Leita í fréttum mbl.is

Tillaga að nýjum samþykktum Borgarahreyfingarinnar

 Ég skora á alla félaga Borgarahreyfingarinnar sem hafa áhuga á að vinna  grasrótarsamþykktum þessum brautargegni á að koma á landsfundinn okkar sem haldinn verður á Grand Hótel næstkomandi laugardag klukkan 9 og greiða þessum tillögum atkvæði sín. Samþykktavinnan hefst klukkan 10 um morguninn.

Þá langar mig að þakka öllum þeim sem komu að þessari samþykktavinnu fyrir frábæra samvinnu. 

Félagið heitir Borgarahreyfingin og er starfsvæði þess Ísland. Heimili Borgarahreyfingarinnar og varnarþing er í Reykjavík.

Borgarahreyfingin skal lúta lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og
um upplýsingaskyldu þeirra. Öll fjármál hreyfingarinnar skulu vera opinber og aðgengileg almenningi.

Markmið
1. Markmið Borgarahreyfingarinnar er að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskráar sinnar í
framkvæmd og hún skal leggja sig niður og hætta störfum þegar markmiðunum hefur verið náð eða
augljóst er að þeim verði ekki náð. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar.

2. Aukamarkmið hreyfingarinnar er að hjálpa grasrótarhreyfingum á Íslandi að koma sínum
sjónarmiðum á framfæri.

3. Hreyfingin býður fram til alþingiskosninga til að ná fram markmiðum sínum.

Skipulag
Framkvæmdastjóri
1. Þegar fjárráð leyfa skal hreyfingin ráða framkvæmdastjóra. Verksvið hans verður:
• að starfa með grasrótarhreyfingum á Íslandi og hjálpa þeim að koma boðskap sínum á
framfæri:
o við þingmenn Borgarahreyfingarinnar.
o við þingmenn annarra stjórnmálaafla.
o við aðra grasrótarhópa.
o við stofnanir og fyrirtæki eftir því sem þurfa þykir.
o við almenning í gegnum fjölmiðla og rafræna miðla.
• að auðvelda grasrótarhópum starfsemi sína með því að útvega fundaraðstöðu og annað sem
þarf og er á færi hreyfingarinnar auk þess að miðla reynslu annarra hópa
• að halda utan um hópa sem vilja starfa fyrir hreyfinguna á einn eða annan hátt
• að sjá um fjármál hreyfingarinnar, bæði uppgjör og áætlanir
• að skipuleggja atburði sem tengjast stefnumálum hreyfingarinnar s.s:
o auglýsa eftir framboðum á vegum hreyfingarinnar til nýrra alþingiskosninga ef þurfa
þykir.
o skipuleggja árlegan opinn landsfund hreyfingarinnar.
o aðrir atburðir.

2. Framkvæmdastjóri skal ráðinn á faglegum forsendum ofannefndrar verksviðslýsingar af einni af
þremur stærstu ráðningarstofum landsins hverju sinni er best býður í verkið. Önnur ráðningastofa eða
fagaðili skal meta störf framkvæmdastjóra á hálfs árs fresti eða þegar stjórn hreyfingarinnar óskar
sérstaklega eftir því.

3. Framkvæmdastjóri hefur yfirsýn yfir hópa sem starfa undir nafni hreyfingarinnar og skal halda
opnum samskiptaleiðum við þá, þ.m.t. póstlista.

4. Ekki skal haldið sérstaklega utan um félagaskrá Borgarahreyfingarinnar.

5. Framkvæmdastjóri hefur ekki atkvæðisrétt í neinu máli sem kosið er um á vegum hreyfingarinnar
og skal ekki hafa frumkvæði að stofnun hópa innan hennar. Framkvæmdastjóri skal einnig leitast við
að vera hlutlaus í öllum málum.

6. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegu starfi og fjármálum hreyfingarinnar og er talsmaður
hennar.

Stjórn
1. Stjórn hreyfingarinnar skal mynduð af fjórum aðalmönnum auk fjögurra varamanna. Aðalmenn og
varamenn sitja í tvö ár í senn. Tveir nýir aðalmenn og tveir nýir varamenn skulu kosnir í stjórn ár
hvert. Stjórnarmenn skiptast á að bera titlana formaður, ritari og gjaldkeri, þrjá mánuði hver.
Á fyrsta kjörtímabili stjórnar skulu fjórir aðalmenn og fjórir varamenn kosnir, en þeir tveir
aðalstjórnarmanna með fæst atkvæði á bak við sig skulu víkja að ári liðnu og varamenn taka þeirra
stað.

Þingmenn og fyrstu varaþingmenn skulu ekki taka þátt í kjöri til stjórnar. Nú nær stjórnarmaður kjöri
til þingmennsku þá skal varamaður taka sæti hans.

Að auki skal stjórnin skipuð einum úr þingmannahópi hreyfingarinnar sem skal skipta inn jafnt innan
hvers árs milli þingmanna eftir stafrófsröð. Þingmaður er alltaf almennur stjórnarmaður en ekki ritari,
gjaldkeri eða formaður.

2. Stjórnin skal hittast minnst einu sinni í mánuði, einungis til að meta störf framkvæmdastjóra og, ef
tilefni er til, óska eftir mati á störfum hans af óháðum, faglegum aðila, sem ekki skal vera
ráðningarfyrirtækið sem réði hann upphaflega. Ef matsaðilinn metur framkvæmdastjórann óhæfan til
að starfa áfram skal honum sagt upp og nýr framkvæmdastjóri ráðinn í hans stað á sama hátt og áður er getið.

3. Stjórnin skal leitast við eftir fremsta megni að vera sammála í niðurstöðum sínum. Náist ekki
samstaða um mál skal því frestað til næsta stjórnarfundar. Ef ekki næst samstaða á þriðja fundi skal
nefndin greiða atkvæði um ágreiningsmálið.

4. Stjórn skal bera ábyrgð á fjárreiðum Borgarahreyfingarinnar, skuldbindingum hennar og fullnustu
þeirra.

5. Ekki skal fela öðrum en framkvæmdastjóra ábyrgð á fjárreiðum eða rekstri hreyfingarinnar.

6. Til að ákvarðanir stjórnarfundar séu lögmætar skulu að lágmarki 3/5 hluti stjórnar sitja fundinn.
Fundargerðir stjórnarfunda, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps, skal birta á Netinu strax að
fundi loknum og athugasemdir við þær skulu vera opinberar.

7. Stjórnin skal gæta trúnaðar gagnvart hreyfingunni í störfum sínum.

8. Stjórnarmönnum er heimilt að gegna stjórnarsetu í mesta lagi tvö ár samfellt, með tveggja ára hléi
þar á eftir. Enginn skal sitja í stjórn lengur en samtals fjögur ár. Stjórnarseta skal vera launalaust sjálfboðastarf án nokkurra fríðinda. Ferðakostnaður stjórnarmanna utan höfuðborgarsvæðisins skal
greiddur af hreyfingunni.

Nefndir
1. Landsfundarnefnd er eina fasta nefnd hreyfingarinnar. Öllum er heimilt að taka þátt í henni.
Landsfundarnefnd skal vinna með framkvæmdastjóra að skipulagningu landsfundar.

2. Aðrir sem vilja starfa að þeim málefnum hreyfingarinnar sem koma fram í stefnuskrá eða aðstoða
við innra starf eða málefnavinnu geta myndað hópa innan hennar og skulu njóta stuðnings
framkvæmdastjóra við störf sín.

3. Hópar, eða meðlimir hópa tengdir hreyfingunni eru ekki talsmenn hennar, en er það eitt skylt að
upplýsa framkvæmdastjóra um framgang hópanna eftir bestu getu og geta óskað eftir aðstoð hans ef
með þarf.

Landsfundur
1. Landsfund skal halda einu sinni á ári. Þar skal kosið um hvort hreyfingin verði lögð niður, og nægja
tveir þriðju hlutar atkvæða til þess. Að öðru leyti setur framkvæmdastjóri dagskrána í samstarfi við
landsfundarnefnd hreyfingarinnar.

2. Landsfundur skal haldinn í september ár hvert. Landsfundur er löglegur ef til hans er sannanlega
boðað með sex vikna fyrirvara. Í landsfundarboði skal koma fram dagskrá fundar og breytingartillögur
á samþykktum þessum sem leggja á fyrir fundinn. Framkvæmdastjóri skal boða til landsfundar.
Landsfundur hefur æðsta vald í öllum málum Borgarahreyfingarinnar. Allir kjörgengir Íslendingar
hafa á landsfundi Borgarahreyfingarinnar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og kosningarétt.
Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

3. Landsfund skal boða með tilkynningu á vefsíðu hreyfingarinnar, með tölvupósti á alla skráða
netfangalista á vegum hreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kosti einum útbreiddum
prentmiðli.

4. Stjórn Borgarhreyfingarinnar er kosin á landsfundi.

5. Landsfundur samþykkir fundarsköp og skal landsfundi og öðrum fundum Borgarahreyfingarinnar
stjórnað í samræmi við þau.

6. Dagskrá landsfundar skal vera:

1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar
3. Breytingar á samþykktum
4. Stjórnarkjör
5. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
6. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
7. Önnur mál
7. Til aukalandsfundar skal boða óski tveir af fimm stjórnarmönnum þess, eða 7% af fjölda þeirra er
greiddu hreyfingunni atkvæði í undanfarandi alþingiskosningum. Aukalandsfundur er löglegur ef til
hans er sannanlega boðað með tveggja vikna fyrirvara.

Reglur um aukalandsfund eru samhljóða reglum um landsfund nema óheimilt er á aukalandsfundi að
breyta lögum þessum. Dagskrá landsfundar tekur breytingum eftir því til hvers hann er boðaður. Sé
aukalandsfundur boðaður vegna vantrauststillögu á stjórn skal skipta út liðnum “Stjórnarkjör” fyrir
liðinn “Vantrauststillaga á stjórn.”

Sé vantrauststillagan samþykkt skal haldinn aukalandsfundur að sex vikum liðnum til að kjósa nýja
stjórn.

8. Á landsfundi skulu kjörnir tveir fulltrúar í stjórn og tveir til vara til tveggja ára í senn.
Hver kjósandi skal skrifa nöfn fjögurra eða færri frambjóðenda til stjórnar á kjörseðil. Atkvæði skulu
talin fyrir opnum tjöldum. Þeir tveir sem hljóta flest atkvæði skulu teljast rétt kjörnir í stjórn. Næstu
tveir að atkvæðavægi taka sæti í varastjórn. Allir kosningabærir landsmenn geta gefið kost á sér til setu í stjórn.

Þinghópur
1. Hlutverk þingmanna er að vinna að stefnumálum Borgarahreyfingarinnar á Alþingi.

2. Í öllum málum skulu þingmenn vera í tengslum við þau grasrótaröfl sem hafa með viðkomandi
málaflokk að gera. Þingmenn skulu boða til opins fundar a.m.k. einu sinni í mánuði. Slíkir fundir
skulu einnig haldnir utan höfuðborgarsvæðisins þegar hægt er.

Starfsfólk
1. Framkvæmdastjóri skal ráðinn til að sjá um daglegan rekstur hreyfingarinnar auk annarra verkefna
sbr. starfslýsingu. Framkvæmdastjóri getur ráðið starfsmenn í samráði við stjórn. Allir trúnaðarmenn
hreyfingarinnar (stjórn og framkvæmdastjóri) skulu gera grein fyrir tengslum sínum við fólk sem
þiggur greiðslu frá hreyfingunni fyrir störf í hennar þágu.

2. Stjórn Borgarahreyfingarinnar skal semja við framkvæmdastjóra um laun sem skulu þó eigi vera
hærri en þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Framkvæmdarstjóri skal semja við annað starfsfólk um laun sem skulu þó eigi vera lægri en eins og
hálffaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna og ekki hærri en þrefaldur sami taxti.

Alþingiskosningar
1. Hlutverk frambjóðenda til alþingiskosninga er að koma stefnumálum hreyfingarinnar á framfæri
samkvæmt gildandi lögum um kosningar.

2. Kosningastjóri skal ráðinn á sama hátt og framkvæmdastjóri og eigi síðar en þremur mánuðum fyrir
alþingiskosningar. Stjórnin semur við kosningastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri en
þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Allir kjörgengir íslendingar geta gefið kost á sér á framboðslista í hvaða kjördæmi sem er.
Framboðsfrestur rennur út átta vikum áður en skila þarf framboðslistum til kjörstjórna. Þegar
framboðsfrestur rennur út skal kosningastjóri kanna í hvaða kjördæmi og sæti frambjóðendur vilja bjóða sig fram og gera drög að framboðslista eftir þeirra óskum. Þessari grein má einungis breyta með
einróma samþykki landsfundar.

Eigi síðar en sjö vikum fyrir kosningar skal kosningastjóri boða til fundar sem ákveður endanlega
uppröðun framboðslistana. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar og drög að framboðslistum. Á
fundinn skal boða alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar og skal hann auglýstur á vef
hreyfingarinnar. Allir kjörgengir Íslendingar hafa þar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og
kosningarétt.

Við ákvörðun á uppröðun framboðslista skal fundurinn starfa í anda jafnræðis hvað varðar kyn, aldur
og búsetu. Ef alþingiskosningar bera brátt að má kosningastjóri í samráði við stjórn hliðra til
tímamörkum eins og nauðsyn krefur.

Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

4. Dagskrá félagsfundar sem ákveður framboðslista skal vera:
1. Kosning fundarstjóra
2. Kynning á drögum framboðslista
3. Umræður um uppröðun framboðslista
4. Breytingar á framboðslistum
5. Kosning um framboðslista

Fjárreiður
1. Borgarahreyfinguna má ekki skuldsetja með lántökum. Þó má taka skammtímalán ef algerlega er
tryggt að tekjur hreyfingarinnar geti staðið undir því.

2. Framkvæmdastjóri Borgarahreyfingarinnar skal gera fjárhagsáætlun um nauðsynleg fjárútlát og
fjárskuldbindingar hreyfingarinnar á komandi almanaksári og bera undir stjórn. Tekið skal sérstaklega
fram að óheimilt er að nota fé hreyfingarinnar í nokkurs konar munað eða fríðindi.

3. Bókhald Borgarahreyfingarinnar skal vera opið öllum og sýna hverjir styrkja hreyfinguna. Öllu fé
Borgarahreyfingarinnar skal sannanlega varið í samræmi við tilgang hennar.

4. Þriðjungur af tekjum hreyfingarinnar á hverju ári skal settur í kosningasjóð.

5. Þeir sem fara með fjárreiður hreyfingarinnar skulu ávallt leita tilboða sem víðast. Öll fjárútlát og
fjárskuldbindingar, umfram upphæð sem miðast við mánaðalega húsaleigu hreyfingarinnar, þurfa
undirskrift framkvæmdastjóra og gjaldkera.

Félagsslit
1. Þegar tilgangi Borgarahreyfingarinnar er náð eða augljóst er að honum verði ekki náð mun
hreyfingin hætta starfsemi og hún lögð niður. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar.

2. Ákvörðun um slit Borgarahreyfingarinnar verður tekin á landsfundi með atkvæðum a.m.k. 2/3 hluta
fundarmanna. Við slit hreyfingarinnar skal skila afgangsfé til þeirra sem lögðu fram fé tólf mánuði fyrir slit hennar í hlutfalli við framlög þeirra. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar. Kosningasjóður skal allur fara til ríkissjóðs.

Lagabreytingar
1. Samþykktum Borgarahreyfingarinnar má aðeins breyta á landsfundi. Breytingartillaga telst samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi nema annað sé tekið
fram í samþykktum þessum.

2. Allar tillögur til breytinga á lögum þessum skulu sendar til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum
fyrir boðun landsfundar. Allir kjörgengir Íslendingar geta lagt fram breytingartillögur á samþykktum
þessum. Stjórn skal sannanlega birta breytingartillögurnar á vefsíðu hreyfingarinnar og með skeyti á
alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar eigi síðar en sex vikum fyrir þann landsfund
sem þær skulu teknar fyrir á.
mbl.is Borgarahreyfingin sem grasrótarafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæra Birgitta. Eitt langar mig að vita - og í ljósi tillögu að nýjum fána hreyfingarinnar - spyr ég: Ætla þingmenn Borgarahreyfingarinnar að fara fram á umræður inni á Alþingi á breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, sem kostað hafa samfélagið ótal milljarða - og hörmungar - síðustu áratugina (ekki undir 4 milljörðum á ári, með fangelsiskostnaði) og reyna að breyta þeim lögum á betri veg? Færa fjármuni frá fíkniefnalögreglunni, sem eltist að mestu við notendur, og setja í almenna löggæslu, sem er enn meiri þörf á í dag en nokkru sinni áður; að færa fé úr fangelsismálum yfir í forvarnir, sem er enn meiri þörf á í dag en nokkru sinni áður; að setja meira fjármagn í forvarnir en fordóma - sem er vissulega meiri þörf á nú en nokkru sinni áður.

Þætti mér, kæra Birgitta, vænt um að fá svör við þessum spurningum - og vonandi fá að sjá nýja hugsjón um þessi mál inni á Alþingi en þá fordóma sem hingað til hafa vaðið þar uppi, án þess að nokkur þar inni hafi nokkuð vit á því sem það er að tala um í þessum málaflokki.

Með virðingu,

Skorrdal

Skorrdal (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 02:42

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Hef nokkrar spurningar:

  1. Hafið þið engar áhyggjur af því að verða lögð niður á landsfundi af öflum óvinveittum hreyfingunni?
  2. Hvað miðið þið við þegar þið talið um lægsta taxti ríkisstarfsmanna?
  3. Hafið meðfylgjandi hvaða stefnuskrá þið eruð að tala um, því mikið reik hefur verið á hver stefna Borgarahreyfingarinnar sé.
  4. Ekki binda ykkur við að ná markmiðum með því að bjóða fram til Alþingis. Þið eigið líka að geta notað opna fundi, mótmæli, beinar aðgerðir og framboð til stjórnlagaþings.

Héðinn Björnsson, 10.9.2009 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband