Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Æðislegar myndir:)

Ég er viss um að ef ég hefði svona mynd upp á vegg hjá mér og hún væri eitt það fyrsta sem ég myndi sjá þegar ég vaknaði, þá færi ég brosandi inn í hvern dag:) 


mbl.is Mennirnir hans Einars slá rækilega í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerti fyrir Tíbet og Styrktartónleikar

Þar sem líður senn að Ólympíuleikunum hafa Vinir Tíbets skipulagt viðburði við upphaf og enda leikanna, til að vekja athygli á málstað Tíbeta og ekki síst sýna samstöðu með þeim á meðan á þeim stendur.

- Sett hefur verið af stað átak um allan heim sem kallast Candle for Tibet ( www.candle4tibet.org ) eða Kerti fyrir Tíbet og munu þá milljónir manns um heim allan kveikja á kertum til að sýna stuðning sinn við Tíbeta og friðsamlega frelsisbaráttu þeirra. Kertagjörningurinn fer fram 7. ágúst kl 21.00 og Vinir Tíbets ætla að taka þátt í þessu með því raða upp kertum í miðbæ Reykjavíkur.
Við hvetjum alla til að taka þátt í þessum viðburði með því að mæta á Lækjartorg og kveikja á kertum með okkur, en þeir sem geta ekki verið með eru hvattir til að taka þátt með því að kveikja á kertum á heimilum sínum eða fyrir utan þau þann 7. ágúst kl 21.00, en þetta er kvöldið fyrir opnunarhátíð Ólympíuleikanna.

- Vinir Tíbets skipuleggja um þessar mundir Styrktartónleika sem haldnir verða þann 24. ágúst í Salnum í Kópavogi. Gestir mega eiga von á frábærri sýningu þar sem landsþekktir listamenn koma fram, með tónlistaratriði, ljóðalestur, gjörninga og ávörp. Við búumst við að allir vinir Tíbets og áhugamenn um málefni þess láti sjá sig þetta kvöld og styrki um leið gott málefni.
 
Allur ágóði tónleikanna rennur til Tibetan Reception Centre í Dharamsala, Indlandi, sem er móttökuskýli og fyrsti áfangastaður fyrir tíbeska flóttamenn sem nýkomnir eru úr lífshættulegri göngu sinni yfir Himalayafjöllin í leit að frelsi og betra lífi utan Tíbets.
 
Þessir viðburðir verða auglýstir betur á næstu dögum og vikum. Vonumst til að sjá sem flesta.
 
Með friðarkveðjum,
Vinir Tíbets


Mótmæli fyrir utan dómsmálaráðuneytið

Á morgunn 4. júlí á milli 12 og 13 verða mótmæli fyrir utan dómsmálaráðuneytið. Við skorum á Björn Bjarnason og Hauk Guðmundsson að snúa Paul Ramses heim og fjalla um mál hans hérlendis þar sem fjölskylda hans er. Við krefjumst þess að Paul fái hér pólitískt hæli og að vinnubrögð  eins og í máli hans muni ekki endurtaka sig.

Síðastliðinn desember tók Paul þátt í borgarstjórnarkosningum í Naíróbí, en flokkur hans náði ekki kosningu. Eftir kosningarnar urðu margir stjórnarandstæðingar fyrir ofsóknum. Vegna ótta um líf sitt kom Paul hingað til lands í janúar og sótti um pólitískt hæli. Honum barst aldrei svar við beiðni sinni, jafnvel þó Katrín Theodórsdóttir héraðsdómslögmaður hafií mars ítrekað beiðni um að mál Pauls væri tekið upp. 

Í gær komu lögregluþjónar fyrirvaralaust á heimi Pauls og handtóku hann fyrir framan konu hans og þriggja vikna sonar þeirra. Hann var færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hann eyddi nóttinni. Í morgun var hann svo sendur til Ítalíu og mál hans sett í hendur stjórnvalda þar í landi, en samkvæmt Dyflinnarsamningnum hafa íslensk stjórnvöld leyfi til þess að senda hann til Ítalíu, 
vegna þess að Paul millilenti þar á leið sinni til Íslands.

Það er engin ástæða til þess að efast um trúverðugleika Pauls og auðveldlega hefði verið hægt að veita honum pólitískt hæli hér á landi. En Útlendingastofnun og Dómsmálaráðuneytið ákváðu samt að hunsa mál hans, einungis vegna þess að þau geta það. 

Hér á landi er sífellt hamrað á því að íslensk samfélag sé samfélag friðar, frelsis og jafnréttis, en brottvísun Pauls sannar að svo er ekki. Margfalt fleiri sækja um pólitískt hæli á Ítalíu en á Íslandi og því miklar líkur á því að hann verði einfaldlega sendur aftur til Kenía, þar sem bíða hans ofsóknir og hætta á því að hann verði drepinn. Fjölskylda hefur verið slitin í sundur og lífi manns stefnt í hættu; allt í boði íslenskra stjórnvalda.

Aðspurð sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra að Utanríkisráðuneytið hafi ekkert með málið að gera en sagðist krefjast þess að Útlendingastofnun og Dómsmálaráðuneytið rökstyðji ákvörðun sína. Það er ekki nóg! Það þarf ekki að rökstyðja þess ákvörðun, heldur draga hana til baka og hleypa Paul aftur inn í landið og koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Hittumst öll fyrir utan Dómsmálaráðuneytið á morgun, milli kl. 12:00 og 13:00 og krefjumst þess að Paul verði snúið aftur til Íslands. Sýnum íslenskum stjórnvöldum reiði okkar og andstöðu gegn þessari óafsakanlegri hegðun! 

Komið með trommur, hljóðfæri eða annað til þess að skapa hávaða, ef þið hafið áhuga á því. Það verður dagskrá og er verið að finna snjalla ræðumenn. Síðan má búast við örleikriti og ýmsu öðru.

Við verðum að sýna Birni í verki að okkur finnst þessi vinnubrögð forkastanleg og hvetjum hann til að sýna mannúð í verki. Hvet ykkur til að lesa mjög fræðandi og góða grein um mál Paul Ramses sem ég fann inn á blogginu hans Sigurðar Þórs Guðjónssonar. Smellið hér til að lesa hana.

Ég er að undirbúa undirskrifarlista fyrir þá sem komast ekki á mótmælin en það er lang sterkast að gera eitthvað eins og skrifa eða hringja í dómsmálaráðuneytið og útlendingastofnum. Sendið þeim bréf, föx, biðjið um viðtal við kappana. Sýnið að við sem þjóð samþykkjum ekki svona mannvonsku, mætum á mótmælin á morgunn, öll sem eitt. 

 


Vinir Tíbets sýna kvikmyndina Kundun

Fimmtudaginn 3.júlí n.k. klukkan 20:00 mun félagið Vinir Tíbets sýna stórmyndinni Kundun í Kaffi Hljómalind frá árinu 1997. Leikstjóri myndarinnar er hinn margrómaði Martin Scorsese en tónlistin er úr smiðju Philip Glass. Myndin var tilnefnd til fjögurra óskarsverðlauna árið 1998. Myndin er 134 mínútur og eftirá verður mögulegt að fræðast um ástandið í Tíbet í dag sem og menningu landsins.

Um myndina: Árið 1937 í afskektu héraði nálægt landamærum Kína var lítill tveggja ára drengur útnefndur hinn fjórtándi Dalai Lama eða Kundun, sem merkir “Nærveran” á tíbetsku. Tveimur árum síðar var hann fluttur til Lhasa, höfuðborgar Tíbet, þar sem hann fær þjálfun og er undir það búinn að taka við hlutverki þjóðhöfðingja. Scorsese gerir umbyltingarsömum tímum fyrir Tíbetsku þjóðina skil í þessari mynd en kínversks yfirvöld gerðu innrás í Tíbet árið 1950 þegar Dalai Lama var aðeins 14 ára gamall.

 

kundunbio
 

 

 


Er Ólafur danskur eða íslenskur?

Sá frétt um þetta á BBC þar sem hann er sagður Dani, en hér er talað um hann sem Íslending. Það hljóta að hafa verið sendar út tilkynningar í USA þar sem hann er sagður Dani, því erum við þá alltaf að tala um hann sem Íslending? Varla eru sendar út tilkynningar um verk eftir manninn sem hann veit ekkert um?

Mér finnst Ólafur frábær listamaður, en finnst svolítið gróft að stela þjóðerni hans, bara til að blása upp þjóðarstolt okkar. 

 


mbl.is Fossar falla í Austurá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem sólin skín

DSCF2742

Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég vakna og það er svokölluð Bongóblíða í höfuðborginni, dag eftir dag. Ég fyllist jafnan miklu eirðarleysi í slíku veðri og finnst það jaðra við helgispjöll að vera inni í svona veðri, það hefur yfirleitt verið þannig að svona dagar koma ekki í pörum, hvað þá vikupörum hérlendis. 

Allt fær á sig einhvern framandi blæ þegar sólin skín í borginni. Grámyglan sem hefur tekið á sig fasta mynd á gráum húsveggjum vestur í bæ sem búið er að friða og má ekki mála, er horfin inn í trjágróður sem skyndilega er þakinn litríkum og ilmsterkum blómum. 

Ég var úti í allan gærdag, í allskonar aðgerðum, fyrst fyrir utan kínverska sendiráðið, meðal Vina Tíbets, síðan tók ég þátt í menningarhátíðinni RÚST á Lækjartorgi. Þar skemmti ég mér við að hlusta á það hvernig fjöldi fræðimanna og kvenna sá fyrir sér ímynd Íslands, í boði forsætisráðuneytisins. Samkvæmt þessari skýrslu erum við varla til sem þjóð, nema að eiga sterka ímynd og vera þekkt stærð erlendis. Því er um að gera að dæla miklum fjármunum í ímyndarsköpun, enda ekki vanþörf á að bjarga þessum íslensku útrásarfyrirtækjum sem fóru í útrás án þess að eiga gott ímyndarbakland. Hvet fólk til að kynna sér þessa skýrslu á vef forsætisráðuneytisins. Þar kemur fram að við erum villt náttúrbörn sem jafnframt erum full af óbeisluðum krafti sem líkja mætti við hver, best í heimi og getum nýtt okkur börn frá stríðshrjáðum löndum til að efla ímynd okkar sem friðarþjóð. Fá þessa krakka til að koma og njóta friðar á Íslandi í viku og senda þau svo aftur heim í stríðshrjáða landið sitt, sem friðarsendiherra Íslands... 

Ég og yngri sonur minn sátum í góðum félagskap eftir lesturinn en ég fékk að lesa niðurlag ímyndarskýrslunnar fyrir vegfarendur sem sumir hverjir stöldruðu við. Elísabet Jökuls las sinn þátt eins og henni er einni lagið - náði að fanga þessi paník sem virtist einkenna ímyndina okkar hálfkaraða og ósastillta. Það er alveg rosalega langt síðan að ég hef notið þess að gera ekki neitt, eins og í gær. Hitti mikinn fjölda af fólki sem flokkast sem vinir og kunningjar sem voru greinilega með "ég verð að fara út í góða veðrið" óþreyjuna. Þetta var hið fullkomna líf.

Ég gleymi því oftast að ég þurfi að nota sólarvörn á Íslandi og er því með nokkuð rautt nef og bringu eftir 5 tíma útiveru í sólinni. En ég er svo lánsöm að eiga gríðarlega stóra aloa vera plöntu sem ég fæ að nota í neyð til að hlúa að brunasárum fjölskyldunnar:)  

Nú verð ég bara að fara út og skoða þessi fallegu ský sem kúra yfir Esjunni og fanga sólina á meðan tími gefst. Vona að helgin ykkar hafi verið endurnærandi og gefandi og geymi í það minnsta eitt lífsins ævintýr.   


Nóg að gera hjá aðgerðasinna á næstu dögum

Í kvöld 20. júní er opinn félagsfundur hjá Vinum Tíbets - við munum hittast á Kaffi Hljómalind klukkan 20:00. Allir velkomnir. 

Á morgunn 21. júní verður okkar vikulega staða fyrir utan kínverska sendiráðið klukkan 13:00. Þetta er mikill örlagadagur fyrir Tíbeta, því Ólympíukyndillinn sem á að vera táknrænn fyrir frið og sameiningu þjóða mun þrátt fyrir allt fara í gegnum Tíbet. Kínversk yfirvöld hafa hótað engri miskunn þeim sem voga sér að mótmæla ástandinu í landinu á meðan hlaupið verður með kyndilinn í gegnum Lhasa. Krafa okkar er enn hin sama: við viljum að alþjóðafjölmiðlum verði hleypt inn í Tíbet nú þegar.

Ég mun jafnframt eftir stöðuna fyrir utan kínverska sendiráðið taka þátt í RÚST - og lesa upp úr ímyndarskýrslunni sem forsætisráðherra okkar lét gera og er vægast sagt undarleg og óþægileg lesning. Þessi skýrsla hljómar afar fallega ef maður gleymir því að þetta er markaðssetningarskýrsla. En mikilvægt er að gleyma því ekki og mikilvægt að þjóðin viti meira um þessa skýrslu. 

Ég ætla svo að taka þátt í alheimsföstu á sunnudaginn ... undir yfirskriftinni.... heilbrigði og menntun, ekkert stjörnustríð.

Svo fer ég í barnaafmæli og mun þurfa að hefja hina miklu leit að leikföngum sem ekki eru búin til í Kína... Það er ekki auðvelt, eyddi heilum klukkutíma í það um daginn... fann bara eitt púsl sem búið var til í Tékklandi og eina barnabók sem var prentuð annarsstaðar en í þrælakistu heimsins. 

Fór í gær að skoða leiðið hennar mömmu. Við ætlum að láta búa til gítar úr steini. Táknrænt að sjálfsögðu enda samdi hún flest lögin sín við ljóð Steins Steinars:) 

Í nótt dreymdi mig Dalai Lama. Þetta var skringilegur en magnaður draumur. Þarf að finna draumaráðningarmanneskju hið fyrsta.

Finnst ekkert eins mikilvægt á þessari stundu í heiminum okkar en að við náum sem flest að verða meðvituð um að hamingja okkar er fólgin í því að komast handan sjálfshyggjunnar og leggja okkar á vogskálarnar í að skapa hamingjuríka framtíð fyrir alla, ekki aðeins okkur sjálf. Já ég veit að þetta hljómar fremur væmið en svona er Birgitta - alveg hrikalega væmin mannvera þrátt fyrir pönkið í mér:)

dagurfostu

 


Ísland og Tíbet

Eigum við eitthvað sameiginlegt með landinu sem snertir himininn? Ef til vill meira en okkur grunar?

Einu sinni vorum við ekki sjálfstæð þjóð. Við vorum dönsk nýlenda eins og Færeyjar og Grænland eru enn þann daginn í dag. Hvernig væri ástandið á Íslandi ef Danir hefðu ekki verið hernumdir og við hefðum ekki með notfært okkur það til að öðlast okkar frelsi? Varla hefðum við getað farið í stríð við Dani, vopna og herlaus þjóðin? Við erum smá en kná, friðarþjóð rétt eins og Tíbetar. Við eigum fornt tungumál sem við keppumst við að vernda, rétt eins og Tíbetar. Við eigum forna menningu sem ímynd okkar er samofin, rétt eins og Tíbetar. Eini munurinn er að við fengum frelsi, en ekki Tíbetar. 

Hvað ef Danir myndu ákveða að þeir ættu tilkall til Íslands vegna sögulegra staðreynda varðandi það að við vorum eitt sinn nýlenda þeirra og í kjölfarið myndu þeir hernema landið?

Tíbet var frjálst land þegar það var hernumið af Kína. Þeir áttu í mun nánari viðskiptatengslum við Mongólíu en Kína. Dalai er mongólskt orð enda voru það Mongólar sem gáfu fyrsta Dalai Lama heiti sitt.  Tíbetar voru með sinn eigin gjaldmiðil og tungumál þeirra á ekkert sammerkt kínversku. Tíbetar líkjast Kínverjum ekkert í útliti og menning þeirra er gerólík. En Tíbet átti eitthvað sem Kína skorti, ósnortna náttúru og fullkomna staðsetningu til að treysta ítök sín og völd enn frekar gagnvart nágrannalöndum Kína. Kjarnaorkukapphlaupið á milli Indlands og Pakistan á rætur sínar að rekja til ótta Indverja við kjarnavopn Kína, en þeim er beint að Indlandi frá hinu hálenda Tíbet. Kínversk yfirvöld hafa jafnframt eytt með ógnarhraða gríðarlega stórum fornum skógum og talað er um að þær aðgerðir hafi meðal annars haft þau áhrif að Kínverjar eru í auknum mæli að upplifa verstu flóð sögunnar á láglendinu kínverska.

Rökin sem Kína færir fyrir því að þeir eigi Tíbet eru þau sömu og ef Danmörk myndi gera tilkall til Íslands. Þegar Tíbet var hernumið var niðurstaða lögfræðingateymis S.Þ. að þetta væri hernám. Alþjóðasamfélagið hefur brugðist Tíbet og látið hernámið viðgangast í meira en hálfa öld. Margvíslegar útskýringar eru á því af hverju ekkert hefur verið gert til að aðstoða Tíbet en það breytir ekki staðreynd málsins; Tíbet er hernumið land. Þjóðmenning þeirra er að hverfa. Kínversk yfirvöld senda sífellt fleiri Kínverja til Tíbet og ætla sér að þurrka út menningu landsins og er þeim að takast það áætlunarverk sitt. Nú eru fleiri Kínverjar í Tíbet en Tíbetar. Tíbetar sem ekki læra kínversku eiga enga möguleika á háskólamenntun eða vel launaðri vinnu.

Kínversk yfirvöld hafa einn lögreglumann á hverja tuttugu Tíbeta. Mikill fjöldi Tíbeta er í fangelsum vegna trúarskoðana, ef þú neitar að hafna Dalai Lama sem trúarleiðtoga ertu sendur í fangelsi. Þessi fangelsi eru þekkt fyrir pyntingar sem eru svo svæsnar að munkar og nunnur fremja fremur sjálfsvíg en að láta loka sig þar inni til margra ára. Börn eru send í þessi fangelsi ef þau reyna að flýja Tíbet og koma þaðan illa leikin á sál og líkama.

Okkur tókst að öðlast sjálfstæði án blóðsúthellinga og tökum frelsi okkar sem sjálfsögðum hlut. Við vorum lánsöm að losna undan því að eiga allt okkar undir annarri þjóð. Okkur ætti því að finnast það sjálfsagður hlutur að aðstoða smáríki eins og Tíbet þegar það kallar á hjálp til að losna undan hervaldi annarrar þjóðar í sínu eigin landi. Mig grunar þó að eitt atkvæði til að komast í öryggisráð S.Þ. vegi þyngra en að standa vörð um mannréttindi, samt eru rökin fyrir því að fá sæti í þessu vitagagnslausa öryggisráði að stuðla að mannréttindum, þrátt fyrir þá staðreynd að öryggisráðið hefur ekki getað sýnt þeim löndum sem þurfa hve mest á stuðning heimsins að halda neinn stuðning, því Kína og USA hafa svokallaðan veto rétt og hafa notað hann óspart til að þjóna hagsmunum sínum. 

Verum hugrakka þjóðin og sínum Tíbetum stuðning í verki með því að formlega krefjast þess að alþjóðlegum fjölmiðlum verði hleypt inn í landið tafarlaust.

Tökum ekki frelsi okkar sem sjálfsögðum hlut. Tíbetar hafa sent út neyðarkall til heimsins um aðstoð. Höfum manndóm til að þora að verða við því kalli og krefjum kínversk yfirvöldum að hefja viðræður við munkinn Dalai Lama um framtíð Tíbets. Ef við gerum ekki neitt erum við samsek um þjóðarmorð.

 


mbl.is Forsætisráðherra bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Homepage Hall of Fame 1998

Eitt sinn var vefurinn minn Womb of Creation ákaflega vinsæll viðkomustaður og fékk margskonar skringilegar alþjóða viðurkenningar í netsamfélaginu. Gróf þetta myndskeið upp af myndbandi og skemmti mér svo vel yfir þessu að ég mátti til með að deila þessu með bloggvinum mínum. Það getur vel verið að ég skelli líka tónlistarmyndbandi sem við Graham Smith gerðum saman þegar ég var 17 ára hér á bloggið ef ég kemst yfir aulahrollinn. Eitt af fyrstu tónlistarmyndböndunum sem gerð voru hérlendis og er ekki að eldast vel:) 

 

 


Margt framundan hjá Vinum Tíbets

DSCF2081
Að venju hittast þeir sem vilja fyrir utan kínverska sendiráðið á laugardögum klukkan 13:00 - markmiðið er að sýna Tíbetum stuðning í verki og minna á að við erum meðvitum um mannréttindabrot kínverska yfirvalda sem viðgangast í Tíbet. Okkar krafa nú sem endranær er að alþjóðfjölmiðlum verði hleypt inn í Tíbet tafarlaust.

Nánast engar fréttir eru að finna um hvernig ástandið er í Tíbet á þessari stundu og hvetjum við ykkur til að skrifa undir nýjan undirskriftarlista þar sem farið er fram á við IOC að þeir þrýsti á CCP að hleypa fjölmiðlum inn í Tíbet http://actionnetwork.org/campaign/Tibet_access

Við ætlum að taka þátt í alþjóðaaðgerðum næstkomandi miðvikudag, klukkan 17:30, þar sem við munum vera með táknræna afthöfn sem mun innibera kyndil og göngu frá kínverska sendiráðinu að stjórnarráðinu. Gott væri að fá uppástungur um hvað við getum gert meira til að fá athygli fjölmiðla á aðgerðina, en mikilvægt er að sýna Tíbetum stuðning á þessum örlagaríku dögum sem kyndilhlaupið í gegnum landið þeirra fer fram.

Verið er að skipuleggja fjölbreytta dagskrá sem mun fara fram væntanlega í Nasa eða Iðnó þegar lokaathöfn Ólympíuleikana fer fram. Við óskum eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða við þessa uppákomu. Ef þið hafið áhuga á að hjálpa hafið samband við okkur á info@tibet.is.  Markmiðið með hátíðinni er að safna peningum fyrir flóttamenn frá Tíbet. En margir þeirra missa heilsu á flóttagöngunni löngu og mikið af flóttafólkinu eru einstæð börn sem eiga hvergi höfði sínu að halla og einnig að vekja athygli á Tíbet.

Við erum jafnframt með í bígerð að hafa kertaathöfn þegar opnunarhátíð Ólympíuleikana á sér stað og hvetjum alla félaga til að taka þátt í henni. Við ætlum að búa til risastórt friðarmerki með kertum.

Við verðum væntanlega mjög fljótlega með bíósýningu í Hljómalind. Læt ykkur vita þegar dagsetning hefur verið ákveðin.

Ef einhver á þessum lista langar að gera eitthvað, eins og til dæmis að halda upplýsingakvöld, skrifa greinar og fá þær yfirlesnar eða hvað sem gæti gagnast félaginu ekki hika við að hafa samband og við erum tilbúin að hjálpa ykkur eftir fremsta megni. 

Okkur vantar einnig sjálfboðaliða til að halda utan um vefinn okkar, sjá um að skrifa og þýða greinar og efni. Þá langar okkur líka að gera lítið dreifirit og óskum eftir aðstoð við það.

Við ætlum að hafa opinn félagsfund næstkomandi föstudagskvöld klukkan 20:00 í Kaffi Hljómalind - allir sem hafa áhuga á að leggja félaginu lið eru velkomnir að koma. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 508821

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband