Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mótmæli í Njarðvík í dag

Fann þetta skeyti inn á facebook áðan og vil endilega koma henni á framfæri og hvetja fólk til að mæta sem blöskrar aðgerðir lögreglu í gær gagnvart hælisleitendum. Vil jafnframt minna á að á sama tíma og verið var að leita hjá flóttafólkinu var lögreglan ekki að leita að manni sem auglýstur var í öllum fjölmiðlum sem lífshættulegur ofbeldismaður og slapp sá hinn sami úr landi á meðan verið var að gramsa í persónulegum munum hælisleitenda. Kaldhæðnislegt í meira lagi.

Boðað er til mótmælasamkomu fyrir utan Lögreglustöðina í Njarðvík í dag, föstudaginn 12. september, klukkan 14:00, til að mótmæla meðferð hælisleitenda á Íslandi og krefja lögregluna svara um aðgerð gærdagsins.

Við krefjumst þess að allir hælisleitendur á Íslandi fái sömu meðferð og væru þeir ráðherradætur, ráðherrasynir.

----

Til lögregluyfirvalda beinum við þessum spurningum:

Hvaða framkoma við hælisleitendur krafðist 58 lögreglumanna gegn 40? Hvaða aðstæður kröfðust aðkomu sérsveitarmanna?

Hvaða vopn báru sérsveitarmenn við aðgerðirnar, var þeim beitt, og hvaða tilefni þótti þá til þess?

Margir voru handjárnaðir við aðgerðirnar, að sögn lögreglu. Hversu margir, af hvaða tilefni og hversu lengi? Voru þeir handteknir? Verða þeir kærðir?

Hvaða lagaheimildir lágu að baki aðgerðinni? Ræðst lögmæti hennar af því hvaða gögn komu í leitirnar og hvaða upplýsingar þau geyma? Ef svo er, hvaða gögn voru það og hvernig er mikilvægi þeirra metið?

Voru allir hælisleitendur beittir sömu meðferð, en ekki aðeins þeir grunuðu?

Gerði lögreglan lögmætar eigur hælisleitenda upptækar? Eða er sannað að þetta hafi verið þýfi og/eða ólögmætar tekjur? Eru lagaheimildir lögreglunnar til þessarar aðgerðar skýrar?

Var brotið á viðurkenndum mannréttindum og lýðréttindum hælisleitenda í aðgerðinni – friðhelgi einkalífs, réttinum til réttlátrar málsmeðferðar?

---

Dómsmálaráðuneytið spyrjum við:

Er það satt að eftir mánaða eða ára bið í algjörri óvissu frétti hælisleitendur á Íslandi af brottvikningu sinni með 10-15 mínútna fyrirvara, áður en þeir eru fluttir á Leifsstöð?

Starfar Útlendingastofnun út frá óskrifuðum reglum um meðferð fólks á grundvelli kynþáttar, upprunalands og/eða fjárhags og stéttar?

Er réttarstaða hælisleitenda og annarra útlendinga sem hingað koma tryggð með lögum og varin með eftirlitsstofnunum? Eða hafa lögregluyfirvöld frjálsar hendur gagnvart þessu fólki? Ráða duttlungar för í meðferð þess?


---

Tekið skal fram að á Íslandi er rétturinn til að koma saman til mótmæla ekki háður leyfi neins yfirvalds.


Óttinn í Lhasa

eftir tíbesku skáldkonuna Woeser

Lhasa kvödd í skyndi. Nú borg óttans.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar er óttinn magnaðri en ef óttanum eftir 1959, 1969 og 1989 væri spyrnt saman.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn býr í andardrætti þínum, í hjartslættinum. Í þögninni, þegar þér langar til að tjá þig en gerir það ekki. Röddin föst í hálsinum.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem síbylja óttans rennur undan rifjum hersveita með vélbyssur. Frá mergð lögreglumanna með byssurnar mundaðar. Frá óteljandi óeinkennisklæddum njósnurum og enn bætir í óttann með risavaxinni vél ríkisvaldsins sem gnæfir yfir þeim, nótt sem nýtan dag. En þú mátt ekki beina myndavél að þeim, þá beinist byssa að þér, þú kannski dreginn inn í skuggann og enginn mun nokkru sinni vita af því.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn í Potala magnast eftir því sem þú ferð lengra í austur, þar sem Tíbetarnir búa. Kvíðvænleg skóhljóð bergmála allsstaðar, en í dagsbirtunni nærðu ekki einu sinni að sjá skugga þeirra. Þeir eru eins og ósýnilegir djöflar á daginn, en hryllilegur óttinn við þá er verstur, þess megnugur að láta þig missa vitið. Ég hef gengið fram hjá þeim, fundið kuldann frá vopnunum í höndum þeirra.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn er grandskoðaður öllum stundum með upptökutækjum og myndavélaaugum á hverju götuhorni, húsasundi og skrifstofu, í öllum klaustrum og musterissölum; allar þessar myndavélar, soga allt í sig. Snúast frá ytri heiminum og þvinga sér inn í huga þinn. “Zap zap jé! – Þeir eru að fylgjast með okkur.” — meðal Tíbeta, fornt máltæki með nýrri merkingu, hvíslað hljóðlega manna á milli.

Lhasa kvödd í skyndi. Ég er harmi slegin vegna óttans í Lhasa. Verð að skrifa um það.

23. ágúst 2008
Á leiðinni frá Lhasa


[Ég var í Lhasa frá 17. ágúst til 23. ágúst 2008. Stysta heimsókn mín til þessa og ég var nauðbeygð til að fara… þessi orð eru skrifuð svo ég gleymi ekki hvað gerðist þar. Það er eitt sem ég verð að segja við kínversk yfirvöld: Þú hefur byssur. Ég hef penna.]

Woeser var handtekinn meðan hún var í Lhasa en var svo lánsöm að vera sleppt.

WoeserUm höfundinn:

(Tsering) Woeser fæddist í Lhasa árið 1966. Hún er dóttir yfirhershöfðingja í kínverska frelsishernum. Þegar hún var fjögurra ára flutti fjölskylda hennar til Kardze, Sichuan. Þar stundaði hún bókmenntanám sem allt fór fram á kínversku. Hún vann í tvö ár sem blaðamaður áður en hún flutti til Lhasa árið 1990. Þar hóf hún störf sem ritstjóri fyrir tímaritið Tíbeskar bókmenntir. Fyrsta ljóðabók hennar Xizang zai shang kom út árið 1999. Vegna þess að hróður hennar óx óðum í bókmenntaheimum, var henni gefinn kostur á að hefja nám við Lu Xun stofnunina í Peking.

Árið 2003 kom út eftir hana safn ritgerða þar sem hún var ekkert að skafa utan af hlutunum, safnið fékk heitið; Notes from Tibet, bókin var bönnuð opinberlega vegna “pólitískra rangfærslna”. Í kjölfarið missti hún vinnuna sína sem ritstjóri og þurfti að flytja alfarið til Peking, þar sem hún hélt áfram að skrifa og fékk nokkrar bækur útgefnar í Taívan, ber þar helst að nefna bókina Forbidden Memory, en hún fjallar um kínversku "menningarbyltinguna" í Tíbet og prýða bókina jafnframt ljósmyndir sem faðir hennar tók á meðan á "menningarbyltingin" stóð yfir. Árið 2006, þegar lokað var fyrir bloggin hennar af yfirvöldum, hóf hún að blogga á erlendum netþjóni. Eftir óeirðirnar og mótmælin í mars á þessu ári hafa kínversk stjórnvöld lokað Tíbet sem og lokað fyrir allar upplýsingar um ástandið þar, þar á meðal hefur verið lokað fyrir bloggið hennar, þannig að Kínverjar hafa ekki haft aðgang að skrifum hennar. Bloggið hennar varð fyrir síendurteknum árásum hakkara og varð fyrir vikið ónothæft, en hægt er að finna athugsemdir og skýringar um ástandið í Tíbet á ensku á vefsvæði China Digital Times.

Árið 2007 hlaut Woeser verðlaun frá norska rithöfundasambandinu, verðlaun til heiðurs tjáningarfrelsi. Hún býr í Peking með eiginmanni sínum Wang Lixiong. Hún hefur ekki frelsi til að ferðast til annarra landa.

Þýðingin er byggð á enskri þýðingu Andrew Clark á ljóði Woeser frá kínversku. Hægt er að lesa ljóðið í þýðingu Andrews á Ragged Banner. Hægt er að finna fleiri ljóð eftir hana á þessum vef, en því miður hefur ekki mikið af verkum hennar verið þýtt yfir á ensku, nema ljóðabókin Tibet´s True Heart sem Andrew Clark þýddi. Hægt er að finna nokkur ljóð á vefnum Ragged Banner úr þessari mögnuðu bók.

Með björtum kveðjum
Birgitta


Dómdagsforsetinn

Heimurinn gæti verið í þeirri skringilegu stöðu að hafa enn vanhæfari forseta sem "valdamesta" forseta heimsins en Bush. Ég vona að bandaríkjamenn beri gæfu til að kjósa ekki yfir sig þessi ósköp. Hef verið að lesa mér til um Sarah Palin og verð að viðurkenna að mér finnst það nánast tragi kómískt ef hún og ellismellurinn McChain verða í forsvari fyrir Bandaríkin. Hún er theocrat, creationist, gegn fóstureyðingum, henni finnst stríðið í Írak vera í boði Guðs og ætlar með gleði í hjarta að senda elsta son sinn í þann óskapnað. Hún trúir á dómsdag, aka rapture og að Alaska muni vera eitt af öruggu fylkjunum þegar heimsendir brestur á og hinir guðsútvöldu munu erfa ríkið.

Það er þekkt staðreynd að talað hefur verið um George Bush sem manninn sem stígur ekki í vitið og spilling sú sem hefur fengið að þrífast undir hans verndarvæng er alveg einstaklega ósmekkleg. En hann er nánast gáfumenni miðað við það sem maður hefur heyrt frá vörum Sarah Palin. Ég held að fólk ætti að sleppa því að hugsa um ræðuna hennar á flokksþingi Repúblikana, því hún samdi hana ekki. Ef maður sér hana tala í öðru samhengi eins og til dæmis ræðan sem hún flutti í kirkjunni sinni, sér maður að þarna er ofsatrúarmanneskja á ferð sem gæti orðið heiminum okkar afar hættuleg. McCain er enginn íþróttaálfur. Hann bryður sterkar svefnpillur sem hafa þannig áhrif á hann að hann er oft sem svefngengill þegar mikið liggur við og það væri nánast kraftaverk af hann lifir af allt álagið sem því fylgir að vera forseti. 

Sarah vildi banna bækur í bænum sínum en erfiðlega hefur gengið að finna réttan lista yfir hvaða bækur það eru. Ég vil taka það fram að ég hef engar sjálfsblekkingar um að Obama sé einhver engill eða bjargvættur en hann er þó skömminni skárri en þessi skötuhjú, svo mikið er víst. 

Bandaríkin eru í vondum málum heima fyrir sem og á heimsvísu. Ástandið í landinu er svo slæmt að það slær út kreppuna litlu sem var þar þegar ég bjó þar á síðasta ári Bush hins eldri, því í ofan á lag við bágt ástand þeirra sem eiga ekki mikla peninga,  hefur hinn nýi þrælamarkaður sótt í sig veðrið, þ.e.a.s. einkavinavæðing fangelsa sem eru nánast stútfull af ungum blökkumönnum sem eru oft handteknir fyrir ekki neitt sem réttlætir margra ára þrælavinna í þessum stofnunum. Við erum að tala um milljónir manna sem eru í þessum ómennsku stofnunum að vinna fyrir minna en fólkið í saumastofunum illræmdu í Asíu.


mbl.is McCain nær forskoti á Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vænta má írafárs út af þessari frétt

Það er nú ekki eins og verið sé að fara fram á að fólk hætti kjötáti heldur hafi einn dag í viku án kjöts. Það er nú varla verið að útrýma kjötætum fyrir vikið.

Ég las grein um þetta fyrir margt löngu en hef ekki haft mig í að blogga um það vegna þess að hérlendis er meðvitund um þessi mál á afar lágu stigi og nánast hvergi í heiminum er fólki eins sama um áhrif hlýnunar andrúmsloftsins. Hvað kemur okkur við þó að fólk missi heimili sín og líf út af hækkandi yfirborði sjávar? Það er svo sem allt í  lagi, að því að við erum að fá svona líka dásamlega heit sumur og blóm í haga. 

Þessar tölur í greininni eru ekki úr lausu lofti gripnar og full ástæða til að skoða hvaða áhrif mikil kjötneyslu hafa á umhverfi okkar sem og heilsu okkar. Var að heyra frétt þess efnis í gær að til eru mjólkurbú hérlendis sem hleypa aldrei út sínum kusum og eru þær inni í sínum litlu búrum alla tíð. Það er ólöglegt og siðlaust. En með stækkandi búum virðist staða dýraverndar hafa versnað til muna hérlendis. Þegar dýr til manneldis eru orðin að verksmiðjuafurð þá er hætt við að siðferði sé látið um lönd og leið og hámarks nýting og arður er það eina sem skiptir máli. Sem betur fer er þetta ekki orðið svona allsstaðar en það vita allir sem fylgjast með fréttum að staða smábænda er sífellt að vera verri og margir að gefast upp.

Persónulega finnst mér að það skipti ekki máli hvort að öll eða hluti jarðhitans sem við stöndum frammi fyrir sé af okkar völdum. Mér finnst að við eigum að gera allt sem í okkar mannlega valdi sé til að sporna við þessari þróun. Það getum við aðeins gert ef við erum meðvituð um ástand mála og meðvituð um að ef við öll erum tilbúin að gera eitthvað í okkar daglega lífi til að breyta okkar neysluháttum er möguleiki á að sporna við þessu. 

Ef ég væri eina manneskjan sem minnkar neyslu, endurvinn, keyri lítið og borða minna af dýraafurðum þá er það til lítils - en sem betur fer er til eitthvað af fólki sem er að þessu en það er ekki nóg. Miklu fleiri þurfa að skoða sinn gang og spá í hvernig lífið hér á jörðinni verður eftir 20 ár ef við gerum ekki neitt. 


mbl.is Minni kjötneysla dregur úr hlýnun andrúmsloftsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamleg lítil örsaga úr smiðju Gandhi

Hafið endilega yndislega helgi kæru bloggfélagar - ætla að reyna að blogga ekkert um helgina. Lofa samt engu. Maður er svo forfallinn fréttafíkill og hættulega skoðanastór:) Fannst þessi dæmisaga alveg í takt við hvernig ég vil lifa og vera. Gaman væri að sjá okkar ráðamenn gera hið sama.

"We must be the change we wish to see."
Mahatma Gandhi, 20th century Indian spiritual & political leader

A woman travels across India to see Gandhi.


After waiting all day to speak to him, she asks him to tell her child to stop eating sugar. He tells her to come back in a week.

She travels to see Gandhi the following week. She asks him to tell her son to stop eating sugar. He says to the child,"Son, stop eating sugar."

The mother asks Gandhi why she had to wait a week and travel such a great distance for the second time.

He tells her, "A week ago, I was still eating sugar."


Fjöldi vitna að þessu

"Uppi hafa verið ásakanir um að lögregla hafi reynt að koma í veg fyrir að matarbirgðum væri komið í tjaldbúðir mótmælenda við Kárahnjúka. Í skýrslunni segir að samkvæmt skráðum gögnum frá lögreglustjórum hafi engin slík tilraun verið gerð af hálfu lögreglu"

Icelandic government - pimps of natureÞví miður verður maður að draga alla þessa skýrslu í efa því ég hnaut strax um eina lygi sem auðvelt er að sanna. Það var fullt af fólki sem hafði ekkert að gera með mótmælin sem varð vitni og upplifði þessar hömlur á að mótmælendur fengju að flytja vistir í búðirnar. Lögreglan fyrir austan hefur verið þekkt fyrir lygar varðandi mótmælendur við Kárahnjúka og finnst mér þessi skýrsla algerlega merkingalaus ef aðeins hefur verið rætt við lögregluna en ekki neinn annan til að komast í botns á þessu. Það er alvarlegt mál ef reynt er að svelta fólk til hlýðni og mótmælabúðirnar við Lindur voru engum til ama. 

Ég hitti fólk sem var þarna fyrir tilviljun en varð vitni að því þegar lögreglan gerði innrás í búðirnar til að leysa þær upp og það var þessu fólki mikið áfall hvernig vinnubrögð lögreglu voru. Minnir að þau hafi verið í brúðkaupshálendisferð og gist í búðunum eina nótt en næsta morgunn hafi lögregla ákveðið að leggja til atlögu. Ég hef líka heyrt af og hitt slatta af fólki sem var á ferðalagi í nágrenni við Kárahnjúka og var stöðvað af lögreglu og spurt hvaða skoðanir það hefði á virkjuninni og í sumum tilfellum matur gerður upptækur. 


mbl.is Símar voru ekki hleraðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisgjöf

Sem betur fer heyrir maður svona fréttir af og til þar sem manngæskan er í fyrirrúmi. Staðfestir enn og aftur hvað gæska sem slík hefur jákvæð áhrif ekki bara á manneskjuna sem öðlaðist í þessu tilfelli sjálfstæði handan hömlunar á ný, heldur þau jákvæðu viðbrögð sem svona fréttir hafa á þá sem heyra af góðverkinu. 

Ég mun eins og hinir sem hafa tjáð sig um þessa frétt, taka vörur Mjólku framyfir aðrar:) Bravó Ólafur og bravó Ástþór fyrir dugnaðinn:)  


mbl.is Fékk styrk til að leysa út vélarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækka launin er eina lausnin

Mér finnst þessi tillaga langt í frá boðleg. Eina lausnin á manneklunni er að bjóða fyrir þessi störf mannsæmandi laun. Nú þegar hafa frístundaheimilin liðið fyrir það rétt eins og annað sem kemur að börnum að mannabreytingar eru svo tíðar að maður hefur ekki undan að kynnast fólkinu sem er að sjá um börnin. Það er bara ekki gott fyrir sálarlíf barna að þurfa að þola þessar stöðugu breytingar, en eitt af þeim grundvallar atriðum sem manni var kennt í upphafi uppeldis var að börn þurfa formfestu og reglu, án þess líður þeim ekkert sérstaklega vel.

En kannski er stóra vandamálið foreldrar. Foreldrar eiga erfitt með að styðja kennara og aðra í baráttu þeirra fyrir mannsæmandi kjörum, samanber kennaraverkfallið forðum daga. Við gætum sýnt stuðning við þessu ófremdarástandi með frístundarhemilinn með því að hreinlega mæta ekki í vinnu eftir að skóla líkur, það myndi skapa miklu meiri þrýsting á að finna lausn á þessu máli, í stað þess að láta sjö ára börn valsa um ein með lykil um hálsinn.

Grunnþjónustan hjá borginni er í molum eins og þessi tillaga sýnir. Mér er ekki sama hver lítur eftir mínu barni. Sú hugmynd bjóða fólki að axla meiri ábyrgð hlýtur að kalla eftir betri launum. Það hlýtur að vera meiri ábyrgð að vinna með börnum en skúra gólf. 


mbl.is Rætt um að skólaliðar starfi á frístundaheimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu kínversk yfirvöld ræða við hann?

Dalai Lama

Ég var að klára að lesa afar fróðlega bók sem heitir "Leitin að Panchen Lama". Í henni er fjallað um sögu tíbeskra lama sem og sögu Tíbets með höfuð áherslu á tvö atriði, samband Dalai Lama og Panchen Lama. Þeir hafa jú báðir endurholdgast um langa hríð og átt í miklum samskiptum í gegnum aldirnar. Sú hefð hefur verið á að Panchen Lama stjórnar leitinni að næstu endurholdgun af Dalai Lama og Dalai Lama að Panchen Lama. 

Kínversk yfirvöld rændu þeim dreng sem Dalai Lama útnefndi sem Panchen Lama og hefur ekkert til hans spurst né fjölskyldu hans síðan 1995. Kínversk yfirvöld völdu sjálf sinn Panchen Lama sem er merkilegt því þeirra stefna er trúleysi en samt telja þau sig hafa yfir nægilegum andlegum burðum til að geta tekið ákvörðun af þessu tagi gagnstætt vilja þeirra sem trúa á endurholdgun. 

Maður hlýtur því að spyrja sig hver tilgangur þess hafi verið og ef til vill var það þeirra ósk að þeir gætu breytt gangi sögunnar í þessari mikilvægustu athöfn tíbetskrar þjóðmenningar með þessum gjörningi.

Dalai Lama eldist og þrátt fyrir almenna góða heilsu þá veit maður aldrei hvenær dauðinn knýr dyra. Það er einlæg ósk Tíbeta sem og þeirra er láta sig málefni landsins varða að kínversk yfirvöld hefji viðræður við Dalai Lama um framtíð landsins. Að því hefur verið unnið leynt og ljóst um langa hríð, en engu hefur sú viðleitni skilað. Kannski hafa kínversk yfirvöld málað svo ljóta mynd af þessum manni friðar og manngæsku að þeir geta ekki farið úr þessu að ræða við hann og jafnframt haldið andliti. Ég vona að pólitíska spil CCP verði ekki að hunsa Dalai Lama uns hann deyr. Ég vona að þeir muni hafa gæfu til að snúa við þessari harðneskju sem þeir beita Tíbeta. 

nobelpeace

Bókin fjallar einnig um pólitíska sögu Tíbet og verður manni það deginum ljósara að Kína átti ekki meira tilkall til Tíbet en Danmörk til Íslands.

Þá fjallar bókin um hvaða hlutverk Panchen Lama lék í að reyna sannfæra þjóð sína um að kommúnismi væri þeim til góða. Það verður að hafa í huga að bæði Dalai Lama og Panchen Lama voru ansi ungir að árum þegar innrásin var gerð í landið. Honum varð þó ljóst eftir að hann sá með eigin augum á ferðalagi um landið hve illa var farið með landa sína að kínverskum yfirvöldum var ekkert heilagt, hvort heldur það kom að mannslífum eða menningu Tíbeta. Hann skrifaði merkilegt bréf þar sem hann gagnrýnir kínversk yfirvöld harðlega fyrir ofbeldið á þjóð sinni og fær fyrir það að dúsa um langa hríð í fangelsi og sæta pyntingum og niðurlægingu. Þetta var annar valdamesti trúarleiðtogi Tíbeta á þessum tíma. Leiddar eru að því líkur í bókinni að Panchen Lama hafi verið myrtur í Tíbet og sú manneskja sem lék aðalhlutverkið í þeim harmleik var enginn annar en núverandi forseti Kína, Hu

hu

Meðan ég var að lesa þessa bók og um hlutverk þessa manns í nokkrum verstu voðaverkum sem tíbeska þjóðin hefur orðið að þola, fór forseti okkar miklum og drakk kampavín og talaði fjálglega um hvað litlar þjóðir væru í eðli sínu stórar, hann talaði um frekara samstarf á sviði viðskipta en minntist aldrei á mannúð eða mannréttindi. Svo stór þjóð erum við að við eigum forseta sem þorir ekki að tala um mannréttindi. Hvað ætli það segi um okkur?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum málefnum, ég veit eiginlega ekki af hverju. Ég hef lesið og hlustað á fræði Dalai Lama og komist að því að þessir maður er nánast guðlegur, ekki vegna þess að hann geti framkvæmt kraftaverk eða gengið á vatni. Nei guðlegur í því hvernig hann er mennskur. Þrátt fyrir að liggja á spítala, þá fastaði hann í 12 tíma táknrænni föstu sem snérist öll um að biðja fyrir hamingju og friði allra sem á þessari jörð búa, með höfuð áherslu á frið meðal Tíbeta og Kínverja.

Á meðan styggðaryrðin hnjóta af vörum kínverska yfirvalda í hans garð, biður hann fyrir því að þeir öðlist hamingju á sjúkrabeði í fyllstu einlægni, mér finnst það bera vott um að laða fram það besta sem í mannlegu eðli býr og get ekki annað en notað hann sem mína fyrirmynd í þessu lífi. 

Panchen Lama

Vegna þess að ég hef aldrei séð eða heyrt hann segja neitt sem brýtur gegn minni samvisku eða siðferðiskennd, vegna þess að ég hef alltaf séð hann velja veg friðar, þó manni sé fyrirmunað að skilja hvernig það sé hægt, vegna þess að hann hefur þurft að missa vini, ættingja, og eina milljón af þjóð sinni yfir móðuna miklu vegna aðgerða kínverskra yfirvalda. Vegna þess að þrátt fyrir að horfast í augu við þjáningu heimsins hefur hann slíka útgeislun að ósjálfrátt læðist bros frá innstu hjartarótum þegar maður sér hann, vegna þess finnst mér það vera mikil blessun að slík manneskja sé til sem getur með tilveru sinni einni verið leiðarljós á tímum sem auðvelt væri að missa trúna á manneskjunni.

Fyrir það er ég þakklát og vegna þess vil ég gera það sem er í mínu mannlega valdi til að hjálpa þjóð hans sem engum hefur gert neitt en verið er að þurrka út. Ég er þakklát fyrir þessa menningu friðar og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni frá bernsku, ég er þakklát og hef skilið að það sem færir mér mesta hamingju í lífinu kemur frá þeim einfalda gjörningi að hjálpa öðrum af hjartans einlægni.

Bókina sem ég vísa í má fá á Amazon, hún heitir The Search for the Panchen Lama og er eftir Isabel Hilton. Ég er að byrja á annarri bók sem heitir Why the Dalai Lama Matters eftir Robert Thurman, hef heyrt að hún sé mjög góð. Læt ykkur vita hvernig mér finnst sú lesning:) 


mbl.is Dalai Lama útskrifaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldur undir snjónum

Sýnishorn úr Fire under the Snow - heimildarmynd um munk frá Tíbet sem haldið var í fangelsi í 33 ár. Hann þurfti að þola pyntingar í öll þessi ár en sál hans og hugur var aldrei brotinn. Þetta er sagan hans og hinna fjölmörgu Tíbeta sem eru enn í fangelsi. Mörg þúsund Tíbeta hafa verið handteknir síðan í mars. Nokkur hundruð eruð horfnir. Ekki gera ekki neitt. Kynntu þér ástandið.
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 509715

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband