Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fjölmenningardagurinn

Fjölþjóðaganga, Bambusdans og dans Snæljónsins frá Tíbet á Fjölmenningardegi Reykjavíkur 16. maí.

Fjölmenningardagurinn í  Reykjavík verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 16. maí nk.  Þetta er í  fyrsta sinn sem Fjölmenningardagurinn er haldinn en markmiðið er að fagna fjölbreytileikanum sem borgarsamfélagið býður upp á.  Glæsileg dagskrá er í boði sem miðar að því að allir fái notið sín og fjölbreytileikinn blómstri.  

Dagskráin hefst klukkan 13.00 með fjölþjóðlegri göngu sem fer af stað frá Hallgrímskirkju. Fjölþjóðagangan er samstarfsverkefni Heimsgöngunnar og ýmissa samtaka innflytjenda á Íslandi. Markmið Heimsgöngunnar, sem fer fram síðar á þessu ári, er að stuðla að friði í heiminum og tilveru án ofbeldis.  Yfirskrift Fjölþjóðagöngunnar að þessu sinni er friður og eining sem á mjög vel við um þessar mundir. Ómar Ragnarsson hefur samið Heimsgöngumars sem Lúðrasveitin Svanur mun frumflytja við upphaf göngunnar og svo aftur þegar komið er á leiðarenda í Vonarstræti við Ráðhús Reykjavíkur.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur og Iðnó hefst svo fjölbreytt skemmtidagskrá frá klukkan 14.00- 17.00 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þar kennir ýmissa grasa, meðal annars Bambusdans, dans Snæljónsins frá Tíbet, Japönsk teathöfn og söngur frá Kenía, Sri Lanka, Írak, Búlgaríu og Indlandi svo eitthvað sé nefnt. Af nógu verður að taka og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fjölmenningardagurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Alþjóðahúss og  Heimsgönguhópsins og er stefnt að því að gera Fjölmenningardaginn að árlegum viðburði í borginni.

Biðlaun

Skora á ráðherra sem sitja á þingi að afþakka þessi biðlaun. það er einfaldlega siðlaust að þiggja þetta á meðan krafist er að aðrir launþegar lækki laun sín.
mbl.is 22 á ráðherralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fínt að hafa valkost

Ég ætlaði ásamt nokkrum þingfélögum að vera úti á Austurvelli í stað þess að sækja messuna - finnst persónulega ekki rétt að blanda saman trúarbrögðum og þinghaldi. Veit að þetta er hefð og allt það en mér ber að fara eftir minni eigin siðferðisvitund varðandi þingstörf.

Ég gæti alveg hugsað mér að kíkja til Siðmenntar og hlusta á hann Jóhann en honum hefur tekist ljómandi vel upp við að veita börnunum mínum borgaralega fræðslu fyrir borgaralega fermingu.

Mér finnst það flott hjá þeim að bjóða upp á þennan valkost. Tek það fram að ég er ekki trúlaus - hef verið búddisti um langa hríð og finnst það fínn valkostur fyrir mig. Ég er ekki að fordæma þá þingmenn sem ákveða að fara í kirkju en kalla eftir umræðu um hvort fólki finnst í lagi að blanda saman trúarbrögðum og þingsetningu.


mbl.is Hugvekja í stað guðsþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beiðni til ríkisstjórnar

Kæra ríkisstjórn, mikið þætti mér nú vænt um ef blessað ESB blaðið með orðinu trúnaðarmál verði gert opinbert hið fyrsta - helst fyrir kvöldfréttir. Þá þætti okkur í Borgarahreyfingunni best að losna undan viðjum þess að þurfa leyna þjóðina einhverju sem engin ástæða er að leyna - finnst öll þess dulúð helst til þess fallin að gróusögur fari á flakk og fólk fyllist óöryggi og jafnvel ótta. 

Ég er auðvitað nýgræðingur í pólitískri refaskák og vil helst ekki þurfa að læra ósiði svona rétt í upphafi starfs míns í þágu þjóðarinnar - finnst það skjóta skökku við að þurfa að fela eitthvað fyrir fólkinu sem ég starfa í umboði fyrir. Held að fólk sé ekkert sérstaklega hresst með að ég sé að standa í vegi fyrir gegnsærri stjórnsýslu en samt þætti mér verra að brjóta trúnað við ykkur og þess vegna bið ég ykkur í fyllstu einlægni um að vera svo góð og upplýsa þjóðina um innihald plaggsins.


mbl.is „Kanna hvort einhverjir fletir séu til samstöðu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegur fundur

Ég sat á þessum fundi og vil upplýsa að plaggið er þrungið leynd vegna þess að það átti eftir að laga orðalag í því áður en það yrði sent á fjölmiðla. Annars var þessi fundur frekar furðulegur og fór stór hluti hans í orðræðu Sigurmundar Davíðs um Framsóknarherbergið. Finnst reyndar alveg furðulegt að einhver þingflokkur geti átt herbergi í þinghúsinu. Auðvitað eiga þingflokksherbergi að vera notuð útfrá stærð þingflokka ekki útfrá ímynduðu eignarhaldi á einhverju sem með sanni tilheyrir þeim sem þjóðin kýs inn á þing hverju sinni. Það er auðvitað alltaf breytilegt og ófyrirséð.

Eðlilegast væri að láta starfsfólk þingsins um að útdeila þessum herbergjum eftir stærð flokka, ekki útfrá tilfinningasemi. Sem þau reyndu í þessu tilfelli og hafa fengið bágt fyrir. Víðsvegar um heim er þingflokkaherbergjum útdeilt eftir stærð flokka en hér hefur það verið þannig að tveir flokkar hafa hér öllu ráðið og útdeilt ekki bara til sín öllu því besta er tengist störfum þingsins heldur líka í samfélaginu.

Það er að breytast núna enda kominn tími til. Þinghópur Borgarahreyfingarinnar mun fá aðstöðu í vesturvæng Arnarhreiðursins og deila með XD ritara og kaffiaðstöðu sem og fundarherbergi. Þetta mun vera besta húsið til að vera með skrifstofur þingmanna, því nefndarsviðið er í sama húsi. Það kom mér svo sem ekkert á óvart þegar það kom í ljós að þeir hefðu úthlutað sér bestu aðstöðunni. 

Annars þá má ég til með að gagnrýna þessa leynd sem hvílir yfir blessaðri ríkisstjórninni og vona að þar verði gerð bót á sem fyrst. Ég held að ef hægt verði að vinna útfrá málefnum á þessu þingi að við getum komið miklu meira í verk en ef unnið er eftir hefðbundnum argaþras leiðum. Auðvitað á stjórnarandstaða að veita þétt aðhald og sporna við fótum ef unnið er þvert á stefnu hvers og eins flokks. En það er ekki tími né ráð til að eyða miklum tíma í hefðbundið málþóf - skora á alla sem sitja inni á þingi að setja málefnin ofar flokkslínum og hugsa fyrst og hag almennings - síðan um hag flokksins sem viðkomandi tilheyrir.

Tímarnir sem framundan eru - verða mjög erfiðir fyrir marga í samfélaginu. Það verður að tryggja að þjóðin fórni sér ekki við uppbygginu án þess að verða tryggt fyrir því að slíkt vítavert gáleysi í stjórnsýslu geti átt sér stað að nýju. Gleymum því ekki að allar stofnanir sem almenningur treysti brugðust. Gleymum því ekki að það var hugmyndafræði XD og XB um sjálftöku og einkavinavæðingu  sem setti hér heilt samfélag á hausinn með undraverðum hraða.


mbl.is Sigmundur Davíð: Kom mjög á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér duga engin vettlingatök

Þið hafið ekki tíma kæra tilvonandi ríkisstjórn til að taka ykkur allan þann tíma sem til þarf. Fólk er búið að bíða með ótrúlega miklu langlundargeði eftir því að sjá til lands og margir við það að gefast upp. Það er ykkar að koma með alvöru aðgerðir til hjálpar en því miður eru þær aðgerðir sem þið hafið sett í forgang ekki nógu róttækar - hér var hrun - það er ekki hægt að byggja upp undirstöðurnar með legókubbum.

Það er ekki neitt réttlæti í því að fólk sem er orðið örmagna vegna óvissu og ótta um framtíð sína sé látið bíða enn lengur. Þið lofuðu gegnsæi en stjórnarmyndunarviðræðurnar ykkar sem nú eru búnar að taka viku hafa í engu létt á áhyggjum almennings. 

Það er ljóst að við getum ekki staðið við skuldbindingar þær sem þið hafið ákveðið að láta þjóðina bera. Engar áhættur verða teknar ef þið viljið ekki styggja ESB. Nú er ESB umræðan farin að minna á álver álver umræðuna - eina lausnin og ekkert plan B. Hvað er plan B hjá ykkur - hvað á að gera fyrir heimilin NÚNA?: fólk er reitt og það mun rísa upp að nýju ef óréttlætinu linnir ekki. 

Kæra tilvonandi ríkisstjórn - hér duga engin vettlingatök - hlustið á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna og gerið að ykkar. Borgarahreyfingin leggur til að allir flokkar og hreyfingar sameinist um að koma þeim tillögum í framkvæmd strax eftir helgi. Hættið að gera hlutina svona flókna - það var hægt á sínum tíma að stroka út verðtryggingu launa með einu pennastriki. Það er líka hægt að setja í framkvæmd bráðaaðgerðir fyrir heimilin okkar með einu pennastriki ef þið hafið til þess nægilegt hugrekki og þor.

Hvet ykkur til að lesa bréf á blogginu hans Egils Helga frá Gunnari Tómassyni, en þar reifar hann hugmyndir að því hvernig má leysa bráðavanda heimilanna.


mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný vinnubrögð inni á þingi

Borgarahreyfingin ætlar að opna gluggana inn á þing. Við ætlum að deila með þjóðinni hvað fer fram á þinghóps/flokks/hreyfingar fundum okkar, strax eftir fundina. Þá getur fólk séð milliliðalaust hvað við erum að gera þarna inni. Fundargerðir okkar munu þá birtast á vefnum okkar.

Við viljum leggja til að nefndum verði sett betri vinnuskilyrði með því að hafa tímaramma á þeim málum sem þar daga oft uppi. Þá er mikilvægt að þeir sem í nefndum sitja og fjalla um tiltekna hópa að fulltrúi þeirra sem nefndin fjallar um hafi fast sæti í nefndinni. 

Ég hlakka til að finna fleti á samstarfi um hugmyndir okkar að lýðræðisumbótum meðal flokkanna - trúi ekki öðru en að það hugnist öllum sem starfa í umboði þjóðarinnar að lagfæra þá risastóru kerfishnökra sem við búum við.

Og takk aftur allir sem tóku þátt í að gera Borgarahreyfinguna að því sem hún er í dag:)

 


Stjórnlagaþing fólksins

496824-1.jpgFyrir helgina var ég í sjálfskipaðri atvinnubótavinnu, eftir helgina veitti 7% þjóðarinnar mér og félögum mínum í Borgarahreyfingunni umboð til að vera talsmenn hennar á þingi. Þetta eru mikil viðbrigði og ég er ekki alveg enn að ná utan um þessar miklu breytingar.

Ég er meira en þakklát þessu trausti og vona að ég muni standast þær væntingar sem kjósendur okkar bera til okkar. Stefnan okkar er einföld en sumir þættir hennar gætu vafist fyrir þeim sem aðhyllast flokksræði og að halda í þau völd sem þeir hafa nú þegar. 

Það hefur farið lítið fyrir umræðu um Stjórnlagaþing í fjölmiðlum - ég ætlaði alltaf að koma því að þegar ég var í pallborðum og umræðum í fjölmiðlum en það tókst ekki, því ESB umræða sem og spillingarmál XS og XD voru þungamiðja orðræðunnar og erfitt að koma okkar rödd að. Ég er samt sannfærð um að það muni lagast núna, því fyrirspurnakerfi þingheims er þess eðlis að flokkarnir verða að svara okkar fyrirspurnum þar. 

Kreppan er rétt að byrja og mikilvægt að við tryggjum að almenningur leggi ekki á sig ómælt erfiði við að vinna sig úr þessu og standi svo kannski frammi fyrir því eftir 10 ár að allt fari á sama veg og núna. Stjórnlagaþing verður að vera þing fólksins ekki flokksræðisins. Tillögur Ragnars Arnalds varðandi Stjórnlagaþing hugnast mér best af þeim tillögum sem ég hef séð hingað til. Þá er mikilvægt að hafa það í huga að Stjórnlagaþing á að búa til einföld lög sem allir geta skilið og tryggi hér nauðsynlegar lýðræðisumbætur og réttlæti. Ég held að slíkt þing gæti gefið þjóðinni eitthvað uppbyggilegt að tala um og vera með í - ég held að það sé kominn tími á að við förum að hugsa út fyrir alla þessa ramma og segja má að niðurstaða kosninganna hafi endurspeglað vilja þjóðarinnar um raunverulegar umbætur. 

Ég veit að sumir óttast vinstri stjórn - það geri ég ekki - ég hef horft á og upplifað samfélagið okkar molna innan frá vegna þeirrar nýfrjálshyggju sem hér hefur sýkt og eyðilagt meira en margan grunar. Ég hef verið svo lánsöm að reka mig á alla mögulega kerfisveggi bæði fyrir mig og aðra - það er ágætur grunnur til að byrja sín þingstörf á - að laga þessa kerfisgalla með stórkostlegum endurbótum á stjórnsýslu landsins. 

En fyrst og fremst hjartans þakkir til allra sem studdu mig í þessari baráttu og lögðu lið við að vinna að því að skapa þessa hreyfingu en segja má að drög að henni hafi verið rædd í nóvember þegar 10 manna hópur ræddi um hvernig hægt væri að finna lausnir á hinu algera hruni sem við erum enn að upplifa. Ég ætla ekki að telja upp alla sem lögðu okkur lið því það er alltaf þannig að maður gleymir einhverjum - en eitt er alveg ljóst - við sem munum setjast á þing erum bara angi af risastórri grasrót sem vonandi mun halda áfram að þrýsta á utan frá. 1000 þakkir til allra sem tóku þátt í að gera það mögulegt að við erum 4 að fara inn á þing.

Hvet fólk til að mæta í 1. maí göngur og minna á að við viljum Stjórnlagaþing fólksins og að það verði enginn niðurskurður í mennta- og heilbrigðisþjónustu. Það má skera af annars staðar. Hættum við að fara til Kína á heimssýninguna - sá gjörningur mun kosta okkur skattborgara 420 milljónir. Notum þá peninga frekar í heilbrigðisþjónustuna. 


mbl.is Þörf á að endurskoða kosningalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Völdin til fólksins

 
XO vill vinna að því að færa völdin til fólksins - til þín - við munum vinna að því innan þings sem utan með þeim sem vilja hafa áhrif á samfélag sitt - gleymum því ekki af hverju við erum að kjósa í dag - hér hefur orðið algert hrun vegna þess að almenningur hætti að veita stjórnmálamönnum aðhald og hafði ekki til þess tækifæri nema á fjögurra ára fresti - við viljum breyta því- VÖLDIN TIL FÓLKSINS Í DAG!

mbl.is Bjarni Ben kaus fyrstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning til allra flokka:

Fáum við áfram faglega ráðna ráðherra?

Svar óskast frá flokkunum FYRIR kosningar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.