Leita í fréttum mbl.is

Brú á milli þings og þjóðar

Áramótagrein fyrir Fréttablaðið: Birgitta Jónsdóttir

picture_2_1050972.pngÞað er ófriður á Íslandi. Í ranglátu samfélagi ríkir ófriður. Stór hluti almennings hefur glatað trausti á æðstu stofnanir landsins, aðeins 9% aðspurðra treysta Alþingi. Vantraustið hríslast um allt samfélagið, því ráðamenn og stofnanir hafa brugðist trausti fólksins. Við lifum í samfélagi þar sem ljóst er að lögin ná ekki til allra þeirra sem landið byggja. Hinir ósnertanlegu ganga enn um göturnar og halda áfram að þiggja greiða frá stjórnmálafólki sem þykist ekki, þrátt fyrir að sitja að völdum, geta gert neitt til að breyta því ástandi óréttlætis sem við búum við. Til að endurheimta traust þurfa þeir sem hafa völdin að sýna í verki að þeir séu traustsins verðir. Orð skulu standa en ekki vera föl fyrir völd.

Skipta þarf út efstu lögum stjórnenda26512_10150116884270542_768090541_11338875_6784502_n.jpg
Það hafa margir furðað sig á að það fólk sem flestir treystu til að mynda skjaldborg um heimilin í landinu, hafi brugðist því trausti á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni. En það er ekkert furðulegt við það. Kerfið sjálft er ónýtt. Hefð hefur skapast fyrir því að ráða fólk eftir flokkskírteinum í efstu lögin á kerfinu. Þeir sem fara með æðstu völdin eru ekki ráðnir eftir menntun, hæfni eða getu. Ef kerfið er eins og skemmt móðurkartafla þá er ljóst að þeir sem standa henni næst skemmast. Það er nákvæmlega sama hverjir komast til valda – þeir munu skemmast ef ekki verður alvöru uppstokkun í kerfinu. Til hvers að reyna stöðugt að tjasla í götin á ónýtu kerfi þegar tækifæri til endurnýjunar er til staðar? Það er ekki aðeins hérlendis sem fólk hefur gert sér grein fyrir því að kerfi sem þjónar alltaf hinum ósnertanlegu er ekki lengur ásættanlegt. Samhljómur almennings víðsvegar um heim verður sífellt sterkari. Fólk er hætt að bærast sem einstök hálmstrá í vindi. Samstaða er möguleg á víðtækum grunni vegna tilkomu netsins og þar má finna sístækkandi hópa fólks sem er byrjað að undirbúa breytingar í takt við þá staðreynd að við eigum bara eina plánetu og ef heldur fram sem horfir, þá munu lífsgæði barna okkar og barnabarna verða mjög slæm miðað við það sem við höfum fengið að njóta.

Stefnuskrá Hreyfingarinnar er einfaldur tékklisti490581_1050977.jpg
Við í Hreyfingunni höfum stundað tilraunapólitík. Við skilgreinum okkur hvorki til hægri né vinstri. Það er ljóst að sú hugmyndafræði er að renna sitt skeið á enda. Við skilgreinum okkur útfrá málefnunum. Þegar stefna Hreyfingarinnar var mótuð í árdaga Borgarahreyfingarinnar var ákveðið að setja saman stefnuskrá sem er tékklisti. Þessari tiltölulegu einföldu stefnu fylgjum við en hún lýtur fyrst og fremst að því að koma hér á víðtækum lýðræðisumbótum. Að færa völd og ábyrgð til almennings. Þetta er hægt að gera með því að lögfesta réttinn til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum, persónukjöri þvert á flokka, skera á tengslin á milli fyrirtækja og flokka og nýrri stjórnarskrá sem tryggir að auðlindir þjóðar tilheyra henni en ekki hinni ósnertanlegu valdamafíu sem hefur hrifsað til sín þessar auðlindir á markvissan hátt allt frá upphafi hins unga lýðveldis okkar.

Almenningur taki þátt í að móta samfélagiðvik-burt-rikistjorn_-kosningar-strax-_28-of-81.jpg
Stefnuskráin er grunnstoðin sem við í þinghópnum virðum og vorum kosin út á. Önnur mál sem ekki falla undir þessa stefnu fylgjum við sem einstaklingar rétt eins og kveður á um í því drengskaparheiti sem við skrifum undir sem nýir þingmenn. Við sækjumst ekki eftir völdum. Sú blinda foringjahollusta sem hefur einkennt mannkynið um árþúsundir er eitthvað sem almenningur verður að láta af. Þessi öld verður öld almennings ekki leiðtoga. Völdum fylgir mikil ábyrgð. Er almenningur tilbúinn að taka við völdum með því að gefa þau ekki frá sér heldur verða virkir þátttakendur í að móta samfélagið sitt? Ég vona það. Sífellt fleiri kalla eftir því. Ég mun gera mitt besta til að skapa nauðsynleg verkfæri til að það sé hægt. Þegar stefnumálum Hreyfingarinnar verður náð getum við með góðri samvisku lagt hana niður, því þá hefur traust brú á milli þings og þjóðar hefur verið smíðuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

'What a load of crap' Birgitta! Getur þú ekki gert betur en þetta?

1. 'Til að endurheimta traust...' - gleymdu þessu.

2.'..við eigum bara eina plánetu..' - á nú að taka Al Gore á þetta?

3. '.. hinni ósnertanlegu valdamafíu..' - hvernig kemur 'Kyrrstaðan' til með að skilgreina sig ef þið lentuð nú í stjórn, með Lilju Móses et al. eftir áramót?

4. '..Við sækjumst ekki eftir völdum..' kanntu annan Birgitta?

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 14:36

2 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Það er ekki kominn friður, tveimur árum eftir hrun er ekki að sjá að Rannsóknarskýrsla Alþingis skipti neinu máli. 4-flokkurinn er allur á einn veg; klíkuráðningar og ógegnsæi í stjórnsýslunni, spilling í bankakerfinu og sífellt fleiri sem ekki treysta Alþingi.

Það er svo sannarlega þörf fyrir nýtt afl á þingi, og augljóst er að rödd ykkar þremenninganna er hávær á Alþingi. Við sem fyrir utan erum, fáum að fylgjast betur með því sem gerist inn á þingi eftir að þið fóruð inn. Þið hafið staðið við loforð ykkar um að vera rödd fólksins þarna inni og mikill léttir er að fylgjast með fyrirspurnum ykkar sem oftast eru óþægilegar fyrir valdið.

Margrét Sigurðardóttir, 31.12.2010 kl. 15:11

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með Margréti Birgitta mín.  Takk fyrir það

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.1.2011 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 509207

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband