Leita í fréttum mbl.is

Leikhús fáránleikans

Á hverjum degi berast fregnir af viðburðum úr stjórnsýslu landsins sem minna meira á lélegan farsa og ég er farin að halda að ég sé stödd í leikhúsinu sem lýst var svo vel í Meistaranum og Margarítu.
mbl.is 95 milljóna gjaldeyristekjur af hval
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þöggun um mótmæli við SÍ

dscf4754.jpgÉg hef ekki séð neitt um mótmælin við Seðlabanka Íslands í fjölmiðlum landsins í dag nema á RÚV, þar var að finna áhugaverða nýja taktík hjá lögreglunni. En hún hefur bannað hávaðamótmæli og fólk getur átt von á að verða handtekið ef það stundar búsáhaldamótmæli.

Gott væri að vita nákvæmlega hvað má og hvað má ekki varðandi mótmæli. Ég hef heyrt að ekki þurfi að fá leyfi til að mótmæla nema maður trufli umferð og þurfi aðstoð lögreglu og borgaryfirvalda. Ég hef heyrt að betra sé að láta lögreglu vita af mótmælum en það sé ekki nauðsynlegt. Ég hef ekki séð nein lög um það að bannað sé að vera með hávaðamótmæli. Gott væri að fá það svart á hvítu. Annars finnst mér stórkostlega skringilegt að starfi fólk fyrir almenn fyrirtæki og sé látið víkja að þá séu öryggisverðir látnir fylgja starfsfólki út - lokað sé fyrir fyrirtækjasíma sem og tölvupóst umsvifalaust en við losnum ekki við tröllið í himnabjörgum og ekki nóg með það þá fær hann sérstaka lögregluvernd sem og fær að nota bíl skattgreiðenda og starfsmenn til að fara í feluleik við mótmælendur og blaðasnápa.

Staðreyndin er þessi: Sá sem ekki má nefna hefur og er enn að valda þjóðinni mikinn skaða. Þjóðin er búin að segja honum upp. Við viljum að hann fari í frí og erum meira að segja til í að borga honum pening til að losna við hann, reyndar skrifaði hann sjálfur lögin sem tryggja honum og hans yfirstéttalífsstíl um aldur og ævi.  

Hér er fréttin af RÚV. Myndirnar tók ég í gær og fyrradag af hættulegu mótmælendunum sem þurfa gæslu um 30 lögreglumanna með táragasbrúsa og kylfur sér við hönd.

"Lögreglan bannar læti við mótmæli


Um 30 manns eru við Seðlabanka Íslands og krefjast þess að Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, seðlabankastjórar, segi af sér. Þetta er þriðji morgunninn í röð sem mótmælt er við bankann. Fólkið ber á potta og pönnur sem fyrr til að skapa sem mest læti. Lögreglan hefur dreift blaði til mótmælenda þar sem fram kemur að bannað sé að vera með læti á almannafæri og að sækja þurfi um leyfi til þess.

SeðlabankamótmæliHörður Torfason, talsmaður Radda fólksins, sagði í samtali við fréttastofu að mótmælunum verði haldið áfram.

Sturla Jónsson, vöruflutningabílstjóri sem hefur verið áberandi við mótmæli síðustu mánaða, segist búast við að verða handtekinn."

 

 


Fullkomin tímasetning

340x-15Það er mikið fagnaðarefni að fá friðarhöfðingjann Dalai Lama til okkar á tímum sem þessum - Nú þegar réttlát reiðin kraumar, biturðin og vonleysið er hverjum manni gott að horfa á lífshlaup og hlusta á visku Dalai Lama.

Ég las ævisöguna hans fyrir margt löngu og hreifst að þeirri lífssýn hans að þó hörmungar þær sem kínversk yfirvöld hafa lagt á tíbesku þjóðina væru svo miklar að það séu vart til orð til að lýsa þeim, var hvergi að sjá biturð eða reiði gagnvart kínversku þjóðinni - Dalai Lama hefur þá gæfu að bera að hlægja dátt að vandamálunum og takast síðan á við þau, fordómalaust. 

Það er merkilegt til þess að hugsa að maður sem hefur fengið slík lífsins próf sem hann frá unga aldri hafi alltaf getað séð heildarmyndina og hvatt til friðsamlegrar lausnar á þeim hörmungum sem þjóðin hans hefur þurft að ganga í gegnum. 

Nú er staðan sú að Tíbetar eru minnihlutaþjóð í sínu eigin landi og enn horfir heimsbyggðin á og gerir ekki neitt. Hvet ykkur til að kynnast þeim bakgrunni sem skóp Dalai Lama - er með slatta af slóðum í heimildarmyndir um ástandið í Tíbet í dag. Ég vona að heimsókn hans til Íslands muni einnig vekja fólk til umhugsunar um þá áþján sem Tíbetar búa við í dag og hvetji okkar ráðamenn til að setja kröfur á kínversk yfirvöld um að í það minnsta hefja alvöru samræður við Dalai Lama um lausn á þeim kort af Tíbetgríðarlega mikla vanda sem Tíbet stendur frammi fyrir. Menningarlegt þjóðarmorð blasir við.

Tökum vel á móti Dalai Lama en fyrst og fremst opnum huga og hjarta fyrir þeirri visku sem hann býr yfir. Það er gott að fá leiðsögn og von í öllu þessu myrkri sem hefur lagst yfir þjóðina okkar eins og mara.

Þeir sem hafa áhuga á að vera virkir í starfi fyrir Tíbet ættu endilega að skrá sig í félagið Vinir Tíbets sem var stofnað í apríl í fyrra til að vekja athygli á ástandinu í Tíbet og treysta böndin á milli þjóðana.

Sendið mér bara línu ef áhugi er á að ganga í félagið: birgitta@tibet.is - tek það fram að Vinir Tíbets standa ekki að komu Dalai Lama þannig að ég get ekki reddað einu eða neinu varðandi hitting eða neitt slíkt:)


mbl.is Dalai Lama kemur til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggið virkar

Áríðandi leiðrétting: fékk símtal frá Bónusvídeó og fyrirtækið er ekki farið í gjaldþrot. Mun birta hér bréf frá þeim þegar ég fæ það. En maðurinn var almennilegur og baðst innilegrar afsökunar á mínum óförum og virði ég það. Ég mun því leiðrétta þessa færslu í takt við innihald bréfsins. Vinsamlegast ekki senda haturspóst á fyrirtækið. Ég er allavega ánægð með að þessi bloggfærsla var til þess að fyrirtækið er fúst til að lagfæra vinnubrögð sín í framtíðinni og slíkt ber að virða og fagna. 

Hér er bréfið: ég ætla ekki að ritskoða færsluna mína en strika yfir rangfærslur. Ég er sátt að máttur neytanda er að aukast og að það virki að blogga ef maður lendir í vandræðum. Ég hefði ekki skrifað þessa færslu ef ég hefði ekki reynt allt sem ég gat til að hafa upp á forsvarsmönnum fyrirtækisins. Segið svo að bloggið virki ekki:) 

Sæl Birgitta,
 
Mér þykir mjög leitt að myndin hafi ekki borist til þín á réttum tíma og biðst innilegrar afsökunar á því.  Að þú hafir ekki náð til okkar er einnig mjög slæmt en við erum búnir að vera í vandræðum með símakerfið í nokkra daga.  Við erum þjónustufyrirtæki og viljum standa okkur 100% enda þrífumst við eingöngu á ánægðum viðskiptavinum.  Takk fyrir hressilega ábendingu og ég get lofað þér því að við  tökum alla punktana þína til greina strax...endilega láttu mig vita beint á bjarki@bonusvideo.is ef ég get gert eitthvað fyrir þig í framtíðinni.
 
Enn og aftur, takk fyrir þína gagnrýni.  Hún verður til þess að við lögum okkar mál strax.
 
Virðingarfyllst,
 
Bjarki  Pétursson
 
 
P.s. myndin er á leiðinni til þín.

 ----------------------------------

Gjaldþrota Bónusvídeó rænir fólk á vef sínum

Siðleysið virðist vera algerlega takmarkalaust hérlendis. Ég var að leita að DVD mynd fyrir yngri son minn sem ég hafði lofað honum í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Fann loks myndina hérlendis á vefnum bonusvideo.is sem heyrir undir Bónusvídeó ehf. Þar keypti ég myndina í góðri trú fyrir rúmlega viku. Skildi ekki af hverju myndin skilaði sér ekki á tilgreindum tíma og hóf því að hringja í símanúmer sem gefið var upp á vefnum. Það var alltaf á tali og prófaði ég því að hringja beint á skrifstofu fyrirtækisins. Þar var líka á tali. Prófaði ég því að senda tölvupóst en fékk engin svör. Þá prófaði ég að hringja í allar leigurnar sem eru í símaskránni og heyra undir Bónusvídeó. Alls staðar á tali, uns ég loks næ sambandi við eina af þessum leigum.

Spyr viðmælanda minn hvort að það geti verið að Bónusvídeó sé farið í þrot. Maðurinn sagðist halda það, því búið sé að loka fyrir símanúmer þeirra. Ég fór svo inn á vefinn þeirra áðan og viti menn enn hægt að kaupa sér myndir eða leigja þrátt fyrir að fyrirtækið sé augljóslega í þroti. Þetta er siðlaust með öllu. Ég hafði samband við einn af bönkunum mínum og vildi fá að vita hvort að hægt væri að bakfæra þessa greiðslu en það er ekki hægt. Þá bað ég starfsmanninn um að vinsamlegast að láta Valitor vita af þessu svo aðrir lendi ekki í sama óláni og ég. Auðvitað á að loka fyrir þetta drasl samstundis. Ég tapaði ekki miklum peningum en mér finnst þetta bara svo ótrúlega grófur þjófnaður.

Svo labbar þetta lið um og strýkur sínu frjálsa höfði, keyrir um að Game Over bílunum sínum og hlær að okkur fábjánunum sem þurfum að borga allar þeirra skuldir á meðan þeir þjóðnýta okkur á allan mögulegan hátt. Kannski ætti ég að skreppa niðrí 1011 og ná mér í mynd þar á sama verði og ég keypti þessa á sem ég mun aldrei fá og sjá hvort að ég verði ákærð fyrir þjófnað.

1011 og Bónusvídeó er sama fyrirtækið að nokkrum kennitölum aðskildum.

En sem sagt í guðanna bænum ekki versla við þetta fyrirtæki. Það mun sennilega láta sig gossa og sleppa því að borga starfsfólkinu sínu eins og þeir gerði með BT.

 


mbl.is Ekkert fellur á skattgreiðendur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuljóð: úr byltingabálki

Á föstudagsmorgunn fór ég í stutt viðtal hjá Morgunvaktinni og spjallaði aðeins um stjórnmál og skáldskap. Þar viðurkenndi ég að ég hefði alltaf verið frekar hallærislegt skáld - því ég hef alltaf haft þörf á að skrifa pólitísk skotin ljóð:)

Ég hef verið að skrifa heilmikinn ljóðabálk sem heitir einfaldlega Kreppuljóð og hef haldið þeim sið að skrifa um tilveruna þegar hún er að rótast upp í nútímanum. Var orðin hundleið á að skrifa um fallið - gat loks skrifað um byltinguna okkar og ákvað korter fyrir viðtal að skrifa ljóð um byltinguna sem ég deili hér með ykkur.

byltingin

pottar og pönnur
lamin
í taktfastri reiði
undiraldan svo þung
að ekkert fær hana stoppað

skríllinn umbreyttist í hetjur
felldi vanhæfa ríkisstjórn

þúsundir streymdu út
óttaþögnin rofin

enda sverfur hungrið að
hungur eftir réttlæti
heiðarleika
von

og vonin vann
þegar þeir stigu niður úr hásætum
hroka og yfirgangs

og réttlætið mun sigra
stjórnsýslan skal verða spúluð
við erum ekki þögnuð
við erum rétt að vakna

flokkaveldið fellur
höggvum það fúatré spillingar niður
í herðar
með sannleika
með heiðarleika

við erum rétt að vakna
almenningur
ég og þú
við
verðum stórfljót
breytinga
á siðspilltu sjálfstökukerfi

við eigum kerfið
við erum þjóðin


Hvernig IMF/AGS rústuðu Jamaíka

Var að horfa á afar athyglisverða heimildarmynd um hvernig IMF/AGS hreinlega rústaði bændastéttinni sem og öðrum leiðum til sjálfbærni hjá Jamaíka. Það er margt hægt að læra hvaða víti ber að varast. Það er oft samtrygging ASG og alþjóðabankans sem og reglna um innflutning og útflutning sem gæti einnig farið illa með okkur, því við erum svo veik fyrir rétt eins og ástandið var á þessari eyju sem oft er kennd við paradís.

Ég held að almenningur geri sér almennt ekki grein fyrir þeim hörmungum sem þessi stofnun hefur kallað yfir þjóðir með sínum skilyrtu lánum en við erum með sanni að upplifa upphafið af því ef ekki verður samið af fagmennsku við þessa hörmulegu stofnun. 

Mér finnst reyndar að það ætti umsvifalaust að frelsa þróunarríki heims undan því oki að þurfa að borga himinháa vexti af okurlánum því í raun hafa þessi lönd aldrei öðlast frelsi. Við vorum eins og þessi lönd - land sem var fórnarlamb heimsveldastefnu nokkurra landa og vorum óvenju heppin að fá Marshall aðstoð sem gaf okkur ákveðið forskot stuttu eftir að við öðluðumst sjálfstæði. Þessi lönd voru þrælar nýlenduherra um langa hríð og það er skammarlegt hvernig heimurinn heldur áfram að blóðmjólka þau þegar við ættum ef eitthvað er að gefa þeim sömu tækifæri og til dæmis við fengum til að taka okkar fyrstu skref til frelsis. 

Life and debt - Globalization & Jamaica 
Smellið á googlevideo takkann lengst til hægri til að sjá myndina í fullri stærð

 


mbl.is Alþjóðabankinn og AGS úreltir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun til mbl.is

Eruð þið til í að nota þennan fjölmiðil sem er tæknilega í eigu þjóðarinnar sem fréttamiðil en ekki áróðursvef fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ég skora líka á fjölmiðla landsins að taka viðtöl við til dæmis stjórnmálafræðinga fremur en fólk eins og Jón Baldvin sem mun alltaf sem álitsgjafi vera hlutdrægur og því ekki mikið mark á honum takandi. 

Einbeitum okkur að því að veita þessari nýju tímabundnu ríkisstjórn stíft aðhald fremur en að reyna að sverta mannorð þeirra sem ætla að taka að sér þetta erfiða verkefni.  Það er svo mikið í húfi og engum hagur að því að þau stígi feilspor nema ef til vill sjálftökuflokknum.


mbl.is „Jóhanna vinnusöm en þröngsýn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve margir lögregluþjónar brutu lög?

Stundum vantar í umræðuna að margir lögregluþjónar, sér í lagi úr hinni svokölluðu óeirðarsveit brutu lög og fóru offorsi gegn mótmælendum. Þeirra ofbeldi var fyrst og fremst kveikjan af því að reiðialda braust út, því það er mikið óréttlæti að vita til þess sem brutu í það minnsta sínar eigin verklagsreglur munu aldrei þurfa að sæta ábyrgð.

Þetta fólk eyðileggur það traust sem almenningur ber til lögreglu og eyðileggur fyrir félögum sínum sem starfa við löggæslu landsins. Rétt eins og almenningur (mótmælendur) þarf að sæta ábyrgð stundum fyrir það eitt að vera á staðnum með líkamstjóni, finnst mér að þeir lögreglumenn sem höguðu sér langt fyrir utan þann ramma sem þeim ber og ollu fólki andlegu og líkamlegu tjóni án ástæðu eigi að sæta ábyrgð. Því kalla ég eftir tafarlausri rannsókn á þessu frá alþjóðasamtökum. Þá væri nú maklegt ef blaðamannafélagið fordæmi þá aðför sem greinileg var að ljósmyndurum og upptökufólki sem voru á staðnum. 

Tek það fram að ég er ekki fylgjandi ofbeldi í neinni mynd - hvort heldur hjá lögreglu eða mótmælendum. Það voru mistök að senda óeirðarsveitina á staðin - fólkið sem vinnur við þau störf virðast hafa fengið þjálfun sem á ekkert erinda á friðsamleg hávaðamótmæli.

Svo vil ég minna á að þeir sem sækja um vinnu við löggæslu ættu að vera meðvitaðir um það álag sem því getur fylgt. 

Ég hef rekist á minni lífsleið á marga lögregluþjóna sem eru vel gerðar manneskjur, rétt eins og í öllum starfsstéttum. En það væri nú skynsamlegt af yfirmönnum lögreglunnar að láta sitt fólk sem fór yfir strikið sæta ábyrgð. Nóg er til af ljósmyndum og vitnum af því.


mbl.is Sátt um hávaðamótmæli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanþingsstjórn takk

mynd eftir Jóhann ÞröstÞjóðstjórn er ekki boðlegt í þessari stöðu - það er líka hæpið að þjóðin treysti þeim sem eru inni á þingi til að gera nauðsynlegar breytingar til að uppræta þá spillingu sem hefur fengið að grassera í skjóli þingsins. Utanþingsstjórn er í mínum huga eina raunhæfa lausnin.

Þjóðin fagnar í dag að nú loks sjáum við fram á að alvöru breytingar - en við munum ekki þagna nema kröfum okkur um upprætingu spillingar verði mætt og að aðstoð erlendra sérfræðinga verði nýtt. Þarf varla að taka það fram að Davíð ætti að fara að pakka og að mér finnst alveg nauðsynlegt að Jónas hjá FME hætti samstundis. Ég er ekki alveg sátt við að borga honum 20 milljónir fyrir vanhæfni sína.

Núna ætla ég að fara niðrí bæ og fagna með þjóðinni:) Mikið er ég ánægð með að í fyrsta skipti í sögu okkar hafa mótmæli haft raunveruleg áhrif. Takk allir sem hafa staðið vaktina.

Stel hérna einni af eðalmyndunum hans Jóhanns Þrastar sem hann hefur tekið á mótmælum undanfarið.


mbl.is Fundað um framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Morgunblaðið ríkisrekið?

Ég las það í leyniskýrslu sem DV birti að ríkið héldi lífinu í rekstri Morgunblaðsins. Samkvæmt þeirri skýrslu kemur fram að Árvakur skuldar 4,4 milljarða króna til Glitnis og Landsbanka. Þessir tveir bankar eru nú í eigu ríkisins. Merkilegt svona í ljósi sögunnar að það sé staðreynd, að sjálft frjálshyggjumálgagnið sé tæknilega séð: ríkisstyrkt.

Kannski væri bara best að við myndum hreinlega þjóðnýta þetta blað:)


mbl.is Laun lækka um 5% hjá Árvakri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undiralda samstöðu eflist

Það er mikið fundað um landið allt meðal almennings - vil minna fólk á að grasrótin er almenningur og vettvangur fyrir alla sem hafa áhuga á að breyta samfélaginu. Grasrótin er einmitt það sem orðið gefur til kynna - línulaga hreyfingar fólks, þar sem allir eiga að hafa sama vægi og þannig er það yfirleitt alltaf, þó með örfáum undantekningar tilfellum eins og vera ber í samfélagi manna:)

Ég hef ferðast um í grasrótinni undanfarna mánuði og verið svo lánsöm að finna og upplifa að allir eru nánast að hugsa það sama. Gagngerar breytingar á stjórnarskrá og kosningalöggjöf. Uppræting spillingar í stjórnsýslu, að hér verði komið á þrískiptingu valds, að hér fari fram alvöru rannsókn á hruninu með aðstoð erlendra sérfræðinga, að uppræta gerræði flokkaveldisins, að almenningur eigi þess kost að kjósa um málefni er varða alla þjóðina, að hér verði komið á neyðaraðgerðum til að vernda heimilin í landinu. 

Í gær var haldinn fundur þar sem öllum mögulegum grasrótarhreyfingum landsins var boðið að koma saman til að finna út hvort að það væru forsendur fyrir því að búa til afl sem væri einskonar bandalag allra þessa hreyfinga þar sem við gætum unnið að sameiginlegum markmiðum án þess þó að steypa okkur öllum saman. Það er nefnilega svo mikilvægt að öll sú vinna sem nú á sér stað í sértækum grasrótarhópum haldi áfram. 

Vegna þess að talsmenn hópanna eiga enn eftir að bera þessa tillögu undir sína félaga þá er ekki tímabært að segja hvaða fulltrúar mættu á fundinn og tóku þátt í að skrifa undir yfirlýsinguna - en ég get alveg haldið því fram fullum fetum að ég fór heim með mikla von um að hægt sé að hrinda þessum mikilvægum breytingum í framkvæmd því þarna voru manneskjur með mikla sameiginlega reynslu og yfirsýn sem höfðu allar hug á að vinna saman að því að endurreisa landið okkar. Fann að undiraldan var orðin af afli sem brátt mun ýta þjóðarskútunni upp á yfirborðið. Ef almenningur í grasrótinni með dyggri aðstoð fagfólks getur komið sér saman eins og er að gerast - þá eru okkur allir vegir færir og okkur mun takast að skapa hér samfélag þar sem sameiginlegur hagur þjóðarinnar er mikilvægasta verkefnið.

Það skal tekið fram að Raddir fólksins sendu ekki fulltrúa í gær enda hefur Hörður alltaf verið talsmaður þess að halda mótmælunum utan við alla pólitík. 


mbl.is Unnið að framboði grasrótarhreyfinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt framboð

 Ályktun fundar ýmissa grasrótarhreyfinga í dag

mynd eftir Jóhann Þröst

Á glæsilegum fundi talsmanna fjölmargra grasrótarhreyfinga um lýðræðisumbætur var samþykkt að tengja saman grasrótina og mynda samstöðu breiðfylkingar með það meginmarkmið að koma á nauðsynlegum breytingum og umbótum á íslensku samfélagi. Breytingum sem ekki verður
undan vikist að gera í kjölfar efnahagshruns þjóðarinnar, allt frá bráðaaðgerðum til varnar heimilum og atvinnulífi til endurreisnar lýðræðis á Íslandi.

Fundurinn samþykkti að vinna að framboði
grasrótarhreyfinga við næstu kosningar.

 


mbl.is Útilokum ekki breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styð þessar aðgerðir Harðar

Finnst þetta góðar tillögur og er hjartanlega sammála vil ekki ofbeldi - en ég vil heldur ekki að það ofbeldi sem lögreglan hefur komist upp með sé látið afskiptalaust - vil að það verði undireins gerð rannsókn á þessu af hlutlausum aðila. Eru ekki til einhver alþjóðamannréttindasamtök sem geta tekið það að sér?
mbl.is „Við viljum ekki ofbeldi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um tilgangsleysi allra hluta

mótmælendurEr fólk ekki farið að missa sjónar af því sem skiptir máli? Ég skil bara ekki tilganginn með þessum mótmælum - 99% þeirra sem mæta á önnur mótmæli eru þarna til að upplifa samstöðu og skapa þrýsting á stjórnvöld um að axla ábyrgð og taka poka sinn. Mér finnst alveg ógurlega kjánalegt að mótmæla öðrum mótmælendum enda alveg víst að nákvæmlega sama fólk myndi mæta á bæði fyrir utan kannski 1% sem eru á móti hver öðrum.

Einbeitum okkur að því að skipið er að sökkva og hættum að spá í hver er á hvaða þilfari. Við verðum að fá hér nýja stjórnarskrá, nýja kosningalöggjöf og neyðaraðgerðir fyrir almenning í landinu - höldum áfram að mótmæla því að það er ekkert verið að gera sem stuðlar að þjóðarhagsmunum. 

 


mbl.is Mótmæli gegn ofbeldi og eignaspjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.