Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þetta styð ég

Vona að aðrir þingmenn sem áður töluðu digurbarklega um mikilvægi þess að þjóðin ætti rétt á að kjósa um til dæmis Írak stríð og Kárahnjúka gefi þjóðinni tækifæri á að kjósa um þetta mál.
mbl.is Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá upprifjun

Icesave blekking á blekkingu ofan. Sjaldan hefur verið eins mikil leynihyggja og eins illilega logið að þjóð og þingi eins og í kringum þetta Icesave mál. Þingið er haft af háði og spotti af framkvæmdavaldinu. Fjármálaráðherra skipar að engu verði breytt þegar þetta var tekið inn á þing og hver er svo niðurstaða meirihluta þingsins. Breytum engu! Þrátt fyrir að upplýsingar hafi komið fram sem sýna að við getum engan veginn staðið undir þessum skuldbindingum án þess að samfélagið okkar beri verulegan skaða af. Þekki svo marga sem ætla að flytja burt ef þetta verður samþykkt á miðvikudaginn. Þetta sjö ára skjól SJS er líka blekking því vextirnir eru himinháir og þurfa að borgast strax.
 

mbl.is Lokaumræða um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarnefnd þingsins: ræðan mín frá því í gærkvöldi

Þingsalurinn var nánast galtómur þegar ég flutti þessa ræðu:

Úr þessum ræðustól hafa ráðherrar eða forsetar ásakað mig um að skapa tortryggni eða hjá mér búi annarlegar hvatir þegar ég hef mælt gegn þessu frumvarpi um sérstaka þingmannanefnd vegna rannsóknarskýrslu þingsins sem allir bíða eftir annað hvort með kvíða eða í ofvæni.

Þetta er engin venjuleg skýrsla, enda tekur hún á hruninu, hruni sem er mun víðtækara en bara hrun fjármála, hrun sem sýnir svo ekki verður um villst að hérlendis hefur orðið siðrof. En hvað er siðrof. Ég hafði aldrei velt þessu orði fyrir mér fyrr en í hruninu í fyrra. Siðrof er þegar siðferðisbrestirnir eru svo miklir í samfélaginu að líkja má því við jarðrof og siðferðisvitundin verður jafn ístöðulaus og moldrok.

Sú bábilja og veruleikafirring að halda að þingið eigi eitt að standa að því að meta hvort eigi að kalla saman landsdóm eða veita sjálfu sér aðhald myndi ég síðan vilja kalla veruleikarof. Ég hef nefnilega ekki enn fyrirhitt neinn fyrir utan þingheim sem finnst þetta snjöll hugmynd hjá hæstvirtri forsætisnefnd.

Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli er enginn áhugi meðal annarra afla á Alþingi að afgreiða það með öðrum hætti en þeim sem tryggir augljósa hagsmuni þeirra flokka sem voru við stjórnvölin við bankahrunið og í aðdraganda þess.

Það hlýtur að vera öllum ljóst að alþingismenn eru ekki færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára. Nauðsynlegt er að hlutlausir aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem er sem álitsgjafar við lagasmíð eða fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar. Tryggja þarf réttlæti og gegnsæi í öllu ferlinu.

Frú forseti

Mér finnst sorglegt hvernig á að taka á þessu máli, mér finnst sorgleg sú veruleikafirring sem ég finn innan veggja þingsins. Það má ekki gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð án þess að vera ásakaður um að hafa annarlega hvatir að leiðarljósi. Ef það eru annarlegar hvatir að kalla eftir skynsamlegri meðferð á svo mikilvægu máli þá megi háttvirtir þingmenn alveg kalla þetta ákall um að horfast í auga við þá gjá trausts sem hefur myndast á milli þjóðar og þings annarlegar hvatir. Ef það að benda á gallana við það að þingið veiti sjálfu sér aðhald er til þess fallið að skapa tortryggni um þingið þá verður svo að vera. Ég held að tortryggnin hafi lítið að gera með mín orð, heldur miklu frekar hefur hún að gera með það skelfilega hrun sem átti sér stað og þann sofandi hátt sem átti sér stað innan veggja þingsins. Miðað við þau vinnubrögð sem viðgangast hér á þessum síðustu vikum þá skil ég alveg hvernig sofandi að feigðarósi þingið og þjóð flaut inn í þá erfiðleika sem við erum að glíma við núna.

Ég gagnrýni harðlega það veruleikarof sem á sér stað hér inni í sölum þingsins, það er veruleikarof að gera sér ekki grein fyrir því að almenningur vill önnur vinnubrögð en hafa verið hér ástunduð – það er lítið traust á þinginu að gefnu tilefni. Þingið sem og aðrir ráðamenn brugðust þjóðinni vegna slakrar lagasetningar varðandi fjármálakerfið. Það hefði verið lag að sýna að okkur er full alvara með að taka hér á hlutunum utan hefðaveruleikans sem að mörgu leyti er eins og myllusteinn um þingstörfin. Það hefði verið lag að sýna að við þorum að leita leiðsagnar utan þings meðal fólks sem á engra hagsmuna að gæta nema að vera leiðarljós fyrir þingið um hvernig ber að taka á málum er varða þingið sjálft og þá fulltrúa sem hugsanlega brugðust í því hlutverki.

Ef þessi orð mín eru til þess fallin að auka á tortryggni gagnvart þinginu þá verður bara svo að vera. Ég verð bara að viðurkenna að mannlegir brestir eru fangaðir með löggjöf og hér innan veggja hefur sýnt sig að mannlegir brestir eru ekki síður landlægir en annarsstaðar í samfélaginu. Hættum að setja okkur skör hærra en annað fólk og viðurkennum vanmátt okkar til að taka á þeim þætti þessa máls sem setur þingmenn í þá ómögulegu stöðu að fjalla um svo viðkvæm mál er varða þeirra eigin samherja. 


Hjáseta

Það er yfirlýst stefna mín að greiða ekki atkvæði um mál sem ég hef ekki haft tíma til að kynna mér. Vegna mikillar færibandavinnu á þinginu núna er ekki mögulegt að kynna sér öll þau frumvörp sem verið er að renna í gegn með endalausum afbrigðum. Afbrigði þýðir að beðið er um að mál fái hraðari afgreiðslu en kveður á um í þingsköpum. 

Ég er ekki í nefndinni sem fjallar um þetta mál og hafði ekki tíma til að ræða við aðra þingmenn sem eru líka á hlaupum um möguleg ágreiningsmál eða galla á frumvarpinu. Þess vegna sat ég hjá.

Það er svolítið furðulegt að sjá þingmenn greiða atkvæði eftir einhverri línu um mál sem þeir vita ekki neitt um. Það ætti að tilheyra gamla Íslandi. Því drjúgan hluta næsta árs munum við svo eyða í að lagfæra galla á löggjöf sem var ekki nægilega vel unnin. 

Ég er ekki að tala sérstaklega um þetta mál, hef miklu meiri áhyggjur af fjárlögunum og skattafrumvörpum sem hafa víðtæk áhrif á afkomu almennings. Annars þá er ég búin að fá það staðfest að þingið hefur nákvæmlega engin völd og kannski er bara kominn tími á að leggja það niður í núverandi mynd ef þingmenn fara ekki að standa í lappirnar og krefjast breytinga og endurheimti völd sín frá framkvæmdavaldinu. 


mbl.is Ný matvælalöggjöf samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færibandavinna þingsins

 Er stórlega misboðið vegna nokkurra þeirra mála sem á að troða í gegnum þingið á næstu dögum. Bendi á aðför að þeim sem eru atvinnulausir, bendi á meðför þingsins á skýrslu rannsóknarnefndarinnar, bendi á ívilnanir vegna gagnavers til BTB. Hafið augun opin kæru landsmenn, nýja Ísland er blekking.

Ljóst er að ekkert hefur breyst. Enn skal lauma umdeildum frumvörpum í færabandavinnuna sem er í gangi núna. Þingið hefur engin völd. Engin frumvörp fá eðlilega þinglega meðferð. Þ.e.a.s. umfjöllun og afgreiðslu úr nefndum nema ráðherrar samþykki það, sem gerist helst ekki nema um þau ríki þverpólitísk sátt. Þetta er hinn kaldi veruleiki sem ég hélt í einfeldni minni að ætti að breyta. Engin ný vinnubrögð. Allt við það sama, sama hver situr í hvaða ráðuneyti. Reyni að plægja í lýðræðishafinu en verður lítið ágengt.


Fréttatilkynning: afnám leyndar á Icesave gögnum

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna málflutning formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, vegna þeirrar leyndar sem hvílir á gögnum er varða Icesave.  Formaður fjárlaganefndar heldur því fram að aldrei hafi verið beðið um að leyndinni verði aflétt.  Það er ekki allskostar rétt.  Ítrekað báðu þingmenn Hreyfingarinnar um að leyndinni yrði aflétt í ræðustóli Alþingis.  Þá bað þingflokksformaður Hreyfingarinnar um að tölvupóstum á milli Indriða H. Þorlákssonar og Mark Flanagan, dags. 13. og 14. apríl 2008, yrði dreift til allra nefndarmanna utanríkismálanefndar áður en fundur með Franek Rozwadowski, dags. 17. júlí 2009, sem Birgitta Jónsdóttir kallaði eftir yrði haldinn. Ekki var hægt að verða við þeirri beiðni með öðrum hætti en að umræddum tölvupóstum var varpað upp á tjald, nefndarmönnum til skoðunar. 

Til að tryggja að boðleiðir séu réttar hefur Birgitta Jónsdóttir boðsent fjármálaráðherra í tvígang, Steingrími J. Sigfússyni, formlega beiðni um að trúnaði verði nú þegar aflétt af gögnunum í „leynimöppunni“ svokölluðu, enda ekkert sem réttlætir að þau séu ekki aðgengileg almenningi.  Í ljósi orða Guðbjarts Hannessonar í Fréttablaðinu hlýtur að verða brugðist við þessari beiðni án tafar.

Ljóst er að það á að hunsa þessa beiðni sem ég sendi upprunalega 8. desember, því ekki hef ég enn fengið nein svör, þó það sé alveg ljóst að þessi gögn muni varpa nýju ljósi á Icesave málið gagnvart almenningi.  

 

Formleg beiðni um að leynd verði aflétt

Þann 8. desember síðastliðin sendi ég formlega beiðni til fjármálaráðherra þess efnis að leynd verði aflétt af öllum gögnum í vörslu þingsins er varða Icesave - Í morgunn sendi ég ítrekun og mun jafnframt endurtaka boðsendingu til hans. Sum þessara skjala eru nú komin í umferð, eins og til dæmis það sem segja má sé viðkvæmast, þ.e.a.s. bréfasamskipti á milli Mark Flanagan og Indriða sérstaks ráðunautar SJS. Það er því engin ástæða til að halda leynihjúp um hin skjölin. 
 
Hér er bréfið:  
Þann 8. desember 2009 sendi undirrituð yður beiðni þess eðlis að leynd veðri aflétt af öllum gögnum í vörslu þingsins er varða Icesave málið. Þar sem engin svör hafa borist ítrekar undirrituð erindi sitt hér með, þess eðlis að neðangreind gögn, 23 að tölu, sem má finna í „leynimöppunni“ svokölluðu er varða Icesave, verði gerð opinber og aðgengileg almenningi nú þegar. 
 
Hér er listi yfir skjölin sem ég vil að almenningur fá nú þegar aðgengi að:
1. Settlement Agreement between TIF and FSCS (Financial Security Compensation 
Scheme). 
2. Minnisblað um fund íslenskra og breskra stjórnvalda um Icesave málið í London 2. 
september 2008. 
3. Tölvupóstssamskipti við formann samninganefndar Hollands í febrúar 2009 og sem viðhengi bréf Landsbanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins dags. 23. september 2008
4. Frásögn af fundi með fulltrúum Hollands vegna Icesave reikninga Landsbankans 10. 
október 2008. 
5. Frásögn af fundi með fulltrúum Bretlands vegna krafna í þrotabú Landsbankans 1 1 . 
október 2008. 
6. Frásögn af fundi með fulltrúum Bretlands um fall íslenska bankakerfisins og stöðu innstæðueigenda í breska útibúi Landsbankans 23. og 24. október 2008. 
7. Frásögn af fundi sjö fastafulltrúa ESB með Íslandi í kjölfar ECOFIN 4. nóvember 2008. 
8. Fundur með sendiherrum sjö ESB ríkja vegna álits lögfræðihóps um innstæðutryggingar 1 2. nóvember 2008. 
g. Tölvupóstur með frásögn sendiherra Íslands í Brussel af fundi með fastafulltrúa Svíþjóðar og fastafulltrúa Danmerkur gagnvart ESB þar sem staða eftir ECOFIN fundinn í byrjun nóvember var metin, dags. 11. nóvember 2008. 
10. Tölvupóstur Martins Eyjólfssonar til Baldurs Guðlaugssonar um mat á stöðunni gagvart ESB, dags. 12. nóvember 2008. 
11. Tölvupóstur Stefáns Hauks Jóhannessonar til fjármálaráðherra o.fl. um óformlegan fund með yfirmanni lagaþjónustu Ráðherranaráðsins í kjölfar ECOFIN fundarins í byrjun nóvember, dags. 13. nóvember 2008. 
12. Frásögn af fundi samninganefnda Íslands, Bretlands, Hollands og Þýskalands í Haag 2.-3. desember 2008. 
13. Frásögn af fundi milli utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Bretlands dags. 3. 
desember 2008. 
14. Álit ríkislögmanns, með aðstoð þriggja lagaprófessora, um lögfræðileg íätaefni er lúta að framkvæmd laga nr.12512008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði og fleira, dags. 19. nóvember 2008. 
15. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í Downingstræti, dags. 8. október 2008. 
16. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í breska utanríkisráðuneytinu, dags. 14. 
október 2008. 
17. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í hollenska utanríkisráðuneytinu, dags. 
16. október 2009. 
18. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í breska utanríkisráðuneytinu 27. október 2008. 
19. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í breska utanríkisráðuneytinu 10. nóvember 2008. 
20. Samantekt Lovells um ástæður fjármálaráðuneytis Bretlands fyrir frystingu eigna Landsbankans, dags. 7 .-27 . október 2008.
21. Fundargerð af fundi lögmanna Lovells og Logos með lögmönnum Blackstone Chambers. Endurmat Blackstone Chambers á lögfræðilegri ráðgjöf vegna kyrrsetningar á eignum Landsbankans í Bretlandi, dags. 12. nóvember 2008.
22. Bréf utanríkisráðherra Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands til utanríkisráðherra Bretlands varðandi Icesave samningaviðræður dags. 16. janúar 2009.
 
Virðingarfyllst,
Birgitta Jónsdóttir
Þingflokksformaður Hreyfingarinnar

mbl.is Icesave-samningur forsenda fyrir endurskoðun hjá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slagorðið Norrænt velferðarsamfélag

Ég verð að viðurkenna að þegar ég fór að vinna sem þingmaður þá hvarflaði ekki að mér hve óvönduð vinnubrögð eru viðhöfð á þinginu. Ég hélt í einfeldni minni að þingið hefði einhver smá völd. En hef komist að því að þingmenn hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu eru einfaldlega strengjabrúður framkvæmdavaldsins. Ég veit að við lifum á sögulegum tímum þar sem reynt er að bjarga því sem bjarga má í algeru hruni. En þessi svokallaða björgun er í hæsta máta furðuleg. Í stað þess að tryggja að grunnstoðirnar bresti ekki er ákveðið að dæla peningum í verkefni sem í huga mér eru ekki þess eðlis að réttlætanlegt sé að veita fjármunum í þau á meðan ljóst er að við erum þegar komin á þann stað að öryggi sjúklinga og barna er skert.

Það er merkilegt að hlusta á orðræðu Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra varðandi sína skjólstæðinga. Þegar ég spurði hana hvort að hún myndi ekki alveg örugglega tryggja að stofnanir eins og til dæmis SÁÁ leggist ekki á hliðina, þá hváði hún: "Í kreppunni verður hver að sjá um sig sjálfur." Ég hefði skilið þetta hugarfar hjá einhverjum sem aðhyllist einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og er á annarri línu en þeirrar að þróa hér Norrænt velferðarsamfélag eins og þessi ríkisstjórn lofaði. Annars þá held ég að slagorðið Norrænt velferðarsamfélag sé einmitt bara slagorð og engin innistæða fyrir því.

Í samræðum við félaga mína úr fjárlaganefnd, Margrét og Þór skipta þeirri vinnu á milli sín vegna þess að nefndarstörfin skarast á og oft þarf fólk að vera í mörgum nefndum á sama tíma, þá er ljóst að þessi orðræða um samstarf og samráð er líka bara innantómt orðagjálfur sem hljómar fallega en enginn vilji er til að framkvæma. Kannski halda valdhafar að samráð felist í því að sitja saman fundi og hlusta á ótal beiðnir um fjárstyrki fyrir verkefni sem mér finnst einfaldlega ekki eiga neitt erindi á borð alþingismanna. Ég hefði haldið að samráð ætti frekar að vera um vinnulag og megináherslur í stað þess að horfa upp á nefndarmenn meirihlutans fylla skjóður sínar með peningum skattborgara til að flytja í sín heimahéruð. Meira að segja spákonurnar fá enn sínar dúsur. Já það væri kannski snjallt að spyrja þessa sömu spákonu hvernig næsta ár verður, þegar hún fær sínar milljónir á meðan lokað verður fyrir grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. 

Ég hlusta ekki á þau rök að þetta hafi alltaf verið svona, það var einmitt út á loforðin um að breyta klisjunni: þetta hefur alltaf verið svona, sem þessi ríkisstjórn fékk sitt embætti. Það að forgangsraða peningum í verkefni sem hafa ekkert með grunnþjónustu samfélagsins er fullkomlega óásættanlegt í kreppunni. Það að greiða biskupsstofu aukalega nærri tvo tugi milljóna í þessari krepputíð er ekki réttlætanlegt. Þessi vinnubrögð er ófagleg og ómarkviss og í ósamræmi við þá tíma sem við lifum á. Öryggi þjóðarinnar er hunsað á kostnað ótal gæluverkefna víðsvegar um land og borg. Fjárlagagerðin gerð á hundavaði - svo miklu hundavaði að það þurfti að taka frumvarpið aftur inn í nefnd vegna þess að það gleymdist að setja inn réttar tölur inn í það. Við þurfum að vinna vinnuna okkar vel kæru samþingmenn meirihlutans. Við þurfum að hefja byltingu inni á þingi varðandi vinnubrögðum og þankagangi. Við þurfum að endurheimta völd þingsins frá framkvæmdavaldinu. Það að velta ábyrgðinni yfir á fortíðina mun ekki leysa þau vandamál sem við erum að glíma við í dag. 


mbl.is Geta sparað með tilfærslu sjúklinga og aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband