Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ljóð

Meira um meinta kreppu

Ég get ekki hugsað mér að skipuleggja mótmæli, þó slíkt brenni á mér, ég get ekki hugsað mér að skrifa langar ritgerðir þegar það form sem ég hef alltaf heillast hve mest af liggur svo beint við.

Búin að fá upp í kok af löngum pistlum um eiginlega ekki neitt, því við erum engu nær um hvað varð um lýðræðið okkar. Spilling grasserar fyrir opnum tjöldum, en hér skal ekki kosið.

Ætla því að halda áfram að skrifa ljóð í knöppum ljóðabálk sem að sjálfsögðu heitir Kreppuljóð. Fyrst fjalla ég um fallið, er næstum búin með þann bálk, er núna að skrifa um reiðina, get ekki beðið eftir að komast í lokabálkinn sem um fjalla um upprisuna. Ég ætla að skrifa þetta á meðan þjóðin er að fara í gegnum þessi stig. Finnst sem við séum hætt að falla og ættum að vera að skríða inn í reiðina. Reiði á fyrst að vera stormur innra sem feikir til snyrtilega röðuðum fallvöltum veruleikanum, síðan á hún að hvetja mann til að þrýsta á breytingar, að fara úr ofbeldissambandinu, að hætta að laumast í ríkið fyrir alkann, að hætta að ljúga fyrir fíkilinn, að hætta að láta eins og allt sé í lagi. Það er ekki allt í lagi, en enn sem komið er vitum við ekki nákvæmlega hvað er mikið er ekki í lagi. 

Kreppuljóð

Fallið

Enn í nýjustu tísku
eilítill útsölubragur á
góðærisspikið vellur út um buxnastreng
og allt of þröngar peysur

bótaxfylltar innfallnar


sílikon brennur illa
í fimbulkulda
fallina gilda


------------------------------------

Þjóðin er lömuð
hrædd
í skuggunum falla þau hvert á fætur öðrum
í hællærisharakírí

tómar tóftir glerhalla
og þó erum við rétt að byrja

------------------------------------

Þoturnar þagnaðar í annarri heimsálfu bíða
færis á ný
þjóðargersemin horfinn
æran ekki traustari en svo
að ljúfan og brúnklukkan blésu á spilaborgina
höff pöff - kreditkortaturnarnir hrynja


timburmennirnir virðast engan enda taka
jafnvel krúttin ekki lengur sæt


suss hér verða engar galdrabrennur

------------------------------------

Hann hneppir hnöppum úr gulli
í Kensington
á meðan sitjum við uppi með glópagullið
og óræðnar tilfinningar

en suss hér verða engar galdrabrennur

------------------------------------

Undir stólum ríkisstjórnar eru pappírstætarar
þar er skýrslum laumað undir
sem allir ættu að sjá
en fáir vilja heyra

------------------------------------

Sjarmatröllið í gráfjalli
steingerfð þjóð undir
hvössu bliki

svo brosir hann sakleysislega og reitir einn brandara
og álögin eru fullkomnuð
lemúraþjóðin gekk fyrir björg
af því að pabbi sagði það

hér verða engar galdrabrennur

------------------------------------

Upphæðir sem enginn skilur
og vogunarsjóðir og
svikamyllur
og einn og einn don kíótí

Við erum ekki gjaldþrota
við erum stöndug
enginn getur lengur reiknað hve hár skuldahali hvers mannsbarns eyjunnar er
upphæðir sem enginn skilur
eru ekki raunverulegar
fyrr en launaumslagið er skyndilega tómt

hókus pókus
góðærið var okkur öllum til góða
haldið áfram að kaupa
haldið áfram að vera þæg
og þegja

það er gott fyrir hagkerfið að vera gráðugur

------------------------------------

Skipbrot frjálshyggjunnar
skipbrot auðvaldsins
skipbrot Milton Friedmanista
nú eru þeir sem það studdu
stimplaðir afturhaldskommatittir

Davíð kominn í heilan hring
í hringavitleysunni

Íslendingar gjalda sjálfstæði sitt dýru verði


------------------------------------

Nú er litla Ísland
hryðjuverkaþjóð
hefur framið stórfelld hryðjuverk í skjóli frjálshuggunar hyggjunar
á sitt eigið sjálfstæði
sína eigin afkomu

kalla ekki sumir slíkt sjálfsmark
á ögurstundu
í vítaspyrnuleik verðlausra verðhalla
verðlausra lífsgilda

hvar er kletturinn
öryggið
traustið rúið


mbl.is Mjög róttæk viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuljóð II

Fallið II

Þoturnar þagnaðar í annarri heimsálfu bíða
færis á ný
þjóðargersemin horfinn
æran ekki traustari en svo
að ljúfan og brúnklukkan blésu á spilaborgina
höff pöff - kreditkortaturnarnir hrynja


timburmennirnir virðast engan enda taka
jafnvel krúttin ekki lengur sæt


suss hér verða engar galdrabrennur


mbl.is Svalir Íslendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuljóð

Segja má að tímar sem þessir séu einskonar gullnáma fyrir andans fólk, verandi skáld fyrst og fremst þá get ég ekki annað en skrifað ljóð er tengjast þessum miklu viðburðum, ekki aðeins hér heldur út um heimsbyggð alla. Ég byrjaði því fyrir nokkrum dögum að skrifa Kreppuljóðabók sem mun skiptast í nokkra kafla. Ég er að skrifa kaflann "Fallið" núna og hef ákveðið að hafa kreppuljóðin knöpp:) Að sjálfsögðu mun bókin enda á kaflanum "Upprisan". Mun deila með ykkur þessum ljóðum en tek það fram að þau eru ekkert pússuð, heldur hrá eins og ástandið...

Fallið

I
Útundan mér sé ég kreppuhönd
lauma tjarnargæs inn í skjannahvítan Range Rover
flaumur fjaðra eins og blindhríð um stund

 

c_documents_and_settings_brjann_office_my_documents_islenskijeppinn.jpg

 


mbl.is IMF tilbúinn að hjálpa Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóð án lags

Steinn Steinarr hafði ótrúlegt vald á skáldmálinu og djúpan skilning á því hvernig yrkja átti alþýðuljóð sem jafnframt höfðuðu til þeirra sem djúpvitrari þóttust vera. Var mér mikil fyrirmynd þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á skáldabraut þegar ég var 14 ára. Margar tilfinningar hafa brunnið í brjósti mínu undanfarna daga og ef til vill lýsir þetta ljóð ágætlega hugarástandi landans í dag. Finnst sem fólk ráfi um í einskonar losti og virðist hafa týnt raust sinni og þeirri gæfu að vita að við getum öll haft áhrif á gang mála ef við stöndum saman, ekki til að hlusta á gleðibankann, heldur til að sýna í verki að okkur er nóg boðið. Ég hvet alla til að líta inn á bloggið hennar Láru Hönnu en þar kemur fram að á meðan þjóðinni blæðir sitja þeir enn að kjötkötlunum sem tóku þátt í braskinu, nú í boði ríkisstjórnarinnar. Tími til að finna röddina innra með okkur og láta almennilega í okkur heyra.

Setti síðan lagið við Ljóð án lags eftir Bergþóru Árnadóttur í tónhlöðuna, njótið vel.

Ljóð án lags
Ljóð: Steinn Steinarr


Ég reyndi að syngja
en rödd mín var stirð og hás,
eins og ryðgað járn
væri sorfið með ónýtri þjöl.
Og ég reyndi á ný,
og ég grét og ég bað eins og barn.

Og brjóst mitt var fullt af söng,
en hann heyrðist ekki.
Og brjóst mitt titraði
af brimgný æðandi tóna,
og blóð mitt ólgaði og svall
undir hljómfalli lagsins.
Það var söngur hins þjáða,
hins sjúka, hins vitfirrta lífs
í sótthita dagsins,
en þið heyrðuð það ekki.

 


mbl.is Hvað sagði Davíð?
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Afturhvarf

Var búin að lofa því að deila með ykkur ljóðum og tónlist á þessum sérkennilegu tímum... fannst þetta ljóð Steins við lag Bergþóru Árnadóttur eiga vel við gjörningaveðrið á flokksráðsfundi þeirra "sjálfstæðu". Lagið má finna í fluttningi Pálma Gunnars í tónhlöðunni.

Ljóð: Steinn Steinarr

Ó, græna jörð, ó, mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.


Ég viðurkenni mína synd og sekt:
ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns
og elti vafurloga heimsku og hjóms
um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.


Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!


mbl.is Tár felld á flokksráðsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirmæli Íslands

 
Þetta gætu verið eftirmæli um hina íslenzku þjóð! 
 
EFTIRMÆLI
Ljóð: Steinn Steinarr
Lag: Bergþóra Árnadóttir

Þú varst bæði auralaus og illa klæddur maður,
með afar stóra fætur og raunalegar hendur.
Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum sem slíkur,
og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.

Og sjaldan heyrðist talað um sálargáfur þínar,
og sennilegt þær hafi frekar lítinn ávöxt borið.
Þú þekktir hvorki leyndardóma þessa heims ná annars.
Og það var ekki meira en svo að þú kynnir Faðirvorið.

Þú reyndir samt að bjarga þér. Og fékkst á yngri árum
við arðberandi fiskirí í Grindavík og Leiru.
En svo var eins og lukkan hefði lagt sig ögn til hliðar,
það lögðust á þig veikindi og skuldir, ásamt fleiru.

Þú áttir jafnvel stundum býsna örðugt með að lifa
og ennfremur var tóbaksleysið kunnugt heima hjá þér.
Og giktin, sem er launráð og lymskufull í skapi,
hún lagðist oft svo herfilega þungt í bakið á þér.

Þú kyntir stundum miðstöð fyrir kaupmanninn og prestinn,
og kaupið þitt var hærra en þér bar, að réttu lagi,
það var samt lítill vafi, að þig langaði í meira.
Þú lézt þér jafnvel sæma að kvarta um eigin hagi.

Það sást þó bezt í vetur, er þú týndir tóbaksbauknum
og tíkin komst í grautinn, sem læknisfrúin gaf þér,
hve hugur þinn var bundinn við heimsins lystisemdir,
og hörmulega lítils við gátum vonazt af þér.

Þú gerðist oft svo djarfur, að tala um toll á kaffi
og taldir þetta glæpsamlegt af stjórnarherrum landsins,
en slíkt er ekki ráðlegt fyrir ræfla af þínu tagi,
og reynist jafnvel skaðlegt fyrir trúargleði mannsins.

Þér hlotnuðust þó molarnir af höfðingjanna borðum,
en hamingjan má vita hvort þú skildir miskunn slíka,
og hvort þú hefir lifað samkvæmt lögmáli vors herra,
sem lætur þorskinn veiðast fyrir fátæka sem ríka.

En loksins ertu dauður, þú lítilsigldi maður,
og laun þín eru náttúrlega sanngjörn eins og hinna.
Við ætlum hvorki að forsmá þig né fella þunga dóma.
Þér fylgir inn í eilífðina kveðja bræðra þinna. 


Ljóð inn í svartnættið

lovers.jpgÆtla að halda uppteknum hætti og bjóða upp á ljóð og lög - aðallega lög eftir móður mína heitna Bergþóru Árnadóttur á þessum miklu umbreytingatímum. 

Ég mæli með því að gera eitthvað fallegt - þó ekki sé nema eitt lítið bros gagnvart einhverjum sem þú þekkir ekki neitt. Hér er mikil spenna og reiði í lofti. Skiljanlega. En við gerum bara illt verra ef við festumst í vef reiðar. Hefndar. Efnahagsfárviðrið mun ganga yfir. Það er ekkert annað að gera en að byrja upp á nýtt vonandi með einhvern lærdóm að leiðarljósi.

 

 

 

Álagaskógur

 

Við læddumst inn í skóginn

Skárum nöfnin okkar
í voldugasta tréð
um niðdimma nótt

Sáum ekki
morknaðar ræturnar
að greinarnar hófu sig
ekki mót himni,
heldur héngu niðurlútar

Við skárum und í lófa
Blönduðum blóði
sem varð að þunnri húð.
Storknaði í sári trésins.

Blinduð í glýju heitstrenginga
byggðum við fallegar draumaborgir
úr efniviði hverfulleikans

Þegar þeir hrundu
vaknaði skógurinn

Álfadrottningin kom til mín í draumvöku
með rúnum ristan hring
smeygði honum
á vísifingur minn

Augun brostu breytingum.


Að gefnu tilefni

god.jpgNú virðast margir vera uppteknir að því að benda á sökudólga. Margir eiga um sárt að binda. Hef heyrt um að nú þegar hafi nokkrir einstaklingar fallið í kreppuvalinn og gjaldið með lífi sínu.

Ég ætla ekki að taka þátt í þessum bölmóð og reiði, lærði eitt sinn að hægt sé að breyta eitri í meðal með hugarorkunni einni saman. Öll þessi reiði beinist yfirleitt að okkur sjálfum, því þeir sem við reiðumst eru ekki einu sinni meðvitaðir um reiði okkar. 

Ég ætla að nota tækifærið og deila með ykkur ljóðum og tónlist á þessum víðsjárverðu tímum ... því ljóðið hefur bjargað mér oftar en einu sinni og það hefur tónlistin gert líka.

Fyrsta ljóðið sem ég ætla að deila með ykkur heitir, "Aldrei gefast upp" og er byggt á skilaboðum Dalai Lama fyrir allmörgum árum til skáldsins Ron Whitehead, sem hann færði í ljóðabúning. Ég þýddi þetta í snarhasti þegar Ron var hér á landi í sumar og við lásum það saman á ensku og íslensku fyrir utan kínverska sendiráðið. Mér finnst þetta ljóð eiga vel við og beini ég því til þjóðarinnar allrar:)

Aldrei gefast upp
sama hvað gerist
Aldrei gefast upp

Ræktaðu hjarta þitt

Of mikilli orku er eytt
í að rækta hugann
í stað hjartans
í heiminum

Ræktaðu hjarta þitt
Sýndu umhyggju
ekki aðeins gagnvart
vinum þínum
heldur gagnvart öllum

Sýndu umhyggju
Stuðlaðu að friði
í hjarta þínu og
um heimsbyggð alla
Stuðlaðu að friði

Og ég endurtek
Aldrei gefast upp
Sama hvað er í gangi
Sama hvað gerist
í kringum þig

Aldrei gefast upp 

e. HH Dalai Lama og Ron Whitehead


mbl.is Um 500 missa vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttinn í Lhasa

eftir tíbesku skáldkonuna Woeser

Lhasa kvödd í skyndi. Nú borg óttans.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar er óttinn magnaðri en ef óttanum eftir 1959, 1969 og 1989 væri spyrnt saman.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn býr í andardrætti þínum, í hjartslættinum. Í þögninni, þegar þér langar til að tjá þig en gerir það ekki. Röddin föst í hálsinum.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem síbylja óttans rennur undan rifjum hersveita með vélbyssur. Frá mergð lögreglumanna með byssurnar mundaðar. Frá óteljandi óeinkennisklæddum njósnurum og enn bætir í óttann með risavaxinni vél ríkisvaldsins sem gnæfir yfir þeim, nótt sem nýtan dag. En þú mátt ekki beina myndavél að þeim, þá beinist byssa að þér, þú kannski dreginn inn í skuggann og enginn mun nokkru sinni vita af því.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn í Potala magnast eftir því sem þú ferð lengra í austur, þar sem Tíbetarnir búa. Kvíðvænleg skóhljóð bergmála allsstaðar, en í dagsbirtunni nærðu ekki einu sinni að sjá skugga þeirra. Þeir eru eins og ósýnilegir djöflar á daginn, en hryllilegur óttinn við þá er verstur, þess megnugur að láta þig missa vitið. Ég hef gengið fram hjá þeim, fundið kuldann frá vopnunum í höndum þeirra.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn er grandskoðaður öllum stundum með upptökutækjum og myndavélaaugum á hverju götuhorni, húsasundi og skrifstofu, í öllum klaustrum og musterissölum; allar þessar myndavélar, soga allt í sig. Snúast frá ytri heiminum og þvinga sér inn í huga þinn. “Zap zap jé! – Þeir eru að fylgjast með okkur.” — meðal Tíbeta, fornt máltæki með nýrri merkingu, hvíslað hljóðlega manna á milli.

Lhasa kvödd í skyndi. Ég er harmi slegin vegna óttans í Lhasa. Verð að skrifa um það.

23. ágúst 2008
Á leiðinni frá Lhasa


[Ég var í Lhasa frá 17. ágúst til 23. ágúst 2008. Stysta heimsókn mín til þessa og ég var nauðbeygð til að fara… þessi orð eru skrifuð svo ég gleymi ekki hvað gerðist þar. Það er eitt sem ég verð að segja við kínversk yfirvöld: Þú hefur byssur. Ég hef penna.]

Woeser var handtekinn meðan hún var í Lhasa en var svo lánsöm að vera sleppt.

WoeserUm höfundinn:

(Tsering) Woeser fæddist í Lhasa árið 1966. Hún er dóttir yfirhershöfðingja í kínverska frelsishernum. Þegar hún var fjögurra ára flutti fjölskylda hennar til Kardze, Sichuan. Þar stundaði hún bókmenntanám sem allt fór fram á kínversku. Hún vann í tvö ár sem blaðamaður áður en hún flutti til Lhasa árið 1990. Þar hóf hún störf sem ritstjóri fyrir tímaritið Tíbeskar bókmenntir. Fyrsta ljóðabók hennar Xizang zai shang kom út árið 1999. Vegna þess að hróður hennar óx óðum í bókmenntaheimum, var henni gefinn kostur á að hefja nám við Lu Xun stofnunina í Peking.

Árið 2003 kom út eftir hana safn ritgerða þar sem hún var ekkert að skafa utan af hlutunum, safnið fékk heitið; Notes from Tibet, bókin var bönnuð opinberlega vegna “pólitískra rangfærslna”. Í kjölfarið missti hún vinnuna sína sem ritstjóri og þurfti að flytja alfarið til Peking, þar sem hún hélt áfram að skrifa og fékk nokkrar bækur útgefnar í Taívan, ber þar helst að nefna bókina Forbidden Memory, en hún fjallar um kínversku "menningarbyltinguna" í Tíbet og prýða bókina jafnframt ljósmyndir sem faðir hennar tók á meðan á "menningarbyltingin" stóð yfir. Árið 2006, þegar lokað var fyrir bloggin hennar af yfirvöldum, hóf hún að blogga á erlendum netþjóni. Eftir óeirðirnar og mótmælin í mars á þessu ári hafa kínversk stjórnvöld lokað Tíbet sem og lokað fyrir allar upplýsingar um ástandið þar, þar á meðal hefur verið lokað fyrir bloggið hennar, þannig að Kínverjar hafa ekki haft aðgang að skrifum hennar. Bloggið hennar varð fyrir síendurteknum árásum hakkara og varð fyrir vikið ónothæft, en hægt er að finna athugsemdir og skýringar um ástandið í Tíbet á ensku á vefsvæði China Digital Times.

Árið 2007 hlaut Woeser verðlaun frá norska rithöfundasambandinu, verðlaun til heiðurs tjáningarfrelsi. Hún býr í Peking með eiginmanni sínum Wang Lixiong. Hún hefur ekki frelsi til að ferðast til annarra landa.

Þýðingin er byggð á enskri þýðingu Andrew Clark á ljóði Woeser frá kínversku. Hægt er að lesa ljóðið í þýðingu Andrews á Ragged Banner. Hægt er að finna fleiri ljóð eftir hana á þessum vef, en því miður hefur ekki mikið af verkum hennar verið þýtt yfir á ensku, nema ljóðabókin Tibet´s True Heart sem Andrew Clark þýddi. Hægt er að finna nokkur ljóð á vefnum Ragged Banner úr þessari mögnuðu bók.

Með björtum kveðjum
Birgitta


12 strengja steingítar

Fór í gær að skoða legsteininn sem snillingurinn Óskar hjá Sólsteinum vann fyrir okkur. Læt mynd fylgja af honum. Ég er svo ánægð með hvað þessi hugmynd hefur orðið falleg í hinu efnislega. Ef þið skoðið myndina vel - þá er að finna andlit í mynstrinu á steininum. Þeir sem þekkja muninn á 12 og 6 strengja gíturum geta séð að við klikkuðum ekki á að hafa hann 12 strengja.

Mér fannst vel við hæfi að hafa þetta vísubrot með - enda má segja að mamma blessunin hafi villst langt af leið til Danaveldis en er loksins komin aftur heim. Þá fannst mér steingítar vera vel við hæfi, hennar helsta skáld til lagagerðar var Steinn Steinarr - því er steingítarinn einskonar tilvísun í það...

Á von á að hann verði kominn upp við Kotströnd um helgina.

 

Steingítar Bergþóru

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband