Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

Vonandi verða friðarstundirnar fleiri

Finnst þetta alveg dásamlega jákvæðar fréttir og ef það er eitthvað sem við ættum að styrkja þá er umburðarlyndi og mannúð. Vona að þetta verði að árlegum viðburði.

Dalai Lama er frumkvöðull á þessu sviði - að sameina fólk handan trúarbragða í umburðarlyndi gagnvart því sem fólk kýs að trúa á. Það sem mér þótti hve best að heyra hann segja í sjónvarpsþættinum frábæra sem var sýndur á RÚV í gær, var að hann væri ekki fyrir trúboð:) Það er algerlega eitthvað sem ég get kvittað undir...

Hér er slóð í heimildarmyndina sem Þóra Arnórsdóttir setti saman.


mbl.is Fjölmenni á friðarstund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuttmynd um hrunið

Ég var beðin um að setja saman frétt um aðdraganda hrunsins og eftirmála þess. Ég bjó til einskonar stuttmynd. Hún fer í loftið á lítilli bandarískri sjónvarpsstöð í dag. Ákvað að deila henni með ykkur - ef þið viljið dreifa henni til vina og vandamanna á erlendri grund þá er það allt í lagi mín vegna:)

 


Ekki missa af Borgarafundinum á RÚV á eftir

Bara að minna þá á sem komust ekki á sögulegan borgarafund á mánudagskvöldið að horfa á þetta í kvöld á RÚV klukkan 22:20 - ef þið hafið ekki tök á að sjá þetta í kvöld takið þáttinn upp - erindin þar eiga eftir að vekja upp margar spurningar og vonandi vekja fólk enn frekar til umhugsunar um það sem gera þarf til að endurræsa/endurreisa samfélagið okkar.

Ef það verður ekki einhver látin sæta ábyrgð með afsögn vegna vanrækslu og vanhæfni fljótlega þá gætu við allt eins farið að upplifa alvöru óeirðir eins og þessar í Riga eða Sofiu...


mbl.is Óeirðir í miðborg Sofiu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holocaust II

Það eina sem mér dettur í hug að bera þessi voðaverk saman við er Holocaust hið fyrra. Nú er nóg komið - ég skora á Ingibjörgu Sólrúnu að slíta stjórnmálasamstarf nú þegar við Ísrael. Ég skora á Björgvin að slíta á öll viðskipti við Ísrael - ég skora á þjóð mína og þjóðir heims að láta í sér heyra út af þessum voðaverkum. Gleymum ekki skólunum þremur sem þeir sprengdu - þó þeir væru rækilega merktir S.Þ. og fólk hafði verið hvatt til að leita sér þar skjóls.
 

mbl.is Sprengdu hús fullt af fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldi Pútín

Mjög góð heimildarmynd sem útskýrir kannski fyrir þeim sem þekkja ekki til sýnar Pútíns, hvað vakir fyrir honum með yfirvofandi orkustríði.
 

mbl.is Ekkert gas til Evrópu um Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur lokar mbl.is fyrir komment á fréttinni um Ólaf Klemm

Ég krefst þess að fá haldbær svör við því af hverju er ekki lengur hægt að blogga við fréttina og af hverju öll kommentin voru fjarlægð.

Kommentið mitt er hægt að sjá neðar á þessu bloggi.


mbl.is Mótmælendum ógnað á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrílinn úr Seðlabankanum

Það sést vel á myndbandsupptöku mbl.is að þessi maður var ekki í vörn heldur réðst hann á fólkið. Þessi maður ætti að taka poka sinn á mánudaginn. Ekki beint að haga sér eins og virðulegur opinber starfsmaður úr Seðlabankanum. Frétti líka að Ólafur sé með tattú á upphandlegg sínum þar sem stendur "White Pride Only". Hver er eiginlega með honum? Veit það einhver?

En svona er nú Ísland í dag skrílin finnast flest í okkar opinberu stofnunum. Af hverju má þessi maður lumbra á telpu og dreng sem honum finnst afturhaldskommatittir án nokkurra eftirmála? Mér finnst að allir sem frömdu líkamlegt ofbeldi þennan dag, mótmælendur, lögga og aðrir opinberir starfsmenn eigi að sæta ábyrgð.

n682104622_1878755_5368.jpg
 
Frásögn mannsins sem Ólafur ætlar að lumbra á:
12 Smámynd: Þór Jóhannesson

Svona ykkur að segja var þetta alveg ótrúleg innkoma þessarar manna. Þeir gengu þarna um og hrintu og bæði konum (eins og sést á myndbandinu) og örðum um koll sem á vegi þeirra urðu. Annar reyndi að sparka í liggjandi mann sem var verið að hlúa að og hafði orðið fyrir piparúða. Þá spurði ég hann hvort það væri allt í lagi með kollinn á honum og þá hrinti hann mér ég snéri mér undan og horði í augun á honum og sagði "Gjörðu svo vel og gefðu mér á kjafinn ef þér líður betur með það" þá reiddi hann til höggsins (og þar hefur myndavélin náð atvikinu og sést það á stillimyndinni á undan fréttinni). Hann hins vegar hætti við að kýla mig og hrinti þess í stað konunni sem næst var. Svona gengu þeir í gegnum ca. 500 manna hóp mótmælenda og hrintu og ýttu þeim sem fyrir urðu - og í raun er ótrúlegt að þessir hrottar hafi farið í gegnum hópinn án þess að nokkur svo mikið sem ýtti til baka (og það segir e.t.v. hversu mikið mótmælendurinir voru tilbúnir að beita ofbeldi þarna fyrir framan Hótel Borg).

Þór Jóhannesson, 2.1.2009 kl. 21:23

 

mbl.is Taldi sér ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um Kryddsíldarmótmælin

Það er enn nokkuð mikið um helberar lygar og hagræðingar sannleikans varðandi mótmælin í gær. Ég vil setja gott fordæmi sem fjölmiðlamenn sér í lagi þeir hjá 365 mættu taka sér til fyrirmyndar. Eftir að hafa horft á og hlustað á efni sem tekið var upp á staðnum er augljóst að ég hef ekki séð alla atburðarrásina og vil því leiðrétta það sem ég hafði ekki rétt eftir í fyrri færslu sjónarvotts um Kryddsíldarmótmælin. Þá vil ég líka benda á rangfærslur í fréttaflutningi af þessum atburðum og hvet blaðamannastéttina til að temja sér vandarði vinnubrögð. Finnst eitthvað meiriháttar bogið við það að gera ráð fyrir að um helmingur allra frétta sé hreinlega ekki réttur og oft átt við fréttirnar útfrá hagsmunum þeirra er reka stöðvarnar.

Það sem er kannski alvarlegast er hve tímalínan er skökk í fréttaflutningnum. Það kemur aldrei fram að fólk var piparúðað fyrst og eftir það fór það út í að setja flugelda á kaplana. Nánari útlistun um þetta neðar á blogginu mínu. Ef þú finnur hvöt hjá þér að kommenta, viltu þá vera svo snjall/snjöll að lesa yfir alla færsluna. Ef þú nennir því ekki - ekki ætlast til að ég nenni að svara.

1. Ég var ekki sjónarvottur fyrr en einhver opnaði hliðið inn í portið. Þá voru nokkrir, bæði fólk og fréttamenn búnir að fara yfir hliðið. Ég var því ekki vitni að því þegar fólk fór fyrst inn. Það leið hinsvegar ekki mjög langur tími - ca 2 mínútur samkvæmt upptökum á myndbandi þangað til að fólk streymdi inn um hliðið, ég þar á meðal. Kannski hefur tæknimaður Stöðvar 2 verið kýldur þá - en ég sá ekkert slíkt ofbeldi þegar ég stóð þarna inni. Samkvæmt myndbandsupptöku þá var ég búin að vera þarna inni í um 2. mínútur þegar lögreglan var kominn í hurðargættina og var þá fólk hætt að reyna að komast inn nokkru fyrr. Fólk settist fljótlega niður. Ég harma allt ofbeldi og myndi aldrei mæla slíku bót. Ég hef tekið eftir að margir óttast að það verði meira ofbeldi tengt við mótmæli og ég vona að til slíks muni ekki koma.

2. Ég sá á ljósmyndum að fólk togaði í kaplana sem lágu í gegnum anddyrið eftir að mér var hent út - það hinsvegar réttlætir ekki beitingu piparúða. Ég hef enn ekki séð neinar haldgóðar heimildir sem styðja þær fullyrðingar Sigmundar Arnar að tækjabúnaður hafi verið eyðilagður fyrir skrilljónir eins og hann heldur fram. Enda var búið að breyta fréttinni á þann hátt að talað var um að þeir hefðu orðið af auglýsingatekjum upp á einhverjar upphæðir. Ég á bágt með að trúa því að snúrur og kaplar kosti skrilljónir.

Gaman væri að fá betri útlistun á því hjá  Ara sem talar um að þarna hafi fólk verið með hnífa - sem enginn beitti á neinn en það sást að einhver var að reyna að opna glugga með hníf. Þessum hníf var ekki beitt að fólki. Þarna var verið að gefa í skyn í fréttatímanum að fólk væri að mæta á mótmæli til að drepa annað fólk. Þetta finnst mér ljótar og beinlínis stórhættulegar dylgjur. Einmitt svona fréttaflutningur getur laðað að fólk sem er tilbúið í slíkt. Lögreglan talar um að hún sjái eftir að hafa ekki gengið enn harðar fram. Vá, til hvers? Hverju hefði það skilað og hvað meinaði maðurinn? Ef þeir hefði talað við fólk eins og fólk en ekki fyrirfram gefið að þetta væri óþolandi skríll þá hefðu þeir aldrei þurft að ganga fram af slíkri hörku. Það kemur hvergi fram að fólk sem mótmælti er lemstrað eftir hörku lögreglunnar. 

3. Mér fannst fólk gagna full langt með flugeldana. Ég var sjálf skíthrædd við það þegar var verið að kveikja á þessu inni í portinu og þeim sem stafaði mest hætta af þeim vorum við sem vorum að mótmæla. Mjög hættulegt að vera með slíkt í mótmælum og sem betur fer þá er flugeldasölu lokið og vonandi verður ekki meira notað af slíku á mótmælum. 

4. Áhugavert hve fólk er tilbúið að draga furðulega dramatískar ályktanir af öllu. Ég túlkaði graffið á heimili Björgúlfs Thors sem táknrænt um að þeirra tími væri búinn sem strengjabrúðustjórar og sjálfshygglunarmenn, ekki sem morðhótun. 

5. Ég sá mjög góða skilgreiningu á því hvað það er að vera atvinnumótmælandi í nýrri kvikmynd sem heitir Pólitískt bíó 1 - þar skilgreinir Haukur Már það að vera atvinnumótmælandi það sem að vera fagaðili þegar kemur að mótmælum. Að þekkja skilgreiningu á beinum aðgerðum og starfa í anda þeirra. Ég er í ágætum samskiptum við Geir Jón, vegna allskonar mótmæla sem ég hef staðið fyrir.  En hann er prýðis maður og ég er sannfærð um að ef hann hefði verið á staðnum að atburðarrásin hefði verið öðruvísi. Það var enginn þarna sem talaði við mótmælendur eins og hann gerir. Ég hef aldrei fengið pening fyrir að mótmæla. Ef ég hefði fengið eitthvað fyrir öll þau skipti sem ég hef reynt að vekja athygli á óréttlæti og bágri stöðu annarra á opinberum vettvangi væri ég án efa öllu betur sett fjárhagslega en ég er:) 

5. Fólk hefur misjafnar skoðanir á því hvar og hvenær á að mótmæla. Ég hvet fólk til að gera þá eitthvað í því. Ég endurtek enn og aftur: ég er ekki að mótmæla fyrir ykkur, ég er ekki talsmaður eins né neins nema sjálfrar mín og ég hef aldrei sagst vera að gera eða segja neitt í nafni þjóðarinnar. Það eru helst þeir sem gera ekki neitt sem halda því fram að mótmæli séu ekki í þeirra nafni og skiptir þá litlu hvernig mótmælin eru - það eru aldrei allir sáttir við hvernig þau eru.

6. Ég bið fólk um að hætta að rífast og fara frekar að reyna að finna hvað við getum verið sameinuð um. Ég reyndar stórlega efast um að það sé til eitt eða neitt sem þessi þjóð geti verið sammála um. Til þess hefur verið allt of lengi alið á sundrung og siðspillingu. En ég lofa ykkur því að það verða engar breytingar hérlendis ef við höldum áfram að brjóta hvert annað niður í stað þess að finna sameiginlega fleti sem við getum unnið að til að losa okkur við óværuna í samfélaginu.

7. Ég er að vinna í því á fullu á bak við tjöldin að finna lausnir - ég er ekki bara að mótmæla. Ég vil ekki vera að varpa fram hálfköruðum hugmyndum en ég vona að úr þessu komi tillaga að neyðarstjórn sem og listi yfir erlenda aðila sem hægt væri að biðja um aðstoð. Ég vil líka taka það fram að út um borg og bý er fólk að funda, vinna og koma saman hugmyndum að nýju Íslandi. Það er hellingur að gerast sem snýr að lausnum. Spurningin mín til þeirra sem gagnrýna okkur sem  þó stöndum í ströngu við að sýna að okkur er nóg boðið, hvað eruð þið að gera? Eruð þið kannski sátt við ástandið eins og það er? Ef ekki, takið þá niður vandlætissvipinn og finnið vettvang og fólk sem ykkur hugnast að vinna með að nýju Íslandi. Við þráum að komast út úr þessari spillingu og þessu gjaldþroti siðferðis. Eitt sem hægt er að gera fyrir þá sem vita ekkert hvað þeir geta gert: að bjóða fram krafta sína sem sjálfboðaliðar - það er hefð fyrir slíku á elliheimilum og hjá hjálparsamtökum. Gaman væri ef einhver sem þekkir vel til gæti komið með lista yfir slíkt. 

8. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa komamentað á bloggið mitt (líka tröllunum) undanfarinn sólarhring. Þetta er svo mikið að ég mun ekki hafa tök á að svara öllum. Ég vona að þessi færsla bæti það upp. Ég hef fengið að kynnast fullt af huguðu fólki í gegnum bloggið mitt og mótmælin undanfarið og er þakklát fyrir að sjá að það er til fólk sem vill ekki bara í orði heldur líka í verki annað samfélag. Það er til fólk með þroskaða samfélagsvitund hérlendis og það gefur mér ákveðna von. 

Ég setti þetta myndband saman með því efni sem ég tók upp á kryddsíldarmótmælum og hef í tvígang sent það á youtube en það er ekki að birtast þar, þrátt fyrir að meira en sólarhringur er liðinn. Veit ekki af hverju. Mun reyna aftur í dag. Lögin eru eftir mömmu: Bergþóru Árnadóttur. 

 

 

 

 


Atburðarrásin á atburðunum við Hótel Borg í dag

dscf4366.jpgÉg er ein af þeim sem Ingibjörg lítur ekki á sem þjóðina. Því er ég væntanlega óþjóðleg. Ég fer aldrei í mótmæli til að mótmæla fyrir aðra. Ég fer eingöngu vegna þess að siðferðiskennd minni er misboðið. Í dag mætti ég vegna þess að ég er búin að fá svo mikið upp í kok á spillingunni sem ráðamenn leggja blessun sína á með aðgerðaleysi sínu. Enginn hefur axlað ábyrgð og ég held svei mér þá að fólkið í dag hafi gert þjóðinni stórkostlegan greiða með því að hlífa henni við bráðaþunglyndi sem Geir veldur henni með því að opna sinn óheiðarleikamunn, svo lygaloðinn að það getur ekki verið heilbrigt.

Mér finnst leitt að lögreglumaður kinnbrotnaði - ég hef aldrei verið samþykkt ofbeldi. En við skulum hafa það hugfast að það var lögreglan sem hleypti þessu upp eins og henni er einni lagið. 

1. Fyrst voru fyrir í anddyrinu starfsfólk Hótel Borgar - ásamt einhverju af starfsfólki stöðvar 2 - þetta fólk leit svo á að það ætti að verja hótelið (skil það svo sem alveg) og gekk fram af mikilli ákefð og var frekar ofbeldisfullt. Mótmælendur sem ég sá beittu þau ekki ofbeldi en þröngvaði sér inn.

dscf4377.jpg2. Lögregla kom á staðinn og lokaði inn á Hótelið en mótmælendur voru þarna inni í anddyri og það var hrópuð slagorð í ca. 10 mínútur. Ég var aftast og hafði góða yfirsýn og sá ekki nokkurn mann skemma eitt eða neitt eða sýna ofbeldisfulla hegðun. Fólk sat á gólfinu mest allan tímann. 

3. Markmiðið með að vera þarna - var að þetta var eini staðurinn á svæðinu þar sem var einhver möguleiki að það myndi heyrast í okkur. Fólk hefur væntanlega haft mismunandi forsendur fyrir því að vera þarna. Flestir voru þó sammála um slagorð eins og vanhæf ríkisstjórn og þannig held ég að stórum hluta þjóðarinnar líði: að stjórnin sé vanhæf. Markmið mitt var að láta ráðamenn vita að ég er ekki sátt á aðgerðaleysi þeirra, í aðdraganda hrunsins sem og gagnvart allri þeirri spillingu sem hefur komið upp á yfirborðið.

4. Eftir 10 mínútur var kominn mikill fjöldi að lögreglu fyrir utan og ruddust þeir út og hentu fólkinu út sem var næst útihurðinni með miklu og tilefnislausu ofbeldi. Þeir hentu meðal annars mér út - ég fann reiði við það enda hefði verið alveg nóg að biðja mig um að færa mig. Ég settist niður fyrir framan hurðina og lögreglan tók sér stöðu í hurðinni. Ég spurði einn lögreglumann hvort að það væri ólöglegt að sitja þarna, því einhver önnur lögga hafði hrópað að við ættum að fara því þetta væru ólögleg mótmæli. Gaman væri að vita hvað ólögleg mótmæli séu. Á þessum punkti var fólkið inni að syngja og við kölluðum slagorð. Ég hafði áhyggjur af fólkinu þarna inni því það var innikróað en hugsaði, "þeir hljóta að hafa lært eitthvað af aðgerðunum við lögreglustöðina." 

5. Lögreglan biður okkur sem sitjum og stöndum fyrir utan hurðina að færa okkur. Ég vissi þá að þeir ætluðu að rýma inni í anddyri. Færði mig til að hleypa fólkinu út. Það sem tekur við næst er algerlega óafsakanlegt. Fólkið inni í anddyri var innilokað - því var sagt að fara en komst ekkert því lögreglan stóð í vegi fyrir þeim þegar þeir sem voru inni í húsinu hófu að úðaði á þau - sum flæktust í snúrum sem voru á gólfinu og duttu í gólfið en löggan virðist alltaf missa sig í einhverskonar paník og ótta í svona aðstæðum. Það var reyndar greinilegt á myndbandi sem ég tók upp að merkjasendingar á milli þeirra sýndu að þeir ætluðu að ráðast á mótmælendur á óvæntan hátt. 

dscf4406.jpg6. Loks kemst fólkið út og það vorum við mótmælendur enn og aftur sem létum vita af gasinu en ég heyrði bara lögguna öskra út út út. Fólk reiddist, ég reiddist yfir þessu og ég er enn reið. Ég myndi ekki fara út í að berja einhvern enda er það alveg ljóst að þeir aðgerðasinnar og atvinnumótmælendur sem ég þekki hafa aldrei mælt með ofbeldi og standa ekki fyrir slíku. 

7. Ég var þarna um einhverja hríð og sá hvernig ég var allt í einu stödd í einhverju öðru landi en ég hélt að ég byggi við. Óeirðalöggur og þvílíkur fjöldi lögreglu hef ég aldrei séð. Þeir voru í raun og veru fleiri en mótmælendur. Þeir voru að passa upp á að við myndum ekki hrópa slagorð að ráðamönnum enda erum við óþjóðlegur skríll sem þau geta ekki hugsað sér að horfast í augu við. Þessi skríll var á öllum aldri, frá öllum þjóðfélagsstigum enda hafa þau landráð sem við stöndum frammi fyrir komið við kaunin á öllum í samfélaginu. 

8. Það er hryggilegt að sjá að fólk eins og Sigmundur Ernis lýgur án þess að blikna, en það sannar það bara enn og aftur að hann hefur gert það um langa hríð. Ég bið fólk um að setja hlutina í samhengi. Það var ekki ráðist á neina upptökumenn áður en piparúðanum var beitt. Það voru engar snúrur eyðilagðar áður en piparúðanum var beitt. Ég sá ekki neina ráðast á upptökumenn frá stöð 2 en kannski hefur það gerst í dimmu húsasundi, gaman væri að sjá upptökur eða myndir af því. Ég sá að eftir að búið var að úða á fólkið í tvígang að einhver sprengdi flugeld á snúrum sem lágu í tæknibíl sagafilm en ekkert var eyðilagt áður en lögreglan réðst á fólkið algerlega að tilefnislausu.

9. Þetta voru friðsamleg mótmæli áður en lögreglan beitti fólkið ofbeldi. Höldum því til haga. Það sem truflaði mig var að horfa á andlit lögreglumanna og sjá hve þeir gátu ekki leynt eða reyndu ekki einu sinni að leyna óbeitina á mótmælendum. Við skulum líka halda því til haga að fólk mætir á svona mótmæli á eigin forsendum og hver og einn er aðeins ábyrgur fyrir sínum eigin gjörðum. Ég vona að þeir sem köstuðu múrstein á lögregluna gefi sig fram. Ég vona líka að þeir sem beittu úðanum á fólk að tilefnislausu munu verða áminntir um afglöpp í starfi. 


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hroki Geirs Haard (e)

Óklippt upptaka af Geir í hrokakasti - útskýrir kannski af hverju fjölmiðlafólk forðaðist að lenda í rökræðum við karlinn - hann er mátturinn og enginn má spyrja spurninga sem honum finnst óþægilegar án þess að fá að upplifa HaardGeir.
 
Nánar um tildrög og atburðarás á bloggi fréttamannsins G. Péturs.
 
 
Allir sem vettlingi geta valdið á mótmæli í dag klukkan 15 á Austurvelli
 

mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.