Leita í fréttum mbl.is

Góðar fréttir og vetrarfrí

Jón Tryggvi er kominn heim af spítala, augað enn fullt af blóði eftir að hafa farið í tvennt en hann hélt því. Þá er að sjá fyrir sér að hægt sé að laga sjónina á því. Ég hef tröllatrú á að hægt sé að laga það. Ótrúlega miklir snillingar nútíma augnskurðlæknar. Ekki skemmir að hann er haldinn mjög jákvæðu hugarfari og hygg ég að það spili stóran þátt í undraverðum bata hans.

Ég er ekki búin að fá vinnu en hef í nógu að snúast og ætla að nota tímann vel sem ég hef. Það er reyndar stórfurðulegt með þessi vetrarfrí í grunnskólum landsins. Yngri sonur minn er að fara í frí á morgunn og fram á þriðjudag. Ef ég hefði verið í fullri vinnu þá hefði ég hreinlega ekki haft hugmynd um hvað ég ætti að gera við hann. Ekki hefði verið mögulegt að taka hann í gömlu vinnuna mína og ekki hefði ég viljað láta hann vera einan heima 6 ára guttann. Það er ekki boðið upp á neitt annað en að hafa barnið í fríi sem er svo sem alveg ljómandi góð hugmynd ef maður hefur tök á að taka sér frí. Það eru bara ekki allir í aðstöðu til þess. Þetta setur óeðlilegt álag á fólk eins og mig sem hefur enga til að passa ef eitthvað svona kemur upp á. Krakkar á eldri námsstigum eru ekki endilega í fríi á sama tíma.

Nóg af tuði: lífið er ævintýr og ég er alkemistinn í lífi mínu og hef lært að breyta eitri í meðal:)

Kærufrestur á tillögu um virkjun á Hengilsvæðinu að renna út

- - Ég bendi ykkur öllum á nýja heimasíðu um Hengilssvæðið, hengill.nu

Það þarf að tala um Hengilssvæðið, það er á teikniborðinu þessa dagana, Orkuveita Reykjavíkur hyggst nú byggja 135 megavatta háhitavirkjun á Ölkelduhálsi.

Hengillinn er spölkorn frá höfuðborgarsvæðinu, svæðið býr yfir magnaðri öræfakyrrð og náttúrufegurð. Þarna eru eyðidalir, hverir og heitir lækir sem hægt er að baða sig í. Þetta er framtíðar útivistarsvæði höfuðborgarbúa, ósnortin víðerni, kyngimögnuð náttúra, ómetanlegir möguleikar, -svæðið verður að vernda fyrir ókomnar kynslóðir. Umhverfisráðherra staðfesti svæðið sem mikilvægt útivistarsvæði árið 2005.

Þetta svæði er eitt það al magnaðasta svæði sem ég hef heimsótt, við erum að tala um Reykjadal. Ef þið hafið ekki farið þangað enn, hvet ég ykkur til að labba um svæðið og sjá með eigin augum hverju á að fórna. Þetta er rétt hjá Hveragerði fyrir þá sem ekki vita og státar af slíkri fegurð og undrum að ég gæti aldrei fyrirgefið mér ef ég hefði ekkert gert til að stoppa þessa tilgangslausu atlögu að því.

Orkuveitan ætlar að virkja þarna nokkur megavött, sem svo á að gefa fyrirhuguðu álveri í Helguvík, á gjafaverði, ef marka má fordæmin. Orkuveitan borgar og framkvæmir umhverfismatið sjálf, spilling í fínum gæðaflokki.

Kærufrestur á tillöguna um virkjun er 9. nóv 2007, kærum öll hægri-vinstri, -það er ótrúlega auðvelt, sjá www.hengill.nu, þar er tilbúin kæra sem þarf að kvitta upp á / breyta ef þú vilt, og sendist svo sveitarfélaginu Ölfussi, Skipulagsstofnun og cc á umhverfisráðherra á tölvupósti.

Það skiptir máli að málsaðilar viti að fólki er ekki sama. Kærum fyrir 9 nóv og stöðvum þessi skemmdarverk áður en það verður og seint.

Vinnuslys og vinnumissir

Lífið er merkilegt fyrirbæri og óvæntar uppákomur oftar en ekki óvelkomnar. Það er nú alltaf þannig í mínu lífi að áföll koma yfirleitt ekki stök. Ég fékk að vita það seint í síðustu viku að vinnan mín sem ég var svo ánægð með rúmaði ekki stöðugildi fyrir mig og vegna þess að ég náði ekki fullum 3 mánuðum þá hefði ég bara viku til að finna aðra vinnu. Ég hef alveg fullan skilning á kringumstæðunum og er svo lánsöm að hafa fengið í vöggugjöf króníska jákvæðni. Datt í smá sjálfsvorkun en hún var fljót að brá af. Þegar ein hurð lokast opnast önnur.

Það sem var öllu verra að vera jákvæð gagnvart var alveg hræðilegt vinnuslys sem gerðist í gær hjá mínum heitelskaða manni. Hann vinnur á krani í svona byggingaframkvæmdadæmi og í hverfi þar sem rokið er öllu grimmara og hvassara en hér í Vesturbæ Reykjavíkur. Á hann fauk feiknastór og þungur fleki, hann fauk sjálfur á víra með andlitið sitt og kraftaverk að hann fékk að halda auganu sínu fallega. Ekki er útséð með hvort að hann haldi sjón sinni á því en læknar tala um kraftaverk þegar kemur að honum, þegar kemur að því að hann hefði ekki skaddast meira en raun bar vitni, fékk flekann í bakið, en það varð honum til lífs að flekinn stoppaði á öðrum fleka. Ég ætla að panta eitt kraftaverk í viðbót: að augnbotnarnir hans séu ekki varanlega skaddaðir. Fóturinn hans er líka brotinn, veit ekki enn hve illa. Fékk mikið áfall að sjá hann svona alblóðugan og brotinn og fór að hugsa enn og aftur hvað lífið er brothætt og hve lítið þarf til að eitthvað fari úrskeiðis. Öll þessi smáatriði sem maður hefur stundum áhyggjur af eru eitthvað svo óendnalega mikil smáatriði. Hver dagur gæti með sanni verið hinn síðasti í lífi manns sjálfs eða annarra sem manni er annt um. Því er ágætt að temja sér að vanda sig í öllu sem maður gerir í mannlegum samskiptum, þannig að maður geti alltaf fundið fyrir sátt innra með sér sama hvað dynur á.

Bið bænheita vini um að biðja fyrir honum, er sannfærð um að öll kyrjuninn og fyrirbænirnar í gærkveldi þegar verið var að sauma augað hans hafi hjálpað til. Við höfum fengið þær fréttir að talið var útséð um að hægt væri að bjarga auganu...

Jákvæði hluti þessa alls var að ég fékk að upplifa hlýju og samstöðu með fólki sem var mér næsta framandi og er ég óendanlega þakklát fyrir það.

Mögnuð skilaboð frá Carl Sagan

Ég varð djúpt snortin þegar ég horfði á þetta myndband í morgunn... langaði að deila því með ykkur. Annars þá er allt ljómandi gott af mér að frétta. Er að aðlagast nýjum vinnutímum, er ekki lengur á þessu skelfilega vaktavinnuplani, sem var afspyrnu andfjölskylduvænt. Tek hatt minn ofan fyrir því fólki í samfélaginu sem á fjölskyldur og getur haldið eðlilegt fjölskyldulíf samhliða vaktavinnu. Ég er orðin of gömul fyrir svona rugl með svefntíma. Finnst best að vakna með fuglunum og langt á undan flestum. Er frekar andfélagsleg fyrir vikið:) Klukkan fimm er minn tími til að vakna, kem þá einhverju í verk áður en fjölskyldan vaknar en þyrfti ca 2 tíma í viðbót til að verða ánægð með afköstin. Hætt að horfa á sjónvarp sem er gott. Lífið of stutt til að sóa því fyrir framan slíka mötun. Æviminningabókin um mömmu er að taka á sig mynd í huga mér og mun hún að sjálfsögðu heita "Lífsbók Bergþóru Árnadóttur". En njótið vel myndarinnar um litlu bláu doppuna í hinum óendanlega geimi.

Hvernig væri nú að kalla þetta land réttu nafni: Burma

og hvað þýðir: viðstaddir tóku báðu bænir?  Hvernig væri að vandað væri aðeins betur við fréttafluttning hjá mbl.is. 
Allt of oft sem maður rekur sig á slök vinnubrögð hjá mbl.is. Annars hvet ég alla að sýna 
heiminum að okkur er ekki sama um baráttu almennings og annarra í Burma. 

Smellið hér til að skrifa undir mótmæli gegn árásunum á saklausa borgara í Burma

mbl.is Ástandinu í Myanmar mótmælt í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vona að hann finnist

Það eru næstum því 20 ár síðan pabbi týndist á nákvæmlega þessum stað og hann hefur enn ekki fundist. Vitandi hvernig það er að fá ekki að jarða ættingja sína vona ég innilega að maðurinn finnist. Ég votta aðstendum hans samúð mína og senda þeim styrk. Ég keyri þarna framhjá á leið til vinnu daglega og fæ alltaf smá saknaðarsting þegar ég hugsa til pabba. Hef reyndar náð því að sjá þetta sem fallega gröf. En þetta er válegur staður og því sem næst ómögulegt að finna þá sem fara í Sogið. Svo mikil iða í gangi þarna. Stundum gerast kraftaverk. Ég vona að slíkt gerist og 
hann finnist, björgunarmenn búa líka yfir mun meiri þekkingu í dag en fyrir 20 árum.  
Langar líka að nota tækifærið og þakka björgunarmönnum
og konum fyrir að vera til staðar fyrir okkur landsmenn. Þetta er langt í frá auðvelt starf. Þrisvar hafa björgunarsveitirnar leitað ættingja minna við erfiðar aðstæður. Þó leit hafi ekki alltaf borið árangur þá gaf það manni óendanlega mikla von vitandi af
þeim að leita þeirra og án hennar hefði þetta verið mun erfiðara á sínum tíma. Ég vona líka að aðstandendur þessa manns fái áfallahjálp af einhverju tagi.

mbl.is Björgunarmenn að hætta leit í Soginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvuafvötnun

Ég er búin að taka mér smá frí frá virtual veruleika og verið að njóta veruleikans í botn. Æfa mig í að vera bara til í einu lifandi andartaki og senda þakklæti inn í framtíðina í gríð og erg ef ég fæ kvíðahnút eins mér er tamt ef allt leikur í lyndi. Hef ákveðið að salta bókina um mömmu um einhverja hríð. Get ekki einbeitt mér að henni og þessari vinnu ásamt öllu hinu sem ég hef lofað að gera. Ég skrifaði stutta ritgerð um verkefnið "Ferðalag Bergþóru í búk Maríuhænunnar sem verður birt í nóvember í vefriti nokkru ásamt úrvali ljósmynda af ævintýrum Maríuhænunnar sem geymir hluta af ösku móður minnar. Maríuhænan fer með mér hvert sem ég fer og ef ég sakna mömmu þá tek ég hana bara upp, hristi hana smá (en hún er ákaflega hljómfögur) og bý til nýja minningu. Ég er svo heppin að fá að keyra framhjá bæði ánni fallegu sem pabbi hvarf í forðum daga og Kotstrandakirkju en þar er askan hennar mömmu að mestu á einum stað, á leið minni til vinnu og fæ þá að hugsa til þeirra í samþættri hugsun.

Leiðin í vinnuna er vörðuð minningum, hef ekki tölu á því hve oft maður hefur farið um heiðina. Fór aukaferð síðustu helgi til að heimsækja ömmu í Hveró. Merkilegt hve hálfblind manneskja getur verið klár í lummugerð:) Delphin minn yngsti var eitthvað svo mikið krútt, alltaf að knúsa ömmu löngu og segja henni að hann elskaði hana... Hún leyfði krökkunum að fara í steinasafnið sitt og velja sér steina. Það vakti mikla lukku. Heim var komið með mikið af eðal grjóti og lummum. Við Delphin fórum aðeins upp í Hamar en það er bara ekki hægt að fara til Hveragerðis án þess að fara upp í Hamar. Fullkomið barnafjall. Tíminn er annars allt of fljótur að líða og vegna tölvuhlés hefur tölvupósturinn hlaðist upp að nýju án afláts. Þarf að fá mér ritara...

Vildi að ég væri eins og da Vinci sem þurfti bara að sofa í 4 tíma eða minna á sólarhring. Reyndar þá finnst mér fátt jafn gott og svefn og hefur mér tekist að sofa í gegnum ægilegar steypuvélar og steypuhögg við blokkina mína eftir vaktir. Hef reydnar aldrei átt í vandræðum með að sofa og þegar mér tókst að hætta að hugsa áður en ég sofnaði þá hafa gæði svefnsins stórum aukist.

Fann enn eina snilldarteiknimyndasögusyrpuna fyrir fullorðna. Sú heitir Concrete og hægt að finna í Borgarbókasafninu. Má til með að þakka henni Úlfhildi Dags opinberlega fyrir að hafa gert þessa deild bókasafnsins að því sem hún er: tærri snilld og brunni hughrifa.

Hef nánast ekki skrifað neitt nema ástarljóð undanfarna mánuði og er það hið besta mál ef frá eru talin um það bil 30 ljóð sem ég skrifaði til skálda víðsvegar um heim á póstkort. Fékk svo sjálf misskemmtileg ljóðakort í póstinum allan ágústmánuð. Frábært verkefni að vera með í, sum kortin algerar perlur og ljóðin skrifuð beint á kortin án þess að vera eitthvað að spá í annað en að gefa skapandi gjöf handa viðtakandanum einum saman.

Horfði aftur á Al Gore myndina góðu um gróðurhúsaáhrifin og ef einhver sem les þetta hefur ekki séð myndina mæli ég eindregið með því að sjá hana. Við sem mannkyn stöndum á svo mikilvægum tímamótum og segja má að við höldum á fjöreggi í höndum okkar. Ef okkur tekst ekki að gera allt sem í okkar valdi stendur bæði sem einstaklingar og sem samfélag manna til að varðveita þetta fjöregg þá mun ekki verða neitt eftir handa börnum okkar og barnabörnum sem kalla má lífsgæði. Það er mikilvægt að muna að það er bara til ein Jörð og við eigum það öll sameiginlegt að búa á henni. Því ætti að vera auðvelt að setja í forgang að varðveita hana af sömu ástúð og umhyggju og ástvin sem væri í bráðri hættu. Myndin hans Al Gore heitir an Inconvenient Truth, hægt að fá hana á næstu dvd leigu.

Vona svo að vinir mínir og ættingjar fyrirgefi mér sinnuleysið í formi tölvupósts, sendi bara hugskeyti í staðinn:)

Aukaverkanir lyfsins mun skaðlegri en hér kemur fram

Veit til þess að ungt fólk hefur fengið grand mal flogaveiki af misnotkun á þessu. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hve mikið er skrifað út af lyfjum sem þessum. Furðulegt að ekki sé til gagnagrunnur eða eitthvað slíkt sem myndi láta læknum í tjé upplýsingar um ef viðkomandi sjúklingur er að fá ávísuð lyf hjá öðrum læknum eins og svo algengt er meðal þeirra sem eru háðir læknadópi. Hvernig væri nú að alvöru átak væri hrundið af stað þar sem er tekið er á þessu af einhverri alvöru. Finnst engin hemja hve auðvelt það er fyrir fólk að fá mjög sterk geðlyf með því að segja "réttu" hlutina við geðlækna og heimilslækna.

Skil bara ekki hvernig hægt er að láta sér detta í hug að ávísa jafn hættulegu lyfi við öðru en flogaveiki. Flogaveikislyf eru einhver sá almesti viðbjóður sem hægt er að ávísa og eru flest mun hættulegri en fólk gerir sér grein fyrir. Misnotkun á lyfjum er stórt vandamál sem allir vita ef en enginn virðist vera í stakk búinn í heilbrigðisgeiranum að finna lausn á.


mbl.is Síbrotamenn misnota nær allir lyfið Rivotril
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hámenningadagur í sveitinni

Ég er ein af þessum fágætu mannverum sem er ekki að njóta þess að vera í mannþvögu og geri yfirleitt eitthvað annað en að þrýstast upp við mann og annan á Laugarvegi á menninganótt, Þorláksmessu og 17. júní. Einu skiptin sem mér finnst gaman að vera í þvögu er á tónleikum sem gerist þó æ sjaldgjæfara. Ákvað að bregða mér út úr bænum ásamt mínum kærasta og Delphin og gera eitthvað allt annað. Fórum á Þingvelli, löbbuðum löngu leiðina inn í Almannagjá og Delphin stakk haus í Öxárvatn og drakk af mikilli gleði. Við skófluðum í okkur feitum og safaríkum bláberum og krækiberum. Sólin var heit og björt og mosinn mjúkur. Það er svo magnað að labba þessa leið um máða steina og hugsa um söguna sem er alltaf að gerast. Þvílík fegurð. Það var nánast enginn þarna nema einstöku túristar. Keyrðum síðan Selfoss leiðina til baka og datt mér þá í hug að kíkja við á Fjöruborðinu hans bróður míns. Hann var aldrei þessu vant í fríi og staðurinn aldrei þessu vant tómur. Búinn að vera að slá met dag eftir dag í fjölda gesta í sumar og þar af leiðandi hef ég nánast ekkert hitt bróður minn. En við fengum okkur gott kaffi og geðveikar sykurbombukökur. Delphin talaði um besta dag síns stutta lífs. Hann hefur reyndar alveg frábær viðhorf gagnvart lífinu og það þar ekki mikið til að fá hann til að nota þessa lýsingu á dögum. Svo brunuðum við í bæinn Óseyrarmeginn og fórum í bíó á tæknibrelluundrið Transformers í Breiðholti. Hef ekki farið í bíó þar síðan ég veit ekki hvenær. Það voru örfáar hræður í bíó enda allir í miðbænum. Frábært að eiga svona úthverfi og sveitir landsins út af fyrir sig.

Þetta var bara yndislegur dagur og ég er mikið þakklát að ég fór ekki að pynta sjálfa mig til að taka þátt í einhverju sem ég hef bara engan áhuga á. Menning er og verður hluti af mínu daglega lífi. En ef fólk vill njóta hennar á einum degi þá er það bara fínt.

Annars þá eru þetta mikil viðbrigði að vinna svona vaktavinnu og keyra svona mikið. Mér finnst reyndar mjög gaman að keyra og hef farið Nesjavallaleiðina flesta daga þegar ég fer til vinnu og það er bara himnesk leið. En það verður harla lítið eftir af deginum þegar þeir eru svona langir. Í gærkvöldi lenti ég í baunasúpuþoku á Hellisheiði ásamt brjáluðum regnstormi. Það er alveg hrikalega dáleiðandi að keyra í svona veðri. Reyni yfirleitt að finna mér einhvern til að elta sem tókst í gær. Alltaf þegar ég mætti einhverjum á leiðinni þá varð ég hreinlega blind og sá ekki neitt í andartak. Reyndi að horfa á glitstaura og keyra eftir minni:) Maður verður alltaf að dæla í sig kaffi áður en maður heldur af stað út í nóttina í svona keyrslu og svo er maður algerlega manískur þegar heim er komið og getur ekki hætt að tala eða hugsa.

Vinnan er annars mjög gefnandi og ég er mjög ánægð með það sem ég hef verið að þróa fyrir tölvusmiðjuna sem ég mun sjá um fyrst um sinn. Gaman þegar maður getur nýtt sér eitthvað sem maður hefur verið að þróa með sjálfum sér sem námsefni.

Annars er lífið ennþá og mun alltaf vera samfellt ævintýr og ég er eilíft að minna mig á þakklætið fyrir þetta andartak og það sem framundan er. Það er hinn fullkomni staður til að vera á.

Að vinna í smiðju

Næsta föstudag byrja ég að vinna í Götusmiðjunni. Ég er alveg himinlifandi að fá tækifæri á að taka þátt í því magnaða starfi sem hann Mummi hefur byggt upp af miklum eldmóð og mannkærleika undanfarin 10 ár. Hef verið að biðja um leiðsögn um hvað ég ætti að gera að ævistarfi mínu. Fékk mjög skýr svör og er mjög ánægð með að hafa haft hugrekki til að fylgja draumi mínum. Finnst ég hafa gert nóg í netmálum og auglýsingagerð og langar að fara að gefa eitthvað til baka af öllum þeim gjöfum sem lífið hefur fært mér með ómældri lífsreynslu og því mikla láni að fá að sjá það sem tækifæri til að vaxa og vonandi verða betri manneskja fyrir vikið.


Að rífa upp runna sem skyggði á langömmu

Á leið minni í heimsókn til Götusmiðjunnar í dag, staldraði ég við í Kotstrandarkirkjugarði. Mamma er þar, Árni gítar afi, Tryggvina langamma (mamma ömmu) og Jón Sverrir, bróðir mömmu sem lést af slysförum barn að aldri. Ætlun mín var að ljósmynda maríuhænuna hjá hjartanu fína sem ég stakk þar sem kerið hennar mömmu er grafið. Er að bíða eftir að finna rétta steininn til að láta höggva gróflega út sem gítar. Ef einhver veit um nettan stein sem væri við hæfi lát oss vita.

Nema hvað að elsku amma sem hálfblind er orðin hafði plantað einhverju hryllilegu skrímslahekki í hring um grafirnar sem eru allar í sætri röð, ásamt ægilegum rósarunna sem ræðst alltaf á mig þegar ég reyni að klifra yfir þetta hekk til að heilsa upp á mömmu. Þegar ég svo tók eftir því að hekkið hafði tekið upp á því að skyggja alveg yfir langömmu og hennar grafarskrift var mér nóg boðið og í mig hljóp einhver fítonskraftur og ég á mínum háu hælum í hafmeyjarkjól, réðst á hekkið og reif með þónokkru miklu basli hekkið upp með rótum sem skyggði á Tryggvinu Friðvinsdóttur. Ætla svo að fara þarna síðar og taka það upp allt eins og það leggur sig og planta einhversstaðar annarsstaðar. En mun þá mæta með skóflu:) Síðan tók ég við að mynda maríuhænuna sætu sem var þarna í góðum félagskap hinna framliðnu og enn og aftur fann ég ekki fyrir sorg. Fann meira til sorgar um daginn þegar Delphin fór að tala um pönnukökurnar hennar mömmu, því hún lagði mikla ástríðu í að gera heimsins bestu pönnukökur. Saknaði ekki endilega þess að snæða þær heldur frekar þeirri staðreynd að heyra hana aldrei tala um gerð þeirra og sjá hana síðan framkvæma sköpunarverkið:)

Annars þá eru draumar að rætast og lífið heldur bara áfram að vera ævintýr. Fékk draumavinnu í dag sem ég segi ykkur frá þegar allt er frágengið en það er kraftaverki líkast hvernig það allt kom til.

Eitt er víst að ef maður biður um eitthvað þá fær maður það... það eina sem til þarf er að trúa því að maður fái það huglægt og tilfinningalega.

Eyes on Darfur

Var akkúrat í þessum rituðum orðum inn á merkilegum vef á vegum Amnesty International sem heitir Eyes on Darfur, hvet alla til að fara inn á þennan vef og kynna sér þetta mál. Vona að það verði gert eitthvað núna fyrir þessa þjökuðu þjóð sem með sanni er fyrsta fórnarlamb stríðsátaka vegna gróðurhúsaáhrifa. Þarna er barsist um vatnið, bláa gullið.
mbl.is Öryggisráð SÞ mun brátt greiða atkvæði um Darfur-friðargæslulið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefa nafn, hlusta á hafið í fiðlu og finna sólstafi

Undanfarnar vikur hafa verið eins og ég hef svo oft haldið fram, ævintýri líkastar. Hef reynt að halda mig frá bloggheimum vegna þess að þar grasserar svo mikill mannfjandskapur og rógburður. Svartagaldur ofan á svartagaldur og það er svo erfitt að hemja gremjuna þegar maður sér hve fólk berar hve andlega fátækt það er með dómhörku og skelfilegum athugasemdum sem ég leyfi mér að efast um að viðkomandi fólk þyrði að segja upp í opið geðið á manni eða öðrum sem þeir beina sínu skítkasti að.

Ég hef mikið verið að spá í að hverfa héðan en það hryggir mig því hér hef ég fundið mikið af gömlum vinum og vandamönnum og hér fékk ég útrás fyrir harm minn og fékk huggun frá svo mörgum þegar mamma dó. Er ekki alveg viss hvað skal gera. Ætla að einbeita mér að bókinni um mömmu og ljósmyndasýningunni sem mun bera yfirskriftina: Ferðalag Bergþóru í búk Maríuhænunnar. Þá er ýmislegt sem telja mætti teikn um að venda sínu kvæði í kross og fara að vinna við eitthvað allt annað en ég er vön að vinna að. Langar að láta gott af mér leiða, skila einhverju til baka sem mér hefur verið gefið í lífinu, það eru sólstafir sem ég ætla að fylgja inn í óræðna framtíð sem ég er þó að móta og skapa í hverju lifandi andartaki.

Fyrir um viku hittum við Jón Tryggvi dásamlegt fólk sem telja mætti til tónlistarfólks og skálda. Fyrir nokkru síðan hafði samband við mig skáldkona frá Sri Lanka sem var á leið til landsins á leið sinni frá bókmenntahátíð á Írlandi. Vildi endilega hitta íslensk skáld og rakst hún á mig í netheimum. Maðurinn hennar er Írskur og alger fiðlusnillingur. Við kíktum til þeirra þar sem þau voru á gistiheimilinu Moby Dick, það er merkilegt nokk við hliðina á heimili vinkonu minnar Marló skáldkonu. Þá skáldin leynast víða hér um borg en engan vettvang eiga þau þó til að leyfa öðrum að hlusta á sig kveða:) Þau fluttu fyrir okkur magnað verk þar sem Colm tókst að framkalla hvalasöng og brimhljóð á fiðluna og hún Pireeni flutti ljóð sem tvinnað var í kringum gamla írska þjóðsögu. Ógleymanlegt. Jón Tryggvi og Colm tvinnuðu svo tóna saman og fannst þeim hjónum mikið til hans koma sem tónlistarmanns...

Fyrir nokkrum árum uppgötvaði að ég ætti systur í gegnum blóðbandapabba, í sama símtali og ég frétti að hann væri látinn. Það var mikil gæfa að finna systur mína hana Steinunni, hún er alger gullmoli og ótrúlega falleg og sterk tenging á milli okkar. Eins og ég hafi þekkt hana allt mitt líf. Hún eignaðist yndislegan dreng í mars sem átti eftir að nefna. Steinunn fékk þá flugu í höfuðið að biðja mig um að hjálpa sér við að gera nafn hans opinbert á afmælisdaginn sinn 22. júlí. Ég varð alvarlega snortin og glöð:) Datt í hug að opinbera nafnið í gegnum ljóð sem ég dreif mig í að skrifa og læt það fylgja með og mynd af drengum yndislega sem er eitthvað það brosmildasta barn sem ég hef hitt...

Lítill drengur með björt augu
jók heiminn gleði með tilkomu sinni
þegar vorið skartaði sínu fegursta
Framundan stillur og sólskin
Undir milkilfengleika nafns síns
hann mun standa af stakri prýði
Örlæti hjartans og innri friður
munu líf hans einkenna

Benjamín Ágúst
er nafnið þitt
Þín gæfa, þín gleði
þín örlög samofin
æðruleysi
Þín innri kjölfesta
traust og stöðug
Lífsstigi þinn
markaður
bjartsýni
og léttlyndi

Benjamín Ágúst
Benjamín Ágúst - fæddur 27. mars 2007

En það eru þessi litlu ævintýri sem gefa lífinu gildi. Að fá á flétta hárið á dóttur minni, að lesa fyrir Delphin að spjalla við Neptúnus um heima og geima er mér svo óendanlega dýrmætt og jafnast á við allar gersemar lífsins.

EinkaMUSE ljær Kameljóni innblástur

Það er ómetanlegt að finna ólgu innblástursins knýja sig inn og galdra draum inn í veruleika, sitja í draumheimum og vefa paradís. Vakna inn í nýtt hugarástand.

I

Gekk í hring um hring innan hrings
Allsstaðar sömu andlitin
Vefur marglita þræði í sífellt sama mynstrinu

Váleg veður
snyrtilegir naglar
á hárréttum stað

Þrýstir þeim örlítið dýpra inn
sársaukinn er afstæður

Stendur við fjöruborðið
Ákallar sársaukan eins og til að minna sig á að í æðum rennur lifandi blóð
Augun dauf og andardrátturinn grunnur

Í eitt galopið andartak
blæðir í sandinn setning

Meitlast inn í hugann

Eymd er valkostur

II

Aldrei aftur ein/n
syndir í bláma
hefur ekkert upphaf né endi

Hendur úr gárum
mjúkar
draga nagla út
einn af öðrum
Þeir voru aðeins hilling

Sjónhverfing hugans

Kænan var kjölfest

Úfið hafið
aðeins hilling
Syndir í bláma
um eilífð
Alda í öldum alda

Kær leikur
sam farir
við vatnið

Hreinsar
frelsar

Er ást
Er galdur
Býr handan orða
bjartara en bjart

Fréttatilkynning frá SI ...

Markmið aðgerða SI er að vekja athygli á stóriðjuframkvæmdum landans og þeirra fórna á óspjallaðri náttúru sem það krefst. Fjöldi íslendinga eru beinir þátttakendur aðgerða SI og því ætti fólk að sjá sóma sinn í að hætta með þetta útlendingahatur í færslum sínum. Maður heyrir aldrei að barnaperrar og handrukkar ættu að verða landrækir en oftar enn einu sinni hef ég heyrt að réttlætanlegt sé að gera mig og aðra íslendinga sem mótmæla á "kjánalegan" hátt eigi að verða sendir í útlegð... Ég mun annað hvort síðar í dag eða á morgunn gera grein fyrir hvað hefur áunnist með aðgerðum SI en þær einskorðast alls ekki bara við svokallaðar beinar aðgerðir, þó þær hafi verið lang mest áberandi í íslenskum fjölmiðlum. Vinsamlegast lesið greinina áður en þið ákveðið að kommenta á hana. Þá vil ég benda á að ég skipulagði ekki þessa aðgerð en er henni fylgjandi. Kominn tími til að beina sjónum að þessu álveri á Grundartanga sem hefur fengið að stækka sig án nokkurrar almennilegrar umræðu.

Birgitta
----------------------------------------------------

Umhverfi / Mótmæli

Fréttatilkynning 18. júlí, 2007.

SAVING ICELAND LOKA VEGINUM AÐ VERKSMIÐJUM CENTURY / NORÐURÁLS OG ELKEM
/ ÍSLENSKA JÁRNBLENDIFÉLAGSINS

GRUNDARTANGA – Í dag hafa  samtökin Saving Iceland lokað eina aðfangaveginum frá þjóðvegi 1. að verksmiðjum Century / Norðuráls og ELKEM / Íslenska járnblendifélagsins. Saving Iceland samtökin eru
andsnúin áformum um nýja álbræðslu Century í Helguvík og stækkun á verksmiðju Járnblendifélags Íslands. Aðgerðafólk hafa hlekkjað sig saman í málmrörum og myndað þannig mannlegan tálma á veginum um leið og nokkrir hafa tekið yfir byggingakrana á svæðinu.

Century Aluminum, sem er hluti af nýrri rússnesk-svissneskri samsteypu fyrirtækjanna á RUSAL / Glencore / SUAL, ætla að reisa annað álver í Helguvík með 250.000 tonna árlegri framleiðslugetu. Álver þeirra á Grundartanga hefur þegar verið stækkað í 260.000 tonn.

Um þessar mundir er verið að fara yfir unhverfismat á Helguvíkur bræðslunni. (1) Þetta mat var gert af verkfræðisamsteypunni HRV (Hönnun/Rafhönnun/VST).

“Það er fáránlegt að verkfræðifyrirtæki sem hefur mikla hagsmuni af byggingu álversins sé ætlað að skila hlutlægu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í mati fyrirtækisins koma fram staðhæfingar eins og t.d. sú að mengun af verksmiðjunni verði ekkert vandmál vegna þess að Helguvík sé svo vindasamur staður að öll mengunin mun hverfa með vindinum” segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson frá Saving Iceland.

“Þessi álbræðsla mun kalla á nýjar jarðhitaboranir í Seltúni, Sandfelli, Austurengjum og Trölladyngju, auk þess sem Hengilssvæðinu hefur þegar verið raskað stórlega hennar vegna af Orkuveitu Reykjavíkur.  Í umhverfismatinu hefur alveg láðst að nefna þessi jarðhitasvæði eða hinar gífurlegu rafmagnslínur og rafmöstur sem fylgja munu framkvæmdinni. Þessar jarðvarmavirkjanir munu gersamlega eyðileggja ásýnd og vistfræðilegt gildi alls Reykjanesskagans. Orkuþörf verksmiðjunnar, um 400 mw, mun fara fram úr náttúrulegri orkugetu þessara jarðhitasvæða auk þess sem þau munu kólna á þremur til fjórum áratugum. (2) Century hafa viðurkennt að það er ætlun þeirra að stækka verksmiðjuna á næstu áratugum. Það er því augljóst að þessi álbræðsla mun ekki aðeins eyðileggja Reykjanesið heldur einnig útheimta frekari virkjanir jökuláa.”

Matsferlið virðist vera algjört aukaatriði, fyrirtækið hefur þegar reiknað með útgjöldum upp á 360 milljónir dollara sem að hluta til verður varið til byggingar álbræðslu í Helguvík. (3) Þetta gefur til kynna að Century hafa fengið fullvissun frá íslenskum yfirvöldum um að verkefnið mun sleppa í gegn hvað sem í skerst.

Þetta stangast algerlega á við stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkistjórnar Íslands, og þá sérstaklega nýlega yfirlýsingu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra, að hún sé á móti frekari álverksmiðjum á landinu.

Íslenska járnblendifélagið vill auka getu sína til framleiðslu á ferrosilicon fyrir stáliðnaðinn. Þetta fyrirtæki ber ábyrgð á einu mesta magni gróðuhúsalofttegunda og annarar mengunar á Íslandi. (4)

“Stækkun á verksmiðjum Íslenska járnblendifélagsins og Century mun auka stórlega útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.  Ef ekkert bætist við þá stóriðju sem þegar er á Grundartanga og hjá ALCOA Fjarðaáli mun Ísland samt auka við útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 38% miðað við ástandið árið 1990. Með áframhaldandi uppbyggingu stóriðju á Íslandi mun útstreymið nema um 63% yfir viðmiðun mörkum ársins 1990. Slíkt ber vitni um algjört ábyrgðarleysi og ótrúverðugleika íslenskra stjórnvalda.

Allt tal um “græna orku” frá jarðvarma og vatnsorku er í raun hreinar lygar. Íslendingar verða að rísa gegn þessum erlendu fyrirtækjum” sagði Snorri Páll.

ENDIR

Frekari upplýsingar: http://www.savingiceland.org

Punktar og tilvitnanir:
1. Environmental Impact Assesment, HRV, may 2007,
http://www.hrv.is/media/files/Frummatsskýrsla_2007-05-02_low%20res.pdf
2. Landvernd, Letter to national planning agency, 28th June 2007,
http://www.landvernd.is/myndir/Umsogn_Helguvik.pdf
3. Credit Suisse, June 12th 2007,
http://www.newratings.com/analyst_news/article_1548857.html
4. Icelandic Ministry of the Environment, March 2006,
http://unfccc.int/resource/docs/natc/islnc4.pdf
mbl.is Mótmælendur hlekkja sig við tæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 509817

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband