Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vefurinn

Arnarfjörður og arnarunginn

Friðgeir að mynda þvottaplan

Ég fór í örferðalag í vikunni og er enn að melta allt það sem ég fékk að upplifa. Hápunktarnir voru án efa Arnarfjörður og arnarunginn sem ég hitti á Snæfellsnesi.

Ég og einn besti vinur minn hann Friðgeir ásamt Neptúnusi og Delphin fórum á jazzbílnum Vernharði á vesturland til að byrja með. Tókum stefnuna á bóndabæ á Snæfellsnesi. Þar á stjúpi minn hlut í gömlum bóndabæ rétt við hafið. Við lögðum í hann á þriðjudag og vorum komin með góðum hléum um eftirmiðdaginn. Það var alveg yndisleg blíða og stillur. Fórum með Valda í smá ferð um spegilslétt hafið á gúmmíbát. Ætlunin var að fara í litla eyju og kíkja á arnarunga og athuga hvort að við myndum sjá selina sem synda þarna um. Og viti menn þrír selir kíktu á furðulega fólkið sem var á ferð. Lyftu sér hátt upp af forvitni og létu sig hverfa bara til að koma aðeins nær.

Arnarunginn

Það var að fjara svo við þurftum að drífa okkur út í eyju, yfir henni hringsólaði magnaðasti fuglinn í ríki fugla; örninn. Við fórum á eyjuoddann og sáum þar ófleygan arnarunga. Hann var þó engin smásmíði og vænghafið ótrúlega umfangsmikið. Greinilega vel nærður, stór kjötstykki í hreiðri og rándýrsblik í augum. Ég var hjá honum ein í smástund, fékk að ræna hann einni fjöður sem hann hafði misst og hugsaði um indíánablóðið í æðum mínum á meðan ég horfði í augu hans um stund. Það var á einhvern hátt eins og helgistund. Hljómar kannski furðulega en ég er auðvitað náttúrudýrkandi og fannst mikil forréttindi að fá að horfast í augu við örn um stund:)

Marglyttur við Flatey

Við skoðuðum lundana sem voru svo þungir af öllu æti dagsins að þeir ætluðu varla að geta hafið sig til flugs. Tókum svo stefnuna heim á bæ að fá okkur sjálf eitthvað í gogginn. Kíktum svo aðeins við á Stykkishólm í blíðunni og keyptum ís til að snæða með grilluðum banönum og suðusúkkulaði. Ég var orðin eitthvað veik en góður nætursvefn hressti mig við. Vaknaði klukkan 6 og náði að skrifa eitt ljóð í dagbókina mína, drakk í mig fegurðina allt um kring og vakti svo mannskapinn. Ég hafði sem betur fer keypt miða í ferjuna Baldur áður en ég fór á netinu - nokkrir þurftu greinilega frá að snúa. En strax klukkan hálf 9 var löng biðröð í ferjuna. Merkilegt hvað er hægt að troða mörgum bílum í þessa litlu ferju. Það er reyndar skömm frá því að segja að ég hafi aldrei farið í ferjuna áður á þann stað á landinu sem ég ber svo miklar og stórar tilfinningar til, þ.e.a.s. vestfjarða. 

Delphin inní styttunni

Mér finnst ferjan snilld og ætla að notfæra mér þessa þjónustu oft og mörgu sinnum. Það var gjóla og frekar kalt um morguninn en þegar við náðum landi á Brjánslæk var orðið vel heitt og kom síðar í ljós að slegin voru hitamet þennan dag líka fyrir vestan.  

Stefnan var tekin á Arnarfjörð en mér lék forvitni að sjá þann stað sem búið er að taka frá fyrir olíuhreinsunarstöð. Við fórum fyrst yfir Dynjandisheiði og sáum þar líka þessa merkilega flottu styttu. Kom í ljós að hún var gerð af vegavinnumönnunum sem unnu við gerð brúarinnar yfir Pennu árið 1958. Mér finnst þetta flottasta stytta sem ég hef séð á vegum úti hérlendis. 

Við stöldruðum aðeins við í botni Þernudals og hámuðum í okkur allskonar spikfeit ber. Delphin ofurhugi vildi endilega leggjast til sunds í kaldri ánni. Hann var á sundskýlunni mest allan daginn, alsæll í þessari vatnaveröld. Sá bregða fyrir stórum löxum í ljósgrænum hyl. Skemmtum okkur vel þarna í gróðurreit á hjara veraldar. Ofurhuginn varð reyndar svo yfir sig hræddur við geitung að það þurfti að bera hann að hellisbúa sið upp úr litla gilinu. 

Við komum við í Bíldudal eftir að hafa heillast af glæsilegum flugvelli við bæjarmörkin. Ég reyndar heillaðist enn frekar af Bíldudal. Yndislegur bær og mér þótti furðu sæta að þar var enga ferðamenn að finna á þessum fallega degi. Ég mun með sanni koma aftur til 

Við upphaf ferðalagsins

Bíldudals og vonandi hafa tök á að dvelja um einhvern tíma þar. Við rákumst á athafnamanninn Jón Þórðarson sem rekur skemmtilegt gallerí og vefsíðu bæjarins, hvet alla til að kíkja á vefinn, bildudalur.is. Ég ætla að skrifa meira um ferðalagið mitt. Þetta er bara að verða svo mikil ritgerð. Setti inn slatta af myndum frá ferðalaginu en á eftir að setja inn myndirnar frá Selárdal.

Verð að hætta núna en tek upp þráðinn á morgunn. Er að fara að hitta fyrsta internet vin minn sem ég kynntist árið 1995 og hef ekki enn hitt. Hlakka til að sjá hann í þrívídd:) Hann er skemmtilegur persónuleika af netnördakyni sem ferðast um heiminn með brúðleikhús í sérkennilegri kantinum.  


Kerti fyrir Tíbet

kertifyrirtibet 

Vinir Tíbets taka þátt í stærstu ljósaaðgerð í heimi þann 7. ágúst klukkan 21:00 á Lækjartorgi og þér er boðið. Ef þú hefur ekki tök á að koma á Lækjartorg getur þú kveikt á kerti á þessum tíma og sett í gluggann þinn til að sýna Tíbetum stuðning í frelsisbaráttu þeirra. Nánari upplýsingar og skráning fer fram á candle4tibet.org. 

Áþekkar ljósaaðgerðir munu fara fram út um allan heim og hafa yfir 515.000 skráð sig. Ljós í myrkrinu fyrir Tíbet á meðan setning Ólympíuleikana fer fram.

 


Homepage Hall of Fame 1998

Eitt sinn var vefurinn minn Womb of Creation ákaflega vinsæll viðkomustaður og fékk margskonar skringilegar alþjóða viðurkenningar í netsamfélaginu. Gróf þetta myndskeið upp af myndbandi og skemmti mér svo vel yfir þessu að ég mátti til með að deila þessu með bloggvinum mínum. Það getur vel verið að ég skelli líka tónlistarmyndbandi sem við Graham Smith gerðum saman þegar ég var 17 ára hér á bloggið ef ég kemst yfir aulahrollinn. Eitt af fyrstu tónlistarmyndböndunum sem gerð voru hérlendis og er ekki að eldast vel:) 

 

 


Margt framundan hjá Vinum Tíbets

DSCF2081
Að venju hittast þeir sem vilja fyrir utan kínverska sendiráðið á laugardögum klukkan 13:00 - markmiðið er að sýna Tíbetum stuðning í verki og minna á að við erum meðvitum um mannréttindabrot kínverska yfirvalda sem viðgangast í Tíbet. Okkar krafa nú sem endranær er að alþjóðfjölmiðlum verði hleypt inn í Tíbet tafarlaust.

Nánast engar fréttir eru að finna um hvernig ástandið er í Tíbet á þessari stundu og hvetjum við ykkur til að skrifa undir nýjan undirskriftarlista þar sem farið er fram á við IOC að þeir þrýsti á CCP að hleypa fjölmiðlum inn í Tíbet http://actionnetwork.org/campaign/Tibet_access

Við ætlum að taka þátt í alþjóðaaðgerðum næstkomandi miðvikudag, klukkan 17:30, þar sem við munum vera með táknræna afthöfn sem mun innibera kyndil og göngu frá kínverska sendiráðinu að stjórnarráðinu. Gott væri að fá uppástungur um hvað við getum gert meira til að fá athygli fjölmiðla á aðgerðina, en mikilvægt er að sýna Tíbetum stuðning á þessum örlagaríku dögum sem kyndilhlaupið í gegnum landið þeirra fer fram.

Verið er að skipuleggja fjölbreytta dagskrá sem mun fara fram væntanlega í Nasa eða Iðnó þegar lokaathöfn Ólympíuleikana fer fram. Við óskum eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða við þessa uppákomu. Ef þið hafið áhuga á að hjálpa hafið samband við okkur á info@tibet.is.  Markmiðið með hátíðinni er að safna peningum fyrir flóttamenn frá Tíbet. En margir þeirra missa heilsu á flóttagöngunni löngu og mikið af flóttafólkinu eru einstæð börn sem eiga hvergi höfði sínu að halla og einnig að vekja athygli á Tíbet.

Við erum jafnframt með í bígerð að hafa kertaathöfn þegar opnunarhátíð Ólympíuleikana á sér stað og hvetjum alla félaga til að taka þátt í henni. Við ætlum að búa til risastórt friðarmerki með kertum.

Við verðum væntanlega mjög fljótlega með bíósýningu í Hljómalind. Læt ykkur vita þegar dagsetning hefur verið ákveðin.

Ef einhver á þessum lista langar að gera eitthvað, eins og til dæmis að halda upplýsingakvöld, skrifa greinar og fá þær yfirlesnar eða hvað sem gæti gagnast félaginu ekki hika við að hafa samband og við erum tilbúin að hjálpa ykkur eftir fremsta megni. 

Okkur vantar einnig sjálfboðaliða til að halda utan um vefinn okkar, sjá um að skrifa og þýða greinar og efni. Þá langar okkur líka að gera lítið dreifirit og óskum eftir aðstoð við það.

Við ætlum að hafa opinn félagsfund næstkomandi föstudagskvöld klukkan 20:00 í Kaffi Hljómalind - allir sem hafa áhuga á að leggja félaginu lið eru velkomnir að koma. 


Og hún hló, og hún skelli skelli hló!

Það er að segja ég...

þessi ljósmynd er bara snilld. Er einmitt búin að liggja í MAD sérútgáfu tileinkaðri Star Wars síðustu daga og þessi mynd gæti einmitt verið teikning eftir einhverja af MAD mönnunum, en ekkert er þeim heilagt. Ég vona að fólk fari nú ekki að hneykslast á þessu, því þetta er bara fyndið. 

Fyrir þá sem vilja vita meira um Tíbet, þá setti ég fullt af slóðum á efni því tengdu sem og slóðir í heimildarmyndir á google video... Vona að fleiri taki sig til og kynni sér hvað er í gangi þarna og hefur fengið að viðgangast allt of lengi.

 


mbl.is Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítarleg grein um ekki neitt

Paradísarblóm

Ætla mætti að hin illræmda gúrkutíð sé hafin. Þessi frétt er byggð á tölum sem alveg á eftir að vinna og segja manni nákvæmlega ekki neitt. Það er til hafsjór af málefnum sem krefjast ekki mikillar yfirlegu sem mættu alveg fá meira vægi þegar gúrkutíðin ríður yfir eins og stormsveipur af einskisverðum fréttum. Til dæmis Tíbet. Finnst alþjóðasamfélag blaðamanna hafa brugðist þeim sem og öðrum löndum þar sem engir fjölmiðlar fá aðgengi. Er það sennilega vegna þess að alþjóðafréttaveitur dæla ekki út greinum sem auðvelt er að þýða án mikillar rökhugsunar eða þekkingar. En þekkingarskortur háir nútíma blaðamennsku svo mikið að telja má að það sé nokkuð hættuleg þróun, því fólk virðist ekki vera duglegt að leita sér heimilda handan þess sem það les í þessum alþjóðahring helstu fjölmiðla. 

Eins og áður kemur fram fæ ég alltaf mín fréttaskeyti varðandi Tíbet frá google. Það þýðir að ég hef ágæta yfirsýn yfir hvað er að gerast varðandi landið. En þessi skeyti eru harla einsleit og oft sama fréttin umskrifuð á fjölda tungumála. En ég fæ samt um 15 skeyti á dag. Flest skeytin hafa nokkrar fréttir. En skeytunum fækkar stöðugt og greinilegt að heimsbyggðin er að gleyma því sem er í gangi í landinu. Vona því að það verði hressileg mótmæli, því það er það eina sem virðist koma Tíbet á kortið. Netið er líka allt vaðandi í áróðri frá valdaklíkunni í Kína. 

Það er annað sem ég hef rekið mig á eftir að hafa átt fullt af samtölum við fólk frá öllum heimshornum sem flest þekkir einhverja Kínverja persónulega og það er samróma álit allra að vinir þeirra kínversku eru afar gagnrýnir á stjórnvöld í Kína varðandi mannréttindabrot enda flestir flúið landið út af einskonar ofsóknum. En þegar kemur að málefnum Tíbets þá er þeim fyrirmunað að horfast í augu við að þeir séu beittir sömu kúgun og samlandar þeirra. Og þeir eru algerlega fastir í þeirri sýn að í Tíbet séu allir að "deyja" úr hamingju. Merkilegt.

Ég kalla eftir innihaldsríkum og fræðandi fréttum í gúrkutíð. Ég kalla líka eftir jákvæðum fréttum, því heimurinn okkar er stöðug kraftaverkamaskína og má alveg minna á það miklu oftar.  

Set hér svo með mynd af paradísarblómi og mun án efa skrifa færslu um plöntur, því það er enn eitt dæmið um eitthvað sem er stöðugt að gleða mann, með litum, lykt og fegurð. (Ég er mjög væmin inn við beinið):)


mbl.is Aukin sala á áfengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á Tíbet?

Vaknaði klukkan hálf fimm í morgunn til að skrifa grein sem Ögmundur hvatti mig til að skrifa um ástandið í Tíbet. Hann var svo almennilegur að setja hana inn á vefsvæðið sitt áðan og auglýsa fyrir mig mótmælin sem ég er að standa fyrir í dag fyrir utan kínverska sendiráðið. 

Smellið hér til að lesa greinina mína á vefnum hans Ögmundur. Ég er bara nokkuð ánægð með hana. Besti tími til skrifta svona í morgunsárið áður en veröldin  í kringum mig vaknar.

Ég hef rekið mig á að það er eitthvað svona hægri vinstri dæmi í kringum Tíbet. Það á ekki að vera þannig. Finnst þess vegna frábært að sjá að Ögmundur er ekki undir slíka hugsanakreddur ofurseldur. Það er mikilvægt að fólk átti sig á að burtséð frá því hvar í flokki það stendur að fordæma ber brot á mannréttindum og þjóðarmorð. 

Því vildi ég gjarnan að við myndum einbeita okkur að því hvað við getum gert til að styðja við Tíbeta, fremur enn að byrja á einhverju hægri vinstri flokka nuddi. Það er bara ekki viðeigandi.

Ég er að skipuleggja mótmælin við sendiráðið og vekja athygli á því sem er að gerast í Tíbet til að styðja Tíbeta og það eru einu forsendur þessa aðgerða minna.  


Auglýsingar og ekki auglýsingar á moggabloggi

Ég var ein af þeim sem hafði hátt þegar skyndilega auglýsing frá fyrirtæki sem ég er lítið hrifin af birtist á bloggi mínu. Moggabloggsstjórar hafa brugðist við athugasemdum bloggverja sem kærðu sig ekki um þetta og getur maður nú keypt auglýsingarnar burt af sinni síðu. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir það. Ég er ekki ein af þeim sem ætlast til að fá hlutina ókeypis en margir kverúlantar hafa talað niður til okkar sem vildum valkost og sagt okkur vera frekjur og nöldurskjóður. Ég hygg að margur haldi mig sig:)

Ég er allavega búin að kaupa þessa auglýsingu burt og býð mínum lesendum og vinum upp á auglýsingafrítt blogg:) og get þá farið að blogga af kappi á ný. Auðvitað hefur margt gott gerst í blogghléi og ég hef oft verið alveg að springa úr löngum að tala um það. Þetta svæði hefur verið einskonar tilraunasvæði í mannlegum samskiptum hjá mér og hefur mér fundist þessi tilraun í 99% skipta hafa verið mjög jákvæð upplifun. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á netheimum og verið forvitin um hvernig það þróast. Hélt meira að segja út bloggi í aðdraganda fyrstu margmiðlunarhátíð landsins árið 1996. Hygg að það hafi verið eitt af fyrstu bloggum landsins. Það er enn til í netheimum sem söguleg heimild. Skammast mín smá fyrir afleita ensku á því... en það er samt eins og mörg góð blogg einlægt og laust við hroka.

Enn og aftur : takk fyrir að hafa valkost:) 

 


Enn bíð ég eftir svörum vegna auglýsinga

Maður er búinn að leggja óhemju vinnu í þetta blogg, og ég er alveg til í að borga fyrir hýsingu ef ég losna við hreyfimyndahörmung af bloggi mínu.

ÉG VIL FÁ VALKOST, TAKK FYRIR, NÚNA! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband