Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nóg að gera hjá aðgerðasinna á næstu dögum

Í kvöld 20. júní er opinn félagsfundur hjá Vinum Tíbets - við munum hittast á Kaffi Hljómalind klukkan 20:00. Allir velkomnir. 

Á morgunn 21. júní verður okkar vikulega staða fyrir utan kínverska sendiráðið klukkan 13:00. Þetta er mikill örlagadagur fyrir Tíbeta, því Ólympíukyndillinn sem á að vera táknrænn fyrir frið og sameiningu þjóða mun þrátt fyrir allt fara í gegnum Tíbet. Kínversk yfirvöld hafa hótað engri miskunn þeim sem voga sér að mótmæla ástandinu í landinu á meðan hlaupið verður með kyndilinn í gegnum Lhasa. Krafa okkar er enn hin sama: við viljum að alþjóðafjölmiðlum verði hleypt inn í Tíbet nú þegar.

Ég mun jafnframt eftir stöðuna fyrir utan kínverska sendiráðið taka þátt í RÚST - og lesa upp úr ímyndarskýrslunni sem forsætisráðherra okkar lét gera og er vægast sagt undarleg og óþægileg lesning. Þessi skýrsla hljómar afar fallega ef maður gleymir því að þetta er markaðssetningarskýrsla. En mikilvægt er að gleyma því ekki og mikilvægt að þjóðin viti meira um þessa skýrslu. 

Ég ætla svo að taka þátt í alheimsföstu á sunnudaginn ... undir yfirskriftinni.... heilbrigði og menntun, ekkert stjörnustríð.

Svo fer ég í barnaafmæli og mun þurfa að hefja hina miklu leit að leikföngum sem ekki eru búin til í Kína... Það er ekki auðvelt, eyddi heilum klukkutíma í það um daginn... fann bara eitt púsl sem búið var til í Tékklandi og eina barnabók sem var prentuð annarsstaðar en í þrælakistu heimsins. 

Fór í gær að skoða leiðið hennar mömmu. Við ætlum að láta búa til gítar úr steini. Táknrænt að sjálfsögðu enda samdi hún flest lögin sín við ljóð Steins Steinars:) 

Í nótt dreymdi mig Dalai Lama. Þetta var skringilegur en magnaður draumur. Þarf að finna draumaráðningarmanneskju hið fyrsta.

Finnst ekkert eins mikilvægt á þessari stundu í heiminum okkar en að við náum sem flest að verða meðvituð um að hamingja okkar er fólgin í því að komast handan sjálfshyggjunnar og leggja okkar á vogskálarnar í að skapa hamingjuríka framtíð fyrir alla, ekki aðeins okkur sjálf. Já ég veit að þetta hljómar fremur væmið en svona er Birgitta - alveg hrikalega væmin mannvera þrátt fyrir pönkið í mér:)

dagurfostu

 


Röng frétt

Var að lesa mér til um þetta á vef anarkista og þar kemur í ljós að þessi fyrirsögn og frétt er röng. Fáninn var ekki skorinn, heldur bandið sem heldur honum uppi til að koma hinum fánanum á bandið. Íslenska flaggið var alveg ósnortið og ekkert vanhelgað eins og bloggheimur hefur verið að lepja upp eftir þessari frétt. 

Ég bara skil ekki svona vinnubrögð hjá vinsælustu netfréttaveitu landsins. Ég tek það fram að ég hef nákvæmlega enga skoðun á þessari aðgerð sem slíkri og hef ekki tíma til að þrasa um vanvirðingu eður ei því ég er sjálf að standa fyrir annarri aðgerð í dag og tengist hún auðvitað Tíbet. 

Í dag ætlum við að taka þátt í alþjóðaaðgerðum til að vekja athygli á ástandinu í Tíbet - hætt hefur verið við að hlaupa með kyndilinn um skjálftasvæðin í Tíbet í dag en kínversk yfirvöld ætla að fara með hann til Lhasa næstkomandi laugardag. Þrátt fyrir miklar tilraunir til að hafa áhrif á IOC til að þrýsta á CCP um að hætt verið við að fara með kyndilinn til Tíbets hafa þeir hunsað þá ósk, en óttast er að þessi athöfn verði tilefni mótmæla í Tíbet og það þýðir aðeins eitt: fleiri handtökur og jafnvel morð á þeim sem andmæla þessari táknrænu athöfn um yfirráð CCP á Tíbet. Við höfum fengið að láni alvöru Ólympuleikakyndil frá síðustu Ólympíuleikum og ætlum að fara frá kínverska sendiráðinu til stjórnarráðsins. Hittumst við kínverska sendiráðið klukkan 17:30 í dag.     

 


mbl.is Skar íslenska fánann á Stjórnarráðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og Tíbet

Eigum við eitthvað sameiginlegt með landinu sem snertir himininn? Ef til vill meira en okkur grunar?

Einu sinni vorum við ekki sjálfstæð þjóð. Við vorum dönsk nýlenda eins og Færeyjar og Grænland eru enn þann daginn í dag. Hvernig væri ástandið á Íslandi ef Danir hefðu ekki verið hernumdir og við hefðum ekki með notfært okkur það til að öðlast okkar frelsi? Varla hefðum við getað farið í stríð við Dani, vopna og herlaus þjóðin? Við erum smá en kná, friðarþjóð rétt eins og Tíbetar. Við eigum fornt tungumál sem við keppumst við að vernda, rétt eins og Tíbetar. Við eigum forna menningu sem ímynd okkar er samofin, rétt eins og Tíbetar. Eini munurinn er að við fengum frelsi, en ekki Tíbetar. 

Hvað ef Danir myndu ákveða að þeir ættu tilkall til Íslands vegna sögulegra staðreynda varðandi það að við vorum eitt sinn nýlenda þeirra og í kjölfarið myndu þeir hernema landið?

Tíbet var frjálst land þegar það var hernumið af Kína. Þeir áttu í mun nánari viðskiptatengslum við Mongólíu en Kína. Dalai er mongólskt orð enda voru það Mongólar sem gáfu fyrsta Dalai Lama heiti sitt.  Tíbetar voru með sinn eigin gjaldmiðil og tungumál þeirra á ekkert sammerkt kínversku. Tíbetar líkjast Kínverjum ekkert í útliti og menning þeirra er gerólík. En Tíbet átti eitthvað sem Kína skorti, ósnortna náttúru og fullkomna staðsetningu til að treysta ítök sín og völd enn frekar gagnvart nágrannalöndum Kína. Kjarnaorkukapphlaupið á milli Indlands og Pakistan á rætur sínar að rekja til ótta Indverja við kjarnavopn Kína, en þeim er beint að Indlandi frá hinu hálenda Tíbet. Kínversk yfirvöld hafa jafnframt eytt með ógnarhraða gríðarlega stórum fornum skógum og talað er um að þær aðgerðir hafi meðal annars haft þau áhrif að Kínverjar eru í auknum mæli að upplifa verstu flóð sögunnar á láglendinu kínverska.

Rökin sem Kína færir fyrir því að þeir eigi Tíbet eru þau sömu og ef Danmörk myndi gera tilkall til Íslands. Þegar Tíbet var hernumið var niðurstaða lögfræðingateymis S.Þ. að þetta væri hernám. Alþjóðasamfélagið hefur brugðist Tíbet og látið hernámið viðgangast í meira en hálfa öld. Margvíslegar útskýringar eru á því af hverju ekkert hefur verið gert til að aðstoða Tíbet en það breytir ekki staðreynd málsins; Tíbet er hernumið land. Þjóðmenning þeirra er að hverfa. Kínversk yfirvöld senda sífellt fleiri Kínverja til Tíbet og ætla sér að þurrka út menningu landsins og er þeim að takast það áætlunarverk sitt. Nú eru fleiri Kínverjar í Tíbet en Tíbetar. Tíbetar sem ekki læra kínversku eiga enga möguleika á háskólamenntun eða vel launaðri vinnu.

Kínversk yfirvöld hafa einn lögreglumann á hverja tuttugu Tíbeta. Mikill fjöldi Tíbeta er í fangelsum vegna trúarskoðana, ef þú neitar að hafna Dalai Lama sem trúarleiðtoga ertu sendur í fangelsi. Þessi fangelsi eru þekkt fyrir pyntingar sem eru svo svæsnar að munkar og nunnur fremja fremur sjálfsvíg en að láta loka sig þar inni til margra ára. Börn eru send í þessi fangelsi ef þau reyna að flýja Tíbet og koma þaðan illa leikin á sál og líkama.

Okkur tókst að öðlast sjálfstæði án blóðsúthellinga og tökum frelsi okkar sem sjálfsögðum hlut. Við vorum lánsöm að losna undan því að eiga allt okkar undir annarri þjóð. Okkur ætti því að finnast það sjálfsagður hlutur að aðstoða smáríki eins og Tíbet þegar það kallar á hjálp til að losna undan hervaldi annarrar þjóðar í sínu eigin landi. Mig grunar þó að eitt atkvæði til að komast í öryggisráð S.Þ. vegi þyngra en að standa vörð um mannréttindi, samt eru rökin fyrir því að fá sæti í þessu vitagagnslausa öryggisráði að stuðla að mannréttindum, þrátt fyrir þá staðreynd að öryggisráðið hefur ekki getað sýnt þeim löndum sem þurfa hve mest á stuðning heimsins að halda neinn stuðning, því Kína og USA hafa svokallaðan veto rétt og hafa notað hann óspart til að þjóna hagsmunum sínum. 

Verum hugrakka þjóðin og sínum Tíbetum stuðning í verki með því að formlega krefjast þess að alþjóðlegum fjölmiðlum verði hleypt inn í landið tafarlaust.

Tökum ekki frelsi okkar sem sjálfsögðum hlut. Tíbetar hafa sent út neyðarkall til heimsins um aðstoð. Höfum manndóm til að þora að verða við því kalli og krefjum kínversk yfirvöldum að hefja viðræður við munkinn Dalai Lama um framtíð Tíbets. Ef við gerum ekki neitt erum við samsek um þjóðarmorð.

 


mbl.is Forsætisráðherra bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt framundan hjá Vinum Tíbets

DSCF2081
Að venju hittast þeir sem vilja fyrir utan kínverska sendiráðið á laugardögum klukkan 13:00 - markmiðið er að sýna Tíbetum stuðning í verki og minna á að við erum meðvitum um mannréttindabrot kínverska yfirvalda sem viðgangast í Tíbet. Okkar krafa nú sem endranær er að alþjóðfjölmiðlum verði hleypt inn í Tíbet tafarlaust.

Nánast engar fréttir eru að finna um hvernig ástandið er í Tíbet á þessari stundu og hvetjum við ykkur til að skrifa undir nýjan undirskriftarlista þar sem farið er fram á við IOC að þeir þrýsti á CCP að hleypa fjölmiðlum inn í Tíbet http://actionnetwork.org/campaign/Tibet_access

Við ætlum að taka þátt í alþjóðaaðgerðum næstkomandi miðvikudag, klukkan 17:30, þar sem við munum vera með táknræna afthöfn sem mun innibera kyndil og göngu frá kínverska sendiráðinu að stjórnarráðinu. Gott væri að fá uppástungur um hvað við getum gert meira til að fá athygli fjölmiðla á aðgerðina, en mikilvægt er að sýna Tíbetum stuðning á þessum örlagaríku dögum sem kyndilhlaupið í gegnum landið þeirra fer fram.

Verið er að skipuleggja fjölbreytta dagskrá sem mun fara fram væntanlega í Nasa eða Iðnó þegar lokaathöfn Ólympíuleikana fer fram. Við óskum eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða við þessa uppákomu. Ef þið hafið áhuga á að hjálpa hafið samband við okkur á info@tibet.is.  Markmiðið með hátíðinni er að safna peningum fyrir flóttamenn frá Tíbet. En margir þeirra missa heilsu á flóttagöngunni löngu og mikið af flóttafólkinu eru einstæð börn sem eiga hvergi höfði sínu að halla og einnig að vekja athygli á Tíbet.

Við erum jafnframt með í bígerð að hafa kertaathöfn þegar opnunarhátíð Ólympíuleikana á sér stað og hvetjum alla félaga til að taka þátt í henni. Við ætlum að búa til risastórt friðarmerki með kertum.

Við verðum væntanlega mjög fljótlega með bíósýningu í Hljómalind. Læt ykkur vita þegar dagsetning hefur verið ákveðin.

Ef einhver á þessum lista langar að gera eitthvað, eins og til dæmis að halda upplýsingakvöld, skrifa greinar og fá þær yfirlesnar eða hvað sem gæti gagnast félaginu ekki hika við að hafa samband og við erum tilbúin að hjálpa ykkur eftir fremsta megni. 

Okkur vantar einnig sjálfboðaliða til að halda utan um vefinn okkar, sjá um að skrifa og þýða greinar og efni. Þá langar okkur líka að gera lítið dreifirit og óskum eftir aðstoð við það.

Við ætlum að hafa opinn félagsfund næstkomandi föstudagskvöld klukkan 20:00 í Kaffi Hljómalind - allir sem hafa áhuga á að leggja félaginu lið eru velkomnir að koma. 


Er barnalegt að vilja axla ábyrgð?

Aldrei hef ég tekið mikið mark á Árna Johnsen og geri ekki enn. Finnst furðulegt af hverju maður heyrir svo oft talað um barnalegheit þegar Björk gerir eitthvað sem falla mætti undir hetjudáð fremur en bernskubrek. Hún hefur alltaf verið samkvæm sjálfri sér og nýtt sér frægð sína í að gera heiminn okkar betri. Það mættu aðrir taka sér til fyrirmyndar. Björk er fædd með snilligáfu á mörgum sviðum, burtséð hvað fólki finnst um söng hennar, sem reyndar hreyfir við minni sál meira en margur. Þannig fólk bæði stuðar aðra og hvetur aðra til dáða.

Það að vilja axla ábyrgð þegar kemur að umhverfismálum sem og að minna á að við getum öll gert eitthvað til að snúa við þeirri þróun sem við eigum við að etja, er ekki barnalegt, það er miklu frekar afar fullorðinslegt. Þeir sem hrópa á meiri iðnvæðingu og meiri sóun mætti frekar kalla bernska. Björk sér hlutina í samhengi, Árni Johnsen og hans hirð hafa einskonar rörsýn eða þröngsýn sem stefnir jörðinni okkar í meiri voða en flest fólk er tilbúið að horfast í augu við. 

Við þurfum öll að gera eitthvað til að snúa þróuninni við, breyta áherslunum. Við Íslendingar mengum meira per haus en aðrar "fyrsta" heims þjóðir og miðað við hvað við höfum mikinn aðgang að upplýsingum þá er það sorgleg staðreynd og ekkert skringilegt að risaeðlur eins og Árni ráðist að því sem sýnir hve eigingjarn lífsmáti þeirra er. Í þessu tilfelli Björk. Hann í það minnsta lamdi hana ekki eins og margar söngvara sem voga sér upp á svið á Þjóðhátíð og gætu skyggt á frægðarljóma hans:) 


mbl.is Barnalegt að hækka koltvísýringslosun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein ekki fréttin

Hvernig getur þetta talist fréttnæmt? Ætla að nota tækifærið og minna á vikulegan útifund hjá kínverska sendiráðinu á morgunn laugardag klukkan 13:00. Markmið fundarins nú sem endranær er að minna á að enn er landið lokað fyrir alþjóðlegum fjölmiðlum. Engar haldbærar fréttir hafa komið frá skjálftasvæðunum í Tíbet, veit að þar sem skjálftinn var sem verstur býr fólk við fremur frumstæðar aðstæður og á bágt með að sækja sér hjálp. Las í morgunn að blaðamönnum er meinaður aðgangur að því svæði. Hvað er eiginlega að alþjóðasamfélaginu að gera ekki neitt til að þvinga CCP til að í það minnsta tala við Dalai Lama og að landið verði opnað aftur þannig að hægt sé að fá að vita hvað er í gangi þarna?

Er að spá í að vera með aðgerð á miðvikudaginn, þegar kyndillinn kyndugi mun fara um Tíbet. Þessi kyndilför rekur sögu sína til Hitlers og Ólympíuleikana hans og gerði hann sér leik að því að senda sitt fólk á hlaupum um löndin sem ætlunin var að hernema með hinn helga loga sem hans áróðursmeisturum fannst gráupplagt að bendla við paganisma og fengu þá snjöllu hugmynd að nota spegla til að kveikja logann sem um kyndlana leikur. Þessi kyndilför um Tíbet er enn ein aðgerð CCP til að láta sem svo að landið Tíbet sé þeirra og upplifa margir Tíbetar í Tíbet það sem mikla niðurlægingu á heimsvísu. Því má búast við mótmælum af einhverju tagi í Tíbet. 

Held að ég hafi kyndilaðgerð... á einhver kyndil sem við getum fengið lánaðan. Helst Ólympíukyndil. Held að við þurfum að fara að vera með götuleiksýningar til að fá athygli fjölmiðla að nýju, en ég fæ ekki lengur birtar fréttatilkynningar og er því hætt að nenna að senda slíkar. Hef séð fullt af skemmtilegum aðgerðum - kannski getum við fengið svarthöfða lánaðan:) kannski gæti hann táknað CCP! 

Ein ástæða þess að maður stendur fyrir aðgerðum er að fá umfjöllun um málefni sem stundum eru kölluð jaðarmálefni og komast oft ekki í fjölmiðla því það eru ekki nógu margir að spá í málefnin. Stundum eru þessi málefni þó þess eðlis að þau varða okkur öll. Mér finnst mannréttindabrot varða okkur öll. Sérstaklega fólk sem um frjálst höfuð getur strokið. Frelsi er ekki eitthvað sem við eigum að líta á sem sjálfsagðan hlut. Það er mikil gjöf að búa í herlausu landi, þar sem flest okkar vandamál eru svokölluð lúxusvandamál. 

CCP hefur hótað Tíbetum afar hörðum aðgerðum ef þeir voga sér að sýna opinberlega löngun í frelsi frá þeirra hendi. Þeir sem eitthvað þekkja til harðra aðgerða kínverskra yfirvalda vita að það þýðir oft aftaka eða fangelsi til langs tíma. Á miðvikudaginn 18. júní verða alþjóðaaðgerðir sá ég rétt í þessu og ástæðulaust að taka ekki þátt. 

Óska eftir vitrænum hugmyndum um hvað ég get gert til að beina aftur kastljósinu að Tíbet. 


mbl.is Bjölluat á forsetaskrifstofu
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Ekki minnst á tilefni tónleikana

Hvorki Icelandair né Iceland Express nefndu tilefni útitónleikana í fréttaskeytum sínum til að lokka ferðamenn hingað á þá. Ég er áskrifandi að báðum póstlistum og í þeim var hvergi minnst á að þetta eru tónleikar til að vekja almenning til umhverfisvitundar. Þeir ættu nú að sjá að það er einnig þeirra hagur að standa vörð um náttúrna okkar. 


mbl.is Áhugi erlendis frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hún hló, og hún skelli skelli hló!

Það er að segja ég...

þessi ljósmynd er bara snilld. Er einmitt búin að liggja í MAD sérútgáfu tileinkaðri Star Wars síðustu daga og þessi mynd gæti einmitt verið teikning eftir einhverja af MAD mönnunum, en ekkert er þeim heilagt. Ég vona að fólk fari nú ekki að hneykslast á þessu, því þetta er bara fyndið. 

Fyrir þá sem vilja vita meira um Tíbet, þá setti ég fullt af slóðum á efni því tengdu sem og slóðir í heimildarmyndir á google video... Vona að fleiri taki sig til og kynni sér hvað er í gangi þarna og hefur fengið að viðgangast allt of lengi.

 


mbl.is Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítarleg grein um ekki neitt

Paradísarblóm

Ætla mætti að hin illræmda gúrkutíð sé hafin. Þessi frétt er byggð á tölum sem alveg á eftir að vinna og segja manni nákvæmlega ekki neitt. Það er til hafsjór af málefnum sem krefjast ekki mikillar yfirlegu sem mættu alveg fá meira vægi þegar gúrkutíðin ríður yfir eins og stormsveipur af einskisverðum fréttum. Til dæmis Tíbet. Finnst alþjóðasamfélag blaðamanna hafa brugðist þeim sem og öðrum löndum þar sem engir fjölmiðlar fá aðgengi. Er það sennilega vegna þess að alþjóðafréttaveitur dæla ekki út greinum sem auðvelt er að þýða án mikillar rökhugsunar eða þekkingar. En þekkingarskortur háir nútíma blaðamennsku svo mikið að telja má að það sé nokkuð hættuleg þróun, því fólk virðist ekki vera duglegt að leita sér heimilda handan þess sem það les í þessum alþjóðahring helstu fjölmiðla. 

Eins og áður kemur fram fæ ég alltaf mín fréttaskeyti varðandi Tíbet frá google. Það þýðir að ég hef ágæta yfirsýn yfir hvað er að gerast varðandi landið. En þessi skeyti eru harla einsleit og oft sama fréttin umskrifuð á fjölda tungumála. En ég fæ samt um 15 skeyti á dag. Flest skeytin hafa nokkrar fréttir. En skeytunum fækkar stöðugt og greinilegt að heimsbyggðin er að gleyma því sem er í gangi í landinu. Vona því að það verði hressileg mótmæli, því það er það eina sem virðist koma Tíbet á kortið. Netið er líka allt vaðandi í áróðri frá valdaklíkunni í Kína. 

Það er annað sem ég hef rekið mig á eftir að hafa átt fullt af samtölum við fólk frá öllum heimshornum sem flest þekkir einhverja Kínverja persónulega og það er samróma álit allra að vinir þeirra kínversku eru afar gagnrýnir á stjórnvöld í Kína varðandi mannréttindabrot enda flestir flúið landið út af einskonar ofsóknum. En þegar kemur að málefnum Tíbets þá er þeim fyrirmunað að horfast í augu við að þeir séu beittir sömu kúgun og samlandar þeirra. Og þeir eru algerlega fastir í þeirri sýn að í Tíbet séu allir að "deyja" úr hamingju. Merkilegt.

Ég kalla eftir innihaldsríkum og fræðandi fréttum í gúrkutíð. Ég kalla líka eftir jákvæðum fréttum, því heimurinn okkar er stöðug kraftaverkamaskína og má alveg minna á það miklu oftar.  

Set hér svo með mynd af paradísarblómi og mun án efa skrifa færslu um plöntur, því það er enn eitt dæmið um eitthvað sem er stöðugt að gleða mann, með litum, lykt og fegurð. (Ég er mjög væmin inn við beinið):)


mbl.is Aukin sala á áfengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar fréttir frá Tíbet!

Ekki höfðu blöðin fyrir því að birta fréttatilkynningu Vina Tíbets fyrir fundinn í dag. Og ekki fann ég neinar fréttir af ráði um Tíbet í netfjölmiðlum hérlendis. Ég ætla að reyna að ráða bót á þessu og þýða eitthvað daglega úr öllum þessum fréttaskeytum sem ég fæ daglega sem tengjast Tíbet.  

Lögreglan í Nepal notaði kylfuróspart til að berja á mótmælendum og leysa upp fund þar sem fjöldi fólks hafðisafnast saman til að sýna Tíbet stuðning sinn í Kathmandu. Lögreglan handtók450 manns. Fólkið verður leyst úr haldi síðar í dag. Vitni sögðu að mikill fjöldi flóttamanna frá Tíbet, þar á meðal nunnur og munkar hafi ætlað að haldastuðningsfund fyrir utan kínverska vegabréfsáritunar-skrifstofu þegar förþeirra var hindruð.

Mikill fjöldi Tíbeta varð fyriráhrifum af jarðskjálftanum mikla sem reið yfir Kína og Tíbet, en engar fréttirhafa borist um mannfall eða skemmdir þar, enda landið lokað fyrir alþjóðaaðstoðaf hvaða tagi sem er. Engir fjölmiðar hafa ekkert fjallað um þessa hlið málsins. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 509731

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.