Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gleymum því ekki af hverju boðað er til kosninga

 
Burt með spillinguna, leyndina, ráðherraræðið
 
Hér er mínúturæðan mín um niðurskurð sem ég flutti á stöð 2
 
Það eru engar töfralausnir – stjórnsýslan er allt of dýr og illa rekin. Við þurfum að byrja á að skera af henni góðærisspikið, niðurskurður af óþarfa lúxus og gæluverkefnum er forgangsverkefni. Borgarahreyfingin hafnar því alfarið að skorið verði niður í mennta- og heilbrigðisþjónustu og að auðlindir landsins verða seldar eins og oft er krafa AGS.

Í stefnu Borgarahreyfingarinnar stendur að AGS eigi ekki að ráðskast með ríkissjóð og að auðlindir þjóðarinnar verði þjóðareign.

Samningur fyrri ríkisstjórnar við AGS skuldbindur okkur til að skera niður um 50 milljarða á ári og að varpa yfir á þjóðina skuldum sem hún stofnaði ekki til vegna ICESAVE. Slíkan samning er ekki hægt að standa við nema að skaða undirstöður samfélagsins og setja börn okkar og barnabörn í skuldafangelsi.

Slíkur samningur er siðlaus. Við verðum að semja við sjóðinn upp á nýtt.

mbl.is Sigmundur Davíð spáir öðru hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndir XO um atvinnumál: vinnuplagg

Hef ekki tekið eftir því að flokkarnir séu að beita sér fyrir þá sem nú þegar eru atvinnulausir - ef fólk er lengur atvinnulaust en hálft ár - þá er mjög erfitt fyrir viðkomandi að komast aftur inn á vinnumarkað. Mikilvægt er að koma til móts við þennan hóp sem nú þegar spannar 10% landsmanna. Skorum á atvinnulausa að koma að þessari hugmyndavinnu með okkur. 

1.  Innihaldslaus kosningaloforð fjórflokkana um atvinnumál eru siðlaus blekkingarleikur og eru til skaða fyrri almenning og atvinnulífið. 

2.  Besta leiðin til að efla íslenskt atvinnulíf (fyrirtækin) og þar með auka atvinnuþátttöku er að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil, annað hvort með myntbandalagi við aðra þjóð (USA eða Noreg t.d.) eða ESB. Ef það tekst ekki þá þarf að taka einhliða upp aðra mynt og þar væri hagkvæmast að taka upp Evru vegna vægis hennar í utanríkisviðskiptum Íslands en annars Dollar. Það má svo sem velta upp einhverri hugmynd um mynt- og efnahagsbandalag við Noreg sem nokkuð mörgum hugnist en það er þó miklu óljósara fyrirbæri.

3.  Störf í matvælaiðnaði sem myndu stóraukast ef áhugasömum (bændum) væri gert kleyft að fá rafmagn á taxta sem kemst nærri stóriðjutaxtanum.  Ylrækt, lífræn ræktun, heimaframleiðsla á býlum, einnig til útflutnings.  Í framhaldinu verði komið á kerfi þar sem allir kaupendur raforku, stóriðja sem aðrir, fái einfaldlega að kaupa sér raforku í opnum útboðum og aflögð verði algerlega leynd með raforkuverð.  Þannig nýtum við auðlindina best.

4.  Stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf þarf að einfalda og efla og taka það úr þeim farvegi sem það er nú undir flokkspólitískri stjórn og setja undir stjórn þeirra sem hafa þegar náð árangri í þeim efnum.  Hátækni- , tölvu- og fjármálamenntað fólk er einnig atvinnulaust og þetta fólk þarf að leiða saman, t.d. í gegnum miðstöðina í lið 5 í stefnuskránni okkar.

5.  Bráðaaðgerðir til aðstoðar atvinnulausum verða að koma til STRAX til að koma í veg fyrir að hér skapist stórkostlegt félagslegt vandamál vegna afleiðinga langvarandi atvinnuleysis. Nú þegar eru nærri 20.000 manneskjur atvinnulausir.

5a.  Við þurfum að byrja strax með því að setja upp miðstöð mannaða atvinnulausum sem fengu 1,5 atvinnuleysisbætur.

5b.  Þetta fólk færi inn í atvinnuleysisskrána og fyndi valið fólk (50 til 100 manns) með sérþekkingu á einhverjum ákveðnum sviðum. Því yrði svo boðnar 1,5 atvinnuleysisbætur til verða verkefnisstjórar og stofna hópa atvinnulausra utan um sérsvið sitt með það fyrir augum að bjóða upp á praktískar leiðir út úr atvinnuleysinu með t.d. námskeiðum í stofnun fyrirtækja, einyrkjarekstri, endurmenntun, námskeiðum eða hverju öðru sem gagnast gæti hugsanlegum þátttakendum. Mikilvægt er að þetta sé eftirspurnardrifið, þ.e. ekki skipulagt ofan frá heldur falli að hugmyndum og áhugsviðum þátttakenda.

5c.  Í boði yrðu 1,25 atvinnuleysisbætur fyrir þátttakendur.

5c.  Hvatt yrði til stofnunar alls konar smá- og einyrkjafyrirtækja þar sem fólkið héldi fullum (auknum) bótum meðan það væri að spjara sig í nýjum rekstri og koma undir sig fótunum á ný.

6.  Mikilvægt er að bjóða upp á ný atvinnutækifæri við hæfi en ekki setja t.d. bankamenn í álver, pípara í leikskólavinnu eða skáld í bókhald.

7.  Hvert starf í álveri ALCOA kostaði um 230 milljónir króna. Það er hægt að gera mjög margt annað fyrir brot af þessari upphæð þegar kemur að því að skapa ný störf.

8.  Einnig má efla mikið félagsstarf atvinnulausra með stofnun t..d. Leikfélags atvinnulausra, Kórs atvinnulausra, Gönguhóps atvinnulausra (vikuleg Esjuganga t.d.), Sjósunds atvinnulausra o.s.frv., þetta er kannski einfaldlega spurning um hugmyndaflug.  Félag atvinnulausra smiða, kennara, bókara, o.s.frv. sem hittust og spjölluðu og fengu nýjar hugmyndir.

9. Það ætti að nýta þær félagsmiðstöðvar sem eru til staðar sem samverustaði fyrir þá sem eru atvinnulausir.

10.  Fyrirtækin verða meðhöndluð samkvæmt grein 4 í stefnuskránni þar sem meginstefnan er að afskrifa ekki skuldir sjálfkrafa heldur yrði það eingöngu gert sem hluti af endurskipulagningu þar sem t.d. starfsfólkið tæki yfir reksturinn.  Það eru t.d. ekki fyrirtækin í sjávarútvegi sem veiða fiskinn heldur sjómennirnir á skipunum og þeir geta vel haldið því áfram þó eigendur fyrirtækjanna tapi þeim.

11. Það mun verða erfitt að koma alveg í veg fyrir gjaldþrot í því algera hruni sem blasir við
þar sem margir eru einfaldlega skuldsettir langt upp fyrir haus og jafnvel atvinnulausir
í ofanálag. Ef gjaldþrot verða mjög algeng þá þarf að lagfæra löggjöfina þannig að
fjárnámsaðgerðir verði takmarkaðar og að fólk komist tiltölulega fljótt af vanskilaskrá
og eigi þá auðveldara að koma undir sig fótunum á ný. 


mbl.is Stjórnin heldur enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn er ólöglegur

Fyrstu sumartónleikar ársins verða haldnir á nýja hljómleikastaðnum Sódóma við Tryggvagötu (Gamla Gauk á Stöng). Tónleikarnir eru haldnir til að vekja athygli á stöðu hælisleitenda hér á landi - sem og annarsstaðar í heiminum. Fjölmargir listamenn koma fram, þar á meðal: Vicky, Blóð, Megasukk & Ágústa Eva, Tóta & Djassbandið, Þrjár raddir beatur, Rapparinn Nour frá Bagdad, Skorpulifur og AMFJ.

Kynngimagnað kvöld: Íslensk músik, stutt erindi um stöðu hælisleitenda, og arabískt rapp. Aðgangseyrir er 1000 kr.


barattutonleikar

Um hælisleitendur

Um 20-30 hælisleitendur dvelja á Íslandi hverju sinni. Margir þeirra eru flóttamenn frá stríðshrjáðum löndum, eins og Afganistan og Írak. Þeir dvelja í herbergjum í Njarðvík, en flestir Íslendingar vissu ekki af tilvist þeirra fyrr en nú í vetur. Sumir þeirra hafa beðið eftir svari við hælis-umsókn sinni í nokkur ár. Á meðan þeir bíða mega þeir ekki vinna, ekki stunda nám, og eins eiga þeir erfitt með að fá lágmarks læknaþjónustu. Þeir vita ekki hvort þeir fái svar frá Útlendingastofnun á morgun, í næsta mánuði eða eftir ár. Líf þeirra er því ein nagandi óvissa.

Á árunum 1990 til 2007 sóttu 601 manns um hæli á Íslandi, öllum var hafnað nema einum. 53 fengu hinsvegar tímabundið dvalarleyfi. Útlendingastofnun hefur veitt vinum ráðamanna greiða og skjóta þjónustu, á meðan þeim hælisleitendum, sem hingað koma með réttum leiðum, hefur kerfisbundið verið hafnað. Þess vegna er Ísland langt undir þeim tölum sem nágrannalönd okkar hafa markað sér varðandi hælisveitingar. Þessu verður að breyta!

Af hverju ekki Grikkland?

Hælisleitendum er vísað frá Íslandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Reglugerðin var samin til að tryggja hælisleitendum athvarf leiti þeir þess innan Schengen-svæðisins. Hún að tryggja það að fyrsta landið, innan Schengen-svæðisins, sem hælisleitendur koma til, sé skylt að skoða mál þeirra. Hælisleitendur eiga þó einnig rétt á að sækja um hæli í öðrum löndum innan svæðisins. Hér á landi hafa hælisleitendur iðulega verið sendir aftur til fyrsta Schengen-landsins sem þeir ferðuðust í gegnum, í mörgum tilvikum er það Grikkland - án þess að mál þeirra sé skoðað hérlendis.

Að undanförnu hefur Grikkland ekki uppfyllt skilyrði Dyflinnarreglugerðarinnar, en um 2,4% hælisleitenda sem eru sendir þangað fá þá „sanngjörnu málsmeðferð“ sem Dyflinnarreglugerðin lofar þeim. Á heimasíðu Rauða kross Íslands stendur:

Íslensk stjórnvöld verða að ganga úr skugga um að [hælisleitandi] fái umsókn sína til meðferðar og að hann eigi ekki á hættu að verða sendur til heimaríkis... Íslensk stjórnvöld eru bundin af Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem banna endursendingu... til heimalands eða annars ríkis þar sem viðkomandi á hættu á að verða fyrir ofsóknum... Væri t.d. ljóst að íslensk stjórnvöld gætu sent hælisleitanda til annars aðildarríkis Dyflinnarsamkomulagsins og hefði rökstuddan grun um að það ríki myndi síðan strax senda viðkomandi til síns heimalands þar sem hann ætti á hættu að verða fyrir ofsóknum þá væru íslensk yfirvöld mjög líklega að brjóta gegn skuldbindingum sínum.

Ítrekað hafa hælisleitendur verið sendir af íslenskum stjórnvöldum til Grikklands, án þess að íslenskt stjórnvöld hafi fengið staðfestingu frá Grikklandi um að þeir taki mál hælisleitandans að sér. Því eru mörg dæmi um að þeir hælisleitendur séu sendir frá Grikklandi aftur „heim“ - til Afganistan eða Íraks, eða þess lands sem þeir flúðu upphaflega.

Í Grikklandi búa hælisleitendur í tjöldum, í flóttamannabúðum, þar sem aðgengi að hreinu vatni er takmarkað. Þeir njóta engra réttinda - sé þeim nauðgað, eða þeir beittir ofbeldi, geta þeir ekki leitað sér hjálpar eða réttar síns. Þess vegna hafa samtök eins og Amnesty International og Flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna lagt til að ríki sendi ekki hælisleitendur til Grikklands.

Dómstólar í Belgíu úrskurðuðu einnig, í apríl 2008, að þarlendum stjórnvöldum sé óheimilt að vísa hælisleitendum til Grikklands vegna slæmrar meðferðar. Sama ár var lögð fyrir Evrópuþingið 68 blaðsíðna skýrsla sem norskar og finnskar stofnanir unnu um beitingu Dyflinnarsáttmálans í tilfelli Grikklands. Þar kemur fram að móttaka og hýsing flóttafólks sem er handtekið við komuna til Grikklands er fært í varðhald og hýst til lengri tíma í „varðhaldsmiðstöðvum“. Dvölin þar feli í sér linnulaus mannréttindabrot, aðstæður og meðferð séu „óviðunandi“ og vitnisburður liggi fyrir um skelfilegt ofbeldi og pyndingar af hálfu lögreglu.

21. öldin verður öld flóttamannsins.

Ísland verður að standa við þær alþjóðlegu skuldindingar sem landið hefur þegar skrifað undir. Á síðasta ári sagði hælisleitandi frá Afganistan að honum væri ítrekað svarað, þegar hann fengi höfnun um hæli, að hann væri einfaldlega ólögleg manneskja. Í september síðastliðinn var hann sendur með lögreglufylgd frá Íslandi, og aftur til Afganistan. Enginn manneskja er ólögleg! Enginn er ólöglegur!

Nánari upplýsingar

Hér er youtube myndband frá búðunum í Grikklandi:


Viljum við óbreytt ástand?

Ég var að spjalla við nokkra frambjóðendur annarra flokka í gær á meðan ég beið eftir að fara í útsendingu í kosningasjónvarpið í gær. Þar kom fram áhugavert viðhorf hjá XF og XD - þeim finnst ef þjóðin kýs óbreytt ástand - þeas ef niðurstöður verða eins og þess könnun sýnir til dæmis að þjóðin sé að kjósa burt hugmyndina um að hafa faglega ráðna ráðherra. Ég spurði þá af hverju þeir myndu ekki bara spyrja þjóðina frekar en að draga slíka ályktun: svarið var dæmigert að það væri óþarfi.

Almenningur er sáttur við að ráðnir voru tveir ráðherrar á faglegum forsendum - ég ætla að vona að fólk skilji að allar lýðræðisumbætur sem við höfum fengið loforð um verða af engu ef við veitum ekki mjög öflugt aðhald innan þings sem utan.

Hér ríkir mikill lýðræðishalli vegna yfirþyrmandi ráðherraræðis. Hér er engin svokölluð þrískipting valds. Alþingi afgreiðir í miklum meirihluta ráðherrafrumvörp á meðan þingmannafrumvörp rétt silast yfir 20% þeirra sem afgreidd eru. Hlutskipti stjórnarandstöðu virðist eitthvað svo tilgangslaust ef það er staðreynd að hlutfall frumvarpa þeirra nær ekki einu sinni 1%. Það þarf að skoða betur hvernig þessi þingmannafjöldi nýtist þjóðinni best. Það þarf að tryggja að ráðherrar verði ekki áfram þingmenn. Það þarf að tryggja að þingmenn sitji ekki lengur en í 8 ár á þingi í senn. 

Sjálfstæðismenn tryggðu það með síðasta gjörning sínum að auðlindir okkar eru EKKI í þjóðareign. Það er okkur hættulegt á tímum sem þessum.

Stórfeldur niðurskurður er nú þegar hafinn - hann birtist sem tillögur að því að minka skólasetu barna - í skólanum þar sem 8 ára sonur minn sækir sitt nám verður ekki ráðið aftur í stöður þeirra sem hætta og fólki hefur verið sagt upp. Nú þegar eru bekkirnir allt of stórir - 25 börn í bekk og ekki hægt að sinna börnum almennilega sem þurfa sérkennslu.  Talað er um að það þurfi að sameina bekki enn frekar. Mikið var þrengt að skólunum í hinu svokallaða góðæri - ég er ekki að sjá hvernig á að vera hægt að skera niður enn frekar í barnaskólunum. 


mbl.is S- og V-listar bæta heldur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór helgi framundan

NeptúnusÁ sunnudaginn næstkomandi verður frumburðurinn minn 18 ára og dóttir mín mun fermast að borgaralegum sið. Kosningadagurinn fellur smá í skuggann á þessum stóru viðburðum í lífi barnanna minna:)

En því er ekki að neita að ég er rosalega spennt að vita hvað mun koma upp úr kjörkössunum - ég vona að það verði breytingar - ekki stöðnun. Ég vona að flokkarnir beri gæfu til að horfa á aðalatriðin en ekki gleyma sér í einhliða stefnum og ofsatrú á einhæfum lausnum. Það er svo mikilvægt að þjóðin utan þings sem innan geti einbeitt sér að því að finna lausnir sem við getum verið sammála um. Það er hörmulegt til þess að vita að það eigi að draga fólk í skotgrafir varðandi ESB. 

Ég held að farsælast sé að fá að vita hvað stendur í boði og leyfa þjóðinni svo að taka upplýsta ákvörðun. En best væri ef þjóðin hefði rétt á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum óháð þessum tilteknu deilum. Það myndi taka þessar umræður frá flokkunum til fólksins.

 


Við erum breytingaafl

Hvernig er Borgarahreyfingin öðruvísi: nokkrir punktar

1. Hjá okkur eru engir þingmenn á lista - það var ákvæði sem við settum varðandi framboð. 

2. Hjá okkur eru engir með bein hagsmunatengsl  - þess vegna erum við best til þess fallin að takast á við spillinguna sem grasserar ekki bara í viðskiptalífinu - heldur líka inn á þingi meðal þingmanna flestra flokka, nema VG. Það voru ekki ráðamenn sem áttu hugmyndina að því að fá Evu Joly til landsins, heldur útgefandi hennar og fréttamaður - síðan voru það við almenningur sem hafi áhrif á hana með því að setja upp facebook síðu þar sem skorað var á hana að hjálpa okkur.  

3. Við viljum að ráðherrar séu ekki þingmenn heldur ráðnir á faglegum forsendum. Nú höfum við reynslu af slíkum gjörning og það hefur tekist mjög vel. Gleymum því ekki að það var ekki hugmynd flokkana að fá faglega ráðherra heldur kröfur almennings sem varð til þeirra miklu tíðinda að hér gæti skapast hefð fyrir alvöru þrískiptingu valds. 

4. Við viljum að þingmenn sitji ekki lengur en 8 ár á þingi. 

5. Við viljum gera raunverulega uppstokkun á stjórnsýslu okkar sem er allt of dýr og óskilvirk.

6. Við viljum færa völdin til fólksins - þjóðaratkvæðagreiðslur strax með 7% þröskuldi ekki 15% eins og flokkarnir leggja til. Það er mjög erfitt að fá 15% undirskriftir - þó málefnið sé eitthvað sem brennur á þjóðinni.

7. Við viljum tryggja að auðlindir okkar verði skilyrðislaust í eigu þjóðarinnar og það verði tryggt í stjórnarskrá strax. Skil ekki af hverju það var ekki barist til síðasta blóðdropa til að tryggja þetta ákvæði. Ef ég hefði verið í stjórn þá hefði ég neitað að rjúfa þing fyrr en þetta væri tryggt:)

8. Við viljum persónukjör og stjórnlagaþing fólksins ekki flokkana. Hugmyndir flokkana um stjórnlagaþing er einfaldlega þannig að ljóst er að það er sniðið fyrir flokksmaskínur ekki að þjóðinni. Við munum efna til þjóðfundar fljótlega eftir kosningar þar sem allri þjóðinni verður boðið að taka þátt í að finna lausnir á þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir. 

Ég verð að þjóta núna en er óendanlega þakklát fyrir þann mikla stuðning sem við erum að fá - ég ætla ekki að fagna fyrr en eftir að atkvæði eru talin - en ég fagna því hugrekki sem fólk er að sýna með því að þora að kjósa eitthvað allt annað en það hefur kannski alltaf gert. Enda alveg ljóst að stjórnmálaöflin eru enn föst í því að hugsa fyrst og fremst um völd síðast um þjóðina. Okkur vantar enn að vita hvernig þeir ætla sér að skera niður um 150 milljarða á næstu þremur árum - það er bara ekki hægt að fylgja þessum handónýta samning við AGS.  Krefjumst þess að ný stjórn geri nýjan samning við AGS. Hinn samningurinn var samþykktur án allrar baráttu fyrir sanngjörnum skilmálum.


mbl.is O-listi fengi fjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta reddast kosningar

Ég var að lesa komment á eyjunni og sá þar setninguna þetta reddast kosningar. Finnst það ekki fjarri lagi. Það er skautað fimlega frá raunveruleikanum og svörin eins loðin og angóruköttur frá flokkunum sem þó eiga hver um sig tóku þátt í að skapa hér þá óvissu sem við stöndum frammi fyrir.

Okkur var lofað að óvissunni yrðu eytt ef ný stjórn tæki við - bráðabirgðastjórnin hefur þar brugðist okkur. Ef eitthvað er finn ég fyrir enn meiri óvissu um framtíðina - því á einhvern barnslegan hátt treysti maður orðum þeirra sem nú halda um stjórnartaumana. 

Það var reyndar ýmislegt fleira sem sló mig í þessari ágætu færslu hjá manni sem titlar sig Helgi 

"Við vitum hverjir kostirnir eru í komandi kosningum en hvað felst í þeim? það verða skattahækkanir, tekjuskattur verður hækkaður, en minn hefur verið rætt um veltuskatta eins og tryggingagjald, vsk, olíugjald, áfengisgjald og þess háttar. Hvar verður skorið niður? Það er búið að skera niður í landbúnaðarkerfinu um 600 millur, þegjandi og hljóðalaust. En þá eru eftir 49.4 milljarðar. Líklega verður fæðingarorlofssjóður skorinn niður, stofnanir sameinaðar, komugjöld hækkuð, endurgreiðslur til tannlækninga lækkaðar, framhaldsskólar sameinaðir, jöfnunarsjóður sveitafélaga skorinn niður, laun lækkuð. Þetta eru allt atriði sem hafa ekki verið rædd og munu ekki verða rædd að því að þau eru óþægileg. Þessar kosningar eru svona eins og einn stór tékki sem er búið að skrifa undir en eftir að fylla út. Við munum kjósa og vona það besta. Þetta eru “þetta reddast” kosningarnar."

Mikið skil ég hann vel og væri eins og hann til í að fara bara burt, en ætla að gera lokatilraun til að athuga hvort að þjóðin vilji búa áfram við kerfi sem byggt er á spillingu og bitlingum og einkavinavæðingu og sjálftöku - það eina sem vakir fyrir mér með því að bjóða mig fram til þings er að færa völdin til fólksins - kannski vill þjóðin bara ekki þá ábyrgð og við því er þá ekkert að gera. En ég vil í það minnsta reyna til þrautar og þá get ég sagt við börnin mín þegar sama sagan endurtekur sig að ég hafi í það minnsta lagt nótt við nýtan dag - blóð svita og tár í að skapa farveg fyrir lýðræðisumbætur - gleymum því ekki að samfélagið okkar verður ekki lagað nema að við gerum eitthvað sjálf til að laga það.

Ef fólk er virkilega til í að eyða næstu tíu árum í að lepja dauðann úr skel til þess eins að láta arðræna sig aftur vegna þess að orsökin var aldrei lagfærð - þá verður það bara svo að vera - það er ekki hægt að þvinga fólk til að hafa hugrekki - það verður að koma innanfrá - ég vona að sem flestir finni fyrir innri byltingu sem yfirleitt leiðir til þess að fólk er tilbúið að breyta til. Ég ætla að leyfa mér að vona að fólk hendi ekki atkvæði sínu í ruslið - því ég veit ekki um neinn sem mun vera að fara inn í traust þingsæti sem myndi taka mikið mark á því - autt atkvæði er dautt atkvæði ef fólk heldur að einhverjir ráðamenn hlusti á það eða geri eitthvað í því. Hér ríkir engin pólitísk ábyrgð.


mbl.is D og S listi stærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanlegt

Mér er alveg fyrirmunað að skilja þessa atlögu að garðyrjubændum og landbúnaði. Það kostar okkur nánast ekki neitt að styrkja fyrirtæki landsins með því að lækka raforkuverð til þeirra STRAX - fyrst að ekki er hægt lækka stýrivexti þá væri þetta hagkvæm og góð lausn til að fyrirbyggja að fyrirtæki fari í þrot - það er neyðarástand - það kallar á alvöru úrræði.

Það mun kosta þjóðarbúið óhemju háar fjárhæðir ef fleiri fyrirtæki fara í þrot og eitt það alvitlausasta sem hægt væri að gera núna er að tryggja ekki aukna sjálfbærni þjóðarinnar - það gerum við ekki með því að keyra garðyrkjubændur sem og aðra bændur í þrot.


mbl.is „Þetta var fínn fundur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalla eftir þjóðarsátt um lægra orkuverð til bænda

Stytta sem verkamenn byggðu 1958Borgarahreyfingunni finnst eðlilegt að á tímum sem þessum séu auðlindir okkar nýttar til að tryggja að fleiri fyrirtæki fari ekki á hausinn. Það yrði þjóðhagslega hagkvæmt að lækka orkuverð til bænda og selja þeim orkuna á sambærilegu verði og Alcoa. Það er ekki hagkvæmt að bændur gefist upp vegna óþarfa byrða sem á þá eru lagðar. Það væri aftur á móti öllum til hagsbóta ef þeir halda áfram að framleiða innlendar afurðir - það mætti til stórauka útflutning á til dæmis lífrænu grænmeti ef skilyrði til slíkrar ræktunnar séu gerð þannig að það sé rekstrarlegt umhverfi til að stunda þannig starfsemi.

Þá munum við þjóðin njóta þess að fá ferskt grænmeti og aðrar landbúnaðarafurðir á lægra verði og innflutningur sem okkur er afar dýr núna væri ekki það eina sem við þurfum að treysta á. Á heildina litið hlýtur það að teljast hagkvæmt og það væri hægt að gera þetta strax. Kalla því eftir þjóðarsátt en fyrst og fremst pólitískri sátt um þessa lausn til að hjálpa bændum að komast yfir þennan erfiða hjalla.

Ef Landsvirkjun verður af einhverjum tekjum vegna þessa - þá verður bara að hafa það - orkan kostar okkur ekki nærri því eins mikið og það kostar að láta fyrirtækin rúlla.


mbl.is Garðyrkjubændur skrifuðu ekki undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætismál

XO er þverpólitískt bandalag fólks sem er búið að fá nóg af þeirri vanhæfni og spillingu sem þrífst hér á landi í skjóli þingheims.

Við viljum réttlæti fyrir þjóðina sem hefur verið gert að greiða skuldir sem hún efndi aldrei til. Við viljum ekki velta þessum skuldum fáeinna fjármálaóreiðumanna á almenning. Fjármálaóreiðumanna sem hafa gefið sumum flokkum hér óeðlilegar upphæðir fjármagns sem enginn heilvita maður getur litið á öðruvísi en fyrirgreiðslupólitík.

Við viljum leita samstarfs við erlenda skuldunauta okkar um hvernig við getum haft uppi á þeim sem komu okkur í þessa ömurlegu stöðu. Við viljum persónugera vandann og rjúfa óeðlileg tengsl á milli þingheims og viðskiptaheims.

Fyrstu lögin sem Borgarahreyfingin vill tryggja að verði að veruleika eru að enginn: ekki nokkur maður verði borinn út af heimili sínu út af fjárhagsörðuleikum sem rekja má til þess algera hruns sem við stöndum frammi fyrir.

Við viljum færi völdin frá flokkakerfinu til fólksins – til þín
Við viljum að fólk sitji ekki lengur en 8 ár inni á þingi
Við viljum að þjóðin fái rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu
Við viljum aldrei aftur þurfa að upplifa þann vanmátt í aðdraganda janúarbyltingarinnar – þar sem við gátum ekki losnað úr viðjum ríkisstjórnar sem mikill meirihluti þjóðarinnar studdi ekki. 

Við erum borgarar ekki þegnar. Þingmenn eru og eiga muna að þeir eru í vinnu fyrir okkur: þjóðina.


mbl.is Neytendur ekki einir um skaðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 509137

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.