Leita í fréttum mbl.is

Borgarahreyfingin hélt sinn fyrsta opna fund

Fjölmiðlar sáu ekki ástæðu til að senda fulltrúa sína á hann - Ég ákvað því að skrifa stutta frétt um fundinn:)

n714951225_1978551_6021335-300x199Við héldum opinn fund í Iðnó til að kynna framboðið. Mætingin var góð þrátt fyrir að við auglýstum hann helst í netheimum og í útvarpi. Herbert Sveinbjörnsson, Birgitta Jónsdóttir og Hjálmar Hjálmarsson héldu ræður við góðar undirtektir. Eftir það var fólki útí sal boðið að spyrja fólkið í pallborðinu sem samanstóð af fyrrnefndum ásamt Þór Saari, út í stefnu og markmið  Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing. Spurningarnar voru jafn fjölbreyttar og fólkið var margt.

Við erum venjulegt fólk sem sér ekki fram á að byltingin hafi leitt til neins nema uppfærslu á sömu hugmyndafræðinni og hér hefur verið allt of lengi við lýði - skreytt slagorðum byltingarinnar.

Það sem brennur greinilega á almenningi er óvissan sem þjóðin býr við um framtíð sína í kjölfar hrunsins sem engan endi virðist ætla að taka. Miðað við þá miklu þátttöku í mótmælum og andófi við Þingvallastjórnina svokölluðu virðist fólk almennt hafa sætt sig við ríkjandi ástand nema þeir sem mættu til dæmis á fundinn okkar - þar mátti sjá fólk sem hefur verið mjög virkt í baráttunni fyrir að hér verði gagngerar lýðræðisumbætur til að koma í veg fyrir annað eins stórslys og við erum að vinna okkur úr.

Kærar þakkir til allra sem mættu á þriðjudagskvöldið.

Hér er svo ræðan mín

Byltingin

Pottar og pönnur
lamin
í taktfastri reiði
undiraldan svo þung
að ekkert fær hana stoppað

Skríllinn umbreyttist í hetjur
felldi vanhæfa ríkisstjórn

Þúsundir streymdu út
óttaþögnin rofin

Hungrið sverfur að
hungur eftir réttlæti
heiðarleika
von

Og vonin sigraði óttann
þegar valdhafar
stigu niður úr hásætum
hroka og yfirgangs

Og réttlætið mun sigra
stjórnsýslan verður hreinsuð
við erum ekki þögnuð
við erum rétt að vakna

Flokkaveldið mun falla
höggvum það fúatré spillingar
í herðar niður
með sannleika
með heiðarleika

Við erum rétt að vakna
almenningur
ég og þú
VIÐ
verðum stórfljót breytinga
á siðspilltu sjálftökukerfi

Við eigum kerfið
við erum þjóðin

Við trúum því að til að byggja upp heilbrigt samfélag eftir hrunið þurfum við, fólkið í landinu, að þrýsta á þær meginbreytingar sem þjóðin kallar eftir og öruggt er að fjórflokkurinn er vanhæfur til að gera án eftirlits og þrýstings frá þjóðinni, innan þings sem utan:
Það þarf raunverulega rannsókn á efnahagshruninu til að gera upp spillta fortíð – spillingin þrífst í stjórnsýslunni sem er sýkt af hringormsmynduðum hagsmunatengslum.
•    Ef það reynist rétt að þingmenn og þeirra fólk hafi fengið óeðlilegar fyrirgreiðslur frá fjármálastofnunum, er ljóst að raunveruleg rannsókn á efnahagshruninu án eftirlits og þrýstings óháðra aðila mun ekki skila neinum árangri.
Það þarf að tryggja raunverulegar lýðræðisumbætur til framtíðar.
•    Sama hvar í flokki stjórnmálamenn standa munu þeir aðeins láta frá sér þau völd sem þeir er þvingaðir til að láta frá sér. Stærsta efnahagshrun heimsins miðað við höfðatölu var ekki nóg, það þurfti margra mánaða mótmæli og á endanum ofbeldi til að þvinga síðustu ríkisstjórn til að láta af völdum.
•    Látum ekki fjórflokkinn stela frá okkur stjórnlagaþinginu með því að búa til nánast óyfirstíganlegar reglur sem hindra þátttöku almennings í því.

Hvaða verkfæri höfum við almenningur til að hafa áhrif: eins og staðan er í dag framseljum við vald okkar á fjögurra ára fresti – þess á milli erum við algerlega upp á náð og miskunn valdhafa komin. Það verður að gera grunnbreytingar á kosningalögum svo við lendum ekki aftur í þeirri stöðu að hafa yfir okkur vanhæfa, ráðalausa ríkisstjórn þegar þjóðin lendir í hamförum eins og við höfum upplifað. Það er aðeins hægt með því að færa valdið aftur til þjóðarinnar. Það er aðeins hægt ef við fáum það meitlað í stein að við getum kallað eftir breytingum ef nægilega stór hluti þjóðarinnar krefst þjóðaratkvæðagreiðslu.

Almenningur kallar eftir upplýsingum en fær þær ekki. Hvað er þá til ráða? Hvernig í ósköpunum eigum við að fá upplýsingar sem gefa okkur hugmynd um hver staða okkar er nákvæmlega í dag? Við fáum þær ekki með því að standa fyrir utan þing og hrópa okkur hás eða beita annarskonar ytri þrýstingi. Eina leiðin sem ég sé færa í þessari stöðu er að fara inn á þing og ná í þær. Það voru ekki stjórnvöld sem fengu Evu Joly til landsins heldur og það voru án efa háværar kröfur almennings um að hún yrði fengin til að aðstoða okkur, sem urðu til þess að stjórnvöld sáu sig knúin til að fá hana til liðs við sig. Gleymum ekki mætti okkar. Eva mun verða okkur mikill styrkur í baráttunni við að uppræta spillinguna. Höldum áfram að þrýsta dag hvern – verum broddflugur samvisku og réttlætis.

Borgarahreyfingin – þjóðin á þing ætlar að byggja brú fyrir almenning inn á þing – vera rödd ykkar – talsmenn ykkar, en síðast en ekki síst – fá ykkur sem hafið unnið að samfélagsumbótum og mannúð bak við tjöldin til að bjóða ykkur fram. Við þurfum ekki leiðtoga – við þurfum samstöðu og samvinnu – við sem einstaklingar, getum breytt heiminum en það mun ekkert gerast nema að við gerum eitthvað. Við erum þjóðin – við erum kerfið – við eigum þingið.

 


mbl.is Lítil hreyfing á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka þér Kristján... mun nefna þetta við framkvæmdahópinn á eftir:) ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að víkja frá þremur efstu lögum stjórnsýslunnar og endurráða eftir alvöru reglum um hæfni óháða flokksskírteinum. Mun skrifa grein um það fljótlega...

Birgitta Jónsdóttir, 13.3.2009 kl. 09:28

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Gangi ykkur vel Birgitta.  Já það er leiðinlegt hvernig fjölmiðlar hundsa nýju framboðin, en vonandi verður breyting þar á.

Baráttukveðjur

Axel Þór

L-lista

Axel Þór Kolbeinsson, 13.3.2009 kl. 09:57

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Bendi ykkur á að nota póstlistan sem hægt er að skrá sig á á heimasíðunni ykkar því ég vissi ekki af fundinum fyrr en daginn eftir að búið var að halda hann.

Einnig þurfið þið að fara að drífa í að senda fólk út að safna undirskrftum því hver fer að verða síðastur. Bendi ég þá sérstaklega á að senda út beiðni um sjálfboðaliða því þið eigið marga vini.

Héðinn Björnsson, 13.3.2009 kl. 15:27

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þetta var fyrirsjáanlegt.Það er alltaf hætta á því þegar bylting er við það að takast að  gagnbyltingarsinnar laumi sér inn í raðir biltingarsinna.Það virðist hafa gerst með búsáhaldabyltinguna.Eina leiðin til að byltingin takist er að halda byltingunni áfram og efna til mótmæla við Alþingishúsið, Stjórnarráðið, Seðlabankann og ekki síst við það hús sem auðvaldið og landsræningjarnir hafa hreiðrað sig hvað mest í Ríkisútvarpið. Helst þyrfti að mótmæla á öllum stöðunum samtímis.Og nafninu borgarahreyfing þarf að henda út í hafsauga og taka upp það nafn sem mun færa byltingunni fylgi, sem er byltingarhreyfingin.Ég hefði reyndar ekki trúað því Birgitta að þú myndir ljá nafn þitt við slíkt nafn sem Borgarahreyfing.Gefumst ekki upp. Lifi byltingin.

Sigurgeir Jónsson, 13.3.2009 kl. 23:07

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Í raun er þessi hreyfing og fólkið sem fyllir lista hennar ljósið sem lýsir upp þessa dimmu daga. Ég óska ykkur heilla og treysti á styrk ykkar og þrek sem þið þurfið svo sannarlega á að halda í barátuna sem er framundan!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.3.2009 kl. 01:29

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Hvet ykkur öll að hjálpa okkur að láta þetta verða að alvöru valkosti. Sigurgeir - Borgarahreyfingin - þjóðin á þing var samþykkt einróma á stórum fundi grasrótarinnar - við erum borgarar ekki þegnar - við erum að bregðast við með borgaralegri óhlýðni eða bregðast við okkar borgaralegu skyldum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma baráttufólki á þing sem hefur í orði sem á borði sýnt að það er fært um að uppræta hér þá spillingu sem hefur fært þjóðina á vonarvöl.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með SJS - enn fær þjóðin ekkert að vita varðandi AGS - þrátt fyrir stóru orðin hans áður en hann ákvað að verma 3 ráðherrastóla. 

Elsku Rakel sendi þér bjarta strauma norður - það var svo gaman að hitta þig síðast þó ég hefði gjarnan viljað spjalla meira. Næst, OK:)

Birgitta Jónsdóttir, 14.3.2009 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband