Leita í fréttum mbl.is

Blogg um Bergþóru Árnadóttur

bergthora_arnadottirNú er ég búin að fylla tónlistarspilarann á nýja blogginu sem er tileinkað mömmu gömlu, setti inn 3 lög frá Eintaki og 3 frá Bergmáli. Vantar að koma í stafrænt form Það vorar og Afturhvarfi. Ég er líka að setja upp myndaalbúm þar og mun þá taka út albúmið af minni síðu. Fólk var farið að halda að ég væri forfallinn aðdáandi Bergþóru og ég er ekki alveg að meika þá tilhugsun, væri frekur sjúkt ef ég persónudýrkaði hana... alveg nóg að ég elska hana botnlaust. Talaði um fyrir stuttu að sorgin væri svifin frá hjarta mínu og merkilegt nokk það er bara alveg satt. Mæli með því ef fólk verður fyrir áfalli að gefa sér næði til að syrgja og hjálpa öðrum. Ekkert meðal er betra en að hjálpa einhverjum sem er enn verr settur en maður sjálfur þegar maður er í stórhættu á að falla í pytt sjálfsvorkunnar:)

Slóðin á Bergþórubloggið er bergthora.blog.is, hægt að gerast bloggvinur og de hele. Mun skella þangað fréttum af gangi endurútgáfu, tónleikum og æviminningabókinni. Þætti vænt um ef fólk man eitthvað sem tengist henni að segja mér frá því svo ég geti athugað hvort það myndi passa inn í bókina um hana. Ætla að setja hana upp svipað og Dagbók kameljónsins, fullt af myndum, stuttum brotum, frásögum, textabrotum og viðtölum sem tvinnast í eins konar skrapbók...

Í dag er enn einn fullkominn dagur í vændum. Vona að ykkar verði eins góður og ég ætla mér að hafa minn:)

Eitthvað allt annað: daglegt líf kameljónsins er ævintýr

nebula_2Ég er svo óendanlega lánsöm manneskja og fæ seint þakkað verndargyðjum mínum. Eftir ákaflega mikið streð og ýmsar fremur erfiðar lífsreynslur þá er það búið að taka stefnuna á vit hverdagslegra ævintýra. Ekki það að hið ytra hafi tekið breytingum ... nei mín innri kjölfesta er bara alltaf að styrkjast og ákveðin meðvitund um að ég er alltaf við stjórnvölin þegar kemur að því að vinna úr því sem lífið réttir að mér. Ég vil mun frekar vera Pollýanna en Kristur á krossinum. Vil þakka móður minni fyrir að leggja hornsteininn að innbyggðri bjartsýni.

Líf mitt er einfaldlega himnaríki á jörðu. Þeas þannig líður mér. Man þegar ég var unglingur og mér leið sem ég væri föst í helvíti. Allt kemur eitthvað svo auðveldlega til mín og ég veit loks hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór:) Hef tekið ákvörðun um að hætta að búa til hluti eins og auglýsingar og annan ófögnuð sem tengist neysluhyggju og hraða nútímans. Ég vil miklu frekar gera það sem mér finnst skemmtilegast að verða öðru fólki til gagns. Að nota eitthvað af allri þessari reynslu sem mér hefur verið skaffað til að hjálpa öðrum. Er með frábæra vinnu í farvatninu og hlakka mikið til að takast á við það verkefni. Þá ætla ég mér í ráðgjafaskólann í haust.

Annars þá er ég líka svo uppfull af sköpunargleði ... ástin á þar stóran hlut að máli. Er í eitthvað svo háu lífsástandi þessa dagana og svo brimfull af þakklæti að hafa loksins fundið hinn helminginn af mér:) Svo einstakt að deila lífi með einhverjum sem tekst að laða fram það besta í mér og visa versa.

Í gær var ég að finna titil á lagi eftir mömmu í ljóðabók eftir Stein Steinarr og þá hoppaði út úr henni enn eitt lagið. Er eiginlega að forðast að láta þessi lög koma til mín því ég ætla mér ekkert með þau og þá verða þau steinbörn. Finnst þetta reyndar skondið... ljóðin hans er ljón í launsátri sem stökkva á mig og leysa mig úr læðingi.

Svo er ég að gera alveg ótrúlega skemmtilega textavinnu með tveimur einstökum dönskum listamönnum : eins konar modern mythmaking... mjög gaman...

Og svo á ég svo yndisleg börn og veðrið er bjart og hjartað fullt af bjartsýni... himnaríki gæti ekki verið betra.

Yfirlýsing út af lögregluofbeldi

frá vini mínum Einari Rafni sem sést hér á þessari fréttamynd og harkalegar aðfarir lögreglunnar.

Ég hef sagt það oft og segi enn, er ekki kominn tími til að störf lögreglunnar séu rannsökuð af öðrum en þeim sjálfum... þetta bara gengur ekki lengur. Og ef einhver sér sig knúinn til að tala um hann sem iðjuleysingja eða atvinnumótmælenda vil ég benda á að hann hefur ásamt öðrum vinum mínum rekið kaffi Hljómalind og skapað atvinnutækifæri fyrir fullt af eyjaskeggjum. Ég fékk þessa frétt lánaða af eggin.is með þeirra leyfi.

Á leið minni heim í dag sá ég hóp af fólki í göngu. Ég vissi að til stóð að halda einhverskonar mótmælagöngu í dag, auglýsta sem rave party og ákvað að ganga í hópinn. Þá kom í ljós að lögreglan hafði stoppað gönguna á Snorrabraut. Göngumenn létu það greinilega ekki á sig fá en þarna voru trúðar með trúðalæti og mikið af fólki að fylgjast með, borðar með slagorðum gegn alþjóðlegum stórfyrirtækjum voru á lofti og fólk að dansa og skemmta sér. Lögreglan fylgdist prúð með og virtist vera í góðu skapi, hún hleypti bílum í gegn og að lokum var Snorrabraut lokað við Flókagötu. En einhverra hluta vegna leyfði hún göngunni ekki að halda áfram, og ljúka sér af, heldur stöðvaði hana á miðri Snorrabraut í rúma 2 klukkutíma.

Loksins virtist lögreglan fá skipun frá yfirmönnum sínum að ráðast til atlögu en hún réðst að bílnum sem tónlistin kom frá, braut rúðuna, opnaði og dróg þann sem þar var út, hann sýndi enga mótspyrnu. Fólkið á staðnum flykktist að og í kring en án alls ofbeldis og var flestum ýtt frá. Tveimur einstaklingum var sýnd sérstök aðgæsla (sá ekki afhverju) en það voru um 8 lögreglumenn sem snéru þá niður á gangstéttinni.

Ég stóð á gangastéttinni í um 2 metra frá staðnum þar sem verið var að halda þessum göngumönnum niðri með því að sitja ofaná þeim og snúa upp á hendur og fætur, þau sýndu ekki mótspyrnu að mér sjáanlegu. Fólkið á staðnum söng ýmis slagorð eins og að lögreglan væri að beita ofbeldi. Ég stóð þarna hrópaði stundum með en beitti annars engri ógnandi hegðun né var á nokkurn hátt dónalegur gagnvart lögreglunni, enda hélt ég að hún ætti að vera sú sem viðheldur friði, ekki sú sem kemur af stað ófriði. Mér skjátlaðist.

Skyndilega kemur lögreglumaður upp að mér og biður mig hastarlega að færa mig, ég bakka aðeins en greinilega ekki nógu mikið því hann ýtir mér aftur á bak, snýr upp hendina og skellir hausnum á mér upp við bílshurð. Því næst hendir hann mér upp að grindverki og öskrar “þú átt að hlýða því sem ég segi”. Þar á eftir snýr hann upp á hendina á mér og skellir andlitinu á mér niður á gangstéttina.

Ég tel mig hafa sýnt yfirvegun og rólyndi allan tímann, en ef eitthvað ætti að túlka sem dónaskap þá gæti það verið þegar að ég spurði: „hversvegna?” þegar mér var ýtt og sagt að hlýða. Því næst labbar hann aftur að handtökunni og skilur mig eftir í götunni.

Ég fæ ekki séð að ég hafi nokkuð ólöglegt aðhafst. Enginn réttlætanlegur ásetningur var hjá manninum og hvað er þá hægt að kalla þetta nema lögregluofbeldi!

Viljum við landsmenn að lögreglan komist upp með slíkan verknað. Hvað ef að verið væri að mótmæla háu bensínverði, of mikilli þennslu, barnaklámi, kvennamisrétti eða spillingu? Hvað má lögreglan ganga langt í að bæla niður aðgerðir hópa sem eru að berjast fyrir hugsjónum sínum?
mbl.is Fjórir handteknir í mótmælum Saving Iceland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland með ...

að vera nú hluti af alþjóðafjölskyldu Ríó Tintó. Þeirra slóð er blóði drifin, bendi fólki á að sjá alveg frábæra heimildarmynd sem ég sá um daginn og heitir "the Coconut Revolution", en hún er svona Davíð versus Golíat saga um baráttu frumbyggja á eyjunni Bouganville við m.a. Rio Tinto. Hægt er að sjá myndina í 4 brotum á youtube.com set hér inn fyrsta hlutann...


Aldrei aftur Kringlan

Hef ákveðið að fylgja fordæmi jonas.is og hætta mínum viðskiptum við súpermallið Kringluna. Ekki það að ég færi oft þar en þó laumaðist ég á útsölur í Moonson og Whistlers ásamt því að freistast til að kaupa grænmeti í Hagkaupum og annað góðgæti. Hér er hægt að horfa á það sem fór fram í Kringlunni og ég bara spyr hvað gekk þessum öryggisverði til að haga sér svona. Hef þurft að þjást í gegnum Nylon í skóldeildinni í Hagkaup og allskyns skemmtiatriði í almenning Kringlunnar sem hefur með sanni raskað ró minni og fengið mig til að hlaupa út úr musterinu. Þetta voru skemmtileg mótmæli og ég sá fullt af brosandi fólki sem staldraði við og tók við bæklingum og var greinilega skemmt. Sumir voru ekki að finnast þetta skemmtilegt en hey ekki fíla ég Nylon. Ég fer þó ekki fram á þær séu teknar baka til í Kringunni og beittar harðræði. Þegar ég kom í Kringuna fyrir hádegi með krakkana mína þá voru öryggisverðir allsstaðar. Þeir vissu greinilega ekki alveg hvernig þeir ættu að tækkla yfirvofandi síra Billy, fannst sem þeir væru bæði spenntir og hræddir miðað við fas þeirra og tal. Ekkert var skemmt, ekkert sem kallaði á þessi hörðu viðbrögð karlsins, ef eitthvað var þá reif hann borðana okkar og var að ýta harkalega við mótmælendum án ástæðu: en Kringlan hefur svo sem áður hagað sér á fasískan máta. Maður hefur svo sem verið rekinn út fyrir að dreifa upplýsingum um stríðið í Írak í almenningnum.


Ókeypis faðmlög:)

Dásamleg sönn saga... hvet alla til að faðma einhvern í dag


Ómerkilegasta vinna í heimi

Hef verið mikið að spá í af hverju málin hafa þróast þannig í okkar nútímasamfélagi að einhver alómerkilegasta vinna sem kona getur stundað sé að sinna börnunum sínum og halda heimili. Ef ég myndi líta á það sem mína framabraut að vilja vera heimavinnandi kona þá væri ég litin alvarlegu hornaugu af stórum hluta þjóðarinnar. Hvað ef mér þætti það merkilegri og meira gefandi vinna að sinna uppeldi þeirra barna sem ég valdi að eignast en að vinna við auglýsingagerð eða að brjóta um bækur eða skrifa bækur? Hvað væri ég þá? Varla illa upplýst. Mér finnst nefnilega þessi karríerismi á alla kannta vera kominn út í algera öfgar. Með sanni má segja að samfélag okkar sé með öllu firrt af hraða og neylsu þegar maður heyrir eftirfarandi sögur:

Hjúkrunarfræðingur sem ég þekki og vinnur á stóru sjúkrahúsi sagði mér að í júni og ágúst væri alltaf met í að greina börn með alvarlega sjúkdóma eins og til dæmis krabbamein. Ástæðan er sú að foreldrar taka ekki eftir sjúkdómseinkennum barna sinna vegna anna. Þeir eru einfaldlega ekki nógu mikið í kringum þau til að taka eftir að þau eru ekki eins og þau eiga að sér að vera. Mér finnst þetta meira en lítið sláandi og finnst kominn tími til að við stöldrum við og spyrjum okkur hvort að þetta sé sú samfélagsgerð sem okkur þyki ásættanleg.

Mér finnst það sorgleg þróun að gefa algerlega skít í allt sem okkar formæður gerðu og gera lítið úr því. Því sem næst öll verkkunnátta ömmu er að fara forgörðum, við kaupum til dæmis frekar föt sem börn í Asíu sauma í þrælkunarbúðum en að læra að sauma einföldustu hluti. Það er bara ekki par fínt að gera neitt sem minnir á þrælkun kvenna. Ég er ekki að segja að konur hafi ekki haft það frekar skítt í gamla daga en höfðu karlarnir það ekki líka ferkar skítt. Fólk þurfti að vinna mikið en er fólk eitthvað að vinna minna í dag. Vinnan í dag er bara annars eðlis. Mér er gert að lífsins ómögulegt að sinna öllum skyldum mínum sem móðir, ég get auðveldlega fætt og klætt börnin mín en það vantar stórlega upp á að samfélagið okkar geri fólki mögulegt að sinna annarri frumþörf: tilfinningu um öryggi og að gefa eitthvað annað af okkur en dót til að friða samviskuna.

Staðreyndin er þessi: að sinna uppeldishlutverki fyrir börn sín er skítlegasta og ómerkilegasta vinna sem nokkur getur mögulega tekið að sér. Látum sérfræðinga bara um þetta og stofnanavæðum börn okkar sem fyrst. Foreldrar eru semsagt ekki færir um að sjá um uppeldi barna sinna og börn verða félagslega þroskaheft ef þau fara ekki í leikskóla.

p.s. ég þarf ekki sögulegar staðreyndir um baráttumál kvenna, þekki það allt mjög vel og finnst allt í lagi að konur séu karríeristar ef þær kjósa það... ég er að tala um að það er ekkert annað í boði og þá fordóma sem konur verða fyrir ef þær vilja ekki kjósa leið karríeristans...

Get ekki lengur setið á mér...

Eftir gott hlé frá því að vera MJÖG virk í umhverfisbaráttunni er ég aftur komin á skrið. Var mjög hrifin af ráðstefnu saving iceland um helgina og hún endurvakti og endurnýjaði þessi knýjandi þörf á að gera eitthvað NÚNA. Ég hef orðið vör við það sem kalla má media blackout á þessa ráðstefnu, mun því setja inn efni hér frá youtube um leið og það verður sett inn um ráðstefnuna þar á bæ. Þá sýnist mér ég hreinlega verði að halda áfram að blogga því það er bara svo mikið af skrifum hér sem eru hreint og klárt bull og siðgæðiskennd mín segir mér að það verði einhver að svara þessu bulli þó mér þyki það ömurlegt hlutskipti:)

Skellti inn smá frétt um þróun mála með efni sem tengist mömmu á bergthora.blog.is

Er enn á bleikum ástarhnoðra og ætla mér að vera þar um aldur og ævi...

Jónsmessunótt hin fyrsta

Á krossgötum opnast huldir heimar
rétt eins og þegar tvö hjörtu verða eitt

Í dögg svita þeirra
ilmur sakleysis

Augun úthaf
og glaðbeittir höfrungar
sem tala tungum
og allt verður skyndilega rökfast og rétt

Við túngaflinn skjóta marglit
og rótsterk blóm upp kolli
Fyrirheit um
óbærilegan léttleika tilverunnar

Þakklætissteinninn sem á veginum varð
hornsteinn alls sem verður og var

ort handa Jóni Tryggva Unnarssyni


Kameljónið hverfur um stund

Elsku bloggvinir og vinir...
Ég hverf um ókveðinn tíma... ert allt of upptekin af því að vera ástfangin til að eyða tíma mínum í virtual reality þegar veruleikinn er kraftaverkavél þar sem ég lifi ævintýrið.

Þetta hefur verið ómetanlegur tími og sérstakur að deila móðurmissinum með ykkur og öðrum hugrenningum. Er að setja upp blogg sem er tileinkað mömmu. Náði bergthora.blog.is:) Set þar inn upplýsingar um verkefni sem tengjast Bergþórunni minni...

Sorgin er ekki lengur eilífur saknaðurstingur heldur mjúk eins og eðalvín og minningarnar hrannast upp eins og sólstafir - ég er óendanelga glöð að ég gaf mér tíma til að komast að hjarta sorgarinnar. Borgar sig aldrei að geyma sorgina og láta aðra hluti ganga fyrir. Maður verður svo veikur í hausnum af því:)

Fyrirsagnaljóð frá bloggvinum

Í morgunn þegar ég leit á yfirlit yfir nýjustu færslur bloggvina minna blasti við mér svo kómísk samstæða fyrirsagna að ég varð að búa til úr henni ljóð;)

Nakinn bæjarstjóri?
Rómantík í morgunsárið
Fasteignasalar slá sér upp
Kastljós mótmælir, og við fylgjumst með
Draumurinn
Í ELDHÚSINU Í GÆR
að minnsta kosti
Sjálfsagt mál?
Náttúruleg getnaðarvörn fyrir þá sem þora - pillan óþörf
Hár í rassinum
,,Óútskýrði" launamunurinn útskýrður
Á þessum merkisdegi
Ódýr andlitslyfting

þetta er náttúrlega bara snilld... setti bara inn eitt í og að


Ni-kó-dí-n-dímoninn ógurlegi

Furðulegt, ég hef verið reyklaus í 18 daga og ekki haft neinar almennilegar langanir fyrr en núna... hvaða rugl er það? Núna er ég gjörsamlega að drepast úr sjúklegum hugsunum um að í raun og veru langi mig ekkert að hætta að reykja og bla bla bla.... Hygg að ég verði að drífa mig út að línuskautast og sjá hvort að ég missi ekki þessa þráhyggjulegu hugsanir úr höfði mér:)

Birgitta bleika

fishandflowerÉg verð að viðurkenna það að ég bara þoli ekki bleikan lit. Ég á engin bleik föt og mun því væntanlega þurfa að vera félagskítur í bleika dæminu í dag. En auðvitað er ég fylgjandi kvenfrelsi og jafnræði. En ekki undir neinum kringumstæðum gera væntingar um mig í bleiku, fyrr dett ég dauð niður:) Í tilefni dagsins læt ég hér með fylgja með photoshop tilraun og mun þetta verða eins nálægt bleiku og ég kemst. Þ.e.a.s.= stafræn:) Finnst þetta reyndar alveg geðveikt flott mynd. Fótóshoppaði mig til helvítis, klæddi mig í blóm og setti mig við frystihús við fagra höfn.

Óbærilegur léttleiki tilverunnar

Þá er það staðfest: hver dagur er ævintýri og engum um að kenna ef maður er ekki fær um að finna leiðina að því nema manni sjálfum. Ég bjó til smá ævintýri í dag. Fór í göngutúr út í Skerjó í dag með minni þýsku vinkonu sem fer heim á morgunn. Ég ákvað að taka mömmu með. Tók helling af myndum af henni í ýmsum skemmtilegum kringumstæðum. Við fundum heillegan krabba við sjávarmálið og ákvað ég að það væri bara nokkuð krúttilegt að skella maríuhænunni við hlið hans. Pabbi var nú einu sinni í krabbamerkinu og var óttalega mikill krabbi í sér. mamma og pabbiEins og sjá má á þessari mynd eru þau mjög sæt saman. Ég er annars að hugsa um að gera ljósmyndasýningu um ferðalag mömmu í búki maríuhænunnar. Vona að ég móðgi engann en það er liður í mínu lífi að láta dauðann vera tilefni gleði. Búa til nýjar minningar og gleðja sig yfir því sem eitt sinn var. Ég er búinn með tárakvótann fyrir mömmu. Hef verið sígrenjandi eftir að ég missti vinnuna og hafði ómældan tíma til að finna til. Hjálpaði náttúrulega ekki að hætta að reykja ofaní allt saman, ég verð alltaf svo mikil tilfinningavera þegar ég hætti að reykja. Ég er svo heppin að vera í krónísku hamingjukasti ofan í þetta allt saman og er ég því í hinum svokallaða óbærilega léttleika tilverunnar. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 509818

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband