Leita í fréttum mbl.is

Munu kínversk yfirvöld ræða við hann?

Dalai Lama

Ég var að klára að lesa afar fróðlega bók sem heitir "Leitin að Panchen Lama". Í henni er fjallað um sögu tíbeskra lama sem og sögu Tíbets með höfuð áherslu á tvö atriði, samband Dalai Lama og Panchen Lama. Þeir hafa jú báðir endurholdgast um langa hríð og átt í miklum samskiptum í gegnum aldirnar. Sú hefð hefur verið á að Panchen Lama stjórnar leitinni að næstu endurholdgun af Dalai Lama og Dalai Lama að Panchen Lama. 

Kínversk yfirvöld rændu þeim dreng sem Dalai Lama útnefndi sem Panchen Lama og hefur ekkert til hans spurst né fjölskyldu hans síðan 1995. Kínversk yfirvöld völdu sjálf sinn Panchen Lama sem er merkilegt því þeirra stefna er trúleysi en samt telja þau sig hafa yfir nægilegum andlegum burðum til að geta tekið ákvörðun af þessu tagi gagnstætt vilja þeirra sem trúa á endurholdgun. 

Maður hlýtur því að spyrja sig hver tilgangur þess hafi verið og ef til vill var það þeirra ósk að þeir gætu breytt gangi sögunnar í þessari mikilvægustu athöfn tíbetskrar þjóðmenningar með þessum gjörningi.

Dalai Lama eldist og þrátt fyrir almenna góða heilsu þá veit maður aldrei hvenær dauðinn knýr dyra. Það er einlæg ósk Tíbeta sem og þeirra er láta sig málefni landsins varða að kínversk yfirvöld hefji viðræður við Dalai Lama um framtíð landsins. Að því hefur verið unnið leynt og ljóst um langa hríð, en engu hefur sú viðleitni skilað. Kannski hafa kínversk yfirvöld málað svo ljóta mynd af þessum manni friðar og manngæsku að þeir geta ekki farið úr þessu að ræða við hann og jafnframt haldið andliti. Ég vona að pólitíska spil CCP verði ekki að hunsa Dalai Lama uns hann deyr. Ég vona að þeir muni hafa gæfu til að snúa við þessari harðneskju sem þeir beita Tíbeta. 

nobelpeace

Bókin fjallar einnig um pólitíska sögu Tíbet og verður manni það deginum ljósara að Kína átti ekki meira tilkall til Tíbet en Danmörk til Íslands.

Þá fjallar bókin um hvaða hlutverk Panchen Lama lék í að reyna sannfæra þjóð sína um að kommúnismi væri þeim til góða. Það verður að hafa í huga að bæði Dalai Lama og Panchen Lama voru ansi ungir að árum þegar innrásin var gerð í landið. Honum varð þó ljóst eftir að hann sá með eigin augum á ferðalagi um landið hve illa var farið með landa sína að kínverskum yfirvöldum var ekkert heilagt, hvort heldur það kom að mannslífum eða menningu Tíbeta. Hann skrifaði merkilegt bréf þar sem hann gagnrýnir kínversk yfirvöld harðlega fyrir ofbeldið á þjóð sinni og fær fyrir það að dúsa um langa hríð í fangelsi og sæta pyntingum og niðurlægingu. Þetta var annar valdamesti trúarleiðtogi Tíbeta á þessum tíma. Leiddar eru að því líkur í bókinni að Panchen Lama hafi verið myrtur í Tíbet og sú manneskja sem lék aðalhlutverkið í þeim harmleik var enginn annar en núverandi forseti Kína, Hu

hu

Meðan ég var að lesa þessa bók og um hlutverk þessa manns í nokkrum verstu voðaverkum sem tíbeska þjóðin hefur orðið að þola, fór forseti okkar miklum og drakk kampavín og talaði fjálglega um hvað litlar þjóðir væru í eðli sínu stórar, hann talaði um frekara samstarf á sviði viðskipta en minntist aldrei á mannúð eða mannréttindi. Svo stór þjóð erum við að við eigum forseta sem þorir ekki að tala um mannréttindi. Hvað ætli það segi um okkur?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum málefnum, ég veit eiginlega ekki af hverju. Ég hef lesið og hlustað á fræði Dalai Lama og komist að því að þessir maður er nánast guðlegur, ekki vegna þess að hann geti framkvæmt kraftaverk eða gengið á vatni. Nei guðlegur í því hvernig hann er mennskur. Þrátt fyrir að liggja á spítala, þá fastaði hann í 12 tíma táknrænni föstu sem snérist öll um að biðja fyrir hamingju og friði allra sem á þessari jörð búa, með höfuð áherslu á frið meðal Tíbeta og Kínverja.

Á meðan styggðaryrðin hnjóta af vörum kínverska yfirvalda í hans garð, biður hann fyrir því að þeir öðlist hamingju á sjúkrabeði í fyllstu einlægni, mér finnst það bera vott um að laða fram það besta sem í mannlegu eðli býr og get ekki annað en notað hann sem mína fyrirmynd í þessu lífi. 

Panchen Lama

Vegna þess að ég hef aldrei séð eða heyrt hann segja neitt sem brýtur gegn minni samvisku eða siðferðiskennd, vegna þess að ég hef alltaf séð hann velja veg friðar, þó manni sé fyrirmunað að skilja hvernig það sé hægt, vegna þess að hann hefur þurft að missa vini, ættingja, og eina milljón af þjóð sinni yfir móðuna miklu vegna aðgerða kínverskra yfirvalda. Vegna þess að þrátt fyrir að horfast í augu við þjáningu heimsins hefur hann slíka útgeislun að ósjálfrátt læðist bros frá innstu hjartarótum þegar maður sér hann, vegna þess finnst mér það vera mikil blessun að slík manneskja sé til sem getur með tilveru sinni einni verið leiðarljós á tímum sem auðvelt væri að missa trúna á manneskjunni.

Fyrir það er ég þakklát og vegna þess vil ég gera það sem er í mínu mannlega valdi til að hjálpa þjóð hans sem engum hefur gert neitt en verið er að þurrka út. Ég er þakklát fyrir þessa menningu friðar og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni frá bernsku, ég er þakklát og hef skilið að það sem færir mér mesta hamingju í lífinu kemur frá þeim einfalda gjörningi að hjálpa öðrum af hjartans einlægni.

Bókina sem ég vísa í má fá á Amazon, hún heitir The Search for the Panchen Lama og er eftir Isabel Hilton. Ég er að byrja á annarri bók sem heitir Why the Dalai Lama Matters eftir Robert Thurman, hef heyrt að hún sé mjög góð. Læt ykkur vita hvernig mér finnst sú lesning:) 


mbl.is Dalai Lama útskrifaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldur undir snjónum

Sýnishorn úr Fire under the Snow - heimildarmynd um munk frá Tíbet sem haldið var í fangelsi í 33 ár. Hann þurfti að þola pyntingar í öll þessi ár en sál hans og hugur var aldrei brotinn. Þetta er sagan hans og hinna fjölmörgu Tíbeta sem eru enn í fangelsi. Mörg þúsund Tíbeta hafa verið handteknir síðan í mars. Nokkur hundruð eruð horfnir. Ekki gera ekki neitt. Kynntu þér ástandið.
 

Legsteinn og Snæljón

Jæja þá er lokins að koma mynd á legsteininn fyrir hana mömmu. Þetta verður að sjálfsögðu enginn venjulegur legsteinn enda var hún engin venjuleg mannvera:) Fannst við hæfi að hafa grjótið í laginu eins og tólf strengja gítar og brot úr ljóði Steins Steinars ... Afturhvarfi á honum. Tek ljósmynd af listaverkinu þegar hann er klár, sem ætti að vera í næstu viku.

Annars þá finnst mér þetta orð legsteinn eitthvað svo niðurdrepandi - komið endilega með tillögur að betra orði. Ég breytti orðinu jarðaför í himnaför þegar við kvöddum mömmu. Væri gaman að fá áþekktan umsnúning:)

51r26dvszsl.jpgÉg þarf að hafa mikið fyrir því að horfa á heimildarmyndir um Tíbet og sé það alltaf betur og betur að aðgerða er þörf núna og ég heiti því að ég muni gera allt sem í mínu mannlega valdi er til að hjálpa þessari sérstæðu og friðelskandi þjóð til að öðlast frelsi til að fá að lifa og stunda sína menningu.

Ég var að horfa á mynd áðan sem heitir "The Cry of the Snow Lion". Ég var eiginlega komin með ekka á fyrstu mínútunum vegna þeirra miklu fórnar sem þessi þjóð hefur fært til þess eins að vera refsað fyrir umburðarlyndi sitt og þann einstaka hæfileika að geta fyrirgefið þeim sem brjóta á þeim. 

Myndin er annars ekki tilefni til eintómra tára, gefur manni einstaka innsýn í þessa merku menningu og ég hló líka innilega og hreyfst. Ég er svo þakklát fyrir að hafa tekið þessa stefnu að gera eitthvað fyrir Tíbeta. Þakklát vegna þess að ég hef þráð að kynnast þessari menningu um langa hríð en ekki vitað hvernig og um leið og ég fór að gera eitthvað þá má segja að Tíbet hafi komið til mín. Lífið er töfrum líkast og hvert sem maður fer og hvað sem maður gerir blasa við lítil kraftaverk til að örva gleðistöðvarnar sem og samkenndina með öllu lífi, nema kannski moskítóflugum:) 

Hér er slóð í myndina: Cry of the Snow Lion

 


Af sápuóperum í daglegu lífi kameljónsins

Það hefur oft verið sagt um lífshlaup mitt að það minni einna helst á fremur illa skrifaða sápuóperu og svo sem margt sem gæti rökstutt það. Hér áður fyrr fannst mér þessi sápuóperu tilfelli nánast óþolandi og næsta víst að ég ornaði mér við elda sjálfsvorkunnar oft á tíðum þegar þessi tilfelli komu upp:)

Sápuóperuplottið sem ég stend frammi fyrir í dag er þannig háttað að sjö ára sonur minn kemst ekki í skóla í okkar ástkæra vesturbæ vegna þess að skólastigið hans er sprungið og það er bara ekki pláss fyrir eitt barn í viðbót nema í þeim skóla sem hann getur ekki sótt vegna eineltis og vanlíðunar. Eina lausnin sem Menntasvið hafði fyrir okkur eftir árangurslausar tilraunir að fá pláss fyrir hann í smærri skólunum var að senda hann aftur í það umhverfi sem veldur honum vanlíðun og átti ég þá jafnframt að svíkja barnið og senda hann aftur þangað... -Þvílík steypa. 

AlsællÉg sótti um með góðum fyrirvara, strax í febrúar en það er svo troðið í hans bekkjastig að mér finnst furðu sæta að skólinn láti þetta yfir sig ganga. Engan skal þó furða að svona sé ástatt um skólamál borgarinnar eða menntamála almennt, enda kostar sitt að hafa 4 borgarstjóra á launum. Ég skora á þessa borgarstjóra sem ekki eru lengur í vinnunni að afþakka biðlaun sín. Það er eitthvað svo siðlaust að þiggja peninga fyrir ekki neitt þegar fólk er ekki á flæðiskeri statt og grunnþjónusta í molum.

Ég á því enga aðra úrkosti en að senda hann í einkaskóla, fjarri hverfinu okkar og fjarri vinum hans.

En það tekur allt tíma og því er ég með barnið enn heima og veit enn ekki hvenær hann fær að setjast á skólabekk. Ég verð að segja að úrræðaleysi í grunnþjónustu er ekkert einsdæmi og ég heyri stöðugt sögur af fólki sem á það reglulega erfitt og hefur nánast engin úrræði og allt þeirra líf hangir á þræði sem misfaglegt fólk heldur á og tilvera þeirra er bundin dyntum borgarstarfsmanna. Fólkið sem vinnur í borginni okkar á ekki sjö daga sæla, það er stöðugt verið að skipta um stefnur og yfirmenn. Illa tekst til að halda fólki í starfi þar sem engar lausnir eru að finna og á hverjum bitnar þessi óráðsía? Við vitum það öll: börnum, gamalmennum og þeim sem þurfa á stuðning að halda í þessu óvelferðarsamfélagi. 

Það sem er auðvitað ömurlegast við þetta allt er að maður getur ekki gert neitt til að breyta þessu fyrr en um næstu kosningar og satt best að segja þá veit maður ekki hvað það mun taka langan tíma að laga allt það sem hefur úr skorðum farið - grunnþjónustan er götótt og fúin og í mínum huga er það undirstaða borgarmála að sjá til þess að við fáum það sem við borgum fyrir með sköttum og gjöldum. 

Það sem er klikkaðast við þetta allt saman er að maður óskar þess núna að hafa ekki beðið um hjálp því sú hjálp sem ég átti að fá hefur aðeins gert málin sýnu verri.


Raddir fyrir Tíbet - myndband

Á því er að finna ljósmyndir af öllum sem tróðu upp, myndbandsupptöku af Páli Óskari og Moniku að flytja "Betri líf" fyrir hörpu og rödd, dans snjóljónsins og þjóðsöng Tíbeta. Veisla fyrir augu, eyru og sálina:)

Hægt að horfa á það í high quality ef þið farið inn á youtube til að skoða það - mæli með því.


Það er verið að krossfesta mann

Ekkert mátti spilla Ólympíugleðinni. Veit ekki hvort að það hafi verið einhver klausa í sýningarréttsamning þeim sem RÚV gerði til að fá að sýna Ólympíuleikana að þeir mættu ekki fjalla um Tíbet eða mótmæli sem tengjast Tíbet, en þessi mikla þögn sem þar var gagnvart þeim viðburðum sem Vinir Tíbets stóðu fyrir til að svara kalli þjóðarinnar eftir hjálp, er harla furðuleg. 

Kínversk yfirvöld hafa stundað svívirðilegt mannorðsmorð fyrir opnum tjöldum á Dalai Lama á meðan á Ólympíuleikunum stendur. Krossfesta manninn í beinni útsendingu með Ólympíulogann í einni hönd og munda "frelsisherinn" á Tíbesku þjóðina með hinni. Forsetinn okkar þorir ekki að rugga bátnum, talar um orkusamninga því hann er svo grænn hann Ólafur og auðvitað hvað smáþjóðir geta verið duglegar. (Tíbet flokkast undir smáþjóð, en þeir máttu auðvitað ekki koma á Ólympíuleikana, ekkert frekar en geðfatlaðir eða Falun Gong liðar).

Horfum í hina áttina, það er verið að krossfesta heila þjóð í skugga Ólympíuleikana en við skulum horfa í hina áttina því þetta eru innanríkismál í Kína og koma okkur ekkert við. Hvað kemur okkur það við þó leikföngin sem við kaupum frá Kína eru búin til í fangelsum í Tíbet sem eru yfirfull af pólitískum föngum. Föngum sem flestir eru munkar og nunnur sem geta ekki fundið það í hjarta sínu að afneita Dalai Lama. En það kemur okkur ekki við.

Á meðan á Ólympíuleikunum stóð kaus heimurinn að sitja hjá, horfa í hina áttina, ekkert mátti skemma skemmtunina, afrekin. En er það ekki afrek ef barn frá Tíbet nær því að komast af þegar það kemst við illan leik yfir hæstu fjallaskörð heimsins, illa búið með frostbitnar tær eftir 5 vikna göngu um nætur. Er það ekki afrek og sigur mannsandans að lifa af 33 ár í kínversku fangelsi þar sem hver dagur inniheldur pyntingar gerðar til þess að brjóta fangann niður og fá hann til að svíkja samvisku sína. Og þó tekst ekki að brjóta hann. 

Ég hef fundið óendanlega margar sögur um afrek og sigra Tíbeta en þó fá þeir aldrei sömu athygli og afreksmenn og konur okkar því það er bara of óþægilegt að vita og geri ekki neitt.

Ef Ólympíuleikarnir væru jólin og Dalai Lama væri Jesús og það væri verið að pynta og fangelsa kristna menn, þá væri ég viss um að heimurinn myndi horfa í hina áttina og segja með sjálfum sér: "það er ekki í anda jólanna að fjalla um pólitík og jólin í sömu andrá". 

 


Hér vantar betri blaðamennsku

Konan frá Bretlandi var aðeins að ljósmynda aðgerðina og átti hún ásamt öllum hinum að sitja í fangelsi í 10 daga - það var aðeins út af þrýstingi stjórnvalda þeirra landa sem þetta fólk kom frá að þeim var sleppt tveimur dögum eftir að hafa verið handtekin. 

3 aðrir að þeim sem handteknir voru - voru í Peking til að taka upp hina hliðina á Ólympíuleikunum. Þau voru handtekin fyrir það að taka ljósmyndir af mótmælum... er ekki eitthvað skakkt við það?


mbl.is Mótmælendum vísað úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hilight Tribe - skemmtilega skringilegt myndband

 Er að hamast við að klára myndasýningu sem backdrop fyrir Raddir fyrir Tíbet
datt niður á þetta skemmtilega lag og myndband og langaði bara að deila því með ykkur:) 

Fjölmiðla "blackout" á málefni Tíbets hérlendis

Free Tibet sjónvarpsstöðin

Frábær sjónvarpsstöð sem samtökin Students for a free Tibet halda úti í tengslum við Ólympíuleikana. Stöðin sendir bæði fréttaþátt live og svo er hægt að finna ógrynni af efni sem tengist frelsisbaráttu Tíbeta, hvort heldur það sé nú í dag eða fyrir 50 árum. Hér á Íslandi hafa engir fjölmiðlar lagt vinnu í að kynna sér ástandið eða grafa dýpra en stopul fréttaskeyti frá sínum erlendu fréttaveitum. Ég hef fylgst með athygli því sem komið hefur fram í alþjóðafjölmiðlum en ekki er hægt að segja það sama um þá sem eiga að miðla fréttum til almennings hérlendis. Hef ekki séð neina frétt um þá blaðamenn sem voru handteknir fyrir að vilja fjalla um friðsamleg mótmæli í Peking undanfarna daga. Þessir blaðamenn munu þurfa að vera í fangelsi í 10 daga í Kína fyrir það EITT að vera í vinnunni sinni. Hvar er fjölmiðlafrelsið og af hverju finnst íslenskum kollegum það ekki fréttnæmt að verið er að troða á frelsi til að flytja fréttir. Af hverju er nánast engar fréttir um eitthvað annað en Íslendinga að syngja karókí eða éta pizzur innilokuðum í Ólympíuþorpi sem note bene var byggt á rústum heimila fjölda fólks sem vildi ekki láta rústa sínum heimilum. Af hverju gerir enginn athugasemdir við þá staðreynd að hin svokölluðu sérstöku svæði til mótmæla þar sem fólk þurfti að sækja um leyfi til að mótmæla, er ekkert annað en gildrur svo hægt sé að draga út í dagsljósið þá sem vilja mótmæla og refsa þeim áður en viðkomandi gera það, samanber tvær gamlar konur yfir sjötugu sem dæmdar hafa verið í vinnuþrælkun í heilt ár fyrir að biðja um leyfi til að mótmæla því að hús þeirra voru jöfnuð við jörðu fyrir ólympíuleikana???

Það er búin að vera algert fjölmiðla blackout á Kerti fyrir Tíbet og Raddir fyrir Tíbet styrktarsamkomuna annað kvöld í Salnum. Hvað veldur? Þarna verða topp listamenn, verið að styrkja gott málefni og efla tengsl Íslands og Tíbets. Hefði aldrei trúað því að við myndum alls staðar koma að lokuðum dyrum en það er því miður staðreyndin. Því mun fullt af fólki aldrei fá að vita af þessari frábæru hátíð sem öll er unnin í sjálfboðaliðastarfi og til að styrkja flóttamannamiðstöð í Dharamsala en stór hluti þeirra sem þurfa að fá að dvelja þar eru börn sem koma ein yfir hæstu fjallaskörð í heimi.

Ég er yfirleitt frekar æðrulaus en núna er ég orðin frekar gröm yfir sinnuleysi fjölmiðla hérlendis þegar kemur að málefnum Tíbets. Það má segja að maður sé að fá að upplifa það sem Tíbetar hafa þurft að þola í 60 ár frá umheiminum... endalausa veggi og sinnuleysi. Hvet þá sem ekki þekkja til Tíbets að afla sér frétta og verða við kalli þeirra eftir hjálp frá heimbyggðinni, það er verið að fremja þjóðar- og menningar morð þarna fyrir allra augum. 

rangzenfist4 

 


Björn á skilið þakklæti

Mikið er ég ánægð að Ramses fjölskyldan fær að sameinast á ný. Ég tók þátt í að vekja athygli á þessu málií árdaga þess og það er alltaf ánægjulegt þegar maður sér árangur af slíku grasrótarstarfi.

Það er alveg ljóst að ef Paul og fjölskylda hans hefðu ekki notið svo mikils stuðnings frá þjóðinni að hann hefði eins og svo margir aðrir hreinlega aldrei átt möguleika á að sameinast fjölskyldu sinni aftur.

Ég er ánægð með Björn og þegar fólk gerir eitthvað sem maður er þakklátur fyrir er ekkert að því að auðsýna þakklæti, þó maður sé ekki alltaf með sömu skoðanir og viðkomandi. 

Ég er líka ánægð með þjóðina mína í þessu máli, ég átti satt best að segja ekki von á að finna fyrir þeim mikla stuðningi við þetta mál og raun bar vitni. 


mbl.is Mál Ramses tekið fyrir á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skora á Ólaf

Ég skora á Ólaf Ragnar Grímsson að sýna þjóðinni að hann sé meira en bara puntudúkka og ræða um bágborið ástand mannréttindamála í Kína þegar hann hittir Hu á morgunn. Þá væri gaman ef hann myndi hvetja Hu til að virða samninga við IOC og gefa fjölmiðlum fullt aðgengi að landinu Tíbet. En nýjustu fregnir herma að um 200 manneskjur hafi verið myrtar í Tíbet þann 18. ágúst af kínverskum hermönnum. 

Ég skora á Ólaf Ragnar Grímsson að ræða við Hu um eldri konurnar tvær sem eru komnar yfir sjötugt og hafa verið skikkaðir í vinnubúðir fyrir það eitt að biðja um leyfi til að mótmæla því að húsin þeirra voru jöfnuð við jörðu fyrir Ólympíuhallirnar.

Ég skora á Ólaf Ragnar Grímsson að hvetja Hu til að ræða við Dalai Lama og hætta að kalla hann ónöfnum og svo skora ég líka á Ólaf að biðja Hu um að nota ekki Ólympíuleikana í pólitískum tilgangi og sleppa því að hafa óperuna um hvað allt er unaðslegt í Tíbet á lokahátíðinni. 

Þá skora ég jafnframt á Ólaf Ragnar að fordæma það að geðfötluðum var meinaður aðgangur að Ólympíuleikunum. 

Heimildir: Tvær eldri konur sendar í þrælkunarbúðir

Kínverskir hermenn skjóta á hóp Tíbeta

Kína stöðvar niðurhal á Songs for Tibet 

Geðfötluðum bannað að koma á Ólympíuleikana 

Kína sýnir áróðursóperu um Tíbet á Ólympíuleikunum 

Þeim sem blöskrar hræsnin í kringum lokaathöfnina og þessa hluti sem ég hef talið fram geta komið á góðgerðahátíðina Raddir fyrir Tíbet á sunnudagskvöld og gert eitthvað uppbyggilegt fyrir þá sem þjást út af siðblindu og hörku kínverskra yfirvalda - þ.e.a.s. Tíbeska flóttamenn:)


mbl.is Forsetahjónin í ólympíuþorpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerti fyrir Tíbet

Kerti fyrir Tíbet
Laugardagskvöldið 23. ágúst klukkan 21:00 taka vinir Tíbets þátt í alþjóðaaðgerðum til að sýna fram á að heimsbyggðin hefur EKKI gleymt Tíbet, þó kínversk yfirvöld hafi gert sitt besta til að hindra aðgang að upplýsingum um ástand mála þar. Kveikt verður á kertum fyrir utan kínversk sendiráð um allan heim, en 215 sendiráð hafa nú þegar verið staðfest sem samkomustaðir. 

Vinir Tíbets ætla að tendra kerti til að minnast þeirra sem þjást í Tíbet en samkvæmt fréttum hefur landinu verið haldið í herkví á meðan á Ólympíuleikunum stendur og eru stór svæði Tíbets eins og fangelsi. Milljónir manna um heim allan tendra kerti á sama tíma, hvort heldur er heima hjá sér, meðal vina eða fyrir utan sendiráð. Hvetjum alla sem láta mannréttindi sig varða að mæta og taka þátt í kertastundinni með okkur. Nánari upplýsingar á candle4tibet.org.

Myndband sem vinir Tíbets settu saman eftir síðustu ljósahátíð var sérstaklega valið fyrir aðalsíðu Candle for Tibet Social Network. Í þeirri aðgerð tóku tugir milljóna þátt og von er á álíka mörgum þátttakendum núna. Dalai Lama hefur lagt blessun sína yfir þessa alþjóðlegu aðgerð og the Art for Peace Foundation hefur jafnframt stutt hana með því að gefa skipuleggjendum kertaaðgerða aðgang að tónlistinni af Songs for Tibet án endurgjalds, en fjölmargir heimsfrægir tónlistarmenn hafa gefið vinnu sína til að styrkja baráttu Tíbeta til að fá um mál sín fjallað á alþjóðavettvangi. 

40 íþróttamenn sem taka þátt í Ólympíuleikunum hafa sótt sér tónlistina af disknum til að sýna í verki samstöðu með Tíbetum. Nú hafa kínversk yfirvöld fengið iTunes til að taka þátt í umdeildri aðgerð með því að loka fyrir aðgang að tónlistinni af Songs for Tibet úr netverslun iTunes ef þú ert staddur í Kína.

Opinberað hefur verið að í lokaathöfn Ólympíuleikana verði ópera sem fjallar um hve dásamlegt lífið er í Tíbet eftir hernámið og því varla hægt að tala um að ekki sé verið að nota íþróttavettvang til pólitískra aðgerða. Vinir Tíbets hvetja forseta Íslands til að taka upp málefni Tíbets við forseta Kína þegar þeir hittast á föstudaginn 22. ágúst.
 
 
Myndband frá "Kerti fyrir Tíbet" sem haldið var á Lækjartorgi 7. ágúst 
 

Raddir fyrir Tíbet

Þann 24.ágúst klukkan 20:00, standa vinir Tíbets fyrir viðburði til að styrkja flóttamannamiðstöð sem rekin er í Dharamsala. 

KK, Jónas Sig, Svavar Knútur, Páll Óskar & Monica og Jón Tryggvi munu ljá málefninu rödd sína sem og Ögmundur Jónason, Birgitta Jónsdóttir og Tsewang Namgyal munu halda stutt erindi um Tíbet. Harpa Rut Harðardóttir mun sýna ljósmyndir sem hún tók á ferðalagi sínu nýverið í Tíbet í anddyri Salarins og verða myndirnar til sölu og mun andvirði þeirra renna í styrktarsjóðinn.

Í Dharamsala á Indlandi er rekin flóttamannamiðstöð sem tekur við um 3000 flóttamönnum sem flýja Tíbet ár hvert. Mikil aukning hefur verið á því að fólk flýji frá landinu undanfarin ár. Flóttinn tekur um fimm vikur yfir hæstu fjallaskörð í heimi og leggur fólk sig í lífshættu til að öðlast frelsi til að stunda sína menningu og fá tækifæri til að rækta tungumálið sitt. Þriðjungur allra flóttamanna eru börn sem leggja í 90% tilfella ein í þessa för til frelsis. Þau börn sem lifa af flóttann missa oftast tær og putta út af frostbitum.

Allur ágóði af menningarveislunni Raddir fyrir Tíbet rennur til flóttamannamiðstöðvarinnar og gefa allir listamennirnir vinnu sína.

Miðar fást hér: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=5911 og kosta 2000 krónur.


Af hverju þarf að borga tolla af póstsendingakostnaði?

Þegar ég var fyrst að kynna mér amazon fyrir margt löngu gerði ég þau mistök að kaupa mér notaða bók og láta senda hana til Íslands. Bókin kostaði 300 krónur en póstburðagjöld voru ca 900 krónur. Ég þurfti að borga tolla af póstburðagjöldum þannig að verðið á bókinni var orðið eins og um nýja bók væri að ræða út úr búð í uSAnu. 

Mér fannst þetta svo undarlegt að ég taldi um mistök væri að ræða og hringdi í tollinn og fékk að vita að þetta væri bara svona.

Eru þetta samt lögleg gjöld? Ég man ekki til þess að hafa þurft að greiða samskonar gjöld þar sem ég hef búið erlendis. 


mbl.is Vill fella niður tolla og skatta af ódýrustu pökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.