Leita í fréttum mbl.is

Brú milli þjóðar og þings


Á laugardaginn kemur heldur Borgarahreyfingin sinn fyrsta landsfund og
ræður ráðum sínum um næstu skref í starfi í sínu í þágu þjóðarinnar.
Hreyfingin vann eftirminnilegan sigur í kosningum sem haldnar voru í
kjölfar endurtekinna þjóðfunda á Austurvelli þar sem breiðfylking borgara
þessa lands krafðist réttlætis og raunverulegs lýðræðis. Það var einmitt
upp úr þessum fundum sem hreyfingin var sprottin og þangað sótti hún
hugmyndir sínar og kröfur.

Í aðdgraganda kosninganna er Borgarahreyfingin þess vegna kynnt sem
breiðfylking fólks sem á fátt annað sameiginlegt en að vera virkir
borgarar í lýðræðissamfélagi. Fólks með fjölbreyttan bakgrunn og ólíkar
lífsskoðanir. Stjórnmálaafl sem sinnir hagsmunavörslu fyrir einn hóp -
þjóðina - og hefur eina meginreglu að leiðarljósi; að færa völdin frá
flokksræði til lýðræðis.

Frá flokksræði til lýðræðis
Það er ástæða til að rifja þessi orð upp hér og halda þeim til haga á
komandi landsfundi. Þau eru í okkar huga, sem höfum tekist á hendur sú
ábyrgð að vera fulltrúar Borgarhreyfingarinnar á Alþingi íslendinga, sá
kjarni sem starf okkar á að snúast um. Í þeim felast sannindi sem ekki
mega undir nokkrum kringumstæðum gleymast.

Það hefur sýnt sig í öllum samfélögum á öllum tímum, að það vald sem
skapast í krafti miðstýringar og regluverks verður á skömmum tíma
uppteknara af viðhaldi sjálfs sín en þeim jarðvegi sem það er upphaflega
sprottið úr.

Þess sjást víða merki í fréttaflutningi og á spjallrásum vefsins hversu
undurfljótt hugmyndin um miðstýrt flokksapparat sem hafa þarf vit fyrir
fólki lætur á sér kræla. Þannig hefur tiltölulega fámennur hópur gert
tilkall til eignarhalds á hreyfingunni í kjölfar kosningasigursins og
sumir einstaklingar meira að segja tekið að líta á sig sem fulltrúa
heillar þjóðar og þá líklegast vegna góðrar mætingar þeirra á félagsfundi.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að einhverjir missi þannig sjónar á
upphaflegu erindi lýðræðishreyfingar eins og þessarar því flokksræðið með
eignarrétti fárra útvalinna er nokkurn vegin eina fyrirmyndin að
stjórnmálaafli sem við höfum í þessu landi og rætur þess liggja dýpra en
nokkurn grunar. En það er líka hálfkaldhæðnislegt að þurfa ítrekað að
svara kröfum um meint vald sjálfskipaðra flokkseigenda yfir þingmönnum
hreyfingarinnar, í ljósi þess að slíkur hráskinnsleikur er einmitt
dæmigerð birtring þess múlbundna veruleika stjórnsýslu og miðstýringar sem
Borgarahreyfingunni var frá upphafi ætlað að vinda ofan af.

Dýrmæt reynsla
Það er heilmikið til í því sem haldið hefur verið fram að ekki hafi
nægilega vel verið hugað að skipulagi starfsins og áframhaldandi þróun
mála eftir kosningar. Að menn hafi ekki verið viðbúnir því að ná
raunverulegum árangri, hvað því að koma fjórum mönnum á þing. Til þess var
tíminn einfaldlega of knappur, reynsluleysi okkar allra of mikið. Engu að
síður er fátt sem bendir til þess að ekki hafi verið unnið vel úr góðum
árangri - hvernig fyrirfram ákveðin áætlun eða ákvarðanir um vinnulag
hefðu gert störf okkar auðveldari eða markvissari. Til þess hafa aðstæður
einfaldlega verið of ófyrirsjáanlegar og í raun súrrealískar.

Hér leynist líklega ein mikilvægasta mótsögn veruleikans og sú sem
erfiðast getur verið að sætta sig við, nefnilega sú, að veruleikinn er,
líkt og maðurinn sjálfur, ólíkindatól og skreppur alltaf úr höndum
skipulagsins - og miðstýringarinnar þá minnst varir.

Í því ljósi má segja að það hafi ekki verið svo galið að vita ekki upp á
hár hvernig bregðast skildi við kosningasigri, en bregðast þess í stað við
þeim veruleika á eigin forsendum þegar þar að kæmi. Og það er einmitt það
sem við höfum verið að gera frá fyrsta degi. Það má kalla það spuna eða
flæði, það má líka orða það svo að við höfum lagt meiri áherslu á að vanda
okkur á hverju og einu augnabliki en að vinna eftir fyrirfram njörfaðri
áætlun. Fyrir vikið höfum við gert alls kyns mistök, yfirsést ýmislegt og
ofgert öðru. En þannig höfum við líka lært að nýta enn betur þau tækifæri
sem gefist hafa til að vega og meta, endurskoða og tengja, með betri
árangri en nokkur flokkslína eða niðurnjörfuð hugmyndafræði leyfir. Þar er
mikilvægasta lexían fólgin í því gjöfula samstarfi sem við höfum átt við
fjöldan allan af fólki, jafnt kjósendur okkar sem aðra, sem verið hafa í
sambandi við okkur á þeim fjölbreytta vettvangi sem í boði er í
samtímanum; hvort sem er með samtölum á neti og í síma, á fundum eða á
förnum vegi. Við höfum lagt mikla áherslu á að auðvelt sé að nálgast
okkur, að við séum ekki atvinnupólitíkusar í þeirri einangrandi merkingu
sem í því hefur falist, að við neitum að fylgja flokkslínum en hlustum
eftir öllu sem rétt er og gagnlegt og göngumst við því sem aðrir gera
betur en við og látum ekki fyrirfram merkt hólf móta hegðun okkar né
afstöðu.

Þannig sjáum við hlut Borgarahreyfingarinnar verða mestan; sem vettvang
opinnar hugmyndafræði og vakandi, heiðarlegrar endurskoðunar. Sem barnsins
sem er alltaf tilbúið að spyrja þess sem venjan er að þegja um, en
jafnframt sem manneskjunnar sem tekur út þroska sinn í samspili ólíkra
viðhorfa og reynslu og býr yfir æðruleysi þess sem ekkert hefur að fela.

Við erum þess fullviss, að fenginni dýrmætri reynslu, að þinginu væri
betur farið og þar með þjóðinni allri, ef hver og einn þingmaður ynni
sannanlega samkvæmt eigin sannfæringu og tæki ákvarðanir út frá eigin
innsæi, byggðu á opnum huga og einlægum áhuga á framgangi þess sem sannara og betra reynist. Þannig gæti enginn dulist á bak við flokksmúra þegar
hentaði né þurft að beygja sig undir svokallaðan flokksaga þegar flokknum
hentaði.

Við höfum vissulega orðið að læra hratt á nýjum vinnustað og ekki átt
annars úrkosti en starfa samkvæmt þeim venjum sem þar eru í hávegum
hafðar. Þegar við bætist að þingheimi hefur verið haldið í gíslingu
tveggja umræðuefna frá fyrsta degi, er óhætt að halda því fram að svigrúm
nýs stjórnmálaafls til athafna og áhrifa hafi reynst æði takmarkað. Engu
að síður höfum við orðið vitni að breytingum í starfsháttum, viðmóti og
hlutverkaskipan innan hins háa Alþingis sem gefa til kynna að tilvist
lýðræðishreyfingar eins og þeirrar sem við erum fulltrúar fyrir hafi mun
meiri áhrif en nokkur hefði þorað að vona. Kannski vegna þess að eðli
málsins samkvæmt er Borgarahreyfingin ótamið afl sem ætlar sér ekki að
læra leikreglurnar allt of vel. Óbundinn fulltrúi mennskunnar sem nýtur
þess að geta fylgt eigin sannfæringu eins og hún birtist í hjarta hvers
manns. Nokkuð sem "flokksmönnum" innan hreyfingarinnar hefur reynst erfitt
að sætta sig við. Eða eins og einn félagi okkar hefur bent á: "Við
ætluðum okkur að skapa meðal annars vettvang í samfélaginu fyrir
persónukjör, en á sama tíma virðast samt margir ekki aðhyllast það að
þingmenn séu persónur."
Að þessu sögðu blasir við:
- að Borgarahreyfingunni er ætlað mun stærra og mikilvægara hlutverk en
svo að hún megi verða flokksræði og forsjárhyggju fárra manna að bráð.
- að næsta skref felst í að tryggja enn frekar virkni hreyfingarinnar með
jafnræði í skipulagi hennar og uppbyggingu.
- að sem opinn og lýðræðislegur vettvangur hefur Borgarahreyfingin alla
burði til að vera sú brú milli þjóðar og þings sem stefnt var að frá
upphafi.

Áfram veginn
Á landsfundi Borgarahreyfingarinnar á laugardaginn verða lagðar fyrir
samþykktir um hreyfinguna sem fela í sér skref í átt til enn frekari
árangurs á þeim vettvangi sem við störfum á og opna m.a.
grasrótahreyfingum og einstaklingum raunhæfa leið til áhrifa innan
stjórnkerfisins. Við teljum þjóðina þurfa á slíku tækifæri að halda nú
meira en nokkru sinni fyrr og hvetjum því alla sem láta sig málin varða
til að kynna sér samþykktirnar á heimasíðu hreyfingarinnar www.xo.is og
leggja sitt af mörkum á komandi landsfundi.

Með kæri þökk fyrir gott samstarf hingað til.

Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, þingmenn Borgarahreyfingarinnar

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

frábær pistill  og sannarlega rétt mælt að BORGARINN sé og eigi að vera EINSTAKLINGUR

Grétar Eir (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 18:49

2 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Hverju orði sannara. Þið hafið staðið ykkur frábærlega!

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 10.9.2009 kl. 19:25

3 identicon

,,Brú milli þjóðar og þings" !

Á að vera einstefna á þeirri brú, sem þið ætlið að stjórna ?

Eða hafið þið hugleitt að vera með öðrum í för yfir þessa brú ?

JR (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 21:18

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gangi ykkur vel Birgitta mín.  Ég veit að þetta er erfitt, en þið verðið bara að halda ykkar striki.  Besservisserarnir og vannabíarnir eru allstaðar tilbúnir að taka við kyndlinum, en aldrei að kveikja á honum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.9.2009 kl. 08:57

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir góðan pistil. Gangi ykkur vel.

Sigurður Þórðarson, 11.9.2009 kl. 12:00

6 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Er skráður í flokk Borgarahreyfingar.

Margt gott hefur verið gert, og því  miður líka slæmt.

Fara á bakvið stefnumál sitt og neita fyrir það er slæmt mál.

Þingmenn að mæta ekki á fundi á vegum hreyfingarinnar er líka slæmt.

Gott að vita að allir hittast á morgun. Þá er hægt að spurja spurninga.

Kær

Kveðja

Sleggjan og Hvellurinn, 11.9.2009 kl. 13:46

7 Smámynd: Héðinn Björnsson

Hef greinilega allt aðrar hugmyndir um hvað er skynsamlegt, skilvirkt eða lýðræðislegt, en óska ykkur alls hins besta!

Héðinn Björnsson, 11.9.2009 kl. 15:05

8 identicon

Sæl Birgitta,

Mér finnst að þið hafið staðið ykkur einstaklega vel og þið megið vera stolt af ykkur. Hefur ekki verið auðvelt ég veit, en hafðu þökk fyrir alla þína baráttu í þágu þjóðarinnar.

Ekki missa móðinn, stattu þig áfram stelpa :)

Björg F (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 20:34

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Það eina skynsamlega, virðist mér, að þeir sem unnu sigur á laugardaginn, nái samkomulagi við þingmennina, því annars er hætta á að sá sigur verði æði Pyrrosarlegur.

Eins og ég hef áður sagt, er staða þingmanna gríðarlega sterk, skv. ísl. lögum og hefðum, sem skírir hvers vegna, þingflokkar verða oftast nær, mjög ráðandi.

Augljóslega, þurfa þingmenn að vera viljugir, til að slá af á móti.

--------------------------------

Ein hugsanleg aðferð, gæti verið, að láta almenna netkosningu á meðal fylgismanna, skera úr, þegar alvarleg deila um tiltekna ákvörðun þingmanns eða þingmanna, kemur upp.

Þannig, að ef stjórn metur að þingmenn eða þingmaður gangi á svið við stefnu hreyfingar, þá sé hægt að leisa þann ágreining, með slíkri kosningu skv. tilteknum skilyrðum, t.d. um lágmarkþátttöku.

Sú aðferð, ætti að uppfiylla allar hugsanlegar kröfur um sanngirni, o.s.frv.

--------------------------

Þ.e. síðan, algerlega mögulegt fyrir þingmenn, að mynda eigin þingflokk og síðan hreyfingu, ásamt þeim sem vilja fylgja þeim að málum.

Hugsanlegt nafn, Framfaraflokkurinn - flokkur um lýðræði og framfarir.

Ekki verra nafn, en margt annað, sem gæti komið til greina.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 13.9.2009 kl. 22:22

10 identicon

Nú er það bara spurning hvernig þið hyggjist berjast fyrir lýðræðisbótum eins og kosningum um mál og því að koma stjórnmálaflokkum af ríkisspenanum.

Ég bíð spenntur.

Jón Þorvarðarson (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 12:10

11 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég og við munum gera okkar besta og mikið meira en það til að ríkisframlög til flokkana verði skorin niður ...

Birgitta Jónsdóttir, 21.9.2009 kl. 07:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 508736

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.