréttaveitur að spretta upp. Lifi byltingin!
 

mbl.is Saga Sterling öll
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Sendið IMF bréf

Bréf sem fjölmargir eru að senda IMF: 

Dear sirs

I, the undersigned citizen of Iceland request that you do not submit the IMF loan to the government of Iceland until it has been investigated who is responsible for the economic collpase of the country and until those found responsible have been removed from all authoritative positions

Warm regards,

XXXX XXXXXXXXXX

Ef ykkur hugnast að senda bréfið þá skaltu skrifa undir og senda það á publicaffairs@imf.org. Ég hvet alla að senda svona bréf. Réttlætið þarf fram að ganga með góðu eða illu.


mbl.is Mikil óvissa um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnum samstöðu

Hvet alla sem ofbjóða þá valdníðslu og spillingu sem við höfum búið við og þurft að horfa upp á síðan þessi neyð brast á að mæta.

Ánægð að sjá að ræðumenn og konur eru úr röðum "þessa" almennings sem alltaf er verið að tala um en lítið hefur fengið tækifæri til að tjá sig. Ég ætla að reyna að komast á undirbúningsfund klukkan 12, fyrir næstu borgarafundi, sem mér fannst alveg stórkostlegt framtak og vil gjarnan leggja lið. Ég mun sennilega stökkva í gönguna um miðbik hennar, hef ekki haft tíma til að búa til fána eða skilti, nema í tölvunni minni á milli verkefna:) 

Ég er ánægð að sjá að allir eru að fylkja liði - þjóðin þarf að standa saman, við höfum sýnt í fortíðinni að við getum það. Sýnum í verki að við erum búin að fá nóg. Við höfum engu að tapa. Mótmælin byrja í dag klukkan 14 við Hlemm, gengið verður niður Laugaveg að Austurvelli. Á Austurvelli hefjast mótmælin klukkan 15 með stuttum og snörpum ræðum frá almenningi. 

Það eru nokkrir hópar í samfélaginu okkar sem hafa EKKI fengið mikla athygli og mig langar að minna á: atvinnuöryggi verktaka og réttur til bóta, öryrkjar sem búsettir eru erlendis, innflytjendur og ellilífeyrisþegar. 

Sá þessa fréttatilkynningu áðan frá Herði:

Frá 11. október kl. hefur hópur fólks staðið fyrir mótmælafundum á Austurvelli vegna ástandsins sem skapast hefur í þjóðfélaginu undir yfirskriftinni "Breiðfylking gegn ástandinu". Hópurinn, sem hefur það markmið að sameina þjóðina og stappa stáli í fólk, hefur fengið til liðs við sig ræðumenn sem víðast að úr þjóðfélaginu og hvatt félagssamtök til að standa saman og mæta á fundina.

Víða eru að myndast hópar sem heimsækja fundina og fulltrúar þeirra ávarpa fundargesti. Einn öflugasti og áhrifaríkasti hópurinn fram til þessa dags kallar sig “Nýja tíma” og hefur sýnt óvenju aðsópsmikla djörfung við að beina almenningi á fundinn á Austurvelli. Nýir tímar munu að þessu sinni safna fólki saman á Hlemmi klukkan 14.00 laugardaginn 1. nóvember og leiða göngu niður Laugaveginn og á fundinn á Austurvelli. Við fögnum því framtaki og styðjum þennan hóp heilshugar.

Á undan fundinum, meðan fólk safnast saman, leikur hljómsveitin KURR

Ræðumenn:
Pétur Tyrfingsson
Lárus Páll Birgisson

Ávörp flytja:
Óskar Ástþórsson, leikskólakennari
Díana Ósk, frá Foreldrahúsi
Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, eldri borgari og formaður Mæðrastyrksnefndar

Fundarastjóri: Hörður Torfason
 


mbl.is Efna til mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerti fyrir Tíbet í kvöld

Minni á kerti fyrir Tíbet í kvöld klukkan 21:00 - á Lækjartorgi, heima hjá þér, í vinnunni þinni.

Nánari upplýsingar og skráning á candle4tibet.org  

Frjálst Tíbet 

 Auðvitað er stórmerkilegt að heyra einn harðstjóra gagnrýna annan eins og þessi frétt ber með sér. En ég kýs að blanda ekki saman mínum aðgerðum varðandi stríðsrekstur bandarísku ríkisstjórninni við þetta málefni. Vinsamlegast virðið það. Getum spjallað um það á öðrum þræði, en komið endilega í kvöld á Lækjartorg eða kveikið á kerti heima hjá ykkur. Hægt að fá ódýr kerti í Bónus, bæði úti og inni kerti. 


mbl.is Segir að frelsi muni koma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir 100 milljón manneskjur tendra kerti fyrir Tíbet

Kerti fyrir Tíbet, hið alþjóðlega framtak Ísraelans David Califa hefur nú laðað að sér 100 milljón manneskjur sem hafa staðfest þátttöku sína í verkefninu. Dalai Lama og Robert Thurman hafa opinberað stuðning sinn við verkefnið og hvatt aðra til að taka þátt í þessu alþjóðafriðarátaki fyrir málstað Tíbeta.

 
Vinir Tíbets á Íslandi skipuleggja ljósahátíð í Reykjavík sem lið í þessu verkefni. Hátíðin hefst á Lækjartorgi klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldið 7. ágúst. Kveikt verður á kertum víðsvegar um heiminn klukkan 21:00 að staðartíma. Allir eru velkomnir og hægt að kaupa stormkerti á kostnaðarverði. Kertin verða notuð til að skrifa stórum stöfum “Save Tibet”. Þeir sem ekki hafa tök á að taka þátt í ljósahátíðinni geta samt sem áður sýnt ákalli Tíbeta um frelsi og að mannréttindi þeirra séu virt, stuðning með því að skrá sig á http://candle4tibet.org og kveikt á kerti á heimili sínu – best er að setja kertið út í glugga til að það verði öðrum sýnilegt.
 
Ljósahátíðinni er ekki ætlað að vera mótmæli gegn Ólympíuleikunum, heldur fremur að beina kastljósinu að því sem er að gerast í Tíbet en landið er enn lokað fyrir umheiminum og stöðugt berast fréttir af harðnandi aðgerðum gagnvart þjóðinni, sérstaklega gagnvart munkum og nunnum. Þá er þetta ekki heldur aðför gagnvart kínversku þjóðinni en mannréttindi eru víða brotin á kínverjum í heimalandi þeirra.
 
Með því að taka þátt í alþjóðaljósahátíðinni erum við að ljá þeim rödd okkar sem hafa ekki frelsi til að segja skoðanir sínar. Tökum ekki málfrelsi okkar sem sjálfsögðum hlut, notum þennan rétt til að segja hug okkar og lánum þeim sem hafa misst þennan rétt til að fræða aðra um hlutskipti þeirra.
 
Ljósahátíðin er öllum opin og er fólk hvatt til að skrá sig á http://candle4tibet.org - Þegar hátíðin er yfirstaðin á heimsvísu verður tekið saman hve margir skráðu sig frá Íslandi og yfirvöldum afhent bréf þess efnis og hvött til aðgerða til að stuðla að bættum mannréttindum í Tíbet.
kertifyrirtibet

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband