Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Orðræðan sem skömm er að

Ég fanga því að þjóðin fái að kjósa um framtíð sína í dag. Mér finnst aftur á móti sorglegt hvert umræðan er komin og sannfærð um að bæði meðal þeirra sem segja já og nei séu góðar manneskjur sem og siðspillingar. Það hefur nákvæmlega engin áhrif á það hvernig ég kýs.
 
Það er svo mikilvægt fyrir okkur að læra að rökræða og hafa skoðanaskipti án þess að fara út í svona mikla heift og reiði. Ég skora á alla að tóna aðeins niður umræðuna sem virðist vera komin út í öfga sem mér finnst til háborinnar skammar. 

Ráðherraábyrgðar ræða

Ég vil byrja á að þakka háttvirtum þingmönnum Atla Gíslasyni og Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir mjög greinagóðar ræður þar sem störf nefndarinnar eru rakin og hvet þingmenn til að kynna sér ræður þeirra.

 

Í dag ræðum við um ábyrgð. Þegar maður les skýrslu rannsóknarnefndar er ljóst að enginn gengst við ábyrgð. Farið er í hinn margfræga leik, hver stal kökunni úr krúsinni í gær og ábyrgðinni velt á aðra. Enginn er maður með meiru og viðurkennir mistök sín og axlar þá ábyrgð sem þeim fylgja. Ég verð að viðurkenna frú forseti að ég ber litla virðingu fyrir fólki sem getur ekki gengist við ábyrgð á sínum mistökum og minnsta virðingu ber ég fyrir fólki sem varpar henni yfir á aðra í von um að sleppa og að athyglin beinist að einhverju öðru.

 

Ég ber aftur á móti mikla virðingu fyrir fólki sem gengst við mistökum, iðrast og einsetur sér að læra af mistökunum. Það fer ekki mikið fyrir slíku fólki hér innan dyra fyrr og nú.

 

Í íslenskri stjórnmálahefð er þetta viðtekin venja og það eru ekki margir þingmenn né ráðherrar sem hafa stigið hér upp í pontu og viðurkennt æpandi mistökin í gegnum árin og vikið af þingi í kjölfarið. Enginn hefur stigið hér upp í pontu og gengist við ábyrgð á aðgerðaleysinu í aðdraganda bankahrunsins. ENGINN. Því miður er það ljóst að afleiðingar hrunsins eru sviðinn jörð hjá þúsundum íslendinga sem höfðu ekki aðgengi að sömu upplýsingum og ráðherrar og þingmenn sem áttu aðild að þeirri ríkisstjórn sem hrakin var frá völdum með búsáhaldabyltingunni.

 

Ein afleiðing hrunsins mun birtast í þeirri ömurlegu staðreynd að í næsta mánuði munu mörg hundruð fjölskyldur missa heimi sín vegna þeirra mistaka, vanrækslu og gáleysis ráðamanna sem hér er fjallað um í dag.

 

Frú forseti nú þegar hafa ansi mörg stór orð verið látin  falla, ég ásamt fleirum þingmönnum úr þingmannanefndinni höfum m.a. verið vænd um að vera blóðþyrst út af því að við viljum láta kalla saman Landsdóm til að taka til umfjöllunar ákæru á hendur 4 ráðherrum. Við skulum aðeins setja hlutina í samhengi, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar alþingis eru þeir aðilar sem við leggjum til að verði kallaðir fyrir Landsdóm ábyrgir vegna aðgerðaleysi og vítaverðu gáleysi. Væri það ekki vítavert gáleysi að gera ekki neitt og bregðast við þeim áfellisdómi sem skýrslan er með sanni? Ég upplifi það ekki sem sérstakan hefndarþorsta eða blóðþorsta að vilja lúta leiðsögn þeirrar skýrslu sem svo mikið hefur verið mærð hér í þingsölum sem tímamóta skýrsla sem okkur ber að læra af. Við getum ekki bara sleppt því sem er óþægilegt og snýr að ábyrgð ráðherra. 

 

Ég vil ekki kalla saman landsdóm til að friðþægja almenning eins og einn hæstráðandi ráðherra lét nýverið hafa eftir sér, ég vil aftur á móti kalla saman Landsdóm vegna þess að mér ber að gera það útfrá þeim starfskyldum sem okkur voru settar í þingamannanefndinni, út af samvisku minni og útfrá ótal fundum sem við sátum með sérfræðingum á þessu sviði og tóku undir það lagalega mat um ráðherraábyrgð og tilefni til ákæru sem fólst í skýrslu rannsóknarnefndar.

 

Mér finnst líka mikilvægt í ljósi þess að enginn hefur sýnt iðrum né vilja til að breyta þeim ónýtu hefðum sem tíðkast með oddvitaræði og vanvirðingu fyrir heilbrigðri skynsemi eins og að halda almennilegar fundargerðir á efstu stigum stjórnsýlsunnar, mér finnst það mikilvægt að við þingmenn sýnum í verki að slíkt að slíkt verklag er ekki boðlegt og að við séum meðvituðum um hve skaðlegt það er velferð landsmanna að halda áfram á sömu braut og haldið var í náinni fortíð. Við erum að kljást við skaðann af óvönduðum  vinnubrögðum. Iðrunarleysið er svo stórfellt að töluverður hluti fyrrum ríkisstjórnar situr enn á þingi, bæði sem óbreyttir þingmenn sem og í æðstu stöðum í ráðuneytunum.

 

Að draga fólk fyrir Landsdóm er orðalag sem heyrist mikið hér inni og endurvarpast í fjölmiðlum. Þá tala margir um að það sé erfitt að senda vini sína hugsanlega í fangelsi og upp teiknast mynd sem á sér litla stoð í veruleikanum. Það vita það allir að hámarks refsing ef Landsdómur dæmir er tveggja ára fangelsisdómur, ólíklegt er að neinn muni sæta hámarksrefsingu. Ef ráðherrarnir fyrrum verða sakfelldir þá er næsta ljóst að þeir munu sennilega aðeins þurfa að sæta refsingar sem inniber skilorð eða fjársekt. Í þessu samhengi langar mig á að benda að einn af þeim aðilum sem dæma á út af því að hún leyfði sér að mótmæla vanhæfri ríkisstjórn á hinum háhelgu áheyrendapöllum verður í orðsins fyllstu merkingu dregin fyrir dóm laugardaginn 1. desember þrátt fyrir að eiga von á barni á sama tíma. Ekkert tillit er tekið til hennar í þeim pólitísku ofsóknum sem eiga sér stað gagnvart þeim einstaklingum sem var nóg boðið út af vanmætti ráðamanna að axla ábyrgð og segja af sér á sínum tíma, þrátt fyrir að öllum var ljóst að sú ríkisstjórn sem hér réði ríkjum var með öllu vanhæf og hafði sýnt af sér vítavert gáleysi.

 

Þeir níu einstaklingar sem ákærðir eru fyrir árás á þingið eru ákærð útfrá 100gr. þar sem hámarks refsins er hvorki meiri né minni en lífstíðarfangelsi. Ef maður ber saman þessi tvö mál þá verður maður að draga efa hvort að við með sanni búum í alvöru réttarfarsríki, sér í lagi ef að þingið mun ekki hafa dug til að afgreiða þessar þingsályktanir með því sniði sem lagt upp var með.

 

Það var með sanni ekki hægt að koma fyrir hrunið, en það var hægt að minnka hve stórfellt það varð með eðlilegum stjórnsýslulegum aðgerðum sem raktar eru í greinagerð þingsályktunnar þeirrar sem við fjöllum um í dag. Það er mikilvægt að muna að ef við setjum ekki skýr mörk gagnvart því hvar ábyrgðin liggur fyrir þá sem sitja á valdastólum nú og í framtíðinni. Við verðum að sína í verki að við viljum læra af fortíðinni.

 

Því miður er hætt við því að allt hólið á aðra vinnu þingmannanefndarinnar og varðar hina sameiginlegu þingsályktun nefndarinnar sé byggt á innan tómum orðum sem ættu betur heim í 17. júní ræðum eða í kosningaherferð. Við viljum ekki endurtaka oddvitaræðið, valdaránin, brotnu ráðherraábyrgðarkeðjuna eða að fólk firri sig ábyrgð með því að benda á aðra, eða hvað? 

 

Frú forseti

 

Af hverju eru ekki þeir sem bera mesta ábyrgð á hinu hryllilega hruni látnir sæta ábyrgð? Til hvers að kalla saman landsdóm ef Davíð og Halldór verða ekki látnir sæta ábyrgð? Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið?

 

Auðvitað væri best ef við hefðum þannig lög að ráðherraábyrgð fyrnist ekki á aðeins þremur árum.

 

En þau rök að ekki sé forsenda til þess að kalla fólk til ábyrgðar sem er ekki eins mikið ábyrgt fyrir hruninu og afleiðingum þess er auðvitað alger rökleysa. Það mætti bera þetta saman við það ef að tveir aðilar taka þátt í þjófnaði. Einn stelur 5 milljónum, hinn 4 milljónum, þessi sem stal mest sleppur, á þá ekki að kæra þann sem stal minna?

 

Mikil harmakveini heyrast víða um að löginn um Landsdóm séu úr sér genginn, forngripur sem lítið mark sé á takandi, risaeðla í lögfræðilegu tilliti og marklaus vegna hrumleika. Vil ég benda á að þessi lög eru óvenju vel úr garði gerð miðað við háan aldur, lögin eru þó ekki eldri en 50 ára sem er nokkuð yngra en flest það sem finna má í stjórnarskránni okkar og ef þetta eru rökin og fólk getur ekki fellt sig við gömul lög þá skulum við bara hætta að fylgja öllum lögum sem eru eldri en 50 ára, þar á meðal undirstöðum stjórnarskrár landsins. 

 

Frú forseti 

 

Þúsundir landsmanna hafa flúið land, þúsundir hafa misst vonina, þúsundir þurfa að velja á milli þess að borga af stökkbreyttum lánum eða geta brauðfætt fjölskyldur sínar. Tugþúsundir hafa glatað öllu trausti á valdastofnanir þessa lands, sér í lagi alþingi.

 

Því er það með sanni hálf ömurlegt að eyða dýrmætum tíma í þessi ræðuhöld á meðan mikil ólga er í samfélaginu út af því sem margir upplifa sem sérpantaðan dóm í hæstarétti. Það verður samt ekki undan því komist að fjalla um þetta "erfiða" mál og hvet ég samþingmenn mína að hafa hugrekki til þess að láta ályktunina hafa sinn gang án klækja eða tilrauna til að eyðileggja málið. Ég leyfi mér að trúa því að háttvirtir þingmenn búi yfir nægilega miklu hugrekki til að kjósa um þessar ályktanir í stað þess að hindra að þær fái eðlilega þinglega meðferð.

 

frú forseti

 

Mikið er talað um virðingu þingsins,  ég leyfi mér að spyrja þingmenn, háttvirta sem hæstvirta um það hvort að það sé til þess fallið að auka virðingu þingsins að hér sitja í valdamestu stólum hins háa alþingis fólk sem átti aðild að ríkisstjórn þeirri sem fékk áfellisdóm í skýrslu rannsóknarnefndar? Hvernig er hægt að firra sig ábyrgð á þeim hörmungum sem þess þjóð þarf að bera um ókomna tíð og ekkert sér fyrir endann á? Ætlar enginn að gangast við þeirri ábyrgð? Enginn? Hvernig er hægt að ætlast til þess að almenningur virði þetta svokallaða réttarríki ef það á bara við suma? Það er skylda þingsins að sýna af sér gott fordæmi og skora ég á þingmenn að fylgja þeim drengskapareið sem þau tóku þegar þeir háttvirtir tóku við embætti. Ég skora á þá að hlusta á samvisku sína og hjarta og beita sig vægðarlausum heiðarleika um hver heill þessa samfélags eru ef enginn ráðamaður mun sæta ábyrgð?


mbl.is Mikil reiði innan VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft er þörf en nú er nauðsyn

Ég hef verið haldin ritstíflu á bloggvettvangi, vissi eiginlega ekki hvar skildi bera niður vegna þess hve víða pottur er brotinn í samfélaginu og pólitíkinni og var haldin valkvíða um hvað ég ætti að skrifa um. Hef fundið ágæta lausn á þessu útfrá góðri ráðgjöf vina minna: taka fyrir eitt mál í einu sem er ef til vill að fá brotakennda umfjöllun í fjölmiðlum og almenningur er ekki að fá heilstæða mynd af. 

Grundvallarforsenda til að umbylta óréttlæti að fólk hafi aðgang að réttum upplýsingum. Sú er oftast ekki raunin. Flestir fjölmiðlar eru enn máttlausir, vegna niðurskurðar og eignarhalds. Sjálfsritskoðun og hraði einkennir mikið af umræðunni og það sem sorglegast er flokkadrættir drepa alla gagnrýna hugsun og málefnalega umræðu. Nú stöndum við frammi fyrir stórum málum á alla vegu. Mál sem munu hafa afgerandi áhrif á framtíð landsins. Ber þar hæst: auðlindir okkar og sú vá við stöndum frammi fyrir varðandi eignarhald á þeim, Icesave, AGS, ESB, Magma energy, mótmæli, fæðuöryggi og búsifjar vegna eldgoss.

Ég hef reyndar notað facebook mikið til að koma skoðunum mínum á framfæri sem og til að deila upplýsingum með vaxandi hópi vini - innlendra sem erlendra:) Þar er meiri virkni á milli fólks - svo margir vinir mínir horfnir frá þessum vettvangi um víðan völl.


 

Samstaða með Tíbetum Í tilefni að 51 ára afmæli "Tibetan Uprising"

Miðvikudaginn 10. mars er 51 ár liðið síðan Dalai Lama flúði Tíbet - 2 ár eru liðin frá blóðugum átökum í Lhasa sem brutust út vegna mótmæla munka og almennings gegn því alræði sem þjóðin býr við.

Vinir Tíbets taka þátt í alþjóðaaðgerð til að sýna tíbesku þjóðinni stuðning í baráttu þeirra fyrir mannréttindum og trúfrelsi. Safnast verður saman fyrir utan kínverska sendiráðið að Víðimel 29, miðvikudaginn 10. mars kl: 17:30. Tsewang Namgyal flytur erindi um ástandið í Tíbet. Birgitta Jónsdóttir fer yfir í stuttu máli hvað við getum gert til að treysta böndin á milli þjóðanna.

Í Tíbet getur það varðað margra ára fangelsi að eiga fána Tíbets. Í Tíbet búa nú fleiri Kínverjar en Tíbetar. Í Tíbet er tungumálið að glatast. Í Tíbet hafa verið herlög í meira en tvö ár og harkan gagnvart íbúum landsins virðist engan enda taka. Fyrir tveimur árum síðan lýsti Dalai Lama ástandinu í Tíbet á þann veg að þar væri verið að fremja menningarlegt þjóðarmorð.

Fjölmennum og sýnum tíbesku þjóðinni samstöðu í verki.

Kjósum með fótunum í göngunni niður Laugaveg

Fréttatilkynning frá grasrótinni

Nú hafa nokkrir grasrótarhópar ákveðið að standa fyrir kröfugöngu frá Hlemmi laugardaginn 6. mars kl 14. Gengið verður niður Laugarveginn og að lokinni göngu verður haldinn útifundur á Austurvelli kl. 15.

Ræðumenn verða Andrés Magnússon læknir og Júlíus Valdimarsson húmanisti. Á fundinum verður Alþingi götunnar stofnað. Magnús Þór Sigmundsson mun syngja. Hljómsveitin Stjörnuryk mun flytja lag.

Helstu áhersluatriði Alþingis götunnar eru:
Leiðrétting höfuðstóls lána, afnám verðtryggingar, fyrningu lána við þrot, jöfnun ábyrgðar og að fjárglæframenn Íslands séu hvorki stikkfrí né endurreistir, AGS í úr landi, manngildið ofar fjármagni, aukin völd til almennings, bættur neytendaréttur.  

Trommusláttur og lúðrablástur mun fylgja með niður Laugaveginn. Mælst er til þess að göngumenn taki með sér potta, pönnur, flautur eða annað sem getur framkallað hóflegan hávaða. Takið með kröfuspjöld.

Gerum næsta laugardag að sögulegum degi. Fjölmennum við formlega stofnun Alþingis götunnar. Gefum skýr skilaboð til umheimsins, lýðræðið er númer eitt, valdið er fólksins.

Gerum Alþingi götunnar að stórviðburði. Ekki láta þig vanta. Tölum einum rómi með samtökunum okkar. Látum það ekki fara neitt á milli mála hver vilji okkar er. Kjósum með fótunum í göngunni niður Laugaveg.


Hagsmunasamtök heimilanna,
Nýtt Ísland,
Attac samtökin á íslandi,
Siðbót,
Húmanistafélagið,
Rauður vettvangur,
Vaktin,
Aðgerðahópur Háttvirtra Öryrkja.


Kosningarloforð allra flokka um þjóðaratkvæðagreiðslur

Í kosningastefnuskrám VG síðastliðið vor mátti finna heitstrengingar um að tiltekinn hluti landsmanna gæti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur:

Kosningaáherslur VG samþykktar á landsfundi í mars 2009

Aukið lýðræði – vegur til framtíðar

Lýðræðisumbætur

Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar (t.d. 20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um öll stórmál eða krafist þingrofs og nýrra kosninga.

************************************************************

Stefnuskrá Hreyfingarinnar:

Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. 

Sama skal gilda um þingrof.

Það er því engum vafa undirorpið að Ólafur Ragnar á stuðning í stefnuskrám VG og Borgarahreyfingarinnar, sem margir töldu helstu sigurvegara þingkosninga á síðasta ári. Þegar hafa yfir 20% atkvæðisbærra manna skrifað undir áskorun til forsetans um að synja lögunum staðfestingar. Í kosningastefnu VG er þess sérstaklega getið að þetta eigi við um „öll stórmál“. Forsetinn þarf því ekki að hafa áhyggjur af eftirákenningum um að mál er varða á einhvern hátt samskipti Íslendinga við önnur ríki eigi ekki erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í vikunni greiddu tæp 48% þingmanna atkvæði með tillögu um að málinu yrði vísað í þjóðaratkvæði. Það er langt yfir þeim 30% þingmanna sem getið er í stefnuskrá Samfylkingarinnar að þurfi til að mál fari í þjóðaratkvæði.

***************************************************************************

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum, rétt almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna og gera kleift að breyta stjórnarskrá með samþykki þings og þjóðar, án þingkosninga.

Lýðræði og jafnrétti - stjórnkerfisumbætur

Umbætur á stjórnkerfi og ný stjórnarskrá

Þjóðaratkvæðagreiðslur.

Milliliðalaust lýðræði verði aukið verulega á kostnað fulltrúalýðræðisins.

Tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Minnihluti þingmanna, t.d. 30 % þingmanna, getur kallað eftir þjóðaratkvæði um samþykkt lög áður en forseti hefur staðfest þau.

Reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það er því ljóst að forsetinn á góðan stuðning við stefnumörkun sína frá 2004 í nýlegri stefnuskrá Samfylkingar. Stefnuskrá sem sett var í aðdraganda síðustu þingkosninga. Stefnuskrá sem hvetur til þess að „milliliðalaust lýðræði verði aukið verulega á kostnað fulltrúalýðræðisins“ og að tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

**************************************************************

Í stefnuskrá Framsóknarflokksins frá vorinu 2009 segir einnig:

Aukið lýðræði - vegur til framtíðar

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar (15-20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslu um öll stórmál.

Lýðræðisleg ákvörðun um ESB


Lýðræði og réttlæti fyrir okkur öll

Við viljum að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar.

****************************************************************

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins árið 2009 sagði:

Ályktun um réttarfars- og stjórnskipunarmál Landsfundur telur að setja skuli almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

*****************************************************************

Þegar allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa lagt fram stefnu um að auka vægi beins lýðræðis og stjórnarflokkarnir beinlínis sett fram tiltekin skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem nú hefur verið fullnægt með afgerandi hætti, hver er þá vandi Ólafs Ragnars Grímssonar?

Það getur varla verið vandamál þegar stefnuskrár allra flokka, undirskriftir tugþúsunda manna og skoðanakannanir eru í samræmi við þá stefnu sem forsetinn markaði árið 2004.

samantekt: Cilla 


mbl.is Forsetinn leiti álits lögmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða

Það þarf að taka þetta risamál upp úr flokkspólitískum skotgröfum - Ögmundur lagði það til í gær í Kastljósi og þar er ég honum hjartanlega sammála. Meirihluti þjóðarinnar hefur óskað þess og okkar er að bregðast við því. Ég ætla því að taka þátt í samstöðufundinum fyrir utan vinnustaðinn minn og vona að sem flestir mæti því ég held að á stundum sem þessum þyrsti fólki í samstöðu ofar sundrung.
mbl.is Boða samstöðufund á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að læra nýtt tungumál

Dagbók þingmanns - hin vikulega dagbók mín fyrir DV.

Að fara inn á þing með nýja hreyfingu er snúið mál. Undanfarnir mánuður hafa verið með lærdómsríkustu tímum lífs míns. Að koma inn á þing með nýjan þinghóp þar sem allir eru nýgræðingar er eins og að vera lokaður inni í veruleika þar sem allir tala framandi tungumál sem við þurfum öll að leggja okkur fram við að skilja á einhverjum þeim örlagaríkustu tímum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Sumarþing sem átti að standa í viku hefur nú staðið yfir í þrjá mánuði og enginn endir er í sjónmáli þó margir séu orðnir fullir vonar um að hægt verði að ljúka þingstörfum í komandi viku. Ég er ekki viss um að það sé endilega skynsamlegt að ljúka þingi útfrá einhverri fyrirfram gefinni dagsetningu – nær væri að ljúka þessu stóra máli sem við erum að glíma við með sóma. Þetta er annars furðulegt starf og maður þarf að hafa þykkan skráp til að þola allt illa umtalið og reiðina sem dynur á manni ef manni verður á að misstíga sig eða fylgja sannfæringu sinni. Ég get alveg skilið af hverju ákveðið fólk velst inn á þing, það er ekki fyrir viðkvæma að vinna þessa vinnu eða fólk sem vill eiga eitthvað einkalíf. Þetta er vinna þar sem maður fær aldrei frí og þetta er vinna sem krefst þess af manni þ.e.a.s. ef maður vill sinna henni vel að maður nái því að halda áttum þó allt sé logandi í kringum mann. Þetta er vinna þar sem maður þarf að hafa náð því meistaralega vel að taka hlutina ekki persónulega og þar sem innsæið verður að fá að vega þungt. Mikið er ég rosalega þakklát fyrir að Borgarhreyfingin hefur eftirfarandi í sinni stefnu: Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar markmiðum stefnuskrár hennar hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.

Hvenær kemur réttlætið?

Það er alveg makalaust að ekki er búið ennþá að frysta eigur eða af hverju bankarnir eru ekki teknir út sem þær svikamyllur sem þeir greinilega eru. Það er ömurlegt að vita til þess að sumt fólk kemst upp með það að svíkja og pretta á siðlausan en löglegan hátt – því vinir og vandamenn þeirra hafa samið regluverkið sem þeir fara eftir eða hafa ekki sett það í forgang að laga það. Það er ömurlegur veruleiki fyrir þá sem eru að glata öllu sínu að vita til þess að þeir sem eru að stela lífsgæðin frá börnunum þeirra fái enn að leika lausum hala í fjármálaheiminum með leppa sér til handa. Auðvitað kallar slíkt á almennt siðrof. Á meðan ekkert réttlæti fyrirfinnst í samfélagi okkar þá er ósanngjarnt og óréttlátt að ætlast til þess að almenningur fórni sér með lakari lífsgæðum og lifi í dauðans óvissu um afkomu sína næsta áratuginn. Það verður hreinlega að hætta þessum hvítþvotti og láta einhverja sæta raunverulegri  ábyrgð. En það hefur aldrei verið sterka hlið okkar ráðamanna að taka pokann sinn sama hvað viðkomandi hefur verið uppvís af siðlausri framkomu. Hættum að vera eins og stór Sikiley og förum að haga okkur eins og siðmenntað fólk – það mun enginn – ekki nokkur maður taka mark á okkur á erlendri grund ef við höldum áfram á þessari braut. Það er líka alveg ótrúlegt að sá flokkur sem átti sinn stóra hlut í hruninu hafi í stað þess að vera látinn axla ábyrgð fengið meirihluta og þessi sami meirihluti hafi sett í æðstu embætti ríkisvaldsins og þingvaldsins fólkið sem sofnaði á vaktinni. Hvenær kemur réttlætið – kemur það kannski ekki fyrr en næsta bylting brestur á? Framundan er greiðsluverkfall og fólksflótti. Hlutverk ráðamanna er að skapa réttlátt samfélag en þannig samfélag verður aldrei hér á meðan AGS ræður för.

p.s. ég þigg ekki greiðslur fyrir þessi greinaskrif... smá samfélagsþjónusta:)


Bandormsræða 2

Hér eru rök mín fyrir að samþykkja EKKI bandorm meirihlutans:

Virðulegi forseti

Hvar er ríkisstjórnin – væri ekki eðlilegt að hún væri hér að verja þennan skelfilega gjörning sem bandormurinn hennar er?

Hvar er vonin sem þjóðin þarf svo sárlega á að halda? Hana er ekki að finna í áherslum ríkisstjórnarinnar, því nú hefur hin svokallað skjaldborg umbreyst í gjaldborg.

Ég hef gefið mér tíma til að tala við þá hugrökku öryrkja sem hafa staðið vaktina fyrir utan þinghúsið. Mér finnst ljótt að bæta á áhyggjur fólks sem nú þegar berst í bökkum ofan á það að búa við heilsubrest. Mér finnst það algerlega óafsakanlegt. Þetta ágæta fólk býr við næga óvissu til að bæta þessu ekki ofan á.

Því er Hæstvirtur forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ekki hér til að verja lagasetningu sem hrifsar það sem hún barðist fyrir með kjafti og klóm til handa öryrkjum og ellilífeyrisþegum? Getur það verið rétt, að hæstvirtur forsætisráðherra stjórni ekki landinu heldur séu öll okkar ríkisfjármál og jafnvel pólitískar áherslur runninn undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Sagt var hér fyrr í dag að það væri þekkt aðferð hjá AGS að láta hýsilinn sinn skera niður í þá hópa sem síst mega við því – það er gert til að öðlast trúverðugleika í alþjóðasamfélaginu um að þetta sé allt gert af mikilli alvöru og engum verði eirt til að tryggja stöðugleika. Er þetta eitthvað sem við viljum taka þátt í? Er þetta eitthvað sem hægt er að verja?

Ríkisstjórnin virðist hafa villst frá vinstri vængnum og ástundar nú meiri nýfrjálshyggju með niðurskurði sínum en sá flokkur sem gjarnan er kenndur við nýfrjálshyggju.

Nú hef ég hlustað á áherslur og lausnir hjá öllum flokkunum sem sitja á þingi og ég held að ef ríkisstjórnin væri einhver alvara með samvinnu og samráð að hún ætti hreinlega að setja þennan bandorm í endurvinnsluna – þiggja aðstoð frá minnihlutanum – ég held nefnilega að það væri skynsamlegt að nýta sér þá margvísilegu styrkleika sem hér eru til innanhúss – þá ólíku sýn sem hér fyrirfinnst – ef hæstvirt ríkisstjórn væri alvara með að vinna sameiginlega að lausnum þá ætti hún að boða til alvöru samráðs – ég held að þá gætum við náð utan um þetta risavandamál saman og fengið stærri sýn á orsök og afleiðingu þeirra gjörninga sem boðaðir eru hér. Þá getum við komist hjá því að gera alvarleg mistök – því að það er ljóst að margt af því sem hér er kynnt er ekki alveg hugsað til enda.

Tökum bara niðurskurð sem tengist öldruðum og öryrkjum sem dæmi: þetta er aðeins um 1800 milljónir – það er bara dropi í hafið af þeim niðurskurði sem á að framkvæma.
Ég sat í fjárlaganefnd í fjarveru Þórs Saari og hlustaði þar á velferðarráðuneytin okkar tala um að þau væru komin að þolmörkum og að niðurskurður næsta árs myndi þýða uppsagnir og lokanir á stofnunum. Það hlýtur að vera til önnur lausn en sú sem er boðuð með þessum aðgerðum. Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki heildarlausn en það er aldrei bara til ein leið. Það væri ef til vill ekki vitlaust fyrir ríkisstjórnina að byrja á réttum enda og til dæmis skera niður ofurlaun skilanefndamanna sem hlaupa víst á milljónum í mánaðarlaun. Það kostar okkur 500 milljónir að taka þátt í bókaráðstefnu og 140 milljónir að taka þátt í heimssýningu í Kína – þetta eru nú bara nokkur atriði sem detta inn í huga mér núna, ég er alveg viss um að það mætti með smá hugarflugi finna leiðir til að seilast í aðra vasa en hálftóma vasa heldri borgara og hæstvirtra öryrkja.

Ég hefði átt von á heildrænni aðgerðum en að setja frekari skatta á heimilin í landinu án þess að aftengja vísitöluna – því jafnvel sykurskatturinn mun hækka húsnæðislánin hjá fólki sem berst í bökkum nú þegar og hjá þeim má lítið út af bera til að þau fari hreinlega í greiðsluþrot.

Ég skilaði ein séráliti í fjárlaganefnd þar sagi ég meðal annars:
Því er alveg ljóst að það myndi brjóta gegn stefnu Borgarahreyfingarinnar að samþykkja þessa aðferð til að standast fjárlög. Við erum alfarið á móti þeim niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Við teljum að með því að fylgja ráðgjöf og rammaáætlun AGS séum við að hefja vegferð sem mun enda á því að veikja svo mjög undirstöður velferðarkerfis okkar að það mun á endanum verða þjóðinni dýrkeyptara en svo að hægt sé að réttlæta það. Borgarahreyfingin skorar á hæstvirta ríkisstjórn að leita annarra leiða til að laga halla ríkissjóðs og styður almennt aðhald í ríkisfjármálum án þess þó að núverandi ríkisstjórn svíki kosningaloforð sitt um að standa vörð um velferðina. Ljóst er að bandormur þessi mun ekki standast ef marka má skýrslur úr ráðuneytunum. Því væri heillaráð að vinna betur að gerð hans og jafnvel horfast í augu við að halla ríkissjóðs verði ekki mætt með þeim aðferðum sem boðaðar eru í honum.

Frú forseti ég hef fullan skilning á því að þessi ríkisstjórn standi frammi fyrir því sem næst ókljúfanlegum vanda – en Afsakið æruverðugi forseti, er þetta ekki ríkisstjórnin sem boðaði að staðið yrði vörð um velferðarkerfið FYRIR kosningar?


mbl.is Boðar auknar álögur á áfengi og tóbak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að búa til kraftaverk

Segja má að fyrir hvern og einn sem fær gervifót í þessari mögnuðu aðgerð sé verið að búa til kraftaverk í lífi þeirra. Þetta er með sanni frábært framtak og gaf mér gleðisting í hjartað.

Ég hef alltaf verið heilluð af sjálfboðaliðastarfi og nú þegar þrengir að hjá okkur er kærkomið tækifæri fyrir þjóðina mína að gera meira af slíku. Ég held að miðað við þann mikla niðurskurð sem framundan er að skólar, sjúkrahús, elliheimili þyrftu á aðstoð sjálfboðaliða að halda. Það á að fækka skólaliðum sem fylgjast til dæmis með börnunum þegar þau eru úti í frímínútum. Allir sem þekkja til eineltis vita að frímínúturnar eru martröð fyrir krakka sem eru lagðir í einelti ef enginn fullorðinn er til staðar.

Það er lítil hefð fyrir sjálfboðaliðavinnu hérlendis, en víða um heim eru sjálfboðaliðavinna grunnur að  samfélagsgerðinni, þar þykir það til dæmis sjálfsagt að foreldrar séu vikir í að hjálpa til í skólum barna sinna. Þar fer fólk inná sjúkrahús og elliheimili og veitir fólki félagskap með spjalli og upplestri. Sjálfboðaliðastarf þarf ekkert að vera flókið - það getur einmitt snúist um jafn einfaldan hlut og að sýna hlýju og alúð.


mbl.is Kraftaverk á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband