Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

DV pistillinn minn frá því um síðustu helgi

Alvöru fyrirvarar eða I SLAVE FOR ICESAVE

Ég verð að viðurkenna að því meira sem ég skoða Icesave málið því meira óbragð fæ ég í munninn. Því nær sem ég kemst að niðurstöðu, því meiri óhug og beyg fyllist ég. Það er ónotatilfinning innra með mér að á meðan samborgarar mínir margir þjást út af óábyrgri og sérplægninni stjórnsýslu að fjalla um mál sem frá fyrsta degi bar með sér svo margar ambögur að skynsamlegast hefði verið að byrja upp á nýtt. Icesave málið er vandamál íslenskrar stjórnsýslu í hnotskurn. Í stað þess að byrja upp á nýtt er stöðugt reynt að stoppa í götin sem oft eru orðin stærri en málið sjálft. Þetta minnir mig óendanlega mikið á sögurnar um Bakkabræður hina fyrri.

Eðlilegast hefði verið að viðurkenna strax mistökin við samningagerðina í stað þess að halda okkur í Icesave gíslingu í allt sumar. Dýrmætum tíma endurreisnar hefur verið sóað í að karpa um eitthvað sem öllum var ljóst, að samningurinn væri óheillaplagg sem bæri að farga.

Ég skil ekki hvað hæstvirtum fjármálaráðherra gekk til að halda því fram í upphafi málsins að smávægilegar breytingatillögur á samningum þýddu að hann væri fallinn og það þyrfti að byrja upp á nýtt með allt ferlið og þá værum við komin á svo skelfilegan stað sem þjóð að sjálf móðuharðindin bliknuðu í samanburði. Núna talað hæstvirtur utanríkismálaráðherra um skapandi hugsun til að koma hinum sveru og voldugu fyrirvörum inn í samninginn sem var í upphafi svoviðkvæmur að það mátti ekki einu sinni sína þingmönnum hann. Það þurfti að leka samningum út í fjölmiðla til að við sem áttum að samþykkja stærsturíkisábyrgð í sögu íslands fengjum loks að sjá hann.

Icesave málið er þrungið óheilindum og  leynimakki sem ég satt best að segja var að vonast til að myndi heyra fortíðinni til.
Sagan í kringum Icesave/Iceslave samningsins er eins og söguþráður í lélegum reyfara. Ég ætla ekki að leggja það á fólk að rekja þessa sögu enda hefur hún verið rakin út um allt samfélag undanfarna mánuði.

Það eru þó nokkur stikkorð sem mér finnst þó mikilvægt að minna á áður en þetta verður til lykta leitt.

Nýju Versalasamningarnir
Hryðjuverkalög
Al qaeda
Zimbabwe
Landsbankinn
Kúba Norðursins
Leyniskjöl í leyniherbergi
Icesave
Iceslave
Brussell viðmiðin
InDefence
Þverpólitísk samstaða
Ögmundarskilyrði
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Paris-klúbbs viðmiðin
ESB aðildarviðræður stranda á Icesave
AGS strandar á Icesave
Norðurlandalánin stranda á Icesave
Kúguð, kúgun nýlenduherraþjóða
Nauðasamningar
Tíminn
Leyndin
Bankaleyndin
Fyrirvarar
Mótmæli
Óvissa
Ótti
Knésett
Alvöru fyrirvarar
eða framtíðarsöngur landans verður I slave for Icesave

Smá þakklæti og smá jákvæðni

Ég er alveg óendanlega þakklát allri þeirri sjálfboðaliðavinnu sem hin þverpólitísku samtök Indefence hafa innt af hendi fyrir þingmenn og þjóð í tengslum við Icesave.

Ef þessir blessuðu sveru og digru fyrirvarar halda þá gætum við gert alvöru góðverk á heimsvísu – en þeir myndu hafa fordæmisgildi fyrir aðrar þjóðir sem búa undirfátæktarmörkum og geta þá eins og við samið útfrá greiðslugetu. Það væri jákvætt og öllu betri arfleifð en sú mynd sem alþjóðasamfélagið hefur af okkur í dag.

Vek athygli á viðburði í hádeginu á morgunn

Frosti Sigurjónsson hefur kallað eftir hávaða á Austurvelli á fimmtudaginn (morgunn). Ég tek mér það bessaleyfi að líma bloggfærslu hans frá því í morgunn hér á síðuna mína.


"Þú getur unnið þér inn 1-2 milljónir með hávaða!

Þetta verður í allra mesta lagi hálftíma púl en tímakaupið gæti orðið miklu hærra en hjá nokkrum útrásarvíkingi - ef þú stendur þig vel.

Það eina sem þú þarft að gera er að mæta á Austurvöll (eða í miðbæinn í þínum bæ) á fimmtudaginn kl. 12:00 og taka þar þátt í því að gera eins mikinn hávaða og þú mögulega getur. Bara í c.a. 20 mínútur. Þetta verður stuð! Taktu vinina með og næstu lúðrasveit. Vegleg verðlaun fyrir mesta hávaðann.

Ef þú kemst ekki á Austurvöll getur þú samt tekið þátt með því að gera sem mestan hávaða hvar sem þú ert. Gott er að þeyta bílflautu ef hún er við höndina, hækka græjurnar í botn og opna út á götu, berja potta úti á svölum, blása í lúður eða stappa og öskra. Fáðu alla í lið með þér, því fleiri því meira gaman og þetta verður holl og góð útrás fyrir sálartetrið.

Markmiðið með þessum gríðarlega hávaða er að andmæla því að þjóðin verði látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra. Nóg erum við búin að þola samt. Enda er stríðir það líka gegn öllum lögum og siðgæði að láta okkur borga. Á það hafa margir bent bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Þjóðin á ekki að láta slíkt óréttlæti yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust!

Ef nógu margir mótmæla nógu hátt þá munu þingmenn okkar sem og Bretar og Hollendingar skilja að þjóðin vill alls ekki samþykkja ICESAVE samninginn. Þá gæti farið svo að þú og allir aðrir Íslendingar skuldi 1-2 milljónum minna en þeir hefðu annars gert.

Bretar og Hollendingar geta ef þeir vilja hirt þessa fjárglæframenn og bankann þeirra en þeir fá aldrei að velta þessum óreiðuskuldum á íslenskan almenning.

En hvað með fyrirvarana - duga þeir ekki? Nei - Þeir snúast því miður aðeins um lægri greiðslur (frestun) ef illa gengur í efnahagslífinu. Vextir halda samt sem áður áfram að tikka á eftirstöðvunum. Það er enginn fyrirvari sem segir að skuldin falli niður - aðeins óljóst orðalag um að aðilar skuli "ræða málið" árið 2024 ef skuldin er þá ekki uppgreidd.

Allir með í HÁVAÐANUM MIKLA!"


Hjartanlega sammála Kristjáni

Það hefur verið ömurlegt að horfa upp á þá aðför sem hefur verið höfð í frammi gagnvart atvinnulausu fólki. Það gleymist oft hve erfitt það er að þurfa að fá atvinnuleysisbætur og sjá ekki fram á að finna vinnu. Margir finna til þunglyndis og dagarnir verða æði langir hjá þeim. Síðan bætast við áhyggjur af fjármálum og framtíðinni. Það er kominn tími til að þessari aðför ríkisvaldsins linni. Meirihluti þeirra sem eru á bótum eru ekki að svindla á kerfinu og eru rétt eins og þeir sem hafa misst eigur sínar í hrunadansinum, fórnarlömb þessa algera kerfishruns sem við erum að glíma við.

Það er margt sem betur mætti fara í kerfinu hjá Vinnumiðlun - hvernig væri að fá eitthvað af atvinnulausa fólkinu sem hefur reynslu af mannauðstjórnun og tölvukerfum til að vinna að úrbótum til að kerfið verði mannlegra og skilvirkara?


mbl.is Atvinnulaust fólk-ekki skrokkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave utanríkismálanefndar álit mitt

Þetta er nánast orðið úrelt en þetta álit ritaði ég um miðjan síðasta mánuð en það var tekið úr utanríkismálanefnd allt of snemma að mínu mati - ég vil taka það fram að ég mun ekki undir neinum kringumstæðum geta samþykkt meirihlutaálit fjárlaganefndar nema búið sé að kanna á trúverðugan hátt hvort að þessir fyrirvarar verða virtir í breskum og hollenskum dómsstólum. Vonandi kemst það á hreint í dag - en erfiðlega gengur að fá meirihlutann til þessara verka. Þ.e.a.s. að fá þetta staðfest. Ítrekað hefur verið beðið um það. 

En hér er semsagt Icesave nefndarálitið mitt sem ég mun byggja ræðuna mína á í dag. 


um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í utanríkismálanefnd gagnrýnir harðlega vinnubrögðin í nefndinni er lúta að Icesave-samkomulaginu. Það er skrumskæling á lýðræðinu að taka ekki tillit til og hunsa gagnrýni fjölmargra sérfróðra gesta nefndarinnar varðandi málið sem og annarra sem hafa tjáð sig um það. Þessi vinnubrögð kasta rýrð á fagmennsku þeirra sem eru á öndverðum meiði við þá sem mæra samninginn og segja hann með öllu hættulausan.
    Þá gagnrýnir Borgarahreyfingin að ekki fáist leyfi til að kalla til fleiri gesti er varða málið, en daglega koma fram nýjar upplýsingar sem gætu gefið nefndinni heildstæðari mynd af áhrifum þess að samþykkja samninginn í óbreyttri mynd.
    Það yrði þinginu til sóma að gefa Icesave-málinu nauðsynlegan tíma þó ekki væri til annars en að hrekja þau varnaðarorð sem um samninginn hafa fallið. Hins vegar er greinilegt að nefndarfundirnir hafa einungis verið settir upp sem leikrit um fyrirframákveðna atburðarás. Keyra skal þetta mál í gegn sama hve alvarleg gagnrýnin er. Erfitt er að skilja hvað vakir nákvæmlega fyrir meiri hluta nefndarinnar með þessari leiksýningu, en álit hans getur valdið þjóðinni stórtjóni ef einhver skyldi álpast til að þýða það og afhenda Bretum.
    Utanríkismálanefnd hunsar nánast með öllu í áliti sínu um Icesave þá gagnrýni fjölmargra gesta nefndarinnar að í samningnum séu stórhættuleg ákvæði og gallar, sér í lagi þeim breska, sem óvefengjanlega geta kostað þjóðina himinháar upphæðir ef ekki eru tekin af öll tvímæli um þessa gagnrýni. Utanríkismálanefnd hefur ekki tekist það og ef eitthvað er þá bætast við stöðugt fleiri sem gagnrýna þessa áhættuþætti samningsins.
    Þessi vinnubrögð eru óviðunandi því að samningurinn um Icesave-skuldbindingarnar er eitt stærsta mál sem Alþingi hefur fjallað um. Það að gefa út ríkisábyrgð á gjaldfallna skuld væri einsdæmi. Nefndin hefur ekki fengið nema örfáar vikur til að fjalla um Iceasave, enn heyrist af gögnum sem eiga eftir að koma fram sem og nauðsynlegum útreikningum um raunverulega skuldastöðu þjóðarinnar. Það er því enn ekki ljóst hvort við getum yfirhöfuð staðið við þessar skuldbindingar. Það er mat Borgarahreyfingarinnar að það auki ekki á trúverðugleika okkar erlendis að gangast við skuld sem vitað er að þjóðin getur ekki greitt. Því er næsta víst að reyna mun á þau ákvæði samningsins sem hlotið hafa hve mesta gagnrýni.
    Borgarahreyfingin hefur lýst því yfir að hún muni ekki gera atlögu að ríkisstjórninni verði Icesave-samkomulagið fellt á þinginu. Þetta er mál sem verður að taka ofar pólitíkinni og leysa af skynsemi og yfirvegun og finna þverpólitíska sátt um. Álit meiri hlutans tekur í engu tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á fundum nefndarinnar frá gjörvöllum minni hlutanum og því er útilokað fyrir okkur að styðja álitið.
    Það er álit 1. minni hlutans að nauðsynlegt sé að fresta þessu máli fram á haust, skipa beri þverpólitíska sérnefnd um málið inni á þingi sem skili af sér áliti í haust. Skýra þarf vel fyrir hlutaðeigendum forsendur og nauðsyn þessarar frestunar og setja nú þegar saman hóp sem mun sjá um að kynna málið erlendis og ráða til þessa verkefnis sérfræðinga í almannatengslum hérlendis sem erlendis til að takmarka skaðann, ef einhver verður, ef þessu verður frestað. Ljóst er að þau tengsl sem reynt var að benda á varðandi Icesave og ESB eru til staðar og styður álit meiri hlutans þá gagnrýni okkar. Hræðsluáróðurinn í áliti meiri hlutans er slíkur að ætla mætti að við værum betur sett undir Danakonungi með ormamjöl og einokun.
    Langheiðarlegast væri að láta Breta og Hollendinga vita að það sé ekki vilji til að skrifa undir ríkisábyrgð án þess að koma með alvöru skilyðri um breytingar á samningnum. Fyrir nefndinni hefur verið sagt að það eitt og sér muni fella samninginn. Á sama tíma er ljóst að samningurinn verður felldur á þinginu ef engin alvöruákvæði um breytingar verða gerð. Því væri best að láta Breta og Hollendinga vita af þessu nú þegar og setja strax saman faglega samninganefnd ástamt því að kalla til almannatengslafyrirtæki í Bretlandi og Hollandi og undirbúa hvernig við ætlum að útskýra fyrir umheiminum okkar hlið á málinu. Það er alveg furðulegt þegar því er haldið fram að með því að fella samninginn í þeirri ómögulegu mynd sem hann er nú séum við að segja umheiminum að við ætlum okkur ekki að axla ábyrgð á þessu máli.
    Borgarahreyfingin skorar enn og aftur á ríkisstjórnina að gefa þingmönnum þann tíma sem þeir óska eftir til að ná sátt um þetta mál, til að eyða vafaatriðum og koma með heilsteyptar tillögur að úrbótum ef þörf er á eftir að hafa farið vandlega yfir málið.
    Jafnframt er mikilvægt að tekið sé tillit til þess og sett með skýrum hætti fram að þeir sem efndu til þessara skulda eigi á endanum að borga þetta skuldabréf en ekki almenningur í landinu.


Birgitta Jónsdóttir

Margrét bað Þráin afsökunar...

Sjá þetta bréf sem hún birti á bloggi sínu í dag:

Kæri Þráinn,

Þar sem ég fékk ekki tækifæri til að tala við þig í dag langar mig að skrifa þér nokkrar línur.

Ég veit ekki hvað þér barst til eyrna í dag en grunar að það sé ekki nákvæmlega það sem frá mér kom. Á föstudaginn skrifaði ég Katrínu tölvupóst. Þar trúði ég henni fyrir því að ég hefði áhyggjur af þér. Ástæða þess að ég sendi henni bréf er að ég hef oft, og ekki síst á síðustu vikum, skynjað mikla umhyggju hennar og væntumþykju í þinn garð og mér hefur fundist hún heil og heiðarleg manneskja. Þá hélt ég að hún þekkti þig ef til vill á annan hátt en við í þinghópnum og hefði til að mynda kynnst fjölskyldu þinni eða þekkt aðstæður þínar betur en ég. Af misgáningi fór bréfið víðar en ég hafði hugsað mér. Það skrifast á mig en ég bað viðkomandi aðila að leiða efni þess hjá sér enda greinilega aðeins ætlað Katrínu.

Ætlunin var alls ekki að væna þig um nokkurn skapaðan hlut en áhyggjur mínar voru raunverulegar. Ástæða þeirra er að ég hef illa getað áttað mig á ummælum þínum í garð okkar Þórs og Birgittu síðustu vikur. Ef til vill segir það meira um mig en þig. Ég er ekki vön að standa í deilum við nokkurn mann og hef aldrei fyrr upplifað það að einhver félagi minn eða vinur hafi ekki viljað ræða málin við mig. Í kringum mig og í fjölskyldunni minni er aðallega tvenns konar fólk, annars vegar fólk eins og ég sem skiptir skapi einu sinni á ári og hins vegar fólk sem er mjög örgeðja og sér rautt ef það reiðist en er svo runnin reiðin tuttugu mínútum síðar og skilur ekki hafaríið í kringum það. Slíkum samskiptum fylgir sá kostur að andrúmsloftið hreinsast mjög fljótt. Ég kann illa á langvarandi deilur og vona eiginlega að ég þurfi aldrei að læra á þær sem virðist þó ólíklegra með hverjum deginum sem líður er við höfum í huga það umhverfi sem við störfum nú í.

Mér þykir afskaplega vænt um þig Þráinn og met þig mikils. Það hefur verið mér dýrmætt að kynnast þér, mér finnst þú merkilegur maður og ég hef alltaf kunnað að meta verk þín. Mér finnst þú vera frumkvöðull á mörgum sviðum, ekki síst í hreinskiptinni umræðu og því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Og svo ertu líka fyndinn.

Nú erum við öll að starfa í nýju og frekar andstyggilegu umhverfi og það er kannski ekkert skrítið að ýmislegt gangi á. Auk þess er Borgarahreyfingin að einhverju leyti hreyfing fólks sem ekki hefur fundið sig í öðrum hreyfingum. Við fordæmum hjarðeðli annarra hreyfinga en þyrftum kannski á örlitlu hjarðeðli að halda sjálf. Auk þess hriktir í öllum stoðum samfélagsins í þessu icesave máli og fólk í öllum flokkum að fara á límingunum.

Ég vona einlæglega að við getum unnið áfram saman, ekki bara við tvö heldur öll fjögur. Ég hef verið boðuð á sáttafund annað kvöld kl. 8 og mun mæta þar. Mér þykir ákaflega leitt ef ég hef sært þig og vil að þú vitir að það var ekki viljandi. Mér fannst gott að heyra í þér í dag þótt þú værir að skamma mig. Ég vona að þú komir á fundinn annað kvöld og að við getum komið samskiptum okkar í lag. Ef ekki þá vill ég alla vega að þú vitir að ég ber hag þinn fyrir brjósti og mér þætti betra að hafa þig í litla hópnum okkar en utan hans. Kjósir þú hins vegar að vinna ekki með okkur get ég alveg virt það við þig enda treysti ég þér til að vinna í anda hreyfingarinnar. Það mun ég líka reyna eftir fremsta megni.

Kveðja,

Margrét

Næsta morgun beið mín bréf frá Þráni:

Sæl Margrét.

Á sama hátt og tilraun Bjarna Harðarsonar til mannorðsmorðs á samflokksmanni sínum lenti fyrir klaufaskap í höndum annarra en atvinnurógurinn var ætlaður lenti þitt bréf víðar en hjá Katrínu.

Bjarni sá sóma sinn í að segja samstundis af sér þingmennsku þegar hann áttaði sig á því hvað hann hafði gert.

Hvort þú hefur einhverja sómatilfinningu veit ég ekki. Þetta bréf þitt vekur efasemdir um að þú þekkir greinarmun á réttu og röngu. Hitt veit ég að mér er annt um mannorð mitt og orðspor og hyggst ekki láta Gróu á Leiti koma á flot einhverjum grunsemdum um að ég sé ekki við góða heilsu andlega - eða líkamlega.

Ég hef gert stjórn Borgarahreyfingarinnar grein fyrir því að annaðhvort segi ég mig úr Borgarahreyfingunni eða stjórnin reki þig úr Borgarahreyfingunni og geri kröfu um að þú segir af þér þingmennsku. Ennfremur áskil ég mér allan rétt til að lögsækja þig fyrir róginn fyrir dómstólum ef mér og lögmönnum mínum þykir ástæða til þess, og grípa til allra aðgerða sem ég tel nauðsynlegar til að vernda orðspor mitt og mannorð fyrir hinum “góðviljaða” rógburði þínum.

Ég veit ekki hvort þú gerir þér grein fyrir því hversu alvarlegan hlut þú hefur gert þig seka um. Þó vona ég að þú áttir þig á því þótt þetta bréf þitt bendi ekki til þess.

Þráinn Bertelsson

Þetta bréf sendi hann einnig á formann stjórnar Borgarahreyfingarinnar með þessum formála:

Blessaður Herbert.

Eftirfarandi er sent þér (og, ef þér sýnist svo, stjórn Borgarahreyfingarinnar) til upplýsingar. Ég tek ekki þátt í þöggun, undirferli eða leynimakki, þótt stjórn Borgarahreyfingarinnar hafi ekki þótt taka því að senda mér rógsbréf Margrétar þannig að ég gæti borið hönd fyrir höfuð mér.
Bestu kveðjur,
Þráinn Bertelsson
Eins sendi hann eftirfarandi bréf til stjórnar Borgarahreyfingarinnar:
Til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.
Það bréf sem hér fer á eftir barst ykkur fyrir nokkru síðan - eða hinn 7. ágúst. Ekkert ykkar hreyfði legg né lið til þess að láta mig vita af þessu fáheyrða rógsbréfi fyrr en varaformaður BH Lilja Skaftadóttir sagði mér af tilveru þess í símtali frá Frakklandi nú fyrir skemmstu. Fyrir þann heiðarleika hefur Lilja mátt sæta aðkasti og því ætla ég ekki að nefna nafn þess stjórnarmanns sem lét stjórnast af heiðarleikanum og sendi mér samrit af rógsbréfinu.
Þessi þétta yfirhilming og tilraun til að þagga niður svívirðilegan verknað segir mér að þótt þið hin viljið skarta og skreyta ykkur með fjöðrum eins og “sannleika” og “hreinskilni” þá eru það orðin tóm - og þið eruð ekki þess verð einusinni að taka ykkur slík orð í munn. 
Með yfirhilmingu eruð þið samsek rógberanum, Margréti Tryggvadóttur sem hugðist senda róginn varaþingmanni mínum Katrínu Snæhólm Baldursdóttur en slysaðist “a la Bjarni Harðarson” til að senda einnig á alla stjórn Borgarahreyfingarinnar. Bjarni Harðarson bjargaði þó leifunum af mannorði sínu með því að segja af sér þingmennsku um leið og það rann upp fyrir honum að hann hafði afhjúpað sjálfan sig.
Ég lít á þetta bréf sem tilraun til að draga úr trúverðugleika mínum sem opinber persóna, þingmaður og listamaður, með öðrum orðum sem tilraun til mannorðsmorðs - sem ég lít jafn alvarlegum augum og ef um væri að ræta tilræði gegn lífi og líkama. Að vísu er þessi tilraun ekki mjög sannfærandi, en það er ekki vegna þess að bréfritara hafi vantað illviljann heldur aðeins andlegt atgervi - til að mynda kann Margrét ekki einusinni að stafsetja rétt nafnið á þeim skelfilega sjúkdómi sem hún vill bera út að herji á mig.
Það leikur enginn vafi á því að sögn lögmanna minna að innihald, samning og sending þessa bréfs varðar við hegningarlög og áskil mér að sjálfsögðu allan rétt í því sambandi. 
Ég mun eftir helgi segja mig úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar með formlegri yfirlýsingu á Alþingi - þangað til og gagnvart ykkur verður þetta bréf að duga - því að eitt er að reyna að halda friðinn við venjulega lygara og svikara og hitt að reyna að sitja á sátts höfði við fólk sem svífst einskis til að reka rýting í bakið á mér - að ég tali nú ekki um það ómerkilega fólk sem kýs að hilma yfir tilræðismanninum í stað þess að standa með fórnarlambinu.
Bestu kveðjur,
Þráinn Bertelsson
Auk þess hefur Þráinn haft samband við mig til að fræða mig nánar um hegningarlög.

 


mbl.is Segir þingmenn skorta dómgreind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða

Það þarf að taka þetta risamál upp úr flokkspólitískum skotgröfum - Ögmundur lagði það til í gær í Kastljósi og þar er ég honum hjartanlega sammála. Meirihluti þjóðarinnar hefur óskað þess og okkar er að bregðast við því. Ég ætla því að taka þátt í samstöðufundinum fyrir utan vinnustaðinn minn og vona að sem flestir mæti því ég held að á stundum sem þessum þyrsti fólki í samstöðu ofar sundrung.
mbl.is Boða samstöðufund á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er myndefnið sem sannar málstað mótmælenda?

Ég hef nú kíkt á alla fjölmiðlana og finn hvergi myndefnið sem fylgdi fréttatilkynningunni frá SI. Ég fékk þessa tilkynningu og myndefnið og ætla að leyfa myndunum að tala sínu máli en það er ekki neitt nýtt að fjölmiðlar gleypi hrátt það sem lögreglan segir þeim, samanber mótmælin í vetur.

 
 
dsc_0126-2.jpg
 
dsc_0157-2.jpg
 
dsc_0161-2.jpg
 
dsc_0169-2.jpg
 
dsc_0211-2.jpg

mbl.is Saving Iceland: Rógburður lögreglu og lygar fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að læra nýtt tungumál

Dagbók þingmanns - hin vikulega dagbók mín fyrir DV.

Að fara inn á þing með nýja hreyfingu er snúið mál. Undanfarnir mánuður hafa verið með lærdómsríkustu tímum lífs míns. Að koma inn á þing með nýjan þinghóp þar sem allir eru nýgræðingar er eins og að vera lokaður inni í veruleika þar sem allir tala framandi tungumál sem við þurfum öll að leggja okkur fram við að skilja á einhverjum þeim örlagaríkustu tímum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Sumarþing sem átti að standa í viku hefur nú staðið yfir í þrjá mánuði og enginn endir er í sjónmáli þó margir séu orðnir fullir vonar um að hægt verði að ljúka þingstörfum í komandi viku. Ég er ekki viss um að það sé endilega skynsamlegt að ljúka þingi útfrá einhverri fyrirfram gefinni dagsetningu – nær væri að ljúka þessu stóra máli sem við erum að glíma við með sóma. Þetta er annars furðulegt starf og maður þarf að hafa þykkan skráp til að þola allt illa umtalið og reiðina sem dynur á manni ef manni verður á að misstíga sig eða fylgja sannfæringu sinni. Ég get alveg skilið af hverju ákveðið fólk velst inn á þing, það er ekki fyrir viðkvæma að vinna þessa vinnu eða fólk sem vill eiga eitthvað einkalíf. Þetta er vinna þar sem maður fær aldrei frí og þetta er vinna sem krefst þess af manni þ.e.a.s. ef maður vill sinna henni vel að maður nái því að halda áttum þó allt sé logandi í kringum mann. Þetta er vinna þar sem maður þarf að hafa náð því meistaralega vel að taka hlutina ekki persónulega og þar sem innsæið verður að fá að vega þungt. Mikið er ég rosalega þakklát fyrir að Borgarhreyfingin hefur eftirfarandi í sinni stefnu: Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar markmiðum stefnuskrár hennar hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.

Hvenær kemur réttlætið?

Það er alveg makalaust að ekki er búið ennþá að frysta eigur eða af hverju bankarnir eru ekki teknir út sem þær svikamyllur sem þeir greinilega eru. Það er ömurlegt að vita til þess að sumt fólk kemst upp með það að svíkja og pretta á siðlausan en löglegan hátt – því vinir og vandamenn þeirra hafa samið regluverkið sem þeir fara eftir eða hafa ekki sett það í forgang að laga það. Það er ömurlegur veruleiki fyrir þá sem eru að glata öllu sínu að vita til þess að þeir sem eru að stela lífsgæðin frá börnunum þeirra fái enn að leika lausum hala í fjármálaheiminum með leppa sér til handa. Auðvitað kallar slíkt á almennt siðrof. Á meðan ekkert réttlæti fyrirfinnst í samfélagi okkar þá er ósanngjarnt og óréttlátt að ætlast til þess að almenningur fórni sér með lakari lífsgæðum og lifi í dauðans óvissu um afkomu sína næsta áratuginn. Það verður hreinlega að hætta þessum hvítþvotti og láta einhverja sæta raunverulegri  ábyrgð. En það hefur aldrei verið sterka hlið okkar ráðamanna að taka pokann sinn sama hvað viðkomandi hefur verið uppvís af siðlausri framkomu. Hættum að vera eins og stór Sikiley og förum að haga okkur eins og siðmenntað fólk – það mun enginn – ekki nokkur maður taka mark á okkur á erlendri grund ef við höldum áfram á þessari braut. Það er líka alveg ótrúlegt að sá flokkur sem átti sinn stóra hlut í hruninu hafi í stað þess að vera látinn axla ábyrgð fengið meirihluta og þessi sami meirihluti hafi sett í æðstu embætti ríkisvaldsins og þingvaldsins fólkið sem sofnaði á vaktinni. Hvenær kemur réttlætið – kemur það kannski ekki fyrr en næsta bylting brestur á? Framundan er greiðsluverkfall og fólksflótti. Hlutverk ráðamanna er að skapa réttlátt samfélag en þannig samfélag verður aldrei hér á meðan AGS ræður för.

p.s. ég þigg ekki greiðslur fyrir þessi greinaskrif... smá samfélagsþjónusta:)


XO og Icesave

Allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar eru að vinna að Icesave saman fyrir utan Þráinn en hann er ekki í neinum af þeim nefndum sem hafa fjallað um málið. Það er góð samstaða meðal okkar þriggja og við erum að reyna að finna leið til að tryggja að þessir óskapnaður sem þessi samningur er verði aldrei samþykktur í núverandi mynd en jafnframt tryggja að við sýnum ábyrgð og samstarfsvilja á alþjóðavettvangi. Það er einlæg skoðun okkar þriggja að Icesave skuldbindingarnar eigi fyrst að falla á þá sem efndu til skuldarinnar en síðast á þjóðina. Okkur finnst samt ekki vænlegt að gera ekki allt sem í okkar valdi stendur til að varpa ábyrgðinni á þessum meingallaða samning yfir á þá sem sömdu hann og undirrituðu hann.

Ef ekki er alveg örugg að samningunum verði hafnað á einn eða annan hátt munum við auðvitað segja NEI.


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að segja NEI á penan hátt

Það er svo merkilegt við fólk hvað það er alltaf tilbúið að trúa hinu versta upp á mann - samanber sumar athugasemdnirnar við þessa frétt:) Vil árétta það sem ég hef alltaf sagt: ég mun ekki samþykkja Icesave í þeirri mynd sem það er. Það er aftur á móti afar óheillavænt að segja Nei við borgum ekki án þess að koma með einhverjar samningatillögur á móti. Borgarahreyfingin setti eitt framboða mjög skýra stefnu varðandi Icesave í sína stefnuskrá. 

"6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. "

Þannig að það er alveg ljóst kæru áhugamenn um meint svik mín að ég mun EKKI samþykkja Icesave NEMA með alvöru fyrirvörum sem ekki er hægt að breyta. Og það verður að vera alveg ljóst að með því að setja alvöru fyrirvara er verið að hafna þessum samning á penan hátt...
Svo verður að vera þarna eitthvað meitlað í stein sem segir að leita skal allra mögulegra leiða til að tryggja að þeir sem efndu til þessarar skuldar eigi að greiða þetta en ekki þjóðin mín.


mbl.is Styðja Icesave með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband