Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Frábærar myndir af mömmu

Fékk í gær myndir sem teknar voru fyrir forsíðuviðtalið við mömmu í fyrra. Ljósmyndarinn Gunnar Þór Andrésson sem tók myndirnar var svo elskulegur að leyfa okkur systkininum að nota þær. Ég varð eiginlega hálf reið þegar ég sá hvað þetta voru flottar myndir af henni vegna þess að myndirnar sem valdar voru fyrir þetta viðtal voru vægast sagt hræðilegar og skammarlegt hvernig að þessu viðtali var staðið.

Ég skil ekki af hverju einhverjar af þessum myndum þar sem hún leit bara ósköp eðlilega út voru ekki notaðar. En ég nenni svo sem ekki að fara út í einhverja gremju núna en ég vona að innst inni skammist blessaður ritstjórinn sig fyrir hve hann brást trausti hennar.

En myndirnar eru frábærar og gott að eiga myndir af mömmu sem oftast myndaðist ekki alltof vel sem ná allri þessari orku og krafti sem í henni bjó. Ég setti myndirnar í myndaalbúm sem ber heiti hennar. Þessi er ein af mínum uppáhalds myndum af henni úr þessari syrpu... 


Dagsetning og tími á jarðaför Bergþóru aka mömmu

Jarðaförin fer fram laugardaginn 31. mars klukkan 13 í Hveragerðiskirkju. Enn og aftur vil ég þakka öllum þeim sem hafa skrifað mér, hringt í mig og sýnt mér samúð í verki.

Ég er enn í hálfgerðri móðu og svo utan við mig að ég má þakka við það að rata heima suma daga. En ég er jafnframt full þakklætis. Rétt áður en mamma dó las hún bókina sem ég þýddi í fyrra "Lífsreglurnar fjórar" og hafði bókin svo mikil áhrif á hana að hún gerði hluti fyrir sig og sálartetrið sem hún hafði aldrei hug eða þor til að gera áður. Það er svo magnað að hugsa til þess hve mikil áhrif eitt orð getur haft á líf manns. Þess vegna er mikilvægt að hugsa vel áður en maður segir eða skrifar hlutina. (ég á langa sögu þar sem ég hef rutt út úr mér orðum í meðvitundarleysi og hefur það aldrei kunnað góðri lukku að stýra, er að æfa mig í að halda mínum munni en er langt frá því að ná meistaraprófi í því:)

Við vorum nokkuð telepatískar mæðgurnar: alltaf þegar við hringdumst á var hin að labba að símanum til að hringja frá hinum endanum. Síðasta smsið frá mömmu var einmitt: Telepatía: ég elska þig.

Og það eru svona hlutir sem skipta máli. Ekki þetta veraldlega, heldur þessi tilfinning í hjartanu að maður sé sáttur, þessi innri friður. Það er margt sem gæti verið að éta mig upp að innan á þessari stundu ef ég hefði ekki ákveðið ung að aldri að láta alla mína reynslu og erfiðleika verða eins konar vegvísir að þessari innri kjölfestu sem er einfaldlega byggð á þakklæti og óbilandi bjartsýni.


Jarðarförin hennar mömmu mun fara

fram í Hveragerðiskirkju seint í þessum mánuði. Þorum ekki að auglýsa dagsetningu fyrr en öruggt er að askan skili sér til landsins. Mun setja dagsetninguna hér inn og í blöðin um leið og við fáum öskuna til okkar.

Mamma mun verða jarðsett í Kotstrandarkirkjugarði, hjá afa, bróður sínum og langömmu. Það er ótrúlega fallegur staður og gott að hafa einhvern stað til að vitja til að minnast hennar í friði og ró.

Annars þá þykir mér afskaplega vænt um öll bréfin sem ég hef fengið og hlýjuna. Vildi óska að mamma hefði ekki hætt við að láta mig skrá sögurnar sínar því hún var svo brimfull af ótrúlega skemmtilegum sögum. Reyndar hafði hún keypt sér diktafón rétt áður en hún dó til að taka upp lögin sín sem komust aldrei í upptöku í stúdeói og til að setja inn eitthvað af öllum þessum sögum... en henni vannst ekki tími til þess.

en lögin lifa enn inn í ljóðum og textum... spurning hvort að einhver dreymi þau...

Mamma er búin að vera dugleg að láta vita af sér eftir að hún yfirgaf þessa jarðvist... hún er og verður greinilega alltaf dálítill prakkari ...

Kannski var það gott að hún bjó svona í öðru landi, því að söknuðurinn hefur komist upp í vana:) og það er nú einu sinni fjölskyldumottóið að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.


Í minningu Bergþóru Árnadóttur

Er að setja inn nokkur sérvalin lög í tónlistarspilarann eftir mömmu og myndir af henni. Ég er enn í Danmörku. Vildi helst vera komin heim. Fann áðan ljóð sem ég skrifaði kvöldið áður en hún dó.

Ekki deyja fyrr en ég kem

Ég á ofgnótt friðar
en stálteinninn innra með mér
er tærður
og ryðgaður

Heyri pípið í vélum
eru það vítisvélar
sem halda krabbadýrunum lifandi
eða líkn

Ég á ofgnótt líknar
ég skal lesa fyrir þig Stein Steinarr eða Dag Sigurðar
ég skal lesa fyrir þig um lífið
eða dauðann

Ég skal bera smyrsl á andlit þitt
og strjúka burt storkanað blóðið í þykku hárinu þínu
og syngja fyrir þig vögguvísunar sem gleymdist
að syngja fyrir þig í bernsku


Mamma dó í morgunn

Þegar við bróðir minn vorum að stíga um borð í flugvélina til Danmerkur hringdi maðurinn hennar mömmu í okkur sagði okkur að hún hefði dáið í svefni við sólarupprás. Hef aldrei upplifað eins erfitt ferðalag. Tíminn sniglaðist og ég var að springa úr harmi. Ekki beint góð tímasetning en hvenær er dauðinn það? En á sama tíma fann ég til þakklætis yfir því að hún þurfti ekki að þjást. Hún var kominn á mjög hátt sig krabbameins í lungum og hafði dáið í fyrradag en verið endurlífguð...

Hún vildi fá að deyja eðlilega og fékk það með friði. Ég get ekki líst því hvað það er erfitt að hafa ekki fengið að kveðja hana almennilega, hún var svo hress þegar ég talaði við hana í síma í gær. Vildi í fyrstu ekki að við kæmum en samkvæmt læknunum leit þetta ekki allt of vel út. En hún var ógleymanleg lífsorku súper nóva sem tókst að lifa langt umfram en henni hafði verið gefið.

Ég er svo þakklát að hafa fengið að sjá hana þó að hún væri búin að yfirgefa þessa skel sem við köllum líkama. Finn að hvar svo sem hún er að henni líður betur og eins og amma sagði: "hún er bara búin að klæða sig úr þessari slitnu kápu sem líkami hennar var orðinn og miklu fargi af henni létt". Og ég gæti ekki verið meira sammála.

Annars merkilegt að áður en ég fór þá setti ég lagið sem hún samdi þegar föðursystir mín var að deyja fyrir margt löngu hér í tónlistarspilarann á síðunni "Veistu að þinn vinur er að deyja". Og það var mamma mér miklu frekar en móðir, góður vinur. Ég mun gera mitt besta til að láta minningu hennar lifa....

Bjartar kveðjur og takk fyrir samúðarkveðjurnar

tími til að reyna að veiða hana til mín í draumheimum

Í minningu Bergþóru Árnadóttur - 15.02.48 - rip 08.03.07


Er á leiðinni til Danmerkur

eftir hálftíma. Fyrir þá sem lesa þetta og þekkja mömmu, aka Bergþóru Árnadóttur, þá er hún komin á sjúkrahús í Álaborg og við systkinin á leið til hennar. Hægt að hafa samband við mig via tölvupóst ef einhverjar spurningar vakna: birgitta@this.is en ástandið er ekki gott á henni þó hún beri sig hetjulega að vanda.


Ghandi endurfæddist á heimilinu

nghandineptunusghandium helgina. Eldri sonur minn hefur verið þekktur sem drengurinn með hárið enda skartaði hann einu fallegasta hári sem um getur. Hann hafði tekið ákvörðun um það fyrir nokkru að láta það allt fjúka og verða alveg sköllóttur. Ég eyddi því tveimur tímum á sunnudaginn að klippa tvö kíló af hári af honum og síðan að raka restina af hans fagra kolli. Hann er gjörsamlega óþekkjanlegur fyrir þá sem minnast hans sem hárprúða drengsins. Minnti mig einna helst á Ghandi og er ekki leiðum að líkjast:)
 nhair

« Fyrri síða

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.