Leita í fréttum mbl.is

Rannsóknarnefnd þingsins: ræðan mín frá því í gærkvöldi

Þingsalurinn var nánast galtómur þegar ég flutti þessa ræðu:

Úr þessum ræðustól hafa ráðherrar eða forsetar ásakað mig um að skapa tortryggni eða hjá mér búi annarlegar hvatir þegar ég hef mælt gegn þessu frumvarpi um sérstaka þingmannanefnd vegna rannsóknarskýrslu þingsins sem allir bíða eftir annað hvort með kvíða eða í ofvæni.

Þetta er engin venjuleg skýrsla, enda tekur hún á hruninu, hruni sem er mun víðtækara en bara hrun fjármála, hrun sem sýnir svo ekki verður um villst að hérlendis hefur orðið siðrof. En hvað er siðrof. Ég hafði aldrei velt þessu orði fyrir mér fyrr en í hruninu í fyrra. Siðrof er þegar siðferðisbrestirnir eru svo miklir í samfélaginu að líkja má því við jarðrof og siðferðisvitundin verður jafn ístöðulaus og moldrok.

Sú bábilja og veruleikafirring að halda að þingið eigi eitt að standa að því að meta hvort eigi að kalla saman landsdóm eða veita sjálfu sér aðhald myndi ég síðan vilja kalla veruleikarof. Ég hef nefnilega ekki enn fyrirhitt neinn fyrir utan þingheim sem finnst þetta snjöll hugmynd hjá hæstvirtri forsætisnefnd.

Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli er enginn áhugi meðal annarra afla á Alþingi að afgreiða það með öðrum hætti en þeim sem tryggir augljósa hagsmuni þeirra flokka sem voru við stjórnvölin við bankahrunið og í aðdraganda þess.

Það hlýtur að vera öllum ljóst að alþingismenn eru ekki færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára. Nauðsynlegt er að hlutlausir aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem er sem álitsgjafar við lagasmíð eða fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar. Tryggja þarf réttlæti og gegnsæi í öllu ferlinu.

Frú forseti

Mér finnst sorglegt hvernig á að taka á þessu máli, mér finnst sorgleg sú veruleikafirring sem ég finn innan veggja þingsins. Það má ekki gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð án þess að vera ásakaður um að hafa annarlega hvatir að leiðarljósi. Ef það eru annarlegar hvatir að kalla eftir skynsamlegri meðferð á svo mikilvægu máli þá megi háttvirtir þingmenn alveg kalla þetta ákall um að horfast í auga við þá gjá trausts sem hefur myndast á milli þjóðar og þings annarlegar hvatir. Ef það að benda á gallana við það að þingið veiti sjálfu sér aðhald er til þess fallið að skapa tortryggni um þingið þá verður svo að vera. Ég held að tortryggnin hafi lítið að gera með mín orð, heldur miklu frekar hefur hún að gera með það skelfilega hrun sem átti sér stað og þann sofandi hátt sem átti sér stað innan veggja þingsins. Miðað við þau vinnubrögð sem viðgangast hér á þessum síðustu vikum þá skil ég alveg hvernig sofandi að feigðarósi þingið og þjóð flaut inn í þá erfiðleika sem við erum að glíma við núna.

Ég gagnrýni harðlega það veruleikarof sem á sér stað hér inni í sölum þingsins, það er veruleikarof að gera sér ekki grein fyrir því að almenningur vill önnur vinnubrögð en hafa verið hér ástunduð – það er lítið traust á þinginu að gefnu tilefni. Þingið sem og aðrir ráðamenn brugðust þjóðinni vegna slakrar lagasetningar varðandi fjármálakerfið. Það hefði verið lag að sýna að okkur er full alvara með að taka hér á hlutunum utan hefðaveruleikans sem að mörgu leyti er eins og myllusteinn um þingstörfin. Það hefði verið lag að sýna að við þorum að leita leiðsagnar utan þings meðal fólks sem á engra hagsmuna að gæta nema að vera leiðarljós fyrir þingið um hvernig ber að taka á málum er varða þingið sjálft og þá fulltrúa sem hugsanlega brugðust í því hlutverki.

Ef þessi orð mín eru til þess fallin að auka á tortryggni gagnvart þinginu þá verður bara svo að vera. Ég verð bara að viðurkenna að mannlegir brestir eru fangaðir með löggjöf og hér innan veggja hefur sýnt sig að mannlegir brestir eru ekki síður landlægir en annarsstaðar í samfélaginu. Hættum að setja okkur skör hærra en annað fólk og viðurkennum vanmátt okkar til að taka á þeim þætti þessa máls sem setur þingmenn í þá ómögulegu stöðu að fjalla um svo viðkvæm mál er varða þeirra eigin samherja. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Takk Birgitta fyrir þína rödd í þinginu - þín rödd er bæði þörf og gagnleg - þú talar út frá öðru sjónarhorni en hinir.

Það ógnar "sumum" en gefur öðrum von um réttlátari og betri daga.

Takk - Birgitta - Takk - Það er hlustað á þig !

P.S það er gott að þú ert komin aftur á Mogga-bloggið.

Baráttukveðja.

Benedikta E, 20.12.2009 kl. 11:58

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyr Heyr!!! Áfram duglega kona, svona á að tala. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2009 kl. 13:36

3 Smámynd: Jónas Bjarnason

Birgitta, ég vil þakka þér fyrir góða ræðu.  Þú ert hugrökk og hugmyndarík.  Þessvegna getur fólk búist við meiru af þér en öðrum.  Auðvitað er þessi þingnefnd, sem áætluð er, bara til að auka tortryggni.  Hvert er markmiðið með henni? - Að skipa hugsanlegan landsdóm? - Bull, á meðan skýrslan liggur ekki fyrir.  Hún á að fara á netið á sama tíma og hún fer til þingsins.  Af hverju fékk Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar?, eintak?  Það kom fram í útvarpsþætti á laugardagsmorgni.  Hún er bara gömul hrunamannahreppskerling, búin að vera allt of lengi í borgarstjórn við litinn ávinning, en kallar sig fyrrverandi borgarstjóra.  Nei, Birgitta.  Þú átt að kvarta yfir þessu og krefjast þess, að skýrslan fari strax á netið því Steinunn Valdís sé komin með eintak.

Hrunið byggðist m.a. á því, að valdastofnanir þjóðfélagsins skiptust upp í þing, bankaklíkur og viðskiptajöfra.  Svo báru menn lof og gull á hvern annan og köstuðu á milli herbúðanna þriggja.  Svo fóru menn að verja hvern annan, hver herbúðin aðra.  Og nú kostar meginháttar mál að fá leyst úr minnsta afbroti.  Hvað þarf mikið púður til að leysa mál Baldurs fyrrv. ráðuneytisstjóra? Það liggja kannski þúsund mál fyrir og hve mörg þeirra eiga eftir að fyrnast? Eva Joly sá þetta og fékk eitthvað af nauðsynlegum ráðningum og uppsögnum.

Nei, Birgitta.  Gömlu pöddurnar eru farnar að skríða í sín gömlu fylgsni.  Af hverju var leyft að setja nýju bankana af stað án þess að gera nýjar reglur um fjármálastarfsemi? Skilanefndirnar bera gull á sig sjálfar og fyrirtæki. Og hver fylgist með þeim?  Fjármálaráðherra? Hann er orðinn of þreyttur, skiljanlega.  Ein af meginástæðum hruns var skortur á reglum í bönkum og bann við að bera fé á hvern annan eða bara taka fé sjálfur og þeir sem eru ekki ánægðir með það, geta barist um fyrir dómstólum. Svo horfum við á menn taka milljarða og bara ulla á þjóðfélagið. - Hvers vegna stendur þú ekki að tillögugerð sjálf um nýjar reglur um fjármálastarfsemi? Og um nýjar reglur um hlutafélög, eignarhaldsfélög og önnur fjármálafélög. - Þú veist sjálf, að Landsbanki Íslands hinn nýji hefur ákveðið að veita árangurstengdar aukagreiðslur, bónusa, ef heimtur af eignum bankans í útlöndum verða góðar.  Ásmundur Stefánsson bankastjóri er búinn að vera allt of lengi inni í harðviðarskrifstofum án þess að heyra glamrið á Austurvelli.  Hann heldur að það sé í lagi að framlengja gamla tímann inn í bankann hinn nýja og ómurinn af fortíðinni heyrist í gegn um eikina á veggjunum í Austurstræti. Já, þá er einangrunin ekki nægileg. - Og nú ætlið þið að fara að eyða tíma í að ræða um skýrslu, sem officielt á ekki að vera komin út. - Þingmenn þurfa væntanlega að koma strokleðrinu að, ef of illa er rætt um hlutverk þingsins.

Og þú veist, Birgitta, að sjávarútvegsfyrirtækin eiga eftir að fá skuldaafslætti, afskriftir, en ekki heimilin, sem eru í vandræðum. Rökin fyrir þessu að hálfu bankanna eru borðliggjandi.  Það verður að koma skipunum til veiða til að skaffa gjaldeyri.  Bull, þau eru allt of mörg og barist er við ofveiðar. Og margir, mjög margir aðrir, eru tilbúnir til veiða. Og kvótinn er verðmæt viðskiptavara. - En hvað með heimilin?  Á að henda heimilisfeðrum út í skurð? Skipin eru of mörg en heimilin eru of fá. Þetta æpir á mann. - Þú tókst til máls í sambandi við frumvarp um auðlindaskatt. Já, hann var um allt annað en sjávarútveg, að sönnu. - Ekki týna tíma þínum og orku við að fást við einhverja billega skanka af fyrirheitum. -

Ég læt þetta nægja, Birgitta.  Ég heiti á þig.  Þú veist, að hreyfingin ykkar er í uppnámi og það er kannski vegna þess, að þið hafið farið að starfa eins og gamli tíminn bjóst við af ykkur og hefðir í þingsal segja til um. Láttu það ekki tefja þig.

Jónas Bjarnason, 20.12.2009 kl. 16:13

4 identicon

Þú stendur þig vel Birgitta, haltu áfram að berja á spillingarliðinu í Þinginu. Ég er verulega ánægður með þig og ykkur í hreyfingunni.

Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 20.12.2009 kl. 17:43

5 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Birgitta getur þú fundið út fyrir mig hver kostnaður Íslendinga var af því að senda fólk á loftslagráðstefnuna það er kostnaður í formi ferða og fæðispeninga og síðan annar kostnaður sem væri þá það sem að ríkið greiddi upp í same ferða og fæðiskostnað mér leikur hugur á að vita þetta og þ´tti vænt um að fá svör við því en vont að finna hver á að leita í stjórnsýslunni þetta hljóta að vera opinberar upplýsingar inhverstaðar

Jón Aðalsteinn Jónsson, 20.12.2009 kl. 20:31

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Jæja Brgitta! þú lyftir nú aðeins virðingunni fyrir vinnufólkinu á Alþingi upp á nýtt.

Ég er að lesa hér um allt að til standi að pakka afbrotum, mútum og öllu í 80 ára íslenskt leyndarmál! Er þetta satt?

Ef svo er, má henda Stjórnarskránni algjörlega og taka upp aðra stjórnarhætti...

þetta minnir á Úgandastjórn...Jóhanna yrði ekki langlíf þar...

Óskar Arnórsson, 20.12.2009 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband