Leita í fréttum mbl.is

Icesave ræðan mín frá því í gærkvöldi

Ég velti fyrir mér tilgangi þessa sjónspils sem Icesave hefur verið hér inni á þingi. Strax í upphafi umræðu um þetta frumvarp spurði ég hæstvirtan fjármálaráðherra beinskeyttrar spurningar. Ég spurði hvort þingið hefði svigrúm til að laga og bæta frumvarpið sem við erum að fara að greiða lokaatkvæði um á eftir. Af svörum hans var ekki annað að skilja en að ekkert svigrúm hafi verið til staðar. Við þingmenn verðum því miður að horfast í augu við þann ömurlega veruleika að þingið ræður litlu sem engu og hefur ef til vill ekkert annað hlutverk en að miðla upplýsingum um mál sem þó eins og í þessu tilfelli er ekki til neins því fyrirfram var búið að ákveða hvernig niðurstaðan yrði.

Við vildum reyna til þrautar að tryggja að fyrirvarar á þessari ríkisábyrgð á einkaskuld yrðu skilyrtir en ekki óskilyrtir eins og Bretar og Hollendingar krefjast. Það er því óendanlega hryggilegt að það tókst ekki að endurheimta hina sögulegu fyrirvara sem hefðu tryggt að við borgum ekki vexti ef hér yrði enginn hagvöxtur – nú er búið að rífa í sundur öryggisnetið en okkur þingmönnum ber skylda að tryggja að hér verði ekki samþykkt eitthvað sem gæti stefnt þjóðinni í voða um langa hríð.

En það var aldrei gefið svigrúm til þess. Það var búið að ákveða fyrirfram hvernig þessi saga hæstvirts fjármálaráðherra myndi enda.

Við vildum reyna til þrautar að sýna fram á að óbreytt er þetta frumvarp skaðlegt þjóðinni og komum með skynsamlegar tillögur að úrbótum sem öllum var hafnað. Það er ekki réttlátt að væna minnihlutann um að hafa ekki komið með hugmyndir að úrlausnum, því margar prýðilegar hugmyndir hafa verið lagðar fram til að bæta þessi lög, en allar þær hugmyndir voru slegnar út af borðinu án þess að þeim væri almennilegan gefinn gaumur. Icesave er svarti Pétur ríkisstjórnarinnar sem hún vill velta á axlir þjóðarinnar.

Finnst háttvirtum sjónarþingmönnum allt í lagi að nota tekjuskatt 80.000 skattborgara þessa lands ár hvert til að borga vexti af Icesave á meðan það leikur vafi á því hvort að okkur beri að standa undir þessari skuldbindingu? Ég spyr háttvirta þingmenn sem hafa sýnt vilja fyrir kosningar um að vilja hlúa að og standa vörð um velferðarkerfið okkar, hvort háttvirtir stjórnarþingmenn sér grein fyrir því að grunnstoðir þessa kerfis munu bresta undan þeirri greiðslubyrði sem þeir ætla að samþykkja. Ég vil spyrja háttvirta stjórnarþingmenn hvort að þeim þyki það eðlilegt að samþykkja þennan myllustein á komandi kynslóðar jafnvel þvert á samviskuna vegna þess að annars gæti þessi stjórn verið felld af hæstvirtri sér sjálfri? Er virkilega svona mikilvægt að halda í völdin að öllu skal fórnað fyrir það? Ef einhverju sinni hefur verið tími fyrir þjóðstjórn eða utanþingstjórn þá er það núna. Augljóst er að hefðbundinn pólitík er ekki að valda þessum stóru verkefnum.

Varla vilja háttvirtir þingmenn jásins verða til þess að þetta land og þessi þjóð lendi á sama stað í alþjóðasamfélaginu og þróunarríki. Er mögulegt að þingmenn Samfylkingarinnar haldi að Icesave skuldbindingunni verði hreinlega sópað undir EU teppið ef áætlunarverkið um að koma Íslandi þangað inn verður að veruleika?

Frú forseti ég skil ekki hvað liggur að baki þeirrar ógæfu að vilja samþykkja Icesave í núverandi mynd án þess að reyna til þrautar að gera forsendur ríkisábyrgðar skaplegri og hvað er að því að láta reyna á dómsstólaleiðina? Hvað er það versta sem gæti gerst ef við látum reyna á það? Hver sagði að þetta sé lokatilboð? Ber okkur að hlíta því? Í engu hefur þessum spurningum sem ég þó bar upp fyrir nokkru síðan í annarri ræðu verið svarað. Getur verið að dómstólaleiðin hafi hreinlega verið slegin út af borðinu fyrir löngu síðan í reykfylltum bakherbergjum.

Nú er það alveg ljóst að skortur á fagmennsku og dug vantaði í samningagerðina. Embættismennirnir vældu á bernskan hátt um erfitt ástand hér heimafyrir við embættismenn frá þjóðum sem hafa litla samúð með okkar fjárhagslegu erfiðleikum og mótmælum við gáttir alþingis. Gleymum því ekki að til dæmis tóku nokkrar Evrópuþjóðir nýverið þátt í því þar á meðal Hollendingar að losa sig við eitraðan úrgang við Fílabeinsströndina sem varð til þess að fjöldi fólks dó og 80 þúsund veiktust alvarlega, bresk yfirvöld létu fjárlægja frétt um þetta úr öllum fjölmiðlum landsins þ.m.t. BBC. Gleymum því ekki að þetta eru þjóðir sem veigra sér ekki við að senda unga fólkið sitt hiklaust í árásarstríð. Það var því arfavitlaus samningatækni að barma sér, sýndi bara veikleika og gaf mótherjum okkar strax yfirhöndina. En það er kannski ekki við embættismennina að sakast – þeir höfðu aldrei tekist á við breskt lagaumhverfi og voru kannski eins og stóreygð börn í framandi landslagi.

Það var líka einsýnt í upphafi að við ætluðum að massa þetta sjálf, of dýrt að sækja aðstoð frá einhverjum útlendingum með reynslu af slíkri samningagerð, nei við reddum þessu sjálf og núna sitjum við uppi með svarta Pétur og ekki nokkur leið fyrir stjórnarliða að sjá öll trompin sem felast í spilabunkanum ef við bara leyfum okkur að stokka og gefa upp á nýtt, en það er ekki hægt því hæstvirtur fjármálamálaráðherra hefur aldrei viljað neina aðra niðurstöðu en Svavarsniðurstöðuna, hann lagði jú sjálfan sig að veði en gleymdi að þetta er ekki hans veð heldur þjóðarinnar.

Vanhæfni á vanhæfni ofan einkennir þetta mál frá upphafi til enda, hvort heldur að það sé hrunastjórn eða sú sem nú situr við völd. 

Hæstvirtur fjármálaráðherra veit til dæmis mætavel að við getum ekki staðið undir því að tekjuskattur tæpra 80.000 skattborgara þessa lands fari í það eitt að borga vexti af Icesave ár hvert? Það hefur líka komið í ljós að hægt er að teygja lánið um ókomna tíð og það þýðir að vextirnir halda áfram að hlaða utan á sig. Þær eignir sem vísað er til, sem að skilanefnd Landsbankans lúrir á og segja að við getum fengið nánast allar upp í þessa skuld, þær eignir eru huldueignir sem enginn hefur fengið að sjá hverjar eru nema skilanefndarmenn. Ekki einu sinni hæstvirtur fjármálaráðherra hefur fengið að sjá eignasafnið. Því er ljóst að enginn, ekki nokkur maður nema þeir sem eru í skilanefnd Landsbankans vita hvað liggur að baki stærstu skuldbindingu þjóðarinnar. 

Ég óttast að grunnstoðir samfélags okkar bresti ef þetta verður samþykkt. Ég óttast að almenningur gefist upp og flýi land eða hreinlega gefist upp. Ég óttast að við getum ekki staðið við þessar skuldbindingar og þess vegna væri lang heiðarlegast að horfast í augu við þá staðreynd að tæknilega séð getum við alls ekki staðið við allt sem við erum að lofa að gera – getum ekki borgað okkar skuldir án þess að skerða kjör næstu kynslóða þannig að samfélag það sem við búum við og forfeður okkar lögðu blóð sinn og svita í að gera að betra samfélaginu en flestir jarðbúar eiga kost á að búa við.

Allt frá því að Icesave málið kom inn á borð þingsins hefur það verið sveipað dulúð og strangheiðarlegt fólk veigraði sér ekki við að ljúga að samstarfsfólki sínu eða dansa á gráa svæði hvítu lyganna. Stundum veltir maður fyrir sér hver tilgangurinn með þessum óheiðarleika sé. Allt átti að vera uppi á borðum þegar þau tóku við en með hverjum deginum verða lygarnar í kringum Icesave umfangsmeiri og það er nú oft þannig að þegar mikið er logið að fólk missir þræðina út í einhverja vitleysu og þannig upplifi ég þá umræðu sem stjórnarliðar bjóða almenningi og samþingmönnum upp á.

Ég verð að viðurkenna að mér hefði aldrei dottið í hug að vanhæfnin væri jafn mikil og ég hef orðið vitni af. Vanhæfnin felst fyrst og fremst í því að geta ekki horfst í augu við eigin vanmátt til að sinna svo viðamiklum störfum og kalla ekki eftir því að fagmenn á þessu sviði taki afgerandi þátt í slíkri vinnu eins og milliríkjasamningum sem eru með sanni hluti af miklu stærri mynd en aðeins Icesave.

Þau hafa verið fögur hljóðin úr fagurgalanum varðandi ágæti Icesave samninganna. Dísæt tilhugsun um að geta velt skuldabyrði frá okkur í ein sjö ár hefur oft verið endurtekið sem einn af hornsteinum snilldarinnar. En hvað er þetta skjól þeirra annað en fullkomin blekking?Það er ekki neitt sjö ára skjól kæru landsmenn, það er ekki neitt skjól fyrir Icesave nema að hafna þessum voðalega samning í þeirri mynd sem SJS færir okkur hann núna.

En það er ekki merki um styrk að leyfa að þetta frumvarp fari óbreytt í gegnum þingið. Hæstvirtir ráðherrar kepptust við að hæla fyrirvörunum í sumar og allir voru á eitt sáttir við þá völdunarsmíð þegar óskað var eftir stuðning minnihlutans við fyrirvarana sem allir þingmenn sem einn studdu.

Í augum nýlenduherra þjóðanna erum erum bara eins og hver önnur nýlenduþjóð sem ráðamenn þessara landa bera litla virðingu fyrir og hika ekki við að níðast á án nokkurrar iðrunnar. Kannski má um kenna að ekki hefur tekist að fá meirihlutann til þess að koma á þingmannanefnd sem færi til þessara landa til að hitti breska og hollenska þingmenn formlega til að ræða saman um stöðuna og útskýra hvað þessar kröfur sem embættismenn þeirra settu saman þýða fyrir landið okkar og sameiginlega framtíð í alþjóðasamfélaginu.

Á Natóþinginu gaf sig á tal við mig breskur þingmaður sem er formaður efnahagsnefndar Natóþingsins, en hann er þingmaður Verkamannaflokksins fyrir York.  Hann bauðst til að setja af stað ferli þar sem íslenska þingmannanefndin myndi hitta formlega breska þingmenn til að útskýra stöðu landsins sem og Icesave.

En ég fór ítrekað þess á leit við forseta, forsætisnefnd, þingflokksformenn og utanríkisnefnd að skipuð yrði verið þingnefnd til að kynna á stöðu landsins meðal breskra og hollenskra þingmanna. Því miður var sú formlega beiðni svæfð í nefnd og mér sagt að það væri ekki ráðlegt að senda þingmannanefnd út til Bretlands á meðan verið væri að vinna í Icesave málinu. Ég fékk enga almennilega skýringu á því af hverju það þætti ekki heppilegt að kynna stöðu landsins meðal kollega okkar.

Okkur í Hreyfingunni finnst það ekki réttlætanlegt að samþykkja að fyrst verði gengið að sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar áður en reynt verði til þrautar að endurheimta peningana frá þeim sem stálu þeim úr Icesave bankanum, því varla hafa þessir peningar bara gufað upp.

Við ættum að kalla fólk eins og Stiglitz til ráðgjafar sem og til að fara yfir heildar skuldastöðu okkar og leiðir til að takast á við hana. En það er alveg ótækt að samþykkja það að tekjuskattur 150.000 skattborgara landsins renni í að borga vexti af erlendum lánum á næstu árum.

Að samþykkja Icesave frumvarp hæstvirts fjármálaráðherra er ógæfuspor fyrir land og þjóð. Ég bið háttavirta samþingmenn um að grandskoða hug sinn og hjarta og rifja upp Icesave söguna alla og öll þau vafasömu atriði sem hafa komið fram. Ég bið þingheim um að gleyma því ekki að með því að samþykkja þetta frumvarp í óbreyttri mynd eru þeir að gefa skýr skilaboð til AGS um  að lög alþingis eru okkur ekki heilagri en svo að við breytum þeim til að þóknast erlendum embættismönnum.

Fullveldið er að veði, sjálfstæðið er að veði. Höfnum þessum afarkostum, höfum hugrekki til að sýna að við látum ekki umbreyta þjóð sem fyrir ári síðan var talin 5 ríkasta þjóð í heimi í nýlendu erlends ríkis á ný. Látum ekki hneppa okkur í hlekki skuldbindinga sem munu færast yfir með skertum lífsgæðum um áratugi fyrir börnin okkar og barnabörnin – stöndum saman gegn þessari kúgun. Sýnum ábyrga hegðun með því að taka ekki á okkur meira en við getum valdið.

Frú forseti við erum í efnahagsstríði, heimsbyggðin er að sigla inn í aðra kreppu við ættum að vera einbeita okkur að því að slá alvöru skjaldborg um fjölskyldur landsins. Sýnum þjóðinni að við ætum ekki bara að óska eftir fórnum frá henni heldur munum við tryggja réttlæti. Notum það svigrúm sem AGS lagði til og leiðréttum skuldir heimilanna.

Drögum þetta frumvarp til baka og fylgjum þeim lögum sem við þó sjálf sömdum hér á þinginu í sumar og förum saman í þá vegferð sem endurreisn íslands kallar eftir.

Nóg er komið og legg ég svo til og mæli með að hæstvirt ríkisstjórn taki nú þetta frumvarp heim til föðurhúsa og virði þau lög um ríkisábyrgð sem samþykkt voru í sumar ellegar að leyfa það sem er auðvitað sjálfsagt og rétt: leyfum þjóðinni að kjósa um þetta viðamikla mál.


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Þú ert alveg mögnuð, eða þannig.

hilmar jónsson, 31.12.2009 kl. 13:15

2 identicon

Dapurleg ræða hjá þér Birgitta mín....gerðu mér smá greiða og þjóðini í leiðini...segðu af þér þingmennsku...og það strax.

Helgi Rúnar Jónsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 13:20

3 Smámynd: Offari

Ég var mjög ánægður með þessa ræðu þína. Enda besta ræða kvöldsins.

Offari, 31.12.2009 kl. 13:20

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Dapurlegt komment hjá þér Helgi Rúnar. Ef forseti krefst ekki þjóða ratkvæðagreiðslu um málið, er fokið í flest skjól...

Óskar Arnórsson, 31.12.2009 kl. 15:48

5 Smámynd: Páll Höskuldsson

Til hamingju Birgitta. Þú hefur staðið þig vel á vaktinni fyrir þjóð þína, annað en hægt er að segja fyrrum félaga þinn Þráinn Bertelsson.

Páll Höskuldsson, 31.12.2009 kl. 16:12

6 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Góð ræða Birgitta, þú nærð að tjá þjóðarsálina á skýran hátt.

Hvet þig til áframhaldandi góðra verka á nýju ári :)

Axel Pétur Axelsson, 31.12.2009 kl. 16:56

7 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Helgi Rúnar dapurlegt.. En Birgitta þú hefur staðið þig með sóma kona góð, sem og stjórnarandstaðan flest öll. Góð ræða hjá þér sem og reyndar fleirum. Gefðu þér klapp á öxlina fyrir störf þín á árinu. Gleðilegt ár öll sömul.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 31.12.2009 kl. 17:07

8 identicon

Þú stendur þig vel Birgitta, ekki það sama hægt að segja um fyrrum félaga ykkar eiginhagsmunapotarann Þráinn

Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 17:39

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir að vera fulltrúi minn á Alþingi okkar Íslendinga.  Þú hefur staðið þig vel.  Gleðilegt ár. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.1.2010 kl. 02:30

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gleðilegt ár, Birgitta. Þú ert ljós í myrkrinu.

Villi Asgeirsson, 1.1.2010 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 509214

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband