Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Margslunginn dagur í gær

Náði tölvupóstinum niður fyrir 400 sem ég á eftir að flokka, lesa, svara, bregðast við:) Skúraði sem óð manneskja, enda fær maður mikla aukaorku þegar sólin sýnir sitt fagra andlit. Allt í fínlegu ryki vegna framkvæmda við blokkina. Verið að brjóta allar svalir af með tilheyrandi látum.

Drifum okkur til Hveragerðis til að kíkja á ömmu, reyndi að mæta með eins litlum fyrirvara og mögulegt er til að hún færi nú ekki að gera hlaðborð. Henni tókst að gera það á mettíma, blind að baka lummur, sem stundum er nokkuð svartar en það er allt í lagi, hún bakar þær af slíkum kærleika. Annars þá held ég að það hljóti að vera erfitt að vera gamall á Íslandi. Fólkið er meira og minna afskipt, er oft stolt til að biðja um hjálp eða þiggja hana. Amma var lengi vel húsvörður í barnaskólanum í Hveragerði og mikið meira en það. Hún er gullnáma þegar kemur að útileikjum, vísum og hverskyns fróðleik sem snýr að börnum. Hún beitti hlýlegum aga og enginn óð yfir hana þegar hún var í barnaskólanum. Í gær kenndi hún krökkunum mínum leikinn "kjöt í katli", dásamlegt að sjá hana að leik, það var eins og hún lifnaði öll við og barnið innra með henni braust út um stund.

Svo fórum við í göngutúr í Hverageragerði, um hverasvæðið og niður að fossinum. Fór að rótum hans og hlóð batteríin mín. Fann fallega steina og hlustaði á fossinn. Man þegar ég hitti seiðmennina í Kólumbíu, hvað ég öfundaðist út í þá að skilja enn mál dýra og jarðar. Er alltaf að hlusta og vonandi mun ég einn daginn líka skilja mál málleysingjanna.

Eftir gott labberí og klifurleik fórum við heim á leið. Horfði svo á Undercurrents DVD með Neptúnusi í gærkvöldi, á alveg frábæran grínista af pólitísku tagi sem heitir Mark Thomas. Fann slatta af þáttum með honum á youtube áðan, ætla að deila fyrsta þættinum með ykkur.


Skemmdarverk

Í gærkvöldi leið mér sem ég byggi í Sódómu - eftirlitlaust partý unglinga í næstu blokk með miklum hávaða. Sá tvær stúlkur gera sér að leik að reyna að skemma bíla hér á bílastæðinu, kallaði til þeirra "Hvað eruð þið eiginlega að gera?" Þá hlupu þær á brott með skottið á milli... stuttu seinna heyrði ég meiri óhljóð á bílastæðinu, voru þar tveir jakkafataklæddir drengir sem héldu leiknum áfram þar sem stúlkurnar hættu. Brutu allavega af einum bíl rúðuþurrku. Ég var ekki nógu snögg til að gera eitthvað í því, sá bara í skottið á þeim.

Skil ekki svona skemmdarverkaþörf. Það var eins og þessu fólki væri algerlega fyrirmunað að skilja að með þessum random aðgerðum sínum væru þau að gera öðru fólki mikinn óleik. Ef ég hefði ekki skipt mér af hefðu sennilega fleiri bílaeigendur í blokkinni minni vaknað upp við vondan draum. Var næstum því búin að skipta mér af þessum gleðiskap í næstu blokk. Skil ekki hvernig fólkið sem bjó í blokkinni þoldi lætin. Hann var svo mikill að ég í næstu blokk átti erfitt með að sofna. Skil reyndar alls ekki foreldra sem leyfa eftirlitlaus partý, kaupa jafnvel áfengi fyrir krakkana. Mér tókst að kúga mömmu til að kaupa handa mér brennivín og sígarettur þegar ég var í heimavist og langt undir lögaldri. Veit ekki hvort að það sé merki um dómgreindarleysi hennar eða varnarleysi hennar gagnvart sannfæringarkrafti mínum, nema hvorutveggja sé:)


Frábært myndband frá Saving Iceland

Ef ríkisstjórnin heldur áfram er ágætt að hafa í huga hverju hefur verið fórnað og hvað er á teikniborðinu. Viðtöl við Grím Björnsson, Sigga pönk, Ólaf Pál og fleiri um Kárahnjúkavirkjun.

Eitthvað annað en pólitík

Fyrir fjöldamörgum árum fann ég áhugaverðan stað á netinu sem heitir "The Hungersite". Þar er hægt að gefa mat til hungraðra með því að smella á þar til gerðan link einu sinni á dag sér að kostnaðarlausu. Vefurinn er enn til og hefur vaxið ört. Þar er nú hægt að smella til bókagjafa fyrir nemendur í þróunarlöndunum, bjarga skika af regnskógi og borga fyrir leit að brjóstakrabbameini svo eitthvað sé nefnt. Þarna er líka einhver flottasta netverslun í heimi. Hægt að fá allt á milli himins og jarðar og flest er það tengt "fair trade" viðskiptum. Hægt er að kaupa gjafabréf upp á upphitun í skólastofu í Afghanistan, kennaralaun, skólafatnað og margt fleira sem kostar ekki svo mikið en getur skipt sköpum fyrir fólk sem á ekki neitt. Þetta er hin fullkomna gjöf fyrir fólk sem á allt og þarf ekki meira af veraldlegum hlutum.

Ég hvet fólk til að kíkja á þennan vef og gefa eins og fimm mínútur af tíma sínum dag hvern með því að smella á linkana góðu og ef fólk er í þroti í gjafahugmyndum þá er þessi búð alger himnasending. Ég hef keypt hitt og þetta þarna, gaf ömmu til dæmis gjafabréf upp á að klæða skólabörn í Afghanistan svo þau geti stundað nám í jólagjöf. Allt sem ég hef pantað hefur skilað sér og það er ævintýri líkast að taka upp pakka frá þeim.

"The Hungersite"

Afmælisdæmisaga

Þegar ég varð 16 ára þá var ég stödd í landsins mest spennandi heimavistaskóla, þeas Núpi. Ég hafði beðið við símann í litla herberginu sem geymdi myntsímann allan daginn í þeirri von um að mamma myndi hringja. Ekkert gerðist. Ég hringdi því í hana til að gefa henni tækifæri á muna. En það gerði hún ekki. Þetta varð til þess að ég velti mér upp úr þessi í eymd og sjálfsvorkun í mörg ár. Hún sendi mér skeyti næsta dag en það var ekki nóg ég var í krónískri sjálfsvorkun. Eg hefði nú alveg getað sagt, ertu ekki að gleyma einhverju eða eitthvað en til þess var ég of stolt.

Dagurinn var í alla staði fullkominn. Ég byrjaði á að fara í MM þar sem frambjóðendur sem hafa gefið út bækur var teflt fram til að þiggja og leysa út fyrstu ávísanirnar þjóðargjafar bókaútgefanda. Ég sagði öllum sem ég kannaðist við þar að ég ætti stórafmæli. Keypti svo Múmínálfabók handa dóttur minni í afmælisgjöf og ljóðabók til að gefa í aðra afmælisgjöf. Þá lá leiðin í Hljómalind en ég ætlaði bara að stoppa stutt með nokkur eintök af Dagbókinni til gjafar í fanginu. Sagði samt við Einar ljóðalurk þegar ég mætti, ég á afmæli í dag og varð það úr að allir á kaffihúsinu sungu fyrir mig og ég fékk dýrindis vegan köku og latte. Hitti þar nokkra íslandsvini mína og tók maríuhænu upp úr töskunni og leyfi henni að vera með.

Það er greinilegt að mamma er eitthvað að þvælast hér, Einar hélt að ég borðaði ekki rjóma og gjaf mér því "grænar baunir" með kökunni. Ég hefði haldið að hann væri búinn að missa það, ef fyrir mér hefði ekki rifjast upp minning um mömmu. Hún ætlaði eitt sinn að ganga fram af afa sem var þekktur fyrir að blanda saman undarlegum mat og fékk sér grænar baunir út á ís. (afa fannst þetta bara ágæt hugmynd af mixi). Þannig hefur hún laumað sér í huga Einars til að minna á sig.

Svo var brunað í vinnuna og var tekið á móti mér með afmælissöng og hnausþykkri súkkulaðiköku. Svo kom varaformaðurinn með bráðfallegt blóm handa mér og framkvæmdastýran með glæsilega pottaplöntu sem ég ætla að hafa í kosningamiðstöðinni fram yfir kosningar sem lukkudýr.

Ég fékk skrilljón símtöl og fallega tölvupósta, svo voru börnin mín svo góð við mig. Um kvöldið fór ég að kyrja, þetta var sá tími mánaðarins þar sem svokallaðir fræðslufundir eiga sér stað og var umræðuefnið hvernig jarðneskar langanir séu undirrót uppljómunar. Hvernig maður getir verið alkemisti í sínu eigin lífi og breytt þjáningu í meðal, eða eitri í gull. Og þar fékk ég líka köku og staðfestingu á því að ég þrátt fyrir háan aldur þá gæti ég enn lært.

Ég hafði einmitt lært eitthvað ákaflega dýrmætt: Með því að biðja um það sem ég vildi, fékk ég nákvæmlega það sem ég vildi. Og ég sá að mamma hafði án þess að vita það gefið mér dýrmæta gjöf þegar hún gleymdi 16 ára afmælinu mínu. Ég lærði hægt og bítandi að biðja um það sem ég vil. Það er enginn smá gjöf.


Heimsókn í kirkjugarð og útvarpsþáttur um mömmu

Í undankeppni Evróvision Í gær fór ég með börnin mín í heimsókn til ömmu í Hveró. Þó hún sé orðin hálfblind blessunun skal það aldrei bregðast að gerðar séu lummur, þær eru sérstaklega gerðar fyrir Neptúnus og fullkomnlega vegan. Þá vill hún alltaf hafa hlaðborð af ýmsum kræsingum handa okkur. Amma býr til alveg sérstakt kúmenkaffi og er skemmtileg sögukona þegar sá gállinn er á henni. Við áttum góða stund hjá henni. Á heimleið ákvað ég að koma við í Kotstrandakirkjugarði og kíkja á leiðið hennar mömmu. Rosalega var það erfitt, miklu erfiðara en þegar hún var sett ofan í jörðina. Blómin voru sölnuð á leiðinu og þetta var eitthvað svo einmannalegt. Ég ætla að reyna að finna einhvern sem getur gert fyrir okkur gítarstein merktan henni og skella þarna við tækifæri. En tárin og söknuðurinn er allt liður í því að lifa með sorginni. Því það er sorg og hana má ekki kæfa né henni afneita.

 Annars fékk ég gleðifréttir á föstudaginn, þá fékk ég símtal frá Andreu Jónsdóttur og hefur henni verið falið að setja saman 2 tíma þátt á rás 2 um mömmu sem verður útvarpað 1. maí. Fullkomin dagsetning... og ég er sannfærð um að þessi þáttur verður mjög góður, enda ekki margir íslenskir útvarpsmenn eða konur sem standast samanburð við Andreu þegar kemur að umfjöllun um tónlist.


Mamma á ferðalagi með mér

Áðan þegar ég var að kyrja í góðum félagskap þá laust þeirri hugmynd í hugarskot að mamma væri ekkert sérstaklega hrifin af því að vera alltaf ein hérna heima í maríuhænunni. Ætla því að taka maríuhænuna með mér allt sem ég fer. Fann strax að hún væri sáttari við það. Ekki það að þessi aska skipti neitt rosalega miklu máli. En samt það er eitthvað sérstakt við hana, einhver orka sem ég get ekki alveg útskýrt.

Ég ákvað að gerast skynsöm þessa páska og hvíla mig. Skrifaði engan tölvupóst, kláraði smá þýðingu og fór aðeins að vinna í ensku útgáfunni af dagbók kameljónsins. Er að verða nokkuð ánægð með hvernig það er að þróast. Annars verð ég að fara að sinna tölvupóstinum, hann er bara eins og einn af þessum ormum sem fá alltaf nýjan haus ef maður nær að höggva einn af, þá spretta tveir í viðbót sem krefjast enn meiri nákvæmni ...
Ég er annars í einskonar ástarhaturssambandi við pósthólfið mitt. Margir af mínum bestu vinum til margra ára hafa dottið inn í líf mitt í gegnum þetta pósthólf. Hvergi annars staðar hef ég haft eins langt aðsetur eins og í netheimum á sama stað. Er meira að segja með sama tölvupóstfangið og ég fékk mér árið 1995. Kannski get ég komist í heimsmetabók guiness fyrir magn af spammi sem tvælist á þetta póstfang. Er að spá í að búa til epic spamljóð með sífellt sérstæðari og ljóðrænni subject línum á þessum póstum...

Nú fer stóri dagurinn að nálgast... ég munaðarleysinginn sjálfur verð hvorki meira né minna en 40 ára eftir viku. Ég ætlaði að halda risaveislu með öllum sem ég þekki en ákvað að það er ekki eitthvað sem ég geri svona stutt eftir jarðaförina hennar mömmu. Mér finnst líka 41 árs afmælisdagurinn vera frekar afskipur dagur og mun því halda upp á mitt stórafmæli þá. Mér finnst frábært að eldast. Það er eitt af því jákvæða við það að vera rithöfundur eða skáld. Þessu eldri þessu meiri möguleikar á að einhver taki mark á því sem maður er að gera. Er loksins laus við ungskáldastimpilinn og því er ég ákaflega þakklát. Ekki það að ég sé endilega betra skáld en mannfólkinu er nauðsyn að setja allt í einskonar hólf og mér finnst skárra að vera í óskilgreindu hólfi. Það er allavega ekki eins mikil klisja að vera bara eitthvað eins og að vera ung og upprennandi. Skemmtilegt orð þetta upprennandi ....

Les helst bara efni eftir Gaiman nokkurn sá hinn sama og skapaði m.a. snilldarconceptið í kringum um the Sandman og american gods. Ég er að stela frá honum andrúmslofti fyrir þýðinguna. Sjúga í mig orðin og heimana því það passar bara svo vel við þann fíling sem ég vil yfirfæra í ensku þýðinguna. Þannig eiga kameljón að vinna, skammarlaust... og aldrei gleyma að þakka fyrir sig.

Hitti fósturbróður minn hann Hjölla í dag og Ágústu konuna hans í kosningamiðstöð nokkurri í Kópavogi, fékk aðeins að halda á nýjasta afkvæminu þeirra sem er búinn að stela hjarta mínu. Hann hefur svo fallegt nafn: Karel, annars þá eiga öll börnin þeirra flott nöfn. Og enn og aftur og aftur enn, ekkert ríkidæmi eins og það sem finna má í börnum. Maður er ekki mikill nema að maður muni í eitt andartak á hverjum degi að hugsa eins og barn...


Kóngsbakki, Snæfellsnes og kjölfesta

Ég dreif mig og strákana mína vestur á Snæfellsnes á föstudaginn langa sem er aldrei nógu langur. Ætti að líða mun hægar en aðrir dagar miðað við nafngiftina. En tíminn er víst afstæður og lengd hans ávallt í mínum eigin höndum.

Það er alltaf jafn sérstakt í huga mér að keyra mót jöklinum, ber einstaklega mikla lotningu fyrir honum og þeirri sögulegu arfleifð sem hann ber innra sem ytra. Ég á ættir að rekja á Snæfellsnes og samkvæmt Íslendingabók þá voru ættmenni mín goðar og sýslumenn en eitthvað fór úrskeiðis fyrir nokkrum kynslóðum og ættarboginn dvínaði, hygg ég að einhver þeirra formanna minna hafi styggt vætti þá er á nesinu búa og hafi kallað yfir ættina sjö kynslóða bölvun sem nú loks er lokið.

Snæfellsnesið býr yfir bæði sárum og björtum minnum, maðurinn minn heitinn hvarf þar og fimm árum síðar fundust bein hans þar. Hef enn ekki lagt í að fá að vita nákvæmlega hvar en þarf að fara þangað einhverntímann. Þá mun enn einum hringnum full lokið. Ég drakk í mig sólina og náttúruna á leiðinni til Kóngsbakka en þar á fyrrum stjúpi minn sveitabæ og land í sambýli við aðra, en Valdi er einhvern veginn bara ekki fyrrum heldur bara sjúpi eða pabbi minn á einhvern hátt. Ekki hægt að útskýra, hann er bara gull af manni og hefur alltaf verið okkur systkinunum sem faðir þó hann sé nú bara 9 árum eldri en ég:) Gömul sál, gömul sál.

Kóngsbakki er fallegur staður og þar var okkur tekið opnum örmum, ég ætlaði ekki að vera yfir nótt, ætlaði að bruna aftur í borgina áður en kvelda tæki. En vegna mikillar hvattningar og þörf á að slaka aðeins á, ákváðum við að slaka á og taka þátt í gnægtarborði og einlægu spjalli, spilamennsku og draga djúpt inn sjávarloftið og roðagullin himinn þar sem stjörnurnar voru næstum snertanlegar.

Á leiðinni heim í gær gerði frekar mikið óveður og prófaði ég að gera það sem ég geri gjarnan þegar ég er úti að labba í rokrassgati: láta vindinn fara í gegnum mig í stað þess að berjast við hann. Þá varð svo úr að bílinn hætti að berjast og hristast, þaut áfram án áreynslu og við hlustuðum á peace not war disk sem er ekkert nema snilld. Fór að hugsa um allar manneskjurnar sem fórnað hefur verið í Írak fyrir ekki neitt, nema höfuðsyndina: græðgi. Mundi eftir því að okkur tókst næstum að stoppa þetta stríð. Það vantaði svo lítið upp á. Það var ógleymanlegt að vera hluti af þessari alheimsbylgju sem vann linnulaust að því að koma sannleikanum um eðli stríðsins til almennings og almenningur hlýddi kalli sínu. Held að enginn vilji stríð, enginn vilji nokkuð annað en hamingju. En eðli mannsins er skingilegt. Þessi birtingamynd óttans og ofbeldisins er eitthvað svo fjarlæg og þó hlýtur hún að vera hluti af því sem ég er, því ég upplifi mig ekki aðskilda frá einu né neinu. Ég er allt rétt eins og allir aðrir.


15 tíma svefn

ég hafði tekið þennan dag frá til að ná mér eftir jarðaförina og allt sem það innibar. Svo mikið að gera í vinnunni að ég gat ekki hugsað mér að fá frí. Þannig að mér tókst að sofa heila 15 tíma í nótt og dag og hygg að ég fari snemma að sofa í kvöld. Finn samt að ég er að ná aftur fyrri orku og get farið að einbeita mér að öllu því sem ég ýtti til hliðar eftir að mér varð ljóst hve mamma var veik í febrúar.

Dásamlegt að fá smá sól, hvíld og tíma til að ná áttum...


Og lífið heldur áfram, einhvernveginn

Það er samt skringilegt að horfa á símanúmerið hennar mömmu á símanum, vitandi að ég muni aldrei hringja aftur í hana. Ég sit í stofunni sem ylmar af rósum sem ég tók með mér heim úr himnaförinni. Brátt munu þær fölna og deyja og þannig er lífið. Stöðug hringrás, lífs og dauða. Ég manaði mig upp í að lesa minningagreinarnar í mogganum í gær og mikið voru þetta fallegar og kærkomnar minningar. Hafði gleymt baráttunni sem átti sér stað með tónlistarmanna til að fá réttindi sín viðurkennd og hvað hún lagði mikla orku í upphaf þeirra baráttu. Það var svo margt sem hún tók þátt í og gerði. Hún skilur eftir sig stórt skarð sem ég ætla aldrei að reyna að fyllna neinu öðru en þakklæti og fræjum sköpunargleðinnar sem tengjast henni.

En já lífið heldur áfram og ég þarf að finna einhverja leið til að ná aftur einbeitingu. Á eftir að gera skrilljón hluti. Og svo er kosningabaráttan að hefjast af fullum þunga. Eg er reyndar mjög stolt af sjálfri mér að hafa getað mitt í öllu þessu klárað að setja upp nýja vefinn fyrir VG sem er alltaf að verða þéttari og fallegri. Ég er líka svo þakklát samferðafólkinu mínu sem ég vinn með. Það eru svo margar einstakar manneskjur sem vinna með mér. Ekki spillir að mörg þeirra þekktu mömmu frá fornri tíð, ég hef reyndar aldrei verið að flagga því hverra manna ég er, þannig að margir sem ég þekki höfðu ekki hugmynd að ég væri dóttir hennar. Þegar ég var unglingur þá var mamma mjög þekkt og það fór svo í taugarnar á mér að vera alltaf bara dóttir hennar en ekki ég. Ég reyndi mikið að fela hverra manna ég væri þegar ég fór í heimavistarskóla með misjöfnum árangri. Fyndið hvernig lífsþræðirnir snúast. Núna er það mitt helsta markmið að halda minningu hennar lifandi. Hafði reyndar í mörg ár reynt að fá hana til að sinna sköpunargyðjunni og boðið henni aðstoð til þess. En sá gneisti var löngu slokknaður í brjósti hennar. Núna bíða mín mörg spennandi verkefni til að blása lífi í hina merku sögu hennar sem tónskáldi og varðveita hina miklu gjöf: tónlistina hennar.

Þá ætla ég að leggja mitt af mörkunum að styrkja hin trosnuðu fjölskyldubönd, þau byrjuðu að trosna þegar pabbi dó og mamma flutti til Danmerkur en þau eru þarna ennþá og þurfa bara smá alúð til að verða aftur það sem þau voru: Fallegir þræðir í lífsins mikla veggteppi. Myndin verður sífellt skýrari. Ætla að fara út á Snæfellsnes um páskana. Anda að mér jöklinum og ganga fjörur með strákunum mínum. Kíkja svo við á Kóngsbakka til að hitta Valda og fjölskylduna hans. Merkilegt nokk þá hafa tengslin við hann aldrei trosnað, þau hafa alltaf verið sterkir þræðir. Því er ég óendanlega þakklát.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.