Leita í fréttum mbl.is

Einfalt mál

Í morgunn var voðaveður og þá finnst mér einmitt tilefni til að fylgjast með fréttum. Þar kom fram að tilmælum væri beint til foreldra að senda börn sín ekki í skólann. Hygg að ein af ástæðum þess að þó maður kæmist kannski áfallalaust í skólann með börn sín, að það sé ekki skynsamlegt að vera að þvælast úti þegar rúður í strætóskýlum springa og heitir pottar takast á flug. Maður er bæði að stofna lífi sínu og annarra í hættu og auka á álag á björgunarsveitirnar og aðra sem vinna við almannavarnir.

Ég fékk tölvupóst í morgunn frá skólastjóra barnaskólans sem minn drengur gengur í þar sem það var ítrekað að ekki væri æskilegt að senda börn í skóla. En það má ekki gleymast að í svona aðstæðum þá er það líka okkar foreldranna að meta hvort að við viljum vera að senda börnin út í svona aðstæður.

Einhver lét þau orð falla að ástæða þess að beðið væri um að þau börn sem komin væru í skólana yrðu sótt við fyrsta tækifæri væri sú að kennarar vildu aukfrí finnst mér ómakleg gagnvart því fólki sem sinnir börnum okkar hve mest af öllu fólki í lífi þeirra. Er ekki kominn tími til að hætta að vera alltaf með eitthvað skítkast út í fólk. Hvar er hinn sanni jólaandi umburðarlyndis og samkenndar. Kalla eftir slíku hér í bloggheimum.

Ég er reyndar sammála að best væri í svona aðstæðum að vera með samhæfðar aðgerðir í sambandi við hvort að skólar séu opnir eður ei. Það hlýtur að vera endurskoðað í ljósi þessa.


mbl.is Vilja skýr fyrirmæli til foreldra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tígrisdýr við stjórn hjá Creations

Loksins komin með nýtt stýrikerfi á fartölvuna mína. Hún var orðin skammarlega hæg og þung. Ég hef ekkert verið að sinna hennar þörf á að verða ekki algerlega úrelt. Öll forrit að hrynja eins og spilaborgir og ég í gremjukasti gagnvart vesalings vannærðu tölvunni. EN núna get ég loksins bloggað með grafískum ham. Í gamla safarí var slíkt ekki hægt, hvað þá að skella myndum með færslum án mikilla tilfæringa. Stundum var ég að nota þrjár tegundir af vöfrunum til að skítamixa öllu saman sem ég vildi setja inn. En ekki lengur. Ekkert að bögga mig og engar afsakanir til að vera ekki aðeins duglegri að tjá mig. 

Það er mikil blessun að sonur minn eldri hafi tekið við af mér varðandi tölvunördisma. Það fer aðeins í egóið mitt að hann sé orðinn klárari en ég, en það er líka gaman að sjá sama áhugann og ég hafði á þessu í upphafi netdaga.

Annars þá fæ ég aldrei nóg af því að hugsa til þess hve lánsöm ég er með krakkana mína. Algerir gullmolar.  

 


Ekki fara í frí, ráðamenn, fyrr en málið er leyst!

Ég var að vona að með því að fá Jóhönnu í ráðuneyti og með því að fá vinstrisveiflu í borgarmálin að svona skammarlegum málum á velferðarsviði myndi fækka. En svo er bara alls ekki raunin. Hvað er að kæru ráðamenn og konur? Er hægt að verja það á einn eða annan máta að láta svona mikilvæga og margsannaða starfsemi þurfa að lamast vegna framtaksleysis ykkar? Foreldrahús rekur einu raunhæfu eftirmeðferðina fyrir unga fíkla. Þessir krakkar eiga ekki í mörg hús að vernda eftir að þau koma út eftir oft á tíðum langar meðferðir. Foreldrahús er gagnvart fjölmörgum fjölskyldum fíkla eini fasti og trausti punkturinn í tilverunni þegar kemur að stuðning og eflingu sem þau með sanni þurfa á að halda til að byggja sig upp til að geta tekist á við afar erfiðar aðstæður. Það er heilmargt annað sem Foreldrahús stendur fyrir og mikið starf sem þarna hefur verið innt af hendi af frumkvæði og drifkrafti sem ber að styðja en ekki rífa niður með því að hunsa þörf þeirra á húsnæði til að reka áfallalaust þessa frábæru starfsemi. Það dugar ekkert minna en að skaffa þessum samtökum eigið húsnæði og ekki síðar en strax. Nóg er af fjármagni til og þjóðin samkvæmt ráðafólki og bankafólki aldrei verið í eins blússandi góðæri. Ég skora á borgaryfirvöld að gera eitthvað núna og svo auðvitað á hana Jóhönnu sem sögð er vera skörungur mikill þegar kemur að því að drífa í málunum. Ekki una ykkur hvíldar og ekki fara í frí fyrr en búið er að leysa þetta mál.
mbl.is Foreldrahúsi lokað um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég elska snjó

Síðan það snjóaði hefur allt verið svo hljótt og bjart. Mér er sama um slabbið og hálkuna. Snjórinn dempar og róar allt. Enda held ég að þessi helgi hafi verið ein sú rólegasta sem ég man eftir þegar kemur að hinum klassíska helgarhávaða. Sá frábæra mynd í gærkvöldi, frekar grunn en ákaflega fyndin. Mæli með henni ef fólk þarf á því að halda að hlæja sig máttlaust. Hún heitir Evan Almighty.

Fullt af litlum kraftaverkum í gangi í mínum veruleika og hjá vinum og vandamönnum. Ég held að þrátt fyrir nokkur áföll sem eru þó frekar smávægileg þá sé þetta besti desember sem ég man eftir. Ég fór í smá uppskurð á föstudaginn í munninum og var afar upptekin af sauminum sem stöðugt nuddaðist við tunguna og gerði á henni sár. Vaknaði svo í gær og þá hafði blessaður saumurinn lagst niður og tungan fékk að jafna sig. Hef reyndar ekki getað borðað neitt að ráði en það er allt í lagi. Ágætt að fá smá hlé á slíku svona í jólamánuðinum. Ég hef reyndar aldrei bætt á mig í desember. Held að það sé vegna þess að ég missi lystina þegar stöðugt er verið að flagga mat framan í mig hvert sem ég lít. Kannski er það líka vegna þess að ég borða ekki kjöt. Fæ þar af leiðandi ekki hinn löngum gleymda kjötsvima og þörf til að liggja á meltunni. Ég er ekki kominn í neitt sérstakt jólaskap enda er það viðverandi skap hjá mér. Reyni að temja mér að gera hvern dag sem hátíðlegastan og haga mér eins og manneskja við fólkið í kringum mig:) Finnst gaman að sjá borgina fyllast af ljósum en held mig fjarri búðarklösum. Næstu helgi verða bakaðar skringilegar piparkökur og þá fer líka Neptúnus til USA og verður hjá afa sínum yfir jól og áramót.

Flott mynd

Rosalega er þetta flott mynd.

Annars algerlega sammála lektornum. Finnst sumt graff bara krot en annað eins og
þessari mynd lífgar upp á umhverfið og fær mann til að staldra við á sínu
borgararki. 


mbl.is „Þetta er gjaldþrota stefna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitin mikla!

Nú fer að líða að því að lokahönd verði lögð á heildarútgáfu af tónlist mömmu, Bergþóru Árnadóttur. Vil biðja þá sem lesa þetta blogg og þekktu mömmu að hjálpa mér í leitinni að týndu efni eftir hana. Ef einhver hefur tekið upp tónleika með henni á myndband eða tekið ljósmyndir af henni á tónleikum þá bið ég þá hina sömu um að hafa samband við mig. Hægt er að senda mér skeyti í tölvupósti: birgitta@this.is eða slá á þráðinn: 692 8884. Við teljum okkur hafa fundið flest löginn hennar en hún samdi ekki mikið eftir að hún lenti í bílslysinu 1993 en þó hafa nokkur lög komið í leitirnar sem ég vissi ekki af. Frétti meira að segja af lagi í dag sem hann Hjörleifur Vals man í huga sér sem er við danskan texta.

Skamm, skamm, skamm

Bréf til ráðamanna og kvenna

Nú get ég ekki orða bundist, svona ranglæti á ekki að viðgangast hérlendis. Æruverðugi Heilbriðisráðherra og æruverðugi Félagsmálaráðherra, svona aðför að fólki sem þarf á stuðningi samfélagsins fremur öllu öðru þarf að linna NÚNA. Er ekki nóg að þeir sem þurfa að treysta á almannatryggingar þurfi að glíma við andleg sem líkamleg mein? Það er ómennskt að láta fólk bíða í óvissu um fjárhag sinn og eiga ekki ofan í sig og á sem er í þessari stöðu. Ekki fá þau mikið meira frá samfélaginu þó börn séu á þeirra framfæri. Bæturnar eru líka fáránlega lágar og við ættum að skammast okkar fyrir að bjóða fólki upp á þetta. Þó fólk beri oft höfuð hátt og beri harm sinn í hljóði þá veit ég að það er fullt af fólki sem svona er ástatt um vegna þess að við getum ekki haft manndóm til að styðja við bakið á þeim sem okkur ber samfélagsleg skylda að hjálpa. Ég skora á ykkur að prófa að lifa á sömu tekjum og þessi kona. Ég skora á ykkur að gera eitthvað NÚNA. Erum við ekki í blússandi hagvexti? Af hverju skilar hann sér ekki inn í að laga meingalla í kerfinu svo að fólk þurfi ekki að upplifa svona lagað?

Ég skora á almenning að hugsa aðeins áður en það slær enn eitt metið í jólaverslun að staldra við og hugsa hvað hægt sé að gera til að rétta hag þeirra sem eiga enga möguleika á að gefa börnunum sínum jólagjafir hvað þá kaupa sér sjálft eitthvað til hátíðarbrigða. Hvernig væri nú að í stað Þorlálsmessukaupæðis fólk myndi fylkja liði til að sýna stuðning sinn í verki gagnvart þeim sem þurfa á honum að halda eins og til dæmis öryrkjar. Allir geta átt von á að missa heilsuna sína, lenda í slysi, verða örkumla. Þú líka, ég líka, hver sem er. Áföll fara ekki í manngreinaálit.

Gerum eitthvað, sendum ráðherrum bréf, látum símtöl flæða á skrifstofur þeirra. EKKI GERA EKKI NEITT.


mbl.is Gleðileg jól fyrir 29 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísað í grein eftir mig á forsíðu In the Fray

Skrifaði grein sem tengdist Maríuhænunni og öskunni og dauðanum fyrir alþjóðlega netritið In the Fray. Greinin og myndasýninginn átti að birtast í nóvember en segja má að draugurinn sem kenndur við mömmu hafi gert harla margt til að stríða þeim sem að þessu unnu þannig að greinin var kynnt en í raun var hún ekki tilbúinn. Eins og þau orðuðu það, "mamma þín er búin að eignast marga vini hérna á ritstjórninni vegna þess hve margt hefur farið úrskeiðis í þessu verkefni." Ég er bara sátt við uppsetninguna á þessu. Hér er forsíðan og hér er slóðin í myndasýninguna. Maður þarf eiginlega að ýta á pásu fyrir hverja mynd til að lesa myndatextann og smella á caption sem er í hægra horninu.

Annars þá er sem allt sem komi eftir mig á prenti eða netheimum undir þeim álögum að verða fyrir alls konar hnjaski. Ég er með tilvitnum í þessari líka flottu dagbókarbók sem Salka er nybúin að gefa út nema að mín tilvísun er eins vitlaus og hún getur orðið. Leiðréttingin sem ég sendi misskildist og hljómar sem alger steypa. Í bókinni stendur:

Fyrirmynd mín er fólk sem hefur yfirstigið hið ómögulega og breitt meðali í gull. Alkemistar sálarinnar.

Á að standa Fyrirmynd mín er fólk sem hefur yfirstigið hið ómögulega og breitt eitri í meðal. Alkemistar sálarinnar.

Veit að hægt er að gera mistök og hef alveg fyrirgefið þau en þetta er ekki einleikið þessa dagana... arg


Þversagnir í þessari frétt

Það er ómögulegt að draga neinar ályktanir af þessari frétt. Í henni kemur fram
að met sé í uppboði íbúða en bankarnir segja að metið sé í þveröfuga átt:
aldrei verið minna um vanskil. Um hvað er þá þessi frétt. Ekki neitt?
Núlla þessar þverstæður ekki bara hvor aðra út?

Veit einhver hvenær ófremdarástandi á fasteignamarkaði, lánamarkaði muni ljúka?
Kannski veit völva Vikunnar eða er búið að skipta henni út með
starfsfólki frá greiningadeildum bankanna, þau eru okkar
nútímana völvur? Svörin um framtíðina og fjármálin eru alla vega alltaf
jafn dulkóðuð í froðusnakki sem enginn heilvita manneskja
er fær um að skilja.

Svo bætir að sjálfsögðu ekki svona fréttafluttningur úr skák.
Hvað er þetta með fréttir nú til dags, af hverju eru þær alltaf
svona grunnar. Enginn vinna lögð í að kanna hvað liggur að
baki orðunum. Kannski hefur það að gera með að flestir
blaðamenn sitja í stól sínum dagsferðina langa
og vinna allar sínar fréttir upp úr sömu gögnunum
þeas netinu og einstaka símtölum.
Þeir hitta nánast aldrei viðmælendur sína
og allir vita að auðveldara er að
froðusnakka í gegnum síma
en þegar maður
horfir framan í
einhvern.


mbl.is Fjöldi eigna undir hamarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur hefur ekki áhuga á ljóðum

Hef nánast ekki skrifað nein ljóð síðan í júlí en ákvað að tími væri kominn á að kalla til innblástur. Ég settist því niður við tölvuna þegar ég vaknaði með rósterkt kaffi og einbeittan vilja og galopið hjarta. Tókst að láta frá mér flæða sjö ljóð. Stundum skrifa ég ekkert ljóð árum saman, píni mig eins lengi og ég get og þá sprettur einatt frá mér á einum sólarhring heil bók. Svo nenni ég ekki að labba um og selja þessi andans hugarverk. Hver vill lesa ljóð? Er það ekki steindautt tjáningarform? Svo virðist sem menningavitum þessa lands, sér í lagi þeim sem hafa völdin í fjölmiðlaheimum, þyki það. Þeir neita að fjalla um ljóðabækur, segja: "Þær eru aldrei á metsölulistum, almenningur hefur ekki áhuga á ljóðum." Þetta er alveg satt, vini mínum Ljóðadrekanum var sagt þetta þegar hann reyndi að koma bók sinni á framfæri í sjónvarpsumfjöllun. Forlögin líta á ljóðabækur sem einkennileg afstyrmi sem þeim þykir þó pínu vænt um og gefa út af einskærri góðmennsku. Markaðslega er þetta náttúrulega bara sjálfsmorð. Ljóðskáld borga helst fyrir sig til að fá að lesa upp. Rithöfundataxtinn á sjaldan við þau. Ritlaunasjóður verðlaunar varla ljóðskáld og segja má að skáldastéttin sé að verða útdauð. En það er allt í lagi á meðan við fáum krýndar drottningar og kónga í glæpasögum. Það er allt í lagi á meðan hægt er að mjólka Nóbelskáld og áþekka peyja. Bókmenntaheimurinn er strákaheimur það er alveg satt. Egill Helga sagði að það væru bara miklu fleiri karlar að skrifa. Af hverju ætli það sé?

 Þegar ég er í fullri vinnu ásamt því að ala upp börn og sjá um heimilið, þá hef ég hreinlega ekki neina orku í að skrifa heila bók. Það er ástæða fyrir því að það tók mig 18 ár að klára skáldsöguna mína. Ég er að springa úr sköpunarþörf en skortir tíma til að sinna henni. Ég er ekki feiminn við að skrifa eða tjá mig eins og sumir hafa sagt að sé forsenda þess að konur séu lítið áberandi í bókmenntaheimum og víðar. Nei, langt í frá. Ég var bara svo furðuleg að velja mér þá einkennilegu og lítt vinsælu braut að þurfa að yrkja. Og sama hve mjög ég reyni að bæla þennan andskota, þá bara ágerist þetta með árunum:)

En ég harma ekki hlutskipti mitt, það eina sem harma má er hve léleg ég er orðin í mínu ástkæra ilhýra tungumáli miðað við kollega mína frá síðustu öld.


Loksins

Ég bjó eitt sinn í landi andfætlinga og þykist þekkja smá til þeirra. Þetta er meiri háttar sigur fyrir þá sem hafa starfað að umhverfisvernd í landinu en ekki síður fyrir heimsbyggðina á þessum tímum þar sem meðvitund okkar um hvaða afleiðingar rányrkja á jörðu sem í hafi er að verða augljósari með degi hverjum. Mér leist aldrei vel á hann John Howard. Ég bjó þarna þegar frumbyggjar báðu ríkistjórnina um táknræna fyrirgefningu gagnvart þeim skaða sem þeirra kynstofn hafði hlotið af völdum þeirra sem tóku landið frá þeim og ekki síst börnin af þeim. Saga Ástralíubúa er jafnvel enn skammarlegri en þeirra í USA gagnvart frumbyggjum. En John neitaði að gera þetta þó allir aðrir höfðu séð hve mikilvægt þetta væri til að hægt væri láta gróa á milli. Stefna hans gagnvart innflytjendum og sér í lagi flóttafólki var ómanneskjuleg og einkenndist af fordómum og ótta. Merkilegt með þessar ríku þjóðir hve fast þær þurfa að halda um gullin sín. Í Ástralíu hefur verið stunduð mikil rányrkja á landsins gæðum og mætti með réttu kalla þá umhverfissóða af verstu sort miðað við hve upplýstir þeir ættu að vera.
Mikið var gott að John komst ekki einu sinni á þing aftur. Það er greinilega einhver vakning meðal Ástrala og er hún af því góða því þó þeir séu okkur fjarri þá er þetta stór þjóð, með risaland, nánar tiltekið heimsálfu á sínum snærum og þeirra stefnumál hafa mikil áhrif í þessum heimshluta. Bravó fyrir einbeittum vilja nýrrar stjórnar til að láta gott af sér leiða. Löngu kominn tími til.

mbl.is Ástralar staðfesta Kyoto-sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum því að gera ekkert dagur

Þeir sem þekkja mig vita að ég á afar erfitt með að gera ekki neitt. Mér tókst að gera mest lítið um helgina. Ég fór reyndar í bleikgrísabúðina sem er í eign manna sem segjast vera bestu vinir litla mannsins. Ég er ekkert sérstaklega lítil enda þýðir nafn mitt hinn háa. En mér finnst gaman að fara í þessa bleiku búð því þar eru konur á kössum frá öllum heimshornum og það er gaman að sjá hve fljótar þær eru að læra íslensku. Svo hitti ég alltaf einhvern sem ég þekki og Delphin elskar að leika sér með drullusokkana eða fara í njósnaraleik. Þessi búð er nánast tóm um helgar af fólki því hún er ekki í molli. Ég hef lært það að besti tími til að versla þarna er sá tími sem Kringlan og Smáralind eru yfirfullar af fólki í svitasósu og mannfnykurinn blandast óþægilega jólaæðinu. Já ég elska að eiga heima í svona hverfi þar sem maður fer helst aldrei neitt nema að hitta einhvern sem maður kannast við. Þorparinn í mér dásamar þetta.

Ég hef reyndar verið með öllu þessu fortíðargramsi að finna ýmsa persónulega gullmola sem leynst hafa í ýmsum kössum. Ég keypti mér til að fylla holuna í hjartanu þegar mamma dó svona DVD/VHS tæki sem döbbar gamlar spólur í stafrænt form með því að ýta á einn takka. Alveg dásamleg græja. Ég hef bara ekki haft tíma til að gramsa í mínu dóti fyrr en núna þegar ég ætlaði að gera ekki neitt. Ég er byrjuð að dæla efni á DVD og mun innan tíðar skella öllu Drápu dótinu inn á YouTube eða einhvern annan stað sem tekur lengri myndir og ýmsu öðru sem er kannski frekar niðurlægjandi fyrir mig vegna þess hve óhemju gothik ég var til fara og ákaflega listræn og jafnvel væmin en þetta er nú allt hluti af því hver ég er og um að gera að vera svo væn að gefa öðrum tilefni til hláturs.

Það eru bara einhverjar spónarplötur fyrir gluggunum mínum og óhemju kalt. Draup meðfram í stríðum straumum í storminum um daginn. Ég er að reyna að vera ekki að springa úr gremju. Þarf að klæða mig upp eins og pólfari væri í hvert sinn sem ég þarf að fara sofa og Esjan mín sem ég ráðskast við á degi hverjum er mér algerlega hulin. Skil reyndar alls ekki þessi vinnubrögð hjá gluggamanninum en tja ekki er ég gluggasérfræðingur.

Nú ætla ég að fara að lesa eldgamla jólabók, nánar tiltekið LoveStar og lauma í mig innfluttum ís með ljúffengu kökudegi til að mér verði eins kalt að innan sem utan.

p.s. ef einhver sem þetta les fékk lánað hjá mér Draumalandið þá er hinn sami vinsamlegast beðinn 
um að skila henni, sem fyrst! 


Með stækkunargler á fortíðina

Hef undanfarið verið á kafi í fortíð mömmu. Eyddi helginni meira og minna í að skoða gamla mogga á netinu þar sem fjallað var um hana. Komst að ýmsu sem ég var ekki meðvituð um sem tengist ferli hennar. Segja má að hún hafi verið á hátindi ferils síns þegar pabbi tók upp á því að láta sig hverfa í Sogið 1987 og Valdi tók upp á því að skilja við hana í kjölfarið. Eftir það rak hvert áfallið á fjörur hennar og hún hvarf meira og minna úr heimi tónlistar. Sú Bergþóra sem var til á Íslandi var ekki sama Bergþóra og var til í Danmörku svo mikið er víst. Það er skringilegt að sjá einhvern hverfa svona algerlega úr sviðsljósinu sem hún lifandi væri dáinn.

Finnst annars sú þjónusta að hægt sé að nálgast gömul blöð á netinu alveg frábær og gagnast vel í svona rannsóknarvinnu. Vona að það verði hægt að nálgast fleiri dagblöð á netinu fljótlega. Þetta er alveg ljómandi vel sett upp og greinilega mikil vinna lögð í alla bakvinnu á þessu.

Annars þá er ég líka búin að laga bloggið hennar mömmu og gera það rosalega flott og hvet ég þá sem hafa áhuga á að fylgjast með útgáfu og tónleikum sem tengjast henni að skrá sig sem bloggvini á bergthora.blog.is. Ég mun á næstunni setja í tónhlöðuna þar óútgefin lög með henni og einnig lög sem við höfum verið að setja í stafrænt form af vínilplötum.

Mér tókst að hafa upp á gömul samstarfsfélaga mömmu sem var landsþekktur hér á landi í eina tíð og gaf út eina nokkuð furðulega plötu með mömmu sem bar nafnið "Það vorar". Mamma var búin að leita að honum í fjölda ára án árangurs en með tilkomu myspace tókst mér að grafa hann upp. Sumir hverjir sem lesa þetta muna ef til vill eftir honum, en þetta er enginn annar en Graham Smith sem var mér góður vinur. Ég eignaðist mínar fyrstu búddhistabækur frá honum en þær fékk ég ásamt alls konar öðru dóti fyrir að þrífa piparsveinaíbúð hans þegar hann flutti úr landi. Hann bjó hjá okkur um stund á Skólavörðustíg og var meira að segja hjá okkur um jólin. Það voru skemmtilegustu jól sem ég man eftir. Mikið spilað á hljóðfæri og mikið hlegið. Ég er svo ánægð að hafa fundið karlinn, hann er enn að spila og gaman væri ef maður hefði tök á að fá hann til landsins í tengslum við tónleikana á næsta ári til heiðurs mömmu.

Af mínum ástkæra Jóni Tryggva er það helst að frétta að þó augað sé enn svart þá er kominn í það fallegur himnablár hálfmáni og aldrei að vita nema að sjónin komi aftur, en það verður tíminn að leiða í ljós. Hann er núna á Kúbu með foreldrum sínum með eina hækju og leppinn góða. Þar er bara sól og blíða og ég er að berjast við að öfunda hann ekki.

Á þessari stundu eru tveir erlendir farandverkamenn að brjóta rúðurnar í eldhúsinu mínu og ég er hér í leyni inn í stofu að reyna að einbeita mér að því að slá inn síðustu textana við lög mömmu áður en ég held á fund vegna útgáfumála.


Þjóðminjasafnið, pönnukökur og aðgerð hjá JT í fyrramálið

Fyrst bið ég alla vini og vandamenn í bloggheimum að sjá fyrir sér að hin langa og stranga augnaðgerð sem Jón Tryggvi er að fara í, í fyrramálið muni ganga vonum framar. Voninn er að hægt sé að bjarga sjóninni. Síðan langar mig að þakka frá dýpstu hjartarótum fyrir hlýhug og fallegar kveðjur. Þið eruð yndisleg.

Við Delphin minn yngri sonur eigum það sameiginlegt að hafa alveg óskaplega gaman að því að þvælast um á Þjóðminjasafninu. Þetta er upp á halds staðurinn hans og fórum við í dag í skemmtilegan leiðangur þangað. Það er alveg stórkostlegt hve vel hefur tekist til að færa safnið nær nútímanum í framsetningu. Ef einhver sem les þetta hefur ekki farið í leiðangur í safnið eftir það opnaði þá hvet ég ykkur til að fara. Ég fer alltaf ríkari út í sinni og hjarta. Bara svona hlutur eins og kíkja inn í gamla baðstofu er eitthvað svo heillandi. Allt var svo fallega fábrotið og hugvitsamlega úr garði gert. Í nútímanum er maður að drukkna í litaflóði og stöðugu áreiti.

Í gær steiktum við Neptúnus heilt fjall af vegan pönnukökum, en það er nýr siður á heimilinu að belgja sig út af pönnukökum um helgar, helst með agave sýrópi og stundum einhverju nýstárlegu eins og rjómaosti. Systir mín og hennar yndælu börn komu í heimsókn frá Garðinum og ég er alveg í essinu mínu þegar ég fæ svona fjölskylduheimsóknir. Synd hvað ég hitti bróðir minn og hans fjölskyldu sjaldan en hann vinnur alltaf um helgar.

Delphin verður 7 ára 7. nóvember og er að springa úr tilhlökkun. Hann er búinn að ákveða að þegar maður á afmæli fái maður að ráða öllu... spurning hve langt ég gangi með að leyfa honum að halda það:) Við fórum í leiðangur í toysrus og er dótið þar nokkuð ódýrara en annars staðar þar sem ég hef keypt dót. En verð samt að segja að við erum samt að borga tvisvar stundum þrisvar sinnum meira en fólk gerir í USA fyrir nákvæmlega sömu vöru. Ætla að gera eins og í fyrra, versla fyrst og fremst á the Hungersite en þar er hægt að fá gjafir sem hjálpa þeim sem búa þær til eða til dæmis að borga laun kennarar í Afghanistan í heilt ár fyrir $40 eða kaupa skólaföt á stúlkur svo þær komist í skóla eða hið sígilda: geit. Ég held að ég ætli að einbeita mér að dóti sem styrkir fólkið í Tíbet og Burma í ár. Mæli með þessu. Gaf ömmu í fyrra að styrkja tvær skólastúlkur í Afghanistan og hún vill endilega fá aftur eitthvað svona og var alsæl með þetta.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 509817

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband