Leita í fréttum mbl.is

Kerti fyrir Tíbet í kvöld

Minni á kerti fyrir Tíbet í kvöld klukkan 21:00 - á Lækjartorgi, heima hjá þér, í vinnunni þinni.

Nánari upplýsingar og skráning á candle4tibet.org  

Frjálst Tíbet 

 Auðvitað er stórmerkilegt að heyra einn harðstjóra gagnrýna annan eins og þessi frétt ber með sér. En ég kýs að blanda ekki saman mínum aðgerðum varðandi stríðsrekstur bandarísku ríkisstjórninni við þetta málefni. Vinsamlegast virðið það. Getum spjallað um það á öðrum þræði, en komið endilega í kvöld á Lækjartorg eða kveikið á kerti heima hjá ykkur. Hægt að fá ódýr kerti í Bónus, bæði úti og inni kerti. 


mbl.is Segir að frelsi muni koma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innilega til hamingju

Þetta eru bara frábærar fréttir. Hann Ómar á svo sannarlega skilið að fá viðurkenningu fyrir linnulausa baráttu sína að koma upplýsingum til almennings. 

Vona að þetta gefi honum enn frekari kraft til að halda kyndli náttúru landsins á lofti. Það er svo merkilegt við þessi blessuðu umhverfismál að um leið og maður heldur að einn sigur sé í höfn að þá spretta upp teikningar að enn frekari stóriðju og fórnum. 


mbl.is Ómar Ragnarsson verðlaunaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir 100 milljón manneskjur tendra kerti fyrir Tíbet

Kerti fyrir Tíbet, hið alþjóðlega framtak Ísraelans David Califa hefur nú laðað að sér 100 milljón manneskjur sem hafa staðfest þátttöku sína í verkefninu. Dalai Lama og Robert Thurman hafa opinberað stuðning sinn við verkefnið og hvatt aðra til að taka þátt í þessu alþjóðafriðarátaki fyrir málstað Tíbeta.

 
Vinir Tíbets á Íslandi skipuleggja ljósahátíð í Reykjavík sem lið í þessu verkefni. Hátíðin hefst á Lækjartorgi klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldið 7. ágúst. Kveikt verður á kertum víðsvegar um heiminn klukkan 21:00 að staðartíma. Allir eru velkomnir og hægt að kaupa stormkerti á kostnaðarverði. Kertin verða notuð til að skrifa stórum stöfum “Save Tibet”. Þeir sem ekki hafa tök á að taka þátt í ljósahátíðinni geta samt sem áður sýnt ákalli Tíbeta um frelsi og að mannréttindi þeirra séu virt, stuðning með því að skrá sig á http://candle4tibet.org og kveikt á kerti á heimili sínu – best er að setja kertið út í glugga til að það verði öðrum sýnilegt.
 
Ljósahátíðinni er ekki ætlað að vera mótmæli gegn Ólympíuleikunum, heldur fremur að beina kastljósinu að því sem er að gerast í Tíbet en landið er enn lokað fyrir umheiminum og stöðugt berast fréttir af harðnandi aðgerðum gagnvart þjóðinni, sérstaklega gagnvart munkum og nunnum. Þá er þetta ekki heldur aðför gagnvart kínversku þjóðinni en mannréttindi eru víða brotin á kínverjum í heimalandi þeirra.
 
Með því að taka þátt í alþjóðaljósahátíðinni erum við að ljá þeim rödd okkar sem hafa ekki frelsi til að segja skoðanir sínar. Tökum ekki málfrelsi okkar sem sjálfsögðum hlut, notum þennan rétt til að segja hug okkar og lánum þeim sem hafa misst þennan rétt til að fræða aðra um hlutskipti þeirra.
 
Ljósahátíðin er öllum opin og er fólk hvatt til að skrá sig á http://candle4tibet.org - Þegar hátíðin er yfirstaðin á heimsvísu verður tekið saman hve margir skráðu sig frá Íslandi og yfirvöldum afhent bréf þess efnis og hvött til aðgerða til að stuðla að bættum mannréttindum í Tíbet.
kertifyrirtibet

Ákall um frið í Tíbet

Frá vini mínum Tsewang til íslensku þjóðarinnar.

Vinir Tíbets

Mig langar til að minna á að orð forseta Evrópska þingsins Hans Gert Pottering, sem hvatti íþróttamenn til að sýna sannan íþróttaanda með því að andmæla mannréttindabrotum þegar þeir koma saman í Kína. Það geta þeir gert með því að sýna í verki að þeir hafi ekki “gleymt” Tíbet.  Hver og einn íþróttamaður getur gert það á sinn hátt, með því að gefa merki sem umheimurinn skilur. Engin opinber starfsmaður getur hindrað það. Þar fyrir utan, er þetta kjörið tækifæri til að gefa kínverskum stjórnvöldum tækifæri til að sýna heiminum að þau virði mannréttindi og hafa í raun og veru áhuga á að bæta ástandið í Tíbet. Kína ætti að vera fært um að höndla meiri ábyrgð með vaxandi áhrifamætti og völdum á alþjóðavísu. 

Ég, fyrir hönd allra þeirra Tíbeta sem hafa misst réttinn á að tjá sig undir kínverska einræðinu, langar til að biðja íþróttafólkið sem eru fulltrúar Íslands á Ólympíuleikunum í Peking um að sýna okkur stuðning ykkar á hvern þann hátt sem þeim finnst við hæfi. Þannig getur það lagt sitt að mörkum til að bæta stöðu mannréttinda í Kína og hvatt til að varanleg lausn finnist á málefnum Tíbets áður en menning þjóðar minnar þurrkast endanlega út. 

Yfir tvöhundruð Tíbetar hafa verið drepnir í kjölfar mótmælana í mars í Tíbet og þúsundir hafa verið fangelsaðir þar sem þeir eru pyntaðir fyrir það eitt að eiga mynd af Dalai Lama í fórum sínum. Til að auka aðförina á þjóð mína hefur landinu verið lokað fyrir fjölmiðlum þannig að ógerlegt er fyrir alþjóðasamfélagið að fá vitneskju um það harðræði sem Tíbetar búa við í dag, en samkvæmt fréttum sem smyglað er út úr landinu verður ástandið sífellt verra. 

Eina leiðin til að fá fréttir sem hægt er að treysta er frá þeim Tíbetum sem hefur tekist að flýja landið yfir Himalayafjöllin en það er um mánaðarganga yfir hæstu fjallagarða heimsins. Margir deyja á leiðinni, sérstaklega er mannfallið mikið meðal barna sem leggja í þessa háskaför til frelsis. 

Þetta er einlægt ákall til allra þeirra sem eru að fara á Ólympíuleikana í Peking sem og íslensku þjóðarinnar um að sína þjóð minni stuðning. Saman getum við gert þessa Ólympíuleika enn minnisstæðari með því að sýna samstöðu með frelsi og mannréttindum. Björgum Tíbet með því að auka meðvitund okkar um hvað er að gerast þar og ljá þeim röddum sem hafa verið þaggaðar rödd okkar.

Með friðarkveðju
Tsewang Namgyal
f.h. Tíbeta búsetta á Íslandi

 


Arnarfjörður og arnarunginn

Friðgeir að mynda þvottaplan

Ég fór í örferðalag í vikunni og er enn að melta allt það sem ég fékk að upplifa. Hápunktarnir voru án efa Arnarfjörður og arnarunginn sem ég hitti á Snæfellsnesi.

Ég og einn besti vinur minn hann Friðgeir ásamt Neptúnusi og Delphin fórum á jazzbílnum Vernharði á vesturland til að byrja með. Tókum stefnuna á bóndabæ á Snæfellsnesi. Þar á stjúpi minn hlut í gömlum bóndabæ rétt við hafið. Við lögðum í hann á þriðjudag og vorum komin með góðum hléum um eftirmiðdaginn. Það var alveg yndisleg blíða og stillur. Fórum með Valda í smá ferð um spegilslétt hafið á gúmmíbát. Ætlunin var að fara í litla eyju og kíkja á arnarunga og athuga hvort að við myndum sjá selina sem synda þarna um. Og viti menn þrír selir kíktu á furðulega fólkið sem var á ferð. Lyftu sér hátt upp af forvitni og létu sig hverfa bara til að koma aðeins nær.

Arnarunginn

Það var að fjara svo við þurftum að drífa okkur út í eyju, yfir henni hringsólaði magnaðasti fuglinn í ríki fugla; örninn. Við fórum á eyjuoddann og sáum þar ófleygan arnarunga. Hann var þó engin smásmíði og vænghafið ótrúlega umfangsmikið. Greinilega vel nærður, stór kjötstykki í hreiðri og rándýrsblik í augum. Ég var hjá honum ein í smástund, fékk að ræna hann einni fjöður sem hann hafði misst og hugsaði um indíánablóðið í æðum mínum á meðan ég horfði í augu hans um stund. Það var á einhvern hátt eins og helgistund. Hljómar kannski furðulega en ég er auðvitað náttúrudýrkandi og fannst mikil forréttindi að fá að horfast í augu við örn um stund:)

Marglyttur við Flatey

Við skoðuðum lundana sem voru svo þungir af öllu æti dagsins að þeir ætluðu varla að geta hafið sig til flugs. Tókum svo stefnuna heim á bæ að fá okkur sjálf eitthvað í gogginn. Kíktum svo aðeins við á Stykkishólm í blíðunni og keyptum ís til að snæða með grilluðum banönum og suðusúkkulaði. Ég var orðin eitthvað veik en góður nætursvefn hressti mig við. Vaknaði klukkan 6 og náði að skrifa eitt ljóð í dagbókina mína, drakk í mig fegurðina allt um kring og vakti svo mannskapinn. Ég hafði sem betur fer keypt miða í ferjuna Baldur áður en ég fór á netinu - nokkrir þurftu greinilega frá að snúa. En strax klukkan hálf 9 var löng biðröð í ferjuna. Merkilegt hvað er hægt að troða mörgum bílum í þessa litlu ferju. Það er reyndar skömm frá því að segja að ég hafi aldrei farið í ferjuna áður á þann stað á landinu sem ég ber svo miklar og stórar tilfinningar til, þ.e.a.s. vestfjarða. 

Delphin inní styttunni

Mér finnst ferjan snilld og ætla að notfæra mér þessa þjónustu oft og mörgu sinnum. Það var gjóla og frekar kalt um morguninn en þegar við náðum landi á Brjánslæk var orðið vel heitt og kom síðar í ljós að slegin voru hitamet þennan dag líka fyrir vestan.  

Stefnan var tekin á Arnarfjörð en mér lék forvitni að sjá þann stað sem búið er að taka frá fyrir olíuhreinsunarstöð. Við fórum fyrst yfir Dynjandisheiði og sáum þar líka þessa merkilega flottu styttu. Kom í ljós að hún var gerð af vegavinnumönnunum sem unnu við gerð brúarinnar yfir Pennu árið 1958. Mér finnst þetta flottasta stytta sem ég hef séð á vegum úti hérlendis. 

Við stöldruðum aðeins við í botni Þernudals og hámuðum í okkur allskonar spikfeit ber. Delphin ofurhugi vildi endilega leggjast til sunds í kaldri ánni. Hann var á sundskýlunni mest allan daginn, alsæll í þessari vatnaveröld. Sá bregða fyrir stórum löxum í ljósgrænum hyl. Skemmtum okkur vel þarna í gróðurreit á hjara veraldar. Ofurhuginn varð reyndar svo yfir sig hræddur við geitung að það þurfti að bera hann að hellisbúa sið upp úr litla gilinu. 

Við komum við í Bíldudal eftir að hafa heillast af glæsilegum flugvelli við bæjarmörkin. Ég reyndar heillaðist enn frekar af Bíldudal. Yndislegur bær og mér þótti furðu sæta að þar var enga ferðamenn að finna á þessum fallega degi. Ég mun með sanni koma aftur til 

Við upphaf ferðalagsins

Bíldudals og vonandi hafa tök á að dvelja um einhvern tíma þar. Við rákumst á athafnamanninn Jón Þórðarson sem rekur skemmtilegt gallerí og vefsíðu bæjarins, hvet alla til að kíkja á vefinn, bildudalur.is. Ég ætla að skrifa meira um ferðalagið mitt. Þetta er bara að verða svo mikil ritgerð. Setti inn slatta af myndum frá ferðalaginu en á eftir að setja inn myndirnar frá Selárdal.

Verð að hætta núna en tek upp þráðinn á morgunn. Er að fara að hitta fyrsta internet vin minn sem ég kynntist árið 1995 og hef ekki enn hitt. Hlakka til að sjá hann í þrívídd:) Hann er skemmtilegur persónuleika af netnördakyni sem ferðast um heiminn með brúðleikhús í sérkennilegri kantinum.  


Álgerður söm við sig

Merkilegt hvað fólk er að missa sig yfir fullkomlega eðlilegri framkvæmd. Er það ekki bara hið besta mál að það fari fram heildsætt umhverfismat? Af hverju er fólk að æsa sig svona mikið yfir þessu. Er það hrætt við að ef fram fari umhverfismat sem tekur til allra þátta að ekki verði hægt að byggja álverið?

Ég sé ekki betur en að umhverfisráðherra sé að vinna vinnuna sína og alveg ótrúlegt að það þurfi að ráðast að henni á þennan hátt fyrir það eitt að vera samviskusöm í vinnunni sinni.

Finnst gott að vita til þess að loksins höfum við manneskju í þessu embætti sem tekur það af alvöru og er ekki eitthvað peð í vasa iðnaðarráðherra eins og hennar forverar. 

Mikið er ég annars þreytt á henni Valgerði álgerði - hún virðist hafa fengið stóriðju á heilann og mikið er ég þakklát að hún hefur nákvæmlega engin völd í dag. 

 


mbl.is Óhaggaður stuðningur við álver á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttatilkynning frá Saving Iceland

Hvet fólk eindregið til að kynna sér fyrirtækið Rio Tinto.

Að gefnu tilefni fyrir þá sem hafa þörf á að tjá sig um hvort að fólk sem tekur þátt í aðgerðum Saving Iceland eigi að fá sér vinnu eður ei, þá bendi ég þeim hinum sömu á að flestir sem ég hef rætt við sem hingað koma vinna mikið á veturna til að hafa fjárhagsleg tök á að sýna Íslenskum aðgerðasinnum stuðning. 


SAVING ICELAND STÖÐVAR UMFERÐ AÐ ÁLVERI RIO TINTO-ALCAN Í STRAUMSVÍK
- ,,STÖÐVUM VIRKJUN ÞJÓRSÁR FYRIR HERGAGNAFRAMLEIÐANDA!”

HAFNARFJÖRÐUR - Aðgerðasinnar frá Saving Iceland hafa nú stöðvað umferð að
álveri Rio Tinto-Alcan í Straumsvík með því að hlekkja sig við hlið sem
hleypa umferð til og frá álverslóðinni. Saving Iceland mótmælir
fyrirhugaðri framleiðsluaukningu, nýjum álverum
og samhliða eyðileggingu íslenskri náttúru fyrir raforkuframleiðslu.
Samstarf Rio Tinto-Alcan við fjölmarga hergagnaframleiðendur er einnig
fordæmt.

Rio Tinto-Alcan hyggst nú auka framleiðslu álversins í Straumsvík um 40
þúsund tonn á ári án þess að stækka álverið sjálft. Einnig vinnur
fyrirtækið að undirbúningi nýs álvers á Keilisnesi eða í Þorlákshöfn (1).

Orkuveita Reykjavíkur hugðist reisa Bitruvirkjun til að koma til móts við
orkuþörf stækkaðs álvers í Straumsvík (2) en nú hafa framkvæmdirnar á
Bitru verið fjarlægðar af teikniborðinu  vegna andstöðu almennings og O.R.
ekki framlengt samning sinn við Alcan (3).

Á sama tíma stefnir Landsvirkjun nú ótrauð að byggingu þriggja virkjanna í
Þjórsá auk Búðarhálsvirkjunar í Tungnaá, en Landsvirkjun og Alcan eiga
sín á milli viljayfirlýsingar um orkuöflun fyrir stækkun álversins í
Straumsvík eða nýrra álvera (4). Í Desember 2006 skrifuðu Alcan og
Landsvirkjun einmitt undir samning um orkuöflun, en í samningnum sagði
einnig að Alcan tæki þátt í undirbúningskostnaði fyrirhugaðra
Þjórsárvirkjanna (5).

Spilling í Hafnarfirði
Í lok Mars 2007 fóru fram íbúakosningar í Hafnarfirði, þar sem stækkun
álversins var hafnað. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfirði, sagði sama
kvöld og kosningarnar fóru fram að þær væru ,,sigur fyrir lýðræðið” og
bætti því við að hann myndi hlíta niðurstöðunni (6).

Aðeins þremur mánuðum seinna sat Lúðvík fund með Rannveigu Rist, forstjóra
Alcan á Íslandi, og Michel Jacques, forstjóra Alcan Primary Metal Group,
þar sem framhaldsstarfsemi fyrirtækisins hér á landi var rædd. Meðal
annars var rætt um mögulega stækkun á landfyllingu út í sjó (7), en um
mánuði áður höfðu forsvarsmenn Alcan hér á landi rætt um að flytja
starfsemi fyrirtækisins til Þorlákshafnar.

,,Er þetta það sem Lúðvík Geirsson kallar sigur lýðræðisins? Svikin
loforð?” segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson frá Saving Iceland.
,,Hegðun Lúðvíks sýnir vel hversu mikið vald álfyrirtækin hafa hér á
landi. Valdhafar virðast einfaldlega ekki þora að standa í vegi fyrir
uppgangi stóriðju.”

Vafasamir viðskiptahættir Alcan
Þann 30. Ágúst 2006, skrifaði Alcan undir langtíma samning um þátttöku í
framleiðslu á orrustuþotunni F-35 Jointer Strike Fighter, ásamt
vopnaframleiðendunum Lockheed Martin, Northtrop-Grumman og BAE Systems
(8).

,,Þetta er ekki beint glæsilegur hópur” segir Sofie Larsen frá Saving
Iceland. ,,Hingað til hefur athyglin hér á landi aðallega beinst að Alcoa
þegar kemur að tengslum álframleiðslu og stríðsreksturs. Alcan er hins
vegar engu skárri, því fyrirtækið er viðriðið fjölmarga
hergagnaframleiðendur.”

Alcan framleiðir m.a. ál fyrir EADS (European Aerospace and Defense and
Space) (9), sem framleiðir herþyrlur, orrustuþoturnar Euorofighter Tycoon,
Mirage F1, EF18 Hornet og aðrar þotur. EADS er einnig leiðandi
framleiðandi flugskeyta (10).

,,EADS fullyrðir á heimasíðu sinni að vörur fyrirtækisins séu seldar til
landa þar sem sala á hátækni flughernaðartólum fer fram á ábyrgan hátt“
segir Sofie. ,,En á sömu síðu má finna myndbönd frá Þýskalandi á tímum
nasismans, þar sem fyrri heimsstyrjöldin og flugvélar Nasista eru lofaðar
hástöfum (11). Hvers konar siðferði er það?”

Virkjun Þjórsár
Nú stefnir allt í að Þjórsárvirkjanirnar þrjár og Búðarhálsvirkjun verði
að veruleika, þrátt fyrir  sterka andstöðu bænda við Þjórsá. Landsvirkjun
hefur farið hverja ferðina á fætur annarri upp að Þjórsá í þeim tilgangi að
reyna að fá bændur til að samþykkja framkvæmdirnar. Eftir að níu bændur af
þeim tíu sem munu verða fyrir áhrifum af byggingu Urriðafossvirkjunar,
afhentu Landsvirkjun bréf um að þeir tækju ekki frekari þátt í umræðum um
virkjanirnar, hefur Landsvirkjun hótað að beita eignarnámi til að ná sínu
fram.

Í viðtali við Sunnlenska, sagði Jón Árni Vignisson, bóndi við Þjórsá, að
Sveitastjórn Flóahrepps hafi samþykkt breytingu á aðalskipulagi þar sem
gert er ráð fyrir virkjun Urriðafoss, eftir að Landsvirkjun hafi lofað að
koma að ýmsum málum innan sveitarinnar, t.d. betra farsímasambandi,
vegagerð og vatnsöflun ásamt peningagreiðslu (12).

Stækkun álvers Rio Tinto-Alcan og virkjun Þjórsár eru stórspilltar
framkvæmdir, sem þarf að stöðva áður en þær hefjast.

Um Saving Iceland
Saving Iceland varð til þegar íslenskir umhverfissinnar kölluðu eftir
alþjóðlegri aðstoð til að verna íslensk öræfi - og samfélag - frá græðgi
ál- og orkufyrirtækja. Í sumar hefur hópurinn staðið fyrir fjórðu
aðgerðabúðum sínum; í þetta sinn á Hellisheiði, en áður hafa búðirnar átt
sér stað á Mosfellsheiði, við Kárahnjúka og á Reyðarfirði.

Nánari upplýsingar:
Sofie Larsen - s. 821 8236
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson - s. 857 3521
savingiceland@riseup.net
www.savingiceland.org

Heimildir:

(1) Mbl.is, Álframleiðsla hjá Alcan aukin um 22 prósent,
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/12/29/alframleidsla_hja_alcan_aukin_um_22_prosent/
(2) Mbl.is, Fyrirhugaðar framkvæmdir og orkusala haldast í hendur,
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/11/13/fyrirhugadar_framkvaemdir_og_orkusala_haldast_i_hen/
(3) Mbl.is, 200 mw orkusala úr sögunni,
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/04/20/200_mw_orkusala_ur_sogunni/
(4) Vísir.is, Alcan keppir áfram um orku Þjórsár,
http://visir.is/article/20070909/FRETTIR01/70909058/0/leit&SearchID=73325485751226
(5) Heimasíða Rio Tinto-Alcan á Íslandi,
http://www.riotintoalcan.is/?PageID=12&NewsID=175
(6) Mbl.is, Sigur fyrir lýðræðið,
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/03/31/sigur_fyrir_lydraedid/
(7) Mbl.is, Álver á landfyllingu,
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/06/20/alver_a_landfyllingu/
(8) Vefsíða Alcan,
http://www.alcan.com/web/publishing.nsf/Content/Alcan+Becomes+Leading+Heavy+Gauge+Plate+Aluminum+Supplier+for+the+F-35,+Joint+Strike+Fighter+(JSF
(9) Vefsíða ABC Money, http://www.abcmoney.co.uk/news/13200786914.htm
(10) Vefsíða EADS,
http://www.eads.com/1024/en/businet/defence/mas/combat_aircraft/combat_aircraft.html
(11) Myndband sem segir sögu EADS,
http://www.eads.com/xml/content/OF00000000400004/0/64/41488640.asx
(12) Sunnlenska Fréttablaðið, 30. tölublað, Eigum marga aðra valkosti,
bls. 8-9, 24. Júlí 2008


mbl.is Loka vegi við álverið í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætla að dansa indíánadans um verslunarmannahelgina

Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að fara út úr bænum um verslunarmannahelgina en ætla að bregða út af vananum í ár og taka þátt í þessu. 

 

Hjörtu okkar og hjarta jarðarinnar eru eitt.

 

Sunray námskeið  haldið að Búlandi A Landeyjum

Verslunarmannahelgina 1-3  ágúst.

 

INDÍÁNA ÆFINGAR,  dans HÖFUÐÁTTANNA,

OG HUGLEIÐSLA

 

Á tímamótum mikilla umbreytinga á jörðinni og hjá mannkyninu fáum við nú tækifæri til að marka spor friðar og jafnvægis  í sérvöldum huldum náttúruperlum  í næsta nágrenni við Búland.

 

Ven Dhyany Ywahoo hefur tjáð okkur að Ísland sé að kalla eftir hjálp hún hefur beðið okkur að hlusta á landið okkar.

 

Við hjónin á Búlandi  ákváðum að bregðumst við því með  því að bjóða  þátttakendum Sunray  aðstöðu  á Búlandi.

 

Angelika  Salberg   Sunray kennari leiðir námskeiðið.

Ven Dhyany Ywahoo Indíánahöfðingja Cherokee ættbálksins

var  barn  að aldri valin af þeim eldri innan ættbálksins, til að kenna áfram heilög fræði forfeðra þeirra um samspil mannsins við himininn,  jörðina og mannkynið.

 

Þetta nám hæfir öllum  aldurshópum. Hafir þú áhuga á að taka þátt í að  styrkja, styðja  og hreinsa okkar yndislega land af áhrifum sem hafa orðið af manna eða náttúruvöld þá er þetta.

Einstakt tækifæri til gera eitthvað algerlega öðruvísi, komast í snertingu við sjálfan sig  án vímuefna í faðmi  fjölskyldunnar og náttúrunnar.

Verð:  21.000 fyrir hjón

Einstaklingar 11.000

Ókeypis fyrir 18 ára og yngri.

 

Skráning.

Guðný Halla / Guðmundur  4878527 - 8936698   -8684500

buland@emax.is

 

Kerti fyrir Tíbet

kertifyrirtibet 

Vinir Tíbets taka þátt í stærstu ljósaaðgerð í heimi þann 7. ágúst klukkan 21:00 á Lækjartorgi og þér er boðið. Ef þú hefur ekki tök á að koma á Lækjartorg getur þú kveikt á kerti á þessum tíma og sett í gluggann þinn til að sýna Tíbetum stuðning í frelsisbaráttu þeirra. Nánari upplýsingar og skráning fer fram á candle4tibet.org. 

Áþekkar ljósaaðgerðir munu fara fram út um allan heim og hafa yfir 515.000 skráð sig. Ljós í myrkrinu fyrir Tíbet á meðan setning Ólympíuleikana fer fram.

 


Æðislegar myndir:)

Ég er viss um að ef ég hefði svona mynd upp á vegg hjá mér og hún væri eitt það fyrsta sem ég myndi sjá þegar ég vaknaði, þá færi ég brosandi inn í hvern dag:) 


mbl.is Mennirnir hans Einars slá rækilega í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áherslur í fréttaflutningi

Í skjóli embættis síns hefur Friðrik Sophusson stuðlað að því að landeigendur við Þjórsá hafa sætt áþekkum aðgerðum og hann upplifði í morgun. Þeir sem vilja ekki beigja sig undir vilja Landsvirkjunar þurfa að þola heimsóknir frá starfsfólki Friðriks í viku hverri þar sem því er ýmist hótað eða reynt að tæla það að gefa eftir með gylliboðum. 

Er það allt í lagi? Er ekki verið að ráðast að þeirra friðhelgi? Er Friðrik ekki ábyrgur fyrir þessum ofsóknum? Ef ekki hver þá? Ég hef setið fundi með forustusauðum Alcoa, Landsvirkjunar og Bechtel, þar sem Íslandsvinum var boðið fé til að auglýsa okkar tjaldbúðir ef við gætum skít í Saving Iceland. Auðvitað afþökkuðum við, en mér finnst þetta dæmigert fyrir vinnubrögð þessara fyrirtækja.

Nú fær Friðrik heilmikið rými til að tjá sig, en í annarri frétt sem birtist stuttu síðar um heimsókn SI til höfuðstöðva Landsvirkjunar er ekkert lagt í fréttina. Ég hef tekið eftir því að fjölmiðlum er hreinlega réttar heimildir á silfurfati og þeir trekk í trekk gera ekkert til að rannsaka heimildirnar. Það er sláandi að lesa um aðbúnað verkafólks Alcoa í öðrum löndum. Það er líka sláandi að þessi fyrirtæki sem eiga að vera bjargvættir þjóðarinnar fá aldrei gagnrýna umfjöllun þar sem farið er ofan í saumana á lygum þeim sem þau stunda.

Man að það hafði samband við mig fólk sem hafði unnið um langa hríð fyrir Alcan. Það sagði mér að ef þú slasast, eins og til dæmis fótbrotnar eða brennist en getur unnið á skrifstofunni við að hefta blöð, þá er ekki þörf á að tilkynna slysið sem vinnuslys. Þannig gat Alcan auglýst mánuð eftir mánuð sem vinnuslysalausan mánuð á meðan að raunin var allt önnur. Af hverju er þetta til dæmis ekki skoðað?

Ég las reglurnar sem starfsmenn Alcan þurftu að starfa eftir og þar kom fram að þeir megi ekki tala við fjölmiðla á meðan þeir starfa þar ef þeir hafa eitthvað að gagnrýna. Mér finnst það ekki í lagi.

Ég skora á einhvern hugrakkan blaðamann eða konu að kafa vel ofan í sögu Rio Tinto, Alcoa og Landsvirkjunar og skrifa heilsteypta grein um þessi fyrirtæki. Það væri jafnvel hægt að hafa seríu þar sem fyrirtækin eru skoðuð. Svo væri gaman að fá að lesa greinar um Báxítvinnslu. Það er oft reynt að tóna niður veruleikann í kringum Báxítvinnslu og þá hrikalegu skaðsemi sem henni fylgir.  

Nú eiga margir eftir að hrópa á vefnum um að þeir hefðu haft hluttekningu með málstað Saving Iceland en þessi aðgerð hafi gert útslagið og þeir munu nú snúa baki í Saving Iceland vegna þessa. Svona grunnt liggur alltaf á hjá svo mörgum. Þeir nota fyrstu afsökun til að halda áfram að gera ekki neitt. 


mbl.is Þáðu ekki boð um fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttatilkynning frá Saving Iceland

Saving Iceland í höfuðstöðvum LV - Virkjanaáformum í Þjórsá og samstarfi
við Alcoa mótmælt!

REYKJAVÍK – Rétt í þessu fóru 30 aktívistar frá Saving Iceland hópnum inn
í höfuðstöðvar Landsvirkjunar, Háaleitisbraut 68, og trufluðu þar vinnu
til að mótmæla virkjunaráformum fyrirtækisins í Þjórsá og samstarfi þess
við Alcoa. Fyrr í morgun vatki Saving Iceland Friðrik Sophusson, forstjóra
Landsvirkjunar og afhenti honum brottfarartilkynningu.

,,Við fordæmum áætlun Landsvirkjunar um að reisa þrjár virkjanir í Þjórsá
og eina í Tungnaá, sem m.a. er gert til þess að svara orkuþörf álvers Rio
Tinto-Alcan í Hafnarfirði (1,2), þrátt fyrir að stækkun álversins hafi
verið hafnað í íbúakosningum vorið 2007. Allt bendir nú líka til þess að
virkjað verði í Skjálfandafljóti og Jökulsá á Fjöllum, vegna þess að Alcoa
hyggst nú reisa enn stærra álver á Bakka en áður var áætlað (3,4). Þar að
auki eru framkvæmdir fyrirtækisins við Þeystareyki búnar að hafa í för með
sér gífurlega eyðileggingu jarðhitasvæðisins(5). Til að bæta gráu ofan á
svart eru framkvæmdirnar á Norðurlandi til þess eins að framleiða orku
fyrir fyrirtæki sem sjálft viðurkennir að vera vopnaframleiðandi (6) og
hefur margoft hlotið athygli fjölmiðla vegna hrikalegra mannréttindabrota
sinna (7). Landsvirkjun ætti ekki að bjóða Alcoa velkomið til landsins”
segir Jaap Krater frá Saving Iceland.

Öfgafull misnotkun á réttindum verkafólks:

Alcoa segist vera frábær vinnuveitandi, sem fer vel með starfsfólk sitt.
En raunveruleikinn er öðruvísi:

,,Of þarf starfsfólk að míga á sig, jafnvel kúka í föt sín eftir að hafa
aftur og aftur verið meinað að nota baðherbergið. Baðherbergin eru einnig
skítug, án ljósa og án klósettpappírs. Starfsfólk sem er ‘of lengi’ á
klósettinu getur lent í því að vera dregið út af vörðum. Það eru meira að
segja dæmi um að konur hafi þurft að girða niður um sig til þess að sanna
að þær séu á blæðingum, svo þær megi nota baðherbergið oftar en tvisvar á
dag” segir í skýrslu um meðhöndlun Alcoa á starfólki í verksmiðju sinni í
Hondúras (7.)

,,Með aðeins tíu mínútna fyrirvara, getur starfsfólki á næturvöktum verið
skipað að vinna sex klukkutíma í viðbót, sem heldur þeim í verksmiðjunni í
næstum því 14 klukkutíma. Yfirvinna er ekki borguð sérstaklega og þeir sem
neita geta átt á hættu að verða reknir. [...] Meðallaunin eru 74 sent á
tímann, upphæð sem er um það bil þriðjungur þess sem venjuleg fjölskylda
þarf til að halda sér uppi” segir í skýrslunni.

Starfsfólk hefur staðið fyrir mótmælum, en Alcoa mælir alls ekki með
stofnun verkalýðsfélaga. ,,Alcoa notar morðhótanir, ólöglegar
fjöldauppsagnir, svarta lista og hótanir um að loka verksmiðjunni til þess
að koma í veg fyrir að starfsfólk þori að nýta sér rétt sinn til að
skipuleggja” segir í skýrslunni.

Einnig hafa verið skrifaðar skýrslur um mannréttindabrot og brot á
réttindum starfsfólks í Mexíkóskum verksmiðjum (8). Kaldhæðnislega, er
Alcoa nú að losa sig við 1240 starfsmenn í Hondúras og Mexíkó, vegna
minnkandi eftirspurnar eftir áli fyrir framleiðslu stórra bíla í kjölfar
hækkandi olíuverðs (9).

Alcoa og hergagnaiðnaðurinn:

Alcoa styður beint við aðgerðir bandaríska hersins, t.d. í Írak. ,,Alcoa
Defense er stoltur samstarfsaðili bandaríska hersins og
hergagnaiðnaðarins” sagði Dave Dobson forseti Alcoa Defense. ,,Við hlökkum
til að stuðla að auknu öryggi hermanna okkar, með því að gera farartækin
léttari, hraðari og sterkari” (10).

,,Allir Alcoar (all Alcoas) vinna hart að því að að þessi verkefni gangi
hratt í gegn til stuðnings hermannanna okkar” sagði Mark Vrablec,
framleiðslustjóri Alcoa Davenport Works (11).

Önnur nýleg dæmi um tengsl Alcoa og bandaríska hersins segja m.a frá
framleiðslu orrustuskipa og annarra vopnaðra farartækja (13). Fleiri dæmi
um tengsl Alcoa við hergagnaframleiðendur, t.d. Lockheed Martin má finna í
greninni ‘Lygar og útúrsnúningar’ eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson
(14).

,,Semsagt, rafmagn frá fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar fer beint
til fyrirtækis sem tekur beinan þátt í stríðinu í Írak og Afganistan,”
segir Jaap Krater frá Saving Iceland.

Um Saving Iceland
:

Síðasta Laugardag stöðvaði Saving Iceland vinnu á fyrirhugaðri álverslóð
Norðuráls/Century Aluminum í Helguvík og á Mánudaginn sl. stöðvaði
hópurinn umferð til og frá álveri Norðuráls í Hvalfirði. Aðgerðirnar eru
allar partur af fjóra aðgerðasumri Saving Iceland, gegn stóriðju á Íslandi
og annars staðar í heiminum.

Saving Iceland varð til þegar íslenskir umhverfissinnar kölluðu eftir
alþjóðlegri aðstoð við að vernda íslensk öræfi – ein þau síðustu í Evrópu
– frá stóriðju. Álfyrirtækin Alcoa, Century Aluminum og Rio Tinto-Alcan
vilja öll reisa ný álver hér á landi eða stækka núverandi álver sín. Ef
það verður að veruleika þarf að eyðileggja öll helstu jarðhitasvæði
landsins og virkja næstum því hvert jökulfljót (sjá
http://www.savingiceland.org/sos).

Í ár hafa fjórðu aðgerðabúðir Saving Iceland verið settar upp á
Hellisheiði, þar sem Orkuveita Reykjavíkur er að stækka núverandi
jarðhitavirkjun sína, m.a. til þess að mæta kröfum Norðuráls um aukna orku
fyrir álver á Grundartanga og í Helguvík.

Frekari upplýsingar:
http://www.savingiceland.org
savingiceland@riseup.net

Miriam Rose (869 3782)
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson (857 3521)
Jaap Krater (867 1493)

Heimildir

(1) Landsvirkjun (2008). Alcan and Landsvirkjun reach agreement on
electricity price.
http://www.landsvirkjun.com/EN/article.asp?catID=130&artId=1027
(2) Iceland Review (2008). Trial Delays Hydropower Projects in Iceland.
http://www.icelandreview.com/icelandreview/daily_news/?cat_id=16567&ew_0_a_id=308981
(3) Visir.is (2008). Ný virkjun á stærð við Kárahnjúkavirkjun.
http://visir.is/article/20080718/FRETTIR01/597112643/1066
(4) Visir.is (2008). Enn stærra álver á Bakka hugnast Ingibjörgu ekki.
http://visir.is/article/20080722/FRETTIR01/354398429/0/Classifieds01
(5) Saving Iceland (2008). Energy companies destroying Þeistareykir.
http://savingiceland.puscii.nl/?p=1317
(6) ALCOA Defense website. http://www.alcoa.com/defense/en/capabilities.asp
(7) National Labor Committee with Community Comunication Honduras (2007).
The Walmart-ization of Alcoa. http://www.nlcnet.org/article.php?id=447.
(8) Comité Fronterizo de Obreras (2008). Alcoa in México.
http://www.cfomaquiladoras.org/english%20site/alcoa_en_mexico.en.html
(9) Reuters (2008). Alcoa Inc.'s Alcoa Electrical And Electronic Systems
To Restructure Honduran And Mexican Operations.
http://www.reuters.com/finance/industries/significant?industryCode=51213&categoryId=225
(10) Alunet International (2008). Alcoa to Supply Armor Plate for New Army
Vehicle http://www.alunet.net/shownews.asp?ID=2334&type=1
(11) ALCOA (2008). Alcoa Provides Aluminum for Humvees Used In Iraq.
http://www.alcoa.com/defense/en/news/releases/humvee.asp
(12) Cavas, C. (2007). Alcoa Joins U.S. Navy LCS Program. Defense News
10/10/2007. Cfr.
http://www.alcoa.com/defense/en/news/releases/navy_lcs.asp
(13) ALCOA (2008). Lockheed Martin Announces Alcoa As Principal Team
Member To Compete For Joint Light Tactical Vehicle Program.
http://www.alcoa.com/global/en/news/whats_new/2007/jltv_program.asp.
(14) Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Lygar og útúrsnúningar,
http://savingiceland.puscii.nl/?p=1543&language=is



mbl.is Mótmæla við Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum dettur í hug að trúa Xinhua?

Ég skil ekki hvernig stendur á því að trekk eftir trekk les ég fréttir á mbl.is sem eru þýddar umhugsunarlaust beint úr fréttaskeytum Xinhua. Þessi fréttastofa er alræmd fyrir að flytja rangar fréttir til að réttlæta ofbeldi lögreglu í Kína gagnvart óæskilegum aðilum, til dæmis þeirra aðila sem krefjast þess að fá bætur fyrir að hús þeirra voru jöfnuð við jörðu fyrir ólympíuleikana. 

Mér finnst alveg furðulegt að birta svona fréttir án þess að rannsaka betur hvað liggur að baki þeim. Mér finnst þetta óvönduð fréttamennska. 

Til dæmis eru allar fréttir frá Xinhua um ástandið í Tíbet svo mikill áróður til að réttlæta kúgunina sem þar ríkir að maður veit ekki hvort að maður eigi að hlægja yfir augljósum lygunum eða gráta vegna þess að þær gætu ratað hráar inn á mbl.is. 


mbl.is Hugðust gera árás á ólympíumannvirki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær fundur

Það var fullt út úr dyrum í Reykjavíkur Akademínunni áðan og ánægjulegt að sjá svona góðan þverskurð af fólki sem þarna var mætt. Fróðlegur og sláandi fyrirlestur hjá þeim báðum, en þeir skiptust á að tala. Ég læt hér fylgja fróðlega grein eftir Snorra Pál sem birtist í mogganum í dag og ég bið fólk um að gefa sér tíma til að lesa hana. Það er kominn tími til að við horfumst í augu við þá staðreynd að álið sem hér er framleitt á sér upphaf og enda.

Álframleiðslan í hnattrænu samhengi

Snorri Páll Jónsson
Morgunblaðið, 23. Júlí 

Í bæklingnum ‘Norðurál og samfélagið‘ sem Norðurál gaf út er m.a. sagt frá hnattrænu ferli álframleiðslu. Century Aluminum, eigandi Norðuráls, er með sínar báxítnámur í Jamaíka og hyggst nú opna eina slíka í Vestur Kongó í samvinnu við eina spilltustu ríkisstjórn heims. 

Það vekur strax athygli að í bæklingi Norðuráls er ekki nokkru orði minnst á báxít og samkvæmt skýringarmynd sem á að sýna framleiðsluferli áls frá byrjun til enda, hefst álframleiðslan þegar súráli er landað í stórt hafnarsíló.

Hvers vegna skyldi svo vera? Er Norðurál svo umhverfisvænt fyrirtæki að það þarf ekki einu sinni að grafa eftir báxíti til þess að framleiða ál? Hefur Norðurál einhverjar aðrar aðferðir en önnur álfyrirtæki? Nei, það er neflilega þetta sem kallað er grænþvottur. 

 Það er stórfurðulegt að höfundum þessa bæklings - forsvarsmenn Norðuráls - skuli detta í hug að reyna að blekkja lesendur á eins ódýran hátt. Á meðan Alcoa montar sig af báxítgreftri sínum í textanum ‘Allt hefst á leðju’ virðist Norðurál vera að reyna að fela þá staðreynd að fyrirtækið er viðriðið eyðileggingu regnskóga, drykkjarvatns og heilsufars fólks og dýra á Jamaíka. Hvorki í bæklingnum fyrrnefnda né á heimasíðu Norðuráls er minnst á báxít, forsendu þess að álframleiðsla eigi sér stað. Þess í stað er sagt frá því að ál finnist víða í náttúrunni, m.a. í leir og bergi á Íslandi. 

Grænþvottur Norðuráls 

Hvað nú? Er fyrirtækið að gefa í skyn að álframleiðsla þess sé íslensk; að álið frá Norðuráli sé ‘hrein íslensk vara’? Þvílík blekking! Álframleiðsla er alþjóðleg og áhrif hennar sömuleiðis. 

Það sem hingað til hefur vantað í umræðuna um álframleiðslu hér á landi er alþjóðlega samhengið; hnattrænar afleiðingar stjóriðju. Það er ekki hægt að tala um álframleiðslu sem íslenskt fyrirbæri þó álver séu reist hér á landi og keyrð áfram af íslenskum náttúruspjöllum. Ál-vara ferðast þvert og endilangt um hnöttinn áður en hún endar á áfangastað. Hráefni í sprengju finnst á Jamaíka eða Indlandi, er svo unnið á Íslandi, sprengjan kláruð í Bandaríkjunum og á endanum er henni fleygt á þorp í Írak. Íslenskt hvað? 

Í viðtali við Morgunblaðið sl. Laugardag segir Bubbi Morthens að það séu alvarlegri vandamál en álversframkvæmdir hér á landi, svo sem fátækt og atvinnuleysi, og gagnrýnir svo Björk og Sigur Rós fyrir að halda ekki tónleika gegn fátækt. Þetta er eflaust algengt viðhorf hér á landi. 

En málið er ekki svo einfallt að það sé annað hvort um að velja fátækt eða álver, atvinnuleysi eða álver. Álfyrirtækin eru hluti af kapítalísku hagkerfi sem byggist á því að einhverjir græði á meðan aðrir tapi. Starf í álveri getur mögulega haldið uppi fjölskyldu hér á landi en á sama tíma leitt af sér hörmungar annars staðar í heiminum. Að afneita þeim afleiðingum og horfa algjörlega framhjá þeim er eigingirni. Skiptir það engu máli hvaðan peningar koma, hver græðir á hverju? Ef svo er, getum við þá ekki allt eins reist vopnaverksmiðju og barnknúna saumastofu hér á landi? 

Í bæklingnum segir einnig að eina raunverulega leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalottegunda og annarar mengunnar sé ,,að menn dragi sjálfir úr notkun á tækjum og efnum sem stuðla að menguninni, svo sem plasti, stáli, áli o.s.frv. Á meðan eftirspurn eftir áli heldur áfram að vaxa þarf að reisa ný álver einhvers staðar í heiminum.” 

Það er auðvelt fyrir iðnað sem stendur fyrir eins mikilli eyðileggingu og áliðnaðurinn gerir, að reyna að höfða til persónulegrar neyslu fólks og kenna henni um þau umhverfisspjöll sem alþjóðakapítalismi leiðir af sér. Það er alveg rétt að einstaklingar geta auðveldlega dregið verulega úr neyslu sinni en þessi fullyrðing Norðuráls er samt sem áður útúrsnúningur. Fyrirtækið setur sig í spor einhvers konar góðgerðarhóps, sem bara svarar kalli almennings; ,,Á meðan þið þið biðjið um ál…framleiðum við það!” 

Ál er nú lofað og upphrópað sem einhvers konar galdralausn við umhverfisvandamálum. Álfyrirtækin boða engar raunverulegar breytingar, ekkert róttækt neyslustopp, heldur sömu neyslu í sama magni… bara allt úr áli. Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, skrifaði fyrir ekki svo löngu síðan grein í Morgunblaðið, þar sem hann talaði fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og sagðist ekki vera tilbúinn til að slaka á þeim lífsgæðum sem við búum við. Fyrir utan það að hann hefur auðvitað enga heimild til þess að tala fyrir hönd 300.000 manns, er það alveg ljóst að ef lífsgæði okkar stuðla að fátækt og umhverfisraski annars staðar í heiminum, er það ekki okkar einka ákvörðun hvort við slökum á eða aukum þessi svokölluðu ‘lífsgæði’. 

Það þarf að beina augunum frá íslenskum neytendum, að þeim sem álframleiðslan skaðar? Norðurál ætti að tala þá íbúa Jamaíka sem hafa misst land sitt, heilsu og drykkjarvatn vegna álframleiðslu; innfædda í Orissa héraðinu á Indlandi þar sem menningarleg þjóðarmorð eiga sér stað; fórnarlömb stríðsrekstur sem að stórum hluta til er drifinn áfram að álframleiðslu. Norðurál ætti að spyrja þetta fólk hvort þeim sé sama - hvort þau gefi samþykki á ‘græna og hreina’ álframleiðslu á Íslandi.

 


mbl.is Fjölmenni á Saving Iceland fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 509522

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.