Leita í fréttum mbl.is

Rannsóknarnefnd þingsins: ræðan mín frá því í gærkvöldi

Þingsalurinn var nánast galtómur þegar ég flutti þessa ræðu:

Úr þessum ræðustól hafa ráðherrar eða forsetar ásakað mig um að skapa tortryggni eða hjá mér búi annarlegar hvatir þegar ég hef mælt gegn þessu frumvarpi um sérstaka þingmannanefnd vegna rannsóknarskýrslu þingsins sem allir bíða eftir annað hvort með kvíða eða í ofvæni.

Þetta er engin venjuleg skýrsla, enda tekur hún á hruninu, hruni sem er mun víðtækara en bara hrun fjármála, hrun sem sýnir svo ekki verður um villst að hérlendis hefur orðið siðrof. En hvað er siðrof. Ég hafði aldrei velt þessu orði fyrir mér fyrr en í hruninu í fyrra. Siðrof er þegar siðferðisbrestirnir eru svo miklir í samfélaginu að líkja má því við jarðrof og siðferðisvitundin verður jafn ístöðulaus og moldrok.

Sú bábilja og veruleikafirring að halda að þingið eigi eitt að standa að því að meta hvort eigi að kalla saman landsdóm eða veita sjálfu sér aðhald myndi ég síðan vilja kalla veruleikarof. Ég hef nefnilega ekki enn fyrirhitt neinn fyrir utan þingheim sem finnst þetta snjöll hugmynd hjá hæstvirtri forsætisnefnd.

Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli er enginn áhugi meðal annarra afla á Alþingi að afgreiða það með öðrum hætti en þeim sem tryggir augljósa hagsmuni þeirra flokka sem voru við stjórnvölin við bankahrunið og í aðdraganda þess.

Það hlýtur að vera öllum ljóst að alþingismenn eru ekki færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára. Nauðsynlegt er að hlutlausir aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem er sem álitsgjafar við lagasmíð eða fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar. Tryggja þarf réttlæti og gegnsæi í öllu ferlinu.

Frú forseti

Mér finnst sorglegt hvernig á að taka á þessu máli, mér finnst sorgleg sú veruleikafirring sem ég finn innan veggja þingsins. Það má ekki gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð án þess að vera ásakaður um að hafa annarlega hvatir að leiðarljósi. Ef það eru annarlegar hvatir að kalla eftir skynsamlegri meðferð á svo mikilvægu máli þá megi háttvirtir þingmenn alveg kalla þetta ákall um að horfast í auga við þá gjá trausts sem hefur myndast á milli þjóðar og þings annarlegar hvatir. Ef það að benda á gallana við það að þingið veiti sjálfu sér aðhald er til þess fallið að skapa tortryggni um þingið þá verður svo að vera. Ég held að tortryggnin hafi lítið að gera með mín orð, heldur miklu frekar hefur hún að gera með það skelfilega hrun sem átti sér stað og þann sofandi hátt sem átti sér stað innan veggja þingsins. Miðað við þau vinnubrögð sem viðgangast hér á þessum síðustu vikum þá skil ég alveg hvernig sofandi að feigðarósi þingið og þjóð flaut inn í þá erfiðleika sem við erum að glíma við núna.

Ég gagnrýni harðlega það veruleikarof sem á sér stað hér inni í sölum þingsins, það er veruleikarof að gera sér ekki grein fyrir því að almenningur vill önnur vinnubrögð en hafa verið hér ástunduð – það er lítið traust á þinginu að gefnu tilefni. Þingið sem og aðrir ráðamenn brugðust þjóðinni vegna slakrar lagasetningar varðandi fjármálakerfið. Það hefði verið lag að sýna að okkur er full alvara með að taka hér á hlutunum utan hefðaveruleikans sem að mörgu leyti er eins og myllusteinn um þingstörfin. Það hefði verið lag að sýna að við þorum að leita leiðsagnar utan þings meðal fólks sem á engra hagsmuna að gæta nema að vera leiðarljós fyrir þingið um hvernig ber að taka á málum er varða þingið sjálft og þá fulltrúa sem hugsanlega brugðust í því hlutverki.

Ef þessi orð mín eru til þess fallin að auka á tortryggni gagnvart þinginu þá verður bara svo að vera. Ég verð bara að viðurkenna að mannlegir brestir eru fangaðir með löggjöf og hér innan veggja hefur sýnt sig að mannlegir brestir eru ekki síður landlægir en annarsstaðar í samfélaginu. Hættum að setja okkur skör hærra en annað fólk og viðurkennum vanmátt okkar til að taka á þeim þætti þessa máls sem setur þingmenn í þá ómögulegu stöðu að fjalla um svo viðkvæm mál er varða þeirra eigin samherja. 


Hjáseta

Það er yfirlýst stefna mín að greiða ekki atkvæði um mál sem ég hef ekki haft tíma til að kynna mér. Vegna mikillar færibandavinnu á þinginu núna er ekki mögulegt að kynna sér öll þau frumvörp sem verið er að renna í gegn með endalausum afbrigðum. Afbrigði þýðir að beðið er um að mál fái hraðari afgreiðslu en kveður á um í þingsköpum. 

Ég er ekki í nefndinni sem fjallar um þetta mál og hafði ekki tíma til að ræða við aðra þingmenn sem eru líka á hlaupum um möguleg ágreiningsmál eða galla á frumvarpinu. Þess vegna sat ég hjá.

Það er svolítið furðulegt að sjá þingmenn greiða atkvæði eftir einhverri línu um mál sem þeir vita ekki neitt um. Það ætti að tilheyra gamla Íslandi. Því drjúgan hluta næsta árs munum við svo eyða í að lagfæra galla á löggjöf sem var ekki nægilega vel unnin. 

Ég er ekki að tala sérstaklega um þetta mál, hef miklu meiri áhyggjur af fjárlögunum og skattafrumvörpum sem hafa víðtæk áhrif á afkomu almennings. Annars þá er ég búin að fá það staðfest að þingið hefur nákvæmlega engin völd og kannski er bara kominn tími á að leggja það niður í núverandi mynd ef þingmenn fara ekki að standa í lappirnar og krefjast breytinga og endurheimti völd sín frá framkvæmdavaldinu. 


mbl.is Ný matvælalöggjöf samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færibandavinna þingsins

 Er stórlega misboðið vegna nokkurra þeirra mála sem á að troða í gegnum þingið á næstu dögum. Bendi á aðför að þeim sem eru atvinnulausir, bendi á meðför þingsins á skýrslu rannsóknarnefndarinnar, bendi á ívilnanir vegna gagnavers til BTB. Hafið augun opin kæru landsmenn, nýja Ísland er blekking.

Ljóst er að ekkert hefur breyst. Enn skal lauma umdeildum frumvörpum í færabandavinnuna sem er í gangi núna. Þingið hefur engin völd. Engin frumvörp fá eðlilega þinglega meðferð. Þ.e.a.s. umfjöllun og afgreiðslu úr nefndum nema ráðherrar samþykki það, sem gerist helst ekki nema um þau ríki þverpólitísk sátt. Þetta er hinn kaldi veruleiki sem ég hélt í einfeldni minni að ætti að breyta. Engin ný vinnubrögð. Allt við það sama, sama hver situr í hvaða ráðuneyti. Reyni að plægja í lýðræðishafinu en verður lítið ágengt.


Fréttatilkynning: afnám leyndar á Icesave gögnum

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna málflutning formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, vegna þeirrar leyndar sem hvílir á gögnum er varða Icesave.  Formaður fjárlaganefndar heldur því fram að aldrei hafi verið beðið um að leyndinni verði aflétt.  Það er ekki allskostar rétt.  Ítrekað báðu þingmenn Hreyfingarinnar um að leyndinni yrði aflétt í ræðustóli Alþingis.  Þá bað þingflokksformaður Hreyfingarinnar um að tölvupóstum á milli Indriða H. Þorlákssonar og Mark Flanagan, dags. 13. og 14. apríl 2008, yrði dreift til allra nefndarmanna utanríkismálanefndar áður en fundur með Franek Rozwadowski, dags. 17. júlí 2009, sem Birgitta Jónsdóttir kallaði eftir yrði haldinn. Ekki var hægt að verða við þeirri beiðni með öðrum hætti en að umræddum tölvupóstum var varpað upp á tjald, nefndarmönnum til skoðunar. 

Til að tryggja að boðleiðir séu réttar hefur Birgitta Jónsdóttir boðsent fjármálaráðherra í tvígang, Steingrími J. Sigfússyni, formlega beiðni um að trúnaði verði nú þegar aflétt af gögnunum í „leynimöppunni“ svokölluðu, enda ekkert sem réttlætir að þau séu ekki aðgengileg almenningi.  Í ljósi orða Guðbjarts Hannessonar í Fréttablaðinu hlýtur að verða brugðist við þessari beiðni án tafar.

Ljóst er að það á að hunsa þessa beiðni sem ég sendi upprunalega 8. desember, því ekki hef ég enn fengið nein svör, þó það sé alveg ljóst að þessi gögn muni varpa nýju ljósi á Icesave málið gagnvart almenningi.  

 

Formleg beiðni um að leynd verði aflétt

Þann 8. desember síðastliðin sendi ég formlega beiðni til fjármálaráðherra þess efnis að leynd verði aflétt af öllum gögnum í vörslu þingsins er varða Icesave - Í morgunn sendi ég ítrekun og mun jafnframt endurtaka boðsendingu til hans. Sum þessara skjala eru nú komin í umferð, eins og til dæmis það sem segja má sé viðkvæmast, þ.e.a.s. bréfasamskipti á milli Mark Flanagan og Indriða sérstaks ráðunautar SJS. Það er því engin ástæða til að halda leynihjúp um hin skjölin. 
 
Hér er bréfið:  
Þann 8. desember 2009 sendi undirrituð yður beiðni þess eðlis að leynd veðri aflétt af öllum gögnum í vörslu þingsins er varða Icesave málið. Þar sem engin svör hafa borist ítrekar undirrituð erindi sitt hér með, þess eðlis að neðangreind gögn, 23 að tölu, sem má finna í „leynimöppunni“ svokölluðu er varða Icesave, verði gerð opinber og aðgengileg almenningi nú þegar. 
 
Hér er listi yfir skjölin sem ég vil að almenningur fá nú þegar aðgengi að:
1. Settlement Agreement between TIF and FSCS (Financial Security Compensation 
Scheme). 
2. Minnisblað um fund íslenskra og breskra stjórnvalda um Icesave málið í London 2. 
september 2008. 
3. Tölvupóstssamskipti við formann samninganefndar Hollands í febrúar 2009 og sem viðhengi bréf Landsbanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins dags. 23. september 2008
4. Frásögn af fundi með fulltrúum Hollands vegna Icesave reikninga Landsbankans 10. 
október 2008. 
5. Frásögn af fundi með fulltrúum Bretlands vegna krafna í þrotabú Landsbankans 1 1 . 
október 2008. 
6. Frásögn af fundi með fulltrúum Bretlands um fall íslenska bankakerfisins og stöðu innstæðueigenda í breska útibúi Landsbankans 23. og 24. október 2008. 
7. Frásögn af fundi sjö fastafulltrúa ESB með Íslandi í kjölfar ECOFIN 4. nóvember 2008. 
8. Fundur með sendiherrum sjö ESB ríkja vegna álits lögfræðihóps um innstæðutryggingar 1 2. nóvember 2008. 
g. Tölvupóstur með frásögn sendiherra Íslands í Brussel af fundi með fastafulltrúa Svíþjóðar og fastafulltrúa Danmerkur gagnvart ESB þar sem staða eftir ECOFIN fundinn í byrjun nóvember var metin, dags. 11. nóvember 2008. 
10. Tölvupóstur Martins Eyjólfssonar til Baldurs Guðlaugssonar um mat á stöðunni gagvart ESB, dags. 12. nóvember 2008. 
11. Tölvupóstur Stefáns Hauks Jóhannessonar til fjármálaráðherra o.fl. um óformlegan fund með yfirmanni lagaþjónustu Ráðherranaráðsins í kjölfar ECOFIN fundarins í byrjun nóvember, dags. 13. nóvember 2008. 
12. Frásögn af fundi samninganefnda Íslands, Bretlands, Hollands og Þýskalands í Haag 2.-3. desember 2008. 
13. Frásögn af fundi milli utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Bretlands dags. 3. 
desember 2008. 
14. Álit ríkislögmanns, með aðstoð þriggja lagaprófessora, um lögfræðileg íätaefni er lúta að framkvæmd laga nr.12512008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði og fleira, dags. 19. nóvember 2008. 
15. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í Downingstræti, dags. 8. október 2008. 
16. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í breska utanríkisráðuneytinu, dags. 14. 
október 2008. 
17. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í hollenska utanríkisráðuneytinu, dags. 
16. október 2009. 
18. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í breska utanríkisráðuneytinu 27. október 2008. 
19. Frásögn af fundi sendiherra Íslands í London í breska utanríkisráðuneytinu 10. nóvember 2008. 
20. Samantekt Lovells um ástæður fjármálaráðuneytis Bretlands fyrir frystingu eigna Landsbankans, dags. 7 .-27 . október 2008.
21. Fundargerð af fundi lögmanna Lovells og Logos með lögmönnum Blackstone Chambers. Endurmat Blackstone Chambers á lögfræðilegri ráðgjöf vegna kyrrsetningar á eignum Landsbankans í Bretlandi, dags. 12. nóvember 2008.
22. Bréf utanríkisráðherra Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands til utanríkisráðherra Bretlands varðandi Icesave samningaviðræður dags. 16. janúar 2009.
 
Virðingarfyllst,
Birgitta Jónsdóttir
Þingflokksformaður Hreyfingarinnar

mbl.is Icesave-samningur forsenda fyrir endurskoðun hjá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slagorðið Norrænt velferðarsamfélag

Ég verð að viðurkenna að þegar ég fór að vinna sem þingmaður þá hvarflaði ekki að mér hve óvönduð vinnubrögð eru viðhöfð á þinginu. Ég hélt í einfeldni minni að þingið hefði einhver smá völd. En hef komist að því að þingmenn hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu eru einfaldlega strengjabrúður framkvæmdavaldsins. Ég veit að við lifum á sögulegum tímum þar sem reynt er að bjarga því sem bjarga má í algeru hruni. En þessi svokallaða björgun er í hæsta máta furðuleg. Í stað þess að tryggja að grunnstoðirnar bresti ekki er ákveðið að dæla peningum í verkefni sem í huga mér eru ekki þess eðlis að réttlætanlegt sé að veita fjármunum í þau á meðan ljóst er að við erum þegar komin á þann stað að öryggi sjúklinga og barna er skert.

Það er merkilegt að hlusta á orðræðu Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra varðandi sína skjólstæðinga. Þegar ég spurði hana hvort að hún myndi ekki alveg örugglega tryggja að stofnanir eins og til dæmis SÁÁ leggist ekki á hliðina, þá hváði hún: "Í kreppunni verður hver að sjá um sig sjálfur." Ég hefði skilið þetta hugarfar hjá einhverjum sem aðhyllist einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og er á annarri línu en þeirrar að þróa hér Norrænt velferðarsamfélag eins og þessi ríkisstjórn lofaði. Annars þá held ég að slagorðið Norrænt velferðarsamfélag sé einmitt bara slagorð og engin innistæða fyrir því.

Í samræðum við félaga mína úr fjárlaganefnd, Margrét og Þór skipta þeirri vinnu á milli sín vegna þess að nefndarstörfin skarast á og oft þarf fólk að vera í mörgum nefndum á sama tíma, þá er ljóst að þessi orðræða um samstarf og samráð er líka bara innantómt orðagjálfur sem hljómar fallega en enginn vilji er til að framkvæma. Kannski halda valdhafar að samráð felist í því að sitja saman fundi og hlusta á ótal beiðnir um fjárstyrki fyrir verkefni sem mér finnst einfaldlega ekki eiga neitt erindi á borð alþingismanna. Ég hefði haldið að samráð ætti frekar að vera um vinnulag og megináherslur í stað þess að horfa upp á nefndarmenn meirihlutans fylla skjóður sínar með peningum skattborgara til að flytja í sín heimahéruð. Meira að segja spákonurnar fá enn sínar dúsur. Já það væri kannski snjallt að spyrja þessa sömu spákonu hvernig næsta ár verður, þegar hún fær sínar milljónir á meðan lokað verður fyrir grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. 

Ég hlusta ekki á þau rök að þetta hafi alltaf verið svona, það var einmitt út á loforðin um að breyta klisjunni: þetta hefur alltaf verið svona, sem þessi ríkisstjórn fékk sitt embætti. Það að forgangsraða peningum í verkefni sem hafa ekkert með grunnþjónustu samfélagsins er fullkomlega óásættanlegt í kreppunni. Það að greiða biskupsstofu aukalega nærri tvo tugi milljóna í þessari krepputíð er ekki réttlætanlegt. Þessi vinnubrögð er ófagleg og ómarkviss og í ósamræmi við þá tíma sem við lifum á. Öryggi þjóðarinnar er hunsað á kostnað ótal gæluverkefna víðsvegar um land og borg. Fjárlagagerðin gerð á hundavaði - svo miklu hundavaði að það þurfti að taka frumvarpið aftur inn í nefnd vegna þess að það gleymdist að setja inn réttar tölur inn í það. Við þurfum að vinna vinnuna okkar vel kæru samþingmenn meirihlutans. Við þurfum að hefja byltingu inni á þingi varðandi vinnubrögðum og þankagangi. Við þurfum að endurheimta völd þingsins frá framkvæmdavaldinu. Það að velta ábyrgðinni yfir á fortíðina mun ekki leysa þau vandamál sem við erum að glíma við í dag. 


mbl.is Geta sparað með tilfærslu sjúklinga og aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurkoma

Eftir að ég hætti að blogga hér á moggablogginu þá hef ég ekki þrátt fyrir nokkrar tilraunir annars staðar í netheimum fundið þá umgjörð eða það umhverfi sem mér finnst nauðsynlegt til að finna hvöt til að tjá mig á þennan hátt. 

Eftir mikla umhugsun og spjall við félaga Þór hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég ætla að blogga hér aftur. Það hefur ekkert að gera með ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins eða þann sem ekki má nefna. Þessi ákvörðun er ekki tengd pólitík heldur hreinni praktík. Mér finnst mikilvægt að koma á framfæri því sem ég upplifi á þinginu á sem beinskeyttastan hátt þar sem hægt er að finna það án mikillar fyrirhafnar.

Ég hef athugað og prófað önnur bloggkerfi og það verður bara að viðurkennast að það kemst enginn með tærnar þar sem starfsmenn mbl.is bloggsvæðisins hafa hælana þegar kemur að því tæknilegri útfærslu á því að koma frá sér efni í bloggumhverfi.

Það hefur enginn borgað mér eða boðið mér neitt, ég er ekki klappstýra eins né neins eins og sumir samþingmenn mínir úr stjórnarmeirihlutanum virðast hafa selt sér til að réttlæta þá viðspyrnu sem ég hef viðhaft út af Icesave. Sú viðspyrna á sér þær eðlilegu útskýringar að ég er einfaldlega að fylgja stefnu Hreyfingarinnar varðandi Icesave en hún er svona: Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu og skynsemi. ICESAVE reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands og m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar innlagnir á reikningana, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir persónulega ábyrgir fyrir því sem vantar upp á. Samið verður um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. 

Annars þá iða ég í skinnu að tjá mig um fjárlögin sem lögð verða fyrir þingið á morgunn og ætla mér að skrifa um það þegar ég vakna í fyrramálið - bendi fólki á að kíkja á hvernig meirihluti fjárlaganefndar hefur ákveðið að skipta ríkisfjármunum upp. Það er nánast eins og þetta ágæta nefndarfólk geri sér ekki grein fyrir því að á meðan verið er að henda fjármunum í verkefni mörg hver gæluverkefni sem hefði KANNSKI mátt réttlæta að yrði útdeilt til úr vösum skattgreiðenda, þá er fólk að svelta, fær ekki nauðsynlega læknisaðstoð og er að missa heimili sín. Þetta er skammarlegt grandvararleysi og ber ekki vott um nauðsynlega forgangsröðun á slíkum tímum.


Hætt á moggabloggi

Ég hef verið lengi að spá í að hætta á moggabloggi - hef ekki viljað hætta vegna þess að ég er mjög hrifin af kerfinu sem hannað var í kringum mbl.is - vil hrósa þeim sem settu þetta kerfi upp og þróuðu.

Það hefur oft komið fyrir að mér hafi ofboðið vinnubrögðin á þessum miðli. Nú er mér allri lokið - ég hef ekkert persónulegt við DO að sakast og margt af því sem hann hefur sagt er alveg hárrétt - en hann er samt allt of stór persóna í aðdraganda og í sjálfu hruninu til að hægt sé að réttlæta þá stöðu sem hann hefur ákveðið að þiggja. 

Blað sem eitt sinn hafði smá trúverðugleika hefur glatað þeim trúverðugleika með þessari ráðningu og uppsögnum sem fylgdu í kjölfarið.

Mér stendur til boða að flytja mig á eyjuna en ég ætla ekki að þiggja það boð - ætla að nota gamla bloggið mitt á blogspot um sinn og sjá hvort að þeir sem hafa skrifað beittar og fræðandi blogg greinar muni ekki finna sér stað í netheimum sem er ekki háð pólitísku reiptogi. 

Takk öll sem hafið gert bloggið að áhugaverðum miðli -takk öll sem hafið verið bloggvinir mínir og ég hef skipst á skoðunum við um langa og skamma hríð. 

Þetta er síðasta færslan mín hér og ég mun jafnframt loka öllum hinum bloggunum sem ég hélt úti á mbl.is.


Yfirlýsing - Hreyfingin - Samstaða um réttlæti og almannahag

Hópur fólks, þar með taldir þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar og tveir varaþingmenn, hafa komið sér saman um stofnun nýrrar hreyfingar með það að markmiði að framfylgja upprunalegri stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar og veita grasrótarhreyfingum rödd á Alþingi. Hópurinn mun innan skamms leggja fram samþykktir sem miða að því að lágmarka miðstýringu og opna fleiri en skráðum meðlimum þátttöku, enda verður ekki haldið sérstaklega um
félagaskrá.

Með þessu telur hópurinn sátt tryggða í baklandinu, enda ekkert til fyrirstöðu að Borgarahreyfingin í núverandi mynd geti ekki verið hluti af þessari hreyfingu eins og önnur grasrótarsamtök.

Það er trú hópsins að hreyfingin geti ekki verið þverpólitískt bandalag almennings sem vill uppræta flokkseigendaklíkur á sama tíma og hún útiloki samstarf við fólk og hópa vegna strangra inntökuskilyrða. Þá er vænlegra að vinna þverpólitískt innan þings sem utan með áherslu á hin upprunalegu stefnumál. Stefnuskráin er verkefnalisti, og þegar hann er tæmdur mun hreyfingin, eins og lofað var, vera lögð niður. Það er því hryggðarefni að sú stefnuskrá sem lagt var af stað með í upphafi hefur í undangenginni orrahríð orðið að aukaatriði og gerðar tilraunir til að taka inn fjöldi annarra málefna sem aldrei var sammæli um né ætlunin að sinna. Markmiðin eru þar með orðin óljós, og hugmyndin um skyndiframboð í takmarkaðan tíma með fá málefni er að engu orðin. Skærasta birtingarmynd þess, hin nýsamþykktu lög Borgarahreyfingarinnar, snúast þess í stað um völd, valdheimildir, valdboð, refsingar, brottvikningu, hljóðritanir og það að stofna stjórnmálaflokk með stjórnmálamönnum; enn einn flokkinn.

Það stóð aldrei til að Borgarahreyfingin ílengdist á Alþingi. Í því fólst styrkur hennar ekki síst, enda líta þeir þingmenn hennar sem hér eiga hlut á það sem lýðræðisleg forréttindi að geta starfað á þingi án þess að binda
hugi sína og hjörtu við næstu kosningar. Geta fylgt sannfæringu sinni sem fulltrúar kjósenda, óháð sýndarárangri og atkvæðaveiðum. Hreyfingin ætlar að vera sameiningartákn þeirra sem sjá enga von í flokkakerfinu, og trúir
því að saman getum við rutt úr vegi þeim hindrunum sem hafa staðið í vegi fyrir raunverulegu lýðræði á Íslandi.

Hreyfingin

Talsmaður Hreyfingarinnar uns ráðin hefur verið framkvæmdarstjóri er:
Daði Ingólfsson, s. 822-9046 – dadi@1984.is
hreyfingin.blog.is


Brú milli þjóðar og þings


Á laugardaginn kemur heldur Borgarahreyfingin sinn fyrsta landsfund og
ræður ráðum sínum um næstu skref í starfi í sínu í þágu þjóðarinnar.
Hreyfingin vann eftirminnilegan sigur í kosningum sem haldnar voru í
kjölfar endurtekinna þjóðfunda á Austurvelli þar sem breiðfylking borgara
þessa lands krafðist réttlætis og raunverulegs lýðræðis. Það var einmitt
upp úr þessum fundum sem hreyfingin var sprottin og þangað sótti hún
hugmyndir sínar og kröfur.

Í aðdgraganda kosninganna er Borgarahreyfingin þess vegna kynnt sem
breiðfylking fólks sem á fátt annað sameiginlegt en að vera virkir
borgarar í lýðræðissamfélagi. Fólks með fjölbreyttan bakgrunn og ólíkar
lífsskoðanir. Stjórnmálaafl sem sinnir hagsmunavörslu fyrir einn hóp -
þjóðina - og hefur eina meginreglu að leiðarljósi; að færa völdin frá
flokksræði til lýðræðis.

Frá flokksræði til lýðræðis
Það er ástæða til að rifja þessi orð upp hér og halda þeim til haga á
komandi landsfundi. Þau eru í okkar huga, sem höfum tekist á hendur sú
ábyrgð að vera fulltrúar Borgarhreyfingarinnar á Alþingi íslendinga, sá
kjarni sem starf okkar á að snúast um. Í þeim felast sannindi sem ekki
mega undir nokkrum kringumstæðum gleymast.

Það hefur sýnt sig í öllum samfélögum á öllum tímum, að það vald sem
skapast í krafti miðstýringar og regluverks verður á skömmum tíma
uppteknara af viðhaldi sjálfs sín en þeim jarðvegi sem það er upphaflega
sprottið úr.

Þess sjást víða merki í fréttaflutningi og á spjallrásum vefsins hversu
undurfljótt hugmyndin um miðstýrt flokksapparat sem hafa þarf vit fyrir
fólki lætur á sér kræla. Þannig hefur tiltölulega fámennur hópur gert
tilkall til eignarhalds á hreyfingunni í kjölfar kosningasigursins og
sumir einstaklingar meira að segja tekið að líta á sig sem fulltrúa
heillar þjóðar og þá líklegast vegna góðrar mætingar þeirra á félagsfundi.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að einhverjir missi þannig sjónar á
upphaflegu erindi lýðræðishreyfingar eins og þessarar því flokksræðið með
eignarrétti fárra útvalinna er nokkurn vegin eina fyrirmyndin að
stjórnmálaafli sem við höfum í þessu landi og rætur þess liggja dýpra en
nokkurn grunar. En það er líka hálfkaldhæðnislegt að þurfa ítrekað að
svara kröfum um meint vald sjálfskipaðra flokkseigenda yfir þingmönnum
hreyfingarinnar, í ljósi þess að slíkur hráskinnsleikur er einmitt
dæmigerð birtring þess múlbundna veruleika stjórnsýslu og miðstýringar sem
Borgarahreyfingunni var frá upphafi ætlað að vinda ofan af.

Dýrmæt reynsla
Það er heilmikið til í því sem haldið hefur verið fram að ekki hafi
nægilega vel verið hugað að skipulagi starfsins og áframhaldandi þróun
mála eftir kosningar. Að menn hafi ekki verið viðbúnir því að ná
raunverulegum árangri, hvað því að koma fjórum mönnum á þing. Til þess var
tíminn einfaldlega of knappur, reynsluleysi okkar allra of mikið. Engu að
síður er fátt sem bendir til þess að ekki hafi verið unnið vel úr góðum
árangri - hvernig fyrirfram ákveðin áætlun eða ákvarðanir um vinnulag
hefðu gert störf okkar auðveldari eða markvissari. Til þess hafa aðstæður
einfaldlega verið of ófyrirsjáanlegar og í raun súrrealískar.

Hér leynist líklega ein mikilvægasta mótsögn veruleikans og sú sem
erfiðast getur verið að sætta sig við, nefnilega sú, að veruleikinn er,
líkt og maðurinn sjálfur, ólíkindatól og skreppur alltaf úr höndum
skipulagsins - og miðstýringarinnar þá minnst varir.

Í því ljósi má segja að það hafi ekki verið svo galið að vita ekki upp á
hár hvernig bregðast skildi við kosningasigri, en bregðast þess í stað við
þeim veruleika á eigin forsendum þegar þar að kæmi. Og það er einmitt það
sem við höfum verið að gera frá fyrsta degi. Það má kalla það spuna eða
flæði, það má líka orða það svo að við höfum lagt meiri áherslu á að vanda
okkur á hverju og einu augnabliki en að vinna eftir fyrirfram njörfaðri
áætlun. Fyrir vikið höfum við gert alls kyns mistök, yfirsést ýmislegt og
ofgert öðru. En þannig höfum við líka lært að nýta enn betur þau tækifæri
sem gefist hafa til að vega og meta, endurskoða og tengja, með betri
árangri en nokkur flokkslína eða niðurnjörfuð hugmyndafræði leyfir. Þar er
mikilvægasta lexían fólgin í því gjöfula samstarfi sem við höfum átt við
fjöldan allan af fólki, jafnt kjósendur okkar sem aðra, sem verið hafa í
sambandi við okkur á þeim fjölbreytta vettvangi sem í boði er í
samtímanum; hvort sem er með samtölum á neti og í síma, á fundum eða á
förnum vegi. Við höfum lagt mikla áherslu á að auðvelt sé að nálgast
okkur, að við séum ekki atvinnupólitíkusar í þeirri einangrandi merkingu
sem í því hefur falist, að við neitum að fylgja flokkslínum en hlustum
eftir öllu sem rétt er og gagnlegt og göngumst við því sem aðrir gera
betur en við og látum ekki fyrirfram merkt hólf móta hegðun okkar né
afstöðu.

Þannig sjáum við hlut Borgarahreyfingarinnar verða mestan; sem vettvang
opinnar hugmyndafræði og vakandi, heiðarlegrar endurskoðunar. Sem barnsins
sem er alltaf tilbúið að spyrja þess sem venjan er að þegja um, en
jafnframt sem manneskjunnar sem tekur út þroska sinn í samspili ólíkra
viðhorfa og reynslu og býr yfir æðruleysi þess sem ekkert hefur að fela.

Við erum þess fullviss, að fenginni dýrmætri reynslu, að þinginu væri
betur farið og þar með þjóðinni allri, ef hver og einn þingmaður ynni
sannanlega samkvæmt eigin sannfæringu og tæki ákvarðanir út frá eigin
innsæi, byggðu á opnum huga og einlægum áhuga á framgangi þess sem sannara og betra reynist. Þannig gæti enginn dulist á bak við flokksmúra þegar
hentaði né þurft að beygja sig undir svokallaðan flokksaga þegar flokknum
hentaði.

Við höfum vissulega orðið að læra hratt á nýjum vinnustað og ekki átt
annars úrkosti en starfa samkvæmt þeim venjum sem þar eru í hávegum
hafðar. Þegar við bætist að þingheimi hefur verið haldið í gíslingu
tveggja umræðuefna frá fyrsta degi, er óhætt að halda því fram að svigrúm
nýs stjórnmálaafls til athafna og áhrifa hafi reynst æði takmarkað. Engu
að síður höfum við orðið vitni að breytingum í starfsháttum, viðmóti og
hlutverkaskipan innan hins háa Alþingis sem gefa til kynna að tilvist
lýðræðishreyfingar eins og þeirrar sem við erum fulltrúar fyrir hafi mun
meiri áhrif en nokkur hefði þorað að vona. Kannski vegna þess að eðli
málsins samkvæmt er Borgarahreyfingin ótamið afl sem ætlar sér ekki að
læra leikreglurnar allt of vel. Óbundinn fulltrúi mennskunnar sem nýtur
þess að geta fylgt eigin sannfæringu eins og hún birtist í hjarta hvers
manns. Nokkuð sem "flokksmönnum" innan hreyfingarinnar hefur reynst erfitt
að sætta sig við. Eða eins og einn félagi okkar hefur bent á: "Við
ætluðum okkur að skapa meðal annars vettvang í samfélaginu fyrir
persónukjör, en á sama tíma virðast samt margir ekki aðhyllast það að
þingmenn séu persónur."
Að þessu sögðu blasir við:
- að Borgarahreyfingunni er ætlað mun stærra og mikilvægara hlutverk en
svo að hún megi verða flokksræði og forsjárhyggju fárra manna að bráð.
- að næsta skref felst í að tryggja enn frekar virkni hreyfingarinnar með
jafnræði í skipulagi hennar og uppbyggingu.
- að sem opinn og lýðræðislegur vettvangur hefur Borgarahreyfingin alla
burði til að vera sú brú milli þjóðar og þings sem stefnt var að frá
upphafi.

Áfram veginn
Á landsfundi Borgarahreyfingarinnar á laugardaginn verða lagðar fyrir
samþykktir um hreyfinguna sem fela í sér skref í átt til enn frekari
árangurs á þeim vettvangi sem við störfum á og opna m.a.
grasrótahreyfingum og einstaklingum raunhæfa leið til áhrifa innan
stjórnkerfisins. Við teljum þjóðina þurfa á slíku tækifæri að halda nú
meira en nokkru sinni fyrr og hvetjum því alla sem láta sig málin varða
til að kynna sér samþykktirnar á heimasíðu hreyfingarinnar www.xo.is og
leggja sitt af mörkum á komandi landsfundi.

Með kæri þökk fyrir gott samstarf hingað til.

Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, þingmenn Borgarahreyfingarinnar

Tillaga að nýjum samþykktum Borgarahreyfingarinnar

 Ég skora á alla félaga Borgarahreyfingarinnar sem hafa áhuga á að vinna  grasrótarsamþykktum þessum brautargegni á að koma á landsfundinn okkar sem haldinn verður á Grand Hótel næstkomandi laugardag klukkan 9 og greiða þessum tillögum atkvæði sín. Samþykktavinnan hefst klukkan 10 um morguninn.

Þá langar mig að þakka öllum þeim sem komu að þessari samþykktavinnu fyrir frábæra samvinnu. 

Félagið heitir Borgarahreyfingin og er starfsvæði þess Ísland. Heimili Borgarahreyfingarinnar og varnarþing er í Reykjavík.

Borgarahreyfingin skal lúta lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og
um upplýsingaskyldu þeirra. Öll fjármál hreyfingarinnar skulu vera opinber og aðgengileg almenningi.

Markmið
1. Markmið Borgarahreyfingarinnar er að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskráar sinnar í
framkvæmd og hún skal leggja sig niður og hætta störfum þegar markmiðunum hefur verið náð eða
augljóst er að þeim verði ekki náð. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar.

2. Aukamarkmið hreyfingarinnar er að hjálpa grasrótarhreyfingum á Íslandi að koma sínum
sjónarmiðum á framfæri.

3. Hreyfingin býður fram til alþingiskosninga til að ná fram markmiðum sínum.

Skipulag
Framkvæmdastjóri
1. Þegar fjárráð leyfa skal hreyfingin ráða framkvæmdastjóra. Verksvið hans verður:
• að starfa með grasrótarhreyfingum á Íslandi og hjálpa þeim að koma boðskap sínum á
framfæri:
o við þingmenn Borgarahreyfingarinnar.
o við þingmenn annarra stjórnmálaafla.
o við aðra grasrótarhópa.
o við stofnanir og fyrirtæki eftir því sem þurfa þykir.
o við almenning í gegnum fjölmiðla og rafræna miðla.
• að auðvelda grasrótarhópum starfsemi sína með því að útvega fundaraðstöðu og annað sem
þarf og er á færi hreyfingarinnar auk þess að miðla reynslu annarra hópa
• að halda utan um hópa sem vilja starfa fyrir hreyfinguna á einn eða annan hátt
• að sjá um fjármál hreyfingarinnar, bæði uppgjör og áætlanir
• að skipuleggja atburði sem tengjast stefnumálum hreyfingarinnar s.s:
o auglýsa eftir framboðum á vegum hreyfingarinnar til nýrra alþingiskosninga ef þurfa
þykir.
o skipuleggja árlegan opinn landsfund hreyfingarinnar.
o aðrir atburðir.

2. Framkvæmdastjóri skal ráðinn á faglegum forsendum ofannefndrar verksviðslýsingar af einni af
þremur stærstu ráðningarstofum landsins hverju sinni er best býður í verkið. Önnur ráðningastofa eða
fagaðili skal meta störf framkvæmdastjóra á hálfs árs fresti eða þegar stjórn hreyfingarinnar óskar
sérstaklega eftir því.

3. Framkvæmdastjóri hefur yfirsýn yfir hópa sem starfa undir nafni hreyfingarinnar og skal halda
opnum samskiptaleiðum við þá, þ.m.t. póstlista.

4. Ekki skal haldið sérstaklega utan um félagaskrá Borgarahreyfingarinnar.

5. Framkvæmdastjóri hefur ekki atkvæðisrétt í neinu máli sem kosið er um á vegum hreyfingarinnar
og skal ekki hafa frumkvæði að stofnun hópa innan hennar. Framkvæmdastjóri skal einnig leitast við
að vera hlutlaus í öllum málum.

6. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegu starfi og fjármálum hreyfingarinnar og er talsmaður
hennar.

Stjórn
1. Stjórn hreyfingarinnar skal mynduð af fjórum aðalmönnum auk fjögurra varamanna. Aðalmenn og
varamenn sitja í tvö ár í senn. Tveir nýir aðalmenn og tveir nýir varamenn skulu kosnir í stjórn ár
hvert. Stjórnarmenn skiptast á að bera titlana formaður, ritari og gjaldkeri, þrjá mánuði hver.
Á fyrsta kjörtímabili stjórnar skulu fjórir aðalmenn og fjórir varamenn kosnir, en þeir tveir
aðalstjórnarmanna með fæst atkvæði á bak við sig skulu víkja að ári liðnu og varamenn taka þeirra
stað.

Þingmenn og fyrstu varaþingmenn skulu ekki taka þátt í kjöri til stjórnar. Nú nær stjórnarmaður kjöri
til þingmennsku þá skal varamaður taka sæti hans.

Að auki skal stjórnin skipuð einum úr þingmannahópi hreyfingarinnar sem skal skipta inn jafnt innan
hvers árs milli þingmanna eftir stafrófsröð. Þingmaður er alltaf almennur stjórnarmaður en ekki ritari,
gjaldkeri eða formaður.

2. Stjórnin skal hittast minnst einu sinni í mánuði, einungis til að meta störf framkvæmdastjóra og, ef
tilefni er til, óska eftir mati á störfum hans af óháðum, faglegum aðila, sem ekki skal vera
ráðningarfyrirtækið sem réði hann upphaflega. Ef matsaðilinn metur framkvæmdastjórann óhæfan til
að starfa áfram skal honum sagt upp og nýr framkvæmdastjóri ráðinn í hans stað á sama hátt og áður er getið.

3. Stjórnin skal leitast við eftir fremsta megni að vera sammála í niðurstöðum sínum. Náist ekki
samstaða um mál skal því frestað til næsta stjórnarfundar. Ef ekki næst samstaða á þriðja fundi skal
nefndin greiða atkvæði um ágreiningsmálið.

4. Stjórn skal bera ábyrgð á fjárreiðum Borgarahreyfingarinnar, skuldbindingum hennar og fullnustu
þeirra.

5. Ekki skal fela öðrum en framkvæmdastjóra ábyrgð á fjárreiðum eða rekstri hreyfingarinnar.

6. Til að ákvarðanir stjórnarfundar séu lögmætar skulu að lágmarki 3/5 hluti stjórnar sitja fundinn.
Fundargerðir stjórnarfunda, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps, skal birta á Netinu strax að
fundi loknum og athugasemdir við þær skulu vera opinberar.

7. Stjórnin skal gæta trúnaðar gagnvart hreyfingunni í störfum sínum.

8. Stjórnarmönnum er heimilt að gegna stjórnarsetu í mesta lagi tvö ár samfellt, með tveggja ára hléi
þar á eftir. Enginn skal sitja í stjórn lengur en samtals fjögur ár. Stjórnarseta skal vera launalaust sjálfboðastarf án nokkurra fríðinda. Ferðakostnaður stjórnarmanna utan höfuðborgarsvæðisins skal
greiddur af hreyfingunni.

Nefndir
1. Landsfundarnefnd er eina fasta nefnd hreyfingarinnar. Öllum er heimilt að taka þátt í henni.
Landsfundarnefnd skal vinna með framkvæmdastjóra að skipulagningu landsfundar.

2. Aðrir sem vilja starfa að þeim málefnum hreyfingarinnar sem koma fram í stefnuskrá eða aðstoða
við innra starf eða málefnavinnu geta myndað hópa innan hennar og skulu njóta stuðnings
framkvæmdastjóra við störf sín.

3. Hópar, eða meðlimir hópa tengdir hreyfingunni eru ekki talsmenn hennar, en er það eitt skylt að
upplýsa framkvæmdastjóra um framgang hópanna eftir bestu getu og geta óskað eftir aðstoð hans ef
með þarf.

Landsfundur
1. Landsfund skal halda einu sinni á ári. Þar skal kosið um hvort hreyfingin verði lögð niður, og nægja
tveir þriðju hlutar atkvæða til þess. Að öðru leyti setur framkvæmdastjóri dagskrána í samstarfi við
landsfundarnefnd hreyfingarinnar.

2. Landsfundur skal haldinn í september ár hvert. Landsfundur er löglegur ef til hans er sannanlega
boðað með sex vikna fyrirvara. Í landsfundarboði skal koma fram dagskrá fundar og breytingartillögur
á samþykktum þessum sem leggja á fyrir fundinn. Framkvæmdastjóri skal boða til landsfundar.
Landsfundur hefur æðsta vald í öllum málum Borgarahreyfingarinnar. Allir kjörgengir Íslendingar
hafa á landsfundi Borgarahreyfingarinnar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og kosningarétt.
Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

3. Landsfund skal boða með tilkynningu á vefsíðu hreyfingarinnar, með tölvupósti á alla skráða
netfangalista á vegum hreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kosti einum útbreiddum
prentmiðli.

4. Stjórn Borgarhreyfingarinnar er kosin á landsfundi.

5. Landsfundur samþykkir fundarsköp og skal landsfundi og öðrum fundum Borgarahreyfingarinnar
stjórnað í samræmi við þau.

6. Dagskrá landsfundar skal vera:

1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar
3. Breytingar á samþykktum
4. Stjórnarkjör
5. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
6. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
7. Önnur mál
7. Til aukalandsfundar skal boða óski tveir af fimm stjórnarmönnum þess, eða 7% af fjölda þeirra er
greiddu hreyfingunni atkvæði í undanfarandi alþingiskosningum. Aukalandsfundur er löglegur ef til
hans er sannanlega boðað með tveggja vikna fyrirvara.

Reglur um aukalandsfund eru samhljóða reglum um landsfund nema óheimilt er á aukalandsfundi að
breyta lögum þessum. Dagskrá landsfundar tekur breytingum eftir því til hvers hann er boðaður. Sé
aukalandsfundur boðaður vegna vantrauststillögu á stjórn skal skipta út liðnum “Stjórnarkjör” fyrir
liðinn “Vantrauststillaga á stjórn.”

Sé vantrauststillagan samþykkt skal haldinn aukalandsfundur að sex vikum liðnum til að kjósa nýja
stjórn.

8. Á landsfundi skulu kjörnir tveir fulltrúar í stjórn og tveir til vara til tveggja ára í senn.
Hver kjósandi skal skrifa nöfn fjögurra eða færri frambjóðenda til stjórnar á kjörseðil. Atkvæði skulu
talin fyrir opnum tjöldum. Þeir tveir sem hljóta flest atkvæði skulu teljast rétt kjörnir í stjórn. Næstu
tveir að atkvæðavægi taka sæti í varastjórn. Allir kosningabærir landsmenn geta gefið kost á sér til setu í stjórn.

Þinghópur
1. Hlutverk þingmanna er að vinna að stefnumálum Borgarahreyfingarinnar á Alþingi.

2. Í öllum málum skulu þingmenn vera í tengslum við þau grasrótaröfl sem hafa með viðkomandi
málaflokk að gera. Þingmenn skulu boða til opins fundar a.m.k. einu sinni í mánuði. Slíkir fundir
skulu einnig haldnir utan höfuðborgarsvæðisins þegar hægt er.

Starfsfólk
1. Framkvæmdastjóri skal ráðinn til að sjá um daglegan rekstur hreyfingarinnar auk annarra verkefna
sbr. starfslýsingu. Framkvæmdastjóri getur ráðið starfsmenn í samráði við stjórn. Allir trúnaðarmenn
hreyfingarinnar (stjórn og framkvæmdastjóri) skulu gera grein fyrir tengslum sínum við fólk sem
þiggur greiðslu frá hreyfingunni fyrir störf í hennar þágu.

2. Stjórn Borgarahreyfingarinnar skal semja við framkvæmdastjóra um laun sem skulu þó eigi vera
hærri en þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Framkvæmdarstjóri skal semja við annað starfsfólk um laun sem skulu þó eigi vera lægri en eins og
hálffaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna og ekki hærri en þrefaldur sami taxti.

Alþingiskosningar
1. Hlutverk frambjóðenda til alþingiskosninga er að koma stefnumálum hreyfingarinnar á framfæri
samkvæmt gildandi lögum um kosningar.

2. Kosningastjóri skal ráðinn á sama hátt og framkvæmdastjóri og eigi síðar en þremur mánuðum fyrir
alþingiskosningar. Stjórnin semur við kosningastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri en
þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Allir kjörgengir íslendingar geta gefið kost á sér á framboðslista í hvaða kjördæmi sem er.
Framboðsfrestur rennur út átta vikum áður en skila þarf framboðslistum til kjörstjórna. Þegar
framboðsfrestur rennur út skal kosningastjóri kanna í hvaða kjördæmi og sæti frambjóðendur vilja bjóða sig fram og gera drög að framboðslista eftir þeirra óskum. Þessari grein má einungis breyta með
einróma samþykki landsfundar.

Eigi síðar en sjö vikum fyrir kosningar skal kosningastjóri boða til fundar sem ákveður endanlega
uppröðun framboðslistana. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar og drög að framboðslistum. Á
fundinn skal boða alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar og skal hann auglýstur á vef
hreyfingarinnar. Allir kjörgengir Íslendingar hafa þar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og
kosningarétt.

Við ákvörðun á uppröðun framboðslista skal fundurinn starfa í anda jafnræðis hvað varðar kyn, aldur
og búsetu. Ef alþingiskosningar bera brátt að má kosningastjóri í samráði við stjórn hliðra til
tímamörkum eins og nauðsyn krefur.

Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

4. Dagskrá félagsfundar sem ákveður framboðslista skal vera:
1. Kosning fundarstjóra
2. Kynning á drögum framboðslista
3. Umræður um uppröðun framboðslista
4. Breytingar á framboðslistum
5. Kosning um framboðslista

Fjárreiður
1. Borgarahreyfinguna má ekki skuldsetja með lántökum. Þó má taka skammtímalán ef algerlega er
tryggt að tekjur hreyfingarinnar geti staðið undir því.

2. Framkvæmdastjóri Borgarahreyfingarinnar skal gera fjárhagsáætlun um nauðsynleg fjárútlát og
fjárskuldbindingar hreyfingarinnar á komandi almanaksári og bera undir stjórn. Tekið skal sérstaklega
fram að óheimilt er að nota fé hreyfingarinnar í nokkurs konar munað eða fríðindi.

3. Bókhald Borgarahreyfingarinnar skal vera opið öllum og sýna hverjir styrkja hreyfinguna. Öllu fé
Borgarahreyfingarinnar skal sannanlega varið í samræmi við tilgang hennar.

4. Þriðjungur af tekjum hreyfingarinnar á hverju ári skal settur í kosningasjóð.

5. Þeir sem fara með fjárreiður hreyfingarinnar skulu ávallt leita tilboða sem víðast. Öll fjárútlát og
fjárskuldbindingar, umfram upphæð sem miðast við mánaðalega húsaleigu hreyfingarinnar, þurfa
undirskrift framkvæmdastjóra og gjaldkera.

Félagsslit
1. Þegar tilgangi Borgarahreyfingarinnar er náð eða augljóst er að honum verði ekki náð mun
hreyfingin hætta starfsemi og hún lögð niður. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar.

2. Ákvörðun um slit Borgarahreyfingarinnar verður tekin á landsfundi með atkvæðum a.m.k. 2/3 hluta
fundarmanna. Við slit hreyfingarinnar skal skila afgangsfé til þeirra sem lögðu fram fé tólf mánuði fyrir slit hennar í hlutfalli við framlög þeirra. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar. Kosningasjóður skal allur fara til ríkissjóðs.

Lagabreytingar
1. Samþykktum Borgarahreyfingarinnar má aðeins breyta á landsfundi. Breytingartillaga telst samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi nema annað sé tekið
fram í samþykktum þessum.

2. Allar tillögur til breytinga á lögum þessum skulu sendar til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum
fyrir boðun landsfundar. Allir kjörgengir Íslendingar geta lagt fram breytingartillögur á samþykktum
þessum. Stjórn skal sannanlega birta breytingartillögurnar á vefsíðu hreyfingarinnar og með skeyti á
alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar eigi síðar en sex vikum fyrir þann landsfund
sem þær skulu teknar fyrir á.
mbl.is Borgarahreyfingin sem grasrótarafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsfundur XO 12. september

496824-1.jpgBoðað er til landsfundar Borgarahreyfingarinnar laugardaginn 12.september á Grand Hótel í Reykjavík. Fundurinn hefst klukkan 9 um morguninn með fjölbreyttri dagskrá. Óskað er eftir framboðum til stjórnar og munu framboð verða kynnt hér á vefsíðunni eftir því sem upplýsingar um framboð berast.

Við erum að leggja lokahönd á auglýsingu sem ég set hér inn á morgunn...

Markmið mitt með þessum fundi er að koma heim fyllt orku og von til að takast á við yfirvofandi verkefni með vænum þrýsting á umbætur innan þings sem utan.


Frábær grein um hlutverk Attac

eftir Árna Daníel Júlíusson
 
Eitt af grundvallaratriðum í umfjöllun alþjóðasamtaka eins og Attac um skuldavanda þriðja heimsins er hugtakið „odious debts.
Yfirlýsingar bandaríska lögfræðingsins Lee Buchheit um samninga Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave-málið hafa ekki opnað augu þess hluta ríkisstjórnarinnar sem vill láta Alþingi skrifa upp á samninginn. Þar fer fremstur í flokki fjármálaráðherrann sem virðist algerlega ákveðinn í að eyðileggja pólitískan feril sinn. Vera má að hann eigi eftir einhver ár í ráðherrastól, en þar mun hann sitja í skugga þessa máls, hvernig sem það fer. Steingrímur J. Sigfússon hefur í 20 ár eða svo sagst vera sósíalisti eða vinstri maður, og vel má vera að það finnist honum sjálfur hann vera, en framganga hans í Icesave málinu er eins langt frá því að vera vinstrimennska og nokkur möguleiki er. Steingrímur gengur í því máli erinda auðvaldsins og hagar sér eins og samviskulaus innheimtulögfræðingur sem er staðráðinn í að bera fátæku ekkjuna út úr húsi hennar.

imf-trapping-countries-in-debt.jpgEitt af grundvallaratriðum í umfjöllun alþjóðasamtaka eins og Attac um skuldavanda þriðja heimsins er hugtakið „odious debts.“ Átt er við að fara verði sérstaklega með skuldir sem hafa orðið til undir óstjórn eða einræðisstjórn. Oft hafa þessar skuldir orðið til vegna lána sem valdamenn hafa tekið í þeim tilgangi að mylja undir sig eða bandamenn sína. Valdamenn þessir missa síðan völdin, lýðræði kemst á í landi eða eitthvað annað gerist sem leiðir til að óstjórn í landi afhjúpast. Lánin standa eftir og eftirlitsstofnanir alþjóðakerfis fjármálaheimsins ætlast yfirleitt til þess að saklaus almenningur í viðkomandi landi borgi ósómann. Þetta gagnrýnir Attac og telur að almenningur í þriðja heiminum eigi ekki að súpa seyðið af óstjórn valdamanna sem oft gengu erinda nýfrjálshyggju, alþjóðavæðingar og fjármagnseigenda í ríku löndunum.

Skyldu þessar hugmyndir eiga við núverandi ástand á Íslandi? Ég veit ekki hvernig bandaríski lögfræðingurinn hugsar málið, en mér sýnist augljóst að svo sé. Til hafa orðið gríðarlegar skuldir vegna óstjórnar og skefjalausrar einkavæðingar. Yfirgangur nýfrjálshyggju og alþjóðavæðingar hefur leitt til þjóðargjaldþrots á Íslandi og nú á almenningur að borga reikninginn. Auðvitað sjá flestir Íslendingar að hér er maðkur í mysunni og fáir ljá máls á því að skrifa undir Icesave-samninginn nema hörðustu stuðningsmenn Samfylkingarinnar. En Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson hafa slegist í þennan hóp og gert út leiðangur til Bretlands og Hollands. Svavar kom heim úr þeim leiðangri með hinn alræmda Icesave-samning og nú hafa þessir gömlu Alþýðubandalagsmenn reynt í tvo mánuði ásamt Samfylkingunni að koma samningnum í gegn um Alþingi, án árangurs. Ekkert útlit er fyrir að það takist.

Hér er um gríðarlegt réttlætismál að ræða. Það var gerð uppreisn í landinu til að steypa þeim stjórnvöldum sem stóðu að nýfrjálshyggjuruglinu. Það hlýtur að mega ætlast til að þau stjórnvöld sem við tóku sinni starfi sínu af alvöru. Í stað þess ákveða þau að taka við hlutverki innheimtulögfræðingsins, ganga erinda alþjóðafjármagnskerfisins og heimta að Alþingi samþykki samning sem er algerlega ótækur. Auðvitað gengur þetta ekki. Stjórnvöld sem standa að slíkum gjörningi geta ekki ætlast til neins stuðnings eða tryggðar við sig. Almenningur, jafnt sem Alþingi, neitar að samþykkja slíka afarkosti. Takist ríkisstjórninni með einhverjum hætti að þræla skuldbindinum í þessum anda gegnum þingið hlýtur næsta skrefið að verða skattaverkfall.

Grundvallaratriði í umfjöllun um núverandi kreppu íslenska hagkerfisins (sem allir keppast við að lýsa yfir að eigi sér engin fordæmi, sem hún á kannski ekki hér á landi en fordæmin eru mörg annars staðar í heiminum) hlýtur að vera að hafna því að ríkisvaldið beri ábyrgð á þeim skuldum sem til var stofnað í nafni Icesave.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar nú „endurreisn“ íslensks efnahagslífs, en hann var einmitt meðal þeirra aðila sem hvað ákafast hvatti til einkavæðingar og alþjóðavæðingar á sínum tíma. AGS er þess vegna vanhæf stofnun á þessu sviði. AGS ætti alls ekki að koma að neinum þætti þessa máls og alls ekki að því að stýra nokkrum þætti í íslensku efnahagslífi vegna þess að sjóðurinn á stóran þátt í þeim hugsmíðum sem urðu til á vegum nýfrjálshyggjunnar til að réttlæta ránsherferð auðmagnsins um heiminn. Það verður að krefjast þess og fara fram á að óháð stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna verði sett á fót til að sinna vandamálum af þessu tagi. Sameinuðu þjóðirnar og hvorki AGS né ESB eiga að fjalla um mál eins og Icesave-samninginn. Núverandi aðstæður eru með öllu óþolandi, aðilar eins og AGS hafa sjálfdæmi í eigin sök, er leyft að koma nálægt því hvernig farið er með mál sem rísa vegna kreppu sem þeir eiga sjálfir mesta sök á.

Og „vinstri“ stjórn með Steingrím J. Sigfússon innanborðs getur eftir þetta ekki orðið annað en brandari.

Við borgum ekki!

Árni Daníel Júlíusson

www.attac.is

Frá stjórn kjosa.is

Einstakt tækifæri ! Óvænt staða er komin upp í Icesave-málinu. Venjulega fær forseti lagafrumvörp til staðfestingar samdægurs eða daginn eftir að Alþingi afgreiðir þau. Icesave-frumvarpið átti að berast til hans í gær eða dag – EN GERÐi ÞAÐ EKKI ! Hu...gsanlega dregst það í tvo daga til viðbótar. Þess vegna er einstakt tækifæri til að skora á forsetann á www.kjosa.is Grípum það. Bætum nokkur þúsund áskorunum við þær tíu þúsund sem voru afhentar á Bessastöðum í gær. Forsetinn mun ekki geta litið framhjá viðbót upp á fimm eða tíu þúsund. Ert þú búinn að skora á forsetann? Ef svo er, fáðu þá tvo aðra til þess líka.

Áskorununum verður komið til forsetans. Þetta er málið: www.kjosa.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.