Leita í fréttum mbl.is

Arnarfjörður og arnarunginn

Friðgeir að mynda þvottaplan

Ég fór í örferðalag í vikunni og er enn að melta allt það sem ég fékk að upplifa. Hápunktarnir voru án efa Arnarfjörður og arnarunginn sem ég hitti á Snæfellsnesi.

Ég og einn besti vinur minn hann Friðgeir ásamt Neptúnusi og Delphin fórum á jazzbílnum Vernharði á vesturland til að byrja með. Tókum stefnuna á bóndabæ á Snæfellsnesi. Þar á stjúpi minn hlut í gömlum bóndabæ rétt við hafið. Við lögðum í hann á þriðjudag og vorum komin með góðum hléum um eftirmiðdaginn. Það var alveg yndisleg blíða og stillur. Fórum með Valda í smá ferð um spegilslétt hafið á gúmmíbát. Ætlunin var að fara í litla eyju og kíkja á arnarunga og athuga hvort að við myndum sjá selina sem synda þarna um. Og viti menn þrír selir kíktu á furðulega fólkið sem var á ferð. Lyftu sér hátt upp af forvitni og létu sig hverfa bara til að koma aðeins nær.

Arnarunginn

Það var að fjara svo við þurftum að drífa okkur út í eyju, yfir henni hringsólaði magnaðasti fuglinn í ríki fugla; örninn. Við fórum á eyjuoddann og sáum þar ófleygan arnarunga. Hann var þó engin smásmíði og vænghafið ótrúlega umfangsmikið. Greinilega vel nærður, stór kjötstykki í hreiðri og rándýrsblik í augum. Ég var hjá honum ein í smástund, fékk að ræna hann einni fjöður sem hann hafði misst og hugsaði um indíánablóðið í æðum mínum á meðan ég horfði í augu hans um stund. Það var á einhvern hátt eins og helgistund. Hljómar kannski furðulega en ég er auðvitað náttúrudýrkandi og fannst mikil forréttindi að fá að horfast í augu við örn um stund:)

Marglyttur við Flatey

Við skoðuðum lundana sem voru svo þungir af öllu æti dagsins að þeir ætluðu varla að geta hafið sig til flugs. Tókum svo stefnuna heim á bæ að fá okkur sjálf eitthvað í gogginn. Kíktum svo aðeins við á Stykkishólm í blíðunni og keyptum ís til að snæða með grilluðum banönum og suðusúkkulaði. Ég var orðin eitthvað veik en góður nætursvefn hressti mig við. Vaknaði klukkan 6 og náði að skrifa eitt ljóð í dagbókina mína, drakk í mig fegurðina allt um kring og vakti svo mannskapinn. Ég hafði sem betur fer keypt miða í ferjuna Baldur áður en ég fór á netinu - nokkrir þurftu greinilega frá að snúa. En strax klukkan hálf 9 var löng biðröð í ferjuna. Merkilegt hvað er hægt að troða mörgum bílum í þessa litlu ferju. Það er reyndar skömm frá því að segja að ég hafi aldrei farið í ferjuna áður á þann stað á landinu sem ég ber svo miklar og stórar tilfinningar til, þ.e.a.s. vestfjarða. 

Delphin inní styttunni

Mér finnst ferjan snilld og ætla að notfæra mér þessa þjónustu oft og mörgu sinnum. Það var gjóla og frekar kalt um morguninn en þegar við náðum landi á Brjánslæk var orðið vel heitt og kom síðar í ljós að slegin voru hitamet þennan dag líka fyrir vestan.  

Stefnan var tekin á Arnarfjörð en mér lék forvitni að sjá þann stað sem búið er að taka frá fyrir olíuhreinsunarstöð. Við fórum fyrst yfir Dynjandisheiði og sáum þar líka þessa merkilega flottu styttu. Kom í ljós að hún var gerð af vegavinnumönnunum sem unnu við gerð brúarinnar yfir Pennu árið 1958. Mér finnst þetta flottasta stytta sem ég hef séð á vegum úti hérlendis. 

Við stöldruðum aðeins við í botni Þernudals og hámuðum í okkur allskonar spikfeit ber. Delphin ofurhugi vildi endilega leggjast til sunds í kaldri ánni. Hann var á sundskýlunni mest allan daginn, alsæll í þessari vatnaveröld. Sá bregða fyrir stórum löxum í ljósgrænum hyl. Skemmtum okkur vel þarna í gróðurreit á hjara veraldar. Ofurhuginn varð reyndar svo yfir sig hræddur við geitung að það þurfti að bera hann að hellisbúa sið upp úr litla gilinu. 

Við komum við í Bíldudal eftir að hafa heillast af glæsilegum flugvelli við bæjarmörkin. Ég reyndar heillaðist enn frekar af Bíldudal. Yndislegur bær og mér þótti furðu sæta að þar var enga ferðamenn að finna á þessum fallega degi. Ég mun með sanni koma aftur til 

Við upphaf ferðalagsins

Bíldudals og vonandi hafa tök á að dvelja um einhvern tíma þar. Við rákumst á athafnamanninn Jón Þórðarson sem rekur skemmtilegt gallerí og vefsíðu bæjarins, hvet alla til að kíkja á vefinn, bildudalur.is. Ég ætla að skrifa meira um ferðalagið mitt. Þetta er bara að verða svo mikil ritgerð. Setti inn slatta af myndum frá ferðalaginu en á eftir að setja inn myndirnar frá Selárdal.

Verð að hætta núna en tek upp þráðinn á morgunn. Er að fara að hitta fyrsta internet vin minn sem ég kynntist árið 1995 og hef ekki enn hitt. Hlakka til að sjá hann í þrívídd:) Hann er skemmtilegur persónuleika af netnördakyni sem ferðast um heiminn með brúðleikhús í sérkennilegri kantinum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vonandi verður þessi olíhreinsistöð aldrei til nema í kollinum á nokkrum örfáum einstaklingum. Það væri skelfilegt ef einhver mistök yrðu við rekstur slíkrar stöðvar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 3.8.2008 kl. 22:55

2 identicon

Gaman að lesa .... takk fyrir elsku Birgitta   Megi englarnir vaka yfir þér    Guð blessi þig

Edda frænka frá DK (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 22:58

3 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Takk fyrir góðan lestur og fallegar myndir. Mér hryllir við hugsuninni um olíuhreinsistöð. Vona að sú hugsun verði kíld niður.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 4.8.2008 kl. 04:12

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Við verðum öll að leggjast á eitt að stöðva þessa fjarstæðu hugmynd um olíuhreinsunarstöð. Ég hef séð slíkar með eigin augum og vil engu Íslensku samfélagi svo illt að hafa slíkan óhugnað við sínar bæjardyr.

En það þarf að styðja meira við bakið á Vestfirðingum. Vegirnir þarna eru í slæmu ástandi og það þarf nú ekki mikið átak til að mynda að laga veginn inn í Selárdal og Hvestu. Þetta eru algerar perlur sem ég vona með sanni að sem flestir Íslendingar munu njóta.

Ég reyndar komst á mínum örbíl út um allt og lenti ekki í neinum vandræðum en ég held samt að fleiri ferðamenn myndu leggja leið sína á staðina sem virðast svo langt í burtu ef þeir fengju meiri upplýsingar um ferðaþjónustu sem þarna er í boði, því eins og inn á Bíldudal er fyrirmyndar veitingastaður og flottir gistimöguleikar og fjallasýn sem engan svíkur:)

Birgitta Jónsdóttir, 4.8.2008 kl. 09:19

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sæl Birgitta.Ég  var á ferð á Bíldudal ásamt fleirum á svipuðum tíma og þú og gistum við þar.Ég fæ aldrei nóg af Suðurfjörðunum.Þar er einstök náttúrufegurð og A-barð. er sér heimur sem á engan sinn líkan á Íslandi, svo serstakt er þar. Það sorglega er að ef ekkert gerist verður þetta svæði mannlaust.Það verður í sömu stöðu og Hornstrandir.Ég trúi ekki öðru en að þú skiptir um skoðun varðandi olíuhreinsunarstöðina.Ég veit ekki hvort þú hefur komið í Hvestu en þar á olíuhreinsunarstöðin að rísa og ég tel það góðan stað fyrir hana og hún byggi upp mannlíf á suðurfjörðunum svo aftur verði mannlíf við Arnarfjörð eins og var á árum áður.Bið að heilsa Gísla á Uppsölum ef þú skyldir kíkja á hann.Selárdalurinn er að lifna við.Kv. 

Sigurgeir Jónsson, 4.8.2008 kl. 10:45

6 identicon

Já landið svíkur engann..................!

kær kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 4.8.2008 kl. 12:34

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

E.S. Hefur þú skoðað olíuhreinsistöðina á Tenerive.

Sigurgeir Jónsson, 4.8.2008 kl. 12:35

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er innilega sammála þér með Bíldudal, Birgitta. Ég fór í 10 daga Vestfjarðaferð í fyrrasumar - einu sinni sem oftar - og það var áberandi hvað Bíldudalur var hlýlegasta og viðkunnanlegasta þorpið sem við komum í.

Ég vona að Vestfirðingar beri gæfu til þess að halda landshlutanum sínum stóriðjulausum. Og ég vona að Íslendingar beri gæfu til þess að binda svo um hnúta að Vestfirðingar sitji við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar samgöngur og samskipti. 

Ef búsetuskilyrði yrðu bætt, fyrir Vestan og víðar á landsbyggðinni, myndi fólk frekar vilja setjast þar að eða fólksflóttinn minnka.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.8.2008 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.