Leita í fréttum mbl.is

Að segja NEI á penan hátt

Það er svo merkilegt við fólk hvað það er alltaf tilbúið að trúa hinu versta upp á mann - samanber sumar athugasemdnirnar við þessa frétt:) Vil árétta það sem ég hef alltaf sagt: ég mun ekki samþykkja Icesave í þeirri mynd sem það er. Það er aftur á móti afar óheillavænt að segja Nei við borgum ekki án þess að koma með einhverjar samningatillögur á móti. Borgarahreyfingin setti eitt framboða mjög skýra stefnu varðandi Icesave í sína stefnuskrá. 

"6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. "

Þannig að það er alveg ljóst kæru áhugamenn um meint svik mín að ég mun EKKI samþykkja Icesave NEMA með alvöru fyrirvörum sem ekki er hægt að breyta. Og það verður að vera alveg ljóst að með því að setja alvöru fyrirvara er verið að hafna þessum samning á penan hátt...
Svo verður að vera þarna eitthvað meitlað í stein sem segir að leita skal allra mögulegra leiða til að tryggja að þeir sem efndu til þessarar skuldar eigi að greiða þetta en ekki þjóðin mín.


mbl.is Styðja Icesave með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær stuttmynd um hrunið

The Crisis of Credit Visualized

 

Ráðamenn: hlustið á Evu!

Mikið er ég þakklát fyrir að Eva Joly er hluti af endurreisninni - nú er mikilvægt að SJS og Jóhanna hlusti á Evu og bregðist við þessari réttmætu gagnrýni á AGS og ESB og taki undir þessi orð hennar. Ég var beðin um að taka þátt í skoðanakönnun fyrir AGS þar sem þeir fengu markaðsfyrirtæki í USAnu til að meta álit ráðamanna og embættismanna á frammistöðu þeirra. Ég sagði m.a. að mér þætti furðulegt að sjóðurinn hefði ekki meiri metnað en svo að eftir að hafa verið orðin nánast óþarfur hafi sjóðurinn aftur fengið hlutverk í núverandi kreppu, en í stað þess að læra af hörmulegum mistökum sem hann hefur staðið fyrir í t.d. Asíu og Latnesku Ameríku sem og í Jamaíka þá heldur hann áfram að gera sömu mistökin. AGS prógrammið er búið að rústa Lettlandi og nú á að nota sjóðinn til að kúga okkur til að skrifa upp á skuldabréf sem við munum ekki geta verið borgunarmenn fyrir og mun hneppa þjóðina í ánauð fátæktar um langa hríð.

Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi AGS prógrammsins enda er það byggt á hinum sömu gildum og urðu til þess að allt hrundi hér sem og víðsvegar um hinn vestræna heim.

Mér finnst mjög mikilvægt að við fáum hingað fólk úr hollensku og bresku samninganefndunum og fáum á hreint hvernig þau túlka vafaatriðin. Ég hef í tvígang beðið um að fá þau fyrir utanríkisnefnd en því hefur verið synjað í bæði skiptin. Við Þór hittum konu úr Hollensku samninganefndinni áður en við fengum að sjá samninginn, að hennar frumkvæði, þannig að ég á ekki von á að það myndi sækjast illa að fá fólkið til okkar til að fá einhver af þessum vafaatriðum á hreint. Það er endalaust hægt að finna sérfræðinga sem eru sammála eða ósammála ríkisstjórninni, best væri bara að skera úr þessu án milliliði. Við spurðum þessa ágætu konu að því hvort að hún gæti hugsað sér að samþykkja jafn afdrifaríkan samning fyrir hönd Hollendinga ef hún sæti á þeirra alþingi án þess að hafa séð öll gögn og hún sagði einfaldlega nei. 

Mér finnst að SJS ætti í stað þess að berja þingmenn sína til hlýðni varðandi ICESAVE að fara til Hollands og Bretlands ásamt Jóhönnu og þau ættu að hitta kollega sína og útskýra málið. Þau hljóta að vita innst inni að við getum ekki borgað þetta og mér finnst við hreinlega ekki getað tekið þá áhættu að vonast til þess að við getum hugsanlega mögulega gert það eftir 7 ár. Það eru áhættuþættir í þessum skuldabréfi sem ekki er vert að láta á reyna. 

Kannski er kominn tími á að viðurkenna að við erum gjaldþrota, Bandaríkjamenn urðu gjaldþrota 1930 og eitthvað, upp úr þeirra hruni, þeir eru skuldugasta þjóð í heimi en komast upp með það vegna stærðar og valds. Hvernig væri að stjórnvöld skoðuðu á yfirvegaðan hátt hvað það þýðir að viðurkenna umfang vandans áður en við tökum á okkur enn fleiri byrðar. 

Hlustið á Evu, hún hefur lög að mæla. Hún hefur þá nauðsynlegu yfirsýn sem stjórnvöld virðast ekki hafa. 

P.S. Ég er ekki að segja að við eigum EKKI að borga. En samninginn verður að fella, því það má ekki breyta honum eða koma með fyrirvara. Verum heiðarleg og losum þingið úr gíslingunni svo við getum farið að huga að leiðum til að koma með lausnir fyrir fólkið í landinu en ekki bara útrásarvíkinga í vandræðum. 


mbl.is Stöndum ekki undir skuldabyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mild núna - skæð síðar?

Samkvæmt því sem hefur komið fram varðandi þessa flensu er ótti um að hún verði sífellt hættulegri eftir því sem hún fer fleiri smithringi í kringum hnöttinn. Hún leggst á fólk sem hefur ekki fengið hana áður eða afbrigði af henni. Fjölmiðlar greina svo frá að eldra fólk sé ekki í eins mikilli hættu, því það hefur myndað sér náttúrlegt mótefni. Sennilega fengið afbrigði af henni þegar hún hét flóðhestaflensan eða eitthvað álíka framandi.  Kannski ættu sem flestir að gera sér far um að fá flensuna á meðan milda afbrigðið ef henni er í gangi til að mynda með náttúrulega mótstöðu og vera síður í hættu að fá hættulegri stökkbreytingu af flensunni síðar.

Óska eftir mótrökum og meðrökum hjá einhverjum sem er sérfróður um flensur. 

p.s. Ég er ekki að segja fólki að gera það bara að velta þessu upp eftir að hafa heyrt í dag í fréttum hve vond áhrif bóluefnið hefði á börn sem voru bólusett á Bretlandseyjum út af þessari flensu. Enn hafa mjög fáir látist út af henni miðað við aðrar flensur.

P.s. Ég afbirti þessa færslu í smá stund því ég var ekki alveg búin að fínpússa hana og þurfti að bregða mér út í krónu og þvo bílinn minn og viti menn einhverjir glöggir fjölmiðlamenn höfðu tekið eftir því að hún var ekki lengur birt... það er sérstaklega furðulegt að upplifa það að hvert einasta orð sem maður skrifar sé fylgt svona grannt eftir... svolítið mikil viðbrigði fyrir einhvern eins og mig sem gat skrifað og skrifað svo árum skipti og nánast enginn pældi í því sem frá mér kom... maður þarf víst að venja sig þetta nú um stundir.

 


mbl.is Svínaflensutilvik orðin 51
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið þinghlé í boði framkvæmdavaldsins

Ég fékk símtal í gær þar sem mér var tilkynnt að það yrðu ekki þingfundir í næstu viku vegna áframhaldandi nefndarvinnu út af Icesave. Persónulega þá finnst mér að við ættum að halda þingfundi í næstu viku til að klára þau mál sem útaf standa og þurfa ennþá að fara í umræðu á þinginu. Finnst ég ekki geta farið úr borginni ef ske kynni að boðað yrði óvænt til fundar með stuttum fyrirvara eins og oftast er gert. Ég er eiginlega orðin hálf náttúrlaus enda ekkert komist út í náttúruna síðan fyrir hrun☺ En það kemur sumar eftir þetta sumar, finnst mikilvægt að hafa hugann við það ástand sem við erum hér að glíma við. Ég heyrði mjög góða líkingu á ástandinu og viðbrögðunum við því í vikunni sem er að líða. Við gerðum kraftaverk við að bjarga fólkinu lifandi út úr logandi húsinu en 10 mánuðum síðar erum við enn að reyna að fatta hvernig á að koma slöngunni á brunahanann. Það logar enn glatt í hrunabálinu og svo virðist sem ný risavandamál séu sífellt að skjóta upp kollinum og taki fókusinn af björgunarstarfinu svokallaða. (fjölskyldur og fyrirtækin sem eru að fara á kaf í skuldaklafa) Mikið vildi ég óska þess að það væri hægt að gera hlé á pólitísku argaþrasi og einbeita sér að því sem við getum öll verið sammála um. Það hlýtur að vera eitthvað!

imf-trapping-countries-in-debt.jpgVægðarlaus heiðarleiki er okkur hollur
Ég er í starfshópi utanríkismálanefndar um Evrópumál og var boðuð á fund með Pierre Lellouche Evrópumálaráðherra Frakka með stuttum fyrirvara ásamt dágóðu föruneyti hans og annarra meðlima starfshópsins. Hópurinn samanstendur af einum úr hverjum flokki sem á sæti í utanríkismálanefnd. Fundurinn var haldinn í herbergi forsætisnefndar. Þetta var eiginlega alveg magnaður fundur. Lellouche er einstaklega sérstakur maður og var ekkert að skafa utan af hlutunum við okkur. Hann sagði eitthvað á þá leið að ef við viljum að Evrópufjölskyldufaðmurinn breiði arma sína á móti okkur þá verðum við Íslendingar að taka höndum saman við að uppræta spillinguna og kasínóbankakerfið okkar til að tryggja að við myndum ekki flytja með okkur óværuna inn í sambandið. Honum var líka fyrirmunað að skilja rétt eins og flestum öðrum samlöndum mínum af hverju það væri ekki enn búið að handtaka einhvern þeirra sem bera ábyrgð á hruninu eða frysta eigur þeirra. Ég held að það megi draga þann lærdóm af því sem hann sagði, að ef Samfylkingunni og öðrum sem vilja að við verðum hluti af ESB er einhver alvara með því, þá verða þessir aðilar að setja höfuð áherslu á að einhver verði dreginn til ábyrgðar á hruninu. Þá er auðvitað nauðsynlegt að tryggja að hið sami geti ekki endurtekið sig. Ég held að það sé enn hægt að opna netbankaútibú með grunsamlega góðum vöxtum án þess að regluverkið sé enn til staðar sem hindrar að sami leikurinn verði leikinn. Kannski ætti þingið einmitt að koma saman í næstu viku með frumvarp sem tryggir að hér sé ekki stundaðar svikamyllur í fjármálakerfinu með uppáskrift á ríkisábyrgð. Ég er til í að styðja slíkt frumvarp. Ég er til í að styðja frumvarp um að frysta eigur þekktra hvítflibbaglæpamanna. Ég er til í að styðja frumvarp sem krefst þess að þeir þingmenn sem eigi beinan þátt í hruninu séu dæmdir vanhæfir til að starfa að lagasetningu um slík mál. Ég er til í að styðja frumvarp um að fólk verði aldrei látið borga meira en þeirrar skuldar sem það upprunalega efndi til. Ég skora á alla flokka að vinna saman að frumvörpum sem innihalda þessi réttlætismál eigi síðar en í næstu viku. Sum þessara frumvarpa eru til og hafa verið flutt. Það er kominn tími til að endurflytja þau eigi síðar en strax.


mbl.is Stjórnvöld halda í vonina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulega sett upp frétt

Ég held að ég myndi lítið annað gera en að leiðrétta fréttir ef ég færi að standa í slíku, en mér finnst þessi fyrirsögn ranglát, ég sagði aldrei að fólkið í utanríkismálanefnd væri óttaslegið, heldur sagði ég að undirtónninn í álitinu frá meirihlutanum væri óttaþrunginn, það er ekki alveg það sama:) Ég held að fólkið í utanríkismálanefnd sé ekki endilega óttaslegið, heldur sé fólk bara á öndverðu meiði með hver hin alþjóðlegu viðbrögð verði ef við setjum fyrirvara á samninginn.

Annars þá hef ég um lítið annað hugsað undanfarnar vikur og hef komist að eftirfarandi niðurstöðu:

Það væri lang heiðarlegast að láta Breta og Hollendinga vita að það sé ekki vilji til að skrifa undir ríkisábyrgð án þess að setja fyrirvara við samninginn. Okkur hefur verið sagt að það eitt og sér muni fella samninginn - samningurinn verður felldur á þinginu ef engir fyrirvarar verða gerðir. Því væri best að láta þá vita af þessu og setja nú þegar saman faglega samninganefnd ástamt því að kalla til almannatengslafyrirtæki í Bretlandi og Hollandi og byrja nú þegar að útskýra okkar hlið á málinu. Það er nefnilega alveg furðulegt þegar því er haldið fram að með því að fella samninginn í þeirri ómögulegu mynd sem hann er í dag séum við að segja umheiminum að við ætlum okkur ekki að axla ábyrgð á þessu máli. 


mbl.is Óttaslegin utanríkismálanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein staðfestingin

Nú þarf víst SJS að éta ofan í sig stóru orðin frá því í fréttum fyrr í kvöld um að það væri misskilningur að Icesave sé tengt ESB umsókninni. Gegn þessum blekkingaleik börðumst við í síðustu viku og reyndum eftir fremsta megni að sýna fram á þessi tengsl. Ég ætla að rekja þessa tengingu í afar stuttu máli og er nú að koma í ljós það sem blasti við mér við lestur þessara svokölluðu leynigagna sem þjóðin ætti að fá að lesa, þau eru nú varla neitt leyndarmál lengur - hægt væri að stroka út viðkvæm nöfn og annað sem mætti lögsækja okkur fyrir að opinbera en ég get ekki séð að þessi gögn séu þess eðlis að þau eigi að varðveitast í möppum sem aðeins einn og einn þingmaður má lesa í einu, undir vökulum augum.

Ef Icesave-skuldabréfið, sem note bene er ríkisábyrgð á gjaldþrota fyrirtæki, sérdeilis sérstök skuldbinding, verður ekki samþykkt, eða samþykkt með breytingatillögum þá munu Bretar og Hollendingar beita eftirfarandi þumalskrúfum: 

1. Þeir munu beita sér gegn aðildarviðræðum við ESB

2. Þeir munu beita sér gegn því að við fáum annan hluta AGS lánsins

AGS mun setja upp ný viðmið ef Icesave verður samþykkt: lengja í þeim tíma sem hér verða gjaldeyrishöft og krefjast enn meiri niðurskurðar en fyrirhugaður er. 

Mér er fyrirmunað að skilja af hverju við erum að leggja slíka ofuráherslu í dag á þessar aðildarviðræður eins og það komi ekki dagur eftir þennan dag með Icesave eins og nábít á möguleika á aðild og að öllu óleyst mál. Það er alveg ljóst að nú á að nota aðildarviðræðurnar sem nýja grýlu og til að beita enn meiri þrýsting á ríkisstjórn sem er við það að bresta.

Hve dýr á setja nokkurra einstaklinga í valdastólum að verða þjóðinni? Hve dýr á aðgöngumiðinn að inngönguferli ESB aðildar að verða? Miði sem flestir gera ráð fyrir að hafna. Margir sérfræðingar í hagfræði hafa bent á að við erum hvorki meira né minna gjaldþrota, það væri ráð að athuga hvort að það sé ekki kominn tími á að fara fram á afskriftir, því það er ljóst að við getum ekki haldið áfram á þessari vegferð. En samt á að halda þessu áfram því varla fer ESB að taka við aðildarumsókn frá gjaldþrota þjóð af einhverri alvöru.

Það er líka ömurlegt til þess að hugsa að fólk haldi virkilega að með því að láta níða af okkur allt sem við eigum verði til þess að auka á tiltrú á skynsemi og heilindi okkar erlendis, hvað þá að það auki virðingu fyrir okkur.

Ég vil að lokum segja: ég hef ekkert á móti aðildarviðræðum ef að það er ljóst að það sé meirihluti þjóðarinnar á bak við þá ákvörðun. Ég vil jafnframt biðja þá kjósendur XO sem hafa fundist þeir sviknir afsökunar - ég lít ekki á þessa leið okkar til að reyna að fá Icesave frestað sem hrossakaup enda ekkert í þessu fyrir okkur - ég er ekki inni á þingi fyrir mína hagsmuni, ég er að reyna að vinna eins samviskusamlega að þjóðarhagsmunum og mér er mögulega unnt að gera, ég hef ekki áhuga á að vera á þingi til langframa og mun ekki ætlast til þess að ég fái bitlinga eins og sendiherrajobb út á þessa vinnu sem ég er að vinna núna. En mér finnst ekkert mál eins mikilvægt og þetta Icesave mál og ætla að einbeita mér að því að halda áfram að viða að mér upplýsingum. Á morgun mun ég birta sérálit mitt hérna á blogginu sem ég hef skrifað varðandi Icesave þegar það verður tekið út úr Utanríkismálanefnd. Ég vona að þessu verði frestað og unnið áfram í þessu þó ekki væri til annars en að eyða þeim vafa sem um málið hefur hjúpast, núna á bara að horfa fram hjá varnarorðunum og láta eins og ekkert sé.

Ég bið fólk að sýna því skilning að ég næ alls ekki að svara öllum þeim athugasemdum sem koma við bloggið mitt, en ég les þetta allt saman og finnst gott að heyra ólíkar skoðanir þó þær séu ekki endilega í takt við mínar eigin:)


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB og Borgarahreyfingin

Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem brugðust við fyrra bloggi mínu varðandi hugarangist mína um ESB. Ég ákvað að skrifa frekar færslu en að svara öllum, því ég hef ekki tíma til þess. Hér eru nokkur atriði til glöggvunar og til að svara þeim mörgu spurningum og vangaveltum sem hafa spunnist í athugasemdakerfinu hjá mér.

1. Borgarahreyfingin hefur EKKI neitt um ESB á sinni stefnuskrá. Einstaka frambjóðendur hafa lýst sig fylgjandi eða andvíga því að ganga í bandalagið en það var ekki neitt kosningaloforð um að ganga í bandalagið en mörg okkar lýstu því yfir að við værum hlynnt aðildarviðræður, þar á meðal ég. 

2.Til að það sé alveg á hreinu þá vil ég segja að allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar ætla að greiða atkvæði með aðildarviðræðum nema hugsanlega ég, ég hef ekki gert upp huga minn og því eru allar umræður um svik XO alveg út í hött. Það var mjög fast að því kveðið að sérhver þingmaður XO væri bundinn samvisku sinni ef við yrðum að taka afstöðu til mála sem væru ekki hluti af stefnuskrá hreyfingarinnar. Þegar við vorum að koma hreyfingunni saman og berja saman stefnuskrá var ákveðið að framboð okkar væri aðeins til komið til að koma á lýðræðisumbótum, innan þess ramma fannst okkur þó rétt að koma með tillögur að því hvernig við getum leyst þann efnahagsvanda sem þjóðin er í, að uppræta spillingu innan stjórnkerfisins, rjúfa órofa tengsl viðskipaheims og þingsheims, koma með tillögur að lausn á ICESAVE og að leysa upp ægivald fjórflokksins. Við ákváðum að hafa ekki aðra þætti á stefnuskrá hreyfingarinnar því að það er hluti af stefnu okkar að leysa upp flokkinn þegar stefnumálum okkar hafa verið hrint í framkvæmd. 

3. Eitt af mínum prinsippum í lífinu er að áskilja mér rétt til að skipta um skoðun ef ég fæ upplýsingar sem gefa mér tilefni til að endurskoða stefnu mína, ég var klofin innra með mér varðandi þessi ESB mál en það hefur í raun og veru ekkert að gera með þá staðreynd að mér finnst aðildarviðræður í dag ekki tímabærar. Mér finnst eftir að hafa kynnt mér hvað felst í aðildarviðræðum það mjög mikilvægt að við skoðum til þaula hvort að það að fara í slíkt inntökuferli sé það sem við þurfum á að halda núna. Ég hefði haldið að það væri mikilvægara á þessu sumarþingi að koma með lausnir til að reisa upp samfélagið okkar úr brunarústum hrunadansins. 

4. Ég hef heyrt fólk kalla eftir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu og samkvæmt Gallup könnun vill meirihluti þjóðarinnar fá að greiða atkvæði um það hvort að við förum í aðildarviðræður. Því á að virða það að vettugi. Því þessi asi við að fara í aðildarviðræður? Á ekki þessi ríkisstjórn nánast eftir heil 4 ár af kjörtímabili sínu?

5. Noregur og ESB... við búum við allt annan veruleika en Norðmenn þegar þeir fóru í þetta ferli, við erum beygð og niðurbrotin þjóð og ættum að vinna að því að gefa þjóðinni von um að hér verði hægt að búa áfram áður en við ætlum okkur að vera aftur þjóð meðal þjóða.  Mér finnst alveg sjálfsagt að þjóðin fái að kjósa um hvort að henni líki einhver samningurinn síðar meir en þá verður að kalla hlutina réttum nöfnum. Hættum að nota orðið aðildarviðræður og köllum þetta inngönguferli. Segjum frá hlutunum eins og þeir eru, að með því að fara í þetta inngönguferli þá erum við að lýsa því yfir að við viljum gagna í ESB. Mér finnst það einfaldlega heiðarlegra gagnvart ESB og þjóðinni að kalla hlutina sínu réttu nöfnum.

6. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðu mála hérlendis og hve mikill tími og orka fer í ESB. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá er langt í að við fáum Evru ef við sækjum um og það þýðir áframhaldandi blóðmjólkun á fjölskyldur landsins. Stöðugt fjölgar þeim hópi Íslendinga sem eru á förum og ef við eigum að afgreiða bæði ICESAVE og ESB á næstu dögum og segjum að þetta verði bæði samþykkt, já þá óttast ég að haustið verði sögulegt í sem neikvæðustum skilningi. Það sem ég sakna er að sjá áætlun um hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið óháð ESB.

7. Ég endurtek að ég hef aldrei lofað því að styðja ekki eða styðja tvöfaldar þjóðaratkvæðagreiðslur og er því ekki að svíkja einn eða neinn hvað svo sem ég geri. Ég ætla að greiða atkvæði með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu, en það útilokar ekki að ég greiði atkvæði með inngönguferlinu, en ég ítreka að mér finnst þetta sumarþing eigi að snúast um annað en ESB og ég ítreka að mér finnst að það væri nær lagi að sækja um  inngöngu í ESB þegar það er alveg ljóst að það er sú stefna sem þjóðin vill fara. Mér finnst ekki tímabært í dag að fara í ESB enda þurfum við að huga að því björgunarstarfi sem hér þarf að fara fram. Þetta eru mínar skoðanir en ekki annarra þingmanna Borgarahreyfingarinnar því þætti mér vænt um ef þið hættuð að segja að ég sé Borgarahreyfingin - því við frábáðum okkur foringja og formenn og ég er aðeins óbreyttur þingmaður sem hef ekkert vald yfir því hvað aðrir þingmenn hreyfingarinnar kjósa að gera eða þau yfir mér. Við vinnum saman í mesta bróðerni að öllu því sem stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar kveður á um og leyfum svo hinum að hafa sínar skoðanir á því sem er ekki í stefnuskránni. Um stefnuskrá XO var kosið en ekki einstakar skoðanir einstakra frambjóðenda XO. Eða það hélt ég.


ESB hugarangist

Ég er í Utanríkismálanefnd og hef setið á fundum nærri dag hvern til að fjalla um EBS - hlusta á hagsmunaaðila en fyrst og fremst á fólk úr ráðuneytunum. Ég hef komist að því að með því að fara í inngönguferlið sem kallað er hér aðildarviðræður þá erum við með sanni að sækja um að ganga í ESB. Ég verð að viðurkenna að ég lét glepjast að því að þetta væri aðeins eins konar könnunarviðræður því það er ljóst að meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í þetta bandalag. Að þetta snérist um að komast að því hvað væri í boði en ekki að fara til Brussel með ósk um að verða hluti af ESB.

Ég studdi þetta ferli fyrir kosningar, verð að viðurkenna að ég lét hreinlega plata mig. Eftir að Össur átti fund með einum þingmanna okkar til að kanna hvaða skilyrði Borgarahreyfingin setti til að hægt væri að fara í þessar viðræður þá var ég enn með þessa röngu mynd í huga mér um að þetta væri ekki skuldbinding til að ganga í bandalagið, og því þótti mér það sjálfsagt mál að fara í þetta ferli. 

Við settum nokkur skilyrði til að tryggja að ferlið gagnvart þjóðinni yrði sem lýðræðislegast og var brugðist við því á jákvæðan hátt hjá ríkisstjórninni. Eftir stíf fundarhöld í Utanríkismálanefnd var mér orðið ljóst að ég var höfð að háð og spotti og í raun og veru værum við að ganga í ESB. Það á ég erfitt með að styðja því eins og svo margir hérlendis er ég klofin innra með mér hvað gera skal.

Mér er illa við að svíkja loforð og hef ekki sagt neitt enn þá um það hvort að ég muni greiða með þessu afkvæði eða ekki. Ég komst aftur á móti á þá niðurstöðu að best væri til að tryggja að almenningur væri meðvitaður um hve stórt og kostnaðarsamt skref við erum að taka, að hafa atkvæðagreiðslu um það hvort að fólk vildi fara ESB, því þetta snýst um það og ekkert annað þó öðru hafi oft á tíðum verið haldið fram fyrir kosningar. 

Það er ekkert í stefnu Borgarahreyfingarinnar um ESB og því lít ég ekki svo á að ég sé að brjóta nein kosningaloforð eða loforð um að styðja tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Ég er annars í mikilli hugarangist og veit ekki hvort að ég eigi frekar að brjóta á minni eigin samvisku og greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar því sett voru inn öll okkar skilyrði -eða á trausti ríkisstjórnarinnar til okkar, vil ekki koma félögum mínum í þinghópnum í vandræði. En það er samt alveg ljóst að okkar stefna gagnvart málum sem eru ekki á stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar átti hver og einn þingmaður að eiga við útfrá sinni samvisku. Úff þetta er hið versta mál því ég hef hallast fjær ESB þessu betur sem ég hef kynnt mér þetta bákn og finnst skelfileg tilhugsun að taka þátt í að við missum hér fullveldi okkar. Hvað finnst ykkur að ég eigi að gera? Það væri afskaplega gott að fá lánaða dómgreind hjá ykkur félagar.

Annars vil ég þakka öllum sem kommenta á síðuna mína - les það allt en hef yfirleitt ekki tíma til að blanda mér í umræðuna...

Hér er annars ræðan mín frá því í dag, ég hef ekki haft tíma til að fínpússa hana en læt hana bara hingað inn eins og ég flutti hana:

Frú forseti

Enn á ný er forgangsröðun íslenskra ráðamanna á villigötum. Sumarþingið er á villigötum, við þingmenn á villigötum, þjóðin ráðvillt og á meðan hrynja fyrirtækin og inniviðir samfélags okkar eins og spilaborgir.

Forgangsröðun sumarþings ætti að vera eftirfarandi: Endurreisn fjármálakerfisins, lækka stýrivexti, lækka raforkuverð til landbúnaðar, tryggja að björgunarnetin sem sett voru út til að aðstoða fjölskyldur landsins í þeirri neyð sem þær eru að kljást við séu ekki full af götum, frysta eigur auðmanna, yfirheyrslur og gæsluvarðhald á þeim sem vitað er að stunduðu ólöglega fjármálastarfsemi og tóku virkan þátt í mesta hrunadansi sögunnar, rjúfa hagsmunatengsl á milli þingheims og viðskiptaheims, styrkja forvarnastarf og virkja þá sem nú þegar eru á atvinnuleysisskrá, búa til atvinnuskapandi umhverfi og tryggja að meirihluti íslenskra fyrirtækja fari ekki á hausinn.

Er hæstvirtri ríkisstjórn fyrirmunað að skilja að almenningur er að gefast upp, það skiptir ekki fólk neinu máli sem er að berjast við að eiga fyrir mat hvort að við förum í aðildarviðræður í dag eða eftir eitt ár, það mun ekki gera neitt til að hjálpa þeim sem þurfa aðstoð núna. Það hafa komið fram góðar lausnir frá öllum flokkunum sem vel ætti að vera hægt nota til að vinna að sameiginlegan lausnapakka sem allir flokkarnir kæmu að og bæru sameiginlega ábyrgð á, það ætti að leggja eins þunga áherslu á það eins og lagt hefur verið um að finna samhljóm um þingsályktunartillögu til að ganga til aðildarviðræna við ESB.

Því miður var sá samhljómur innantómt hjóm, því það er einfaldlega þannig Frú forseti að ríkisstjórnin vill hreinlega ekki hlusta á áköll þjóðarinnar um aðgerðir sem gefa fólki tilefni til að leggja á sig erfiðleika til endurreisnar. Aðildarviðræður við ESB sem munu kosta þjóðarbúið gríðarlega mikla fjármuni á meðan niðurskurðar er krafist af slíkum þunga að fólk flýr landið í umvörpum og er skaðleg aðför að velferðarkerfinu er ekki rétt forgangsröðun.

Af hverju er farið af stað í þetta ferli með slíkum ofsa? Sumarþing var kallað saman til þess eins að vinna að ESB málinu og það er bara ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á slíkar áherslur. Það hefði verið afsakanlegt að leggja ofuráherslu á þetta mál ef við byggjum við eðlilegar kringumstæður en við vitum öll að þannig er það einfaldlega ekki. Hér er allt hrunið og fólk er ráðvillt og hrætt um hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er fullkomlega óábyrgt að tala um aðildarviðræður sem einhverja allsherjarlausn og í fullkominni mótsögn við það sem er sagt um eðli þessarar aðildarviðræðna.

Ég skildi þetta ferli á eftirfarandi hátt og veit um fjöldann allan af fólki sem skildi þetta á sama hátt fyrir kosningar: Við sækjum um aðild að ESB en þetta eru í raun og veru eins konar könnunarviðræður þar sem við fáum að sjá hvað er í boði en við erum samt eiginlega ekki að sækja um aðild að ESB, heldur kanna hvort að okkar kröfum verði mætt. Ef okkur líkar illa við þann samning sem okkur verður boðinn þá getum við alltaf afþakkað og haldið áfram þar sem frá var horfið.  Við erum semsagt að fara í könnunarviðræður því það er ekki víðtækur meirihluta hvorki á alþingi né meðal þjóðarinnar um stuðning við að ganga í Evrópubandalagið. Mér þótti þetta ágæt rök en síðan hafa runnið á mig tvær grímur.

Því meira sem ég hef hugleitt þetta ferli, því sannfærðari er ég um að það er algerlega ábyrgðarlaust og sínir umheiminum enn og aftur að hér býr þjóð sem er ekki fær um að axla ábyrgð eða taka afdráttalausar ákvarðanir. Við erum semsagt að fara að ganga til aðildarviðræðna án þess að vilja ganga í ESB. Hvaða rugl er það? Annað hvort sækir maður um aðild og er á leiðinni í ESB eða maður sækir ekki um aðild. Þegar hæstvirtur forsætisráðherra fer á fund Evrópusambandsins með samþykki þingsins um að gagna til aðildarviðræðna þá er ég alveg sannfærð um að hún muni ekki segja við félaga sína í Evrópubandalaginu: við ætlum að sækja um aðild en bara til að athuga hvort að þið fallist á allar okkar kröfur og án þess að í raun og veru hafa fullt umboð frá þinginu um vilja til að ganga í ESB. En forsætisráðherra ætti einmitt að segja sannleikann, hæstvirtur forsætisráðherra ætti einmitt að segja að okkur sé engin alvara með þetta, við erum bara að sjá hvort að við fáum ekki sérmeðferð eins og við erum svo vön að fá, því við erum svo spes.

Mér finnst það fullkomlega óábyrgt að halda því fram að sækja um aðild muni hjálpa okkur ef við ætlum svo bara að hafna þessu, því það er alveg ljóst að við munum ekki fá neina sérmeðferð, það hefur aldrei verið gerður neinn sérdíll um sjávarútvegsmál hjá ESB og það yrði með sanni alveg stórmerkilegt ef svo yrði og alveg öruggt að eitthvað annað héngi á spýtunni. Því spyr ég hæstvirtan Forsætisráðherra hvort að það sé skynsamlegt að sækja um aðild núna ef það er næsta ljóst hvað við munum fá og ekki fá út úr því, það er ekkert flókið að finna út hvað það er sem við fáum út úr svona ferli og nánast eins nákvæmt og skoðanakannanir og því óafsakanlegt að eyða að minnsta kosti 1000 milljónum í slíkt og eyða dýrmætum tíma þingmanna í nefndarsetur svo ég tali nú ekki um starfsfólk stofnana á vegum ríkisins sem koma að umsóknarferlinu. Áætlað er að setja á laggirnar fjöldann allan af nefndum og ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvað þetta kostar allt saman í raun og veru. Ég hefði frekar haldið að skynsamlegt væri að kynna með sanni fyrir þjóðinni það sem við ætlum okkur að gera og segja má að sú vinna sem nú þegar hefur farið fram sé fullkomið verkfæri til að styðjast við ef kosið verði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort að þjóðin vilji leggja höfuðáherslu núna á að sækja um aðild og fræða almenning um það hvað slíkt inniber. Að sækja um aðild hlýtur að þýða að við viljum gagna í ESB. Þar eð ég hef ekki umboð frá mínum kjósendum til að taka slíka ákvörðun mun ég styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu sem hægt væri að stefna saman eigi síðar en í kringum upphaf haustþings.

Rökin að við verðum að sækja um á meðan Svíar eru í forsæti eru ekki nægilega góð rök í mínum huga, þó ég sé meðvituð um að gott sé að hafa rétt fólk á réttum stað á réttum tíma sem okkur er vinveitt og skilur hinn séríslenska hugsunarhátt, ég ætla rétt að vona að Svíar séu ekki eina þjóðin sem okkur er vinveitt í ESB og gæti aðstoðað okkur við að ganga í ESB ef þjóðin myndi kjósa að gera það.

Frú forseti

Í Utanríkismálanefnd var setið á fundum nánast daglega undanfarnar vikur til að taka á móti umsögnum og tillögum um úrbætur á þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fram í fyrstu umræðu um þetta mál. Ég má til með að hrósa formanni nefndarinnar fyrir vönduð vinnubrögð við að viða upplýsingum að um það sem gestum fannst mikilvægt að væri tekið tillit til í vegvísinum sem samninganefndir eiga að fara eftir. Þá var ánægjulegt að tillögur Borgarahreyfingarinnar um lýðræðisumbætur séu hluti af álitinu, eins og til dæmis stofnun Lýðræðisstofu, sem mun hafa það hlutverk að miðla óhlutdrægum upplýsingum til almennings um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB samninginn – lýðræðisstofa verður vonandi hornsteinn lýðræðislegs og hlutlauss upplýsingaflæðis fyrir almenning er varða mál sem tekin verða fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslum framtíðarinnar. En það er margt að athuga við þær hefðir sem hér hafa verið viðhafðar um nefndarstörf og fannst mér það sérstaklega áberandi í þessu málefni því upplagið var að komast að niðurstöðu sem allir í nefndinni gætu sætt sig við. Það var því ömurlegt að upplifa það að við nefndarmenn fengum lítil tök á að ræða saman ólíka þætti álitsins og fara yfir það saman í eins og eina dagstund. Þess í stað var lokavinnsla álitsins unnin á hundavaði og rýrði alla þá góðu vinnu sem hafði þegar átt sér stað. Gleymum því ekki að þær ákvarðanir sem hér eru teknar varða alla þjóðina og þetta mál er ein stærsta ákvörðun sem þjóðin mun taka saman og hafa mikil áhrif á líf allra – hvort heldur það sé til góðs eða ills, það er ekki mitt að meta enda nokkur ágreiningur um hvaða gagn eða ógang Evrópusambandsaðild mun hafa fyrir þjóðarhagsmuni.
Það er ótækt að ég hafi ekki fengið tíma til að skoða í þaula álitið áður en mér var gert að svara því hvort að ég vildi vera með á meirihlutaálitinu, því setti ég fyrirvara á minn stuðning við það.

Æruverðugi forseti

Nú hef ég lesið nefndarálitið til þaula og er ánægð með flesta þætti þess og sé að tekið hefur verið tillit til þeirra viðbóta sem við í Borgarahreyfingunni óskuðum eftir. Það sem ég er ekki ánægð með er ef til vill ekki endilega innihaldið heldur það sem vantar inn í álitið. Það er nefnilega svo að í álitinu er hvergi fjallað um hvað við höfum fram að bjóða sem viðbótarstjarna í Evrópubandalagsflaggið. Það er eingöngu fjallað um það sem við viljum en ekki hvað við höfum að gefa. Það finnst mér alröng skilaboð að senda út í alþjóðasamfélagið. Höfum við eitthvað að bjóða Evrópusambandinu sem þeir hafa ekki nú þegar, er það eitthvað sem við eigum sem aðrar þjóðir vildu hafa með í sínum sameignlega evrópska ranni?
Mér dettur nokkrir hlutir í hug þegar ég leiði hugann að þessu eins og til dæmis sú staðreynd að Við höfum aðgang að einstakri og ósnortinni náttúru og erum enn nokkuð laus við mengun þó við séum fjarri lagi eins ómenguð og ímyndarfræðingar þjóðarinnar vilja halda fram. Við eigum gott vatn og meira en nóg af því og enn er mikill fiskur í sjónum, við erum vel staðsett miðju vega á milli Evrópu og Bandaríkjanna og hér höfum við komið upp víðtækri þekkingu á hvernig má nýta orkuauðlindir okkar, sér í lagi það sem við köllum sjálfbæra orku. Þá höfum við þekkingu og reynslu af því að stýra viðamiklum sjávarútvegi. Til okkar hefur verið leitað varðandi rannsóknir á jarðvísindum og við höfum nokkra sérstöðu varðandi þá þekkingu, en okkar allra verðmætasta eign ef eign mætti kalla er hið óbeislaða hugarflug og sköpunarkraftur sem hefur með sanni sett þjóðina á hið alþjóðlega kort og nú þegar eru fjölmargir einstaklingar sem hafa skapað þjóðinni mikil verðmæti með því að virkja þessa þætti þjóðarsálarinnar.

Frú forseti

Það hefur verið um langa hríð hart barist um EBS hérlendis á meðal hagsmunaaðila á meðal megin þorri þjóðarinnar veit lítið sem ekkert um hvað það þýðir í eiginlegri merkingu að vera með eða ekki. Lítið hefur farið fyrir því að útskýra fyrir þjóðinni á hvaða forsendum við sækjum um aðild. Fyrir kosningar voru aðildarviðræður kynntar sem könnunarviðræður þar sem við gætum enn og aftur sýnt algert ábyrgðarleysi með því að vilja bæði halda og sleppa á sama tíma, bara svona til að skoða hvað er í boði sem þó allir vita hvað er. Þetta haltu mér slepptu mér viðhorf er ekki það sem þjóðin þarf að sýna umheiminum í dag. Við höfum verið gagnrýnd fyrir ábyrðarleysi á alþjóðavettvangi og ættum því ef við ætlum að sækja um aðild að ESB að vilja með sanni ganga í bandalagið. Það er skortur á skýrum vilja stjórnvalda, það er skortur á skýrum vilja þjóðarinnar,  sem mun gera þessar aðildarviðræður að enn einum smánarbletti þjóðarinnar sem þarf á því meira en nokkru öðru að sýna að hún sé ekki samansafn tækifærisinna.

Ég get ekki stutt umsókn um aðildarviðræður án þess að kanna vilja þjóðarinnar til þess, sumum mun finnast ég vera að stuðla að sóun á fjármunum og vera hrædd við að styggja einhverja með því að fara fram á þessa leið, en ég get með sanni sagt að ég er aðeins að hugsa um hag þjóðarinnar, mitt hlutverk hér er að tryggja að stórar ákvarðanir fari ekki í gegnum þingið án þess að það sé alveg ljóst að á bak við þær sé einarður og skýr vilji þjóðarinnar til þess. Ég held að við séum enn á villigötum um þessi ESB mál, ég held að við þurfum fyrst að taka upplýsta ákvörðun um það hvort að við  viljum fara í ESB eða ekki. Það vantar að skoða betur á hlutlausan hátt hvað það þýðir, kosti og galla þess án þeirrar heittrúarstefnu sem hefur einkennt þetta mál hjá bæði nei og já fólkinu.

Ég er enn nokkuð klofin innra með mér varðandi ESB – en ég get sagt heilshugar að fenginni reynslu að við leysum ekki vandamál okkar með því að takast ekki á við þau sjálf, við verðum fyrst að takast á við þá víðtæku spillingu sem hér þrífst, við þurfum að horfast augu við í siðrofið og þá firringuna sem leiddi okkur inn í hrunið, við verðum að taka til í okkar garði áður en við viljum fá að sameina hann annarra manna görðum, því það er ekki sanngjarnt að vilja flytja með okkur illgresi og arfa og hafa ekkert annað að gefa en einmitt það.

Tökum okkur þann tíma sem til þarf, sinnum samfélaginu okkar sem hreinlega brennur af reiði og vonleysi, gefum þjóðinni von, vinnum saman að ásættanlegum lausnum hér heimafyrir og prófum að þiggja aðstoð frá erlendum sérfræðingum áður en við ætlum að setja fullveldi okkar undir þing margra þjóða og munum hafa lítið um okkar mál að segja þó við séum stórasta land í heimi. Ef við kunnum ekki að vinna saman hér heima, hvernig í ósköpunum eigum við að geta unnið með 27 þjóðum að jafn mikilvægum hlutum og þá er snerta fullveldi þjóðarinnar. Síðasti samningur sem ritaður var fyrir hönd þjóðarinnar í alþjóðasamhengi var ekki beint til að auka tiltrú mína á getu ráðamanna til að passa upp á þjóðarhagsmuni í návígi við gamla nýlenduherra.

Frú forseti

Ég virði þá vinnu sem lögð hefur verið í þá ályktun sem hér er fjallað um – ég mun bera enn meiri virðingu fyrir þessu þingi ef hæstvirt ríkisstjórn gefi sínum þingmönnum hið sama frelsi til að kjósa eftir eigin samvisku og þau krefjast af okkur í minnihlutanum varðandi þetta mál.
 


Ekki allskostar réttur fréttafluttningur

Ég sat á þessum fundi og vil að því sé haldið til haga að Guðfríður Lilja bar upp breytingatillögur að álitinu - enda vorum við að vinna í drögum þess - það voru fulltrúar Samfylkingarinnar sem báðu um fundarhlé út af þeim tillögum sem Guðfríður Lilja bar upp.

Auðvitað eigum við að gefa okkur þann tíma sem þörf er á til að meta hvort að það sé eitthvað sem betur má fara í álitinu áður en það er tekið úr nefnd og inná þing.


mbl.is Fundi utanríkismálanefndar um ESB-mál frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak

Mikið er ég ánægð að sjá Austurbæjarbíó nýtt fyrir svona frábært verkefni. Verður spennandi að fylgjast með hvaða sprettur upp úr þessum frjósama jarðvegi:)
mbl.is Kraftur ungmenna virkjaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ICESLAVE þingræðan mín

Ég flutti eftirfarandi ræðu á þinginu á föstudaginn, tilvísunin í skrattann á veggnum er fengin frá því að forsætisráðaherrann segir gjarnan í þau örfáu skipti sem hún hefur tjáð sig um þessi mál á þinginu - það er óþarfi að mála skrattann á vegginn. Annars þá finnst mér það alveg stórmerkilegt að forsætisráðherra landsins hafi ekki sett sig á mælendaskrá varðandi eitt stærsta mál íslandssögunnar. Er það venja að velta jafn stóru máli alfarið í fangið í samstarfsflokki sínum? Finnst skringilegt að það eigi að velta þessu öllu á VG þegar ljóst er að Samfylkingin á stóran þátt í Icesave klúðrinu.

Frú forseti
Skrattinn er á veggnum. Það þarf ekki að mála hann á hann eða ímynda sér hann, skrattinn er á veggnum og hann er ofinn úr vanhæfni, spillingu, siðrofi, órjúfanlegum tengslum viðskiptaheims og þingheims, skrattinn er á veggnum og hann er óttinn við framtíðina og hann er óvissan og þrælslundinn. Skrattinn er á veggnum og hann nærist á hræðsluáróðri og vanþekkingu og ósætti

Frú forseti
Við megum ekki láta óttann stjórna okkur þegar við skoðum Icesave samninginn og afleiðingar hans, með eða á móti. Við megum ekki halda að skrattinn sé neitt annað en mynd á vegg en ekki raunveruleikinn eins og sumir virðast halda að hann sé. Horfumst í augu við veruleikann frú forseti:  Þessi samningur er nauðasamningur nýlenduherra við þjóð sem þeir bera litla sem enga virðingu fyrir, nauðsamningur sem allir bera jafn mikla ábyrgð á hvaða flokki sem þeir koma frá, það hafa nefnilega allir ráðamenn fyrr og síðar tekið þátt í að skapa þá vegferð sem við erum á núna. En ég vil vekja athygli þína á því frú forseti að það skiptir engu máli, það eina sem skiptir máli núna er eftirfarandi: Er hægt að skrifa undir þennan samning án þess að eiga það á hættu að steypa komandi kynslóðum í slíkt skuldafen að úr því verði aldrei komist sama hve duglegt, hæfileikarík, frábær, vel menntuð og gáfuð við erum. Það eru alveg til dæmi þess að þrælar séu ákaflega geðþekkt og vel gefið fólk. Mér er nóg boðið að háttvirtir ráðherrar bjóði þjóðinni upp á hræðsluáróður sem hér hefur verið málaður á vegginn sem raunveruleikur skratti á veggnum. 

Mikilvægt er að spyrja sig nokkurra spurninga:

1.    Hvað gerist ef við skrifum ekki undir og förum í nýtt samningaferli: EKKI NEITT nema að við semjum upp á nýtt. Ég hef ekki séð neitt annað en innantómar hótanir sem ólíklegt að verði efndar í öllum þeim gögnum sem ég hef lesið varðandi þetta mál. Ég er ekki að sjá neitt sem réttlætir þann hræðsluáróður sem ríkisstjórnin og hennar leiguliðar halda fram, ég  fann ekkert sem rennir stoðum undir þá skemmtilegu kenningu að við gætum orðið Kúpa norðursins. Gleymum því ekki að við göngum nú þegar undir heitinu Nígería norðursins. Okkar mannorð á alþjóðavísu er ekkert sérstaklega gott. Ég held að það myndi ekki auka traust á okkur ef við skrifum upp á samning sem ljóst er að við getum ekki greitt.

Það sem ef til vill flækist fyrir þeim ágætu embættismönnum og ráðamönnum sem hafa kynnst sér samninginn er fyrst og fremst það sem hangir á spýtunni alræmdu. Ég hef fyrir því traustar heimildir að það sem hangir á spýtunni er eftirfarandi:
Bretar hótuðu því að ef ekki yrði skrifað undir, myndu þeir standa í vegi fyrir aðildarumsókn okkar að EBS og ef ekki er skrifað undir þá mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sitja á öðrum hluta lánsins til okkar. Það er reyndar alveg furðulegt því þessi skuldbinding stangast beinlínis á við 16. lið samningsins og kröfur AGS um hve mikið við megum skulda til að geta yfir höfuð fengið aðstoð frá þeim.

Samkvæmt núverandi skuldabyrði og ef ég má með leyfi forseta vitna í bréf sem ég las frá Gunnari Tómassyni um þessi mál:

    “Erlendar skuldir Íslands eru mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað til lands í nóvember síðastliðnum.

Frank Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins hér á landi, staðfesti þetta í fréttum Stöðvar 2 í vikunni.

    Samkvæmt útreikningum fréttastofu eru erlendar skuldir Íslands nú um 250% af landsframleiðslu, en þetta hlutfall er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn horfir hvað mest til. Þess ber að geta að útreikningarnir eru byggðir á tölum um erlendar skuldir frá því í lok mars á þessu ári. Staðan hefur ekki verið birt opinberlega, hvorki af stjórnvöldum né Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í október 2008 var samin á grundvelli mikillar óvissu um lykilstærðir, þar á meðal erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð.

Í greinargerð starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánaumsókn Íslands sl. nóvember segir m.a. um horfur varðandi skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð:

Gert er ráð fyrir að hlutfall erlendra skulda verði um 160% af vergri landsframleiðslu árið 2009 ….

Á meðan gert er ráð fyrir að þetta hlutfall lækki töluvert mikið í spám okkar mun það samt sem áður vera áfram afar hátt eða um 101% af vergri landsframleiðslu fram til ársins 2013

Hlutfall erlendra skulda mun halda áfram að vera afar viðkvæmt fyrir áföllum sér í lagi út af gengisþróun.

Gunnar heldur áfram:
Aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggði á því að hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins væri um 160% af landsframleiðslu við árslok 2009.  Eins var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutfall af stærðargráðunni 240% „væri augljóslega óviðráðanlegt”.

Í ICESAVE samningum stjórnvalda við Breta og Hollendinga er sérstaklega vísað til umsagnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sl. nóvember um skuldastöðu þjóðarbúsins næstu árin og kveðið á um frekari viðræður ef hún reynist lakari en ráð var fyrir gert.

Staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að skuldastaðan sé af ofangreindri stærðargráðu myndi gera frekari viðræður við Breta og Hollendinga nauðsynlegar nú þegar þar sem forsendur fyrirliggjandi ICESAVE samnings eiga ekki við lengur."


Frú forseti

Nú er ekki tími fyrir skotgrafahernað – Borgarahreyfingin heitir því að gera ekki atlögu að stjórninni þó að Icesave samningurinn verði felldur. Það á að vera réttur sérhvers þingmanns að fá að kjósa eftir sinni bestu vitund varðandi svona stór mál. Ég skora því á fjármálaráðherra og formann VG að hætta við það glapræði og það andlega ofbeldi að setja sjálfan sig og stjórnina að veði til að þvinga þennan samning í gegnum þingið – með góðu eða illu. Ég þoli ekki lengur að hlusta á þetta pex – er það virkilega svo frú forseti að hér sé það virkilega svo illa fyrir komið fyrir okkur að á svo sögulegum tímum að flokkshollusta vegi þyngra en hollusta gagnvart hagsmunum þjóðarinnar?

Þann 7. febrúar sl. hlustaði ég á frábæran fyrirlestur sem Gunnar Tómasson flutti í Reykjavíkur Akademíunni um kollsteypu íslenzka hagkerfisins. Þar lýsti hann m.a. þeirri skoðun sinni að framundan væri greiðsluþrot þjóðarbúsins. Í þessu sambandi spurði einn áheyrenda lykilspurningar:

    Ef greiðsluþrot verður ekki umflúið, er betra að horfast í augu við vandann strax eða eftir nokkur ár?

Svar Gunnars var:

    Strax.

Hæstvirt ríkisstjórn er ekki kominn tími til að athuga hvað 0 leiðin þýðir fyrir okkur – það er beinlínis vítavert gáleysi að athuga ekki opinberlega hvort að sú leið sé ekki skynsamlegasta leiðin til að fara núna áður en það verður of seint – of seint því að auðlindir okkar eru að veði. Landsvirkjun – krúnudjásn þjóðarinnar gæti auðveldlega fallið í hendurnar á erlendum stórfyrirtækjum, það er afar skuldsett og stendur enn verr út af sívaxandi skuldsetningu þjóðar sem á ekki neitt eftir til að borga með nema með nýjum skuldum – er það virkilega eina lausnin sem þessi stjórn hefur – að skuldsetja þjóðina enn frekar...

Það er enginn skömm að því að horfast í augu við vandmálið – við vanmáttinn til að leysa þetta vandamál áður en það verður of seint. Þetta er spurning um nokkur erfið ár eða erfið ár um aldir alda.

Að lokum vil ég lýsa þeirri einlægu skoðun minni að samninganefndin var vanhæf vegna þess að í henni var ekki nokkur maður til þess fær að semja við ævafornar samningaaðferðir Breta og Hollendinga sem eru jú sérfræðingar að semja við þriðja heims lönd um afarkosti, í þessa nefnd átti að skipa faglega en ekki pólitískt – þá vil ég lýsa því yfir að hæstvirtur umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir er algerlega vanhæf til að fjalla um þetta mál eða greiða því atkvæði, því faðir hennar Svavar Gestsson var skipaður formaður samninganefndarinnar. Ég skora því á hæstvirtan ráðherra að sitja hjá í yfirstandandi atkvæðagreiðslu.


mbl.is Geir Haarde: Hann tók því illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

leyndo.is

Úr dagbók þingmanns sem ég skrifa og er birt í viku hverri í helgarblaði DV - ég tek það fram að ég þigg engar greiðslur fyrir þessa pistla aðrar en að fá blaðið í áskrift.

Afbrigðileg afbrigði

Þingið nær ekki að hafa stjórn starfáætlun sinni vegna þess að ríkisstjórnin sem lemur þingið áfram með því að ítrekað misnota svokölluð afbrigði á þingstörfum. Ég veit ekki hvort að almenningur sé meðvitaður um hvað þessi afbrigði eru eiginlega, í stuttu máli eru þau einfaldlega leið framkvæmdavaldsins að keyra mál í gegnum þingið á afbrigðilega stuttum tíma. Stundum er vissulega þörf á að afgreiða lagafrumvörp á stuttum tíma en oftast er það nú svo að þingmál verða að fá nauðsynlegan tíma í nefndum til að koma í veg fyrir mistök vegna of mikils hraða í úrvinnslu. Því hef ég tekið þá ákvörðun að greiða helst ekki atkvæði með þessum afbrigðum. Ég skil ekki af hverju þingmenn samþykkja alltaf þetta fyrirkomulag, þó svo að þeir segjast vera á móti flýtimeðferð af þessu tagi. Vandamálið við svona hraðmeðferð er að manni er gert það ómögulegt að kynna sér til þaula frumvarpið og kanna hvort að það sé með sanni til bóta fyrir þjóðina. Mér skilst á þeim sem hafa starfað lengi á þinginu að þetta sé einskonar herkænsku aðgerð hjá stjórnvöldum til að halda þingmönnum óupplýstum og fá sínu fram. Það getur varla verið skynsamlegt að haga málum þannig.

leyndo.is

Aðferðinni til að halda þingmönnum óupplýstum er einmitt beitt í einu stærsta máli íslandssögunnar: Icesave. Við fengum gögnin afhent um hálftíma eftir að blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar átti að byrja – gegnsæisblaðamanafundur. En gögnin voru heldur rýr, það var að finna frumvarpið um ríkisábyrgðina, samninginn og lista yfir gögn sem við mættum sækja inn á nefndarsvið sem væru hugsanlega mögulega trúnaðargögn. Á þessum tíma stóð yfir þingfundur en á hann var gert stutt  stutt hlé á meðan Jóhanna spjallaði við blaðamenn um gögnin sem við vorum ekki enn farin að sjá. Síðan hélt þingfundur áfram og ég fór heim án þess að ná því að fá hugsanleg trúnaðargögn í hendurnar. Fann þau reyndar inni á island.is, öll með tölu og skyldi ekki af hverju við gátum ekki bara fengið senda slóðina í þetta í stað þess að standa í þessu ljósritunarveseni inni á nefndarsviði. Þegar ég svo mætti í vinnuna næsta dag beið mín þykk mappa sem á stóð Icesave-gögnin frá Utanríkisráðuneytinu með rauðum stimpli sem á stóð: TRÚNAÐARMÁL – ég opnaði möppuna góðu og sá þá að þarna voru engin trúnaðargögn heldur allt það sem ég hafði rekist á inni á island.is – m.a. fréttatilkynningar og annað sveipað miklum dularhjúp. Kannski var þetta leyndó dæmi einhver svona embættismannahúmor☺ Annars þá sat ég í dag í herbergi með einstaklega indælum starfsmanni nefndarsviðs sem mun víst vera mesti alþingisnörd landsins en hans hlutvert er að gæta þess að við þingmenn hlaupumst ekki á brott með aðra möppu sem er með “alvöru” trúnó upplýsingum. Mappan innihélt slatta af skjölum sem ég botna ekkert í að séu trúnaðarskjöl og að þjóðin megi ekki vita hvað innihaldi. Það var ekkert í þessari möppu sem kom mér á óvart – í raun og veru þá staðfesti innihald hennar bara það sem ég hef heyrt víðsvegar um samfélagið: við erum ekki lengur sjálfstæð þjóð. Við erum undir landshöfðingja komin sem er einskonar hlutafélag og þetta hlutafélag heitir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og stórir hluthafar í þessu hlutafélagið eru Bretland og Holland, það skyldi því ekki koma neinum á óvart ef samningurinn sé okkur ekki í hag ef þeir sem sátu í samninganefndinni nutu ráðgjafar AGS. Það má auðvitað aldrei gleymast að AGS er með sanni engin góðgerðasamtök og það kann ekki góðri lukku að stýra ef yfirvöld rugla þeim við ABC samtökin.

Ég ætla að róa ríkisstjórnina aðeins, því það er ekkert gaman að standa í þessu Icesave máli fyrir þau: ég mun aldrei gera atlögu að henni þó að ICESlave samningurinn verði felldur, né aðrir félagar mínir í þinghópi Borgarahreyfingarinnar.


mbl.is Ekki öll gögn komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar forsendur vegna ICESAVE

Gunnar Tómasson hagfræðingur ritar eftirfarandi bréf:

Þann 7. febrúar sl. flutti ég fyrirlestur í Reykjavíkur Akademíunni um kollsteypu íslenzka efnahagskerfisins í byrjun október 2008 og lýsti m.a. þeirri skoðun minni að framundan væri greiðsluþrot þjóðarbúsins. Í þessu sambandi spurði einn áheyrenda lykilspurningar:

Ef greiðsluþrot verður ekki umflúið, er betra að horfast í augu við vandann strax eða eftir nokkur ár?

Svar mitt var:

Strax.

Eins og fréttastofa sagði frá í gærkvöldi, segir í frétt á netinu í dag, eru erlendar skuldir Íslands mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað til lands í nóvember síðastliðnum.

Frank Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins hér á landi, staðfesti þetta í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi.

Samkvæmt útreikningum fréttastofu eru erlendar skuldir Íslands nú um 250% af landsframleiðslu, en þetta hlutfall er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn horfir hvað mest til. Þess ber að geta að útreikningarnir eru byggðir á tölum um erlendar skuldir frá því í lok mars á þessu ári. Staðan hefur ekki verið birt opinberlega, hvorki af stjórnvöldum né Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þetta kemur mér ekki á óvart - aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í október 2008 var samin á grundvelli mikillar óvissu um lykilstærðir, þar á meðal erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð. (Ég benti sérstaklega á hið síðarnefnda í tölvupósti til aðila heima á sínum tíma.)

Í greinargerð starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánaumsókn Íslands sl. nóvember segir m.a. um horfur varðandi skuldastöðu þjóðarbúsins á komandi tíð:

The external debt ratio is estimated at 160 percent of GDP in 2009 as the public sector takes on loans to finance reimbursement of foreign deposit insurance, and new loans to fill the financing gap. Thereafter some net debt repayments are made and external debt falls back as a percent of GDP.

While the external debt ratio falls back significantly over the forecast horizon, it remains very high at 101 percent of GDP by 2013.

Within the total, public sector external debt declines to 49 percent of GDP by 2013 from 100 percent in 2008, as a result of debt repayments and a resumption in GDP growth over the medium term.

External debt remains extremely vulnerable to shocks-most notably the exchange rate. A further depreciation of the exchange rate of 30 percent would cause a further precipitous rise in the debt ratio (to 240 percent of GDP in 2009) and would clearly be unsustainable.

Með öðrum orðum, aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggði á því að hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins væri um 160% af landsframleiðslu við árslok 2009.  Eins var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutfall af stærðargráðunni 240% „væri augljóslega óviðráðanlegt”.

Í ICESAVE samningum stjórnvalda við Breta og Hollendinga er sérstaklega vísað til umsagnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sl. nóvember um skuldastöðu þjóðarbúsins næstu árin og kveðið á um frekari viðræður ef hún reynist lakari en ráð var fyrir gert.

Staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að skuldastaðan sé af ofangreindri stærðargráðu myndi gera frekari viðræður við Breta og Hollendinga nauðsynlegar nú þegar þar sem forsendur fyrirliggjandi ICESAVE samnings eiga ekki við lengur. 


mbl.is Skoða Icesave-gögn í lokuðu herbergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg regla sem þarf að afnema eigi síðar en strax

unemployment.jpgNú er það þannig að það er nánast ómögulegt að finna vinnu fyrir þúsundir manna - það er hreinlega ekki nein vinna í boði fyrir u.þ.b. 18.000 þúsund manneskjur - (þó svo einhverjir svindli á kerfinu þá eru það með sanni langt í frá allir). Hvað á fólk að gera sem á ekki neitt orlof til að nota? Ég á ekki von á því að þeir sem hafa verið atvinnulausir síðan í haust eigi mikinn pening til að fara í frí. Hverskonar afbökun á réttindum atvinnulausra er þetta eiginlega.

Þegar ég sat nefndarfund í fjárlaganefnd þá var það greinilegt að starfsmenn í félags- og tryggingamálaráðuneytinu höfðu lítinn áhuga á að finna lausnir handa þessum stóra hluta þjóðarinnar sem er atvinnulausir - það sem þau vildu fá fjármagn í fyrst og fremst var að hafa uppi á svindlurum. Það er gegnið fram af miklu offorsi og veit ég um eina konu sem fékk hótunarbréf um að bæturnar yrðu teknar af henni vegna þess að hún hafði fengið greiddar 10.000 krónur í orlof og átti fyrir vikið að vera einn af þessum meintu svikurum. Hversu margar ætli þurfi að búa við slíka ógn út af hörku í framferði vinnumiðlunar?

Ég skora stjórnvöld á að sína mennsku og hætta að láta stóra þjóðfélagshópa engjast sundur og saman af áhyggjum út af óvissu sem auðvelt væri að laga. 

Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að allir óháð því hvort þeir eigi orlof inni eða ekki þurfi að vera án greiðsla úr atvinnutryggingasjóði í heilan mánuð. Engu skiptir þó fólk vilji vera virkt í atvinnuleit - því er skikkað í frí án þess að hafa nokkuð um það að segja. Það þarf að laga þessa ambögu eigi síðar en strax. Það er alveg ljóst að þessi reglugerð var sett á í góðærinu og það eru einfaldlega engar forsendur í dag til að halda þessu til streitu.


mbl.is Atvinnulausir eiga ekki rétt á bótum í orlofi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband