Leita í fréttum mbl.is

Icesave utanríkismálanefndar álit mitt

Þetta er nánast orðið úrelt en þetta álit ritaði ég um miðjan síðasta mánuð en það var tekið úr utanríkismálanefnd allt of snemma að mínu mati - ég vil taka það fram að ég mun ekki undir neinum kringumstæðum geta samþykkt meirihlutaálit fjárlaganefndar nema búið sé að kanna á trúverðugan hátt hvort að þessir fyrirvarar verða virtir í breskum og hollenskum dómsstólum. Vonandi kemst það á hreint í dag - en erfiðlega gengur að fá meirihlutann til þessara verka. Þ.e.a.s. að fá þetta staðfest. Ítrekað hefur verið beðið um það. 

En hér er semsagt Icesave nefndarálitið mitt sem ég mun byggja ræðuna mína á í dag. 


um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í utanríkismálanefnd gagnrýnir harðlega vinnubrögðin í nefndinni er lúta að Icesave-samkomulaginu. Það er skrumskæling á lýðræðinu að taka ekki tillit til og hunsa gagnrýni fjölmargra sérfróðra gesta nefndarinnar varðandi málið sem og annarra sem hafa tjáð sig um það. Þessi vinnubrögð kasta rýrð á fagmennsku þeirra sem eru á öndverðum meiði við þá sem mæra samninginn og segja hann með öllu hættulausan.
    Þá gagnrýnir Borgarahreyfingin að ekki fáist leyfi til að kalla til fleiri gesti er varða málið, en daglega koma fram nýjar upplýsingar sem gætu gefið nefndinni heildstæðari mynd af áhrifum þess að samþykkja samninginn í óbreyttri mynd.
    Það yrði þinginu til sóma að gefa Icesave-málinu nauðsynlegan tíma þó ekki væri til annars en að hrekja þau varnaðarorð sem um samninginn hafa fallið. Hins vegar er greinilegt að nefndarfundirnir hafa einungis verið settir upp sem leikrit um fyrirframákveðna atburðarás. Keyra skal þetta mál í gegn sama hve alvarleg gagnrýnin er. Erfitt er að skilja hvað vakir nákvæmlega fyrir meiri hluta nefndarinnar með þessari leiksýningu, en álit hans getur valdið þjóðinni stórtjóni ef einhver skyldi álpast til að þýða það og afhenda Bretum.
    Utanríkismálanefnd hunsar nánast með öllu í áliti sínu um Icesave þá gagnrýni fjölmargra gesta nefndarinnar að í samningnum séu stórhættuleg ákvæði og gallar, sér í lagi þeim breska, sem óvefengjanlega geta kostað þjóðina himinháar upphæðir ef ekki eru tekin af öll tvímæli um þessa gagnrýni. Utanríkismálanefnd hefur ekki tekist það og ef eitthvað er þá bætast við stöðugt fleiri sem gagnrýna þessa áhættuþætti samningsins.
    Þessi vinnubrögð eru óviðunandi því að samningurinn um Icesave-skuldbindingarnar er eitt stærsta mál sem Alþingi hefur fjallað um. Það að gefa út ríkisábyrgð á gjaldfallna skuld væri einsdæmi. Nefndin hefur ekki fengið nema örfáar vikur til að fjalla um Iceasave, enn heyrist af gögnum sem eiga eftir að koma fram sem og nauðsynlegum útreikningum um raunverulega skuldastöðu þjóðarinnar. Það er því enn ekki ljóst hvort við getum yfirhöfuð staðið við þessar skuldbindingar. Það er mat Borgarahreyfingarinnar að það auki ekki á trúverðugleika okkar erlendis að gangast við skuld sem vitað er að þjóðin getur ekki greitt. Því er næsta víst að reyna mun á þau ákvæði samningsins sem hlotið hafa hve mesta gagnrýni.
    Borgarahreyfingin hefur lýst því yfir að hún muni ekki gera atlögu að ríkisstjórninni verði Icesave-samkomulagið fellt á þinginu. Þetta er mál sem verður að taka ofar pólitíkinni og leysa af skynsemi og yfirvegun og finna þverpólitíska sátt um. Álit meiri hlutans tekur í engu tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á fundum nefndarinnar frá gjörvöllum minni hlutanum og því er útilokað fyrir okkur að styðja álitið.
    Það er álit 1. minni hlutans að nauðsynlegt sé að fresta þessu máli fram á haust, skipa beri þverpólitíska sérnefnd um málið inni á þingi sem skili af sér áliti í haust. Skýra þarf vel fyrir hlutaðeigendum forsendur og nauðsyn þessarar frestunar og setja nú þegar saman hóp sem mun sjá um að kynna málið erlendis og ráða til þessa verkefnis sérfræðinga í almannatengslum hérlendis sem erlendis til að takmarka skaðann, ef einhver verður, ef þessu verður frestað. Ljóst er að þau tengsl sem reynt var að benda á varðandi Icesave og ESB eru til staðar og styður álit meiri hlutans þá gagnrýni okkar. Hræðsluáróðurinn í áliti meiri hlutans er slíkur að ætla mætti að við værum betur sett undir Danakonungi með ormamjöl og einokun.
    Langheiðarlegast væri að láta Breta og Hollendinga vita að það sé ekki vilji til að skrifa undir ríkisábyrgð án þess að koma með alvöru skilyðri um breytingar á samningnum. Fyrir nefndinni hefur verið sagt að það eitt og sér muni fella samninginn. Á sama tíma er ljóst að samningurinn verður felldur á þinginu ef engin alvöruákvæði um breytingar verða gerð. Því væri best að láta Breta og Hollendinga vita af þessu nú þegar og setja strax saman faglega samninganefnd ástamt því að kalla til almannatengslafyrirtæki í Bretlandi og Hollandi og undirbúa hvernig við ætlum að útskýra fyrir umheiminum okkar hlið á málinu. Það er alveg furðulegt þegar því er haldið fram að með því að fella samninginn í þeirri ómögulegu mynd sem hann er nú séum við að segja umheiminum að við ætlum okkur ekki að axla ábyrgð á þessu máli.
    Borgarahreyfingin skorar enn og aftur á ríkisstjórnina að gefa þingmönnum þann tíma sem þeir óska eftir til að ná sátt um þetta mál, til að eyða vafaatriðum og koma með heilsteyptar tillögur að úrbótum ef þörf er á eftir að hafa farið vandlega yfir málið.
    Jafnframt er mikilvægt að tekið sé tillit til þess og sett með skýrum hætti fram að þeir sem efndu til þessara skulda eigi á endanum að borga þetta skuldabréf en ekki almenningur í landinu.


Birgitta Jónsdóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert ágæt Birgitta.

Nú er bara að espa fólk meira upp og hvetja ti nýrra mótmæla. Þið getið þá aftur öskrað "vanhæf ríkistjórn" þangað til þið eruð orðin hás.

Svo bara kjósum við aftur og tryggjum Borgarahreyfingunni hreinann meirihluta. Þá fyrst getur þjóðin farið að sofa vært.......

Addi (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 08:35

2 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Sæl Birgitta. Ég er svo mjög sammála þér um að þessir fyrirvarar eru alger forsenda þess að þetta mál fari í gegn. Ég skrifaði áðan smá pistil:

Mat á eignarýrnun vegna hryðjuverkalaga komi til frádráttar höfuðstól

Ég mundi vilja sjá báðar breytingartillögur samþykktar og væri það mikil bót á núverandi samningi. Endurskoðunarákvæði orðin skýr, hámark á greiðslum úr ríkissjóði sem miðar við vöxt vergrar landsframleiðslu milli ára, auðlindir landsins eru tryggðar og greiðslubyrgðin á ekki að hafa áhrif á möguleika okkar til að byggja upp efnahagskerfið. Gott og vel.

Það er nauðsynlegt og eðlilegt að vaxtagreiðslur miðist við gildistöku samninga en ekki febrúar 2009.

Hinsvegar sé ég ekki breytingartillögu um gjaldfellingu lánanna og áhrif á gjaldfellingu annarra lána (en gæti hafa yfirsést það). Eins finnst mér sjálfsagt að fram komi krafa um mat á því tjóni sem Breska ríkisstjórnin olli okkur með hryðjuverkalögunum. Eignatjónið verði metið til fjár á viðeigandi gengi og dregið frá höfuðstól skuldar við Bretland! Það er óhæft að þeir komist upp með þetta ódæðisverk án þess svo mikið sem blása úr nös.

Svo mörg voru þau orð - en eins og þú segir, það verður allt að vera á hreinu þegar svo mikilvæg mál eru afgreidd, mál sem varða alla þjóðina nú og til framtíðar líkt og þessi.

Gott gengi

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 20.8.2009 kl. 11:01

3 identicon

Birgitta.

Hvert ferð þú , Þór er að fara í sjálfstæðisflokkinn ?

JR (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 00:32

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Auðvitað má ekki samþykkja þessa fyrirvara nema að fengnu samþykki Breta og Hollendinga um að þessir fyrirvarar séu löglegir.   Einhliða fyrirvarar eru ónýtt plagg. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.8.2009 kl. 03:23

5 identicon

Kúkum á kerfið

http://gunnarwaage.com/johanna.mp3

og allir með;

Kúkum á kerfið

já nú er það svart

daman er erfið

á þvílílkri fart

sandkassi (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 19:33

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

ÉG er ein af þeim sem spyr halda þessir fyrirvarar vatni gagnvart bretum og hollendingum?  Takk fyrir að standa vaktina fyrir okkur hin.  Ég vissi að þetta yrði þrautarganga.  SLæmt að Frjálslyndir skyldu detta út af þingi.  Við höfum svipaðar áherslur.  En okkar tími mun koma aftur vona ég, og þá væri gott að geta tekið höndum saman um að koma á réttlæti í samfélaginu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2009 kl. 11:44

7 Smámynd: Jón Lárusson

Það er aðeins ein leið til að afgreiða þetta mál eins og það er í dag, en það er að fella það. Við getum ekki samþykkt þetta fyrr en Bretar og Hollendingar hafa samþykkt þá fyrirvara sem við ætlum að setja við þetta. Auðvitað segjast Bretar og Hollendingar ekki vilja tjá sig fyrr en eftir að Alþingi hefur afgreitt málið. Þeir vonast til að það verði samþykkt þannig að þeir geti hunsað fyrirvarana. Ef þeir myndu tjá sig í dag um að þeir ætluðu ekki að samþykkja fyrirvarana, þá eru líkur á því að Alþingi samþykki ekki ábyrgðina, þess vegna segja þeir ekkert.

Ég hef verið að tjá mig nokkuð um þetta mál allt saman og ástandið í þjóðfélaginu og mæli með því að fólk lesi það, því þar er ég að benda á lausnir sem við getum tekið upp, lausnir sem eru á okkar eigin forsendum.

Birgitta, ef þú virkilega hugsar um hag þjóðarinnar, þá veistu sjálf að þú getur ekki samþykkt þennan samning. Það er bara ósköp einfalt mál. Þessir fyrirvarar eru háðir samþykki Breta og Hollendinga, þannig að ef þeir samþykkja þá ekki, stendur ábyrgðin óbreitt eftir. Viltu samþykkja þessa ábyrgð óbreitta og án fyrirvara?

Vil vísa aftur á söguna um Fidji og svo annan texta sem ég tel að allir ættu að lesa.

http://jonl.blog.is/users/dd/jonl/files/lysing_leo_tolstoy_a_skuldaanau_fidjibua.pdf

http://socialcredit.blog.is/users/ed/socialcredit/files/go_sogn_peninga_afhjupu.pdf

Fagurgali er það sama og fallegur pakki, innihaldið þarf ekki að vera í samræmi við útlitið. IMF og alþjóðasamfélaginu gæti ekki verið meira sama um okkur og öll undanlátssemi við þá er vatn á millu þeirra en mykja í graut okkar. Mundu það.

Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 508733

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.