Leita í fréttum mbl.is

Skjaldborg um Alþingishús OKKAR!

Ég ætla að taka þátt í þessari aðgerð - þurfum að láta þingheim vita að við erum ekki sátt við þá þögn og spillingu sem þar ræður ríkjum...

Friðsamleg Mótmæli við Alþingishúsið klukkan á morgun !

"Sláum skjaldborg utan um Alþingishús okkar Íslendinga"

Tökum höndum saman og myndum SKJALDBORG utan um Alþingishúsið

klukkan 12:00 á morgun, miðvikudag - 12. nóvember

Ríkisstjórnin víki Þegar!

Fékk eftirfarandi í pósthólfið mitt í morgunn:

"Nú rétt í þessu voru að berast ábendingar frá OECD að ef að Ríkisstjórnin víki ekki frá nú þegar sé staða okkar sú skelfilegasta sem menn hafa séð gerast í vestrænu ríki síðan í seinni heimstyrjöldinni!

Núna sem aldrei fyrr verðum við að standa saman og láta allan heiminn vita af því að við íslendingar látum ekki bjóða okkur meir en komið er af skelfilegum atburðum sem einkennast af spillingu, valdagræðgi og hroka yfirvalda sem hafa sett okkur út á kaldan klaka og er nú mest umhugað að bjarga eigin skinni en ekki hagsmunum hins almenna íslendings. Viljum við leyfa þeim að halda þessu ÁFRAM? Er ekki komið nóg? Erlend stjórnvöld og stofnanir vilja ekki lána okkur peninga þar sem þeir treysta ekki núverandi Ríkisstjórn. Þetta kostar okkur gífurlegar fjárhæðir með hverri mínútu sem líður og menn vilja ekki víkja vegna ótta við að upp komist um spillinguna sem þeir halda utan um. Hverju höfum við að tapa? Erum ekki nú þegar rúin trausti og orðin gjaldþrota, er það ekki nóg? Eftir hverju erum við að bíða?"

 


mbl.is Óvanalegt að þingmenn segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með alla hina?

Það sem bent er á í bréfinu sem Bjarni skrifaði þó ekki, er það sem fjölmiðlar ættu að einbeita sér að. Að sjálfsögðu er það fréttnæmt að Bjarni segi af sér, enda eitthvað sem margir munu virða við hann um langa hríð. Þetta eru stórfréttir í íslenskri pólitík. Hér sitja menn og konur sem fastast burtséð hve stór brot þeirra eru.

Margir hafa talað um landráð forsætisráðherra, en hann brosir bara og heldur fyrir eyrun og segist ekki ætla að hlusta á okkur sem hann vinnur fyrir. Hér verður ekki kosið. Þó er það augljóst að við erum búin að segja honum upp fyrir löngu, því að landið mun ekki fá neina aðstoð að utan nema við losum okkur við toppana. Hver vill lána brennuvörgum?

Svo veruleikafirrt er þetta sjónspil að dregnar eru upp eldgamlar skoðanakannanir sem eiga að segja okkur að hann njóti 50 og eitthvað % fylgis. 

Ég hef vitað lengi hve undarlegar áherslur eru hér í fjölmiðlaumfjöllun og aðeins við ritstjóra að sakast. Af hverju skrifuðu þeir ekki í fyrirsagnir: "Úreltar skoðanakannanir sýna stuðning við Geir" í stað "Ríflega helmingur ánægður með Geir"? 

 

post-1036-1147901033.jpg

 


mbl.is Bjarni segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættartré ríkisvalds og bankabákns

Kæri bloggheimur

Í bígerð er að útbúa ættartré nokkuð - þar sem tengsl ríkisvaldsins eru rakin á myndrænan hátt við einkavinavæðinguna. Óska eftir upplýsingum um slík tengsl - fyrsta tréð mun fyrst og fremst fjalla um banka- og ráðherratengsl. En allar upplýsingar eru vel þegnar um tengsl almennt frá ríkisvaldi inn í einkageira. Hægt að senda mér þessar upplýsingar á netfangið: fjallkonan@riseup.net

Hef verið þögul á blogginu undanfarið - en hef verið að sinna mínum borgaralegu skyldum á annan hátt. Finnst fátt eins mikilvægt núna og að miðla réttum upplýsingum til almennings -mér til mikillar ánægju hefur netið sannað ágæti sitt - en þar fær maður þær upplýsingar sem maður þarf en ekki í íslenskum fjölmiðlum. Margir bloggarar hafa verið ötulir við að miðla réttum upplýsingum og það eina sem vantar upp á vegna þess að magnið af upplýsingum er svo mikið er staður sem helstu punktar eru teknir saman. Verið er að þróa slíka upplýsingagátt og mun ég láta ykkur vita þegar hún kemst í loftið.


Fyllum bæinn af fólki!

Sýnum samtakamátt - sýnum samstöðu - ástandið snertir alla - ekki bíða þangað til að það er of seint að gera eitthvað.
mbl.is Mótmæli á Austurvelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllum bæinn í dag!

Fékk eftirfarandi bréf í póstinum áðan og hvet ALLA til að lesa það og láta ekki sitt eftir liggja. Þeir sem ekki komast ættu að eyða deginum í að fræða sig um hið raunverulega ástand sem við stöndum frammi fyrir og horfa á Zeitgeist Addendum, Greed Game, End of Money. Elsku besta þjóðin mín - rísið upp úr doðanum og gerið eitthvað - að gera ekki neitt er ekki í boði - þögn og aðgerðaleysi er sama og samþykki. Klukkan 13 verður Borgarafundur í Iðnó - klukkan 15 byrja mótmælin.

En hér er bréfið frá henni Cillu:

Kæru landsmenn!
 
Erlendir fjölmiðlar og stjórnvöld bíða eftir því að Íslendingar rísi upp og taka ábyrgð á því óhugnanlega ástandi sem hefur skapast - mótmæli af krafti og þá eru þeir tilbúnir til að leggja okkur lið en ekki fyrr - Því doði og áhugaleysi landsmanna er þeim algerlega óskiljanlegt fyrirbæri !
 
Norðmenn, Svíar og fleiri hafa lýst því yfir að þeir hafi takamarkaðan áhuga á að hjálpa heilli þjóð sem kýs það að hjálpa sér ekki sjálf.
 
Því verða allir þeir sem ekki eru samþykkir því að þessi hörmungarsaga fái að halda áfram - að sýna samstöðu og mótmæla því ástandi sem er að jarða íslensku þjóðina - núna !
 
En að þeirra mati gildir þögn sama og samþykki !
 
Mótmælin á morgun fara fram á Austurvelli klukkan 15:00 þar sem allir taka saman höndum og slá skjaldborg utan um alþingishús okkar Íslendinga,  hlusta á ræðuhöld og láta umheiminn vita að nú sé okkur virkilega nóg boðið !
 
Oft var þörf en nú en það dauðans alvara að berjast gegn þessu ástandi !
 
Til að láta allan heiminn sjá hvað í okkur býr og hverjir skulu svara til saka fyrir að koma þjóð okkar hálfa leið í gröfina!
 
Ef þjóðin getur fyllt bæinn á menningarnótt þá getur hún það vel núna!
 
Annað er ekki í boði!
 
Baráttukveðja
Sigurlaug Ragnarsdóttir
F.h nýrra tíma - allra landsmanna!



mbl.is Sameinast gegn Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinn borgarafundur á laugardaginn

OPINN BORGARAFUNDUR - um stöðu þjóðarinnar - í Iðnó, laugardaginn 8.nóvember frá 13.00-14.30
 
Til hvers?
- Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.
 
- Á síðustu vikum hefur almennum borgurum hvergi gefist kostur á að tjá sig eða spyrja ráðamenn beinna spurninga.
 
- Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum og bankastjórum verður boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.
 
- Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.
 
- Til að leita spurninga og svara um hvað framtíðin ber í skauti sér.
 
Fyrirkomulag
Fundarstjóri verður Gunnar Sigurðsson, leikstjóri.
Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5-10 mín hver):

Lilja Mósesdóttir
hagfræðingur, Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Ingólfur H. Ingólfsson fjármálaráðgjafi og Halla Gunnarsdóttir blaðamaður

Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja spurninga. Svarendum eru gefnar tvær mínútur til þess að svara.
 
Hverjum stjórnmálaflokki verður boðið að hafa einn fulltrúa á sviði til að svara spurningum. Við boðum formenn eða varaformenn eða að þeir sendi sinn fulltrúa og hvetjum sem flesta þingmenn að mæta .

Fundurinn verður festur á myndband til sýninga á netmiðlum og fyrir sjónvarp.Settir verða upp hátalar bæði í forsal og fyrir utan Iðnó

Fundurinn verður tekinn upp af RUV og sendur út Þriðjudaginn 11. nóv kl. 21.00  á Rás 1 í þættinum Í heyranda hljóði sem er í umsjón Ævars Kjartansonar
 
Settur verður fundarritari og tekin saman ályktun í lok fundar ef þurfa þykir.
 
Takmarkaður sætafjöldi – sýnum stuðning með þátttöku – spyrjum og heimtum svör – látum í okkur heyra.
 
F.h. undirbúningshóps: Gunnar Sigurðsson leikstjóri (gus@mmedia.is - s: 897 7694) og Davíð A. Stefánsson bókmenntafræðingur (david@ljod.is - s: 864 7200).

Þeir sem vilja skrá sig á póstlista borgarafunda og taka þátt í undirbúningsstarfi geta skráð sig á borgarfundur@gmail.com

Nýbúið er að opna gagnlegan vef fyrir borgarafundina á vefsvæðinu: http://borgarafundur.org þar er hægt að m.a. skrá sig á póstlista, sjá myndskeið frá fyrsta fundinum og leggja inn hugmyndir í hugmyndabankann.

 


mbl.is „Það er enga vinnu að hafa“
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Sýnum samstöðu

Hvet alla sem ofbjóða þá valdníðslu og spillingu sem við höfum búið við og þurft að horfa upp á síðan þessi neyð brast á að mæta.

Ánægð að sjá að ræðumenn og konur eru úr röðum "þessa" almennings sem alltaf er verið að tala um en lítið hefur fengið tækifæri til að tjá sig. Ég ætla að reyna að komast á undirbúningsfund klukkan 12, fyrir næstu borgarafundi, sem mér fannst alveg stórkostlegt framtak og vil gjarnan leggja lið. Ég mun sennilega stökkva í gönguna um miðbik hennar, hef ekki haft tíma til að búa til fána eða skilti, nema í tölvunni minni á milli verkefna:) 

Ég er ánægð að sjá að allir eru að fylkja liði - þjóðin þarf að standa saman, við höfum sýnt í fortíðinni að við getum það. Sýnum í verki að við erum búin að fá nóg. Við höfum engu að tapa. Mótmælin byrja í dag klukkan 14 við Hlemm, gengið verður niður Laugaveg að Austurvelli. Á Austurvelli hefjast mótmælin klukkan 15 með stuttum og snörpum ræðum frá almenningi. 

Það eru nokkrir hópar í samfélaginu okkar sem hafa EKKI fengið mikla athygli og mig langar að minna á: atvinnuöryggi verktaka og réttur til bóta, öryrkjar sem búsettir eru erlendis, innflytjendur og ellilífeyrisþegar. 

Sá þessa fréttatilkynningu áðan frá Herði:

Frá 11. október kl. hefur hópur fólks staðið fyrir mótmælafundum á Austurvelli vegna ástandsins sem skapast hefur í þjóðfélaginu undir yfirskriftinni "Breiðfylking gegn ástandinu". Hópurinn, sem hefur það markmið að sameina þjóðina og stappa stáli í fólk, hefur fengið til liðs við sig ræðumenn sem víðast að úr þjóðfélaginu og hvatt félagssamtök til að standa saman og mæta á fundina.

Víða eru að myndast hópar sem heimsækja fundina og fulltrúar þeirra ávarpa fundargesti. Einn öflugasti og áhrifaríkasti hópurinn fram til þessa dags kallar sig “Nýja tíma” og hefur sýnt óvenju aðsópsmikla djörfung við að beina almenningi á fundinn á Austurvelli. Nýir tímar munu að þessu sinni safna fólki saman á Hlemmi klukkan 14.00 laugardaginn 1. nóvember og leiða göngu niður Laugaveginn og á fundinn á Austurvelli. Við fögnum því framtaki og styðjum þennan hóp heilshugar.

Á undan fundinum, meðan fólk safnast saman, leikur hljómsveitin KURR

Ræðumenn:
Pétur Tyrfingsson
Lárus Páll Birgisson

Ávörp flytja:
Óskar Ástþórsson, leikskólakennari
Díana Ósk, frá Foreldrahúsi
Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, eldri borgari og formaður Mæðrastyrksnefndar

Fundarastjóri: Hörður Torfason
 


mbl.is Efna til mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski gerist ég farfugl enn á ný

Miðjarðarhafið eða vestfirðir?Mér hefur tekist að lifa spart og náði að borga eina upp eina stóra skuld sem karlinn minn fyrrverandi skildi eftir handa mér fyrir nokkrum árum. Ég var að fara að skuldbreyta yfirdrættinum mínum þegar bankakreppan skall á, var komin með gott flæði verkefna og ákveðið jafnvægi í fjármálum. Vissi nákvæmlega hvað ég gat leyft mér en nú er svo komið að það eina sem ég get skorið niður er maturinn - því hafði nánast skorið alla aðra neyslu niður. Ekki gengur að losa sig við sparibílinn minn því þó lánin séu ekki ýkja há, þá hefur það hækkað um þriðjung. 

Ég var búin að taka ákvörðun um að flytja EKKI aftur frá landinu - hef alltaf fengið ákveðið óþol eftir að hafa búið hér í 3 ár. Var búin að ná því að vera hér í næstum því í 5 ár, sem er nýtt met hjá mér:)

Ég sé marga góða kosti við kreppuna og vona að fólk læri eitthvað af þessum hamförum. Ég mun ekki fara héðan nema ég sjái fram á að skapist óreiða í fjármálum mínum, vil ekki þurfa að lenda í fyrsta skipti á ævinni á vanskilaskrá. 

Þrjú á fjalliFinnst sárara en tárum tekur að hrægammar reyni nánast að sölsa undir sig allt sem tengist þessari kreppu. Mér finnst svo mikilvægt að við hættum að vera eiginhagsmunaseggir og þróum með okkur samkennd. Ég ætla því að nota yfirvofandi atvinnuleysi mitt til að sinna samfélagsmálum enn meir en ég hef gert og hvet alla sem lenda í þannig stöðu að hafa ekki vinnu að leggja sitt af mörkunum í endursköpun þessa samfélags, þá á ég ekki við að fólk fari að moka skurði, heldur miklu frekar að fólk nýti sér sköpunarkraft sinn til að byrja að móta í huga sér, hvernig samfélagi það vill búa við. 

Það er svo margt sem gleymdist eða trosnaði í góðærinu. Fjölskyldumynd sú sem ég ólst upp við er nánast ekki til. Það er búið að stofnanavæða börnin okkar og eldri kynslóðina. Fólk hefur unnið allt of mikið og oft án þess að þurfa - vinna til að fá meira af dóti sem endar í Sorpu. 

Ég myndi gjarnan vilja taka þátt í að búa hér til betra samfélag, ég veit bara ekki alveg um neinn vettvang - hef drifið mig á öll möguleg málþing og hugsprettur og borgarafundi og finn að þessu meira sem ég skoða samfélagið hér að aldrei hefur verið meiri þörf á að hreinlega byrja upp á nýtt. Henda út gatslitinni stjórnarfarsmyndinni og valdskiptingunni. 

Nú er verið að skipuleggja fleiri borgarafundi, mótmæli og málþing. Við getum öll tekið þátt. Samfélagið er okkar, samfélagið er við, hvernig viljum við hafa það. 

Ég verð að viðurkenna að mig langar ekki að fara frá eyjunni minni, enda er svo margt við hana sem ég elska, svo margt fólk sem mér þykir undurvænt um og náttúran hefur alltaf togað í mig. Ég vona að ég neyðist ekki til að verða efnahagslegur flóttamaður í framandi landi:)


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagshrun og bananafáni

Og hvað gera ráðamenn? Þeir hækka stýrivexti og enginn gerir neitt nema að malda í móinn, tuð tuð tuð, bíb, bíb og bíb - samfélagshrunið er hafið og hvað skal gera? Taka þessu eins og hverju öðru óláni eða sýna með aðgerðum að við látum þetta ekki viðgangast. Og hvernig gerir maður það? Ég veit það ekki, ég fékk smá útrás við að búa til nýjan þjóðfána með svarthöfðaleg seðlabankaaugu og auðvitað banana. Við búum í nánast fasísku bananalýðveldi og þessu fyrr sem við horfumst í augu við það, þessu fyrr getum við gert eitthvað í því ...

 

Bananalýðveldi

 


mbl.is Uppsagnir hjá Klæðningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bananalýðveldi

Ef tengslin eru svona mikil, þá krefst ég að það verði fengin hingað erlendir aðilar til að rannsaka þessi mál, eigi síðar en núna. Það góða við þetta mikla fall er að spillingin er núna algerlega fyrir opnum tjöldum og spurningin er bara þessi: ætlum við, kæra þjóð, að láta ríkisstjórnina og allt sem undir hana fellur að komast upp með þetta?

Skrifið endilega nafnið ykkar undir á kjosa.is, þar sem farið er fram á að efnt verði til kosninga. Krafan er að það verði farið að undirbúa kosningar, eins og allir vita þá gerist slíkt aldrei á einum degi en við viljum að það ferli fari í gang eigi síðar en núna, annars verður ekkert uppgjör kæra þjóð, aðeins hvítþvottur eins og þessi frétt ber með sér.

Mæli svo með því að við sameinumst undir fána bananalýðveldisins - því flagg nýrra tíma hefur farið fyrir brjóstið á mörgum. Var að máta friðarflaggið við hugarástand mitt og það bara passar ekki. Inni í mér kraumar reiði sem fær aðeins sjatnað ef skipt verður um skipstjóra á þessu mölbrotna skipi sem siglir stjórnlaust út í ballarhaf í ægilegu fárviðri. Það er stjórnarkreppa, stjórnarliðar tala sitt í hvora átt, enginn virðist sammála, þó þeir séu í sama flokki, um málefni er varða við landráð. Ef það er ekki stjórnarkreppa, þá veit ég ekki hvað slíkt kreppa er.

 

bananalydveldi_707953.jpg

 


mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinuð stöndum við!

poster-final.png
 
Allir að mæta í mótmælagöngu á laugardaginn klukkan 14:00 sem mun enda á Austurvelli með hitafundi og snörpum ræðum. Ekki gera ekki neitt kæra þjóð, sýnum samstöðu. Enginn rígur á milli skipuleggjenda mótmæla lengur: allir að vinna saman og það eina sem þarf til að þetta verði fullkomið að þjóðin sýni þann kraft sem í henni býr og finna farveg fyrir reiði sína með því að krefjast þess sem lýðræði á að standa fyrir: kjósa nýja stjórn því þessi sem er í vinnu fyrir okkur er handónýt.
 
Úr frétt á visir.is

"Sigurlaug segir að gangan á laugardaginn verði litrík [...]. Að vinnunni komi ýmsir hönnuðir og fleiri góðir aðilar. „Unga fólkið sem mun erfa þetta land er að rísa ... upp. Þetta er fólkið sem hefur verið með litlu fyrirtækin og þekkir allar leiðir til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Ég hvet þetta fólk til þess að flytja ekki af landinu heldur taka þátt í uppbyggingunni," segir Sigurlaug."

Nýir tímar hafa opnað heimasíðu, nyirtimar.com

 

mbl.is Formaco segir upp 70
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má kalla þetta hryðjuverk

Nú hafa nokkrir menn í nafni lands og þjóðar tekið það að sér að fremja hryðjuverk í lífi þúsunda fjölskyldna. Skilgreining á hryðjuverkum á við hér, við erum efnahagslegir hryðjuverkamenn í augum alheimsins. Við höfum skapað glundurroða, við höfum skapað ótta og rústað svo miklu að það virðist nánast hjákátleg að reyna að þvo þetta af okkur með slagorðinu "we are not terrorists".

Var það ekki meirihluti stjórnarliðsins og forseti landsins, fjölmiðlar og stór hluti almennings sem hóf þetta fólk upp til guðatölu og dansaði sem aldrei fyrr í kringum hugtök eins og að allir ættu nú að bjarga sér sjálfir. Við vorum komin góða leið með að einkavinavæða heilbrigðis og skólakerfið.

Ég hef oft skammast mín fyrir framgöngu þjóðar minnar, en aldrei eins og núna, Við ættum að biðja þær þjóðir sem blæða undan óráðsíunni vogunarsjóðslandsins opinberlega afsökunar.

Hér eru enn allir við völd, enn eru vinir og vandamenn ráðnir í stöður með himinhá laun. Ég veit svei mér þá ekki hvað er hægt að gera hér, nema krefjast þess að þessi stjórn verði leyst frá störfum nú þegar. Ef einhver ætlar að reyna að sannfæra mig um að það sé ekki stjórnmálakreppa hér þá getur sá hinn sami gleymt því, hef aldrei séð aðra eins kreppu í hinu pólitíska landslagi. 


mbl.is Starfsmenn Sterling reiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða rugl er þetta?

Var að hlusta á erindi í gærkvöld þar sem kom einmitt fram að hækkun stýrivaxta á svona tímum sé eins og olía á eld. Það var hagfræðingur sem flutti þetta erindi sem hefur skoðað hvernig IMF hefur krafist hækkunar stýrivaxta og þann eyðileggingarmátt sem það hefur haft í kjölfarið.

Ég er alveg búin að fá nóg af því hvernig stjórnvöld og seðlabanki stýra þessu landi í endalausar ógöngur ...

Hér er slóð í myndband sem var tekið upp af mbl.is með erindinu hennar Lilju hagfræðings frá borgarfundinum í gær... hvet alla til að horfa á þetta.


mbl.is Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalla eftir upplýsingum

Maður heyrir misjafnar sögur um hvort það sé þjóðinni til heilla eða bölvunar að taka upp Evru og ganga í  ESB. Ég kalla eftir haldbærum rökum á mannamáli með eða á móti.

Síðan finnst mér rétt að við göngum upplýst og óhrædd að þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.


mbl.is Þorgerður: Taka þarf afstöðu til ESB og evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplyfting

Ég vil byrja á að þakka þeim innilega fyrir sem stóðu að þessum fundi. Það er mikil vinna að skipuleggja svona og mér finnst eitthvað fallegt og gott við sjálfsprottna hluti sem sýna að það er enn lífsmark með lýðræðisvitund þjóðarinnar.

Mér fannst erindin öll annað hvort góð eða afar upplýsandi og hlakka til þegar þau verða sett inn á YouTube svo aðrir hafi tök á að heyra þau. Það munu verða fleiri svona fundir var okkur tjáð og það er frábært. 

Það ætti að vera þeim eina ráðamanni sem var eitthvað púað á ágætis áminning að fólk er ekki sátt við vinnubrögð hans - það sem fór fyrir brjóstið á fólki var að hann byrjaði á að varpa ábyrgðinni á bankahrunið erlendis. Fólk vill að einhver hafi dug og hugrekki til að viðurkenna mistök sín, það bera allir stjórnaliðar ábyrgð, rétt eins og við öll, því ríkið er jú við. Fólk ber vitaskuld mismikla ábyrgð og þarf þar að leiðandi að axla hana. Það að Illugi vildi ekki gangast við neinni ábyrgð hleypti illu blóði í fólk og ég skil það mæta vel. Síðan virti hann ekki þann tíma sem allir fengu til að tjá sig og það voru mistök hjá honum. 

Ég hef ekkert út á þennan fund að setja, fannst mikið af áhugaverðum punktum hafa komið fram og gott að heyra almenning tjá sig og tala saman á fundi sem slíkum. Mér fannst það hugrekki hjá fólki að tala og mér fannst það líka hugrekki hjá stjórnarliðum að láta sjá sig og bjóða fólki að spyrja. Næst finnst mér þó að þeir sem stjórna þessum þjóðarbúskap ættu að láta sig hafa það að mæta okkur - þeir eru jú að vinna í umboði okkar og eiga að svara kalli okkar og koma niður úr fílabeinsturnum sínum.

Það voru EKKI gerð hróp og köll að þeim 10 alþingismönnum sem voru þarna, aðeins að Illuga sem passaði sig ekki á að við vildum fá að heyra auðmýkt og vott að iðrun fyrir óráðsíuna.

Ég fór heim með von í hjarta og löngun til að gera meira, vona að það verði skapaðir óflokksbundnir fundir, þar sem fólk getur unnið að því hvernig við viljum að hið nýja Ísland verði. En fyrst elsku þjóðin mín verðum við að skoða hvaða þátt við áttum í fallinu, því samfélagsvitund okkar virðist vera jafn fúin og inniviðir samfélagsins. Við erum samfélagið og við getum breytt því með því að leggja eitthvað af mörkunum.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband