Leita í fréttum mbl.is

1 ráðherra og 2 þingflokksformenn

munu hitta Dalai Lama á morgunn. Það eru Ögmundur Jónasson, Björgvin G. Sigurðsson og ég:) Ég er ákaflega ánægð að þessi fundur muni eiga sér stað. Það er nefnilega neyðarlegt að æðstu embættismenn þjóðarinnar komi sér hjá því að hitta friðarhöfðingjann.

Því er það svo að þau okkar í þingheimi sem höfum stutt málefni Tíbets ákváðum að eiga fund saman með honum, þar eiga Ögmundur og Björgvin mikinn heiður skilið. 

Ég var farin að skammast mín allverulega fyrir það að vera Íslendingur. Þetta er þó allavega eitthvað í áttina. Það hefði verið mjög neyðarlegt að vera grátbiðja um hjálp um víða veröld og eiga svo enga mannúð sjálf.

Ég hitti Dalai Lama bæði sem friðarboðbera sem og talsmann þjóðar sem ég met mikils.


mbl.is Fólk farið að streyma í Hallgrímskirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlakka til að hitta hann

Ég er svo lánsöm að fá að hitta Dalai Lama við tvö tækifæri á þriðjudaginn. Fyrst eldsnemma um morguninn með félögum mínum úr Vinum Tíbets, síðan með Utanríkisnefnd í þinghúsinu um tvöleitið. Hlakka til að hitta hann og vona að einhverjir ráðherrar sjái sóma sinn í að bjóðast til að hitta friðarhöfðingjann. Það er ekki á okkar löskuðu ímynd erlendis bætandi að sýna ekki þessum merka manni tilhlýðilegan sóma. Verð samt að hrósa forseta alþingis og formanni utanríkisnefndar fyrir að hafa frumkvæði að því að bjóða hann velkominn til okkar.

Hér eru smá upplýsingar um félagið sem ég er hluti af og mun halda mini film fest með myndum sem tengjast Tíbet á kaffi Rót eftir rúmlega viku.

IMG_8602Vinir Tíbets er félag sem var stofnað í apríl 2008

Tilgangur okkar er:

•    að stuðla að vinasambandi íslensku og tíbetsku þjóðanna og auka þekkingu hér á landi á menningu og sögu Tíbets.

•    að vekja athygli hérlendis á ástandi mála í Tíbet.

•    að standa fyrir fjársöfnun til að hjálpa flóttafólki frá Tíbet.

•    að fá fræðimenn, listamenn, stjórnmálamenn og aðra þá sem tengjast málefnum félagsins til að halda erindi, fyrirlestra, tónleika og þess háttar hér á landi.

Til þess að skrá þig í félagið:

•    Endilega skrifaðu upplýsingar þínar á blaðið á borðinu hérna.

•    Eða sendu tölvupóst með nafni, netfangi, GSM og heimilisfangi þínu til info@tibet.is

Við erum á Facebook!             

2009 Stjórnendur:

•    Formaður: Birgitta Jónsdóttir
•    Ritari: Halldóra Þorláksdóttir
•    Gjaldkeri: Deepa Iyengar
•    Meðstjórnendur: Tsewang Namgyal, Tenzin Dakten, Katrín Björk Kristinsdóttir, Harpa Rut Harðardóttir, Hannes Högni Vilhjálmsson


mbl.is Dalai Lama í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég sagði NEI við þessu frumvarpi

ásamt Þór Saari. Við vorum einu þingmennirnir sem greiddu atkvæði gegn þessu frumvarpi. Það hve hratt svona flókið frumvarp átti að fara í gegnum þingið finnst mér algerlega óásættanleg vinnubrögð. Þónokkuð hefur borið á því að það eigi að keyra frumvörp í gegn á afbrigðum síðan þing var sett. Mér finnst að það eigi að vera til algerra undantekninga en ekki eitthvað sem maður á að greiða atkvæði með nánast á degi hverjum. Ég mun því uns þetta verklag verður lagað sitja hjá eða greiða atkvæði gegn flýtimeðferð á frumvörpum í gegnum þingið. Skil reyndar ekki af hverju restin af stjórnarandstöðuflokkunum greiddu ekki atkvæði gegn þessu tiltekna frumvarpi sem greinilega var þess eðlis að margt óljóst og afar stórt í sniðum er varðar þjóðarhag hékk á spýtunni.

p.s. Margrét og Þráinn voru forfölluð og útskýrir það af hverju þau tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.


mbl.is Þingmenn fá ekkert að vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfni

Þetta frumvarp var illa ígrundað og skammarlegt að það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerir til að fylla upp í gapið ógurlega sé að samþykkja eitthvað sem var útskýrt fyrir þeim þannig að þau samþykktu öll sem eitt með fullri meðvitund að hækka skuldabyrði heimilanna um 8 milljarða á meðan ríkissjóður fær aðeins í sinn hlut 2.5 milljarð. Ég skil ekki svona vinnubrögð og mér finnst þau bera vott um einstaka vanhæfni. Það er engum manni til vansa að viðurkenna mistök og draga svona umdeilda og vafasama aðgerð til baka og fá frumvarpið lagfært eða í það minnsta sundurliðað með tölum er sýna heildaráhrif á hið alltum flókna kerfi okkar.

Ég er kannski alltof mikil bjartsýnismanneskja að ætla fólki það að bregða út af sínu harðeðli. En ríkisstjórn sem hvetur þingið til að kjósa samkvæmt samvisku sinni varðandi aðildarviðræður um EU ætti kannski að sýna betra fordæmi en hún sýndi í kvöld.


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brask í boði ríkisins

Það er margt gruggugt sem enn á sér stað hjá ríkisbönkunum. Þar er enn við völd fólk sem handstýrði hruninu á betri launum hjá ríkinu en sjálfur forsætisráðherra landsins. Svo heldur braskið áfram í boði ríkisins, samanber þessi frétt: "Karen Millen stofnaði samnefnt fyrirtæki ásamt fyrrum eiginmanni sínum Kevin Stanford árið 1981. Árið 2001 keyptu íslenskir aðilar og félög á þeirra vegum 40% hlut í fyrirtækinu Karen Millen. Stærsti íslenski eigandinn var Kaupþing en meðal annarra fjárfesta voru þeir Sigurður Bollason og Magnús Ármann, einn stærsti hluthafinn í Byr.

Árið 2004 var Karen Millen seld til Oasis Group, sem var í meirihlutaeigu Baugs Group. Voru viðskiptin metin á 15,8 milljarða króna og greitt fyrir Karen Millen með peningum og hlutabréfum og eignuðust hluthafar Karen Millen 25% hlut í hinu sameinaða fyrirtæki.

Síðar fór Karen Millen undir keðjuna Mosaic Fashions sem nú er gjaldþrota, en Baugur átti helmingshlut í keðjunni sem var fjármagnaður af Kaupþingi. Nýtt félag, Aurora Fashions sem er í eigu Nýja Kaupþings og lykilstjórnenda Mosaic, tók í mars yfir helstu eignir félagsins, það er Karen Millen, Warehouse, Oasis, Coast og Anoushka G.


mbl.is Karen Millen og Byr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að búa til kraftaverk

Segja má að fyrir hvern og einn sem fær gervifót í þessari mögnuðu aðgerð sé verið að búa til kraftaverk í lífi þeirra. Þetta er með sanni frábært framtak og gaf mér gleðisting í hjartað.

Ég hef alltaf verið heilluð af sjálfboðaliðastarfi og nú þegar þrengir að hjá okkur er kærkomið tækifæri fyrir þjóðina mína að gera meira af slíku. Ég held að miðað við þann mikla niðurskurð sem framundan er að skólar, sjúkrahús, elliheimili þyrftu á aðstoð sjálfboðaliða að halda. Það á að fækka skólaliðum sem fylgjast til dæmis með börnunum þegar þau eru úti í frímínútum. Allir sem þekkja til eineltis vita að frímínúturnar eru martröð fyrir krakka sem eru lagðir í einelti ef enginn fullorðinn er til staðar.

Það er lítil hefð fyrir sjálfboðaliðavinnu hérlendis, en víða um heim eru sjálfboðaliðavinna grunnur að  samfélagsgerðinni, þar þykir það til dæmis sjálfsagt að foreldrar séu vikir í að hjálpa til í skólum barna sinna. Þar fer fólk inná sjúkrahús og elliheimili og veitir fólki félagskap með spjalli og upplestri. Sjálfboðaliðastarf þarf ekkert að vera flókið - það getur einmitt snúist um jafn einfaldan hlut og að sýna hlýju og alúð.


mbl.is Kraftaverk á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar

Hvað finnst ykkur að sé mikilvægast að einbeita sér að á þessu sumarþingi? Set hér fram skránna um þau 38 lagafrumvörp sem áætlað er að vinna að á sumarþingi. Finnst listi mála sem vel mega bíða fram á haustþing furðulega langur. Nær væri í mínum huga að gefa nefndum kost á að vinna vandaða vinnu - helst fullan vinnudag - sér í lagi nefndum sem eiga að fjalla um stóru málin í sumar og hreinlega fresta þingfundi á meðan - ágætt væri fyrir þingmenn að skreppa út og tala við mann og annan og heyra frá fyrstu hendi þá miklu reiði sem ómar um samfélagið. 

Í eftirfarandi skrá er getið um þau lagafrumvörp, sem unnið er að í einstökum ráðuneytum og áformað er að flytja á 137. löggjafarþingi. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta einnig hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp tillögur til þingsályktunar, sem ætlunin er að flytja.

Forsætisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, sem efnt er til í kjölfar ákvörðunar Alþingis eða ríkisstjórnarinnar, en einnig ef til hennar kemur vegna ákvæða stjórnarskrárinnar (breyting á kirkjuskipan o.fl.).
  2. Frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um val á fulltrúum, skipulag og verkefni stjórnlagaþings.
  3. Frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna milli ráðuneyta. Í frumvarpinu verður að finna ákvæði um þær breytingar á heitum og verkefnum ráðuneyta sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og koma eiga til framkvæmda á árinu 2009.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis nr. 24 16. maí 2000. Um er að ræða breytingar á lögunum svo unnt sé að taka upp svokallað persónukjör þar sem kjósendur geti haft meiri eða minni áhrif á val á frambjóðendum í kosningum.  
  2. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5 6. maí 1998.  Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórnar og að tekið verði upp persónukjör, líkt og í kosningum til Alþingis.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um aðild starfsmanna við samruna hlutafélaga yfir landamæri.
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem fela í sér innleiðingu á 16. gr. tilskipunar nr. 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundna ráðningu starfsmanna.Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum að teknu tilliti til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á innleiðingu tilskipunar nr. 1999/70/EB, um tímabundnar ráðningar, hér á landi.
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfsmenn í hlutastörfum.
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum að teknu tilliti til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á innleiðingu tilskipunar nr. 97/81/EB, um hlutastörf, hér á landi. 
  4. 4.    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar.
    Í frumvarpinu verður lögð til breyting á lögunum sem felur í sér breytingu á frítekjumarki vegna fjármagnstekna elli- og örorkulífeyrisþega

Fjármálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Frumvarpið er liður í vinnu að endurreisn bankakerfisins. Það var upphaflega flutt á síðasta þingi en verður endurflutt.
  2. Frumvarp til lokafjárlaga 2007. Frumvarpið var upphaflega flutt á síðasta þingi en verður endurflutt.
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjararáð. Í athugun er að gera þá breytingu að forræði Kjararáðs nái til fleiri ríkisaðila en nú er.
  4. Frumvarp til laga um heimild til að veita ríkisábyrgð á lánum til að styrkja gjaldeyrisforðann o.fl.
  5. Skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum 2009 til 2013. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er ákveðið að áætlun þessi verði lögð fram til kynningar. Í henni er gerð grein fyrir þeim aðgerðum í ríkisfjármálum sem taldar eru nauðsynlegar til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu árum og standa við forsendur aðstoðaráætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
  6. Frumvarp til breytinga á ýmsum skattalögum o.fl. vegna tekjuöflunar ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir á grundvelli áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum verði nauðsynlegt að auka tekjur á þessu ári.
  7. Frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til lækkunar á ríkisútgjöldum 2009. Gert er ráð fyrir á grundvelli áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum verði nauðsynlegt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári.

Heilbrigðisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um heilbrigðisstéttir.  Tilgangur frumvarpsins er að samræma ákvæði fjórtán laga sem nú gilda um heilbrigðisstéttir og fella í eina rammalöggjöf.  Nánari ákvæði um einstakar stéttir verði sett með reglugerðum.

Iðnaðarráðuneytið

Engin fyrirhuguð þingmál á 137. löggjafarþingi.

Menntamálaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náms- og starfsráðgjafa. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fela viðurkenndum háskólum sem bjóða upp á nám í náms- og starfsráðgjöf að gefa út leyfisbréf til náms- og starfsráðgjafa.
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að falla frá kröfum laganna um ábyrgðarmenn.

Samgönguráðuneytið

Engin fyrirhuguð þingmál á 137. löggjafarþingi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006.  Um er að ræða upptöku á nýjum flokki veiða, svokölluðum strandveiðum, þar sem handfæraveiðar verða frjálsar innan ákveðins ramma og að uppfylltum settum skilyrðum.  Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um svokallaðar frístundaveiðar og heimildir til að leyfa smáveiðar í fræðsluskyni, auk ákvæða er varða skiptingu veiða úr stofnum djúpkarfa og gullkarfa.
  2. Frumvarp til laga um hvali, sem kemur í stað eldri laga um hvalveiðar nr. 26/1949 og miðast við breyttar þjóðfélagsaðstæður og þá þróun sem orðið hefur á stjórnsýslurétti.
  3. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á nýrri matvælalöggjöf Evrópusambandsins.
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993.  Frumvarpið er flutt vegna framlengingar á búvörusamningum um mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, sem gerð var 18. apríl síðastliðinn.

Umhverfisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur,  nr. 18/1996.  Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins  2001/18/EB í íslensk lög, um vísvitandi sleppingar erfðabreyttra lífvera í náttúruna.
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni. Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 842/2006/EB í lög um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir en tilskipunin hefur verið felld inn í EES samninginn. Frumvarpið fjallar um kröfur sem gerðar eru til aðila sem annast uppsetningu, viðhald og aðra þjónustu vegna kælikerfa, loftkælinga og slökkvikerfa sem innihalda gróðurhúsalofttegundir.
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Markmið frumvarpsins er að innleiða í lög reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 1013/2006/EB um flutning úrgangs en tilskipunin hefur verið felld inn í EES samninginn.
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003 meðhöndlun úrgangs og lögum nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Markmið frumvarpsins er að starfsemi Endurvinnslunnar hf. verði breytt til samræmis við kröfu um framleiðendaábyrgð, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjavöruumbúða.  Við þessa breytinu munu lög nr. 52/1989 falla út gildi.  Setja þarf ákvæði um  einnota drykkjavöruumbúðir inn í lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og jafnframt að fella niður ákvæði um einnota drykkjavöruumbúðir í lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002.
  5. Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009 – 2013.  Umhverfisráðherra ber skv. lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd að vinna náttúruverndaráætlun á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi.  

Utanríkisráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um eftirlit með hlutum, tækni og þjónustu sem hafa hernaðarlega þýðingu. Með frumvarpinu eru m.a. uppfærðar gildandi reglur (lög nr. 4/1988 um útflutningsleyfi) um eftirlit með útflutningi hluta, sem hægt er að nota í hernaði eða til hryðjuverka, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
  2. Tillaga til þingsályktunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Viðskiptaráðuneytið

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
    Á grundvelli EES-reglna þarf að breyta ákvæðum framangreindra laga til að einfalda reglur við samruna og skiptingu félaga. Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfisreglum í ljósi fjármálaáfallsins.
  3. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í frumvarpinu felst heildarendurskoðun á þeim kafla laganna sem fjallar um sparisjóði.
  4. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við ákvæði í bráðabirgðaákvæði með lögum um fjármálafyrirtæki, er varða heimilda skilanefnda og slitastjórna til útgreiðslu.
  5. Frumvarp til laga um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. 
    Tilgangur frumvarpsins er að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra.
  6. Frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi.
    Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um vátryggingarstarfsemi. Með frumvarpinu eru gerðar tillögur að innleiðingu tilskipunar um endurtryggingu í íslenskan rétt.  Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum. 
    Í frumvarpinu er lagt til að tæming réttinda (réttindaþurrð) miðist við Evrópska efnahagssvæðið, í stað alþjóðlegrar tæmingar.  Hliðsjón er höfð af nýlegum dómi EFTA-dómstólsins.  Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi, en ekki afgreitt.
  8. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti.
    Frumvarp þessi felur í sér innleiðingu á ákvæði tilskipunar um óréttmæta viðskiptahætti.  Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi, en var ekki afgreitt.

mbl.is Allt undir í Karphúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar hvert stöðugildi?

Gott væri að reikna út hvað hvert stöðugildi kostar við byggingu tónlistarhússins miðað við til dæmis viðgerðir á vegum landsins sem sumir hverjir eru í vægast sagt hættulegu ástandi. Ég er nú enginn talnaspekingur en mér rennur í grun að það væri töluvert ódýrara að ráða fólk í vinnu við að laga það sem þegar hefur verið byggt og er að grotna niður - sér í lagi út á landi, en að halda áfram að byggja tónlistarhúsið.

Endilega leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér.


mbl.is Deilt um tónlistarhús á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jómfrúrræðan mín

Kæra þjóð

Þessi ríkisstjórn hefur lagt fram frábæra stefnuskrá ef hún hefði verið sett saman fyrir árið 2006. Stjórnarsáttmálinn hefði án efa komið þjóðinni að verulegu gagni í góðærinu. En ríkisstjórnin virðist ekki vera meðvituð um að við erum tæknilega séð gjaldþrota þjóð.

Þessi stjórn hefur um margt góðan vilja og margt í þeirra stefnu sem Borgarhreyfingin getur stutt varðandi lýðræðisumbætur. Stjórnin hefur sett frábært fordæmi fyrir nýjum vinnubrögðum á þinginu með því að leggja ESB málið í dóm samvisku sérhvers þingmanns óháð flokkslínum. Þarna er kominn vísir að vinnubrögðum sem við viljum upplifa á þinginu.

En þegar ég las verkefnalista sumarþingsins varð ég satt best að segja reið. Öskureið vegna þess að þessi listi endurspeglar ekki þá brýnu þörf á neyðaraðgerðum til að hjálpa fjölskyldunum í landinu. Reið því ég upplifi eins og svo margir aðrir að ráðamenn hafi ekki fullan skilning á því hörmulega óréttlæti sem við höfum orðið fyrir og virðast ekki skilja umfang neyðarinnar. Það þýðir ekkert að vera með bómullaraðgerðir eða málamiðlanir til að þóknast öllum hags á meðan þjóðinni er að blæða út.

Nú þurfa stjórnvöld að sýna okkur að þau hafi þor og vilja til að forgangsraða rétt, sýna að þau setji fjölskyldurnar í fyrsta sæti en ekki fjármagnseigendur.

Samkvæmt því sem komið hefur fram telur ríkisstjórnin að þær aðgerðir sem hún hefur boðað séu nægilega góðar til að hjálpa nauðstöddum. Því mun ekkert verða gert á þessu sumarþingi til að bregðast við neyðarópum almennings um hjálp.

Við verðum að hugsa út fyrir ramman – taka hugrakkar ákvarðanir sem litast ekki af flokkadráttum eða valdapólitík. Það er ekkert réttlæti í því að veðsetja vinnu Íslendinga til næstu 70 ára til að borga skuldir sem þjóðin efndi aldrei til.

En það verður engin þjóðarsátt fyrr en fargansröðin verður rétt hjá núverandi ríkisstjórn. Það verður engin þjóðarsátt nema hér verði skuldastaða heimilanna leiðrétt með stórum heildrænum aðgerðum sem koma heimilunum strax til hjálpar áður en fólk hreinlega gefst upp.

Kæru landsmenn

Þjóðin hefur verið beitt miklu óréttlæti. Það verður að draga einhverja til ábyrgðar á því hruni sem við sjáum enn ekki fyrir endann á. Það er mikil reiði í samfélaginu. Ef enginn verður færður til saka og eigur þeirra sem enn svíkja og pretta fyrir opnum tjöldum frystar á meðan rannsókn stendur, mun skella á önnur bylting, bylting fólks sem hefur engu að tapa. Það er einfaldlega ekkert réttlæti í því að þeir aðilar sem hafa hneppt komandi kynslóðir í rammgert skuldafangelsi gangi enn lausir á meðan aðrir er fangelsaðir og sektaðir fyrir að stela sér í matinn.

Ósjálfrátt eru háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar grunaðir um hagsmunatengsl.

Endurreisnin verður að fela í sér von. Von um réttlátt samfélag sem er ekki gróðrarstía svika og pretta. Vonin kemur þegar ljóst er að hér verði tekið föstum tökum á spillingu og að það sé tilgangur með því að fórna sér enn og aftur fyrir samfélagið sem við búum í. Ef hér verða ekki gerðar nauðsynlegar stjórnsýslubreytingar og lýðræðishallinn réttur af, mun fólk eiga það á hættu að lenda í sömu stöðu áður en langt um líður.

Það er því miður staðreynd að AGS stjórnar fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Við megum ekki láta þau fjölmörgu varnarorð sem við höfum fengið um þá vá sem við stöndum frammi fyrir sem vind um eyru þjóta. Auðlindir okkar og sjálfstæði er í bráðri hættu. Lærum af reynslunni í þetta sinn. Við vorum ítrekað vöruð við vegna ofþenslu í bankakerfinu okkar, en hlustuðum ekki, gerðum lítið úr þeim sem varnarorðin sögðu og uppskárum algert hrun fyrir vikið.

Yfir okkur vofir skriðþungi jöklabréfa sem geta hæglega gefið, því sem næst gjaldþrota hagkerfi okkar náðarhöggið. Við krefjumst þess að leyndinni yfir þeim verði aflétt nú þegar, sem og bankaleyndinni. Þjóðin krefst þess og við erum hér inni á þessu þingi til að þjóna henni og því megum við aldrei gleyma.




mbl.is Átta jómfrúrræður í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær skemmtun

Mikið finnst mér þetta gott framtak og fallegt - það er gaman að sjá hve fjölbreytt samfélagið okkar er orðið og ég var að sjálfsögðu sérstaklega ánægð að sjá dans Snæljónsins frá Tíbet - tók meira segja þátt með yngri syni mínum í búlgörskum hringdansi:) í Ráðhúsinu áðan. Ætla núna að þjóta niðrí Iðnó og sjá hann Nour 19 ára hælisleitanda frá Írak syngja sín eigin lög.

Kærar þakkir til allra sem stóðu að friðargöngunni og fjölmenningardeginum - þetta er fullkominn dagur, sól, bjartsýni, hlýja og gleði:)


mbl.is Fjölmenningardagur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS stjórnar Íslandi

Þessi frétt og yfirlýsing Franek ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart. Það sem kemur mér á óvart er þögn Steingríms varðandi til dæmis þetta tiltekna atriði samningsins. Það að samið hafi verið um einhvern ramma varðandi hámark stýrivaxtalækkun er hrein og klár aðför að þjóðarhagsmunum.

Þeir aðilar sem rituðu undir samninginn við AGS ruddu brautina að einhverju sem jafnvel sérfræðingar AGS klóruðu sér í hausnum yfir. Okkar samningsmenn hreinlega sömdu ekki neitt - heldur skrifuðu bljúgir undir án þess þó að einhver keyrði byssu í bakið á þeim. Ég hef horft á heilmargar heimildarmyndir um AGS og lesið um þessa stofnun sem alla jafna skilur eftir sig sviðna jörð í þeim löndum sem hún hefur afskipti af. Það vakti athygli mína að einn af samningsmönnum Jamaíka ræddi um hvernig hann hefði barist á hæl og hnakka fyrir því að fá betri samning - hvert prósentustig samningsins - tímalína og annað var rætt um og reynt að fá betri skilyrði. (AGS fór samt sem áður alveg hræðilega illa með Jamaíka samt sem áður og á tveimur árum var landbúnaði landsins rústað).

Ég krefst þess að það verði gerður nýr samningur við AGS ellegar að skila þessu láni án tafar. Hér er ný ríkisstjórn og eðlilegt að þetta verði endurskoðað enda ljóst að við munum ekki geta greitt þetta lán á tíma án þess að rústa hér allri grunnþjónustu.

Hlustum á þann fjölda fólks sem hefur varað okkur við undanfarna mánuði. Skellum ekki skollaeyrum við eins og gert var fyrir bankahrundið.


mbl.is Vaxtastefnunni hafi verið lýst í viljayfirlýsingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmenningardagurinn

Fjölþjóðaganga, Bambusdans og dans Snæljónsins frá Tíbet á Fjölmenningardegi Reykjavíkur 16. maí.

Fjölmenningardagurinn í  Reykjavík verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 16. maí nk.  Þetta er í  fyrsta sinn sem Fjölmenningardagurinn er haldinn en markmiðið er að fagna fjölbreytileikanum sem borgarsamfélagið býður upp á.  Glæsileg dagskrá er í boði sem miðar að því að allir fái notið sín og fjölbreytileikinn blómstri.  

Dagskráin hefst klukkan 13.00 með fjölþjóðlegri göngu sem fer af stað frá Hallgrímskirkju. Fjölþjóðagangan er samstarfsverkefni Heimsgöngunnar og ýmissa samtaka innflytjenda á Íslandi. Markmið Heimsgöngunnar, sem fer fram síðar á þessu ári, er að stuðla að friði í heiminum og tilveru án ofbeldis.  Yfirskrift Fjölþjóðagöngunnar að þessu sinni er friður og eining sem á mjög vel við um þessar mundir. Ómar Ragnarsson hefur samið Heimsgöngumars sem Lúðrasveitin Svanur mun frumflytja við upphaf göngunnar og svo aftur þegar komið er á leiðarenda í Vonarstræti við Ráðhús Reykjavíkur.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur og Iðnó hefst svo fjölbreytt skemmtidagskrá frá klukkan 14.00- 17.00 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þar kennir ýmissa grasa, meðal annars Bambusdans, dans Snæljónsins frá Tíbet, Japönsk teathöfn og söngur frá Kenía, Sri Lanka, Írak, Búlgaríu og Indlandi svo eitthvað sé nefnt. Af nógu verður að taka og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fjölmenningardagurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Alþjóðahúss og  Heimsgönguhópsins og er stefnt að því að gera Fjölmenningardaginn að árlegum viðburði í borginni.

Biðlaun

Skora á ráðherra sem sitja á þingi að afþakka þessi biðlaun. það er einfaldlega siðlaust að þiggja þetta á meðan krafist er að aðrir launþegar lækki laun sín.
mbl.is 22 á ráðherralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fínt að hafa valkost

Ég ætlaði ásamt nokkrum þingfélögum að vera úti á Austurvelli í stað þess að sækja messuna - finnst persónulega ekki rétt að blanda saman trúarbrögðum og þinghaldi. Veit að þetta er hefð og allt það en mér ber að fara eftir minni eigin siðferðisvitund varðandi þingstörf.

Ég gæti alveg hugsað mér að kíkja til Siðmenntar og hlusta á hann Jóhann en honum hefur tekist ljómandi vel upp við að veita börnunum mínum borgaralega fræðslu fyrir borgaralega fermingu.

Mér finnst það flott hjá þeim að bjóða upp á þennan valkost. Tek það fram að ég er ekki trúlaus - hef verið búddisti um langa hríð og finnst það fínn valkostur fyrir mig. Ég er ekki að fordæma þá þingmenn sem ákveða að fara í kirkju en kalla eftir umræðu um hvort fólki finnst í lagi að blanda saman trúarbrögðum og þingsetningu.


mbl.is Hugvekja í stað guðsþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beiðni til ríkisstjórnar

Kæra ríkisstjórn, mikið þætti mér nú vænt um ef blessað ESB blaðið með orðinu trúnaðarmál verði gert opinbert hið fyrsta - helst fyrir kvöldfréttir. Þá þætti okkur í Borgarahreyfingunni best að losna undan viðjum þess að þurfa leyna þjóðina einhverju sem engin ástæða er að leyna - finnst öll þess dulúð helst til þess fallin að gróusögur fari á flakk og fólk fyllist óöryggi og jafnvel ótta. 

Ég er auðvitað nýgræðingur í pólitískri refaskák og vil helst ekki þurfa að læra ósiði svona rétt í upphafi starfs míns í þágu þjóðarinnar - finnst það skjóta skökku við að þurfa að fela eitthvað fyrir fólkinu sem ég starfa í umboði fyrir. Held að fólk sé ekkert sérstaklega hresst með að ég sé að standa í vegi fyrir gegnsærri stjórnsýslu en samt þætti mér verra að brjóta trúnað við ykkur og þess vegna bið ég ykkur í fyllstu einlægni um að vera svo góð og upplýsa þjóðina um innihald plaggsins.


mbl.is „Kanna hvort einhverjir fletir séu til samstöðu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband