Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Margþætt vandamál verða til úr einhliða lausnum

Það hefur margoft verið lagt til að þetta gæti orðið útkoman ef við þenjum út hagkerfið okkar á þann hátt sem hér hefur viðgengist. Há staða krónu gegn til dæmis dollar er ekki einhlýtt. Flestir virðast halda að það þýða það eitt að við getum keypt meira dót fyrir minna í gegnum shop-usa. Fæstir nenna að horfast í augu við að þetta hefur slæm áhrif á þá sem ferðast hingað. Við afberum dýrtíðina vegna þess að bankarnir eru svo góðir við okkur að lána okkur okurlán og svo höldum við að það komi aldrei að skuldadögum.

Það hefur auðvitað áhrif á þennan stuðul WEF að við erum að iðnvæða landið á meðan aðrar þjóðir í hinum Vestræna heimi eru að horfast í augu við þá eyðileggingu sem þau ollu á sínu landi fyrir nokkrum áratugum. Okkur hefur gefist og gefst enn kostur að læra af mistökum annarra þjóða. Mikið myndi mitt litla hjarta gleðjast ef þjóðin mín hætti að vera svona frek og gráðug og hefði hugrekki til að taka ákvarðanir sem lituðust af einhverju öðru en gullfiskaminni og eiginhagsmunasemi.

Landið okkar höfum við að láni. Illt þætti mér að lána einhverjum eitthvað sem myndi skila mér því til baka eins og við erum að skila landinu af okkur til komandi kynslóða. 


mbl.is Ísland fellur um sjö sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetur konungur

Það er ágætt að vera minntur á það að maður er búsettur á landi þar sem allra veðra er von. En verð að viðurkenna að þrátt fyrir að vera alveg ýkt bjartsýn mannvera, þá er þessi vetur að slá öll met í að ögra þolinmæði minni. Það sem mér finnst bagalegast er að þurfa að hanga svona mikið inni. 

Finn að fátt gefur mér meiri lífsfyllingu en að þvælast úti, fara yfir heiðina til ömmu og kíkja á foss í hennar heimabæ, eða bara labba í hring um tjörn. 

Sumarið hlýtur að verða alveg rosalega gott. Og kannski erum við Íslendingar með svona mikið gullfiskaminni til að gleyma vondu veðurfari, annars væri þessi þjóð sennilega óhamingjusamasta þjóð í heimi en ekki hamingjusamasta. Það væri gaman ef að þjóðarpúls gallup tæki könnun á hamingjustuðli þjóðarinnar í dag. Hygg að hann væri allt öðruvísi í svona veðurfari en á sætum sumardegi. 

 


mbl.is Lægðir og úrkoma út mars?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birtuhátíð heldur áfram

Ég hef átt vægast sagt stórkostlega birtuhátíð fram til þessa og hygg að ég muni halda áfram að njóta hennar uns yfir líkur. Fyrir mér eru allir dagar jólin og jólaskapið er ekki eitthvað spari. Það sem mætti ef til vill spara er stressið sem maður finnur hjá fólki í kringum árstíma sem allir ættu að fara sér hægar, rétt eins og múmínálfarnir sem hafa vit á því að fara í hýði þegar veturinn gengur í garð:)

Ég er afar hamingjusöm, fékk frábæra og óvænta jólagjöf frá lífinu. Í pósthólfið mitt datt tölvupóstur á aðfangadag. Boð um að taka þátt í alþjóðlegri skáldahátíð í Venesúela. Þeir sem þekkja mig vita hve mjög ég er heilluð af þessum heimshluta. Dett í hressilegt hamingjukast þegar ég er þarna suðurfrá. Elskaði að vera í Kólumbíu og Níkaragva, ekki síst út af því hve fólkið þar er einstaklega hjartastórt og lifandi. Bónusinn er að sjálfsögðu að ljóð eiga sér allt annan sess í suður- og mið Ameríku. Þau eru hluti af hinu daglega lífi alþýðu manna og þar hafa skáldin ennþá hlutverk en eru ekki eitthvað lúxus fyrirbæri fyrir menntafólk og sérvitringa.  


Kærufrestur á tillögu um virkjun á Hengilsvæðinu að renna út

- - Ég bendi ykkur öllum á nýja heimasíðu um Hengilssvæðið, hengill.nu

Það þarf að tala um Hengilssvæðið, það er á teikniborðinu þessa dagana, Orkuveita Reykjavíkur hyggst nú byggja 135 megavatta háhitavirkjun á Ölkelduhálsi.

Hengillinn er spölkorn frá höfuðborgarsvæðinu, svæðið býr yfir magnaðri öræfakyrrð og náttúrufegurð. Þarna eru eyðidalir, hverir og heitir lækir sem hægt er að baða sig í. Þetta er framtíðar útivistarsvæði höfuðborgarbúa, ósnortin víðerni, kyngimögnuð náttúra, ómetanlegir möguleikar, -svæðið verður að vernda fyrir ókomnar kynslóðir. Umhverfisráðherra staðfesti svæðið sem mikilvægt útivistarsvæði árið 2005.

Þetta svæði er eitt það al magnaðasta svæði sem ég hef heimsótt, við erum að tala um Reykjadal. Ef þið hafið ekki farið þangað enn, hvet ég ykkur til að labba um svæðið og sjá með eigin augum hverju á að fórna. Þetta er rétt hjá Hveragerði fyrir þá sem ekki vita og státar af slíkri fegurð og undrum að ég gæti aldrei fyrirgefið mér ef ég hefði ekkert gert til að stoppa þessa tilgangslausu atlögu að því.

Orkuveitan ætlar að virkja þarna nokkur megavött, sem svo á að gefa fyrirhuguðu álveri í Helguvík, á gjafaverði, ef marka má fordæmin. Orkuveitan borgar og framkvæmir umhverfismatið sjálf, spilling í fínum gæðaflokki.

Kærufrestur á tillöguna um virkjun er 9. nóv 2007, kærum öll hægri-vinstri, -það er ótrúlega auðvelt, sjá www.hengill.nu, þar er tilbúin kæra sem þarf að kvitta upp á / breyta ef þú vilt, og sendist svo sveitarfélaginu Ölfussi, Skipulagsstofnun og cc á umhverfisráðherra á tölvupósti.

Það skiptir máli að málsaðilar viti að fólki er ekki sama. Kærum fyrir 9 nóv og stöðvum þessi skemmdarverk áður en það verður og seint.

Hámenningadagur í sveitinni

Ég er ein af þessum fágætu mannverum sem er ekki að njóta þess að vera í mannþvögu og geri yfirleitt eitthvað annað en að þrýstast upp við mann og annan á Laugarvegi á menninganótt, Þorláksmessu og 17. júní. Einu skiptin sem mér finnst gaman að vera í þvögu er á tónleikum sem gerist þó æ sjaldgjæfara. Ákvað að bregða mér út úr bænum ásamt mínum kærasta og Delphin og gera eitthvað allt annað. Fórum á Þingvelli, löbbuðum löngu leiðina inn í Almannagjá og Delphin stakk haus í Öxárvatn og drakk af mikilli gleði. Við skófluðum í okkur feitum og safaríkum bláberum og krækiberum. Sólin var heit og björt og mosinn mjúkur. Það er svo magnað að labba þessa leið um máða steina og hugsa um söguna sem er alltaf að gerast. Þvílík fegurð. Það var nánast enginn þarna nema einstöku túristar. Keyrðum síðan Selfoss leiðina til baka og datt mér þá í hug að kíkja við á Fjöruborðinu hans bróður míns. Hann var aldrei þessu vant í fríi og staðurinn aldrei þessu vant tómur. Búinn að vera að slá met dag eftir dag í fjölda gesta í sumar og þar af leiðandi hef ég nánast ekkert hitt bróður minn. En við fengum okkur gott kaffi og geðveikar sykurbombukökur. Delphin talaði um besta dag síns stutta lífs. Hann hefur reyndar alveg frábær viðhorf gagnvart lífinu og það þar ekki mikið til að fá hann til að nota þessa lýsingu á dögum. Svo brunuðum við í bæinn Óseyrarmeginn og fórum í bíó á tæknibrelluundrið Transformers í Breiðholti. Hef ekki farið í bíó þar síðan ég veit ekki hvenær. Það voru örfáar hræður í bíó enda allir í miðbænum. Frábært að eiga svona úthverfi og sveitir landsins út af fyrir sig.

Þetta var bara yndislegur dagur og ég er mikið þakklát að ég fór ekki að pynta sjálfa mig til að taka þátt í einhverju sem ég hef bara engan áhuga á. Menning er og verður hluti af mínu daglega lífi. En ef fólk vill njóta hennar á einum degi þá er það bara fínt.

Annars þá eru þetta mikil viðbrigði að vinna svona vaktavinnu og keyra svona mikið. Mér finnst reyndar mjög gaman að keyra og hef farið Nesjavallaleiðina flesta daga þegar ég fer til vinnu og það er bara himnesk leið. En það verður harla lítið eftir af deginum þegar þeir eru svona langir. Í gærkvöldi lenti ég í baunasúpuþoku á Hellisheiði ásamt brjáluðum regnstormi. Það er alveg hrikalega dáleiðandi að keyra í svona veðri. Reyni yfirleitt að finna mér einhvern til að elta sem tókst í gær. Alltaf þegar ég mætti einhverjum á leiðinni þá varð ég hreinlega blind og sá ekki neitt í andartak. Reyndi að horfa á glitstaura og keyra eftir minni:) Maður verður alltaf að dæla í sig kaffi áður en maður heldur af stað út í nóttina í svona keyrslu og svo er maður algerlega manískur þegar heim er komið og getur ekki hætt að tala eða hugsa.

Vinnan er annars mjög gefnandi og ég er mjög ánægð með það sem ég hef verið að þróa fyrir tölvusmiðjuna sem ég mun sjá um fyrst um sinn. Gaman þegar maður getur nýtt sér eitthvað sem maður hefur verið að þróa með sjálfum sér sem námsefni.

Annars er lífið ennþá og mun alltaf vera samfellt ævintýr og ég er eilíft að minna mig á þakklætið fyrir þetta andartak og það sem framundan er. Það er hinn fullkomni staður til að vera á.

Uppáhaldsstaður minn á Íslandi er: Snæfellsnes

Það er sama hversu oft ég fer þangað, alltaf skal þessi staður heilla mig. Hin þýska listavinkona Janine mín sem plataði mig til að fara þangað síðustu helgi sagði svo mörg vá að ég hef ekki tölu á þeim. Við þvældumst að þessu sinni mest um á Arnarstapa. Þvílíkur staður, mæli með því að fólk labbi til Hellna meðfram strandlengjunni ef það hefur tök á. Lofa því að það verður ógleymanlegt. Það var annars mikil þoka á nesinu fram eftir degi en tók að létta til þegar við vorum komin hinum meginn við nesið, þeas á Hellissand. Janine varð á orði að Snæfellsnes er eins og Janus. Með tvö algerlega ólík andlit. Þetta þótti mér flott líking. Það er auðvitað alveg rétt. Það er allt önnur náttúra vestanmegin á nesinu. Setti inn nokkrar myndir úr ferðalaginu, mun setja inn fleiri á næstu dögum.

Næst er förinni heitið til Vestfjarða í pílagrímsferð að Núpi í Dýrafirði er þar eyddi ég einu af bestu árum ævi minnar. Sá Vestfirði svo heiðbláa og fagra og langaði mest að halda áfram um helgina, en hef ekki úr miklum fjármunum að spila í sumar og haga því seglum eftir vindi. Ég er svo þakklát að hafa tök á að komast út í náttúruna, vildi helst alltaf vera þar. Finnst lífið í borginni orðið svo firrt. Allt of mikill hraði og allt of mikill einmannaleiki. Fólk missir hlutverk sín sem það hafði í minni byggðum, veit eiginlega ekkert hvað það á við sjálft sig að gera.

Og eitt að lokum: minni enn og aftur á að ef við viljum að börnin okkar eða barnabörn komi til með að lifa af á þessari stórbrotnu jörð - þá verðum við öll sem eitt að breyta viðhorfi okkar til umhverfisins, til neyslu okkar og lífsstíls. Ég hef tekið þá ákvörðun að fljúga ekki fyrr en flugvélar brenna öðru en bensíni. Þessi ákvörðun er mér erfið vegna þess að það að fara á alþjóðlegar hátíðir skálda, hitta vini og upplifa ný menningarsamfélög hefur gefið mér ótrúlega mikið en ég get ekki réttlætt það að ferðast eins og ég hef gert á meðan inn streyma upplýsingar um hvert við erum að stefna varðandi gróðurhúsaáhrifin. Þó að við hér á Íslandi gætum hugsanlega grætt á þessum hörmungum þá skiptir það mig engu máli. Það sem skiptir máli er að fjöldi fólks mun og er að missa heimili sín og aleigu, fjöldi fólks mun deyja vegna þessa. Sérfræðingar segja að enn sé tími til að snúa við og dempa hinar yfirvofandi náttúruhörmungar, þeas ef við breytum lífstíl okkar. Það er svo einfalt. Auðvitað verðum við að þrýsta á stjórnvöld til að axla ábyrgð og hjálpa almenningi til þessa.

Ég ætla alla vega að gera mitt besta og finn að sífellt fleiri eru tilbúnir að axla ábyrgð.

Sandino, uxar og ævintýr

Veit ekki alveg hvað varð um Eurotrashvision færsluna mína en ég hef óvart skrifað yfir hana en þetta er líka miklu skemmtilegri færsla, hin var bara tuð...

Fleiri frásagnir frá skáldahátíð í Granada, Níkaragva:

Það sem var sérstakast við þessa hátíð voru öll börnin sem tóku þátt í henni. Eftirminnilegasta upplifunin var að fara til bæjarins sem Sandino fæddist og ólst upp í. Bærinn heitir Niquinohomo og í honum búa rétt rúmlega 7000 manneskjur. Þeir sem ekki þekkja til Sandino bendi ég á að kíkja á netið, en í stuttu máli þá er hann þjóðahetja. Hann er gjarnan kallaður faðir byltingarinnar og var sá sem hóf andóf gegn veru bandaríska hersins um 1929. Sandanistahreyfingin sótti sér beinan innblástur til hans og verka hans þegar byltingin hófst í kringum 1980. Var að fara í gegnum veraldarvefinn í leit að upplýsingum og það er ágæt grein á wikipedia um sögu þessa lands sem svo fáir þekkja til.

Ég var hve mest snortin yfir örlæti og hlýjunni sem við fundum fyrir þarna gagnvart okkur. Þegar við komum til Niquinohomo var tekið á móti okkur með lúðrasveit barna og voru þau öll í sínu fínasta pússi. Þá tók bæjarstjórinn og öll bæjarstjórnin á móti okkur. Teknar voru myndir af okkur við styttu af Sandino. Lítil stúlka, held að hún hafi verið átta ára flutti ræðu og ljóð utanbókar með miklum tilþrifum og fegurð. Ég vöknaði ásamt fleirum. Við vorum svo leidd að blómum skrýddum vögnum, held að þeir hafi verið þrír og uxum beitt fyrir þá. Við fórum upp í vagnana og fórum svo um aðalgötuna ásamt skrúðgöngu barna og fullorðinna. Mér leið vægast sagt furðulega og sér í lagi þegar fólkið tók að veifa okkur. Þá veifaði maður til baka og brosti sínu breiðasta. Við enduðum við bókasafn bæjarins sem bar heiti Sandino og þar var safn til heiðurs honum. Mikið var hann fallegur maður og mikið er hann enn elskaður og virtur af samlöndum sínum. Svo fórum við út í garð og átti upplesturinn að fara fram þar. Þar var lítið útileikhús og við sátum þar í skjóli fyrir brennandi heitum geislum sólarinnar. Fyrsta atriðið var fyrir okkur. Börn sem dönsuðu þjóðdansinn fyrir okkur. Öll skáldin, við vorum átta frá hinum ýmsustu heimshornum voru verulega snortin yfir gestrisninni gagnvart okkur. Þá tók við upplestur bæði frá skáldum frá Niquinohomo og okkur. Ég hafði fengið þýtt eldsnemma um morguninn ljóðið mitt Reykjavík, borg árstíða og flutti það á ensku en byrja það alltaf á nokkuð magnaðri vísu til fluttnings úr Völuspá. Kúbverska skáldið flutti svo ljóðið fyrir mig á spænsku við nokkurn fögnuð. Við fengum meiri dans og svo vorum við leist út með gjöfum. Höfðu verið búnar til handa okkur viðarstyttur með Sandino þar sem nafn sérhvers okkar var haglega komið fyrir. Mjög flott, svo fengum við blóm í barminn og viðurkenningarskjal sem heiðursgestir í bænum. Ég sé að þessi frásögn nær alls ekki að lýsa því sem ég vil lýsa. Kannski færi best á að segja að svo mikil er þrá mín eftir að koma þarna aftur og gera eitthvað fyrir þetta fólk að ég er algerlega friðlaus.

Eftir þetta ævintýr var okkur boðið í mat á veitingahúsi við jaðar bæjarins. Bæjarstjórinn snæddi með okkur og spurði hvort að það væri nokkuð mögulegt að koma á systurþorpsprógrammi við Niquinohomo frá okkar bæjarfélögum. Við skáldin sem vorum þarna ákváðum að mynda einskonar bandalag til að hjálpa þeim með því að senda skólunum einhverja glaðninga áður en um langt líður.

Enn var dansað fyrir okkur og ég neydd til að dansa með dönsurunum. Ég lét mig hafa það. Síðan fór ég í viðtal fyrir heimildarmynd um ljóð og skáldahátíðina eftir matinn og fékk far til baka með leikstjóranum.

Eitt er víst að ég mun gera mitt besta til að hjálpa við að kynna þessa hátíð sem var í alla staði ógleymanleg og mikill innblástur. Ef þau geta haldið jafn glæsilega hátíð þá ættum við að geta gert hið sama. Þau eru ein fátækasta þjóð heimsins og við erum ein ríkasta. Skringilegt hve ljóðið ferðast neðanjarðar hér en er á allra vörum þarna og litið á það sem eitthvað sem skiptir miklu máli.

Ég þarf vart að taka það fram að eftir ár verð ég svo sannarlega þarna aftur og aftur og aftur.

Viva la Poesia! Viva!

Ætla að reyna að finna myndir til að skreyta þessa færslu. Fékk 200 myndir til að fara í gegnum frá skipuleggjendum hátíðarinnar:) Var sent myndskeið frá Karnivali ljóðsins, hér er það:
mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.6.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband