Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Tónlist

Afturhvarf

Var búin að lofa því að deila með ykkur ljóðum og tónlist á þessum sérkennilegu tímum... fannst þetta ljóð Steins við lag Bergþóru Árnadóttur eiga vel við gjörningaveðrið á flokksráðsfundi þeirra "sjálfstæðu". Lagið má finna í fluttningi Pálma Gunnars í tónhlöðunni.

Ljóð: Steinn Steinarr

Ó, græna jörð, ó, mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.


Ég viðurkenni mína synd og sekt:
ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns
og elti vafurloga heimsku og hjóms
um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.


Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!


mbl.is Tár felld á flokksráðsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirmæli Íslands

 
Þetta gætu verið eftirmæli um hina íslenzku þjóð! 
 
EFTIRMÆLI
Ljóð: Steinn Steinarr
Lag: Bergþóra Árnadóttir

Þú varst bæði auralaus og illa klæddur maður,
með afar stóra fætur og raunalegar hendur.
Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum sem slíkur,
og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.

Og sjaldan heyrðist talað um sálargáfur þínar,
og sennilegt þær hafi frekar lítinn ávöxt borið.
Þú þekktir hvorki leyndardóma þessa heims ná annars.
Og það var ekki meira en svo að þú kynnir Faðirvorið.

Þú reyndir samt að bjarga þér. Og fékkst á yngri árum
við arðberandi fiskirí í Grindavík og Leiru.
En svo var eins og lukkan hefði lagt sig ögn til hliðar,
það lögðust á þig veikindi og skuldir, ásamt fleiru.

Þú áttir jafnvel stundum býsna örðugt með að lifa
og ennfremur var tóbaksleysið kunnugt heima hjá þér.
Og giktin, sem er launráð og lymskufull í skapi,
hún lagðist oft svo herfilega þungt í bakið á þér.

Þú kyntir stundum miðstöð fyrir kaupmanninn og prestinn,
og kaupið þitt var hærra en þér bar, að réttu lagi,
það var samt lítill vafi, að þig langaði í meira.
Þú lézt þér jafnvel sæma að kvarta um eigin hagi.

Það sást þó bezt í vetur, er þú týndir tóbaksbauknum
og tíkin komst í grautinn, sem læknisfrúin gaf þér,
hve hugur þinn var bundinn við heimsins lystisemdir,
og hörmulega lítils við gátum vonazt af þér.

Þú gerðist oft svo djarfur, að tala um toll á kaffi
og taldir þetta glæpsamlegt af stjórnarherrum landsins,
en slíkt er ekki ráðlegt fyrir ræfla af þínu tagi,
og reynist jafnvel skaðlegt fyrir trúargleði mannsins.

Þér hlotnuðust þó molarnir af höfðingjanna borðum,
en hamingjan má vita hvort þú skildir miskunn slíka,
og hvort þú hefir lifað samkvæmt lögmáli vors herra,
sem lætur þorskinn veiðast fyrir fátæka sem ríka.

En loksins ertu dauður, þú lítilsigldi maður,
og laun þín eru náttúrlega sanngjörn eins og hinna.
Við ætlum hvorki að forsmá þig né fella þunga dóma.
Þér fylgir inn í eilífðina kveðja bræðra þinna. 


12 strengja steingítar

Fór í gær að skoða legsteininn sem snillingurinn Óskar hjá Sólsteinum vann fyrir okkur. Læt mynd fylgja af honum. Ég er svo ánægð með hvað þessi hugmynd hefur orðið falleg í hinu efnislega. Ef þið skoðið myndina vel - þá er að finna andlit í mynstrinu á steininum. Þeir sem þekkja muninn á 12 og 6 strengja gíturum geta séð að við klikkuðum ekki á að hafa hann 12 strengja.

Mér fannst vel við hæfi að hafa þetta vísubrot með - enda má segja að mamma blessunin hafi villst langt af leið til Danaveldis en er loksins komin aftur heim. Þá fannst mér steingítar vera vel við hæfi, hennar helsta skáld til lagagerðar var Steinn Steinarr - því er steingítarinn einskonar tilvísun í það...

Á von á að hann verði kominn upp við Kotströnd um helgina.

 

Steingítar Bergþóru

 


Raddir fyrir Tíbet - myndband

Á því er að finna ljósmyndir af öllum sem tróðu upp, myndbandsupptöku af Páli Óskari og Moniku að flytja "Betri líf" fyrir hörpu og rödd, dans snjóljónsins og þjóðsöng Tíbeta. Veisla fyrir augu, eyru og sálina:)

Hægt að horfa á það í high quality ef þið farið inn á youtube til að skoða það - mæli með því.


Hilight Tribe - skemmtilega skringilegt myndband

 Er að hamast við að klára myndasýningu sem backdrop fyrir Raddir fyrir Tíbet
datt niður á þetta skemmtilega lag og myndband og langaði bara að deila því með ykkur:) 

Raddir fyrir Tíbet

Þann 24.ágúst klukkan 20:00, standa vinir Tíbets fyrir viðburði til að styrkja flóttamannamiðstöð sem rekin er í Dharamsala. 

KK, Jónas Sig, Svavar Knútur, Páll Óskar & Monica og Jón Tryggvi munu ljá málefninu rödd sína sem og Ögmundur Jónason, Birgitta Jónsdóttir og Tsewang Namgyal munu halda stutt erindi um Tíbet. Harpa Rut Harðardóttir mun sýna ljósmyndir sem hún tók á ferðalagi sínu nýverið í Tíbet í anddyri Salarins og verða myndirnar til sölu og mun andvirði þeirra renna í styrktarsjóðinn.

Í Dharamsala á Indlandi er rekin flóttamannamiðstöð sem tekur við um 3000 flóttamönnum sem flýja Tíbet ár hvert. Mikil aukning hefur verið á því að fólk flýji frá landinu undanfarin ár. Flóttinn tekur um fimm vikur yfir hæstu fjallaskörð í heimi og leggur fólk sig í lífshættu til að öðlast frelsi til að stunda sína menningu og fá tækifæri til að rækta tungumálið sitt. Þriðjungur allra flóttamanna eru börn sem leggja í 90% tilfella ein í þessa för til frelsis. Þau börn sem lifa af flóttann missa oftast tær og putta út af frostbitum.

Allur ágóði af menningarveislunni Raddir fyrir Tíbet rennur til flóttamannamiðstöðvarinnar og gefa allir listamennirnir vinnu sína.

Miðar fást hér: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=5911 og kosta 2000 krónur.


Stundum sakna ég þeirra afskaplega mikið

Blessuð sé minning þeirra
Mamma aka Bergþóra Árnadóttir -
tekið upp úr sjónvarpsþættinum í kjallaranum frá því að ég held 1976
 
 Pabbi aka Jón Ólafsson - kvikmyndað af bróður hennar mömmu Bergi - tekið upp á skipinu hans pabba, Skálafelli. Pabbi er gaurinn með flottu bartana í skipstjórnarstólnum:) Tekið upp 1974
 

Frábær ljósahátíð í gærkvöld

Kerti fyrir Tíbet

Það var eitthvað stórkostlegt við það að taka þátt í aðgerð fyrir friði með milljónum manna um heim allan og sýna þannig Tíbetum sem enn þjást í Tíbet að heimurinn hafi ekki gleymt þeim, þó oft á tíðum virðist svo vera. 

Mér finnst þessi tími sem nú er að líða vera einhver sá mikilvægasti í sögu Tíbet. Af hverju? Jú, staðreyndin er þessi: Tíbetar eru nú í minnihluta í sínu eigin landi. Markvisst er verið að eyða menningu þeirra og lífi þeirra. Þeirra barátta fyrir frelsi snýst ekki um lúxusvandamál heldur um baráttu upp á líf og dauða heillar þjóðar. Ef ekkert verður að gert er öruggt að heimsbyggðin beri ábyrgð á þjóðarmorði. Ég vil ekki naga mig í handarbökin síðar og þess vegna er ég að gera eitthvað. Stundum fallast manni hendur, eins og eftir þessa yndislegu stund sem við áttum í gær með kertum og fólki á Lækjartorgi, heimsviðburður og allt það, þá lét enginn fjölmiðill sjá sig. Ég fékk ekki fréttatilkynningar birtar í netmiðlum og RÚV fjallaði ekki neitt um þetta. 

Svo fór ég að hugsa um hver er drifkrafturinn á bak við aðgerðirnar fyrir Tíbet og hann er ósköp einfaldlega sá að mér finnst svo óendanlega fallegt að sjá Tíbetana örfáu sem búa hér eflast í sinni umleitan að viðhalda menningu sinni. Það er nefnilega þannig með Tíbeta að eina leiðin fyrir þá til að varðveita menningu sína er í útlegð og því finnst mér að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gefa þeim vettvang til þess.

Ég setti saman smá myndband frá hátíðinni okkar fábrotnu í gær og við sem vorum að skipuleggja Kerti fyrir Tíbet um allan heim fengum aðgang að tónlistinni sem er á Songs for Tibet - ég valdi Moby lagið því það passar bara eitthvað svo vel við stemmninguna sem var í gangi í gær meðal okkar milljónanna sem ekki eru frétta virði á Íslandi:) Minni svo á hin vikulegu mótmæli fyrir utan kínverska sendiráðið klukkan 13 á morgunn, Víðimel 29. Óformleg dagskrá - en núna er 23 eða 24 skiptið sem ég stend fyrir hitting á þessum slóðum til að minna á mannréttindabrot í Tíbet.


Kerti fyrir Tíbet og Styrktartónleikar

Þar sem líður senn að Ólympíuleikunum hafa Vinir Tíbets skipulagt viðburði við upphaf og enda leikanna, til að vekja athygli á málstað Tíbeta og ekki síst sýna samstöðu með þeim á meðan á þeim stendur.

- Sett hefur verið af stað átak um allan heim sem kallast Candle for Tibet ( www.candle4tibet.org ) eða Kerti fyrir Tíbet og munu þá milljónir manns um heim allan kveikja á kertum til að sýna stuðning sinn við Tíbeta og friðsamlega frelsisbaráttu þeirra. Kertagjörningurinn fer fram 7. ágúst kl 21.00 og Vinir Tíbets ætla að taka þátt í þessu með því raða upp kertum í miðbæ Reykjavíkur.
Við hvetjum alla til að taka þátt í þessum viðburði með því að mæta á Lækjartorg og kveikja á kertum með okkur, en þeir sem geta ekki verið með eru hvattir til að taka þátt með því að kveikja á kertum á heimilum sínum eða fyrir utan þau þann 7. ágúst kl 21.00, en þetta er kvöldið fyrir opnunarhátíð Ólympíuleikanna.

- Vinir Tíbets skipuleggja um þessar mundir Styrktartónleika sem haldnir verða þann 24. ágúst í Salnum í Kópavogi. Gestir mega eiga von á frábærri sýningu þar sem landsþekktir listamenn koma fram, með tónlistaratriði, ljóðalestur, gjörninga og ávörp. Við búumst við að allir vinir Tíbets og áhugamenn um málefni þess láti sjá sig þetta kvöld og styrki um leið gott málefni.
 
Allur ágóði tónleikanna rennur til Tibetan Reception Centre í Dharamsala, Indlandi, sem er móttökuskýli og fyrsti áfangastaður fyrir tíbeska flóttamenn sem nýkomnir eru úr lífshættulegri göngu sinni yfir Himalayafjöllin í leit að frelsi og betra lífi utan Tíbets.
 
Þessir viðburðir verða auglýstir betur á næstu dögum og vikum. Vonumst til að sjá sem flesta.
 
Með friðarkveðjum,
Vinir Tíbets


Ógleymanlegir tónleikar

Björk og Jónas Sen á Náttúrutónleikum

Ég var svo heppin að standa beint fyrir framan hátalarna og tónlistinn nötraði á tíðum eins og alvöru jarðskjálfti í gegnum mig. Það er mikill frumkraftur í Björk og mér finnst hún alltaf frábær á sviði. Það var gaman að sjá svona mikið margmenni og ég vona að alla vega stórt hlutfalla þeirra sem mættu gerðu það fyrir náttúruna okkar sem á svo sannarlega undir högg að sækja. 

Ég kíkti á vefinn nattura.info og hann er mjög fróðlegur og alveg ótrúlega mikið af fallegum myndum af náttúrunni sem fórna á. Ég hvet fólk til að skoða vefinn og njóta þeirrar fræðslu sem þar er að finna.

Ég náði ekki að upplifa þrjú síðustu lögin, yngri sonurinn orðinn svo þreyttur að við laumuðumst heim áður en lagið sem ég var að bíða eftir alla tónleikana var spilað... Declare independence .... sá reyndar brot af því í beinni á national geographic webcastinu.... 

 


mbl.is Óður til náttúrunnar í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 508764

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.