Leita í fréttum mbl.is

Töfralausnir ekki til

Ég hef tekið eftir því að nánast sama við hvern ég tala, að það er alltaf sama viðkvæðið: við treystum ekki núverandi flokkakerfi og það á jafnt við það gamla sem og hið nýja flokka sem munu vafalaust spretta upp eins og gorkúlur á næstu misserum. Það er bara þannig að núverandi kerfi er handónýtt og við ættum að taka það eins og aðrar gatslitnar tuskur og henda því í ruslið. Byrja að vefa nýjan klút og kalla hann íslensku leiðina og þora að horfast í augu við, að þetta bananalýðræði, sem við búum við, bjuggum við sjálf til með sofandahætti og einskærri leti. En rétt eins og við bjuggum til þennan óskapnað getum við tekið hann í sundur, enda úldinn og fúinn og morandi í bakteríum spillingar. 

Ég hef verið þessarar skoðunar á mörg ár og hlotið nokkra vandlætingu fyrir, en það er aukaatriði. Ef maður leyfir sér að hlusta á þann merkilega hlut sem oft er kenndur við innsæi, kemur í ljós að maður hefur yfirleitt rétt fyrir sér. Því ætti maður kannski að vera duglegri að þora að láta í sér heyra ef maður sér að eitthvað er meira en lítið skringilegt og rangátt,  þó svo að það kalli á tilraunir til mannorðsmorðs eða aðhláturs: litli fávitinn: betra er að vera fáviti en í náhirðinni.

Þær raddir gerast sífellt háværari um að ríkistjórnin segi af sér og sú aðstoð sem við erum ekki að fá og bíðum eftir komi, mun ekki koma, nema að einhver sæti ábyrgð í stjórnsýslunni. Mér finnst ekkert vit í því að láta bara einn eða tvo hverfa, það væri heiðarlegast og stórmannlegast ef fólkið sem nú er við völd sýni okkur í verki að við búum við lýðræði en ekki einræði og segi af sér. 

Reynt hefur verið að hræða fólk um að ofan á allt saman þolum við ekki stjórnarkreppu? Ég get ekki betur séð en að hér ríki stjórnarkreppa. 

Mér sýnist ISG vera komin með ESB jafn mikið á heilann og hún var með öryggisráðið á heilanum. Það kemst ekkert annað að. Eðlilegast væri að við fengjum að kjósa um hvort að við förum í aðildarviðræður. Kosningar um slíkar ákvarðanir kalla eftir opinni umræðu og fræðslu. Ég veit ekki hvort að ég vilji eða vilji ekki fara í ESB. Ég hef hreinlega ekki nægilega þekkingu á þessu, veit ekki nægilega vel hverjir kostir þess og gallar eru. Ég kalla því eftir kosningu um það svo ég geti fengið vonandi á mannamáli þessar upplýsingar til að vega og meta með innsæi mínu. 

Ég hef heimildir fyrir því, að þegar við gengum í EES, frá prentsmiðjunni sem sá um að prenta allar upplýsingarnar sem útskýrðu í þaula kosti og galla og hvað það allt innibar, að enginn náði sér í allt lesefnið nema Hjörleifur Guttormsson. Þannig að gengið var til þeirrar aðildar án þess að þingheimur upplýsti sig eða þjóðina. Það er afar alvarlegt mál. Það er EKKI lýðræðislegt. Ég kýs ekki til að láta taka frá mér valdið sem felst í því að vera upplýstur. En við höfum verið deyfð og týnd í góðæri sem aldrei var raunverulegt, því góðæri á ekki að snúast um að fá meira veð í vinnu okkar, lán kalla á veð í framtíðarvinnu okkar. Góðærið byggðist á myntkörfulánum og verðtryggðum lánum.

Það eru engar töfralausnir til á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. En það er einlæg krafa að fá að vita nákvæmlega hvað við stöndum frammi fyrir. Það er almenningur ekki að fá og þess vegna er almenningur reiður og óttasleginn.

Að þurfa að hlusta á einræðisherra og kvendi halda því fram að það sjái ekki ástæðu til þess að hér verði efnt til kosninga sýnir fádæma valdahroka og almenningur upplifir það þannig að enginn leið er að losna við skemmdarvargana nema með handafli. Það er hættuleg og óþörf staða. 

ISG og Geir sýnið nú í verki að þið metið þjóðarhag ofar ykkar hagsmunum og meitluðu skoðunum. Látið okkur fá lýðræðið til baka annars er næsta ljóst að við verðum að taka það til baka.

Við erum valdið - ekki þið

Við erum ríkið - ekki þið

Við erum fólkið 

Ást og virðing

Birgitta


mbl.is Framfaraflokkurinn stofnaður á næstu dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Get tekið undir hvert einasta orð! Mikið er þetta vel mælt. Einmitt í mörg ár, ekki bara á síðustu misserum, í mörg ár hefur hræðslan búið um sig og satt segir þú, maður fær skammir fyrir!

Finnst þér ekki einkennilegt að í þessu fámenna landi skuli ekki vera hægt að merkja við einstaka menn? Við verðum alltaf að kaupa köttinn í sekknum! Manstu Björn Bjarnason: "Ég ber pólitíska ábyrgð"! Og svo var hann kominn aftur í ráðherrastól! Hvaða ábyrgð var þetta? Og kannastu við þetta: "Við göngum óbundin til kosninga"! Auðvitað höfum við almúginn sofið á verðinum. Hættum að fara á fundi og heyra hvað um var að vera, létum stjórnendur fá að stjórnand án nokkurs eftirlits! Einnig erum við ódugleg að skrifa þingmönnum og segja okkur álit okkar. Sá sem er í brúnni hefur auðvitað mikla yfirsýn, en á erfitt með að greina smáu hlutina.

Með bestu kveðjum

Hildur Harðardóttir (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 08:46

2 identicon

VÍNLANDIÐ

Ísland er stoppu stöð á leið frá Noregi til Vínlands hins góða. Við erum útrásar víkingar, en við verðum að rasa út í rétta átt ! Leifur Heppni var ekki áttavilltur. Nú er komið að því að þjóðin sæki um inngöngu í Kanada/USA/NAFTA. Þar eigum við “Fyrsta Veðrétt”, samkvæmt Leifi Heppna. Þarna er mestur fjöldi íslenskra afkomenda,sem er okkar eigið blóð. Þeir afkomendur hafa gert það svo gott, að þeir hugsa sjaldan um stoppu stöðina Ísland, í miðju Atlanthafi. Og þeir hafa dreyft sér um alla Norður Ameríku. Evrópa er búin að fá alveg nóg af okkur, eins og Noregur forðum. Vesturheimur bíður okkar án nokkurra fordóma.

Nonni (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 09:26

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það eina sem dugir til þess að tryggja okkur frelsi í framtíð er að breyta kerfinu. Kosningakerfinu, flokkspólitíkinni, stornanaræðinu og verja lýðræðið

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.11.2008 kl. 09:33

4 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Satt segir þú Birgitta. Það er mikið betra að vera álitinn fáviti en að vera dofin ja-manneskja............

Soffía Valdimarsdóttir, 15.11.2008 kl. 11:21

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Rétt hjá þér Birgitta; Við erum nefnilega fólkið -og valdið.

Það hefur gleymst. 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 15.11.2008 kl. 11:22

6 identicon

Mótmæli!

http://this.is/nei/?p=525

Lopabyltingin (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 18:10

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

handónýtt kerfi og viðgerð borgar sig ekki. við þurfum nýtt kerfi.

kerfi þar sem kosið er fólk, en ekki flokkar.


að aðilar löggjafavaldsins séu ekki aðilar að framkvæmdavaldinu á sama tíma.
þ.e. að þingmenn gegni ekki ráðherrastöðum.

að skilgreind yrði og lögleidd, leið fyrir almenning að knýja fram kosningar. rétt eins og hluthafar fyrirtækja geta knúið fram aðalfundi.

Brjánn Guðjónsson, 15.11.2008 kl. 19:04

8 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

takk öll fyrir kommentin...

Brjánn: þetta eru skynsamlegar tillögur hjá þér og það eina sem eg gæti stutt.

flottar greinar á this.is/nei - ég er reyndar andsnúin öllum ismum og held að þeir hugarfjötrar sem því alltaf fylgja skapi alltaf tóm fyrir valdasjúkt fólk til að drottna. 

Grétar Eir - ég held að það ætti bara að setja þak á kostnað við kosningar, rétt eins og setja ætti þak á tekjur eins og það er botn á lágmarkstekjum.

Birgitta Jónsdóttir, 15.11.2008 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband