Leita í fréttum mbl.is

Hjáseta

Það er yfirlýst stefna mín að greiða ekki atkvæði um mál sem ég hef ekki haft tíma til að kynna mér. Vegna mikillar færibandavinnu á þinginu núna er ekki mögulegt að kynna sér öll þau frumvörp sem verið er að renna í gegn með endalausum afbrigðum. Afbrigði þýðir að beðið er um að mál fái hraðari afgreiðslu en kveður á um í þingsköpum. 

Ég er ekki í nefndinni sem fjallar um þetta mál og hafði ekki tíma til að ræða við aðra þingmenn sem eru líka á hlaupum um möguleg ágreiningsmál eða galla á frumvarpinu. Þess vegna sat ég hjá.

Það er svolítið furðulegt að sjá þingmenn greiða atkvæði eftir einhverri línu um mál sem þeir vita ekki neitt um. Það ætti að tilheyra gamla Íslandi. Því drjúgan hluta næsta árs munum við svo eyða í að lagfæra galla á löggjöf sem var ekki nægilega vel unnin. 

Ég er ekki að tala sérstaklega um þetta mál, hef miklu meiri áhyggjur af fjárlögunum og skattafrumvörpum sem hafa víðtæk áhrif á afkomu almennings. Annars þá er ég búin að fá það staðfest að þingið hefur nákvæmlega engin völd og kannski er bara kominn tími á að leggja það niður í núverandi mynd ef þingmenn fara ekki að standa í lappirnar og krefjast breytinga og endurheimti völd sín frá framkvæmdavaldinu. 


mbl.is Ný matvælalöggjöf samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín G E

Það er sárgrætilegt hvað þingið okkar er, eins og þú segir valdalaust.  Við almenningur sem höfum kosið fólk í þessi störf svona flokkslega, erum orðin langþreytt á ástandinu.  Ef ég á að spá í framtíðina þá myndi ég nota orðið BYLTING.  Það þarf byltingu á okkar litla landi og það þarf að hreinsa út þessa vinagreiðapólitík, setja inn fleira stálheiðarlegt fólk og hreinsa til í skúmaskotum. 

Þjóðin fylgist með og heyrir að sumt af nýja  fólkinu á þingi er að vinna öðruvisi og opnara, sem er vel.   Þjóðin kann ekki við slæleg vinnubrög.   Að koma frumvörpm í gegn á miklum hraða og án almennilegra umræðna er afar slæmt.  Það eru of margir lausir endar og það að  sitja hjá í atkvæðagreiðslu slíkra mála er meira en vel valið, það er að sýna fram á það að maður tekur ekki þátt í vitleysunni.

Áfram Ísland!!

Katrín G E, 19.12.2009 kl. 10:30

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Þú villt kannski taka það að þér að vera einræðisherra hér... mér sýnist að þú hafir hæfileika og skoðanir í það verkefni. 

Jón Ingi Cæsarsson, 19.12.2009 kl. 12:57

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta eru merkilegar pælingar. Hvernig greiddu Þór og Margrét atkvæði í téðu máli? Náðu þau að kynna sér efni frumvarpsins?

Á því er ekki nokkur vafi í mínum huga að völd löggjafarvaldsins eigi að vera meiri gagnvart framkvæmdavaldinu og ekki síst eftirlitshlutverkið. En um leið finnst mér blasa við sú þingræðislega hefð okkar að framkvæmdavaldið sé ekkert annað en meirihluti löggjafarvaldsins. Ekkert frá framkvæmdavaldinu fer í gegn nema með samþykki meirihluta þingsins. Annað fellur. Eru það ekki þó nokkur völd? Höfum við ekki séð óræk dæmi þess að þingið hefur stórlega breytt málum frá framkvæmdavaldinu? Erum við ekki sammála um að þingmenn Samfylkingar og VG styðji verk framkvæmdavaldsins, og ef ekki, þá er málum breytt eða þeim sjálfhætt? Eða ertu að tala um að það eigi að auka völd minnihlutans á Alþingi?

Færibandavinnan við afgreiðslu mála fyrir jólahlé og sumarhlé er vissulega ankannaleg og má bóka það að margir þingmenn viti ekki gjörla hvað þeir eru að greiða atkvæði um í einstökum málum. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt NEMA í því samhengi sem þetta hefur verið í; að enginn þingmaður getur kynnt sér ÖLL mál í þaula og verður því að treysta á verkaskiptingu (sérhæfingu) og hóp-ákvörðun þingflokks síns. Í reynd er þetta þannig að þingmenn treysta dómgreind og mati meðþingmanna (samflokksmanna) sem sérstaklega hafa kynnt sér einstök mál (í þingnefndum með meiru) og fylgja þeirri ákvörðun og stefnu sem þingflokkurinn tekur sameiginlega. Ef ekki er hægt að koma upp kerfi þar sem ALLIR þingmenn kynna sér ÖLL þingmál í þaula og ofan í kjölinn og þá hverja einustu klásúlu, þá virðist slík verkaskipting, sérhæfing og hópavinna (sem byggist á trausti) skynsamleg. Annars ekki.  

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.12.2009 kl. 13:16

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Jón Ingi það að vilja að þingið hafi völd þýðir einmitt að ég vil að einræðistilburðir framkvæmdavaldsins verði minni. Það er einmitt andstæða við einræði:)

Birgitta Jónsdóttir, 20.12.2009 kl. 09:26

5 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Friðrik minn

Þú veist alveg jafn vel og ég að vald þingsins er ekki neitt á meðan við búum við flokksræðið í þeirri mynd sem það er í dag. Það var til dæmis gerð mjög merkileg vinna í sumar varðandi Icesave fyrirvarana. Það voru settir skynsamlegir og sanngjarnir fyrirvarar við ríkisábyrgð sem þingheimur með sanni setti sitt mark á. Hvað gerist svo? Ný lög koma frá framkvæmdavaldinu sem umbylta þeirri vinnu sem samþykkt var á þinginu og hvað ætla þingmenn stjórnarliðsins að gera? Þeir þingmenn sem setja fyrirvara við þessi vinnubrögð eru ásakaðir ljóst og leynt um að þeirra skoðanir séu við það að fella ríkisstjórnina.

Það er alveg ljóst að þingmenn meirihlutans eru settir í þá stöðu að ef þeir styðja ekki vilja framkvæmdavaldins þá eru þeir á móti ríkisstjórninni. Á meðan hugarfarið er á þessa vegu þá hefur þingið engin völd.

Birgitta Jónsdóttir, 20.12.2009 kl. 09:38

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Varðandi að fylgjast með öllu - þá geri ég mér alveg grein fyrir því að það er ekki vinnandi vegur. En ég hef margoft heyrt samþingmenn mína tala um að þeir viti ekki hvað þeir eru að kjósa um.

Birgitta Jónsdóttir, 20.12.2009 kl. 09:38

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

og þá er ég að tala um þingmenn úr öllum flokkum

Birgitta Jónsdóttir, 20.12.2009 kl. 09:39

8 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ef ég veit ekki hvað ég er að kjósa um þá kýs ég ekki með - sit oftast hjá. Ég var ráðin inn á þing til að taka upplýstar ákvarðanir ekki satt. Ef ekki vinnst tími vegna þess óskipulags sem á sér stað á þingstörfum að kynna sér málin þá er auðvitað skynsamlegast að vera ekki með því eða á móti, ekki satt?

Birgitta Jónsdóttir, 20.12.2009 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Ég vil gjarnan láta eitthvað gott af mér leiða í samfélagi manna. Ég mun einbeita mér að því að því að búa til vettvang fyrir þjóðina að vinna að þeim lýðræðisumbótum sem hún krefst og vill leggja sína krafta í. Ég starfa sem þingmaður og þingflokksformaður fyrir Hreyfinguna - fyrir fólkið í landinu. Ég er formaður vina Tíbets.

Ég vil hafa athugasemdakerfið opið - bið fólk samt um að tjá sig eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis. Ég mun því miður ekki alltaf hafa tíma til að svara kommentum eða tölvupósti en ég reyni að lesa allt með opnum huga. Vil gjarnan nota þetta sem vettvang fyrir fólk að koma með hugmyndir um hvað mætti betur fara í samfélginu okkar.

Ég aðhyllist engin sérstök trúarbrögð, ég tilheyri engu sérstöku flokkakerfi, ég tilheyri engu sérstöku nema þessu stórmerkilega mannkyni og þessari yndislegu jörð. Ég er þakklát fyrir að lifa á sögulegum tímum þar sem allt getur gerst. 

Netfang: birgitta@this.is

Bækur

Bækurnar mínar

  • Bók: Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
    Mikhail Gorbatsjov og Daisaku Ikeda : Tuttugasta öldin og lærdómar hennar (ISBN: 9979-772-77-8 )
    Þýddi þessa ásamt Jóni Karli Stefánssyni
  • Bók: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements
    don Miguel Ruiz: Lífsreglurnar fjórar - the Four Agreements (ISBN: 9979768835)
    Lífsreglurnar fjórar er ævaforn indjánaspeki sem hefur farið sigurför um heiminn. Bókin er byggð á fornri visku Tolteka-indjána og útskýrir sannindi sem er að finna í helgum dulspekihefðum víðsvegar um heim. Lesanda eru kynntar fjórar einfaldar en magnaðar lífsreglur sem vísa leiðina að frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Höfundurinn, don Miguel Ruiz, er af ætt græðara og seiðmanna sem hafa iðkað Toltekafræðin frá aldaöðli. Hann er heimsþekktur fyrir bækur sínar og fyrirlestra.
  • Bók: Dagbók kameljónsins
    Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins (ISBN: 9979973307)
    Dagbók kameljónsins er þroskasaga stúlku sem hefur þurft að berjast við að sogast ekki inn í geðveiki ættmenna sinna, en sjálfsvíg þeirrar manneskju sem hún leit á sem klettinn í lífi sínu verður til þess að hún gerir sér ljóst hve dýrmætt lífið er. Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar. Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 509270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...011-02-25_l
  • ...unknown
  • ...581_1050977
  • ...x-_28-of-81
  • ...490581
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband