Leita í fréttum mbl.is

Til hvers að styðja Tíbet?

Vinir Tíbets

Yfirleitt fæ ég afar jákvæð viðbrögð við baráttu minni um að upplýsa þjóðina mína um ástand mála í Tíbet. Stundum fæ ég þau viðbrögð að það sé áþekkar hörmungar í gangi um heimsbyggð alla. Það séu aðrar þjóðir sem þjást jafnvel enn meira en Tíbetar eða af hverju beini ég ekki kröftum mínum að mannréttindabrotum sem eiga sér stað hérlendis?

Auðvitað væri það frábært ef ég væri til í mörgum eintökum og gæti aðstoðað við sem flest málefni. En málið er það að allir sem finna hjá sér þörf á að kvarta yfir einhverjum málefnum ættu endilega að gera eitthvað í því. Allir geta haft einhver áhrif á gang mála í okkar stóra heimi. Upplýsingar eru til dæmis eitthvað sem krefst ekki mikils en þörf er á betra aðgengi að upplýsingum um flest málefni sem brenna á fólki.

Ég lít á aðgerðir mínar leynt og ljóst þannig að ég sé að sá fræjum. Ég trúi því að einstaklingar geti breytt heiminum, svo framarlega sem við hættum að láta undan hinni fremur algildu sjálfshyggju. Það er þessi sjálfshyggja sem er að ganga frá heiminum okkar. Því hún blindar okkur fyrir því að við erum öll saman í þessu, að allt er tengt á einn eða annan máta. 

Ég styð Tíbet vegna þess að enginn var að gera nokkurn skapaðan hlut hérlendis til að skapa vettvang eða umræðu um ástandið í Tíbet þegar ég byrjaði á mínum einkamótmælum fyrir utan kínverska sendiráðið. Á þessum fremur stutta tíma síðan ég byrjaði að gera eitthvað hefur mjög margt jákvætt gerst og félagið Vinir Tíbets orðið að veruleika. Ég hélt satt best að segja að slíkt félag væri starfandi hérlendis áður en við stofnuðum það.

Mér finnst það mikill heiður að fá að leiða saman þessi lönd. Bæði eiga þau sér ríka menningararfleifð sem hefur haft mikil áhrif á þjóðarsálina. Við vorum bara svo einstaklega lánsöm að fá okkar sjálfstæði án þess að þurfa að líða mikið fyrir það á meðan allir tilburðir Tíbeta til að öðlast sitt frelsi hefur aðeins þýtt meiri eyðileggingu og meira niðurbrot.  Það sem gefur mér ef til vill mest af öllu er að finna það þakklæti sem mér hefur verið sýnt frá þessum sárafáu Tíbetum sem búa hér. Það hlýtur að vera afar erfitt að sjá þjóð sína brotna á bak aftur af slíku offorsi eins og gerðist eftir mótmælin í mars í Tíbet. Það hlýtur að vera erfitt að heyra stöðugt um blóðsúthellingar og geta ekkert gert. Því er það þeim kærkominn léttir að fá tækifæri á að sýna sínum samlöndum stuðning með því að mæta fyrir utan kínverska sendiráðið á laugardögum. Ég er ekki síst að sýna þeim minn stuðning með því að búa til þennan vettvang, í staðinn hef ég fengið að kynnast fólki sem ég get lært svo mikið af. 

Ef eitthvað fólk á einskonar rétt á gremju og reiði, þá er það fólk sem hefur þurft að upplifa að horfa upp á menningarlegt þjóðarmorð á þjóð sinni, fólk sem fær ekki að kalla sig Tíbeta í vegabréfum sínum, þau verða að vera skráð sem Kínverjar. Þjóð sem fær ekki að segja að þau séu flóttamenn frá Tíbet heldur Kína. Þjóð sem verið er leynt og ljóst að stela þjóðerninu frá. En þau eru ekki reið eða stýrast áfram að þörf til hefnda. Ég hef aldrei heyrt þau krefjast hefnda eða hallmæla kínversku stjórninni. Þau líta á kínversku þjóðina sem þjáninga bræður og systur sem búa undir sama járnhæl ómennskrar stjórnar. 

Nú hef ég verið að lesa merkilega bók sem heitir "The search for Panchen Lama". Mæli eindregið með þessari bók fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér sögu landsins og þeirra pólitísku afla sem hafa komið landinu í svona mikið óefni. 

Ég mun mæta fyrir utan kínverska sendiráðið uns ég sé einhvern árangur af þessum aðgerðum. En þær skila sér í það minnsta alltaf inn á borð hjá kínverskum stjórnvöldum sem hin vikulega staða fyrir utan sendiráðið, því sendiherranum ber skilda að tilkynna öll mótmæli til yfirmanna sinna.

Ég veit að sumir hræðast mótmæli og finnst þau til óþurftar. Mótmælin okkar gætu allt eins verið kölluð samstöðufundur eða PROTEST eða Pro Tibet aðgerð. Hvað við köllum þetta skiptir litlu máli. Það sem skiptir öllu máli er að við komum saman og sýnum Tíbetum að okkur stendur ekki sama um örlög þeirra og við erum að taka þátt í alþjóða vitundarvakningu um málefni Tíbets.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

það er frábært að það er fólk sem styður þá sem minna mega sín og lifa undir oki annarra á hvern hátt sem er.

það er svo satt og rétt að allir geta tekið þátt í að hjálpa og hver á sinn hátt. það er hægt að hjálpa með mótmælaaðgerðum og það er mikilvægt, ég hjálpa með hugleiðslu, og ég trúi og veit að það er áhrifamikið. þar get ég verið á fjarlægum stöðum, þó svo að ég sitji í hugleiðslustólnum mínum.

eitt útilokar aldrei annað, og bæði er svo mikilvægt.

takk fyrir frábært starf.

Kærleikur

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 28.6.2008 kl. 11:31

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Alveg sammála þér Steina og takk fyrir að minna á það...

Ég reyni að samþætta þetta allt saman:)

Ekkert er mikilvægara en annað í aðgerðum til að upplýsa fólk og sjálfan sig í leiðinni:)

Ég hef lært svo mikið um sjálfa mig í þessum aðgerðaferli mínum og er það mér næg umbum:....

Með björtum og kærleiksríkum kveðjum

Birgitta

Birgitta Jónsdóttir, 28.6.2008 kl. 12:18

3 identicon

Ég fæ allajafna á mig þann stimpil að vera barnalegur að trúa því að einn maður geti breytt heiminum... en einhvers staðar verður breytingin að byrja!

...désú (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 20:12

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

ég vil frekar vera barnaleg en að eyða meiri tíma á þessari lífstíð að marineruð í gremju:)

þegar ég var í níkaragúa öfundaðist ég mikið út í fólkið þar fyrir að eiga enn eitthvað eftir af sakleysi, voru ekki kominn inn í þennan lúxusvandamálaheim sem við búum við. persónulega finnst mér fátt fallegra en fólk sem leyfir sér að hafa trú að við séum til þess fallin að geta breytt heiminum okkar

ef ekki þá er hætt við að maður falli í dauða og djöfuldóm vonleysisins...

var þar þegar ég var unglingur og mikið skefling var það ömurlegur staður að vera á....

Birgitta Jónsdóttir, 29.6.2008 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband