Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja
1. Alvarleg staða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar handvirkt fram fyrir hrun hagkerfisins (janúar 2008) og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2% - 3% og afborgunum af húsnæðislánum verði hægt að fresta um tvö ár með lengingu lánsins um þann tíma. Náð verði samkomulagi við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að þeim verði breytt í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði bönnuð.
2. Leitað verði leiða til að leysa myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða ef með þarf með einhliða upptöku annars gjaldmiðils.
3. Atvinnulaust fólk verði hvatt til að stunda vinnu með samfélagslegu markmiði til að koma í veg fyrir að tengsl þess við vinnumarkaðinn rofni. Sett verði á stofn víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að aðstoða þá að nýta atvinnuleysið.
4. Illa skuldsett fyrirtæki verða boðin til sölu og tilboðum aðeins tekið ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir lífvænleg fyrirtæki sem ekki fæst ásættanlegt verð fyrir. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálkrafa en nota á endurreisnarsjóð atvinnulífsins til að veita hagstæð lán og breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.
5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. AGS fái ekki að ráða ferðinni með stöðu ríkissjóðs.
6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu og skynsemi. ICESAVE reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands og m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar innlagnir á reikningana, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir persónulega ábyrgir fyrir því sem vantar upp á. Samið verður um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. Samhliða því verði gefið loforð um framlag af hálfu Íslands sem nemi 2% af VLF, renni til þróunaraðstoðar á ári næstu tíu ár til að sýna góðan vilja íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.
Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá
2. Bera skal alla samninga undir þjóðaratkvæðagreiðslu sem mögulega framselja vald.
3. Rofin verði óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims.
4. Viðurkenna skal þau sjálfsögðu mannréttindi sbr. 1. gr. Mann-réttingayfirlýsingar S. Þ. að vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt enda væri það í samræmi við hugmyndir um að auka vægi þjóðaratkvæðis um einstök mál enda augljóst að ekki væri hægt að láta suma landsmenn hafa meira vægi en aðra við þjóðaratkvæðagreiðslu.
5. Fjöldi þingmanna miðist við fjölda á kjörskrá í hlutfallinu 1/4000 sem væri í samræmi við algengt hlutfall í öðrum löndum. Þetta myndi þýða nokkra fækkun þingmanna í dag en hægfara fjölgun þeirra í framtíðinni með vaxandi fólksfjölda sem væri rökrétt.
6. Kjördæmaskipan verði endurskoðuð og kjördæmum fækkað á suðvesturhorninu.
7. Tryggð verði skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. þannig að ráðherrar sitji ekki á þingi.
8. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins, nema dómarar, gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.
9. Fyrsta málsgrein 76. greinar stjórnarskrárinnar verði breytt til samræmis við Mannréttindayfirlýsingu S. Þ. um réttinn til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og velliðan allra. Grein 76 muni þá hljóða svona eftir breytingu. Öllum skal tryggður rétttur til grunn lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra Grunn lífskjör teljast vera nauðsynlegt fæði, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
10. Allar náttúruauðlindir verða í þjóðareigu og óheimilt að framleigja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.
Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur
Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla
2. Ráðningatími (skipunartími) og þ.a.l. uppsagnarfrestur allra embættismanna sé í samræmi við það sem almennt gerist hjá stjórnendum á vinnumarkaði skv. nánari útfærslu sem verði í höndum Kjararáðs.
3. Tiltekinn minnihluti þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.
4. Hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara verði metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu hæstaréttar. Fagnefndin geti lagt fyrir umsækjendur próf til að skera úr um þá hæfustu og að ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.
5. Æðstu embættismenn verði valdir á faglegum forsendum.
6. Fastanefndir þingsins verði efldar. Nefndarfundir verð almennt haldnir í heyranda hljóði. Gerð verði krafa um að fastanefndir afgreiði öll mál og skili niðurstöðu innan ákveðins tíma.
7. Settar verði siðarreglur fyrir alþingismenn, ráðherra og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins sem m.a. geri grein fyrir eign sinni í fyrirtækjum og stjórnarsetu fyrir kosningar og upplýsi umsvifalaust um allar breytingar á þessu sviði.
Við viljum innleiða hugtakið : pólitísk ábyrgð
Lýðræðisumbætur STRAX
1. Stjórnlagaþing fólksins í haust
2. Persónukjör til Alþingiskosninga
3. Afnema 5% þröskuldinn
4. Þjóðaratkvæðagreiðslur
5. Ný framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og sama stuðning og aðrir stjórnmálaflokkar
Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð
Athugasemdir
Óska ykkur til hamingju með framboðið, mörg góð mál í stefnuskránni hjá ykkur , sérstaklega liður 1. að hjálpa heimilunum , en þið minnist ekki á gengistryggðu húsnæðislánin , það væri gott að heyra frá ykkur hver ástæða þess er
Kveðja J.B
Jón Benediktsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 09:32
Varðandi ábendingu um: "...skyldur Íslands og m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi" þá vil ég sérstaklega taka undir þetta.
Ég hef sett upp tilgátu um efnahagshrunið hér. Það er ekki allt sem sýnist - og reyndar langur vegur frá því að mínu mati. Hér er ekki um samsæriskenningu að ræða heldur gagnrýna hugsun.
Varðandi ábendinu um: "Rannsakað verði hvað varð um allar innlagnir á reikningana, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda".
Ég spyr, á mannamáli: Hvar eru þessir peningar sem eigendur og stjórnendur Landsbankans rökuðu saman frá um 500.000 innistæðueigendum í Evrópu ?Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 09:46
Verður þú í framboði Birgitta?
Hilmar Gunnlaugsson, 5.3.2009 kl. 19:01
takk fyrir athugasemdirnar - Jón ég skal spyrja hagfræðinginn okkar af hverju myntkörfulánin eru ekki tilgreind... og skella því á bloggið til glöggvunar ...
Hákon stefnan er að biðja um aðstoð í þeim löndum sem töpuðu mest á fjárglæfrastarfseminni sem var stunduð héðan. Þar eru til alvöru stofnanir sem rekja slóða mun betur en okkar fjársveltu stofnanir.
Hilmar ég er búin að vera mikið að hugsa um hvort að ég ætti að bjóða mig fram - finnst þinghúsið ekki spennandi starfsvettvangur fyrir sjálfstætt foreldri eins og mig - en ef okkur tekst ekki að fá nógu margar til að moka spillingar og hagsmunaflórinn þar inni þá mun ég bjóða mig fram - tek það fram að ég er ekki að segja að allir sem þarna inni starfa séu spilltir eða vanhæfir -það eru örfáir einstaklingar inná þingi sem ég ber traust til og virðingu ...
Ég ætla alla vega að leggja alla mína orku og siðferðisþrek í að búa til vettvang fyrir þjóðina að bjóða sig fram - að byggja brú fyrir fólk sem hefur unnið samfélaginu gagn sín án þess alltaf að berja sér á brjóst - það verður víst bara gert með því að setja sig í eldlínuna ef þarf. Ég var beðin um að vera varaformaður fyrir Borgarahreyfinguna - ég reyni bara að vinna þau verk þar sem mínir kraftar njóta sín best - veit ekki hvort að Birgitta inná þingi sé besti vettvangur fyrir mig:) Ætla að sofa á því enn eina nóttina og taka endanlega ákvörðun á morgunn...
Birgitta Jónsdóttir, 5.3.2009 kl. 23:40
Birgitta : Ef þið eruð með einhverjar lausnir á gengistryggðu lánunum sambærilegum við þau vísitölutryggðu væri best að fá þau inn á framboðssíðuna , það eru margir sem bíða eftir slíkum lausnum og yrði slíkt ykkur til framdráttar
Jón Benediktsson (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 09:05
Gangi ykkur vel Birgitta mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.3.2009 kl. 09:32
Heill og sæll Jón
ég spjallaði við einn af hagfræðingunum okkar og hann lofaði að koma með tillögur varðandi húsnæðismyntkörfulánin - hann sagði að þetta væri flókið en það væri kannski hægt að nota samskonar útfærslu og á verðtryggðu lánunum...
Takk Ásthildur mín ... kemur þú ekki bara í framboð fyrir okkur:) þú ert svo mikill viskubrunnur og þekkir svo vel hvar kerfið virkar ekki...
Birgitta Jónsdóttir, 6.3.2009 kl. 11:36
Takk fyrir þetta Birgitta , bíð spenntur eftir þessu. Gangi ykkur vel :-))
Jón Benediktsson (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.