22.7.2009 | 15:01
Furðulega sett upp frétt
Ég held að ég myndi lítið annað gera en að leiðrétta fréttir ef ég færi að standa í slíku, en mér finnst þessi fyrirsögn ranglát, ég sagði aldrei að fólkið í utanríkismálanefnd væri óttaslegið, heldur sagði ég að undirtónninn í álitinu frá meirihlutanum væri óttaþrunginn, það er ekki alveg það sama:) Ég held að fólkið í utanríkismálanefnd sé ekki endilega óttaslegið, heldur sé fólk bara á öndverðu meiði með hver hin alþjóðlegu viðbrögð verði ef við setjum fyrirvara á samninginn.
Annars þá hef ég um lítið annað hugsað undanfarnar vikur og hef komist að eftirfarandi niðurstöðu:
Það væri lang heiðarlegast að láta Breta og Hollendinga vita að það sé ekki vilji til að skrifa undir ríkisábyrgð án þess að setja fyrirvara við samninginn. Okkur hefur verið sagt að það eitt og sér muni fella samninginn - samningurinn verður felldur á þinginu ef engir fyrirvarar verða gerðir. Því væri best að láta þá vita af þessu og setja nú þegar saman faglega samninganefnd ástamt því að kalla til almannatengslafyrirtæki í Bretlandi og Hollandi og byrja nú þegar að útskýra okkar hlið á málinu. Það er nefnilega alveg furðulegt þegar því er haldið fram að með því að fella samninginn í þeirri ómögulegu mynd sem hann er í dag séum við að segja umheiminum að við ætlum okkur ekki að axla ábyrgð á þessu máli.
![]() |
Óttaslegin utanríkismálanefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.7.2009 | 00:49
Enn ein staðfestingin
Nú þarf víst SJS að éta ofan í sig stóru orðin frá því í fréttum fyrr í kvöld um að það væri misskilningur að Icesave sé tengt ESB umsókninni. Gegn þessum blekkingaleik börðumst við í síðustu viku og reyndum eftir fremsta megni að sýna fram á þessi tengsl. Ég ætla að rekja þessa tengingu í afar stuttu máli og er nú að koma í ljós það sem blasti við mér við lestur þessara svokölluðu leynigagna sem þjóðin ætti að fá að lesa, þau eru nú varla neitt leyndarmál lengur - hægt væri að stroka út viðkvæm nöfn og annað sem mætti lögsækja okkur fyrir að opinbera en ég get ekki séð að þessi gögn séu þess eðlis að þau eigi að varðveitast í möppum sem aðeins einn og einn þingmaður má lesa í einu, undir vökulum augum.
Ef Icesave-skuldabréfið, sem note bene er ríkisábyrgð á gjaldþrota fyrirtæki, sérdeilis sérstök skuldbinding, verður ekki samþykkt, eða samþykkt með breytingatillögum þá munu Bretar og Hollendingar beita eftirfarandi þumalskrúfum:
1. Þeir munu beita sér gegn aðildarviðræðum við ESB
2. Þeir munu beita sér gegn því að við fáum annan hluta AGS lánsins
AGS mun setja upp ný viðmið ef Icesave verður samþykkt: lengja í þeim tíma sem hér verða gjaldeyrishöft og krefjast enn meiri niðurskurðar en fyrirhugaður er.
Mér er fyrirmunað að skilja af hverju við erum að leggja slíka ofuráherslu í dag á þessar aðildarviðræður eins og það komi ekki dagur eftir þennan dag með Icesave eins og nábít á möguleika á aðild og að öllu óleyst mál. Það er alveg ljóst að nú á að nota aðildarviðræðurnar sem nýja grýlu og til að beita enn meiri þrýsting á ríkisstjórn sem er við það að bresta.
Hve dýr á setja nokkurra einstaklinga í valdastólum að verða þjóðinni? Hve dýr á aðgöngumiðinn að inngönguferli ESB aðildar að verða? Miði sem flestir gera ráð fyrir að hafna. Margir sérfræðingar í hagfræði hafa bent á að við erum hvorki meira né minna gjaldþrota, það væri ráð að athuga hvort að það sé ekki kominn tími á að fara fram á afskriftir, því það er ljóst að við getum ekki haldið áfram á þessari vegferð. En samt á að halda þessu áfram því varla fer ESB að taka við aðildarumsókn frá gjaldþrota þjóð af einhverri alvöru.
Það er líka ömurlegt til þess að hugsa að fólk haldi virkilega að með því að láta níða af okkur allt sem við eigum verði til þess að auka á tiltrú á skynsemi og heilindi okkar erlendis, hvað þá að það auki virðingu fyrir okkur.
Ég vil að lokum segja: ég hef ekkert á móti aðildarviðræðum ef að það er ljóst að það sé meirihluti þjóðarinnar á bak við þá ákvörðun. Ég vil jafnframt biðja þá kjósendur XO sem hafa fundist þeir sviknir afsökunar - ég lít ekki á þessa leið okkar til að reyna að fá Icesave frestað sem hrossakaup enda ekkert í þessu fyrir okkur - ég er ekki inni á þingi fyrir mína hagsmuni, ég er að reyna að vinna eins samviskusamlega að þjóðarhagsmunum og mér er mögulega unnt að gera, ég hef ekki áhuga á að vera á þingi til langframa og mun ekki ætlast til þess að ég fái bitlinga eins og sendiherrajobb út á þessa vinnu sem ég er að vinna núna. En mér finnst ekkert mál eins mikilvægt og þetta Icesave mál og ætla að einbeita mér að því að halda áfram að viða að mér upplýsingum. Á morgun mun ég birta sérálit mitt hérna á blogginu sem ég hef skrifað varðandi Icesave þegar það verður tekið út úr Utanríkismálanefnd. Ég vona að þessu verði frestað og unnið áfram í þessu þó ekki væri til annars en að eyða þeim vafa sem um málið hefur hjúpast, núna á bara að horfa fram hjá varnarorðunum og láta eins og ekkert sé.
Ég bið fólk að sýna því skilning að ég næ alls ekki að svara öllum þeim athugasemdum sem koma við bloggið mitt, en ég les þetta allt saman og finnst gott að heyra ólíkar skoðanir þó þær séu ekki endilega í takt við mínar eigin:)
![]() |
Þrýst á Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.7.2009 | 10:49
ESB og Borgarahreyfingin
Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem brugðust við fyrra bloggi mínu varðandi hugarangist mína um ESB. Ég ákvað að skrifa frekar færslu en að svara öllum, því ég hef ekki tíma til þess. Hér eru nokkur atriði til glöggvunar og til að svara þeim mörgu spurningum og vangaveltum sem hafa spunnist í athugasemdakerfinu hjá mér.
1. Borgarahreyfingin hefur EKKI neitt um ESB á sinni stefnuskrá. Einstaka frambjóðendur hafa lýst sig fylgjandi eða andvíga því að ganga í bandalagið en það var ekki neitt kosningaloforð um að ganga í bandalagið en mörg okkar lýstu því yfir að við værum hlynnt aðildarviðræður, þar á meðal ég.
2.Til að það sé alveg á hreinu þá vil ég segja að allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar ætla að greiða atkvæði með aðildarviðræðum nema hugsanlega ég, ég hef ekki gert upp huga minn og því eru allar umræður um svik XO alveg út í hött. Það var mjög fast að því kveðið að sérhver þingmaður XO væri bundinn samvisku sinni ef við yrðum að taka afstöðu til mála sem væru ekki hluti af stefnuskrá hreyfingarinnar. Þegar við vorum að koma hreyfingunni saman og berja saman stefnuskrá var ákveðið að framboð okkar væri aðeins til komið til að koma á lýðræðisumbótum, innan þess ramma fannst okkur þó rétt að koma með tillögur að því hvernig við getum leyst þann efnahagsvanda sem þjóðin er í, að uppræta spillingu innan stjórnkerfisins, rjúfa órofa tengsl viðskipaheims og þingsheims, koma með tillögur að lausn á ICESAVE og að leysa upp ægivald fjórflokksins. Við ákváðum að hafa ekki aðra þætti á stefnuskrá hreyfingarinnar því að það er hluti af stefnu okkar að leysa upp flokkinn þegar stefnumálum okkar hafa verið hrint í framkvæmd.
3. Eitt af mínum prinsippum í lífinu er að áskilja mér rétt til að skipta um skoðun ef ég fæ upplýsingar sem gefa mér tilefni til að endurskoða stefnu mína, ég var klofin innra með mér varðandi þessi ESB mál en það hefur í raun og veru ekkert að gera með þá staðreynd að mér finnst aðildarviðræður í dag ekki tímabærar. Mér finnst eftir að hafa kynnt mér hvað felst í aðildarviðræðum það mjög mikilvægt að við skoðum til þaula hvort að það að fara í slíkt inntökuferli sé það sem við þurfum á að halda núna. Ég hefði haldið að það væri mikilvægara á þessu sumarþingi að koma með lausnir til að reisa upp samfélagið okkar úr brunarústum hrunadansins.
4. Ég hef heyrt fólk kalla eftir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu og samkvæmt Gallup könnun vill meirihluti þjóðarinnar fá að greiða atkvæði um það hvort að við förum í aðildarviðræður. Því á að virða það að vettugi. Því þessi asi við að fara í aðildarviðræður? Á ekki þessi ríkisstjórn nánast eftir heil 4 ár af kjörtímabili sínu?
5. Noregur og ESB... við búum við allt annan veruleika en Norðmenn þegar þeir fóru í þetta ferli, við erum beygð og niðurbrotin þjóð og ættum að vinna að því að gefa þjóðinni von um að hér verði hægt að búa áfram áður en við ætlum okkur að vera aftur þjóð meðal þjóða. Mér finnst alveg sjálfsagt að þjóðin fái að kjósa um hvort að henni líki einhver samningurinn síðar meir en þá verður að kalla hlutina réttum nöfnum. Hættum að nota orðið aðildarviðræður og köllum þetta inngönguferli. Segjum frá hlutunum eins og þeir eru, að með því að fara í þetta inngönguferli þá erum við að lýsa því yfir að við viljum gagna í ESB. Mér finnst það einfaldlega heiðarlegra gagnvart ESB og þjóðinni að kalla hlutina sínu réttu nöfnum.
6. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðu mála hérlendis og hve mikill tími og orka fer í ESB. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá er langt í að við fáum Evru ef við sækjum um og það þýðir áframhaldandi blóðmjólkun á fjölskyldur landsins. Stöðugt fjölgar þeim hópi Íslendinga sem eru á förum og ef við eigum að afgreiða bæði ICESAVE og ESB á næstu dögum og segjum að þetta verði bæði samþykkt, já þá óttast ég að haustið verði sögulegt í sem neikvæðustum skilningi. Það sem ég sakna er að sjá áætlun um hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið óháð ESB.
7. Ég endurtek að ég hef aldrei lofað því að styðja ekki eða styðja tvöfaldar þjóðaratkvæðagreiðslur og er því ekki að svíkja einn eða neinn hvað svo sem ég geri. Ég ætla að greiða atkvæði með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu, en það útilokar ekki að ég greiði atkvæði með inngönguferlinu, en ég ítreka að mér finnst þetta sumarþing eigi að snúast um annað en ESB og ég ítreka að mér finnst að það væri nær lagi að sækja um inngöngu í ESB þegar það er alveg ljóst að það er sú stefna sem þjóðin vill fara. Mér finnst ekki tímabært í dag að fara í ESB enda þurfum við að huga að því björgunarstarfi sem hér þarf að fara fram. Þetta eru mínar skoðanir en ekki annarra þingmanna Borgarahreyfingarinnar því þætti mér vænt um ef þið hættuð að segja að ég sé Borgarahreyfingin - því við frábáðum okkur foringja og formenn og ég er aðeins óbreyttur þingmaður sem hef ekkert vald yfir því hvað aðrir þingmenn hreyfingarinnar kjósa að gera eða þau yfir mér. Við vinnum saman í mesta bróðerni að öllu því sem stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar kveður á um og leyfum svo hinum að hafa sínar skoðanir á því sem er ekki í stefnuskránni. Um stefnuskrá XO var kosið en ekki einstakar skoðanir einstakra frambjóðenda XO. Eða það hélt ég.
Stjórnmál og samfélag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (121)
11.7.2009 | 20:45
ESB hugarangist
Ég er í Utanríkismálanefnd og hef setið á fundum nærri dag hvern til að fjalla um EBS - hlusta á hagsmunaaðila en fyrst og fremst á fólk úr ráðuneytunum. Ég hef komist að því að með því að fara í inngönguferlið sem kallað er hér aðildarviðræður þá erum við með sanni að sækja um að ganga í ESB. Ég verð að viðurkenna að ég lét glepjast að því að þetta væri aðeins eins konar könnunarviðræður því það er ljóst að meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í þetta bandalag. Að þetta snérist um að komast að því hvað væri í boði en ekki að fara til Brussel með ósk um að verða hluti af ESB.
Ég studdi þetta ferli fyrir kosningar, verð að viðurkenna að ég lét hreinlega plata mig. Eftir að Össur átti fund með einum þingmanna okkar til að kanna hvaða skilyrði Borgarahreyfingin setti til að hægt væri að fara í þessar viðræður þá var ég enn með þessa röngu mynd í huga mér um að þetta væri ekki skuldbinding til að ganga í bandalagið, og því þótti mér það sjálfsagt mál að fara í þetta ferli.
Við settum nokkur skilyrði til að tryggja að ferlið gagnvart þjóðinni yrði sem lýðræðislegast og var brugðist við því á jákvæðan hátt hjá ríkisstjórninni. Eftir stíf fundarhöld í Utanríkismálanefnd var mér orðið ljóst að ég var höfð að háð og spotti og í raun og veru værum við að ganga í ESB. Það á ég erfitt með að styðja því eins og svo margir hérlendis er ég klofin innra með mér hvað gera skal.
Mér er illa við að svíkja loforð og hef ekki sagt neitt enn þá um það hvort að ég muni greiða með þessu afkvæði eða ekki. Ég komst aftur á móti á þá niðurstöðu að best væri til að tryggja að almenningur væri meðvitaður um hve stórt og kostnaðarsamt skref við erum að taka, að hafa atkvæðagreiðslu um það hvort að fólk vildi fara ESB, því þetta snýst um það og ekkert annað þó öðru hafi oft á tíðum verið haldið fram fyrir kosningar.
Það er ekkert í stefnu Borgarahreyfingarinnar um ESB og því lít ég ekki svo á að ég sé að brjóta nein kosningaloforð eða loforð um að styðja tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Ég er annars í mikilli hugarangist og veit ekki hvort að ég eigi frekar að brjóta á minni eigin samvisku og greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar því sett voru inn öll okkar skilyrði -eða á trausti ríkisstjórnarinnar til okkar, vil ekki koma félögum mínum í þinghópnum í vandræði. En það er samt alveg ljóst að okkar stefna gagnvart málum sem eru ekki á stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar átti hver og einn þingmaður að eiga við útfrá sinni samvisku. Úff þetta er hið versta mál því ég hef hallast fjær ESB þessu betur sem ég hef kynnt mér þetta bákn og finnst skelfileg tilhugsun að taka þátt í að við missum hér fullveldi okkar. Hvað finnst ykkur að ég eigi að gera? Það væri afskaplega gott að fá lánaða dómgreind hjá ykkur félagar.
Annars vil ég þakka öllum sem kommenta á síðuna mína - les það allt en hef yfirleitt ekki tíma til að blanda mér í umræðuna...
Hér er annars ræðan mín frá því í dag, ég hef ekki haft tíma til að fínpússa hana en læt hana bara hingað inn eins og ég flutti hana:
Frú forseti
Enn á ný er forgangsröðun íslenskra ráðamanna á villigötum. Sumarþingið er á villigötum, við þingmenn á villigötum, þjóðin ráðvillt og á meðan hrynja fyrirtækin og inniviðir samfélags okkar eins og spilaborgir.
Forgangsröðun sumarþings ætti að vera eftirfarandi: Endurreisn fjármálakerfisins, lækka stýrivexti, lækka raforkuverð til landbúnaðar, tryggja að björgunarnetin sem sett voru út til að aðstoða fjölskyldur landsins í þeirri neyð sem þær eru að kljást við séu ekki full af götum, frysta eigur auðmanna, yfirheyrslur og gæsluvarðhald á þeim sem vitað er að stunduðu ólöglega fjármálastarfsemi og tóku virkan þátt í mesta hrunadansi sögunnar, rjúfa hagsmunatengsl á milli þingheims og viðskiptaheims, styrkja forvarnastarf og virkja þá sem nú þegar eru á atvinnuleysisskrá, búa til atvinnuskapandi umhverfi og tryggja að meirihluti íslenskra fyrirtækja fari ekki á hausinn.
Er hæstvirtri ríkisstjórn fyrirmunað að skilja að almenningur er að gefast upp, það skiptir ekki fólk neinu máli sem er að berjast við að eiga fyrir mat hvort að við förum í aðildarviðræður í dag eða eftir eitt ár, það mun ekki gera neitt til að hjálpa þeim sem þurfa aðstoð núna. Það hafa komið fram góðar lausnir frá öllum flokkunum sem vel ætti að vera hægt nota til að vinna að sameiginlegan lausnapakka sem allir flokkarnir kæmu að og bæru sameiginlega ábyrgð á, það ætti að leggja eins þunga áherslu á það eins og lagt hefur verið um að finna samhljóm um þingsályktunartillögu til að ganga til aðildarviðræna við ESB.
Því miður var sá samhljómur innantómt hjóm, því það er einfaldlega þannig Frú forseti að ríkisstjórnin vill hreinlega ekki hlusta á áköll þjóðarinnar um aðgerðir sem gefa fólki tilefni til að leggja á sig erfiðleika til endurreisnar. Aðildarviðræður við ESB sem munu kosta þjóðarbúið gríðarlega mikla fjármuni á meðan niðurskurðar er krafist af slíkum þunga að fólk flýr landið í umvörpum og er skaðleg aðför að velferðarkerfinu er ekki rétt forgangsröðun.
Af hverju er farið af stað í þetta ferli með slíkum ofsa? Sumarþing var kallað saman til þess eins að vinna að ESB málinu og það er bara ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á slíkar áherslur. Það hefði verið afsakanlegt að leggja ofuráherslu á þetta mál ef við byggjum við eðlilegar kringumstæður en við vitum öll að þannig er það einfaldlega ekki. Hér er allt hrunið og fólk er ráðvillt og hrætt um hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er fullkomlega óábyrgt að tala um aðildarviðræður sem einhverja allsherjarlausn og í fullkominni mótsögn við það sem er sagt um eðli þessarar aðildarviðræðna.
Ég skildi þetta ferli á eftirfarandi hátt og veit um fjöldann allan af fólki sem skildi þetta á sama hátt fyrir kosningar: Við sækjum um aðild að ESB en þetta eru í raun og veru eins konar könnunarviðræður þar sem við fáum að sjá hvað er í boði en við erum samt eiginlega ekki að sækja um aðild að ESB, heldur kanna hvort að okkar kröfum verði mætt. Ef okkur líkar illa við þann samning sem okkur verður boðinn þá getum við alltaf afþakkað og haldið áfram þar sem frá var horfið. Við erum semsagt að fara í könnunarviðræður því það er ekki víðtækur meirihluta hvorki á alþingi né meðal þjóðarinnar um stuðning við að ganga í Evrópubandalagið. Mér þótti þetta ágæt rök en síðan hafa runnið á mig tvær grímur.
Því meira sem ég hef hugleitt þetta ferli, því sannfærðari er ég um að það er algerlega ábyrgðarlaust og sínir umheiminum enn og aftur að hér býr þjóð sem er ekki fær um að axla ábyrgð eða taka afdráttalausar ákvarðanir. Við erum semsagt að fara að ganga til aðildarviðræðna án þess að vilja ganga í ESB. Hvaða rugl er það? Annað hvort sækir maður um aðild og er á leiðinni í ESB eða maður sækir ekki um aðild. Þegar hæstvirtur forsætisráðherra fer á fund Evrópusambandsins með samþykki þingsins um að gagna til aðildarviðræðna þá er ég alveg sannfærð um að hún muni ekki segja við félaga sína í Evrópubandalaginu: við ætlum að sækja um aðild en bara til að athuga hvort að þið fallist á allar okkar kröfur og án þess að í raun og veru hafa fullt umboð frá þinginu um vilja til að ganga í ESB. En forsætisráðherra ætti einmitt að segja sannleikann, hæstvirtur forsætisráðherra ætti einmitt að segja að okkur sé engin alvara með þetta, við erum bara að sjá hvort að við fáum ekki sérmeðferð eins og við erum svo vön að fá, því við erum svo spes.
Mér finnst það fullkomlega óábyrgt að halda því fram að sækja um aðild muni hjálpa okkur ef við ætlum svo bara að hafna þessu, því það er alveg ljóst að við munum ekki fá neina sérmeðferð, það hefur aldrei verið gerður neinn sérdíll um sjávarútvegsmál hjá ESB og það yrði með sanni alveg stórmerkilegt ef svo yrði og alveg öruggt að eitthvað annað héngi á spýtunni. Því spyr ég hæstvirtan Forsætisráðherra hvort að það sé skynsamlegt að sækja um aðild núna ef það er næsta ljóst hvað við munum fá og ekki fá út úr því, það er ekkert flókið að finna út hvað það er sem við fáum út úr svona ferli og nánast eins nákvæmt og skoðanakannanir og því óafsakanlegt að eyða að minnsta kosti 1000 milljónum í slíkt og eyða dýrmætum tíma þingmanna í nefndarsetur svo ég tali nú ekki um starfsfólk stofnana á vegum ríkisins sem koma að umsóknarferlinu. Áætlað er að setja á laggirnar fjöldann allan af nefndum og ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvað þetta kostar allt saman í raun og veru. Ég hefði frekar haldið að skynsamlegt væri að kynna með sanni fyrir þjóðinni það sem við ætlum okkur að gera og segja má að sú vinna sem nú þegar hefur farið fram sé fullkomið verkfæri til að styðjast við ef kosið verði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort að þjóðin vilji leggja höfuðáherslu núna á að sækja um aðild og fræða almenning um það hvað slíkt inniber. Að sækja um aðild hlýtur að þýða að við viljum gagna í ESB. Þar eð ég hef ekki umboð frá mínum kjósendum til að taka slíka ákvörðun mun ég styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu sem hægt væri að stefna saman eigi síðar en í kringum upphaf haustþings.
Rökin að við verðum að sækja um á meðan Svíar eru í forsæti eru ekki nægilega góð rök í mínum huga, þó ég sé meðvituð um að gott sé að hafa rétt fólk á réttum stað á réttum tíma sem okkur er vinveitt og skilur hinn séríslenska hugsunarhátt, ég ætla rétt að vona að Svíar séu ekki eina þjóðin sem okkur er vinveitt í ESB og gæti aðstoðað okkur við að ganga í ESB ef þjóðin myndi kjósa að gera það.
Frú forseti
Í Utanríkismálanefnd var setið á fundum nánast daglega undanfarnar vikur til að taka á móti umsögnum og tillögum um úrbætur á þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fram í fyrstu umræðu um þetta mál. Ég má til með að hrósa formanni nefndarinnar fyrir vönduð vinnubrögð við að viða upplýsingum að um það sem gestum fannst mikilvægt að væri tekið tillit til í vegvísinum sem samninganefndir eiga að fara eftir. Þá var ánægjulegt að tillögur Borgarahreyfingarinnar um lýðræðisumbætur séu hluti af álitinu, eins og til dæmis stofnun Lýðræðisstofu, sem mun hafa það hlutverk að miðla óhlutdrægum upplýsingum til almennings um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB samninginn lýðræðisstofa verður vonandi hornsteinn lýðræðislegs og hlutlauss upplýsingaflæðis fyrir almenning er varða mál sem tekin verða fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslum framtíðarinnar. En það er margt að athuga við þær hefðir sem hér hafa verið viðhafðar um nefndarstörf og fannst mér það sérstaklega áberandi í þessu málefni því upplagið var að komast að niðurstöðu sem allir í nefndinni gætu sætt sig við. Það var því ömurlegt að upplifa það að við nefndarmenn fengum lítil tök á að ræða saman ólíka þætti álitsins og fara yfir það saman í eins og eina dagstund. Þess í stað var lokavinnsla álitsins unnin á hundavaði og rýrði alla þá góðu vinnu sem hafði þegar átt sér stað. Gleymum því ekki að þær ákvarðanir sem hér eru teknar varða alla þjóðina og þetta mál er ein stærsta ákvörðun sem þjóðin mun taka saman og hafa mikil áhrif á líf allra hvort heldur það sé til góðs eða ills, það er ekki mitt að meta enda nokkur ágreiningur um hvaða gagn eða ógang Evrópusambandsaðild mun hafa fyrir þjóðarhagsmuni.
Það er ótækt að ég hafi ekki fengið tíma til að skoða í þaula álitið áður en mér var gert að svara því hvort að ég vildi vera með á meirihlutaálitinu, því setti ég fyrirvara á minn stuðning við það.
Æruverðugi forseti
Nú hef ég lesið nefndarálitið til þaula og er ánægð með flesta þætti þess og sé að tekið hefur verið tillit til þeirra viðbóta sem við í Borgarahreyfingunni óskuðum eftir. Það sem ég er ekki ánægð með er ef til vill ekki endilega innihaldið heldur það sem vantar inn í álitið. Það er nefnilega svo að í álitinu er hvergi fjallað um hvað við höfum fram að bjóða sem viðbótarstjarna í Evrópubandalagsflaggið. Það er eingöngu fjallað um það sem við viljum en ekki hvað við höfum að gefa. Það finnst mér alröng skilaboð að senda út í alþjóðasamfélagið. Höfum við eitthvað að bjóða Evrópusambandinu sem þeir hafa ekki nú þegar, er það eitthvað sem við eigum sem aðrar þjóðir vildu hafa með í sínum sameignlega evrópska ranni?
Mér dettur nokkrir hlutir í hug þegar ég leiði hugann að þessu eins og til dæmis sú staðreynd að Við höfum aðgang að einstakri og ósnortinni náttúru og erum enn nokkuð laus við mengun þó við séum fjarri lagi eins ómenguð og ímyndarfræðingar þjóðarinnar vilja halda fram. Við eigum gott vatn og meira en nóg af því og enn er mikill fiskur í sjónum, við erum vel staðsett miðju vega á milli Evrópu og Bandaríkjanna og hér höfum við komið upp víðtækri þekkingu á hvernig má nýta orkuauðlindir okkar, sér í lagi það sem við köllum sjálfbæra orku. Þá höfum við þekkingu og reynslu af því að stýra viðamiklum sjávarútvegi. Til okkar hefur verið leitað varðandi rannsóknir á jarðvísindum og við höfum nokkra sérstöðu varðandi þá þekkingu, en okkar allra verðmætasta eign ef eign mætti kalla er hið óbeislaða hugarflug og sköpunarkraftur sem hefur með sanni sett þjóðina á hið alþjóðlega kort og nú þegar eru fjölmargir einstaklingar sem hafa skapað þjóðinni mikil verðmæti með því að virkja þessa þætti þjóðarsálarinnar.
Frú forseti
Það hefur verið um langa hríð hart barist um EBS hérlendis á meðal hagsmunaaðila á meðal megin þorri þjóðarinnar veit lítið sem ekkert um hvað það þýðir í eiginlegri merkingu að vera með eða ekki. Lítið hefur farið fyrir því að útskýra fyrir þjóðinni á hvaða forsendum við sækjum um aðild. Fyrir kosningar voru aðildarviðræður kynntar sem könnunarviðræður þar sem við gætum enn og aftur sýnt algert ábyrgðarleysi með því að vilja bæði halda og sleppa á sama tíma, bara svona til að skoða hvað er í boði sem þó allir vita hvað er. Þetta haltu mér slepptu mér viðhorf er ekki það sem þjóðin þarf að sýna umheiminum í dag. Við höfum verið gagnrýnd fyrir ábyrðarleysi á alþjóðavettvangi og ættum því ef við ætlum að sækja um aðild að ESB að vilja með sanni ganga í bandalagið. Það er skortur á skýrum vilja stjórnvalda, það er skortur á skýrum vilja þjóðarinnar, sem mun gera þessar aðildarviðræður að enn einum smánarbletti þjóðarinnar sem þarf á því meira en nokkru öðru að sýna að hún sé ekki samansafn tækifærisinna.
Ég get ekki stutt umsókn um aðildarviðræður án þess að kanna vilja þjóðarinnar til þess, sumum mun finnast ég vera að stuðla að sóun á fjármunum og vera hrædd við að styggja einhverja með því að fara fram á þessa leið, en ég get með sanni sagt að ég er aðeins að hugsa um hag þjóðarinnar, mitt hlutverk hér er að tryggja að stórar ákvarðanir fari ekki í gegnum þingið án þess að það sé alveg ljóst að á bak við þær sé einarður og skýr vilji þjóðarinnar til þess. Ég held að við séum enn á villigötum um þessi ESB mál, ég held að við þurfum fyrst að taka upplýsta ákvörðun um það hvort að við viljum fara í ESB eða ekki. Það vantar að skoða betur á hlutlausan hátt hvað það þýðir, kosti og galla þess án þeirrar heittrúarstefnu sem hefur einkennt þetta mál hjá bæði nei og já fólkinu.
Ég er enn nokkuð klofin innra með mér varðandi ESB en ég get sagt heilshugar að fenginni reynslu að við leysum ekki vandamál okkar með því að takast ekki á við þau sjálf, við verðum fyrst að takast á við þá víðtæku spillingu sem hér þrífst, við þurfum að horfast augu við í siðrofið og þá firringuna sem leiddi okkur inn í hrunið, við verðum að taka til í okkar garði áður en við viljum fá að sameina hann annarra manna görðum, því það er ekki sanngjarnt að vilja flytja með okkur illgresi og arfa og hafa ekkert annað að gefa en einmitt það.
Tökum okkur þann tíma sem til þarf, sinnum samfélaginu okkar sem hreinlega brennur af reiði og vonleysi, gefum þjóðinni von, vinnum saman að ásættanlegum lausnum hér heimafyrir og prófum að þiggja aðstoð frá erlendum sérfræðingum áður en við ætlum að setja fullveldi okkar undir þing margra þjóða og munum hafa lítið um okkar mál að segja þó við séum stórasta land í heimi. Ef við kunnum ekki að vinna saman hér heima, hvernig í ósköpunum eigum við að geta unnið með 27 þjóðum að jafn mikilvægum hlutum og þá er snerta fullveldi þjóðarinnar. Síðasti samningur sem ritaður var fyrir hönd þjóðarinnar í alþjóðasamhengi var ekki beint til að auka tiltrú mína á getu ráðamanna til að passa upp á þjóðarhagsmuni í návígi við gamla nýlenduherra.
Frú forseti
Ég virði þá vinnu sem lögð hefur verið í þá ályktun sem hér er fjallað um ég mun bera enn meiri virðingu fyrir þessu þingi ef hæstvirt ríkisstjórn gefi sínum þingmönnum hið sama frelsi til að kjósa eftir eigin samvisku og þau krefjast af okkur í minnihlutanum varðandi þetta mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (79)
9.7.2009 | 05:41
Ekki allskostar réttur fréttafluttningur
Ég sat á þessum fundi og vil að því sé haldið til haga að Guðfríður Lilja bar upp breytingatillögur að álitinu - enda vorum við að vinna í drögum þess - það voru fulltrúar Samfylkingarinnar sem báðu um fundarhlé út af þeim tillögum sem Guðfríður Lilja bar upp.
Auðvitað eigum við að gefa okkur þann tíma sem þörf er á til að meta hvort að það sé eitthvað sem betur má fara í álitinu áður en það er tekið úr nefnd og inná þing.
![]() |
Fundi utanríkismálanefndar um ESB-mál frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.7.2009 | 13:53
Frábært framtak
![]() |
Kraftur ungmenna virkjaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.7.2009 | 07:46
ICESLAVE þingræðan mín
Ég flutti eftirfarandi ræðu á þinginu á föstudaginn, tilvísunin í skrattann á veggnum er fengin frá því að forsætisráðaherrann segir gjarnan í þau örfáu skipti sem hún hefur tjáð sig um þessi mál á þinginu - það er óþarfi að mála skrattann á vegginn. Annars þá finnst mér það alveg stórmerkilegt að forsætisráðherra landsins hafi ekki sett sig á mælendaskrá varðandi eitt stærsta mál íslandssögunnar. Er það venja að velta jafn stóru máli alfarið í fangið í samstarfsflokki sínum? Finnst skringilegt að það eigi að velta þessu öllu á VG þegar ljóst er að Samfylkingin á stóran þátt í Icesave klúðrinu.
Frú forseti
Skrattinn er á veggnum. Það þarf ekki að mála hann á hann eða ímynda sér hann, skrattinn er á veggnum og hann er ofinn úr vanhæfni, spillingu, siðrofi, órjúfanlegum tengslum viðskiptaheims og þingheims, skrattinn er á veggnum og hann er óttinn við framtíðina og hann er óvissan og þrælslundinn. Skrattinn er á veggnum og hann nærist á hræðsluáróðri og vanþekkingu og ósætti
Frú forseti
Við megum ekki láta óttann stjórna okkur þegar við skoðum Icesave samninginn og afleiðingar hans, með eða á móti. Við megum ekki halda að skrattinn sé neitt annað en mynd á vegg en ekki raunveruleikinn eins og sumir virðast halda að hann sé. Horfumst í augu við veruleikann frú forseti: Þessi samningur er nauðasamningur nýlenduherra við þjóð sem þeir bera litla sem enga virðingu fyrir, nauðsamningur sem allir bera jafn mikla ábyrgð á hvaða flokki sem þeir koma frá, það hafa nefnilega allir ráðamenn fyrr og síðar tekið þátt í að skapa þá vegferð sem við erum á núna. En ég vil vekja athygli þína á því frú forseti að það skiptir engu máli, það eina sem skiptir máli núna er eftirfarandi: Er hægt að skrifa undir þennan samning án þess að eiga það á hættu að steypa komandi kynslóðum í slíkt skuldafen að úr því verði aldrei komist sama hve duglegt, hæfileikarík, frábær, vel menntuð og gáfuð við erum. Það eru alveg til dæmi þess að þrælar séu ákaflega geðþekkt og vel gefið fólk. Mér er nóg boðið að háttvirtir ráðherrar bjóði þjóðinni upp á hræðsluáróður sem hér hefur verið málaður á vegginn sem raunveruleikur skratti á veggnum.
Mikilvægt er að spyrja sig nokkurra spurninga:
1. Hvað gerist ef við skrifum ekki undir og förum í nýtt samningaferli: EKKI NEITT nema að við semjum upp á nýtt. Ég hef ekki séð neitt annað en innantómar hótanir sem ólíklegt að verði efndar í öllum þeim gögnum sem ég hef lesið varðandi þetta mál. Ég er ekki að sjá neitt sem réttlætir þann hræðsluáróður sem ríkisstjórnin og hennar leiguliðar halda fram, ég fann ekkert sem rennir stoðum undir þá skemmtilegu kenningu að við gætum orðið Kúpa norðursins. Gleymum því ekki að við göngum nú þegar undir heitinu Nígería norðursins. Okkar mannorð á alþjóðavísu er ekkert sérstaklega gott. Ég held að það myndi ekki auka traust á okkur ef við skrifum upp á samning sem ljóst er að við getum ekki greitt.
Það sem ef til vill flækist fyrir þeim ágætu embættismönnum og ráðamönnum sem hafa kynnst sér samninginn er fyrst og fremst það sem hangir á spýtunni alræmdu. Ég hef fyrir því traustar heimildir að það sem hangir á spýtunni er eftirfarandi:
Bretar hótuðu því að ef ekki yrði skrifað undir, myndu þeir standa í vegi fyrir aðildarumsókn okkar að EBS og ef ekki er skrifað undir þá mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sitja á öðrum hluta lánsins til okkar. Það er reyndar alveg furðulegt því þessi skuldbinding stangast beinlínis á við 16. lið samningsins og kröfur AGS um hve mikið við megum skulda til að geta yfir höfuð fengið aðstoð frá þeim.
Samkvæmt núverandi skuldabyrði og ef ég má með leyfi forseta vitna í bréf sem ég las frá Gunnari Tómassyni um þessi mál:
Erlendar skuldir Íslands eru mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað til lands í nóvember síðastliðnum.
Frank Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins hér á landi, staðfesti þetta í fréttum Stöðvar 2 í vikunni.
Samkvæmt útreikningum fréttastofu eru erlendar skuldir Íslands nú um 250% af landsframleiðslu, en þetta hlutfall er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn horfir hvað mest til. Þess ber að geta að útreikningarnir eru byggðir á tölum um erlendar skuldir frá því í lok mars á þessu ári. Staðan hefur ekki verið birt opinberlega, hvorki af stjórnvöldum né Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í október 2008 var samin á grundvelli mikillar óvissu um lykilstærðir, þar á meðal erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð.
Í greinargerð starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánaumsókn Íslands sl. nóvember segir m.a. um horfur varðandi skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð:
Gert er ráð fyrir að hlutfall erlendra skulda verði um 160% af vergri landsframleiðslu árið 2009 .
Á meðan gert er ráð fyrir að þetta hlutfall lækki töluvert mikið í spám okkar mun það samt sem áður vera áfram afar hátt eða um 101% af vergri landsframleiðslu fram til ársins 2013
Hlutfall erlendra skulda mun halda áfram að vera afar viðkvæmt fyrir áföllum sér í lagi út af gengisþróun.
Gunnar heldur áfram:
Aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggði á því að hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins væri um 160% af landsframleiðslu við árslok 2009. Eins var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutfall af stærðargráðunni 240% væri augljóslega óviðráðanlegt.
Í ICESAVE samningum stjórnvalda við Breta og Hollendinga er sérstaklega vísað til umsagnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sl. nóvember um skuldastöðu þjóðarbúsins næstu árin og kveðið á um frekari viðræður ef hún reynist lakari en ráð var fyrir gert.
Staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að skuldastaðan sé af ofangreindri stærðargráðu myndi gera frekari viðræður við Breta og Hollendinga nauðsynlegar nú þegar þar sem forsendur fyrirliggjandi ICESAVE samnings eiga ekki við lengur."
Frú forseti
Nú er ekki tími fyrir skotgrafahernað Borgarahreyfingin heitir því að gera ekki atlögu að stjórninni þó að Icesave samningurinn verði felldur. Það á að vera réttur sérhvers þingmanns að fá að kjósa eftir sinni bestu vitund varðandi svona stór mál. Ég skora því á fjármálaráðherra og formann VG að hætta við það glapræði og það andlega ofbeldi að setja sjálfan sig og stjórnina að veði til að þvinga þennan samning í gegnum þingið með góðu eða illu. Ég þoli ekki lengur að hlusta á þetta pex er það virkilega svo frú forseti að hér sé það virkilega svo illa fyrir komið fyrir okkur að á svo sögulegum tímum að flokkshollusta vegi þyngra en hollusta gagnvart hagsmunum þjóðarinnar?
Þann 7. febrúar sl. hlustaði ég á frábæran fyrirlestur sem Gunnar Tómasson flutti í Reykjavíkur Akademíunni um kollsteypu íslenzka hagkerfisins. Þar lýsti hann m.a. þeirri skoðun sinni að framundan væri greiðsluþrot þjóðarbúsins. Í þessu sambandi spurði einn áheyrenda lykilspurningar:
Ef greiðsluþrot verður ekki umflúið, er betra að horfast í augu við vandann strax eða eftir nokkur ár?
Svar Gunnars var:
Strax.
Hæstvirt ríkisstjórn er ekki kominn tími til að athuga hvað 0 leiðin þýðir fyrir okkur það er beinlínis vítavert gáleysi að athuga ekki opinberlega hvort að sú leið sé ekki skynsamlegasta leiðin til að fara núna áður en það verður of seint of seint því að auðlindir okkar eru að veði. Landsvirkjun krúnudjásn þjóðarinnar gæti auðveldlega fallið í hendurnar á erlendum stórfyrirtækjum, það er afar skuldsett og stendur enn verr út af sívaxandi skuldsetningu þjóðar sem á ekki neitt eftir til að borga með nema með nýjum skuldum er það virkilega eina lausnin sem þessi stjórn hefur að skuldsetja þjóðina enn frekar...
Það er enginn skömm að því að horfast í augu við vandmálið við vanmáttinn til að leysa þetta vandamál áður en það verður of seint. Þetta er spurning um nokkur erfið ár eða erfið ár um aldir alda.
Að lokum vil ég lýsa þeirri einlægu skoðun minni að samninganefndin var vanhæf vegna þess að í henni var ekki nokkur maður til þess fær að semja við ævafornar samningaaðferðir Breta og Hollendinga sem eru jú sérfræðingar að semja við þriðja heims lönd um afarkosti, í þessa nefnd átti að skipa faglega en ekki pólitískt þá vil ég lýsa því yfir að hæstvirtur umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir er algerlega vanhæf til að fjalla um þetta mál eða greiða því atkvæði, því faðir hennar Svavar Gestsson var skipaður formaður samninganefndarinnar. Ég skora því á hæstvirtan ráðherra að sitja hjá í yfirstandandi atkvæðagreiðslu.
![]() |
Geir Haarde: Hann tók því illa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.7.2009 | 01:06
leyndo.is
Úr dagbók þingmanns sem ég skrifa og er birt í viku hverri í helgarblaði DV - ég tek það fram að ég þigg engar greiðslur fyrir þessa pistla aðrar en að fá blaðið í áskrift.
Afbrigðileg afbrigði
Þingið nær ekki að hafa stjórn starfáætlun sinni vegna þess að ríkisstjórnin sem lemur þingið áfram með því að ítrekað misnota svokölluð afbrigði á þingstörfum. Ég veit ekki hvort að almenningur sé meðvitaður um hvað þessi afbrigði eru eiginlega, í stuttu máli eru þau einfaldlega leið framkvæmdavaldsins að keyra mál í gegnum þingið á afbrigðilega stuttum tíma. Stundum er vissulega þörf á að afgreiða lagafrumvörp á stuttum tíma en oftast er það nú svo að þingmál verða að fá nauðsynlegan tíma í nefndum til að koma í veg fyrir mistök vegna of mikils hraða í úrvinnslu. Því hef ég tekið þá ákvörðun að greiða helst ekki atkvæði með þessum afbrigðum. Ég skil ekki af hverju þingmenn samþykkja alltaf þetta fyrirkomulag, þó svo að þeir segjast vera á móti flýtimeðferð af þessu tagi. Vandamálið við svona hraðmeðferð er að manni er gert það ómögulegt að kynna sér til þaula frumvarpið og kanna hvort að það sé með sanni til bóta fyrir þjóðina. Mér skilst á þeim sem hafa starfað lengi á þinginu að þetta sé einskonar herkænsku aðgerð hjá stjórnvöldum til að halda þingmönnum óupplýstum og fá sínu fram. Það getur varla verið skynsamlegt að haga málum þannig.
leyndo.is
Aðferðinni til að halda þingmönnum óupplýstum er einmitt beitt í einu stærsta máli íslandssögunnar: Icesave. Við fengum gögnin afhent um hálftíma eftir að blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar átti að byrja gegnsæisblaðamanafundur. En gögnin voru heldur rýr, það var að finna frumvarpið um ríkisábyrgðina, samninginn og lista yfir gögn sem við mættum sækja inn á nefndarsvið sem væru hugsanlega mögulega trúnaðargögn. Á þessum tíma stóð yfir þingfundur en á hann var gert stutt stutt hlé á meðan Jóhanna spjallaði við blaðamenn um gögnin sem við vorum ekki enn farin að sjá. Síðan hélt þingfundur áfram og ég fór heim án þess að ná því að fá hugsanleg trúnaðargögn í hendurnar. Fann þau reyndar inni á island.is, öll með tölu og skyldi ekki af hverju við gátum ekki bara fengið senda slóðina í þetta í stað þess að standa í þessu ljósritunarveseni inni á nefndarsviði. Þegar ég svo mætti í vinnuna næsta dag beið mín þykk mappa sem á stóð Icesave-gögnin frá Utanríkisráðuneytinu með rauðum stimpli sem á stóð: TRÚNAÐARMÁL ég opnaði möppuna góðu og sá þá að þarna voru engin trúnaðargögn heldur allt það sem ég hafði rekist á inni á island.is m.a. fréttatilkynningar og annað sveipað miklum dularhjúp. Kannski var þetta leyndó dæmi einhver svona embættismannahúmor☺ Annars þá sat ég í dag í herbergi með einstaklega indælum starfsmanni nefndarsviðs sem mun víst vera mesti alþingisnörd landsins en hans hlutvert er að gæta þess að við þingmenn hlaupumst ekki á brott með aðra möppu sem er með alvöru trúnó upplýsingum. Mappan innihélt slatta af skjölum sem ég botna ekkert í að séu trúnaðarskjöl og að þjóðin megi ekki vita hvað innihaldi. Það var ekkert í þessari möppu sem kom mér á óvart í raun og veru þá staðfesti innihald hennar bara það sem ég hef heyrt víðsvegar um samfélagið: við erum ekki lengur sjálfstæð þjóð. Við erum undir landshöfðingja komin sem er einskonar hlutafélag og þetta hlutafélag heitir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og stórir hluthafar í þessu hlutafélagið eru Bretland og Holland, það skyldi því ekki koma neinum á óvart ef samningurinn sé okkur ekki í hag ef þeir sem sátu í samninganefndinni nutu ráðgjafar AGS. Það má auðvitað aldrei gleymast að AGS er með sanni engin góðgerðasamtök og það kann ekki góðri lukku að stýra ef yfirvöld rugla þeim við ABC samtökin.
Ég ætla að róa ríkisstjórnina aðeins, því það er ekkert gaman að standa í þessu Icesave máli fyrir þau: ég mun aldrei gera atlögu að henni þó að ICESlave samningurinn verði felldur, né aðrir félagar mínir í þinghópi Borgarahreyfingarinnar.
![]() |
Ekki öll gögn komin fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2009 | 07:09
Nýjar forsendur vegna ICESAVE
Gunnar Tómasson hagfræðingur ritar eftirfarandi bréf:
Þann 7. febrúar sl. flutti ég fyrirlestur í Reykjavíkur Akademíunni um kollsteypu íslenzka efnahagskerfisins í byrjun október 2008 og lýsti m.a. þeirri skoðun minni að framundan væri greiðsluþrot þjóðarbúsins. Í þessu sambandi spurði einn áheyrenda lykilspurningar:
Ef greiðsluþrot verður ekki umflúið, er betra að horfast í augu við vandann strax eða eftir nokkur ár?
Svar mitt var:
Strax.
Eins og fréttastofa sagði frá í gærkvöldi, segir í frétt á netinu í dag, eru erlendar skuldir Íslands mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað til lands í nóvember síðastliðnum.
Frank Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins hér á landi, staðfesti þetta í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi.
Samkvæmt útreikningum fréttastofu eru erlendar skuldir Íslands nú um 250% af landsframleiðslu, en þetta hlutfall er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn horfir hvað mest til. Þess ber að geta að útreikningarnir eru byggðir á tölum um erlendar skuldir frá því í lok mars á þessu ári. Staðan hefur ekki verið birt opinberlega, hvorki af stjórnvöldum né Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Þetta kemur mér ekki á óvart - aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í október 2008 var samin á grundvelli mikillar óvissu um lykilstærðir, þar á meðal erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð. (Ég benti sérstaklega á hið síðarnefnda í tölvupósti til aðila heima á sínum tíma.)
Í greinargerð starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánaumsókn Íslands sl. nóvember segir m.a. um horfur varðandi skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð:
The external debt ratio is estimated at 160 percent of GDP in 2009 as the public sector takes on loans to finance reimbursement of foreign deposit insurance, and new loans to fill the financing gap. Thereafter some net debt repayments are made and external debt falls back as a percent of GDP.
While the external debt ratio falls back significantly over the forecast horizon, it remains very high at 101 percent of GDP by 2013.
Within the total, public sector external debt declines to 49 percent of GDP by 2013 from 100 percent in 2008, as a result of debt repayments and a resumption in GDP growth over the medium term.
External debt remains extremely vulnerable to shocks-most notably the exchange rate. A further depreciation of the exchange rate of 30 percent would cause a further precipitous rise in the debt ratio (to 240 percent of GDP in 2009) and would clearly be unsustainable.Með öðrum orðum, aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggði á því að hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins væri um 160% af landsframleiðslu við árslok 2009. Eins var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutfall af stærðargráðunni 240% væri augljóslega óviðráðanlegt.
Í ICESAVE samningum stjórnvalda við Breta og Hollendinga er sérstaklega vísað til umsagnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sl. nóvember um skuldastöðu þjóðarbúsins næstu árin og kveðið á um frekari viðræður ef hún reynist lakari en ráð var fyrir gert.
Staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að skuldastaðan sé af ofangreindri stærðargráðu myndi gera frekari viðræður við Breta og Hollendinga nauðsynlegar nú þegar þar sem forsendur fyrirliggjandi ICESAVE samnings eiga ekki við lengur.
![]() |
Skoða Icesave-gögn í lokuðu herbergi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.7.2009 | 07:55
Fáránleg regla sem þarf að afnema eigi síðar en strax
Nú er það þannig að það er nánast ómögulegt að finna vinnu fyrir þúsundir manna - það er hreinlega ekki nein vinna í boði fyrir u.þ.b. 18.000 þúsund manneskjur - (þó svo einhverjir svindli á kerfinu þá eru það með sanni langt í frá allir). Hvað á fólk að gera sem á ekki neitt orlof til að nota? Ég á ekki von á því að þeir sem hafa verið atvinnulausir síðan í haust eigi mikinn pening til að fara í frí. Hverskonar afbökun á réttindum atvinnulausra er þetta eiginlega.
Þegar ég sat nefndarfund í fjárlaganefnd þá var það greinilegt að starfsmenn í félags- og tryggingamálaráðuneytinu höfðu lítinn áhuga á að finna lausnir handa þessum stóra hluta þjóðarinnar sem er atvinnulausir - það sem þau vildu fá fjármagn í fyrst og fremst var að hafa uppi á svindlurum. Það er gegnið fram af miklu offorsi og veit ég um eina konu sem fékk hótunarbréf um að bæturnar yrðu teknar af henni vegna þess að hún hafði fengið greiddar 10.000 krónur í orlof og átti fyrir vikið að vera einn af þessum meintu svikurum. Hversu margar ætli þurfi að búa við slíka ógn út af hörku í framferði vinnumiðlunar?
Ég skora stjórnvöld á að sína mennsku og hætta að láta stóra þjóðfélagshópa engjast sundur og saman af áhyggjum út af óvissu sem auðvelt væri að laga.
Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að allir óháð því hvort þeir eigi orlof inni eða ekki þurfi að vera án greiðsla úr atvinnutryggingasjóði í heilan mánuð. Engu skiptir þó fólk vilji vera virkt í atvinnuleit - því er skikkað í frí án þess að hafa nokkuð um það að segja. Það þarf að laga þessa ambögu eigi síðar en strax. Það er alveg ljóst að þessi reglugerð var sett á í góðærinu og það eru einfaldlega engar forsendur í dag til að halda þessu til streitu.
![]() |
Atvinnulausir eiga ekki rétt á bótum í orlofi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
27.6.2009 | 10:46
Bandormsræða 2
Hér eru rök mín fyrir að samþykkja EKKI bandorm meirihlutans:
Virðulegi forseti
Hvar er ríkisstjórnin væri ekki eðlilegt að hún væri hér að verja þennan skelfilega gjörning sem bandormurinn hennar er?
Hvar er vonin sem þjóðin þarf svo sárlega á að halda? Hana er ekki að finna í áherslum ríkisstjórnarinnar, því nú hefur hin svokallað skjaldborg umbreyst í gjaldborg.
Ég hef gefið mér tíma til að tala við þá hugrökku öryrkja sem hafa staðið vaktina fyrir utan þinghúsið. Mér finnst ljótt að bæta á áhyggjur fólks sem nú þegar berst í bökkum ofan á það að búa við heilsubrest. Mér finnst það algerlega óafsakanlegt. Þetta ágæta fólk býr við næga óvissu til að bæta þessu ekki ofan á.
Því er Hæstvirtur forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ekki hér til að verja lagasetningu sem hrifsar það sem hún barðist fyrir með kjafti og klóm til handa öryrkjum og ellilífeyrisþegum? Getur það verið rétt, að hæstvirtur forsætisráðherra stjórni ekki landinu heldur séu öll okkar ríkisfjármál og jafnvel pólitískar áherslur runninn undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Sagt var hér fyrr í dag að það væri þekkt aðferð hjá AGS að láta hýsilinn sinn skera niður í þá hópa sem síst mega við því það er gert til að öðlast trúverðugleika í alþjóðasamfélaginu um að þetta sé allt gert af mikilli alvöru og engum verði eirt til að tryggja stöðugleika. Er þetta eitthvað sem við viljum taka þátt í? Er þetta eitthvað sem hægt er að verja?
Ríkisstjórnin virðist hafa villst frá vinstri vængnum og ástundar nú meiri nýfrjálshyggju með niðurskurði sínum en sá flokkur sem gjarnan er kenndur við nýfrjálshyggju.
Nú hef ég hlustað á áherslur og lausnir hjá öllum flokkunum sem sitja á þingi og ég held að ef ríkisstjórnin væri einhver alvara með samvinnu og samráð að hún ætti hreinlega að setja þennan bandorm í endurvinnsluna þiggja aðstoð frá minnihlutanum ég held nefnilega að það væri skynsamlegt að nýta sér þá margvísilegu styrkleika sem hér eru til innanhúss þá ólíku sýn sem hér fyrirfinnst ef hæstvirt ríkisstjórn væri alvara með að vinna sameiginlega að lausnum þá ætti hún að boða til alvöru samráðs ég held að þá gætum við náð utan um þetta risavandamál saman og fengið stærri sýn á orsök og afleiðingu þeirra gjörninga sem boðaðir eru hér. Þá getum við komist hjá því að gera alvarleg mistök því að það er ljóst að margt af því sem hér er kynnt er ekki alveg hugsað til enda.
Tökum bara niðurskurð sem tengist öldruðum og öryrkjum sem dæmi: þetta er aðeins um 1800 milljónir það er bara dropi í hafið af þeim niðurskurði sem á að framkvæma.
Ég sat í fjárlaganefnd í fjarveru Þórs Saari og hlustaði þar á velferðarráðuneytin okkar tala um að þau væru komin að þolmörkum og að niðurskurður næsta árs myndi þýða uppsagnir og lokanir á stofnunum. Það hlýtur að vera til önnur lausn en sú sem er boðuð með þessum aðgerðum. Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki heildarlausn en það er aldrei bara til ein leið. Það væri ef til vill ekki vitlaust fyrir ríkisstjórnina að byrja á réttum enda og til dæmis skera niður ofurlaun skilanefndamanna sem hlaupa víst á milljónum í mánaðarlaun. Það kostar okkur 500 milljónir að taka þátt í bókaráðstefnu og 140 milljónir að taka þátt í heimssýningu í Kína þetta eru nú bara nokkur atriði sem detta inn í huga mér núna, ég er alveg viss um að það mætti með smá hugarflugi finna leiðir til að seilast í aðra vasa en hálftóma vasa heldri borgara og hæstvirtra öryrkja.
Ég hefði átt von á heildrænni aðgerðum en að setja frekari skatta á heimilin í landinu án þess að aftengja vísitöluna því jafnvel sykurskatturinn mun hækka húsnæðislánin hjá fólki sem berst í bökkum nú þegar og hjá þeim má lítið út af bera til að þau fari hreinlega í greiðsluþrot.
Ég skilaði ein séráliti í fjárlaganefnd þar sagi ég meðal annars:
Því er alveg ljóst að það myndi brjóta gegn stefnu Borgarahreyfingarinnar að samþykkja þessa aðferð til að standast fjárlög. Við erum alfarið á móti þeim niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Við teljum að með því að fylgja ráðgjöf og rammaáætlun AGS séum við að hefja vegferð sem mun enda á því að veikja svo mjög undirstöður velferðarkerfis okkar að það mun á endanum verða þjóðinni dýrkeyptara en svo að hægt sé að réttlæta það. Borgarahreyfingin skorar á hæstvirta ríkisstjórn að leita annarra leiða til að laga halla ríkissjóðs og styður almennt aðhald í ríkisfjármálum án þess þó að núverandi ríkisstjórn svíki kosningaloforð sitt um að standa vörð um velferðina. Ljóst er að bandormur þessi mun ekki standast ef marka má skýrslur úr ráðuneytunum. Því væri heillaráð að vinna betur að gerð hans og jafnvel horfast í augu við að halla ríkissjóðs verði ekki mætt með þeim aðferðum sem boðaðar eru í honum.
Frú forseti ég hef fullan skilning á því að þessi ríkisstjórn standi frammi fyrir því sem næst ókljúfanlegum vanda en Afsakið æruverðugi forseti, er þetta ekki ríkisstjórnin sem boðaði að staðið yrði vörð um velferðarkerfið FYRIR kosningar?
![]() |
Boðar auknar álögur á áfengi og tóbak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.6.2009 | 07:33
Samantekt á IceSave farsanum (í löngu máli)

Eftir að hafa reiknað út skuldbindinguna, fór ég að velta fyrir mér þessum góðu eignum í Bretlandi sem ættu að koma á móti skuldinni. Alltaf var talað um eignasöfn í Bretlandi, en eftir smá grams á netinu fann ég kynningu á efnahagsreikningi Landsbankans sem birt var í febrúar en miðaðist við 14. nóvember 2008. Þá kom tvennt í ljós
1) Eignirnar eru að stærstum hluta útlán og þá til innlendra aðila (en í gjaldeyri)
2) Eignirnar eru metnar um 1.195 ma.kr.
Mér létti mjög við þetta þar sem þetta leit ekki illa út á þessum tímapunkti. Eignir upp á 1.195 ma.kr. en skuldbinding upp á tæpa 700 ma.kr. Það þyrfti að verða gríðarlegur eignabruni hjá Landsbankanum til að við fengjum ekki allt upp í skuldbindinguna.
Eina sem truflaði mig var að Jóhanna forsætisráðherra var alltaf að tala um að samninganefndin gerði ráð fyrir að 75% næðist upp í skuldbindinguna með eignum Landsbankans, og að virt ensk endurskoðunarskrifstofa hefði eftir skoðun á lánasafninu komist að þeirri niðurstöðu að það næðust jafnvel 95%.
Hvernig gátu 1.195 ma.kr. eignir lækkað í 525 ma.kr (75%) til 665 ma.kr. (95%) á ekki lengri tíma?
Þegar hér var komið í sögu var ljóst að það þyrfti að birta samninginn, ekki seinna en strax. Það var eitthvað sem ekki stemmdi.
Það fóru á þessum tímapunkti að leka valdar fréttir um samninginn (t.d. að það væri ákvæði um endurskoðun og nýtt mat á eignasafninu)
Þann 11. júní síðastliðinn birtist síðan í vefriti fjármálaráðuneytisins smá frétt um samninginn þar sem aðallega var verið að réttlæta 5,55% vextina á lánið. Það sem var skondið nið þessa umfjöllun var að þar voru lánin allt í einu orðin hærri í erlendum myntum (GBP og EUR) en þegar samningurinn var kynntur. Hvað var eiginlega í gangi. Vissu menn ekki hvað þeir voru að skrifa undir?

Reyndar er það svo að nýlegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki heimila að greiða fyrr út forgangskröfur en þá þarf að vera vissa fyrir því að greiða út allar jafnar forgangskröfur að fullu eða að jöfnu. Því er ennþá möguleiki á að skilanefnd Landsbankans geti byrjað að greiða inn á samninginn áður en kröfulýsingarfrestur rennur út, þ.e. ef IceSave samningurinn verður samþykktur.
Á þessum tímapunkti (16. júní) brást mér þolinmæði og sendi öllum alþingismönnum Íslands tölvubréf þar sem ég setti fram nokkrar spurningar og staðreyndir varðandi IceSave samninginn. Viðbrögð voru þokkaleg, sérstaklega frá VG.
Þann 18. júní var síðan rætt um samninginn á Alþingi. Í þeim umræðum kom meðal annars fram að forsætisráðherra teldi að samningurinn ætti að bæta lánshæfismat landsins, sérstaklega þar sem fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hefðu sagt það. Það hafði reyndar láðst að spyrja lánshæfismatsfyrirtækin sjálf.
Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði, þar sem erlendar skuldir, bæði ríkis og ekki síst opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar og Orkuveitunnar, eru verulegar og lánshæfismat ríkisins er einu skrefi fyrir ofan ruslbréf (e. junk bond). Fari lánshæfismat ríkisins niður í rusl, getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðinga, svo sem að margir fjárfestar megi hreinlega ekki eiga skuldabréf/skuldir þessara fyrirtækja.
Þennan dag var síðan tilkynnt að birta ætti samninginn. Eftir að hann var síðan birtur upphófst heljarmikill sirkus varðandi lögfræðina bak við þennan samning, en þar sem ég er bara vesæll verkfræðingur og bankamaður reyndi ég að sneiða framhjá þeim umræðum. Forsendur útreikninga minna stóðust ágætlega, en sumt var nokkuð óljóst í samningnum (eða ég svona lélegur í ensku lagamáli)
Ég var ennþá að klóra mér í hausnum yfir því af hverju 1.195 ma.kr. eignir dygðu ekki fyrir 700 ma.kr. skuld. Eftir að hafa verið í viðtali í Speglinum á Rúv vegna þessa máls fórust mér að berast hinar ýmsu upplýsingar úr stjórnkerfinu og fjármálakerfinu um samninginn og hvernig raunverulega hann virkaði.
Til dæmis fékk ég loksins skýringu (sjá neðst í forsendum) á því af hverju 1.195 ma.kr. eignir duga ekki fyrir 700 ma.kr. skuld. Það er af því að Bretar og Hollendingar eiga líka forgangskröfu á eignirnar fyrir því sem þeir tryggðu umfram innistæðutryggingu samkvæmt tilskipun ESB. og því fengju þeir í raun ca. 630 ma.kr. forgangskröfu í eignirnar á móti 700 ma.kr. kröfu okkar, en þessar kröfur væru jafnréttháar.
Það þýðir á mannamáli að það er ekki krækiber í helvíti að það náist að borga upp alla skuldbindinguna og hvað þá vexti.(afsakið orðalagið)
Fram að þessum tímapunkti var ég á því að við þyrftum að taka þessa skuldbindingu á okkur þar sem kostnaðurinn við að hafna ríkisábyrgðinni og þar með samningum væri of há vs. að samþykkja samninginn. Þarna snérist ég alveg. Þessi samningur gerir ekkert annað en að lengja í hengingarólinni, eða eins og einhver kallaði samninginn "stærsta kúlulán sögunnar".
Ég fékk líka upplýsingar fyrir helgi um að eitthvað væri bogið við túlkun stjórnvalda á skýrslu "virtu ensku endurskoðunarskrifstofuna
Eitt mega stjórnvöld eiga. Þann 21. júní voru loksins komnar mjög ýtarlegar upplýsingar inn á island.is um samninginn, skýringar, fylgiskjöl og Q&A. Þar á meðal var hin margrædda skýrsla "virtrar enskrar endurskoðunarskrifstofu" og viti menn. Þetta er skýrsla um hvernig sveitarfélög eigi að fara með kröfur sínar á hendur íslensku bönkunum og dótturfélögum þeirra. Á einni blaðsíðu af 15 kemur fram að þeir hafa notað sömu kynningu og ég fann á netinu um eignir Landsbankans og reiknað sig fyrst í 90% heimtur upp í skuldir (1.330/1.195=90%) en vegna óvissu um verðmat á eignum milli gamla og nýja Landsbankans gáfu þeir sér að þetta gæti hækkað í 100%, en tóku síðan meðaltalið og fengu 95%. Ég hefði geta metið þetta á 5 mínútum.
Þannig var nú það, upplýsingarnar frá virtu ensku endurskoðendunum voru í raun unnar upp úr glærukynningu Landsbankans en ekki eftir skoðun á þessum blessuðu eignum sem eiga að standa bak við þetta. Erum við þá komin í hring?
Stjórnvöld virðast líka hafa gleymt að lesa alla skýrsluna. Á blaðsíðu 13 er farið yfir áhættuþætti varðandi mat á hvað fáist upp í skuldbindinguna. Þar kemur fram að það sé líklegt að aðrir kröfuhafar fari í mál til að reyna að fella neyðarlögin (þar sem innlán voru sett í hóp forgangskrafna) og ef þau falli er líklegt að það fáist eingöngu 33% upp í kröfuna !!!
Þann 22. júní var haldinn fundur í efnahags- og skattanefnd þar sem umræðuefnið var IceSave samningurinn. Var skilanefnd Landsbankans boðið. Þar var síðan staðfest það sem ég hafði verið að velta fyrir mér, þ.e. vextir af láninu eru ekki forgangskröfur og falla að fullu á íslenska ríkið og að við deilum aðgangi að eignum Landsbankans með hinum forgangskröfuhöfunum (Bretum og Hollendingum).
Þetta er sem sagt samantektin á IceSave farsanum séð frá mínum bæjardyrum. Einhvern veginn hefur sú tilfinning mín vaxið að kostnaðurinn og áhættan við að hafna ríkisábyrgðinni og þar með fella þennan samning hafi minnkað í hlutfalli við kostnað og áhættu við að samþykkja samninginn. Einhvern veginn fær maður það á tilfinninguna að þessi samningur geri ekkert annað en að lengja í hengingarólinni. Það verður reyndar spennandi að sjá lagafrumvarpið sem lagt verður fram á Alþingi varðandi ríkisábyrgðina, en þá hljóta stjórnvöld að koma með útreikninga á getu þjóðarbúsins til að standa við samningana. Eitt sem þarf að varast við slíka kynningu er að það er rangt að bera greiðslugetuna saman við landsframleiðslu, heldur þarf að bera hana saman við afgang af erlendum viðskiptum okkar, því við verðum að greiða þetta í gjaldeyri, ekki íslenskum krónum.
Svona er málið fram á þennan dag séð frá mínum bæjardyrum. Ég mun halda ótrauður áfram að djöflast í þessu máli. Nú voru að berast upplýsingar um að ríkisábyrgðin yrði lögð fyrir Alþingi á föstudaginn. Spurning um að mæta á pallana?
![]() |
Hagstæð ákvæði Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
23.6.2009 | 07:47
Smá upprifjun um Buiter skýrsluna og LÍ
Landsbankinn óskaði eftir að sérfræðingarnir Buiter og Sibert frá London School of Econimics myndu greina stöðu íslenska bankakerfisins, skýrslunni var svo stungið undir stól, ekki hugnaðist Landsbankamönnum niðurstöður skýrslunnar.
Hér er greinin sem höfundur birti í Financial Times:
http://blogs.ft.com/maverecon/2008/10/icelands-bank-defaults-lessons-of-a-death-foretold/ og hér er skýrslan:http://www.nber.org/~wbuiter/iceland.pdf
Í skýrslunni má finna eftirfarandi yfirlýsingu frá Buiter:
"Early in 2008, Anne Sibert and I were asked by the Icelandic bank Landsbanki (now in receivership) to write a paper on the causes of the financial problems faced by Iceland and its banks, and on the available policy options. We sent the paper to the bank towards the end of April 2008.
On July 11, 2008, we presented a slightly updated version of the paper in Reykjavik in front of an audience of economists from the central bank, the ministry of finance the private sector the academic community. A link to that paper can be found here.
Because our Icelandic interlocutors considered the paper to be too market sensitive, we agreed not to put it in the public domain. Our main point was that Icelands banking sector, and indeed Iceland, had an unsustainable business model."
Gott væri að fá svör við eftirfarandi:
Er það rétt að Baldur ráðuneytisstjóri hafi ekki haft vitneskju um skýrsluna og niðurstöður hennar? Var hann svo gjörsamlega meðvitundarlaus í starfi sínu um að íslenska bankakerfið væri dauðadæmt Baldur selur svo eins og svo margir innanbúðarmenn hlutabréfin sín korteri fyrir hrun.
Hver er ábyrgð eigenda LAIS þegar stjórnin - sem í sitja fulltrúar hluthafa - taka ákvörðun að opna Icesave í maí 2008, EFTIR að þessi skýrsla var birt?
Væri ekki rétt að eigur þessara manna gengu upp í ICESLAVE kröfurnar? Er ekki kominn tími til að höfða mál gegn eigendum LAIS fyrir vítavert gáleysi og ásetningsbrot?
![]() |
Sögðu ríkið ábyrgjast Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.6.2009 | 12:53
Bandormsræðan mín frá því í gær
Frú forseti
Undanfarna tvo áratugi hafa nánast allir sameiginlegar eignir þjóðarinnar verið seldar á útsölu í einkavinavæðingarklúbbnum sem á rætur sínar að rekja hingað í hina háu sali ráðamanna ríkisins. Enn sitja margir þeirra sem tilheyra þessum klúbbi á þinginu og því efast maður um að hér muni fara fram alvöru uppgjör og siðabót á þeirri miklu spillingu sem hefur fengið að grassera hérlendis. Spillingin og samtryggingin svo mikil að hún mælist ekki einu sinni á alþjóðastöðlum, samtygging sem skilgreina má sem mafíu.

Það sem þjóðin þarf að finna fyrir í dag er réttlæti, trú á því að hún hafi ástæðu til að fórna enn meiru. Til að geta tekist á við langan dimman vetur samdráttar og lakari lífsgæða til lengri tíma. Sú staðreynd að enginn hefur verið dreginn til saka fyrir þá svikamyllu sem hér var stunduð fyrir opnum tjöldum í einkavinavæddu bönkunum er ekki til þess fallið að almenningur sé tilbúinn til frekari fórna. Það er ekki réttátt að þjóðin eigi að taka á sig skerðingu á sínum kjörum, þurfi að vinna lengur dag hvern fyrir brot af þeim lífsgæðum sem hún áður bjó við á meðan þetta fólk gengur laust. Kæra frú forseti það er verið að byrja á röngum enda. Fyrst þarf að taka á samtryggingunni og spillingunni. Fyrst hefði átt að kynna niðurskurð á spikinu en ekki mergsjúga þjóðina. Fyrst ætti að elta fjármagnið til huldueyjanna og gera eignir þeirra sem allir vita að eru sekir upptækar.

Til þess að það náist sátt um niðurskurð er nauðsynlegt að einhenda sér í það að láta Evu Joly allt það í té sem hún óskar eftir svo að rannsóknin verði ekki fyrir frekari töfum. Það er nauðsynlegt að þeir sem bera ábyrgð á þessum alherjahruni axli ábyrgð nú þegar, áður frekari fórna er óskað af þjóðinni með aukinni skattheimtu og niðurskurði á velferðarkerfinu. Það eru ekki bara hinir svokölluðu útrásarvíkingar sem verða að sæta ábyrgð, það eru þeir yfirmenn stofnanna sem sváfu á verðinum sem þurfa að sæta ábyrgð, það er gjörvalt embættismannakerfið sem þarf nákvæmrar endurskoðunar við og þar verður að fara fram alvöru uppgjör, annars mun hér aldrei verða friður. Slíkar aðgerðir eru það eina sem mun verða til þess að fólk sé tilbúið að taka þátt í endurreisn samfélagsins. Til hvers að endurreisa samfélag sem getur allt eins hrunið á nákvæmlega sama hátt og það sem áður hrundi. Það er alveg ljóst að það mun gerast ef hér verða ekki róttækar stjórnsýslulegar breytingar. Það þýðir ekkert að setja plástra á innri mein, það verður að hreinsa meinið, taka bandorminn út úr görnunum. Því ættum við að styðja slíkt sníkjudýr sem mun éta inniviði samfélags okkar að forskrift alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég skora á hæstvirtan fjármálaráðherra að benda mér á þjóðir sem hafa komið vel útúr AGS prógrammi. Ég get talið upp fjöldann allan af þjóðum sem hefur farið mjög illa út úr samskiptum við þennan sjóð. Það er sorglegra en tárum taki að horfa upp á hæstvirtan fjármálaráðherra hlýða AGS án þess að blikna og neita að horfast í augu við að aðrar leiðir séu færar út úr þessu vandamáli.

Flestir ráðamenn afskrifuðu slíkar varnaðarræður sem vænisjúka orðræðu og eitthvað sem myndi aldrei geta átt sér stað hér á landi, en því miður varð ég vitni að því að okkar hæstvirti fjármálaráðherra gaf umboð til undirskrifta á samning, þar sem vafaatriði eru um hvort að hann feli í sér framsal á auðlindum og eignum þjóðarinnar ef ekki er staðið í skilum á samning sem næsta ljóst er að við munum ekki geta efnt, sama hve viljinn er góður til slíks.
Við verðum að vera á varðbergi og ekki leyfa okkur að taka slíkar áhættur. Hvað með einhliða upptöku annars gjaldmiðils, eða er bara til ein mynt í þessum heimi sem kennd er við Evrópu? Er kannski bara til ein lausn hjá hæstvirtri ríkisstjórn? Sú leið að gagna í ESB. Hvað gerist ef þjóðin hafnar því? Er eitthvað plan B ef svo verður?
Ég óska eftir plani B ef þjóðin hafnar aðild að ESB. Ég óska eftir hugrekki í því að taka erfiðar ákvarðanir eins og til dæmis að hafna Icesave samningunum því það er alveg ljóst að þessi samningur er ekki það sem hann sýnist.

Ég er sannfærð um ef að við byrjum á réttum enda, ef við tökum fyrst á spillingunni, og færum þá til dómstóla sem arðrændu okkur og svívirtu okkar mannorð. Þá séu forsendur til að leggja upp með nýjar áherslur í samfélagi okkar, þar sem áherslur verða lagðar á að neyslumenning víki manneskjulegra og fjölskylduvænna samfélagi Ég er alveg viss um að þjóðin sé til í að leggjast á árarnar með hvaða ríkisstjórn sem er ef hún upplifir réttlæti og rétta forgangsröðun. Ég er viss um, ef þjóðin sjái fram á bjarta framtíð með raunverulegum breytingum og sanngirni eftir þessa dimmu nótt að hún sé til í að taka þátt í endurreisninni. Ég er viss um að ef þeim sem þjást núna vegna ónógs skilnings á erfiðleikum sem þeir standa frammi fyrir í ómanneskjulegu kerfi, ef þeim verður rétt hjálparhönd, að þeir hinir sömu séu til í að horfa handan þess taps sem það hefur orðið fyrir, en það verður réttlætið að hafa sinn gang. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þær áherslur sem hæstvirt ríkisstjórn er með í þessu frumvarpi.
![]() |
Fara framhjá gjaldeyrishöftum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2009 | 11:25
AGS einir um að sjá eignasafnið
Í gær áttum við Þór Saari fund með fulltrúa frá Hollandi sem var í samninganefndinni. Þar kom margt áhugavert í ljós. Það sem mér fannst ef til vill áhugaverðast að komast að var að enginn í samninganefndinni hefur séð eignasafnið. Þeir sem hafa séð hverjar raunverulegu eignirnar sem eiga að ganga upp í skuldina risastóru eru endurskoðendaskrifstofan breska sem mat að hægt væri að endurheimta 95% af eignunum og landsstjórar landsins: AGS. Landsstjórinn tjáði samningsfólkinu að þetta væri traust eignasafn og sennilega borið þau traustu tíðindi til okkar ástkæru landshjúa Jóhönnu og Steingríms. Steingrímur þessi étur nú úr hendi AGS sem þægur ...... og hinn dæmalausi viðsnúningur hans verður seint útskýrður. Skora á hann að segja okkur hvað veldur.
Við sögðum þessari ágætu manneskju að það væri ekki hægt að bjóða þingmönnum né þjóðinni upp á það að samþykkja sem enginn hefur séð. Við sögðum henni að við myndum fella þennan gjörning með öllum tiltækum ráðum ef við fengjum ekki allt upp á borðið - hvert einasta pappírsbleðil svo hægt væri að taka upplýsta ákvörðun. Við sögðum henni að við hefðum engra hagsmuna að gæta nema þjóðarinnar og að við gætum aldrei samþykkt að þjóðin yrði hneppt í kreppuástand til 2024 eða lengur.
Þessi ágæti fundargestur spurði hvort að við ætluðum virkilega að leggja til að einangra þjóðina (aftur) með því að skila AGS láninu, AGS teldi að við getum auðveldlega borgað allar okkar skuldir. Við þessi orð fékk Þór hláturskast enda verið hans vinna um nokkurt skeið að aðstoða lönd í Afríku sem AGS hefur rústað með sínum einstaklega skynsamlegu aðferðum. Hann taldi upp nokkur lönd sem AGS sagði nákvæmlega sama um og okkur og spurði fundargestinn um afdrif þeirra.
Síðan sagði hann sem fundargesturinn gat ekki hrakið: ef við skilum láninu þá munum við einangrast í mesta lagi í tvö ár en við erum nú þegar einangruð og það mun ekkert breytast - það eina sem mun breytast er að þjóðin mun ekki þurfa að taka á sig skuldir umfram greiðslugetu og vera í mörgum sinnum lengri kreppu en aðrar þjóðir. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að yfirmenn okkar og við mörg hver neitum að horfast í augu við veruleikann: við okkar vanmátt. Veruleikinn er þessi: við erum nánast gjaldþrota, við getum ekki greitt skuldirnar sem okkar ráðalausu ráðamenn eru að samþykkja og undirrita að þjóðinni forspurðri. Skynsamlegast væri að fara fram á afskriftir og leggja allt kapp á að endurbyggja það sem hrundi hér á öðrum forsendum en við höfum gefið okkur.
Við spurðum fundargestinn af hverju Bretland og Holland vildu ekki taka áhættuna með okkur og taka við eignasafninu í stað þess að láta okkur taka alla áhættuna. Gestinum varð fátt um svör. Við lögðum til að við myndum gera allt til að hjálpa þeim af hafa upp á þeim aðilum sem eru hinir eiginlegu glæpamenn í þessu öllu saman - fólk sem núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir leyfir að valsa um og halda áfram að blóðmjólka þjóðina. Mér verður alltaf betur og betur ljóst að okkar litla samfélag höndlar ekki að vinna úr þessari samspillingu.
Þór spurði þessa ágætu nefndarmanneskju hvort að ef dæminu væri snúið við og ef hún væri í okkar sporum á hollenska þinginu, hvort að hún gæti hugsað sér að samþykkja slíkan samning: svarið var auðvitað eins og okkar: NEI.
Ég spurði hvort að það væri rétt að hollendingar stæðu í vegi fyrir að þjóðin fengi að sjá samninginn og fékk svarið nei, og ekki nóg með það heldur féllu líka eftirfarandi orð: okkur er kennt um allt...
Við komum því skýrt til skila að auðvitað hefðum við fulla samúð með því fólki sem hafði verið rænt - en útskýrðum að það væri óréttlátt að þjóðin sem aldrei skrifaði upp á þessar skuldir hérlendis yrðu rænd. Við viljum að sjálfsögðu axla ábyrgð en það eru til aðrar leiðir en að arðræna þjóðina. Við erum í erfiðri stöðu og þurfum að sýna iðrun og ábyrgð - það gerum við með því að sýna hugrekki við að uppræta spillinguna - hér þarf að hugsa stórtækt og ekki þess virði að setja veð í vinnu komandi kynslóða til að taka til eftir slóðaskap og klíkusamfélag sem virðist hafa leyft hér spillingu að þvílíkum stærðargráðum að grassera að hún mældist ekki einu sinni í alþjóða könnunum... Það þurfa að fara fram hreinsanir og fyrsta skrefið væri að frysta eigur þeirra sem hafa með sanni sýnt sviksamlega hegðun. Hver dagur sem ekkert er gert - er þjóðinni dýr.
Niðurstaða mín af þessum fundi er einfaldlega þessi: Íslendingar stjórna ekki ríkisfjármálum sínum heldur eru þau alfarið í höndunum á alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Margir vissu það en ég held að fæstir viti hvað það þýðir til lengri tíma og hve víðtæk þeirra afskipti eru. Ég mun eftir að hafa lesið tillögur AGS sem ég fékk í hendurnar í gær, um hvernig ríkið á að fara eftir þeirra kröfum, skrifa um það á þann hátt að ég sjálf skilji það og þá vonandi aðrir:) Það er afar mikilvægt að almenningur skilji hvað framundan er og geti þá tekið upplýsta ákvörðun um það hvort að það vilji taka þátt í því eða einfaldlega fara. Ef almenningur veit ekki hvert er verið að stefna þá mun hann ekki geta veitt sínum fulltrúum á þingi nægilegt aðhald eða komið með lausnir. Hef fengið fullt af gagnlegum tillögum í tölvupósti og samtölum frá almenningi og mun gera mitt besta til að koma þeim að í þessu völdunarhúsi valdsins sem ég starfa í og er sagt að ég geti engum treyst þar innan búðar... það er dálítið skringilegt að vinna á þannig vinnustað.
![]() |
Gátu ekki stöðvað Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
Tenglar
Nýja Ísland
Ég les:
Tíbet
- Fréttir frá Tibet
- Tibet Info Net An Independent Information Service on Contemporary Tibet
- Undercover in Tibet Ný heimildarmynd frá Channel 4 um hvernig ástandið er í raun og veru í Tíbet
- Leaving Fear Behind Viðtöl við Tíbeta í Tíbet stuttu fyrir mótmælin í mars
- Cry of the Snow Lion Margverðlaunuð heimildarmynd um Tíbet
- Yeti - heimildarmynd
- Yogis of Tibet Heimildarmynd um Jógameistara Tíbets sem eru óðum að hverfa
- Students for a Free Tibet
- Dalai Lama
- Tibetan Uprising
- Kerti fyrir Tíbet
- Tibet TV
- Central Tibetan Administration
- Om mani padme hum
Ýmsar slóðir
sem ég man eftir í andartakinu
- The Hunger Site
- THE MEATRIX
- Myspace síðan mín
- Úgáfan Beyond Borders Alþjóðleg útgáfa sem ég stofnaði árið 1999 í netheimum
- Hitt bloggið mitt
- Félagið Ísland-Palestína
- Womb of Creation Vefurinn minn sem ég hef haldið við síðan 1995
- Myspace síðan hennar mömmu
- Saving Iceland
- Be the change:)
- Náttúra vefur með umhverfisvitund
- Nattura info
- Care 2 make a Difference
Bækur
Bækurnar mínar
-
: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni -
: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra. -
: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tónhlaða
Bloggvinir
-
ADHD
-
Agný
-
Alfreð Símonarson
-
Andrea J. Ólafsdóttir
-
Alexandra Briem
-
Andrés Magnússon
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Ari Sigurðsson
-
Baldvin Björgvinsson
-
Baldvin Jónsson
-
Baldvin Jónsson
-
Bara Steini
-
Bergur Sigurðsson
-
Bergur Thorberg
-
Bergur Þór Ingólfsson
-
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
-
Binnan
-
Birgir Þórarinsson
-
Birna Rebekka Björnsdóttir
-
Bjargandi Íslandi
-
Bjarkey Gunnarsdóttir
-
Björgvin R. Leifsson
-
SVB
-
Brjánn Guðjónsson
-
Brosveitan - Pétur Reynisson
-
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
-
Brynja skordal
-
Brynjar Hólm Bjarnason
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
-
Daníel Haukur
-
Dorje
-
Dísa Dóra
-
Egill Bjarnason
-
Egill Jóhannsson
-
Einar Guðjónsson
-
Einar Indriðason
-
Einar Vignir Einarsson
-
Einar Ólafsson
-
Eiríkur Bergmann Einarsson
-
Eldur Ísidór
-
Elyas
-
Elín Sigurðardóttir
-
Elísabet Markúsdóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Erna Hákonardóttir Pomrenke
-
Eva Benjamínsdóttir
-
Eydís Hentze Pétursdóttir
-
Eyjólfur Kristinn Vilhjálmsson
-
FLÓTTAMAÐURINN
-
Finnur Bárðarson
-
Friðrik Hansen Guðmundsson
-
Friðrik Þór Guðmundsson
-
Fríða Eyland
-
Félag Anti-Rasista
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Gaukur Úlfarsson
-
Georg P Sveinbjörnsson
-
Gerður Pálma
-
Gestur Guðjónsson
-
Goggi
-
Greta Björg Úlfsdóttir
-
Gunnar Pétursson
-
Gunnar Rögnvaldsson
-
Gunnar Skúli Ármannsson
-
Gunnlaugur B Ólafsson
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Guðjón Baldursson
-
Guðjón Bergmann
-
Guðjón Heiðar Valgarðsson
-
Guðmundur Helgi Helgason
-
Guðmundur M Ásgeirsson
-
Guðmundur Ragnar Guðmundsson
-
Guðmundur Steingrímsson
-
Guðmundur Ásgeirsson
-
Guðný Lára
-
Guðrún S Sigurðardóttir
-
Guðsteinn Haukur Barkarson
-
Gísli Hjálmar
-
Haffi
-
Halldór Sigurðsson
-
Hannibal Garcia Lorca
-
Haukur Már Helgason
-
Heidi Strand
-
Heilsa 107
-
Heiða Þórðar
-
Helga Auðunsdóttir
-
Kaleb Joshua
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Himmalingur
-
Hilmar Gunnlaugsson
-
Hjálmtýr V Heiðdal
-
Hjörleifur Guttormsson
-
Hlekkur
-
Hlynur Hallsson
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Hlédís
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Hulla Dan
-
Hólmfríður Guðlaug Einarsdóttir
-
Hörður B Hjartarson
-
Húmoristaflokkurinn
-
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir
-
Ingibjörg Helga
-
Ingibjörg SoS
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Isis
-
Jakob Falur Kristinsson
-
Jakob Smári Magnússon
-
Jakob Þór Haraldsson
-
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
-
Jens Guð
-
Johann Trast Palmason
-
Jóhannes Ragnarsson
-
Jón Bjarnason
-
Jón Gerald Sullenberger
-
Jón Sigurgeirsson
-
Jón Svavarsson
-
Jón Valur Jensson
-
Jón Þór Ólafsson
-
DÓNAS
-
Katrín Mixa
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Ketill Sigurjónsson
-
Ketilás
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Konráð Ragnarsson
-
Kristbergur O Pétursson
-
Kristján B. Jónasson
-
Kristján Kristjánsson
-
Kristján Logason
-
Kristín Dýrfjörð
-
Kristín Snorradóttir
-
Krummi
-
Kári Harðarson
-
Landvernd
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Lovísa
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Lýður Árnason
-
Mafía-- Linda Róberts.
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
Margrét Lóa Jónsdóttir
-
Margrét Sigurðardóttir
-
Markús frá Djúpalæk
-
María Kristjánsdóttir
-
María Pétursdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Morgunblaðið
-
Myndlistarfélagið
-
Mál 214
-
Máni Ragnar Svansson
-
Neo
-
Oddi
-
Paul Nikolov
-
Perla
-
Pjetur Hafstein Lárusson
-
Pálmi Gunnarsson
-
Pálmi Guðmundsson
-
Ragnar Þór Ingólfsson
-
Rannveig H
-
Ransu
-
Róbert Björnsson
-
Rögnvaldur Hreiðarsson
-
Rúnar Sveinbjörnsson
-
Rúnar Þór Þórarinsson
-
Salvör Kristjana Gissurardóttir
-
Samstaða - bandalag grasrótarhópa
-
SeeingRed
-
Sema Erla Serdar
-
Sigga
-
Signý
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
-
Sigurgeir Þór Hreggviðsson
-
Sigurjón Sigurðsson
-
Sigurður Hrellir
-
Sigurður Sigurðsson
-
Sigurður Þór Guðjónsson
-
Skuldlaus
-
Snorri Sturluson
-
Soffía Valdimarsdóttir
-
Stefán Friðrik Stefánsson
-
Þorsteinn Briem
-
Steinunn Helga Sigurðardóttir
-
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
-
Stríða
-
Sveinbjörn Eysteinsson
-
Sveinn Hjörtur
-
Sveinn Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Swami Karunananda
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sævar Finnbogason
-
Sævar Einarsson
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sóldís Fjóla Karlsdóttir
-
Sóley Tómasdóttir
-
Sólveig Klara Káradóttir
-
TARA
-
Tilkynning
-
Tinna Jónsdóttir
-
Trausti Traustason
-
Tryggvi Gunnar Hansen
-
Tína
-
TómasHa
-
Valgeir Skagfjörð
-
Valgerður Halldórsdóttir
-
Vefritid
-
Vilborg Eggertsdóttir
-
Vilhelmina af Ugglas
-
Vilhjálmur Árnason
-
Villi Asgeirsson
-
Vinir Tíbets
-
Viðar Eggertsson
-
Viðar Freyr Guðmundsson
-
Vér Morðingjar
-
Vésteinn Valgarðsson
-
arnar valgeirsson
-
fingurbjorg
-
hreinsamviska
-
leyla
-
molta
-
oktober
-
Einhver Ágúst
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Ár & síð
-
Árni Þór Sigurðsson
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Ásgerður
-
Ásta Hafberg S.
-
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
-
Ævar Rafn Kjartansson
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Ólaf de Fleur Jóhannesson
-
Ólafur fannberg
-
Ólöf de Bont
-
Ómar Ragnarsson
-
Óskar Arnórsson
-
Örlygur Hnefill Örlygsson
-
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
-
Þröstur Unnar
-
Þór Jóhannesson
-
Þór Saari
-
Þórhildur og Kristín
-
Þórður Björn Sigurðsson
-
Þórólfur S. Finnsson
-
Andrés.si
-
Anna Karlsdóttir
-
Anna Margrét Bjarnadóttir
-
Ari Jósepsson
-
Aron Ingi Ólason
-
Axel Þór Kolbeinsson
-
Barði Bárðarson
-
Bergþór Gunnlaugsson
-
Billi bilaði
-
Bjarki Steingrímsson
-
Bjarni Kristjánsson
-
Bogi Jónsson
-
brahim
-
Daði Ingólfsson
-
Daníel Sigurður Eðvaldsson
-
Dóra litla
-
Dúa
-
Einar Björn Bjarnason
-
Elsabet Sigurðardóttir
-
Esther Anna Jóhannsdóttir
-
Frosti Sigurjónsson
-
Grétar Eiríksson
-
Guðbjörg Hrafnsdóttir
-
Guðmundur Óli Scheving
-
Gunnar Helgi Eysteinsson
-
Héðinn Björnsson
-
Hreyfingin
-
Hulda Haraldsdóttir
-
Högni Snær Hauksson
-
Ingvi Rúnar Einarsson
-
Ísleifur Gíslason
-
Jack Daniel's
-
Jóhann Ágúst Hansen
-
Jóhannes Þór Skúlason
-
Jóhann Pétur
-
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir
-
Jónas Bjarnason
-
Jón Kristófer Arnarson
-
Jón Lárusson
-
Karl Gauti Hjaltason
-
Lísa Björk Ingólfsdóttir
-
Lúðvík Lúðvíksson
-
Madhav Davíð Goyal
-
Magnús Ragnar (Maggi Raggi).
-
Morten Lange
-
Óðinn Kári Karlsson
-
Ólafur Eiríksson
-
Ólafur Ingi Hrólfsson
-
Pjetur Stefánsson
-
Rafn Gíslason
-
Rannsóknarskýrslan
-
Rúnar Freyr Þorsteinsson
-
Sigurbjörn Svavarsson
-
Sigurður Einarsson
-
Sigurður Jónsson
-
Sigurður Sigurðsson
-
Sigurður Þórðarson
-
Sigþrúður Þorfinnsdóttir
-
Sveinbjörn Ragnar Árnason
-
Vaktin
-
Vilhjálmur Sveinn Björnsson
-
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE
-
Þorsteinn Helgi Steinarsson
-
Þorsteinn Valur Baldvinsson