Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það má kalla þetta hryðjuverk

Nú hafa nokkrir menn í nafni lands og þjóðar tekið það að sér að fremja hryðjuverk í lífi þúsunda fjölskyldna. Skilgreining á hryðjuverkum á við hér, við erum efnahagslegir hryðjuverkamenn í augum alheimsins. Við höfum skapað glundurroða, við höfum skapað ótta og rústað svo miklu að það virðist nánast hjákátleg að reyna að þvo þetta af okkur með slagorðinu "we are not terrorists".

Var það ekki meirihluti stjórnarliðsins og forseti landsins, fjölmiðlar og stór hluti almennings sem hóf þetta fólk upp til guðatölu og dansaði sem aldrei fyrr í kringum hugtök eins og að allir ættu nú að bjarga sér sjálfir. Við vorum komin góða leið með að einkavinavæða heilbrigðis og skólakerfið.

Ég hef oft skammast mín fyrir framgöngu þjóðar minnar, en aldrei eins og núna, Við ættum að biðja þær þjóðir sem blæða undan óráðsíunni vogunarsjóðslandsins opinberlega afsökunar.

Hér eru enn allir við völd, enn eru vinir og vandamenn ráðnir í stöður með himinhá laun. Ég veit svei mér þá ekki hvað er hægt að gera hér, nema krefjast þess að þessi stjórn verði leyst frá störfum nú þegar. Ef einhver ætlar að reyna að sannfæra mig um að það sé ekki stjórnmálakreppa hér þá getur sá hinn sami gleymt því, hef aldrei séð aðra eins kreppu í hinu pólitíska landslagi. 


mbl.is Starfsmenn Sterling reiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða rugl er þetta?

Var að hlusta á erindi í gærkvöld þar sem kom einmitt fram að hækkun stýrivaxta á svona tímum sé eins og olía á eld. Það var hagfræðingur sem flutti þetta erindi sem hefur skoðað hvernig IMF hefur krafist hækkunar stýrivaxta og þann eyðileggingarmátt sem það hefur haft í kjölfarið.

Ég er alveg búin að fá nóg af því hvernig stjórnvöld og seðlabanki stýra þessu landi í endalausar ógöngur ...

Hér er slóð í myndband sem var tekið upp af mbl.is með erindinu hennar Lilju hagfræðings frá borgarfundinum í gær... hvet alla til að horfa á þetta.


mbl.is Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalla eftir upplýsingum

Maður heyrir misjafnar sögur um hvort það sé þjóðinni til heilla eða bölvunar að taka upp Evru og ganga í  ESB. Ég kalla eftir haldbærum rökum á mannamáli með eða á móti.

Síðan finnst mér rétt að við göngum upplýst og óhrædd að þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.


mbl.is Þorgerður: Taka þarf afstöðu til ESB og evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplyfting

Ég vil byrja á að þakka þeim innilega fyrir sem stóðu að þessum fundi. Það er mikil vinna að skipuleggja svona og mér finnst eitthvað fallegt og gott við sjálfsprottna hluti sem sýna að það er enn lífsmark með lýðræðisvitund þjóðarinnar.

Mér fannst erindin öll annað hvort góð eða afar upplýsandi og hlakka til þegar þau verða sett inn á YouTube svo aðrir hafi tök á að heyra þau. Það munu verða fleiri svona fundir var okkur tjáð og það er frábært. 

Það ætti að vera þeim eina ráðamanni sem var eitthvað púað á ágætis áminning að fólk er ekki sátt við vinnubrögð hans - það sem fór fyrir brjóstið á fólki var að hann byrjaði á að varpa ábyrgðinni á bankahrunið erlendis. Fólk vill að einhver hafi dug og hugrekki til að viðurkenna mistök sín, það bera allir stjórnaliðar ábyrgð, rétt eins og við öll, því ríkið er jú við. Fólk ber vitaskuld mismikla ábyrgð og þarf þar að leiðandi að axla hana. Það að Illugi vildi ekki gangast við neinni ábyrgð hleypti illu blóði í fólk og ég skil það mæta vel. Síðan virti hann ekki þann tíma sem allir fengu til að tjá sig og það voru mistök hjá honum. 

Ég hef ekkert út á þennan fund að setja, fannst mikið af áhugaverðum punktum hafa komið fram og gott að heyra almenning tjá sig og tala saman á fundi sem slíkum. Mér fannst það hugrekki hjá fólki að tala og mér fannst það líka hugrekki hjá stjórnarliðum að láta sjá sig og bjóða fólki að spyrja. Næst finnst mér þó að þeir sem stjórna þessum þjóðarbúskap ættu að láta sig hafa það að mæta okkur - þeir eru jú að vinna í umboði okkar og eiga að svara kalli okkar og koma niður úr fílabeinsturnum sínum.

Það voru EKKI gerð hróp og köll að þeim 10 alþingismönnum sem voru þarna, aðeins að Illuga sem passaði sig ekki á að við vildum fá að heyra auðmýkt og vott að iðrun fyrir óráðsíuna.

Ég fór heim með von í hjarta og löngun til að gera meira, vona að það verði skapaðir óflokksbundnir fundir, þar sem fólk getur unnið að því hvernig við viljum að hið nýja Ísland verði. En fyrst elsku þjóðin mín verðum við að skoða hvaða þátt við áttum í fallinu, því samfélagsvitund okkar virðist vera jafn fúin og inniviðir samfélagsins. Við erum samfélagið og við getum breytt því með því að leggja eitthvað af mörkunum.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Argaþras vs innri friður

Ég er snillingur að koma mér í vandræði og hef fengið duldar hótanir um kærur á mig fyrir að birta bréfið hennar Arnþrúðar... því ætla ég að fjarlægja allt af blogginu er tengist henni og nenni ekki tala um þetta, vil frekar beina kröftum mínum í eitthvað uppbyggilegt og ætla að drífa mig á borgarafund klukkan 20 í IÐnó...

lifi byltingin innra með okkur...

svona til útskýringar þá er þetta ástæðan fyrir að ég lokaði fyrir færslurnar:

"Sæl Birgitta. Ég veit ekki um hvað málið snýst nema það sem kemur fram á bloggi þínu. En ég vil benda þér á að þú ert að brjóta lög um persónuvernd í tvígang. Fyrst með ummælum um að Arnþrúður hafi reynst mömmu þinni illa. Ef þú getur ekki sannað það fyrir dómi þá má búast við að það verði dæmt sem rógburður og þú krafin skaðabóta. Í öðru lagi með því að birta einkabréf á bloggi þínu.

mér sýnist þetta ekki viturlegt hjá þér og kalla yfir þig skaðabótaábyrgð og sennilega það að moggabloggið er í fullkomnum rétti að loka blogginu þínu ef Arnþrúður snýr sér til þeirra.

þú skalt leita til persónuverndar á personuvernd.is og spyrjast fyrir. fólkið þar gefur góð svör um hver réttarstaða þín er."

27. okt. 2008 17:42 
 
mér finnst mikilvægt að við einbeitum okkur að þeim brunarústum sem samfélag okkar er. ég ætla að athuga hvort að það sé eitthvað til í því að ég megi ekki birta tölvupóst áður en ég set bréfið aftur inn.. en svo er líka mikilvægt að muna að núna er tími þar sem öll okkar sem viljum breytt samfélag gerum allt sem við getum til að leggja drög á því, að eiga í argaþrasi við Arnþrúði eða aðra á opinberum vettvangi en bara eitthvað svo tilgangslaust. En það er vissulega skoðandi sem ég hef heyrt að láta athuga hvort rétt sé að hún tali illa um og fari með rógburð um fólk á útvarpstöð þeirri sem hún hefur umsjón yfir...ætli það sé ekki líka brot á persónuvernd samkvæmt því sem Salvör heldur fram?
 
Gaman væri ef einhver lögfróður gæti upplýst mig um þetta....
 
með björtum kveðjum 
birgitta
 

 


Ávarp Guðmundar Beck

Ég fékk þessa frábæru ræðu frá honum Guðmundi Beck sem hann flutti á Akureyri á mótmælafundi sem þar var... hvet ykkur til að lesa hana, því hún setur hlutina í ágætt samhengi.

Svo vil ég bara þakka fyrir allan stuðninginn sem ég hef fengið í dag og vil bara segja að ég vil engu fólki neitt ill og sendi sumum bara hlýja strauma, sér í lagi toppunum í samfélaginu og einni konu.

Og svo vil ég líka segja það að ég þrái ekkert frekar en samstöðu meðal manna og held að það sé alveg möguleiki á að okkar yndislega mótmælafólk sé að komast að jákvæðri niðurstöðu fyrir almenning eins og mig. Annars þá langar mig helst að rækta fúlegg og fá mér heykvísl en fattaði svo að við erum öll ábyrg, hvað er samfélagið annað en við. Gerum eitthvað uppbyggilegt, búum til meðal úr þessu eitraða krepputíma og það mikilvægasta af öllu: við verðum að rækta með okkur samfélagsvitund, hún er í molum hjá okkur og ef við ræktum og þroskum hana, þá eigum við von:)     En hér er ræðan hans Guðmundar birt með leyfi hans:

   Ágæta samkoma!

  Ég finn mig knúinn til að ávarpa ykkur hér í dag. Við erum hér saman komin á alvarlegum tímamótum í sögu ungrar þjóðar. Á aðeins 17 árum höfum við lifað nýja Sturlungaöld þar sem misvitrir valdagráðugir menn hafa misbeitt valdi sínu og sóað auðlindum þjóðarinnar svo horfir við örbirgð komandi kynslóða ef ekki verður spyrnt við fótum.
   Gamalt máltæki segir að oft ratist kjöftugum satt á munn og svo hefi ég mátt því miður reyna síðan ríkisstjórn Íslands og 44 alþingismenn samkvæmt fyrirmælum frá Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni gáfu út lög um hryðjuverkin á Austurlandi, Kárahnjúkavirkjun og álfabrikku Alcoa. Meira en 200 milljörðum af erlendu fé eða um 2 milljónum á hvert heimili var veitt inn í íslenzkt efnahagslíf og helmingurinn af því með ríkisábyrgð. Þetta reyndist hinum sprenglærðu fjárglæframönnum í höfuðborginni nægur eldsmatur til að kynda undir falsbréfasölunni og gefa út ávísanir á auðlindir Íslands út þessa öld. Síðan fengu þeir í hendur þjóðbankana og sjóði atvinnuveganna til að fullkomna áramótabrennu frjálshyggjukapítalistmans.
   Ég sagði strax að þetta væru hryðjuverk gegn íslenzku samfélagi þar sem öllu er menn hafa verðið að reyna að byggja upp frá upphafi sjálfstæðisbaráttu var kastað í eldinn og Kárhnjúkahryðjuverkin yrðu myllusteinn um hálsinn á komandi kynslóðum. Það var einnig sárt að verða þess áskynja að ekkert nema sulturinn virtist geta kennt þjóðinni að velta af sér þessu oki og komast til raunveruleikans á ný.
   Þeir sem vöruðu við afleiðingum hryðjuverkanna, græðgisvæðingunni, sóun auðlinda og viðskiptahalla voru kallaðir öllum illum nöfnum s.s. óvinir framfara, sérvitringar, talibanar, letingjar og sakaðir um að ætla að færa þjóðina aftur í torfkofana þar sem hún drægi fram lífið á fjallagrösum.
   En hvar stöndum við nú? Ég sagði við upphaf Kárahnjúkahryðjuverkanna að verið  væri að færa íslenzka þjóð 70 ár aftur í tímann. Ég sé ekki betur en það sé að rætast með því að næstu kynslóðir sitja hér uppi með skuldahalann af óráðsíunni um ókomin ár.
   Og hver eru ráðin sem brennuvargarnir gefa, t.d. Jón Hannibalsson og Halldór Ásgrímsson? Takið eftir því góðir tilheyrendur! Það eru sömu úrræði og eftir Sturlungaöldina fyrri, að koma íslenzkri þjóð undir erlent vald og að halda áfram skuldasöfnuninni og auðlindasóuninni. Þeir ætla að koma þjóðinni aftur undir erlent vald sem kostaði okkur fyrr, meira en sex alda áþján, svo þeir sjálfir geti hreiðrað um sig sem embættismenn þess sama valds og haldið þannig áfram að reyra ykkur í fjötra skulda og niðurlægingar.
   Hlustið ekki á þessa menn sem leitt hafa þjóðina í verstu ógöngur af mannavöldum. Vonandi eruð þið að átta ykkur á að það var ekki verið að nýta auðlindir landsins í okkar þágu. Það var verið að sóa auðlindum og spilla landinu í þágu erlendra hergagnaframleiðenda og fámennrar valdastéttar falsbréfasalanna. Það var gert með valdníðslu, lögbrotum, mútum og mannfórnum. Það er ekki auðlindanýting að spilla fallvötnum og fiskimiðum og búa til 60 ferkm. leirflag á best gróna hálendissvæði Íslands með tilheyrandi loftmengun frá lóni og fabrikku. Það er ekki auðlindanýting að gefa hergagnaframleiðendum 20% orkunnar úr borholum háhitasvæðanna meðan mestur hlutinn rýkur út í andrúmsloftið með tilheyrandi loftmengun.
   Nú rísum við upp og segjum hingað og ekki lengra. Það er þegar búið að gefa Gullfoss og Grímsey. Látum ekki þá sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum stjórna lengur. Líf okkar í nútíð og framtíð byggir á auðlindum fiskimiðanna og gróðurmoldarinnar ásamt þeirri lífsorku sem við fáum frá fegurð og hrikaleik landsins, ógnum þess og unaðsemdum. Þessum auðlindum verðum við að ráða sjálf ef við viljum skapa okkur vænlega framtíð í þessu landi. Hrindum af okkur oki þeirra manna sem vilja kasta frá okkur auðlindum landsins og sjálfstæði þjóðarinnar. Okkur ber að skila þeim til næstu kynslóðar svo hún geti fætt sig og klætt í þessu landi. Gleymið ekki spilltum verkalýðsleiðtogum sem hafa hrópað hæst á meiri auðlindasóun og lagt blessun sína yfir þrælahaldið og mannfórnirnar við Kárahnjúka í þágu auðvaldsins og heimta nú sem aldrei fyrr afsal sjálfstæðis þjóðarinnar og forræðis yfir auðlindunum.
   Tökum höndum saman, ryðjum burt öskuhrúgunni og bykkjum upp réttlátt þjóðfélag sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda, samhjálp og jöfnuði. Látum gullglýjuna aldrei aftur teyma okkur út í foraðið. Látum aldrei af höndum forræði yfir auðlindum landsins. Okkur ber að skila þeim sem minnst spilltum til næstu kynslóða sem vilja búa hér við fæðu klæði og frið.

                                    Íslandi allt!


25. okt. 2008


Arnþrúður Karlsdóttir hótar mér

Fékk þennan póst frá Arnþrúði Karlsdóttur í nótt: "Birgitta. Lengi skal manninn reyna segir gamalt og gott máltæki og sannarlega á það við um þig núna. Ég er viss um að móðir þín snýr sér við í gröfinni yfir þeim ummælum sem þú viðhefur um mig. Viltu að ég segi sannleikann um þig og hvernig þú komst fram við hana??????? Þetta verður þér dýrkeypt..AK"

Ég hef bara einfalt svar við þessu: gjörðu svo vel, ég hef ekkert að fela gagnvart sambandi mínu og mömmu, það gekk oft á ýmsu hjá okkur enda átti mamma við sjúkdóm að stríða sem kenndur er við áfengissýki og samband okkar oft harla stormasamt út af því, uns mér tókst að vinna með mína meðvirkni og læra að aðgreina sjúkdóminn frá manneskjunni. En við mamma áttum fallegt samband undir lokin og það fær enginn tekið það frá mér, sér í lagi ekki kona sem mamma talaði ekki við undir lok æviskeiðs síns, þrátt fyrir langa vináttu.


Að sjá það sem gott er:)

Skemmtilegt að fólk geri eitthvað til að létta sér lund. Það er svo sannarlega af nógu að taka í þessu leikhúsi fáránleikans sem við virðumst vera stödd í þessa dagana.

Í gær fórum við yngri sonur minn í göngutúr út í myndbandsleigu hér í vesturbænum. Hún heitir 107 Reykjavík og er ein af þessum fáu sem enn eru í eigu einstaklinga en ekki bónusvídeó keðjunnar. Við förum afar sjaldan á myndbandsleigur en þegar við gerum það, þá verður það að smá ævintýri. Við vorum með frostbit í kinnum eftir ágætlega langan göngutúr og ákváðum að fá okkur Hulk og Ironman. Það kostaði bara 550 krónur og þegar við vorum búin að borga þá bauð starfsstúlkan okkur að fá ís í kaupbæti að eigin vali. Við urðum auðvitað alveg himinlifandi og þakklát. 

hulk.jpgHvet fólk að versla við kaupmanninn á horninu, því þar er oftast besta þjónustan og síðast en ekki síst, þá eru hlutirnir oft á betri kjörum þar :) Langaði bara að þakka fyrir mig, því það er fátt betra en að finna til þakklætis.

Mér líður pínupons eins og innra með mér búi Hulk sem þurfi að fá útrás fyrir það sem undan er gengið, held að það verði ágætt að skreppa í kyndilgöngu á eftir og finna að maður er ekki einn um að vera nóg boðið. Ætla að taka ömmu með mér. 


mbl.is Innstæður frystar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullmoli dagsins

Síðasti seðlabankastjóri var skipaður af mér, ég man ekki betur en að það hafi verið gert á faglegum forsendum,“ svaraði Geir H. Haarde spurningu blaðamanns um hvort næsti seðlabankastjóri yrði ráðinn á faglegum forsendum.

Spyrillinn vitnaði í áskorun starfsmanna Seðlabanka áður en Davíð Oddsson var ráðinn, en starfsfólk bankans var víst svo ferlega frekt að vilja að nýr seðlabankastjóri yrði ráðinn á faglegum forsendum.

En Geir er sannfærður um að það hafi verið faglegt að ráða sinn fyrrum yfirmann í þessa stöðu þegar hann tók við hans stöðu. Síðan komst Geir í þá skemmtilegu stöðu að verða yfirmaður Davíðs. Það að hann væri ekki sérfræðingur í fjármálum er aukaatriði þegar hægt er að hygla að sínum fyrirmyndum. 

Vá, hvað þetta er bara of mikil sifjaspell til að ég þoli að horfa fram hjá þessu lengur. Hvað vorum við að spá, að æmta ekki og skræmta þegar spillingin var svona rosalega augljós.

Lifi bananinn!!!!


mbl.is Óska formlega eftir aðstoð IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að kalla okkur sjálfstæða þjóð?

Ég er búin að vera með nagandi tilfinningu innra með mér undanfarna daga, sú tilfinning hefur ágerst og er nánast lamandi við að lesa þessa frétt. Hún áréttir þá grunsemd að við séum búin að glata að fullu sjálfstæði okkar enda fórum við hroðalega illa með það. Þrælar hafa ekki frelsi, sá skuldaklafi sem við eigum að standa undir er ekkert annað en þrældómur. Því er það ljóst að við erum ekki lengur sjálfstæð, við erum ekki frjáls, þrælaeyjan hin nýja. Yfir mig hellist einkennileg sorg sem ég get ekki útskýrt með orðum.

Elsku þjóðin mín, við getum ekki látið þetta ganga svona, við verðum að koma þessu fólki frá. Ef ríkisstjórnin væri krakki sem hefði sullað niður miklu magni af sykurdrykk og krefðist svo að fá að þurrka það upp, hvernig væri þá sú hreinsun? Frekar klístruð og sennilega hefði hún gert illt verra. Ég votta þjóð minni samúð, í dag missum við það dýrmætasta sem við áttum, sjálfstæði, frelsi og æru. 

Ég veit að sennilega mun enginn hafa dug eða trú á að viðkomandi geti gert eitthvað til að hreinsa upp hið klístraða sull þingheims... ég veit samt að slíkt fólk er til, aðalatriðið í dag er að fólk losi sig undan klöfum flokkspólitíkur og fari að hugsa sjálfstætt... það er eiginlega okkar eina von í þessari vonlausu stöðu.

 

bananalydveldi_707953.jpg

 


mbl.is Hroðalega þröngir kostir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 509715

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband